135. löggjafarþing — 37. fundur
 5. desember 2007.
viðskipti með aflamark og aflahlutdeild.
fsp. KHG, 213. mál. — Þskj. 231.

[20:25]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Það verður ekki sagt að það blási hlýir vindar um sjávarbyggðir landsins um þessar mundir. Ofan á stöðugan samdrátt í þorskveiðum á undanförnum tveimur áratugum er nú gripið til þess óheillaráðs að skerða þorskveiðiheimildir um þriðjung. Það er fyrirsjáanlegt hver sú þróun verður sem fylgir svo hörðum samdrætti og ég vil vísa til greinar sem núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra skrifaði á heimasíðu sína fyrir fimm árum um það efni af sama tilefni þar sem hann dró myndina upp mjög skýrt. Þessum niðurskurði mundi fylgja að einyrkjar sem eiga veiðiheimildir sínar mjög bundnar í þorski munu gefast upp og selja þær og sjávarbyggðirnar mundu verða fyrir áfalli í atvinnumálum vegna samþjöppunar sem af þessu leiddi. Svo ekki sé talað um áhrifin á erlenda markaðinn.

Það er því eðlilegt að spurt sé, hvað er til ráða? Svarið er augljóst. Það er ráð að gera það sama og við vorum að ræða fyrr í dag á Austurlandi. Þar var gripið til þess ráðs að nýta auðlindir fjórðungsins til að styrkja atvinnulífið. Sú auðlind sem sjávarbyggðir landsins eiga yfir að ráða eru fiskstofnarnir, sjávarauðlindin. Það þarf því að huga að löggjöf um veiðiheimildirnar sem er kjarninn í því hvernig eigi að nýta þær, hverjir megi gera það og hvenær. Um það snýst málið.

Í gildandi lögum um stjórn fiskveiða hafa ekki enn verið sett í lög nein ákvæði sem beinlínis taka fram að heimilt sé að selja veiðiheimildir, hvort heldur aflamark eða aflahlutdeild. Það eru engar reglur sem hafa verið settar um það efni, hvernig þau viðskipti eigi að fara fram, hvernig nýir aðilar eigi að geta nálgast veiðiheimildir eða þeir sem fyrir eru eigi að geta sóst eftir frekari veiðiheimildum. Það eru engar reglur, það er engin löggjöf, það er bara LÍÚ sem fær að móta löggjöfina um viðskiptin með veiðiheimildir. Það sjá það allir í hendi sinni, virðulegi forseti, að þetta gengur ekki frekar en að viðskiptalífið eða bankarnir ákveði allar leikreglur á þeim markaði og Alþingi kæmi þar hvergi nálægt með lagasetningu.

Ég held því, virðulegi forseti, að það sé hægt að snúa þróuninni í sjávarbyggðum landsins við með því að setja skynsamlega löggjöf um viðskipti með aflamark og aflahlutdeild og hef því leyft mér að flytja eftirfarandi fyrirspurn, á þskj. 231, til hæstv. sjávarútvegsráðherra, með leyfi forseta:

Telur ráðherra tímabært að sett verði almenn löggjöf um viðskipti með aflamark og aflahlutdeild þar sem meðal annars verði kveðið á um hlut ríkissjóðs úr þeim viðskiptum (Forseti hringir.) og ef svo er, hvenær?



[20:28]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig spurninga varðandi viðskipti með aflamark og aflahlutdeild. Hvort ég telji tímabært að sett verði almenn löggjöf um viðskipti með aflamark og aflahlutdeild þar sem meðal annars verði kveðið á um hlut ríkissjóðs úr þeim viðskiptum og ef svo er, hvenær?

Um þetta vil ég segja almennt. Skattaleg meðferð þessa sem hv. þingmaður spyr mig um í reikningsskilum er sú sama og hvað varðar önnur viðskipti á milli tveggja aðila. Sá sem leigir tekjufærir leiguna í reikningsskilum sínum og borgar þannig venjulegan tekjuskatt vegna þeirra. Sá sem leigir til sín aflaheimildir gjaldfærir hins vegar leiguna á móti þeim tekjum sem hann hefur af veiðum og vinnslu aflans.

Mjög umdeilanlegt er að gera breytingar sem mundu takmarka heimildir til gjaldfærslu hjá þeim sem leigir til sín. Sá sem leigir frá sér borgar þegar fullan tekjuskatt. Nú þegar eru í tekjuskattslögum takmarkanir varðandi skattalega meðferð á sölu varanlegra aflaheimilda. Samkvæmt 48. gr. laganna er ekki hægt að fyrna stofnkostnað við kaup á slíkum réttindum og þess vegna er ekki hægt að færa kostnaðinn á móti tekjum sem myndast af eigninni. Ákvæði um skattlagningu hagnaðar af slíkum viðskiptum eru í 5. og 6. mgr. 15. gr. laganna þar sem m.a. er kveðið á um að heimilt sé að færa niður stofnverð heimilda sem eru keyptar á tekjuárinu eða síðustu 12 mánuðum um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Þá er hægt að fresta skattlagningu um tvenn áramót enda kaupi skattaðili varanlegar aflaheimildir á tímabilinu. Annars tekjufærist söluhagnaðurinn með 10% álagi. Það er ekki hægt að færa niður stofnverð annarra eigna sem keyptar eru á móti skattskyldum söluhagnaði, svo sem skip, fasteignir eða þess háttar.

Í mörgum tilvikum eru verðmæti sem felast í aflaheimildum hluti af eignum félaga þegar hlutafé þeirra er selt, t.d. þegar skattaðili er að hætta rekstri eða hverfa úr greininni. Í þessum tilvikum er skattlagning með sama hætti og venjulega, þ.e. það er greiddur 10% fjármagnstekjuskattur ef um einstakling er að ræða. Ef um félög er að ræða þá eru sömu frestunarheimildir og venjulega.

Í rauninni er fyrirspurn hv. þingmanns tvískipt. Annars vegar er það sem lýtur að hinni almennu fiskveiðistjórnarlöggjöf og hins vegar það sem ég tel að sé kjarni málsins, og felur í sér spurningu um skattalega meðferð við kaup og sölu aflaheimilda eða aflahlutdeildar, þ.e. hvort ríkissjóður eigi að fá einhverja sérstaka hlutdeild við sölu á kvóta.

Spurningin er því í rauninni þessi: Er ástæða til grundvallarbreytinga á skattalegri meðferð við kaup á sölu aflaheimilda eða aflahlutdeildar? Að mínu mati er ekki ástæða til mikilla breytinga þar sem ríkissjóður fær tekjuskatt nú þegar af tekjuskattsskyldum hagnaði við sölu aflamarks og aflahlutdeildar á sambærilegan hátt og af sölu annarra eigna. Nú þegar eru takmarkanir varðandi afskriftir af keyptum heimildum eins og ég hef þegar rakið.

Ef aflahlutdeild er seld með skattalegum söluhagnaði, er hægt að fresta söluhagnaði og færa á móti keyptum aflaheimildum og ef viðkomandi getur það þá er ekki um að ræða nettósölu heldur nokkurs konar tilfærslu milli fisktegunda eða einhverja slíka hagræðingu. Þetta er í samræmi við skattalögin að öðru leyti og þess vegna eðlileg skattaleg meðferð og svipuð og gildir um aðrar eignir, t.d. fasteignir.

Það væri því mjög umdeilanlegt, svo ekki sé meira sagt, að refsa aðilum sem fjárfest hafa í kvóta með því að skattleggja söluhagnað þeirra sérstaklega og hærra en varðandi söluhagnað annarra eigna.



[20:31]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta var út af fyrir sig fróðlegur upplestur um skattalega meðferð samkvæmt gildandi lögum en kjarninn er kannski sá að hann fjallaði um skattalega meðferð eigna og fiskveiðiheimildir eru ekki eign útvegsmanns, það er kjarni málsins. Það gilda engar reglur um meðferð útvegsmanns á þeim veiðiheimildum sem honum eru færðar til umráða í þeirri löggjöf sem vikið er að í þessari fyrirspurn. Það eru ekki einu sinni neinar reglur í löggjöfinni sem gilda um það hvernig viðskiptin eigi að fara fram, hvar eða með hvaða hætti. Það stendur hvergi í löggjöfinni að útvegsmönnum sé heimilt að selja þessar heimildir gegn endurgjaldi, það hefur aldrei verið sett í löggjöf.

Hvers vegna skyldi það vera, virðulegi forseti? Útvegsmenn nota þessar veiðiheimildir í dag til þess að féfletta suma aðra útvegsmenn sem eru kvótalitlir. Ég er með nokkur dæmi um að útvegsmönnum, sem eiga litlar veiðiheimildir og eru að reyna að gera út sína báta, er stillt upp við vegg af hálfu annarra útvegsmanna sem hafa þessar þorskveiðiheimildir undir höndum og pína þá til að veiða fyrir sig þorsk fyrir smánarpening, fyrir 30–40 kr. á kílóið. Menn taka þessu tilboði vegna þess að það gefur mönnum kost á að fara á sjóinn og veiða ýsu eða aðrar tegundir þar sem menn geta aflað sér veiðiheimilda sem eru ódýrari. Þarna eru þeir sem hafa þorskveiðiheimildir undir höndum að nota þær til að féfletta aðra útvegsmenn. Hvaða löggjöf heimilar útvegsmönnum að fara svona með það sem þeir eiga ekki sjálfir? Þetta er algjörlega ófært, virðulegi forseti, og ég held að það sé kominn tími til að sjávarútvegsráðherra beiti sér fyrir því að sett verði almenn löggjöf um (Forseti hringir.) viðskipti með aflaheimildir.



[20:34]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég reyndi að svara spurningunni eins vel og mér var unnt, m.a. með því að lesa spurninguna þar sem m.a. var kveðið á um að ég svaraði spurningu um hvernig fara ætti með hlut ríkissjóðs úr þeim viðskiptum sem ættu sér stað þegar menn keyptu eða leigðu aflaheimildir. Það er auðvitað heilmikill kjarni í þessari umræðu allri saman, ég reyndi að færa fyrir því tiltekin rök og reyndi að útskýra með hvaða hætti hin skattalega löggjöf væri. Ég vakti t.d. athygli á því að þegar um er að ræða að menn kaupi varanlegar aflahlutdeildir þá er það þannig að menn geta ekki eignfært þær. Það var að vísu hægt áður fyrr og menn eignfærðu þær og afskrifuðu þær og gátu þar með gjaldfært þær í sínum rekstri en það er ekki svo núna. Þess vegna er alveg ljóst að hin skattalega meðferð að þessu leyti er sérstök varðandi aflahlutdeildirnar sem gerir það að verkum að sá sem selur er í langflestum tilvikum að greiða af söluhagnaði og greiða tekjuskatt þess vegna.

Um hitt sem hv. þingmaður sagði, þegar við vitum að útgerðarmenn leigja eða selja hver öðrum aflaheimildir, þá gilda um það tilteknar reglur vegna þess að við erum með kjarasamninga sem kveða á um að útgerðarmanni sé ekki heimilt að láta áhafnir taka þátt í kaupum á kvóta. Við tókum um það pólitíska ákvörðun í vetur, að mig minnir í góðri samstöðu, að styrkja þær heimildir sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur til að fylgjast með þessu til að koma í veg fyrir að útgerðarmenn séu t.d. að láta sjómenn sína taka þátt í kvótakaupum sem gæti síðan leitt til þess sem hv. þingmaður var að segja. Slíkt er einfaldlega ólöglegt og það stangast á við samninga og við vorum að styrkja eftirlitshlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs til að taka á þessum hlutum. Það má því segja að þótt það sé ekki beinlínis í þeim lögum sem hv. þingmaður vísaði til þá erum við að taka á því með öðrum hætti í löggjöfinni til að koma í veg fyrir að menn stundi óeðlileg viðskipti með (Forseti hringir.) fiskveiðiréttinn sem er einstaklingsbundinn og framseljanlegur.