135. löggjafarþing — 39. fundur
 7. desember 2007.
umræður utan dagskrár.

ný ályktun Íslenskrar málnefndar.

[10:53]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kalla eftir þessari umræðu er sú að þetta er í fyrsta sinn sem Íslensk málnefnd sendir frá sér ályktun um stöðu tungunnar enda starfar hún nú eftir nýjum lögum þar sem mælt er fyrir um slíka ályktun og ég tel eðlilegt að ræða hana hér á Alþingi. Það sem kemur fram í þessari ályktun sem send var öllum þingmönnum er að sumu leyti gott því að málnefndin telur stöðu tungunnar allsterka en nefnir þó nokkur atriði sem hún telur ástæðu til að staldra við. Meðal annars mælir hún með því að staða tungunnar verði tryggð í stjórnarskrá, eins og hér hefur verið rætt á þingi, og bendir einnig á nauðsyn þess að þeir útlendingar sem hér búa og starfa njóti íslenskukennslu og hvetur stjórnvöld og fyrirtæki til dáða í því sambandi.

Hvort tveggja hefur verið rætt á þinginu nýlega og því vil ég staldra við aðra þætti, sérstaklega þá sem tengjast móðurmálskennslu og hlutverki skólanna okkar í því samhengi. Þá erum við kannski aftur komin að PISA-könnuninni og lesskilningnum og hvernig við getum tryggt að staða íslenskunnar verði betur tryggð innan skólakerfisins okkar.

Í aðalnámskrá fyrir grunnskóla er ekki fjallað um málstefnu sem slíka en hins vegar má segja að ákveðin málstefna sé viðhöfð því að aðalnámskrá gefur til kynna til hvers er ætlast af kennurum við uppfræðslu barna í skólum. Þau eiga að vera læs, skrifandi og talandi að loknu grunnskólanámi og geta tekið virkan þátt í íslensku samfélagi með því að tjá sig í ræðu og riti á móðurmáli sínu, íslensku.

Því er athyglisvert að skoða tölur í skýrslu sem tekin var saman um grunnskólakennslu og kennslu í framhaldsskólum handa menntamálaráðuneytinu, samanburðarkönnun um skóla á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð árið 2002. Þar má finna athyglisverðar tölur um kennslustundafjölda í grunnskólum landanna, Danir verja 26% kennslustunda í móðurmálskennslu, Svíar nota 22% stundanna í móðurmálskennslu í sænsku en Íslendingar aðeins 16% í íslensku. Á heildarstundafjöldanum er því verulegur munur, í Danmörku er hann um 1.800 stundir í dönsku en á Íslandi aðeins um 1.300, í Svíþjóð um 1.500. Tímafjöldinn segir auðvitað ekki allt, það skiptir líka máli að horfa til inntaksins. Ég hef velt fyrir mér hvort skoða megi hvort ástæða sé til að auka hlut jafnvel ritunar og tjáningar í íslenskukennslu.

Sigurður Konráðsson, íslenskuprófessor við Kennaraháskóla Íslands, hefur rætt þessa skýrslu sérstaklega og hélt fyrirlestur um íslenskukennslu í fyrra á degi íslenskrar tungu þar sem hann setti fram þá skoðun að efla þyrfti íslensku í almennu kennaranámi, ekki síst þar sem við gerum ráð fyrir því að allir kennarar, grunn- og leikskólakennarar, séu í raun íslenskukennarar. Hann varpaði fram þeirri spurningu hvort rétt væri að einungis þeir sem lokið hafa kennaraprófi á íslenskukjörsviði ættu að verða íslenskukennarar í efri bekkjum grunnskóla. Í ljósi þess frumvarps sem hér verður til umræðu á eftir um menntun kennara og lengingu kennaranáms finnst mér ástæða til að ræða hlut faggreina almennt í kennaranámi því að vitaskuld hlýtur fagþekkingin að skipta máli. Mjög stór hluti máluppeldis fer fram inni í skólum landsins þar sem nemendur eyða æ lengri tíma.

Annað sem ég vil nefna sérstaklega er sú ábending málnefndarinnar að íslenska eigi undir högg að sækja í vissum geirum atvinnulífsins. Við þekkjum þá umræðu úr fjármálageiranum en vissulega víðar. Það hlýtur að vera áhyggjuefni ef íslenskan hopar á tilteknum sviðum samfélagsins því að þá er hættan á að málið staðni og hætti að vera brúklegt, t.d. þegar við ræðum um tæknileg atriði í vísindum, viðskiptum eða á öðrum tilteknum sviðum. Við þekkjum þau rök sem við heyrum að íslenskan eigi hreinlega ekki orð fyrir sumt. Þá minni ég reyndar á orð Einars Benediktssonar um að orð væru til á Íslandi um allt sem hugsað er á jörðu. Eins og Þorsteinn Gylfason heitinn bendir á í grein sinni Að hugsa á íslensku snýst þetta ekki um að íslenskan eigi orð yfir allt sem talað er, heldur einmitt það sem er hugsað. Nýyrðasmíði snýst ekki um að smíða orð, heldur að leita orða og finna þau.

Ástæða þess að dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar er ekki aðeins kveðskapur hans, heldur einmitt framlag til nýyrðasmíðar og endurnýjunar tungunnar. Með hjálp Jónasar og ótal margra fleiri höfum við getað haldið áfram að tala um ólík fræðasvið. Þar held ég að háskólar landsins hafi gríðarmiklu hlutverki að gegna. Það hlýtur að vera þeirra hagur að skila nemendum sem eru vel heima í móðurmáli sínu, koma vel fyrir sig orði og hræðast ekki að kynna fræði sín fyrir öðrum á skýran og greinargóðan hátt. Ég kem kannski aftur að þessu máli á eftir.

Annað sem kannski er þarft að ræða í umræðu sem þessari er lesskilningurinn sem hér var nefndur áðan, breyttar lestrarvenjur barna og unglinga sem ég tel að skipti lykilmáli þegar við ræðum um stöðu tungunnar. Þar tel ég að öflugt bókmenntauppeldi sé besta vörnin. Við þurfum að horfa hér á bæði hlutverk foreldra en ekki síður skólakerfisins því að ég tel að læsi sé jafnvel eitt það mikilvægasta í því að tryggja velferð og jöfnuð í hverju samfélagi.



[10:58]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, fyrir að efna til þessarar mikilvægu umræðu utan dagskrár um ályktun Íslenskrar málnefndar en um leið þakka henni fyrir afar skemmtilegt og faglegt innlegg, bæði í upphafi þessarar umræðu og ekki síður áðan. Ég undirstrika það.

Það er ákaflega brýnt að ræða reglulega stöðu íslenskunnar í nútíð og framtíð og við verðum að átta okkur á því að við höfum tekið móðurmálið okkar, þjóðtunguna, í arf og þess vegna er það skylda okkar að varðveita þá arfleifð, rækta hana og efla. Ég hef sjaldan, herra forseti, fundið fyrir jafnmiklum og almennum vilja til slíkrar ræktarsemi og á undanförnum vikum. Vafalaust á afmæli þjóðskáldsins úr Öxnadal ríkan þátt í því og sú dagskrá sem efnt var til í tilefni af degi íslenskrar tungu, afmælisdegi hans, víðs vegar um landið, í skólum, menningarstofnunum og annars staðar. Það er trú mín að mikill og lifandi áhugi á íslenskri tungu skýrist, a.m.k. að hluta til, af því að við verðum þess betur áskynja að tungan okkar er í hættu, það er að henni sótt og það er skylda okkar allra að standa vörð um hana.

Ég tel að Alþingi hafi stigið gæfuspor á síðasta ári þegar samþykkt var frumvarp sem fól í sér sameiningu fimm stofnana sem allar tengjast menningarlegri arfleifð okkar sem þjóðar, sögunni og tungunni, í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Tilgangur sameiningarinnar var að efla rannsóknir og miðlun á sviði íslenskra fræða, auk þess að efla fræðilega ráðgjöf til styrktar og eflingar íslenskri menningu og tungu.

Íslensk málnefnd gegnir um margt veigameira hlutverki en áður og er enn sem fyrr mikilvægur og breiður samráðsvettvangur um íslenskt mál. Í lögum um stofnunina eru ákvæði sem varða íslenska tungu og þar eru ýmis nýmæli. Samkvæmt lögunum er það hlutverk Íslenskrar málnefndar að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu. Nefndinni er þar falið að gera tillögur til menntamálaráðherra um málstefnu, sem er nýmæli, og nefndinni er falið að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Tilgangurinn með því að leiða í lög ákvæði um þessi atriði er einfaldur. Árleg ályktun um stöðu íslenskrar tungu þjónar þeim tilgangi að fá fram álit þeirra sem málnefndina skipa á því hver staða tungunnar sé á hverjum tíma og við viljum efna til reglubundinnar, upplýstrar og almennrar umræðu um stöðu tungunnar.

Þann 10. nóvember sl. stóð Íslensk málnefnd fyrir málræktarþingi, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, og sendi frá sér sína fyrstu ályktun um stöðu íslenskunnar. Ályktunin er vönduð og yfirgripsmikil en megininntak hennar er að staða íslenskunnar er almennt sterk og sköpunarmáttur hennar er mikill. Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á skömmum tíma og við megum ekki sofna á verðinum. Málnefndin vinnur nú ötullega að því að leggja drög að íslenskri málstefnu sem er hlutverk hennar að lögum. Á vegum Íslenskrar málnefndar starfa nú fimm vinnuhópar sem fjalla um stöðu íslenskunnar og málstefnu í skólum landsins, um málstefnu í fjölmiðlum og listum, um íslensku sem annað mál og íslenskukennslu erlendis. Jafnframt fjalla hópar um háskóla, vísindi og fræði og um tungumál og málfar í stjórnsýslu en ekki síður í viðskiptum.

Í byrjun næsta árs munu vinnuhóparnir skila skýrslum og á grundvelli þeirra verða útbúin fyrstu drög að mótun íslenskrar málstefnu. Í kjölfarið ráðgerir málnefndin að halda 10 málþing í samvinnu við stofnanir eða samtök sem hagsmuna eiga að gæta á þeim sviðum þjóðfélagsins sem til umfjöllunar eru. Menntamálaráðuneytið mun leggja sérstaka áherslu á málefni íslenskrar tungu á komandi missirum og styðja við þetta mikilvæga starf nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að íslensk málstefna verði síðan kynnt í árslok 2008.

Ég hef í hyggju, herra forseti, að beita mér fyrir því sem ráðherra mennta- og menningarmála að málstefnan verði lifandi stefna sem hafi skýra skírskotun til samtíðar okkar og sjálfsmyndar, menningarvitundar okkar sem þjóðar. Ég tel að þá málstefnu sem við viljum beita okkur fyrir eigi að kynna í ríkisstjórn, og hana á að leggja fram og ræða gaumgæfilega hér á Alþingi. Það kemur til greina að minni hyggju að Alþingi álykti sérstaklega um málstefnuna þannig að staða hennar og gildi verði ótvírætt. Þingheimi gæfist þá jafnframt tækifæri á að ræða stefnuna og álitamál sem henni tengjast og sjálfsagt má telja að sú umræða fari fram reglulega á nokkurra missira fresti.

Samfélagið breytist, málið breytist og áherslur sem varða tunguna hljóta því að breytast. Þetta allt kallar á og á að kalla á umræðu í samfélaginu öllu en ekki síst hér á Alþingi.



[11:03]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í upphafi ályktunar Íslenskrar málnefndar segir að staða íslensku tungunnar í íslensku samfélagi sé sterk. Við eigum að hafa það í huga. Hins vegar er mjög mikill þrýstingur á íslenskt mál ef svo má að orði komast. Börn eru farin að nota miklu meiri tíma í tölvu og þar er mikið notast við ensku, þau lesa ensku í tölvunum. Við erum líka farin að horfa mjög mikið á sjónvarp og mikið á erlendar rásir sem eru ótextaðar þannig að við förum ósjálfrátt að hlusta eftir erlendum tungumálum, sérstaklega enskunni. Börn fara líka mikið í bíó þar sem enska er aðaltungumálið og þannig væri hægt að nefna mörg dæmi um hve mikill þrýstingur er á tunguna.

Það kemur líka fram í ályktun Íslenskrar málnefndar að atvinnulífið er að verða alþjóðlegra og dæmi um að stórir íslenskir vinnustaðir hafi ensku sem vinnumál þótt flestir starfsmenn séu íslenskir. Það er því mikill þrýstingur á íslenskuna og á sama tíma, eins og fram kemur í ályktuninni, erum við að draga úr móðurmálskennslu í skólunum og frekari áform um niðurskurð á þeirri kennslu hafa verið kynnt. Þetta er mál sem við þurfum að vanda okkur mjög vel við. Við þurfum að endurskoða stefnuna og bæta stöðu kennara. Kennarar eru lykilatriði fyrir tungutak barna og við eigum ekki að ýta undir þau erlendu áhrif sem nú þegar eru til staðar.

Það er mjög spennandi að núna sé unnið að íslenskri málstefnu og það er ljóst að ef við sofnum á verðinum þá getur farið illa. Í þessari ályktun eru tilgreind mörg atriði sem við þurfum að taka til ítarlegri skoðunar. En mér líst mjög vel á það ef þingið tekur oftar fyrir og með reglulegum hætti stöðu íslenskunnar.



[11:05]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2007 þá er staða íslenskunnar sterk í samfélaginu. Þetta birtist í auknum lestri bóka og blaða og nú á síðustu árum birtist þessi sterka staða í gríðarlegu magni vefskrifa hvers konar á íslensku. Við verðum þó ávallt að vera á varðbergi því ábyrgð hverrar kynslóðar er gríðarlega mikil. Tungan gengur mann fram af manni og ef það verða slys á þeirri leið þá veldur það óafturkræfri breytingu á íslenskri tungu. Íslenska tungan er nefnilega eins og náttúran og sumt verður ekki tekið aftur.

Ég tel afar mikilvægt að við styrkjum stöðu íslenskunnar í lögum sem og í íslensku stjórnarskránni. Einnig verðum við að vera sífellt á varðbergi gagnvart stöðu íslenskunnar í skólakerfinu. Ég vil vekja sérstaka athygli á lokasetningu ályktunarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Íslenska hefur því alla burði til að verða samskiptamálið í fjölmenningarsamfélagi á Íslandi og að því ættum við öll að stefna.“

Undir þetta tek ég heils hugar. En til að svo megi verða er nauðsynlegt að styrkja stöðu íslenskunnar í lögum. Ég vil í þessu sambandi minna á mjög góða þingsályktunartillögu sem Mörður Árnason, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, flutti á síðasta kjörtímabili um stöðu íslenskrar tungu. Þar fjallaði Mörður um mikilvægi þess að binda íslensku sem móðurmál okkar í stjórnarskrá og styrkja lagalegt umhverfi íslenskunnar. Mörður minnti á að það væri undirstaða þess að hægt væri að festa í sessi rétt fólks til íslensku sem á annað mál en íslenska móðurmálið, svo sem táknmál og nýbúamálin.

Öll okkar menning og saga byggist á sterkri stöðu íslenskunnar. Ég held þó að ekki síður byggist öll okkar framtíð og hin óskrifaða saga á íslenskunni þótt hún verði ekki móðurmál allra Íslendinga þá hef ég sömu trú og íslensk málnefnd, að hún verði samskiptamálið í samfélagi framtíðarinnar.



[11:08]
Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Eins og rakið var í framsöguræðu hennar þá er það alvarlegt að dregið hafi úr móðurmálskennslu í íslenskum skólum og að kynnt hafa verið áform um frekari niðurskurð, eins og segir í ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu.

Það er ekkert náttúrulögmál að fámenn þjóð tali sína eigin tungu og það er ekkert náttúrulögmál að sjálfstæð tunga lifi. Á hverju ári týnast tungumál, ekki eitt heldur mörg. Þess vegna, þó að staða íslenskrar tungu í íslensku samfélagi sé sterk í dag, þá er enginn sem segir að sú staða sé eilíf eða ævarandi. Spurningin er um hvernig til tekst og hvernig við höldum á málum sem þjóð, hvaða metnað við höfum fyrir stöðu tungumáls okkar.

Ég lít þannig á að það skipti miklu máli fyrir sjálfstæða þjóð eins og Íslendinga varðandi varðveislu menningar og þeirra gilda sem hafa gert hana að sjálfstæðri þjóð og sérstakri að gæta mjög vel að stöðu tungunnar. Það finnst mér vera meginatriði. Eins og ég lagði áherslu á í umræðum áðan þá skiptir máli að standa vörð um bókina, um lestur, sem er eitt af mikilvægustu atriðum til þess að ungt fólk geti kynnt sér og verið vel heima í íslensku máli.

Það er óþolandi að samskiptamálið á mörgum stöðum skuli vera annað en íslenska vegna þess að það er ekki gerð krafa til starfsmanna sem eru í þjónustu að kunna góð skil á íslenskri tungu. Við gerum kröfu um varúðarmerkingar séu á íslensku. Við eigum líka að gera kröfu til þess að allir sem eru í þjónustustörfum tali íslenska tungu.



[11:10]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þakkir fyrir þessa umræðu sem er afar góð og við eigum jafnvel eftir að flétta hana áfram inn í umræðu dagsins um íslenska skólakerfið.

Ályktun Íslenskrar málnefndar er mjög athyglisverð. Það er líka gaman lesa hana vegna þess að hún er svo vel samin, svo fallegur texti, svo fallegt mál á henni og hún er skemmtilega uppbyggð því Íslensk málnefnd er að brýna þjóðina alla. Hún talar ekki bara til okkar stjórnvalda. Hún talar líka til skólakerfisins. Hún talar sérstaklega til íslenskra framhaldsskóla og segir þeim að óráðlegt sé og óþarft að stofna sérstakar námsbrautir þar sem kennt er á öðru tungumáli en íslensku. Hún talar sérstaklega til íslenskra háskóla og hvetur þá til að tryggja stöðu tungunnar í fræðasamfélaginu og telur að það verði best gert með því að hvika hvergi frá því að kenna fyrst og fremst á íslensku.

Íslensk málnefnd talar sérstaklega til okkar stjórnvalda og hvetur okkur til að efla kennslu í íslensku fyrir útlendinga, efla menntun þeirra sem kenna íslensku sem annað mál og rannsóknir á því sviði sem mér finnst mjög athyglisverð og þörf ábending. Íslensk málnefnd hvetur forráðamenn allra íslenskra fyrirtækja til að bjóða þeim starfsmönnum sínum sem ekki tala íslensku vandaða íslenskukennslu í vinnutíma og að lokum hvetur Íslensk málnefnd allan almenning til að sýna erlendum starfsmönnum íslenskra fyrirtækja jákvætt viðmót og efla þá í viðleitni sinni til að læra íslensku.

Hér talar Íslensk málnefnd til þjóðarinnar allrar. Þess vegna fagna ég sérstaklega þessari ályktun og tel að hún kunni að vera árangur af lagabreytingunni sem við gerðum í mikilli sátt á Alþingi Íslendinga um stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ég vil líka þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að gefa okkur yfirlýsingu um að samþykkt verði íslensk málstefna á næsta ári eftir ítarlega faglega vinnu sem nú er hafin og kemur til með að klárast á næsta ári. (Forseti hringir.) Mig langaði að segja miklu meira, nefna m.a. tvær þingsályktunartillögur sem varða íslenskuna, en það verður að bíða.



[11:12]
Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Hér er um afar mikilsvert mál að ræða. Íslenskri málnefnd hefur verið falið mikilvægt hlutverk. Hæstv. menntamálaráðherra hefur nefndina sér til fulltingis um málstefnu og stöðu íslenskrar tungu. Við vitum öll að hún er það dýrmætasta sem við eigum.

Sú vinna sem Íslensk málnefnd hefur innt af hendi hingað til og einnig það sem fram kemur í stefnuskrá hennar til 2010 er afar mikilvægt. Ég lýsi eindregnum stuðningi og ánægju með hlutverk hennar og ég veit að tillögum nefndarinnar verður vel tekið í menntamálaráðuneytinu og ýtt úr vör þar.

Við höfum áhyggjur af því að börnin okkar lesi ekki nógu mikið og því miður eru teikn á lofti um að lestrarskilningi hafi hrakað. Ég held að sú vísa verði seint of oft kveðin að við þurfum öll að lesa meira. Ég hef áhyggjur af því að börnin lesi ekki nóg en ég hef ekki síður áhyggjur af því að við gleymum mikilvægi tungunnar í allri hugsun. Það er eindregin skoðun mín að nauðsynlegt sé fyrir börn að læra að tjá sig í rituðu máli. Færni og leikni í að skrifa á móðurmálinu eykur lestrarskilning gríðarlega fyrir utan það hve hollt það er fyrir ungan huga að koma hugsunum sínum á blað.

Við höfum borið gæfu til þess að gæta að stöðu íslenskra fræða í samfélagi okkar. Við eigum dýrmætan bókmenntaarf, einstaka tungu og menningu sem er samofin hvoru tveggja. Í mínum huga skiptir meginmáli að íslenskan sé í fyrsta sæti í öllum greinum háskólanáms.

Í allri umræðu um aukin samskipti um gervalla veröldina er eitt meginatriði sem aldrei má gleyma. Íslensk menning vekur forvitni útlendinga. Tungan vekur forvitni og hún hefur á margan hátt mótað okkur og ekki síst í þeim skilningi að okkur finnst við öðruvísi en aðrir og erum þá kannski hugaðri en aðrir. En munum alltaf eftir því að til að kunna framandi tungumál, til þess að ná tökum á málefnum útlendinga, verðum við að kunna móðurmálið vel. Ekkert skiptir meira máli.



[11:14]
Jón Björn Hákonarson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir þessa umræðu og framsögumanni, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, fyrir hennar góða innlegg í umræðuna.

Það er visst áhyggjuefni hve sótt hefur verið að íslenskunni. Þrátt fyrir að í ályktun Íslenskrar málnefndar komi fram að staða íslenskrar tungu sé sterk þá er samt í síauknum mæli, í síbreytilegum heimi sjáum við, jafnvel í umræðum alla leið úr þingsal að ástæða er til að standa vörð um tunguna.

Þjóðtungan er grunnur að menningu okkar og sjálfstæði. Í heiminum í dag hverfur eitt tungumál eða ein mállýska á degi hverjum, hvorki meira né minna. Það er ekki sjálfgefið að menn haldi þjóðtungu sinni. Því er brýnt að við tökum undir með Íslenskri málnefnd og sofnum aldrei á verðinum. Það hefur verið okkar styrkur hversu vel við höfum staðið að nýyrðasmíði og svo þarf að vera áfram.

Það er áhyggjuefni hvað við mættum gera miklu betur í móðurmálskennslu þegar við heyrum af nágrannaþjóðum okkar sem veita meira en við til móðurmálskennslu. Við þurfum að standa vörð um tunguna. Það hefur aldrei verið brýnna en nú, í breytilegum heimi. Það er svo sannarlega ástæða til að taka undir með Íslenskri málnefnd með því að fyrst og síðast þurfum við að tryggja stöðu hennar í stjórnarskránni. Það er vonandi eitt af þeim verkefnum sem stjórnarskrárnefnd mun taka upp þegar hún hefur störf, hvenær sem það verður. Það kom ekki fram hér í umræðum í gær. Við þurfum að tryggja stöðu tungunnar í stjórnarskránni og gerum fólki það kleift sem flytur hingað að fá aðgang að kennslu þannig að staða tungunnar sé tryggð á öllum sviðum þjóðlífsins.



[11:16]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og fagna ályktun Íslenskrar málnefndar. Þegar við ræðum íslenskuna kemur margt upp í hugann og það er augljóst að við þurfum að vanda okkur við að auka les- og málskilning á hverjum tíma. Ég hafði hugsað mér að segja í upphafi frá því að ég sat einu sinni með 12 ára gömlum nemendum yfir prófi þar sem kom fram spurningin: Hvað er landráðamaður? Fyrir þingmenn er ágætt að vita hvert svarið var hjá einum nemanda, hann sagði að það væri forsætisráðherra nú til dags. Við getum líka tekið dæmi úr búðinni þegar stúlkan svaraði spurningunni um hvar fötin væru með orðunum: Ja, ef það sé ekki þarna þá sé það ekki til.

Auðvitað er ástæða til að vera á vaktinni en samtímis vil ég vara við öllum hrakspám um íslenska tungu. Ég vara líka við því að tengja endilega saman tímafjölda í skóla og íslenskukunnáttu. Eins og hefur komið fram á íslenskan samkvæmt íslenskum skólalögum að vera í öllu því sem við erum að vinna, hún á að vera í öllum námsgreinum, ekki bara íslenskutímum, heldur á auðvitað að vanda til málsins og reyna að kenna orðaforða og heiti yfir ýmis hugtök í öllum námsgreinum. Það er jafnmikilvægt í smíðinni, listsköpuninni eða heimilisfræðinni og í íslenskutímanum að við séum með íslenskuna í huga.

Það er mjög ánægjulegt að hér hafi alls staðar komið fram mikilvægi þess að við reynum að hlúa að íslenskunni. Við þurfum samt og samtímis að átta okkur á því að nýr orðaforði krakkanna í dag þýðir ekki að þau séu verr máli farin heldur eru þau hreinlega bara að bregðast við nýju umhverfi og nýjum aðstæðum og hafa kannski jafnmikinn orðaforða og menn höfðu áður, bara önnur og nýrri orð. Þau mundu t.d. ekki fara á rúntinn í drossíum eða sjá helikopter fljúga yfir eins og gerðist þegar ég var yngri. Við sjáum að málið hefur þróast og hreinsast á mörgum sviðum og það er mikilvægt að við höldum því áfram á hverjum tíma.

Við skulum bara vinna samkvæmt þeirri ályktun sem hér kemur fram, ég styð hana heils hugar, (Forseti hringir.) koma íslenskunni inn í stjórnarskrána og þá hef ég engar áhyggjur af íslenskri tungu.



[11:19]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að það geti verið rétt að vinna að því að koma inn í stjórnarskrána ákvæði um að þjóðtungan hér eða hið opinbera tungumál sé íslenska. Það er hins vegar innihaldslaust ef ekkert annað fylgir þar með, lagabókstafur í einhverjum skræðum sem rykfalla inni í skáp dugar ekki til að tryggja tiltekna þróun á íslensku tungumáli.

Ég held að menn þurfi að hafa dálitlar áhyggjur af því að þær breytingar sem orðið hafa breyta samskiptaháttum fólks í nútímaþjóðfélagi. Unglingarnir tala miklu minna saman nú en þeir gerðu áður og þeir tala miklu minna við fullorðið fólk en þeir gerðu áður. Þeir hverfa gjarnan inn í tölvuheima daginn út og daginn inn, ferðast í óravíddum netheima og tala þar ekki við nokkurn mann heldur ferðast um þær víðlendur, fyrst og fremst á ensku tungumáli. Það að íslenskan hafi sterka stöðu endurspeglast af málskilningi, málnotkun og málvitund. Allt þetta þarf að vera til staðar til að íslenskan hafi sterka stöðu. Þegar dregur úr samskiptum og hugsun á íslenskri tungu veikist íslensk tunga. Þarna eru atriðin sem við þurfum að huga að og sækja fram með. Það er vel hægt, ég hygg að ungt fólk, ekki síður en þeir sem eldri eru, hafi mikinn áhuga á því að viðhalda íslensku tungumáli og íslenskri menningu.

Ég tek undir það að lokum, virðulegi forseti, sem fram kemur í stefnuskrá Íslenskrar málnefndar, að huga þurfi sérstaklega að stöðu útlendinga sem hér setjast að. Þeir eru orðnir tugir þúsunda og munu verða hér áfram aufúsugestir og við eigum að leggja okkur fram um að gera þeim kleift að tileinka sér íslenskt tungumál.



[11:21]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um tunguna og kannski hlutverk okkar sem hér sitjum í þeim efnum. Ég fagna því að íslensk málstefna eigi að liggja fyrir 2008 og tek undir þau orð hæstv. menntamálaráðherra sem hér talaði að það skiptir máli að hún verði lifandi og virk. Ég minni auðvitað aftur á að besta leiðin til þess er kannski að líta til móðurmálskennslunnar en svo horfa líka á grasrótarstarfið, horfa á hvernig fólk talar. Sjálf varpaði ég einhvern tíma fram þeirri hugmynd í grein hvort íslenskir rapparar væru í raun Fjölnismenn vorra tíma því að þeir væru búnir að þýða hér ameríska tónlistarhefð. Sumir voru ekkert sérstaklega ánægðir með þessa kenningu en ég tel þó að þetta hafi skipt miklu máli, einmitt til þess að ungt fólk haldi áfram að tala íslensku og það geti tjáð sig um hvað sem er á henni.

Mig langar aðeins að taka aftur upp þann þráð sem tengist hlutverki háskólanna, sem kannski líka má líta á sem uppeldisstöðvar nýrra Fjölnismanna. Það er ekkert kveðið á um það í lögum á hvaða tungumáli starfsemi þeirra skuli fara fram. Við höfum þó tekið eftir því að það er ákveðin þróun í þá átt að mest er kennt á íslensku í grunnnámi en enskan sækir í sig veðrið í framhaldsnámi. Ég tel að það skipti máli — þó að við skikkum hér ekki háskóla til að kenna tiltekna hluti — að við hvetjum til þess að þeir velti alvarlega fyrir sér skyldum sínum. Ég tel að málþróun og nýyrðasmíð eigi að vera hlutverk eða hluti af hlutverki hvers háskóla og að háskólar eigi endilega að velta því fyrir sér hvort ekki skipti líka máli að kenna hreinlega málnotkun samhliða aðferðafræði í öllum fræðum, ekki bara íslenskum fræðum. Eins og ég segi hlýtur það að vera hagur þeirra að skila samfélaginu nemendum sem eru vel heima í sínu móðurmáli. Ég tel að þetta mundi gera háskólanemendur almennt meðvitaðri um móðurmál sitt og mikilvægi þess. Slík viðleitni mundi vafalaust skila sér út í atvinnulífið þar sem við höfum áhyggjur af því að fólk tali saman á ensku, þ.e. að fólk sé vel sjóað í því að tala um sitt fag á íslensku.



[11:23]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom inn á í sinni síðari ræðu. Hún kom inn á marga mikilvæga þætti og það er fagnaðarefni að allir hér inni eru meðvitaðir, og ég vona líka í samfélaginu öllu, um að sterk tunga, sterk íslenska, styrkir að sjálfsögðu sjálfsmynd okkar Íslendinga og skapar okkur sterka stöðu í þeirri alþjóðavæðingu sem nú ræður ríkjum. Það skiptir máli að hafa íslenskuna okkar sterka.

Ég vil líka geta þess að við erum að vinna að litlum sem stórum þáttum til að stuðla að eflingu tungunnar. Við erum orðin mun meðvitaðri um að innleiða hana á marga staði, m.a. í gegnum frumvörp og lög. Við erum að fara að ræða á eftir frumvarp til laga um framhaldsskóla og ég vek sérstaklega athygli á að þar er nýtt ákvæði um að kennsla í framhaldsskólum skuli fara fram á íslensku nema annað leiði sérstaklega af inntaki náms eða eðli þess. Það verður kveðið á um það að framhaldsskólar eigi að kenna á íslensku í öllum fögum.

Síðan hef ég beitt mér fyrir því, m.a. í viðræðum mínum við háskólana, að þeir háskólar sem öðlast viðurkenningu menntamálaráðuneytis skuli marka sér sérstaka málstefnu, ekki eingöngu á sviði íslenskra fræða heldur almenna málstefnu varðandi kennslu í háskólunum. Þetta hefur Háskóli Íslands gert og ég vil geta þess að Háskólinn á Akureyri mun síðar í þessum mánuði kynna sína íslenskustefnu og það er sérstakt fagnaðarefni.

Ég hef líka tekið mikilvægi íslenskunnar upp við aðra háskóla, svonefnda einkaháskóla, að við munum ekki gefa eftir hvað varðar eftirlitshlutverk okkar með íslenskuna. Það er ekki sjálfgefið að hingað komi skólar og kenni á ensku eða öðru tungumáli og ætlist til þess að fá sjálfkrafa greitt úr ríkissjóði. Menn verða að vera meðvitaðir um mikilvægi íslenskunnar í (Forseti hringir.) alþjóðasamfélaginu.