135. löggjafarþing — 37. fundur
 5. desember 2007.
aðgreining kynjanna við fæðingu.
fsp. KolH, 284. mál. — Þskj. 318.

[21:20]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Stundum grípur sú tilfinning okkur þingmenn að við flytjum ræður okkar hér inn í steininn, inn í blágrýtið sem húsið er hlaðið úr, og þaðan heyrist lítið út til almennings annað en stakar setningar á stangli. Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé illa haldin af þessari tilfinningu en hún kom mér þó í hug þegar Morgunblaðið birti frásögn af fyrirspurn minni á baksíðunni síðasta miðvikudag, sem er í fyrsta sinn sem þingmál frá mér ratar á útsíðu Morgunblaðsins.

Ekki þarf að rekja viðbrögðin við fréttinni, þau eru öllum kunn. En vegna þeirra sterku viðbragða, sumra nokkuð yfirdrifinna, má segja að búið sé að mæla fyrir fyrirspurninni ótal sinnum í fjölmiðlum og svarinu líka. Ég vil þó leyfa mér að vona að við hæstv. heilbrigðisráðherra getum skipst á skoðunum um málið á málefnalegan og yfirvegaðan hátt eins og okkur báðum er lagið þær tólf mínútur sem við höfum til ráðstöfunar af tíma þingsins.

Kveikja fyrirspurnarinnar er áhugi minn á mismunandi stöðu kynjanna í samfélaginu og löngun mín til að leiðrétta stöðu kvenna sem eins og alþjóð veit eiga langt í land með að verða jafnsettar körlum. Nægir að nefna kynbundinn launamun, kynbundið val í valda- og áhrifastöður og kynbundið ofbeldi. Þessi áhugi minn hefur fengið mig til að lesa nokkurn fjölda greina um kyngervi en það er íslenska orðið sem notað er yfir enska hugtakið gender sem er lykilhugtak í allri umræðu um stöðu kynjanna. Fræðimenn, sem fjalla um kyngervi, hefja gjarnan athuganir sínar í frumbernsku, jafnvel strax við fæðingu, og vekja athygli okkar á því að fyrsta spurningin sem spurt er þegar barn fæðist sé ævinlega: Var það stelpa eða var það strákur?

Ég gríp niður í grein eftir Guðrúnu Öldu Harðardóttur, dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri, sem birtist í afmælisriti HA, með leyfi forseta, þar segir:

„Frá unga aldri mótast sjálfsmynd barns. Það lærir ekki aðeins hver það er, Björg eða Björn, heldur einnig hvað það er, stúlka eða drengur. Strax við fæðingu, eða þegar vitað er hvers kyns barnið er, bregst umhverfi þess mismunandi við, bleik föt eru t.d. keypt fyrir stúlkur og blá fyrir drengi.“

Í Sálfræðibókinni eftir Hörð Þorgilsson og Jakob Smára, sem kom út hjá Máli og Menningu 1993, segir í kaflanum um kynmótun, með leyfi forseta:

„Við höfum samt lítið breytt viðhorfum okkar til kynbundinnar framkomu. Þau birtast strax á fæðingardeildinni er við tölum um litlu dúlluna og allir vita að ekki getur verið átt við strák. Við tölum líka um stóran og stæltan strák en stóra og myndarlega stúlku.“

Síðar í þessum sama kafla:

„Þegar ljósmóðirin nefnir kyn barns á fæðingardeildinni ákveðst einnig það kynuppeldi sem það kemur til með að fá frá foreldrum. Þeir setja síðan mark sitt á það kynuppeldi sem barnið fær frá umhverfinu.“

Virðulegur forseti. Af þessu tilefni spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hvernig hefur sú hefð mótast á fæðingardeildum opinberra sjúkrastofnana að klæða nýfædd stúlkubörn í bleikt en drengi í blátt og auðkenna drengi með bláum armböndum og stúlkur með bleikum?

Jafnframt hvort ráðherra telji koma til greina að þessari hefð verði breytt.



[21:24]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina en hún hljóðar svo:

„1. Hvernig hefur sú hefð mótast á fæðingardeildum opinberra sjúkrastofnana að nýfædd stúlkubörn eru klædd í bleikt en drengir í blátt og þeir auðkenndir með bláum armböndum og stúlkur með bleikum?“

Eftir því sem næst verður komist er talið að aðgreining barna með litum eftir kynjum hafi byrjað upp úr 1955 á fæðingardeild Landspítalans. Fram að því höfðu nýfædd börn verið klædd í hvítt. Þegar leið á miðja síðustu öld fannst mörgum að umhverfið á fæðingardeildinni væri of stofnanalegt og smám saman fóru að koma litir. Þá var byrjað að aðgreina börn með armböndum og síðar voru bleikir og bláir saumar hafðir í fötunum. Síðustu áratugi hafa bleik eða blá föt verið notuð í auknum mæli. Auk þess hafa verið notuð bleik og blá teppi til að breiða yfir börnin og má geta þess að teppin hafa verið notuð fyrir bæði kynin óháð lit og kyni.

Við stofnun Fæðingarheimilisins í Reykjavík 1960 var tekin sú ákvörðun að hafa aðstöðu fyrir verðandi og nýorðnar mæður eins heimilislegar og kostur væri. Brýn þörf var fyrir stofnun Fæðingarheimilisins þar sem fæðingardeild Landspítalans annaði ekki eftirspurn eftir fæðingaraðstöðu. Jafnframt var talin þörf fyrir að fækka heimafæðingum, auka öryggi fæðinga og auka fjölbreytni og val foreldra við fæðingu. Öll aðstaðan á Fæðingarheimilinu var því meðvitað höfð heimilisleg. Þar voru öðruvísi húsgögn og litir á veggjum en á spítala og var það gert með það í huga að minnka stofnana- og spítalabrag á Fæðingarheimilinu til að gera andrúmsloftið innan veggja þess afslappað og heimilislegt enda var um heimili að ræða en ekki hefðbundna sjúkrastofnun. Hluti af þessum heimilisanda innan Fæðingarheimilisins var að klæða nýfædd börn í lituð föt, stúlkur í rósótt föt með rauðu ívafi og drengi í rósótt föt með bláu ívafi. Síðar urðu fötin meira blá og bleik og einnig voru fleiri litir á fötum ungbarna, svo sem gult, grænt og hvítt. Fyrrverandi forstöðukona Fæðingarheimilisins, Hulda Jensdóttir, lagði áherslu á heimilisanda eins og fyrr sagði og hluti af því var klæðnaður ungbarna.

Ráðuneytið leitaði til margra heilbrigðisstofnana varðandi efni fyrirspurnarinnar og kom fram hjá öllum yfirljósmæðrum að það að aðgreina ungbörn með mismunandi litum auðveldaði starfsfólki samskipti við foreldra og nýorðnar mæður, það gerði þeim kleift að tala um börnin í réttu kyni og því fylgir ákveðin virðing að kyngreina barn rétt. Hjá öllum stofnunum sem leitað var til kom fram að foreldrar réðu hvaða litir væru á fötum hins nýfædda barns og starfsfólk virti óskir foreldra. Allar þær ljósmæður sem rætt var við sögðu frá því að á fæðingardeild væru til föt í fleiri litum en bláu og bleiku, t.d. gul, græn og hvít.

Þá er það seinni spurningin, virðulegi forseti:

„2. Telur ráðherra koma til greina að þeirri hefð verði breytt á þann veg að nýfædd börn verði ekki aðgreind eftir kyni með bleikum og bláum armböndum og að þau verði framvegis klædd í hvítt eða aðra kynhlutlausari liti?“

Allir þeir sem rætt var við varðandi þessa fyrirspurn vöruðu sterklega við því að taka miðstýrða ákvörðun um hvaða litir ættu að vera á fötum nýfæddra barna. Það ætti fyrst og fremst að vera ákvörðun foreldra hvaða litur væri á klæðnaði nýfædds barns. Enginn viðmælenda kannaðist við að foreldrar væru óánægðir með fyrirkomulag á fötum nýfæddra barna, þvert á móti væru foreldrar ánægðir með fjölbreytnina og að eiga kost á að velja um mismunandi liti á fötum. Það mundi kosta 4 millj. kr. að skipta út öllum fötum og teppum á fæðingardeild Landspítalans. Formaður Ljósmæðrafélagsins kannaðist ekki við umræðu um aðgreiningu ungbarna eftir kynjum á fæðingardeildum. Hins vegar hefur það alltaf verið ríkt í ljósmæðrum að hafa aðstæður verðandi og nýbakaðra mæðra sem heimilislegastar. Hluti af því er að nýfædd ungbörn eru klædd í lituð föt, oftast eru drengir klæddir í blátt og stúlkur í bleikt.

Virðulegur forseti. Svo að ég svari spurningunni hreint út þá kemur ekki til greina að ég fari að skipta mér af þessum hlutum. Ég tel reyndar að við getum verið afskaplega stolt af því hvernig að málum er staðið hjá okkur Íslendingum og það kemur fram í mörgu. Ég þekki það sjálfur af eigin reynslu, þó að það sé aukaatriði, hversu góð þjónusta er í boði. Við sjáum það af tölum um aðhlynningu og afkomu ungbarna að við erum meðal þeirra allra fremstu í heiminum. Ég held að fullyrða megi að fólk sé mjög ánægt með þjónustuna, þeir sem þurft hafa á henni að halda. Þó að örugglega megi gera ýmislegt til að bæta hana enn frekar tel ég ekki rétt að ráðherra skipti sér af þessum málum með beinum hætti. Þvert á móti á ráðherra að hrósa því (Forseti hringir.) sem oftast sem vel er gert á þessu sviði.



[21:29]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ef ég mætti færa inn í umræðuna örlítið úr reynslusjóði mínum sem gamals lífeðlisfræðings yrði ég glaður. Það er ákaflega vel þekkt í dýraríkinu og líka á meðal manna, og hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum, að mismunandi litir höfða með ólíkum hætti til kynjanna. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. fyrirspyrjanda hvort þau hafi leitað á náðir vísindanna til að skoða rannsóknir á því sviði hvað varðar lítil börn. Ég held að slíkar rannsóknir hafi verið gerðar.

Ef ég mætti líka greina frá reynslu minni sem föður tveggja stúlkna þá minnist ég þess þegar þær voru bráðungar að a.m.k. önnur þeirra laðaðist miklu meira að þeim lit sem hér er til umræðu en t.d. að bláu. Sú held ég að sé nú reynsla margra foreldra.

Mig langar líka að spyrja hv. fyrirspyrjanda: Hafa femínistar ekki gert bleikan lit að sínum einkennislit og m.a. haldið upp á afmælisdaginn minn, 19. júní, með því að væða ýmsar stofnanir og (Forseti hringir.) borgina alla þeim lit, mér til mikillar ánægju, herra forseti?



[21:30]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi gera stutta athugasemd til að ítreka það að í þessum sal eru margir jafnréttissinnar og ég vona að ég geti talist til þeirra. Að sama skapi meira en fagna ég því að hæstv. heilbrigðisráðherra ætli ekki að beita sér í þessu stóra bleika og bláa máli með því að fara að hlutast til um litina á göllunum. Ég held að það sé mikilvægara að foreldrarnir fái að ráða því.

Við þurfum bara að huga að því í þessu máli að hvort sem börnin eru klædd í bleika eða bláa galla snýst þetta um það að við foreldrarnir pössum upp á að þau fái jöfn tækifæri í lífinu og að við komum fram við þau, hvort sem þau eru stúlkur eða piltar, á sama hátt. Ég treysti því að það sé gert á opinberum (Forseti hringir.) fæðingardeildum.



[21:32]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé einhver misskilningur á kreiki ef einhverjir taka það svo að það hafi einhvern tíma staðið til að foreldrar réðu því ekki hvernig þeir klæða börn sín og hvort þeir gefa stúlkum dúkkur og drengjum bíla. Það vakir ekki í þessari fyrirspurn eins og ég skil hana, heldur hitt hvort það sé ástæða til þess að hið opinbera ríði á vaðið með aðgreiningu fyrir sitt leyti. Að sjálfsögðu liggur það í hlutarins eðli að virða óskir foreldra strax á fæðingardeildum ef þær koma fram um það hvernig börnin skuli vera klædd.

Mér finnst fyrirspurnin fullgild og góð. Ég skil ekki alveg það fjaðrafok sem hún olli vegna þess að ég held að umræða um þessa hluti sem og marga aðra sambærilega sé góð, sjálfsagt mál að ræða og fara yfir. Aðgreiningin læðist víða aftan að okkur í þessum efnum, því miður. Hin kyngreinda veröld er ótrúlega föst í sessi með þeim afleiðingum sem við þekkjum á jafnréttisbaráttu kvenna. Þess vegna þakka ég hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að (Forseti hringir.) taka þetta mál upp.



[21:33]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir greinargóð svör. Þau komu mér í sjálfu sér ekki á óvart. Ég hef fætt tvö börn sjálf og veit að það er vel tekið á móti ungbörnum og foreldrum á sjúkrastofnunum á Íslandi. Við getum verið stolt af þeim og því góða starfi sem þar er unnið.

Þegar drengurinn minn fæddist fyrir 27 árum var hann klæddur í rósóttan flúnnelsjakka en dóttir mín hins vegar í bleik föt þegar hún fæddist. Ég hef klætt dóttur mína í bleik föt í 12 ár og tek undir með hæstv. iðnaðarráðherra að bleiki liturinn er litur sem femínistar hafa upphafið, hafa tekið í þjónustu baráttu sinnar fyrir jöfnum rétti karla og kvenna. Ég hef tekið þátt í að upphefja bleika litinn og skammast mín ekki fyrir það. Ég er stolt af því.

Hins vegar breytir það ekki því að umræðan um það hvort aðgreining kynjanna strax við fæðingu hafi þau áhrif að stúlkur fái blíðara viðmót en drengir, stálinu sé meira stappað í drengi, talað með öðrum tóni við drengi en stúlkur á fyrstu dögunum, finnst mér skipta máli. Við þurfum að ræða það og skoða.

Já, hæstv. iðnaðarráðherra, ótal rannsóknir hafa verið gerðar á því á hvern hátt börn laðast að litunum eftir kyni og við hvað þau eru vanin. Ég ætla að gefa hæstv. iðnaðarráðherra eina grein sem ég vitnaði í áðan því til staðfestingar.

Varðandi síðan miðstýrða ákvörðun um það hvað er í boði á opinberum sjúkrastofnunum þætti mér hollt að við prófuðum að láta það bleika og bláa ganga úr sér og skilja eftir það græna og gula og athuga bara með sjálfum okkur hvort eitthvað mundi breytast og þá hvað. Væri það ekki holl æfing fyrir okkur? Ég er ekki að tala um einhverja (Forseti hringir.) miðstýrða ákvörðun að ofan, heldur einungis að við verðum að opna huga okkar fyrir því (Forseti hringir.) hvað það er sem hefur áhrif á það hvernig við komum (Forseti hringir.) fram við kynin.



[21:35]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisumræða og ég met það svo að enginn fari fram á það við mig að ég fari að hlutast til um það hvaða litir verða þarna á ferðinni. Hins vegar er ég í fyrirspurninni spurður hvort það komi til greina að þeirri hefð verði breytt á þann veg að nýfædd börn verði ekki aðgreind með kyni, með bleikum og bláum armböndum, og þau verði framvegis klædd í hvítt eða aðra kynhlutlausari litli. Það er skýrt kannað í fyrirspurninni hvort ég vilji hlutast til beint um þessi mál. Það er nokkuð sem ég vil ekki gera.

Ég held að það sé rétt að það komi fram, kom að vísu fram í svari mínu, að miðað við bestu heimildir sem ég hef hefur alltaf verið virtur réttur foreldra í þessu sem og flestu öðru sem snýr að þeim þegar á fæðingardeild er komið. Eins og ég nefndi held ég að því fagfólki sem heldur utan um þetta sé afskaplega vel treystandi til að gera það. Það er alveg ljóst hvað menn hafa reynt að gera á þessum stöðum. Menn hafa reynt að gera þessa staði eins heimilislega og þægilega og mögulegt er og hefur tekist það afskaplega vel svo að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Varðandi jafnréttismálin almennt held ég að það skipti máli að við reynum að koma þannig fram við okkar börn að við ölum upp sjálfstæða einstaklinga. Sjálfstæðir einstaklingar velja það sem þeim finnst rétt og að sjálfsögðu eins og kemur fram hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu eigum við (Forseti hringir.) að gefa fólki jöfn tækifæri, sama af hvoru kyni það er eða (Forseti hringir.) aðrar forsendur sem þar eru.