135. löggjafarþing — 42. fundur
 12. desember 2007.
fjárlög 2008, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 380, frhnál. 427, 457 og 458, brtt. 428, 429, 430, 431, 432, 433, 434, 461, 463, 464, 465, 466, 467, 468, 469, 470, 471, 472, 473, 474, 475, 476 og 477.

[18:01]
Jón Bjarnason (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að mæla fyrir nokkrum af þeim breytingartillögum sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum og mun þá hefja ræðu mína þar.

Á þskj. 472 eru breytingartillögur við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008, flutt af Jóni Bjarnasyni, Álfheiði Ingadóttur og Atla Gíslasyni. Þar er fyrsti liður, að brott falli liður 5.1 í fjárlagafrumvarpinu sem er heimild til handa ríkissjóði, fjármálaráðherra, til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Deildartunguhver sem er hluti af þeirri eign. Inni í fjárlagafrumvarpinu er nú opin heimild fyrir ríkissjóð til að selja hlut sinn í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Ríkissjóður á um 21% í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar á móti Orkuveitu Reykjavíkur sem viðkomandi sveitarfélög létu hlut sinn inn í og eiga svo hlut í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar í gegnum eignarhlut sinn í Orkuveitunni.

Við erum andvíg því að söluheimildin sé inni. Við erum minnug þess hvernig fór með Hitaveitu Suðurnesja. Þar var tilsvarandi söluheimild inni á fjárlögum, að ríkið mætti selja 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja sem það nýtti sér og seldi. Samkvæmt útboðsskilmálum gátu sveitarfélögin eða orkuveitur í eigu sveitarfélaga ekki gert tilboð í það. Síðan var Hitaveita Suðurnesja seld og við fengum einkavæðingarferil sem teygir anga sína víða. Það leiddi að síðustu til þess að borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll. Það er svo sem gleðilegt í sjálfu sér en við viljum að hið opinbera eigi afdráttarlaust þessar eignir, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Deildartunguhver, og erum andvíg því að það verði sett á sölulista eins og þarna er heimilað.

Við leggjum til að ríkið hafi heimild til að kaupa aftur hlut sem það seldi í Hitaveitu Suðurnesja, 15% hlutinn, og við teljum að staða málsins sé þannig að ríkið geti þess vegna tekið upp samninga við fyrri kaupendur á hlutnum. Við tökum þar með undir orð borgarstjórans í Reykjavík, Dags B. Eggertssonar, sem óskað hefur eftir fundi með hæstv. forsætisráðherra Geir Haarde um að ríkið kaupi aftur hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. Við tökum því undir sjónarmið oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavíkurborg um að teknar verði upp viðræður við ríkið um að ríkið kaupi aftur 15% hlutinn í Hitaveitu Suðurnesja og viljum að heimild sé á fjárlögum til þess að svo megi vera.

Ég vísa hér í mjög ítarlegt viðtal við borgarstjórann, Dag B. Eggertsson, miðvikudaginn 28. nóvember sl. í Viðskiptablaðinu. Þar er sú ósk er lögð fram og hefur síðan komið fram í öðrum fjölmiðlum þar sem borgarstjórinn í Reykjavík óskar eftir viðræðum við ríkisstjórnina m.a. um að ríkið komi að kaupum og kaupi hlutinn til baka. Ég geri ráð fyrir að þingmenn Samfylkingarinnar á Alþingi muni þá styðja sinn borgarstjóra hvað þetta varðar, enda er þetta mjög brýnt mál.

Í þriðja lagi leggjum við til að hlutafélaginu Matís, sem stofnað var um síðustu áramót um matvælaeftirlit og önnur slík störf og breytt var í hlutafélag, verði breytt aftur í ríkisstofnun. Breytingarnar reyndust hin mestu mistök, bæði voru þær gríðarlega kostnaðarsamar og leiddu til meiri óskilvirkni en áður og skildu starfsmenn eftir í óvissu. Þess vegna leggjum við til að heimilað verði að breyta Matís aftur í ríkisstofnun.

Sömuleiðis leggjum við til með Flugstoðir hf., sem einnig voru stofnaðar um sl. áramót um flugleiðsögn og rekstur á flugvöllum í landinu, verði breytt aftur í ríkisstofnun. Það hafa einnig reynst hin herfilegustu mistök að búa til hlutafélag um flugleiðsögn og rekstur á flugvöllum í landinu. Það hefur meira að segja reynst þannig að þeir hafa ekki einu sinni fengið virðisaukaskattsnúmer hjá skattstjóra, svo vitlaust var það. Við leggjum til að ríkinu verði heimilt að breyta Flugstoðum í ríkisstofnun þannig að flugleiðsögn og rekstur flugvalla í landinu verði hluti af opinberum rekstri. Það er ekki síst nauðsynlegt að gera nú þegar verið er að flytja með lögum flugumferðarstjórn frá Keflavíkurflugvelli undir samgönguráðuneytið. Þá er mjög mikilvægt að öll flugumferðarstjórn lúti sömu lögum og starfsmenn sem þar vinna. Starfsmenn á Keflavíkurflugvelli eru opinberir starfsmenn og mikilvægt er að hið sama gildi um alla. Því er mikilvægt að þeim fáránlega gjörningi að búa til hlutafélag úr flugleiðsögninni, verði snúið til baka og Flugstoðir verði ríkisstofnun. Þessar tillögur flytjum við hér, frú forseti.

Aðrar tillögur sem við flytjum hér, og ég mun gera grein fyrir, eru að við leggjum áherslu á jöfnun námskostnaðar. Eins og við vitum býr fólk við gríðarlega mismunun varðandi kostnað við að senda börn og unglinga í skóla, hvort sem er í framhaldsskóla eða háskóla. Í úttekt sem Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, gerði á Vestfjörðum, kostar það töluvert á aðra milljón kr. fyrir hverja fjölskyldu að senda ungling að heiman í framhaldsskóla þegar kostnaðurinn er tekinn með, húsnæðiskostnaður, námskostnaður, ferðakostnaður og þess háttar. Allir sjá hversu gríðarleg mismunun það er og við krefjumst þess að gripið verði til aðgerða þegar í stað til að jafna þennan kostnað og leggjum því til jöfnun á námskostnaði einmitt hvað þetta varðar.

Sömuleiðis vekjum við athygli á barnabótum. Barnabætur standa í stað, þær fylgja ekki einu sinni verðlagi eða launaþróun, þær standa í stað. Við gerum tillögu um að þær fylgi verðlagi og launaþróun og leggjum til um 800 millj. kr. til barnabóta.

Sömuleiðis vil ég tala um vaxtabætur sem áttu að létta undir með þeim sem kaupa sér húsnæði og hafa átt rétt á vaxtabótum. Vaxtabæturnar hafa engan veginn fylgt þróun húsnæðisverðs eða almennrar vísitölu í landinu þannig að fólk sem reiddi sig á vaxtabætur er nú í miklum vandræðum. Hús og íbúðir sem fólk hefur keypt hafa hækkað í fasteignamati og eign og við það missir fólkið rétt til vaxtabóta. Þótt íbúðin sé þeim nákvæmlega jafnmikilvæg og þótt tekjur þeirra séu nákvæmlega þær sömu þá skerðist réttur þeirra til vaxtabóta. Það er mjög óréttlátt og við leggjum til að vaxtabætur verði hækkaðar til að koma til móts við þó ekki sé nema bara þessa þróun og leggjum þar til 800 millj. kr.

Sömuleiðis leggjum við til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái sérstakt viðbótarframlag. Mörg sveitarfélög eru í miklum fjárhagslegum vanda, sérstaklega á ákveðnum svæðum á Vestfjörðum, Norðurlandi, Norðausturlandi, Suðausturlandi. Við leggjum til að framlag komi til þessara sveitarfélaga til að þau geti haldið uppi þjónustu þrátt fyrir að efnahagur og fjárhagur skerðist.

Sömuleiðis leggjum við til að framlag komi til fyrsta áfanga í gjaldfrjálsum leikskóla sem er eitt helsta hagsmunamál íbúa alls landsins. Brýnt er að ríkið komi með beint framlag inn í þann málaflokk til þess að hægt sé að taka á því með samræmdum hætti. Fátt er meiri kjarabót en að styrkja og efla leikskólann og að foreldrar geti sent börn sín á jafnræðisgrunni inn í leikskólana óháð tekjum.

Þá leggjum við áherslu á hækkun húsaleigubóta sem einnig hafa staðið í stað og ekki fylgt verðlagi eða hækkun á húsaleigu. Það kemur á óvart en af því að hv. þm. Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar er hér inni í þingsalnum þá vil ég segja að er ég mjög minnugur ræðnanna sem fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd fluttu einmitt um þessi mál, barnabætur, húsaleigubætur og vaxtabætur fyrir ári síðan. (HHj: Viltu ekki fara með þær?) Svardagarnir sem þingmenn Samfylkingarinnar voru þá með uppi um hvað bæri og þyrfti að gera — og nú er Samfylkingin komin í ríkisstjórn og þá rýrna þær meira að segja að verðgildi hlutfallslega. Það er dapurt hlutskipti en það var eins og við vissum, að ekkert mundi breytast þó að ný ríkisstjórn yrði mynduð með Samfylkingunni, hún gengi undir sængurver Framsóknarflokksins án þess að skipt væri um.

Við leggjum síðan til hækkun á jöfnun flutningskostnaðar. Í upphaflega frumvarpinu voru lagðar til 150 millj. kr. til jöfnunar á flutningskostnaði og voru merktar Vestfjörðum. Það var liður í einhverjum samningum eða loforðum sem ríkisstjórnin hafði gefið Vestfirðingum í svokallaðri Vestfjarðaáætlun. Því var jú breytt í meðförum við 2. umr. þannig að nú er það ekki lengur bundið Vestfirðingum heldur bara jöfnun flutningskostnaðar á landinu þar sem þörf er á en upphæðin stendur óbreytt, 150 millj. kr. Ég tel að eitt brýnasta verkefnið sé einmitt jöfnunaraðgerðir í flutningskostnaði og þetta er eitt af digrum kosningaloforðum margra stjórnmálaflokka og einmitt þeirra sem nú eru komnir í ríkisstjórn.

Ég minnist umræðu núverandi hæstv. samgönguráðherra sem var mjög ötull að tala fyrir jöfnun flutningskostnaðar hér á þingi og mældi í krónum hvað kexpakkinn væri dýr úr Reykjavík og austur á Þórshöfn eða Raufarhöfn og við áttum samleið í því að vilja aðgerðir í þeim efnum. Ekkert gerist. Hvernig á að standa við loforðin sem gefin voru Vestfirðingum ef þetta er orðið almennt? Við teljum að taka eigi á flutningskostnaðinum og leggjum til, og erum sammála í því, að það sé tekið heildstætt. Við leggjum til að lagðar verði 500 millj. kr. til að taka raunverulega á jöfnun flutningskostnaðar. Með hækkandi olíuverði og dýrari flutningum öllum verður það æ erfiðara og skekkir samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar og því er brýnt að taka á jöfnun flutningskostnaðar.

Fleiri breytingartillögur eru hér sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum sem aðrir þingmenn munu gera grein fyrir. Í lok fyrri ræðu minnar ítreka ég að breyta þarf vinnulagi við fjárlagagerðina þó að margt hafi þar verið gert eins vel og tök voru á af hálfu fjárlaganefndar innan þess skamma tíma sem nefndin fékk frumvarpið til meðferðar, það er frá 1. október og þar til nú. Það er ekki langur tími til þess að fara yfir bæði tekjur og gjöld, forsendur einstakra liða og ég vil að vinnulaginu sé breytt. Ég hef ítrekað lagt fram frumvarp á Alþingi um breytt vinnulag við gerð fjárlaga. Ég hef m.a. lagt til frumvarp um að lagður verði fram ákveðinn rammi að vori um fjárlög næsta árs, áherslur í veigamestu málaflokkum og mat á tekjuliðum o.s.frv. og ræddur á Alþingi. Það yrði rætt á vorþingi og færi í vinnslu yfir sumarið og fram á haust þar sem fjárlaganefnd væri lykilaðili í þeirri vinnu. Þegar frumvarpið kæmi fram 1. október, eða hvenær sem það gerðist, væru fjárlaganefndarmenn búnir að kynna sér það og vissu fyrir fram meginþætti þess en ekki eins og nú þegar farið er með það eins og mannsmorð fram á þingsetningardag og þá dreift. Það tel ég ekkert vinnulag.

Síðan tel ég mjög mikilvægt að öll gögn varðandi fjárlagagerðina og undirbúning hennar þurfi að liggja frammi og vera aðgengileg og að fjárlaganefnd þurfi að fá aukinn liðsstyrk varðandi fjárlagavinnuna. Ég hef flutt um það tillögu á undanförnum árum að sérstök efnahags- eða fjárlagaskrifstofa væri sett á fót og gæti verið þinginu til stuðnings varðandi mat og vinnu við fjárlagagerðina og við mat á stöðu efnahagsmála o.s.frv. Vinnan í haust undirstrikar enn frekar þörfina á því. Síðan tel ég að ýmislegt annað megi gera varðandi umfjöllun um fjárlögin inni á Alþingi þar sem hægt væri að knýja ráðherra til meiri virkni við að svara fyrir meðferð mála og stöðu þeirra.

Það tökum við upp í umræðunni um fjárlögin og ég tek undir orð hv. formanns fjárlaganefndar sem hefur sagt, og reyndar hefur það verið um rætt inni í nefndinni, að menn mundu freista þess að taka upp önnur vinnubrögð hvað varðar fjárlagagerðina og eftirlit með framkvæmd fjárlaga.

Ég vil þó segja að ég tel að nefndin hafi ekki farið nægilega vel ofan í forsendur ýmissa þátta þannig að margar stofnanir fari inn í næsta ár með fyrirsjáanlegan halla og rekstrarvanda. Ég nefni þar marga skóla, háskóla, framhaldsskóla. Mér finnst t.d. dapurt að senda landbúnaðarháskólana með verulegan halla á bakinu undir annað ráðuneyti, ef fram fer sem horfir, frá og með næstu áramótum. Það eru skólar sem verið hafa í miklum vexti á undanförnum árum og allir hafa verið stoltir af þeim vexti sem þar hefur átt sér stað en fjárveitingar hafa ekki fylgt þar eftir, ekki einu sinni með lagasetningum Alþingis. Mér finnst miður að þeir skuli vera sendir ekki aðeins með halla heldur líka fyrirsjáanlegan rekstrarfjárskort inn í nýtt ár. Sömuleiðis eru heilbrigðisstofnanirnar sendar með fyrirsjáanlegan rekstrarvanda eins og ég minntist á áðan. Elli- og hjúkrunarheimilin eru send út í næsta ár með fyrirsjáanlegan rekstrarvanda ef ekki verður mikill niðurskurður á skuldum.

Það er því margt sem mætti betur fara og ég vitna til ræðu minnar fyrr í dag og þeirra tillagna sem ég hef flutt. Einn alvarlegasti þáttur í þessum málum við fjárlagafrumvarpið er annars vegar hve skertar fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins eru miðað við þarfirnar. Hins vegar, og það sem er svo einkennandi fyrir fjárlögin að öðru leyti, er að nú skuli vera keyrðar inn sérstakar fjárveitingar til hermála til þess að setja á fót stofnun sem á að hafa umsjón með heræfingum á Íslandi. Ef litið er á árin 2007 og 2008 er hér um tvo og hálfan milljarð að ræða samtals á einu ári sem verja á til hermála. Það hefur aldrei verið gert áður í Íslandssögunni, í lýðveldissögunni, að stofnun sé sett á fót sem hafa á umsjón með heræfingum og reka hér heræfingar. Það væri nær að nota þennan tvo og hálfan milljarð kr. sem fer í þau málefni til þess að styrkja velferðarkerfið, til þess að láta fjármagn inn í heilsugæsluna, Landspítalann, elli- og hjúkrunarheimilin o.s.frv.

Frú forseti. Ég kem síðar og geri grein fyrir þeim þáttum frumvarpsins sem ég hef ekki gert í þessari ræðu.



[18:22]Útbýting:

[18:23]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið nokkuð fróðlegt að hlýða á þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um tillögur meiri hluta fjárlaganefndar að fjárlögum næsta árs. Sérstaklega var þessi formáli sem hv. þm. Jón Bjarnason flutti hér að síðari ræðu sinni athygliverður, hann kom víða við þó að í fyrri hluta formálans hafi hann tekið nokkuð svipaða stöðu í umræðunni og hv. þm. Bjarni Harðarson gerði, þ.e. gagnrýndi harðlega ýmsa þætti í þeirri tillögu sem hér lá fyrir en með öðrum hætti ræddi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fjárlagafrumvarpið eins og það liggur hér fyrir þó svo að sá þingmaður standi ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni að nefndaráliti úr nefndinni.

Það kom fram í máli hv. þm. Bjarna Harðarsonar að fjárlaganefndin væri ekki mikið að ræða stóru línurnar. Það er út af fyrir sig nokkuð rétt eins og vinnunni var háttað hér í haust, það kom ágætlega fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni áðan líka að fjárlaganefndin tekur við miklu verki sem unnið hefur verið á öllu árinu og hefur tiltölulega skamman tíma til vinnu og vinnur mestan part í skiptingu ákveðinna liða. Hún er að því leytinu til ekki að vinna í þessum stóru línum. Vilji nefndarinnar stendur hins vegar til þess að reyna að breyta því verklagi og koma betur að vinnunni sjálfri við að móta þá umgjörð sem ríkisfjármálunum er sett á hverju ári. Að því ætlum við að reyna að einbeita okkur á komandi ári og nefndin er sem betur fer mjög samstiga í þeim áherslum sínum.

Þó að við höfum skiptar skoðanir á ýmsum atriðum í frumvarpinu eins og það liggur hér fyrir held ég að allir geti verið sammála um að það er gríðarlega góð afkoma á ríkissjóði eins og ágætlega kom fram í fjáraukalögunum sem samþykkt voru hér í síðustu viku með 82 milljarða kr. afgangi, ef ég man rétt, og hér er fjárlagafrumvarpið lagt fram og gerir ráð fyrir að afgangur þar á sé 39,2 milljarðar kr. Að þessu leytinu til hlýtur að vera óumdeilt að afkoma ríkissjóðs er gríðarlega góð, engum getur blandast hugur um það. Hins vegar má deila um það hvort ríkissjóðurinn á að safna þeim tekjum sem þarna koma upp eða ekki, hvort þá ætti ekki með einhverjum hætti að verja þessu til annarra verka eða skila því aftur til skattgreiðenda. Um það getum við tekist á.

Þann fyrirvara verður engu að síður að gera á þeim tölum sem í frumvarpinu birtast, hvort tveggja tekju- og gjaldamegin, að í tekjuhliðinni liggur fyrir að tekjuspár, sérstaklega eins og við sáum þær birtast í niðurstöðu fjáraukalaganna hér, miðað við það frumvarp sem lagt var upp, voru mjög ónákvæmar og sömuleiðis bíða okkar á komandi ári nýir kjarasamningar sem munu hafa verulega stór og mikil áhrif á útgjaldahlið fjárlaganna, alveg tvímælalaust, og það er ekki séð fyrir endann á því hvernig það mun ganga eftir.

Stóru línurnar eins og þær liggja í útgjöldum sjáum við birtast í ýmsum málaflokkum og við getum stokkið á þá í tiltölulega stuttu máli. Við sjáum fram á gríðarlega mikinn útgjaldaauka og ný verkefni inn í menntamálin. Hér hafa verið nefnd gríðarleg verkefni í samgöngumálum. Hv. þm. Bjarni Harðarson hafði ríkan fyrirvara á þeim. Það er gert ráð fyrir verkefnum upp á rétt tæpa 28 milljarða kr. og það hefur verið rætt að erfitt geti verið að koma öllum þeim verkum til framkvæmda.

Við höfum einnig horft upp á mikið fjárflæði inn í heilbrigðisþjónustuna, sérstaklega sjúkrahúsin, og menn greinir á um hvort þeir fjármunir séu vel eða illa nýttir. Enn fremur er uppi skoðanaágreiningur um það hvaða leiðir heilbrigðisþjónustan sé að fara undir forustu þessarar nýju ríkisstjórnar. Ég er þeirrar skoðunar að sá vandi sem byggður hefur verið upp í kerfinu kalli á að þetta verði að nálgast með öðrum hætti en hingað til hefur verið gert og sem betur fer er einhugur um það í stjórnarliðinu að reyna einhverjar nýjar leiðir eins og hér hafa verið kynntar. Ég hlakka til að fá að takast á við það verkefni með stjórnarliðum.

Við sjáum enn fremur gríðarlega miklar úrbætur í félagslegri þjónustu. Nægir í því sambandi að nefna það samkomulag sem hér hefur nýlega verið kynnt milli stjórnarflokkanna og er komið inn í fjárlagafrumvarpið eins og það liggur hér fyrir varðandi ellilífeyrisþega og öryrkja. Að teknu tilliti til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á högum þessara hópa á því ári sem nú er senn á enda má gera ráð fyrir að samtals nemi þær úrbætur sem þarna er verið að gera á einu ári um 16 milljörðum kr. Ef við gerum ráð fyrir því að kostnaðurinn við þær síðustu breytingar sem boðaðar voru séu um 5 milljarðar má ætla, eins og það samkomulag sem gert var á milli ríkisins og Landssambands eldri borgara sumarið 2006 var kynnt, að kostnaður við það á heilsársgrunni sé 11 milljarðar kr. Þarna eru lagðar inn gríðarlegar fjárhæðir til úrbóta fyrir þá hópa sem um ræðir.

Ég vil í því sambandi sem fjárlagafrumvarpið kallar á og ég hef nefnt við fyrri umræðu nefna hér líka atriði sem lúta að byggðamálum. Hér á þingi var um daginn lagt fram svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni og Þuríði Backman um störf á vegum ríkisins. Það er mjög fróðlegt að sjá og skoða þær niðurstöður sem þar birtast. Þetta er mælt í fjölda ársverka á vegum ríkisins og ef við skoðum það nánar eru tölurnar sem þar birtast mjög sláandi. Árið 1998 eru ársverk á vegum ríkisins í landinu samtals 14.344 og árið 2005 eru þau orðin 16.698. Á þessu árabili, frá 1998 til 2005, hefur sem sagt ársverkum hjá ríkinu fjölgað um 2.354. Hver skyldi þá fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu sjálfu hafa verið á þessum sama tíma? Á þessu árabili fjölgaði störfum á höfuðborgarsvæðinu, ársverkum, um 2.315, sem segir það að á þessum átta árum fjölgaði um alls 39 ársverk utan höfuðborgarsvæðisins en 2.315 innan þess. Að þessu leytinu til er því hlutur landsbyggðar ákaflega rýr og þess vegna blöskrar manni þegar maður heyrir stundum tuðið í einstaka einstaklingum sem telja sig sjálfskipaða vörslumenn höfuðborgarsvæðisins í einhverri ímyndaðri keppni við landsbyggðarmenn um uppgang, að heyra þessa einstaklinga hér tuða um það að landsbyggðin sé að sliga höfuðborgarsvæðið í samkeppni um fjármagn úr ríkissjóði. Það er ósanngjörn og ekki skynsamleg umræða því að þetta er svo gjörsamlega fjarri öllum veruleika.

Í þessu fjárlagafrumvarpi er tekið á þáttum sem m.a. lúta að þessu. Þetta er í fyrsta skipti sem maður sér það gert eins og það nú birtist í fjárlagafrumvarpinu, að stjórnarmeirihlutinn leggur fram tillögur sem beinlínis taka á þessu. Samkvæmt minni samantekt má ætla að í fjárlagafrumvarpinu eins og það birtist okkur hér verði til u.þ.b. 250 ársverk. Af þeim ársverkum má ætla að á bilinu 50–60 verði til í Norðvesturkjördæmi og þau má beinlínis rekja til sérstakra aðgerða til að rétta hlut þess landshluta í því hvernig ríkið útdeilir því fé sem innheimt er af skattgreiðendum landsins. Þetta stafar af tillögum sem svokölluð Vestfjarðanefnd gerði og ríkisstjórnin tók til og gerði tillögu til þingsins um að taka inn í fjárlagafrumvarpið og þetta stafar líka af því sem kallað hefur verið mótvægisaðgerðir og hafa verið margræddar hér í þingsölum. Samtals nema þessar tillögur rúmum 2,1 milljarði kr. sem ætlað er til úrbóta og þarna birtist þetta sérstaklega á Vestfjörðum og á norðvesturlandi, en líka í Suðurkjördæmi. Svo má nefna gríðarlega mikið byggðaverkefni sem er endurreisn atvinnulífs á Suðurnesjum. Í kjölfar þess að herinn fór hafa verið lagðir inn gríðarlegir fjármunir til þess að byggja upp og styrkja það svæði til að mæta þeim áhrifum sem fylgdu brotthvarfi varnarliðsins.

Það vil ég segja í þessu sambandi að við þetta verkefni sem kallað hefur verið Vestfjarðatillögurnar og mótvægisaðgerðirnar hefur sú umræða komið upp að það vanti svipaðar aðgerðir til að mæta veikum byggðum annars staðar á landinu. Þær hef ég nefnt héðan úr ræðustóli og þar horfi ég sérstaklega til svæða í Norðvesturkjördæmi, sérstaklega austurhluta sem vantar aðgerðir inn á, Húnavatnssýslur og hluta Skagafjarðarsýslu. Ég er að horfa á utanverðan Eyjafjörð og austur í Þingeyjarsýslur, jaðarsvæðin utan vaxtarsvæðisins á Austurlandi, ég horfi á ákveðinn hluta Suðurlands. Þetta eru þau svæði sem við hljótum að kalla eftir að verði fylgt eftir með sama hætti og gert hefur verið með miklum myndarbrag varðandi önnur svæði landsins sem ég hef nefnt hér fyrr í ræðu minni.

Það vil ég nefna að það á ekki að vera neitt feimnismál að ræða þetta, og þetta á ekki að ræða eins og við séum að tala um það að landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið bítist um verkefnið. Við eigum að ræða þetta út frá þeim forsendum að það sé öllum landslýð til bóta og til hagsbóta að halda úti byggð í samfélaginu. Við eigum að ræða þetta á þeirri sömu forsendu eins og bara hver önnur fjölskylda kemur sér húsnæði yfir höfuðið. Hún kemur sér ekki upp því húsnæði með það að markmiði að hírast öll í einu herberginu. Hún kemur sér upp þessu húsnæði til að búa í því og nýta þá fjárfestingu sem hún hefur lagt í. Með sama hætti horfi ég til búsetunnar hér í þessu ágæta landi okkar. Við þurfum, ef við ætlum að nýta gögn þess og gæði, að byggja það allt. Það hlýtur og á að vera meginstef okkar í því þegar við erum að ræða byggðastefnu.

Þegar þannig háttar til á það ekki að taka Alþingi Íslendinga hátt í einn áratug að fullnusta samkomulag sem stjórnmálaflokkarnir gerðu árið 1999 þegar kjördæmaskipun landsins var breytt sem laut að því að bæta starfsaðstöðu þeirra þingmanna sem störfuðu fyrir stærstu kjördæmi landsins. Það hefur sem sagt tekið hátt í áratug að fullnusta það samkomulag sem gert var og þegar það er síðan fullnustað eftir þessi níu ár sem liðin eru er talað um það sem svo að það sé verið að gera þingmönnum sem koma frá þessum þremur stóru kjördæmum einhvern sérstakan greiða umfram aðra þingmenn landsins. Hverju skilar þessi umræða? Ekki nokkrum sköpuðum hlut öðrum en þeim að ala áfram á þessum ríg sem lengi hefur verið á milli höfuðborgar og landsbyggðar og hefur verið vexti þessa samfélags til ógagns.

Það eru fleiri atriði í þessu fjárlagafrumvarpi sem lúta að því að taka á í ýmsum atriðum sem varða byggðamál og ég vil þá sérstaklega nefna framhaldsskólana. Það er líka verið að styrkja sýslumannsembætti og gera þeim kleift að takast á við harðnandi veruleika sem því miður hefur víða borið á vítt um land. Hér inni eru ýmis atriði líka sem snerta með óbeinum hætti samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þó vil ég undirstrika við þessa umræðu að það er ekki að mínu mati búið að fullnusta þau mál sem þar hefur skilið á milli allt of lengi. Það er verkefni næsta árs að taka til í þeim málum og lýtur að erindi, og erindum raunar, sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent inn til þings og m.a. til fjárlaganefndar, lýtur að uppgjöri varðandi fráveituframkvæmdir sveitarfélaga, Varasjóð húsnæðislána, eyðingu minka og refa og fleiri mál mætti telja. Þetta er eilíft verkefni eins og ég hef sagt áður, bæði í ræðu og riti, að takast á um kostnaðarskiptingu og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þarna er óumdeilt að út af standa nokkur mál sem ber að taka á á komandi ári.

Það kom ágætlega fram í ræðu hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni áðan að hann nefndi það sem svo að fjárlaganefndarmenn væru uppteknir við það á haustþingi venjulega — og mælti þá væntanlega af mikilli reynslu sem hann hefur haft áður af störfum í fjárlaganefnd — að fjárlaganefndarmenn væru meira og minna lokaðir af frá veröldinni í landinu þennan tíma sem þeir væru að vinna að fjárlögum á haustþingi, en það vildi svo til að þeir kæmu til byggða á svipuðum tíma og aðrir góðir sveinar sem kæmu þó ofan úr fjöllunum. Það er örugglega mikið til í því, menn týnast í þeirri vinnu sem hér hefur átt sér stað í fjárlagagerðinni, á margan hátt má taka undir þessi orð hv. þm. Kristins og ekki skal ég draga úr því að það er nokkuð snúið að setja sig inn í allan þann aragrúa erinda sem nefndinni hafa borist og er raunar afskaplega skemmtilegt að kynnast.

Engu að síður er þetta bara hluti af því verki sem ég tel að fjárlaganefndin eigi að sinna og það eru miklu stærri mál sem hafa fallið utan þeirrar vinnu sem við höfum reynt að sinna nú í haust, það eru miklu stærri mál sem hafa fallið utan hennar sem ég hefði gjarnan viljað fá að taka upp og ræða á vettvangi fjárlaganefndar og ætla ekkert að fara neitt frekar ofan í það að þessu sinni.

Ég vil bara undir lok þessarar umfjöllunar minnar þakka öllum nefndarmönnum samstarfið. Þetta hefur verið gaman, skemmtilegt að takast á við og á margan hátt gefandi. Ég vil sérstaklega þakka, eins og áður hefur komið fram í ræðu minni, hv. formanni Gunnari Svavarssyni fyrir hans ágætu störf sem og öllum starfsmönnum nefndarinnar sem við höfum getað leitað til hvenær sem við þurftum á öruggri leiðsögn að halda.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að það ber að nefna hv. þingmenn með fullu nafni.)



[18:40]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns og þakka fyrir gott samstarf í fjárlaganefnd eins og ég gat um í ræðu minni. Þar voru allir eftir því sem tök voru á samstiga um að vinna sem best að þeim málum sem að nefndinni sneru hvað þetta varðaði þó að pólitískar leiðir skildi að vísu í nálgun stærri mála. Þess vegna er okkur jú skipt í stjórnmálaflokka og við tökumst á út frá því.

Ég vildi í fyrsta lagi taka undir með hv. þingmanni um stuðning við störf stjórnmálaflokka og þingmanna í landsbyggðarkjördæmum sem var hluti af sáttmála á bak við síðustu kjördæmabreytingu, kjördæmabreytingu sem ég tel í sjálfu sér hafa verið arfavitlausa. Ég var ekki sammála henni á sínum tíma og legg áherslu á að í umræðunni og í fjárlaganefnd var þessi fjárauki sem settur var inn einmitt vegna þessa en algjörlega óháður eða ótengdur frumvarpinu um þingsköpin. Ég man að ég spurði einmitt um það og við ræddum það sérstaklega. Hv. formaður fjárlaganefndar gat þess að þetta væri ætlað til þeirra verkefna sem þarna væri talað um en væri óháð þingskapafrumvarpinu. Þess vegna studdi ég þessa upphæð.

Hv. þingmaður minntist á bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og beinar upphæðir sem þeir telja að vanti inn í frumvarpið. Það er í sjálfu sér utan við samkomulag, eru bara tölurnar harðar á borðinu, en við flytjum hér, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tillögurnar beint upp úr bréfi (Forseti hringir.) Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nú spyr ég hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort hann styðji ekki þessar tillögur (Forseti hringir.) sem eru komnar þar innan úr húsi.



[18:43]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni málefnalega rökræðu að venju. Ég tek alveg undir það, og skal svara því strax, tek heils hugar undir það að þessi mál á að gera upp en lýsi því jafnframt yfir að ég er ekki tilbúinn til að gera það með þeim hætti sem vinstri grænir leggja til hér og nú. Eins og kom áðan fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, eru tillögur þær sem hér liggja fyrir upp á hátt í 14 milljarða kr. og afgreiddar með einni tillögu um hækkun tekna eða skatta upp á svipaða upphæð ef ég man rétt. Og þetta er bara einn hluti af þeim pakka sem þar út af stendur.

Ég hef lýst því yfir í viðræðum við forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga ásamt fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra á fundi fyrir tveimur dögum, ef ég man rétt, að vilji minn stæði til þess að við settumst yfir þessi mál og gerðum þau upp á nýju ári. Ég dreg ekkert undan með það að til þess stendur vilji minn sem ég upplýsti á þeim fundi og ég ætla að miðað við þær viðtökur sem ég hlaut við þeirri uppástungu verði það gert og með fullum vilja til að reyna að koma þessum ágreiningsmálum, ef við getum sagt sem svo, út af borði.

Ég vil benda á það líka að utan þessara mála sem þarna út af standa er einnig verið að setja þó nokkuð háar fjárhæðir inn í verkaskipti ríkis og sveitarfélaga, eða ekki verkaskipti heldur uppgjörsmál, ef við getum kallað sem svo, sem ekki hafa verið beinlínis ásett í lögum. Nægir þar að nefna gríðarlegar fjárhæðir sem hafa verið settar inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á síðustu tveimur árum. (Forseti hringir.)



[18:45]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessar beiðnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga liggja svo sem fyrir og þegar við höfum 39 milljarða kr. tekjuafgang ríkissjóðs eigum við þá að láta það bitna á sveitarfélögunum og ég tala nú ekki um mörgum af þeim fátækari? Varasjóð húsnæðismála vantar tilfinnanlega fjármagn, einmitt sveitarfélög sem eru veikburða. Við leggjum til að það verði farið að óskum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Vegna eyðingar refa og minka sem mörg stór, dreifbýl, fámenn og fjárvana sveitarfélög verða að standa undir lögum samkvæmt, samkvæmt lögum frá Alþingi, stendur ríkið samt ekki við sinn hlut. Við leggjum til að komið verði til móts við þetta og staðið við lög og reglur hvað þetta varðar í hlutdeild ríkisins.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni í því að sveitarfélögin sem mörg standa illa þótt sum standi vel eigi áfram að bera skaðann og að þeim skuli vera mismunað.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það þurfi enn frekari aðgerðir, gagnvart Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, uppsveitum Árnessýslu, Suðausturlandi, byggðarlögum sem standa mjög illa og þurfa greinilega sértækar aðgerðir þó að við séum almennt ekki hlynnt sértækum aðgerðum. Það á að vera þannig samfélag að atvinnulíf og byggðir blómgist án mikilla sértækra aðgerða, en þegar í harðbakkann slær og við þurfum að standa saman og koma inn eigum við að gera það. Það finnst mér skorta á að sé gert með myndarlegum hætti og tek undir þau orð hv. þingmanns þar sem hann vék að því einmitt varðandi þessa landshluta.

Um leið og ég þakka hv. þingmanni samstarfið í fjárlaganefnd og styð margar af þeim tillögum sem nefndin leggur hér til við 3. umr. (Forseti hringir.) ítreka ég að mér finnst mörg af þessum sveitarfélögum með borðleggjandi verkefni (Forseti hringir.) hafa verið skilin eftir óbætt hjá garði.



[18:47]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að sum sveitarfélög eru skilin eftir, ef við getum sagt sem svo, þannig að þau fá ekki fullnustu mála sinna miðað við þá stöðu sem væri uppi að því gefnu að breytingartillaga hv. þm. Jóns Bjarnasonar og fleiri frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði yrði felld. Það er alveg hárrétt. Þannig verður svo að vera að mínu mati. Við höfum mjög misjafnar aðstæður meðal sveitarfélaga landsins og sum hver hafa fengið verulegar úrbætur út úr þessum 1.400 millj. kr. potti sem jöfnunarsjóður hefur úthlutað úr, ég kann ekki þá skiptingu sem þar liggur fyrir. Það er alveg ljóst að sumar fjárhæðir sem verið er að vinna með í samskiptum ríkis og sveitarfélaga eru mjög ónákvæmar að mörgu leyti, misjafnt hvernig þær birtast sveitarfélögum og ber þar niður þannig að aðstæður þeirra eru gríðarlega mismunandi og erfitt að ræða um sveitarfélögin sem eina samstæða heild eins og hnífurinn geti hvergi gengið þar á milli. Ég bendi á í því sambandi að sveitarfélögin eru allt frá því að telja 50 íbúa upp í 120 þús. þannig að það segir sig sjálft í ljósi þeirra talna að aðstæður þeirra, geta og verkefni eru gríðarlega mismunandi.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þingmann þegar hann nefnir hvers vegna ekki sé hægt að taka undir allar þessar tillögur einnegin út í það sem kemur fram í einni af breytingartillögunum hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni og fleirum um að setja 500 millj. inn á liðinn Jöfnun á flutningskostnaði hvaða athuganir og kostnaðargreining liggi þar á bak við. 150 millj. eru inni á liðnum í fjárlagafrumvarpinu. Hvaða rökstuðningur er að baki því að hækka þessa fjárveitingu um 350 millj.? (Gripið fram í.)



[18:50]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar, eins og reyndar fleiri hv. fjárlaganefndarmenn hafa gert í sínum fyrri ræðum, að þakka kærlega öllu starfsfólki sem unnið hefur með okkur baki brotnu að undanförnu fyrir vinnuframlag þess. Einnig þakka ég að sjálfsögðu meðnefndarmönnum mínum í fjárlaganefnd fyrir samstarfið sem hefur oftast nær verið afar gott. Ég vil líka í upphafi máls míns þakka sérstaklega formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnari Svavarssyni, fyrir góða verkstjórn á þessu hausti. Ég hygg að það hafi ekki verið einfalt fyrir hann sem nýjan þingmann að koma hér inn og taka við þessu stóra verkefni sem er að stýra gerð fjárlagafrumvarpsins, ekki síst vegna þess að nú hefur verið ákveðið, eins og margoft hefur komið fram hér úr þessum ræðustól að undanförnu, að breyta vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Það hefur að vissu leyti tekist þegar núna í haust en auðvitað er enn þá margt sem má laga og verður lagað við gerð næstu fjárlaga.

Venjan hér hefur verið sú að mestöll vinna fjárlaganefndar hefur farið fram á haustmánuðum og mér er sagt af reyndara og eldra fólki að fjárlaganefnd hafi svo nánast ekkert fundað fyrstu mánuði ársins. Nú er boðað af formanni fjárlaganefndar, hv. þingmanni, að á þessu vinnulagi verði breyting og nefndin komi til með að starfa með jafnari hætti yfir árið en verið hefur, enda ekki vanþörf á vegna þess að nú þarf að fara í rammafjárlagagerð og langtímaáætlanir. Ég þakka formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnari Svavarssyni, kærlega fyrir að hafa haldið utan um þessa vinnu með eins góðum hætti og raun ber vitni.

Það sem einkennir fjárlagafrumvarpið núna er auðvitað gríðarlega góð afkoma, alls ríflega 39 milljarða kr. afgangur sem ég hygg að sé einsdæmi. Hækkun hins vegar milli 2. og 3. umr. í A-hluta ríkissjóðs er ríflega 2,6 milljarðar. Tekjurnar hækka reyndar líka, þar auðvitað munar mest um sölu eigna á fyrrum varnarsvæði í Keflavík en eins og ég segi verður tekjuafgangurinn um 39 milljarðar.

Við búum núna við mikið góðæri og höfum gert um nokkurn tíma en á sama tíma og þetta góðæri ríkir er það þannig í samfélagi okkar að enn eru því miður allt of margir sem lifa undir fátæktarmörkum og finna ekki fyrir þessu góðæri sem flestallir aðrir landsmenn finna fyrir. Það er verkefni þessarar ríkisstjórnar að jafna kjörin með ákveðnum aðgerðum á kjörtímabilinu en um leið og það er gert eru auðvitað líka ýmis teikn á lofti nú um stundir varðandi íslenskt efnahagslíf og ljóst að stjórnvöld verða að hafa styrka stjórn á efnahagsmálunum. Þá eru auðvitað komandi kjarasamningar lykillinn að því að vel takist til hér á næstu árum og þá reynir á alla. Það reynir á ríkisvaldið, sveitarfélögin, atvinnurekendur og verkalýðshreyfinguna.

Mér finnst satt best að segja miðað við þann tón sem heyrst hefur hingað til frá þessum aðilum að hugsanlega geti verið hægt að ná einhvers konar samstöðu um að taka réttan kúrs næstu mánuðina. Það skiptir miklu máli, ekki síst tekjulægsta hópinn og það fólk sem lifir ekki við það góðæri sem við hin lifum við, að hlutur þess verði réttur í næstu kjarasamningum og að aðrir verði þá hugsanlega að gefa pínulítið meira eftir en gert hefur verið á umliðnum árum í kjaraviðræðum og einbeita sér að þeim hópi sem hefur það hvað verst.

Ég held að sú ríkisstjórn sem nú situr — maður þarf ekki nema að líta til stjórnarsáttmálans til að sjá að þar er mikil áhersla lögð á hin félagslegu gildi, ef svo má að orði komast, á félagsmálin, heilbrigðismálin og menntamálin. Það var sögulegt samstarf sem tókst milli þessara tveggja flokka við myndun síðustu ríkisstjórnar, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, samstarf tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins og þar með gríðarlega sterkur meiri hluti hér á Alþingi.

Eins og ég sagði áðan snýst rauði þráðurinn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um lífsgæði. Þegar ég segi lífsgæði á ég auðvitað við heilbrigðismálin, félagsmálin og menntamálin að ógleymdum samgöngumálunum. Í félagsmálunum er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gerð í framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar grein fyrir gríðarlegum viðbótum milli 2. og 3. umr., viðbótum sem felast í aðgerðum sem fyrst og fremst gagnast eldra fólki og lífeyrisþegum. Það eru aðgerðir sem felast í því að draga úr tekjutengingum við bætur, afnema tekjutengingu við tekjur maka, að ríkissjóður tryggi 25 þús. kr. lífeyrissjóðsgreiðslu á mánuði, aðgerðir um að hækka vasapeninga og draga úr of- og vangreiðslum almannatrygginga. Það er einnig gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum fyrir örorkulífeyrisþega vegna örorkumats og starfsendurhæfingar.

Auðvitað má alltaf deila um það hvort nóg sé að gert. Það hefur vakið athygli mína í þessum umræðum að margir hv. þingmenn hafa því miður runnið þá leið að sjá ekkert jákvætt í þessum hugmyndum og vilja bara gera enn þá meira fyrir enn þá fleiri hópa. Þetta er fyrsta skrefið og þetta er viðleitni sem ber að fagna, þetta eru aðgerðir sem munu koma stórum hópum ákaflega vel og við eigum að fagna því. Þetta er, eins og ég segi, í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og stefnuyfirlýsingu.

Ég vil líka nefna hér þátt sem ég gerði að umtalsefni við 2. umr. og lýtur að Framkvæmdasjóði fatlaðra. Þar eru settir inn umtalsverðir fjármunir, um 75 millj. ef ég man rétt, og þetta skiptir verulega miklu máli fyrir stóran hóp fatlaðra, ekki síst kannski geðfatlaða svo að einhver hópur sé nefndur, en þessir fjármunir eiga auðvitað að nýtast öllum þessum hópum án tillits til þess hvernig fötlunin er skilgreind.

Þegar ég er farin að ræða hér um félagsmálin vil ég einnig nefna aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna sem hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir kynnti á Alþingi í sumar. Það hefur vakið athygli mína við fyrri umræður um þetta fjárlagafrumvarp að minni hlutinn á þinginu hefur helst horft til þess að engir fjármunir séu inni í aðgerðaáætluninni. Ég hef gjarnan svarað því þannig í þeirri umræðu að ég hef bent á þá fjármuni sem fara í Barna- og unglingageðdeild en þegar ég var að undirbúa mig undir 3. umr. þræddi ég mig í gegnum allt fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir og mig langar að fara hér yfir þau atriði þar sem fjármunir eru veittir með beinum hætti sem framhald af samþykkt aðgerðaáætlunarinnar í málefnum barna og ungmenna.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hyggst nú gera matarhlé á þingfundi. Forseti getur ekki heyrt annað en að hv. þingmaður eigi nokkuð eftir af ræðu sinni og vill því bjóða hv. þingmanni að gera hlé á henni þangað til matarhléi lýkur um klukkan átta. Er það viðunandi?)

Frú forseti. Ég er rétt að hefja ræðu mína þannig að ég skal bíða hér í klukkustund.