135. löggjafarþing — 44. fundur
 13. desember 2007.
þingsköp Alþingis, frh. 2. umræðu.
frv. StB o.fl., 293. mál (starfstími Alþingis, eftirlitshlutverk, ræðutími o.fl.). — Þskj. 333, nál. 498 og 524, brtt. 499 og 525.

[20:01]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég ræddi í ræðu minni áðan um misvægið milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins og færði að því rök hve ráðuneytin hefðu stækkað og hve aðstaðan væri mismunandi hjá hinum venjulega þingmanni og framkvæmdarvaldinu. Í þeirri umræðu lét ég orð falla sem mátti misskilja og voru misskilin í garð hæstv. ráðherra Össurar Skarphéðinssonar og bílstjóra hans. Ég vil taka það fram að ég lít á hæstv. ráðherra sem mann heilinda og heiðarleika og meiningin bak við þessi orð var aldrei að draga það að nokkru leyti í efa, aldrei. Ég bið því hæstv. ráðherra afsökunar á þessum óvarlegu ummælum sem sögð voru í hita ræðu minnar um það misvægi sem ríkir á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.

Ég vil næst, frú forseti, víkja að málsmeðferð þessa máls. Ég held því fram að með framlagningu þessa frumvarps hafi verið brotið í blað í sögu Alþingis. Til þessa hefur ævinlega verið leitað eftir samstöðu og samkomulagi allra þingflokka um veigamiklar breytingar á þingsköpum í stærri málum rétt eins og leitað hefur verið samstöðu í málum sem varða breytingar á stjórnarskránni og stjórnskipuninni. Menn hafa leitað sátta í slíkum málum. Nú bregður svo við að vikið hefur verið frá þessu áratuga gamla vinnuferli og frumvarpið er lagt fram í andstöðu við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, þrátt fyrir að a.m.k. ég í störfum mínum og fleiri í allsherjarnefnd hafi sýnt óskoraðan og einlægan vilja til að komast að málamiðlun í þessu máli. Sú málamiðlun var ekki til þess að sinna einhverjum kenjum VG heldur fyrst og fremst einlægur áhugi okkar á því að bæta starfshætti þingmanna, starfsskilyrði hér á þinginu, okkar og þingmanna.

Það liggur fyrir að þetta frumvarp er smíð örfárra manna. Frumvarpið kemur fullskapað fram og er kynnt sem slíkt og ég vil meina að þar hafi verið sniðgengnar flestar kröfur sem gera verður um vandaða frumvarpssmíð. Við slíka frumvarpssmíð, bæði hvað þetta frumvarp varðar og aðra lagasmíð, hlýtur maður að byrja á að skilgreina hvort nauðsyn sé á lagasetningu, skilgreina nauðsynina og þörfina, og spyrja sig hvort unnt sé að bæta starfsskilyrði þingmanna og starfsfólks og alla umgerð á þinginu til að efla lagasetningarstarfið og skila frá okkur vandaðri lagasmíð innan ramma núgildandi þingskapalaga. Rökstudd greining á þessum þætti liggur ekki fyrir en það er brýn nauðsyn í svona máli að slík greining sé á borðinu.

Samráð við undirbúning að gerð þessa frumvarps hefur verið í lágmarki. Það var rætt í þröngum hóp og borið undir þingflokksformenn í sinni endanlegu mynd, ekki á smíðatíma frumvarpsins eða við samráðsleitan þá. Það liggur líka fyrir að ekki hefur verið haft samráð innan húss við starfsfólk, við fyrrverandi forseta, við fræðimenn á sviði stjórnskipunar eða yfir höfuð aðra sem gagnlegt hefði verið að heyra sjónarmið frá og þess vegna við almenning í landinu. Hvernig vill almenningur í landinu sjá að Alþingi starfi? (Gripið fram í.) Það er mikill og háskalegur misskilningur að halda að starfshættir og vinnubrögð á Alþingi séu einkamál Alþingis. Að mínu mati varðar þetta alla þjóðina. Þetta er ekki einkamál þingsins. (Gripið fram í.) Alla þjóðina varðar hvernig hér er starfað og okkur varðar miklu að virðing Alþingis sé sem mest á hverjum tíma. Það er þjóðin, það er almenningur sem sendir okkur hingað í umboði sínu á fjögurra ára fresti.

Það er líka gagnrýnt, sem reyndar er ekki efnisatriði þessa frumvarps en ég vil þó halda því til haga vegna þess að það er kynnt í fjárlögum sem eitt og sama mál, og ég vil vekja til umhugsunar á því og það er ráðning svokallaðra pólitískra aðstoðarmanna sem starfa innan þingsins og teljast starfsmenn skrifstofu Alþingis. Ég hef efasemdir um að það sé heppilegt fyrirkomulag, ég hef miklar efasemdir um að heppilegt sé að pólitískir aðstoðarmenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga þingmenn á Alþingi séu hluti af starfsliði þingsins. Það er skoðun mín og ég bið hv. þingmenn að velta því vel fyrir sér. Það er ótrúlega margt sem má skoða í þessum efnum og hér skyldi maður hafa heildarmyndina í huga eins og ég hef nefnt áður.

Það liggur ekkert mat fyrir á því, þarfagreining á því, hver yrðu áhrif frumvarpsins verði það að lögum. Liggur fyrir að það muni auka skilvirkni, bæta lagasetninguna, stuðla að vandaðri vinnubrögðum, að það skapi betri og fjölskylduvænni vinnustað, að það tryggi að þingmenn og starfsmenn viti í upphafi hvers þingdags hve lengi þingfundir muni standa, þannig að bæði þingmenn og aðrir sem koma að þinginu geti samræmt vinnu sína hér og fjölskylduábyrgð eins og ég hef nefnt? Það sem ég hef líka nefnt hér og lít á sem alvarlegasta hlutinn eða þann hlut sem maður þyrfti að hafa hvað mestar áhyggjur af er hvort frumvarpið styrki löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að hið gagnstæða muni koma í ljós. Öryggisventlarnir gagnvart framkvæmdarvaldinu hafa að hluta til verið afnumdir. Það er full ástæða til að hafa þungar áhyggjur af því. Ég minni aftur á að það hlýtur að vera höfuðmarkmið að þingmál sem koma til afgreiðslu séu sem best undirbúin og kynnt og ég ítreka líka að það stuðlar að vandaðri lagasetningu, það stuðlar að hraðari afgreiðslu og á þetta hefur m.a. umboðsmaður Alþingis, ef ég man rétt, bent margsinnis. Ef menn gera kröfur um vandaðan undirbúning verður að ætla ríflegan tíma á þingi til allrar málsmeðferðar og þá ítreka ég aftur að þetta frumvarp er að mínu mati víti til varnaðar. Hvorki samning frumvarpsins, frumvarpssmíðin sjálf né undirbúningur og málsmeðferðin á Alþingi uppfylla þær kröfur sem gera verður um vandað löggjafarstarf og ég held því fram að frumvarpið og málsmeðferðin öll frá upphafi til enda einkennist af einhvers konar óðagoti. Það felst m.a. í því að ekki voru kallaðir fyrir sérfræðingar, ekki var leitað málamiðlunar í þaula í fullri alvöru og ekki voru gerðar nauðsynlegar úrbætur á frumvarpinu sem blasti við að gera þyrfti og m.a. komu fram í þeirri einu umsögn sem barst allsherjarnefnd óumbeðið frá Félagi starfsmanna Alþingis.

Það er einkennandi fyrir þetta frumvarp og ýmis önnur sem hafa verið lögð fram að minni hlutanum er ætlað að íhuga nefndarálit, skrifa nefndarálit og ganga frá því nánast yfir blánótt og afgreiða síðan í sama óðagotinu í miklum öðrum starfsönnum á Alþingi fyrir jólahlé eins og öllum er kunnugt um að er. Þessi vinnubrögð eru með öllu óviðunandi og þau eru ekki til þess fallin að efla traust eða virðingu Alþingis. Ég ítreka aftur að það er að mínu mati einkennandi fyrir þetta frumvarp að þar virðist ráða einhver lýðræðisóþægindi eða fælni eða þreyta hjá framkvæmdarvaldinu og stjórnsýslunni.

Það var einkennilega haldið á málum í upphafi þessa máls. Það var sérkennilegt að heyra að aukin aðstoð við þingmenn, fleiri utanlandsferðir og fleira í þeim dúr sem var flækt saman við málsmeðferðarreglur, leikreglur sem við störfum eftir á þingi, skipti máli varðandi frumvarpið. Menn hafa nánast verið settir í þá stöðu að þiggja slíkar gulrætur og vera með frumvarpinu eða ekki. Það er algerlega óviðkomandi þingskapafrumvarpinu hvort landsbyggðarþingmenn fái aðstoðarmenn eða þar fram eftir götunum eða hvort einhverjum utanlandsferðum fjölgi o.s.frv. Það kom líka skýrt fram þegar frumvarpið var kynnt fyrir þingflokksformönnum í sínum endanlega búningi að breytingar væru ekki til umræðu. Takið þetta svona eða ekki. Það var viðhorfið í kynningunni. Það var meira að segja þannig að þetta frumvarp, sem á að leggja grunn að lýðræðislegri umræðu í þinginu, í þingi sem er gegnsætt og lýðræðislegt, var kynnt sem trúnaðarmál og maður spyr: Af hverju? Hver var leyndardómurinn bak við það? Ég var mjög undrandi á þeirri málsmeðferð þegar hv. þingflokksformaður okkar, Ögmundur Jónasson, afhenti okkur frumvarpið á þingflokksfundi kyrfilega merkt sem trúnaðarmál. Hv. þingflokksformaður virti þann trúnað og við fengum ekki skjalið í hendur nema að sjá það inni á þingflokksfundum. Af hverju? Er ekki svo í lífinu að betur sá augu en auga? Er það ekki svo í lífinu að lýðræðið blómstrar þegar fleiri koma að ákvarðanatöku, að tekið sé tillit í allar áttir?

Við höfum lagt fram ýmsar hugmyndir um breytingar, ekki bara núna við meðferð þessa máls í allsherjarnefnd heldur áður. Við höfum reifað fullt af hugmyndum, almennum hugmyndum og sértækum hugmyndum. Við höfum viljað ræða það og ég ítreka og fullyrði enn á ný að það hefði verið hægt að ná í þessu málamiðlun og bærilegri sátt og koma í veg fyrir að friðurinn á Alþingi væri slitinn í sundur með því að gefa okkur í þetta mánuð, einn og hálfan mánuð til viðbótar, tvo mánuði tæpa eins og við lögðum til. Því mátti ekki reyna það til að halda friðinn, halda í það að hér rynnu mál eðlilega áfram? Það skiptir miklu máli að halda friðinn vegna þess að störf Alþingis ganga ekki bara eftir reglum eða því sem sagt er í þingsal eða sagt á fundum forsætisnefndar. Það eru ótrúlega margar ákvarðanir teknar hér á göngum óformlegar til að flýta og hraða þinghaldi. Með þessum vinnuaðferðum er að mínu mati sáð tortryggni og einn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn er útilokaður. Hann er settur út í kuldann. Það var stundum sagt í skóla að hægt væri að meta gæði skólastarfs á því hvernig er komið fram við þá sem eru færri í hópnum. Getum við hugsað það hér að menn komi fram við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð eins og alvöruflokk? Við höfum starfað þannig. Við höfum lagt fram faglegar hugmyndir og tillögur. Við höfum lagt fram fjölda þingmála. Við tökum þátt í umræðum með mjög faglegum hætti. Við undirbúum öll mál. Við erum samviskusöm. Á þá með því að einblína á ræðutímann einberan að leggja stein í götu okkar? Er það það sem býr að baki, að leggja stein í götu starfsemi stærsta stjórnarandstöðuflokksins á þingi?

Ég hef nefnt það hér að ég telji að öll málsmeðferð þessa máls frá hugmynd til frumvarps hafi verið óvönduð og það er einkennilegt að horfa til þess að nýlega kom út handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa sem forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis gefa út. Hún kom út í nóvember 2007 og er afsprengi hugmynda eða ríkisstjórnarsamþykkta frá því í október 2006, ef ég man rétt, um einfaldara Ísland. Beri maður saman þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við þessa frumvarpssmíð við þær kröfur eða þær leiðbeinandi reglur sem hér eru settar þá fær frumvarpið falleinkunn. Það er ekki á vetur setjandi miðað við þær leiðbeiningarreglur sem hér eru eða þær grundvallarspurningar hvort þörf sé á löggjöf, hvort hægt sé að bæta starfsskilyrði þingsins, þingmanna og starfsliðs innan núgildandi lagaramma þingskapa. Var nokkuð gerð þarfagreining á því hver sé mesti vandi Alþingis í löggjafarstarfinu, hvar brenni mest á, hvar við séum óskilvirk og hvar við stöndum okkur vel? Hvar er þarfagreiningin? (Gripið fram í.) Hvar er heildarúttektin? Auðvitað spyr maður sig þessara spurninga. Það vekur ótrúlega undrun að leiðbeinandi rit um vandaða lagasmíð skuli hafa verið virt að vettugi. Ég verð að segja það alveg eins og er.

Ég ítreka að fram kom í nefndinni að hér væri byggt á tillögum Ólafs G. Einarssonar, fyrrum forseta, ef ég man rétt, það væri sótt í smiðju hans. Því var ekki leitað til þessara reyndu manna sem stóðu að þeim tillögum og því var ekki gerður samanburður á tillögum nefndar undir forsæti hv. fyrrverandi forseta Alþingis Ólafs G. Einarssonar og þessu frumvarpi? Því voru ekki þau gögn dregin fram? Því voru ekki gögn dregin fram um þingskapabreytingar á liðnum árum?

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum fram viðamiklar tillögur við frumvarpið og við leggjum fram tillögur um breytingar á öðrum ákvæðum sem hreyft er við á sérstöku þingskjali. Þær tillögur sem við leggjum fram til breytinga komu flestar fram á skjali sem ég lagði fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fram í allsherjarnefnd og heita hugmyndir að málamiðlun. Það er alveg hárrétt hjá hv. formanni allsherjarnefndar að þetta var ekki kröfugerð. Þetta var hugmynd til að leysa málið með málamiðlun, setjast yfir málin, greina vandann og finna út úr hvað þyrfti að gera. Þessar tillögur voru auðvitað ekki tæmandi. Það er margt annað sem ég hef hér tæpt á sem hefði þurft að koma inn í þessa heildarendurskoðun. Tillögurnar eru í raun tilraun til málamiðlunar gagnvart þeim ákaflega þrönga stakki sem frumvarp forseta og fleiri sniðu.

Með frumvarpinu eins og það liggur fyrir er einhliða vald forseta aukið frekar en hitt. Var á það bætandi? Það er ærið. En það er aukið á vald forsetans. Er það ofurkrafa að draga úr valdi forsetans og draga fram hlutdeild minni hlutans í ákvarðanatöku forseta um starfshætti? Er til of mikils mælst? Er ekki það sem skiptir öllu máli að þingstarfið gangi snurðulaust í nokkuð góðum friði, þ.e. sjálf aðferðin við að semja frumvörp? Auðvitað greinir okkur á um frumvörp sem koma hér inn en við eigum ekki að liggja í skotgröfum um aðferðir við að koma frumvörpum fram. Við stöndum frammi fyrir því í dag. Við leitumst við að tryggja með tillögum okkar betur aðkomu stjórnarandstöðu að skipulagi þinghalds, dagskrá og málsmeðferð, draga úr alræði meiri hlutans hvað varðar formennsku í nefndum og efla sjálfstæða upplýsinga- og rannsóknarmöguleika þingmanna og auðvelda þeim aðgang að opinberum upplýsingum. Við leggjum fram tillögur um rýmri ræðutíma og svo framvegis.

Helstu efnisþættir þessara breytingartillagna eru í fyrsta lagi þeir að þegar forseti kemur úr röðum stjórnarmeirihlutans skuli tryggt að 1. varaforseti komi alltaf úr röðum minni hlutans. Við leggjum til flöggun, þ.e. við leggjum til að forseti verði að tilkynna þingheimi fyrir klukkan þrjú á hverjum degi ef hann eða hún hyggst halda fundi áfram eftir klukkan 20. Er til of mikils mælst þar?

Þessu hefur Félag starfsmanna Alþingis lýst sem áhyggjuefni, að vita ekki fyrir fram hvenær þingdegi lýkur og það er þannig ákvæði í frumvarpinu sem liggur hér fyrir að forseti getur að vild haldið fundi áfram eftir kl. 20 með því að slíta fundi og boða nýjan. Forseti getur haft næturfundi. Forseti hefur nánast alræðisvald um þessa fundi þannig að sú breyting sem var mjög áríðandi, að ákveða fyrir fram, um þrjúleytið, að fundið yrði slitið kl. 8, að hann yrði ekki lengur — þ.e. er það til of mikils mælst í vinnubrögðum að gera þennan fyrirvara, flagga klukkan þrjú? Er það of mikið? Þarf að koma svo mörgum brýnum málum að á kvöldin eða nóttunni að ekki sé hægt að tilkynna þingmönnum og starfsliði þingsins um það? Og yfir þessu er kvartað í bréfi Félags starfsmanna Alþingis.

Við erum með tillögu um að tryggja með samkomulagi sanngjarna og hlutfallslega eðlilega dreifingu milli forustustarfa í nefndum, dreifa því milli þingflokka. Við setjum inn tillögu að almennir þingmenn eigi rétt á að fá upplýsingar um opinber málefni frá opinberum aðilum. Það hefur heldur betur reynt á það. Okkur hefur gengið stundum erfiðlega að fá gögn frá opinberum aðilum. Það þarf þá að fara í gegnum einhverja kanala sem oft eru erfiðari. Við leggjum til að ræðutími við 2. umr. fjárlagafrumvarps skuli ávallt vera tvöfaldur. Við leggjum til að þingflokkur geti fjórum sinnum á hverju þingi óskað eftir tvöföldum ræðutíma í stað þess að lúta valdi forseta í hvert skipti og það vald getur verið geðþóttavald, því miður. Það er undarlegt að vita til þess að svo skammur ræðutími skuli vera settur í 2. umr. þegar um er að ræða hugsanlega verulega vandasöm og erfið mál eins og frumvarp til sakamála og eiga það undir forseta án þess að hafa öryggisventla á því hvort leyfð verði lengri umræða.

Við leggjum líka til að þröskuldur til að veita afbrigði verði hækkaður í þrjá fjórðu. Það er einn helsti öryggisventill minni hlutans að það sé ekki keyrt yfir hann með því að leita afbrigða þegar þarf að keyra mál í gegn sem oft er ekki nauðsyn á. Við leggjum fram tillögu um ræðutíma í sérstakri töflu og það sem ég tel líka afar brýnt í tíunda lagi er að lagt er til að við bætist ákvæði til bráðabirgða um úttekt á starfsemi og starfsháttum Alþingis, starfsaðstöðu þingmanna jafnt sem starfsmanna og hlutverki og stöðu Alþingis í nútímasamfélagi. Ég hef nefnt það á fundum allsherjarnefndar að það sé afar brýnt að slíkt starf fari af stað og slíku starfi verði lokið á yfirstandandi kjörtímabili. Fyrirheit í greinargerð með frumvarpinu eru ekki nóg. Hér er kveðið miklu fastar að og það er tekin ákvörðun um að þessi úttekt fari fram. Ég skora á meiri hlutann að taka þessa tillögu upp í frumvarp sitt fyrir næstu umræðu.

Við höfum lagt fram tillögu til bóta. Ég er alveg sannfærður um það. Hún snýr sérstaklega að því að hér geti fólk samræmt vinnu, fjölskylduábyrgð og fleira og tryggt þessi dýrmætu lýðræðislegu réttindi minni hluta. Þau eru dýrmæt. Lýðræðið snýst líka um það. Þau eru afar dýrmæt hér á þingi þegar framkvæmdarvaldið styrkist ár frá ári. (JM: ... um málfrelsi annarra ...) Hv. þm. Jón Magnússon hefur fullt málfrelsi á við aðra þingmenn. Hann hefur fullt málfrelsi á við þingmenn Vinstri grænna (Gripið fram í.) og annarra flokka. (Gripið fram í: ... meira.) Hv. þm. Jón Magnússon hefur nákvæmlega sömu stöðu og ég á Alþingi, nákvæmlega sömu stöðu þannig að að halda því fram að þingflokkur Vinstri grænna sem vandar þingstörf sín sé að koma í veg fyrir að hv. þm. Jón Magnússon geti tekið til máls er ekki rétt. (Gripið fram í.) Það er bara ekki rétt. Ég lýk hér máli mínu, (Gripið fram í.) frú forseti.



[20:28]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar maður hefur eina mínútu til að svara ræðu eins og þeirri sem hv. þm. Atli Gíslason flutti hér þá liggur eiginlega næst við að segja til þess að gera langa sögu stutta að rétt sé að mótmæla öllum fullyrðum sem fram koma sem tilhæfulausum og órökstuddum. En ég mun hugsanlega síðar í umræðunni geta komið að einstökum efnisatriðum.

Hins vegar vegna þess að hv. þingmaður fór mjög um víðan völl í ræðu sinni þá er rétt að geta þess í sambandi við það frumvarp sem hér er til umræðu að fyrst og fremst eitt atriði hefur verið umdeilt og það er deilan um ræðutímann. Ég hef ekki orðið var við það að aðrar breytingar sem þarna er verið að boða séu umdeildar.

Varðandi ræðutímann þá er auðvitað rétt að fram komi að meiri hluti allsherjarnefndar, sá sem myndaðist í starfi nefndarinnar, auðvitað lagði fram tillögur sem gengu út á að koma til móts við þau sjónarmið sem Vinstri grænir töluðu fyrir. Það sem maður veltir fyrir sér hins vegar í þessu máli er það hvort allan þann (Forseti hringir.) tíma, alla þá mánuði sem þetta mál hefur verið í gerjun hafi nokkurn tíma verið raunverulegur samningsvilji af hálfu Vinstri grænna um (Forseti hringir.) ræðutímann.



[20:30]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson mótmælti öllu. Ef til vill verið rétt að hv. þingmaður mótmælti öllu bæði því sem hv. þingmaður sagði, hugsaði og sagði ekki til að taka af öll tvímæli út um víðan völl.

Ágreiningur er um ræðutímann vegna þess að hann er of stuttur í viðamiklum málum. Hugsum okkur að óbilgjarn, stjórnlyndur meiri hluti komi upp hér á þingi og ætli að sækja um aðild að ESB eða hvað það nú er og ákveðnar væru 15 mínútur fyrir það stórmál.

Tökum sem dæmi Ríkisútvarpið sem var afar umdeilt mál. Umræðan hér á þingi tryggði upplýsingalögin og fleira inn í frumvarpið. Hugsum okkur vatnalögin sem rædd voru í þaula og endaði með því að lögin voru dregin til baka. Við höfum ekki varnaglatryggingu í þessu dæmi eins og í stórum málum.



[20:31]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að skýrt komi fram við umræðuna að þótt gert sé ráð fyrir ákveðinni meginreglu um ræðutíma í frumvarpinu í 2. og 3. umr., eru heimilar undantekningar. Eins og lögð er áhersla á í áliti meiri hluta allsherjarnefndar er auðvitað gert ráð fyrir að í stærri og veigameiri málum verði slíkar undantekningar gerðar og hægt verði hægt að taka ákvörðun um annan ræðutíma en þar er.

Ástæðan fyrir því að ég hef haft efasemdir um að raunverulegan vilja væri að finna hjá vinstri grænum til að semja um ræðutímann byggir auðvitað á því að þessar hugmyndir hafa lengi verið á sveimi. Það var ekki fyrr en í fyrradag að ég sá hugmyndir frá vinstri grænum um að einhverjar slíkar takmarkanir komi til greina.

Fram að því hefur öll umræða gengið út á að takmarkanir á ræðutíma væru algjörlega ófærar vegna þess að þar með væri verið að taka málfrelsið af þingmönnum. (AtlG: Þetta er rangt ...)



[20:32]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Heimilar undantekningar, það er það sem vantar í þetta. Það er varnaglinn, að við eigum rétt á undantekningu, að við, þingmenn í stjórnarandstöðu, hvort sem er á þessu þingi eða komandi þingum í framtíðinni, þurfum ekki að sæta geðþótta. Við höfum ekki tryggingu fyrir því.

Viljinn til samstarfs um frumvarpið byrjaði aldrei. Hann byrjaði aldrei nokkurn tíma. Ef vilji hefði verið til samstarfs hefði verið skipuð þverpólitísk nefnd úr öllum flokkum. Þingmenn úr öllum flokkum hefðu komið að smíðinni frá hugmynd til frumvarps frá upphafi í stað þess að gera eins og gert var að stilla okkur upp við þegar gerðan hlut. Það var það sem gerðist.



[20:33]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í tæplega tveggja tíma ræðu hv. þingmanns að varla er hægt að segja að hann hafi vikið orði að frumvarpinu sem hér er til meðferðar. Ræðan var full af fullyrðingum, alhæfingum og þess háttar hlutum. Á köflum var það jafnvel þannig að hv. þingmaður þurfti að biðjast afsökunar á sjálfum sér og málflutningi sínum í ræðunni.

Ég átti von á því eftir þá miklu umræðu sem farið hafði fram um vandaðan undirbúning og að miklu skipti að koma sjónarmiðum að, að inn í umræðuna kæmu þættir sem skiptu máli, þættir sem boðuðu eitthvað nýtt í umræðunni en ekkert slíkt var þar að finna.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að eftir að hafa hlýtt á þessa ræðu skil ég vel að hv. þingmenn hafi viljað flýja með hana inn í kvöldið, inn í nóttina, inn í myrkrið (Forseti hringir.) því að ræðan var þess eðlis að full ástæða var til að teygja hana inn í þá tímasetningu.



[20:35]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Slík andsvör eru ekki svaraverð með neinum öðrum hætti en að verða sorgbitinn yfir því að þurfa að hlýða á þessar fullyrðingar. Ég flutti hér málefnalega ræðu. Ég fann henni rök og dæmi og svo kemur hv. þingmaður upp og segir hana fulla af fullyrðingum og alhæfingum. Hann finnur henni ekki stoð í einu né neinu.

Mér finnst það satt best að segja ekki sæma hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni. Það er líka þannig, hv. þingmaður, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð temur sér skipuleg og vönduð vinnubrögð. Það gerum við einnig í þessu máli.

Ég fékk það hlutverk að flytja hér almennan inngang og fleira. Við munum gera einstökum lagabreytingartillögum og öðru skil í ræðum síðar í kvöld.



[20:36]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þrjú lykilatriði sem skipta máli. Það er í fyrsta lagi möguleiki stjórnarandstöðu og þingsins að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Í annan stað að hv. þingmenn geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri og tjáð sig. Í þriðja lagi að lagasetning sé vönduð. Frumvarpið stefnir að öllum þremur atriðunum ásamt fleirum.

Það sem vakti athygli mína var að hv. þingmaður kom aldrei að því hvað væri að frumvarpinu og að hann skyldi ekki koma að kjarna málsins eftir tæplega tveggja tíma ræðu olli mér miklum vonbrigðum. Erfitt var að höndla ræðuna vegna þess að hún var full af alhæfingum og fullyrðingum sem mjög erfitt var að ná utan um. Ég ítreka að ég skil að hv. þingmenn vilji fara með (Forseti hringir.) orðræður sínar inn í nóttina. (Gripið fram í.)



[20:37]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvernig staðan hefði verið á síðasta þingi að lögfestu þessu frumvarpi. Hvar hefðu hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og fleiri hv. þingmenn Samfylkingarinnar staðið í deilunni um fjölmiðlafrumvarpið, Ríkisútvarpið, vatnalögin og margt fleira?

Ég tala nú ekki um ef hv. þingmaður hefði staðið frammi fyrir jafn óbilgjörnum meiri hluta og hér starfar og sá óbilgjarni meiri hluti hefði ákveðið að lengja ekki ræðutímann í þessu máli. Hvernig hefðu varnaglarnir reynst? Við sætum væntanlega uppi með vatnalög, fjölmiðlafrumvarp og Ríkisútvarpið samkvæmt vilja fyrrverandi ríkisstjórnar.



[20:38]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þakklátur hv. þingmanni fyrir að fallast á að hann hafi tekið óvarlega til orða um mig og samstarfsmann minn í iðnaðarráðuneytinu úr röðum BSRB. Það sem ég vil þó aðallega gera að umræðuefni er að hv. þingmaður talaði um muninn á aðstöðu þeirra sem sitja í ríkisstjórn annars vegar og hins vegar aðstöðu stjórnarandstöðunnar. Hann taldi að ósvinna væri að ráðherrar tækju með sér í ráðuneyti tvo til fjóra pólitíska aðstoðarmenn og sagði eðlilega að mikill munur væri á því og þeirri aðstöðu sem stjórnarandstaðan hefur.

Ég segi það alveg skýrt að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar — og hef sagt það líka sem stjórnarandstæðingur — að ég tel að ráðherrar sem fara nýir inn í ráðuneytin eigi að taka með sér allt upp í þrjá aðstoðarmenn. Sjálfur hef ég einungis einn og það er um það bil tveimur of lítið. Ég man ekki betur en að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi verið mér sammála um það í umræðu fyrir tveimur eða þremur árum.

Hins vegar er ég algjörlega sammála hv. þingmanni um að aðstaða stjórnarandstöðunnar sé ekki boðleg en það er nú eitt af því sem menn taka brátt til umræðu í því skyni að bæta það.



[20:40]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er munur á aðstöðu, það er auðvitað hárrétt. Það hallar á löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið styrkist stöðugt, það er staðreynd. Ég sé engum ofsjónum yfir því þó að ráðherrar sem gegna ábyrgðarmiklu starfi hafi sína aðstoðarmenn fyrir utan starfslið ráðuneytanna. Þetta er erfitt og lýjandi starf, langir dagar og langar nætur og mikil vinna og ábyrgð sem því fylgja.

Það sem ég á við er að þingmenn, stjórnarandstöðuflokkar og stjórnarflokkar, fái viðlíka aðstoð, að jafnt sé á vellinum vegna þess að það er togstreita milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þannig hefur það alltaf verið í lýðræðisríkjum og þannig á það að vera vegna þess að löggjafarvaldið hefur það hlutverk í okkar þrískipta kerfi fyrir utan svo dómsvaldið.



[20:41]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Löggjafarvaldið býr að gríðarlega öflugum stuðningsdeildum. Það veit ég sem þingmaður hér til 16 ára bráðum. Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þingmanni að mjög hallar á stjórnarandstöðuna í því, það veit ég líka af eigin reynslu. Ég hef sagt árum saman að stjórnarandstaðan þarf að fá aðstoðarmenn á sviði hagfræðinga og lögfræðinga. Það kann að vera rétt eftir atvikum hjá hv. þingmanni að þeir eigi ekki vera partur af hinu hefðbundna starfsliði þingsins.

Ekki er hægt að ætlast til að starfsmenn þingsins sem væru sérstaklega settir til að vinna með stjórnarandstöðunni — ættu ekki sinna öðrum störfum líka — gerðu það af nægilegu sjálfstrausti, það segi ég alveg skýrt. Sérstaklega hallaði á stjórnarandstöðuna eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður.

Hins vegar undirstrika ég að ég tel að þeir sem koma inn í ráðuneyti sem nýir ráðherrar eigi að hafa með sér öfluga sveit. Þess vegna ættu þeir að hafa tvo til þrjá í stórum ráðuneytum eins og í heilbrigðisráðuneytinu, hugsanlega fjóra pólitíska aðstoðarmenn sem síðan eiga að fara þegar þeir hverfa úr ráðuneytinu. Þannig ná nýr meiri hluti (Forseti hringir.) og nýir ráðherrar að koma fram stefnu sinni sem fljótast.



[20:42]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég treysti því að hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson muni beita sér í þá veru sem hann talaði um áðan gagnvart því að ná fram viðunandi breytingum á frumvarpinu um þingsköp sem hér er til umræðu. Ekki er vanþörf á því. Við höfum m.a. lagt til að upplýsingaþjónusta þingsins verði stórefld, nefndastarfið og nefndasviðið verði stóreflt og að hin lögfræðilega ráðgjöf í vandasömum málum verði stórefld. Þá á ég sérstaklega við þegar upp koma dæmi þar sem maður hefur efasemdir um að lög samrýmist stjórnarskránni.

Allt eru það afar mikilvæg atriði sem við erum vanbúin að í dag. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sýni því skilning og ég vona að hann beiti sér til að því verði fram náð.



[20:43]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gat þess réttilega í ræðu sinni að hæstv. iðnaðarráðherra situr hér meira við umræður en aðrir ráðherrar en lét þess jafnframt getið að það væri af málgleði þingmannsins.

Virðulegur forseti. Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra sitji hér af virðingu fyrir störfum þingsins og fyrir lýðræðislegri umræðu. Ég harma ómálefnaleg og ósmekkleg ummæli af þessu tagi og tel að það sé ekki virðingu okkar hér í þinginu samboðið að tala með þeim hætti hvert til annars.

Verið er að veikja stjórnarandstöðuna, sagði hv. þingmaður. Ef svo væri þá væri það verulegt áhyggjuefni því að mikilvægt er að stjórnarandstaðan sé sterk hér. Því spyr ég hv. þingmann hvort það sé ekki örugglega meiri hluti stjórnarandstöðunnar á Alþingi sem flytur málið.



[20:44]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsti í nokkurri gamansemi hæstv. ráðherra kenndan við málgleði en ég tek fram að hæstv. ráðherra hefur sýnt að hann er áhugamaður um lýðræði. Ég vona að það létti af þeim áhyggjum sem vöknuðu í kjölfar orðanna sem ég notaði en það var í gamansömum tón þó og að gefnu tilefni vegna frammíkalls, ef ég man rétt.

Já, er í lagi, hv. þingmaður, að stór meiri hluti kúgi níu manna minni hluta? Er það lýðræði? Er það réttlætanlegt þegar við höfum með málefnalegum hætti bent á atriði sem farið geta mun betur í þingstarfinu og hv. þm. Helgi Hjörvar tók undir?



[20:45]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hér er ekki verið að veikja stjórnarandstöðuna. Þess vegna stendur meiri hluti stjórnarandstöðunnar á Alþingi að þessu frumvarpi. Það er væntanlega vegna þess að hún er sannfærð um að henni sé betur fært að veita öfluga stjórnarandstöðu að samþykktu þessu frumvarpi, að kannski sé betra að veita öfluga stjórnarandstöðu með skemmri og skarpari ræðum en lengri og loðmullulegri. Ég er algerlega sannfærður um að okkur í Samfylkingunni hefði gengið betur að veita stjórnarandstöðu á liðnu kjörtímabili þegar ég sat að samþykktum þessum lögum, því að þau gefa stjórnarandstöðunni einfaldlega færi á að vera miklu öflugri í málflutningi sínum. Það er misskilningur hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að halda að tveggja tíma ræður nótt eftir nótt feli í sér beitt vopn gegn sitjandi ríkisstjórn í landinu. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig. Skarpur og málefnalegur málflutningur er það sem máli skiptir.



[20:47]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sjálfur áhugamaður um skarpan skilvirkan málflutning og hann verður það ekki nema menn séu rækilega undirbúnir í lagasmíð og öðru slíku. Menn verða að undirbúa lagasmíðina og vinna hana vel á öllum stigum málsins áður en umræðan kemur hér inn til að hún verði skilvirk. Við köllum eftir því að við séum ekki hér til málamynda. Ég kalla eftir því að við fáum öryggisventla í stjórnarandstöðunni. Ég tek ekki afstöðu fyrir Frjálslynda flokkinn eða Framsóknarflokkinn. Við tökum afstöðu út frá okkar forsendum og höfum lagt fram málefnaleg og ítarleg rök fyrir því í löngum greinargerðum og í löngu máli en ekki málþófi.



[20:48]Útbýting:

[20:48]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mig langar í upphafi að fara aðeins yfir aðdragandann að því máli sem við erum að fjalla um, þ.e. breytingar á þingsköpum. Það er ljóst að þetta mál rekur ekki á fjörur okkar með neinu hraði, það hafði verið unnið mjög mikið í því á fyrri tíð. Bæði var það rætt á síðasta kjörtímabili og þær ræðureglur sem við höfum aðallega stuðst við í vinnslu málsins urðu til fyrir nokkrum árum eftir starf sem nokkrir þingmenn á þeim tíma höfðu unnið.

Ég tel að þetta mál sé vel unnið og vil sérstaklega koma því á framfæri í ræðu minni að það er skoðun mín að hæstv. forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, hafi staðið vel að því að ræða við aðila máls í aðdraganda þess að þetta frumvarp var flutt. Ég vil því alls ekki taka undir þá gagnrýni sem hefur komið á störf hæstv. forseta.

Frumvarpið er að vissu leyti málamiðlun milli stjórnmálaflokkanna. Enginn flokkanna telur að frumvarpið sé algerlega eins og hann hefði viljað en það er afrakstur málamiðlunar. Þingflokksformenn hafa komið að samningu frumvarpsins. Mikið samráð var haft við þingflokksformenn og sú er hér stendur er ein þeirra og því tel ég mig þekkja það frekar vel. Frumvarpið var líka rætt í forsætisnefnd þingsins og það var einnig rætt við formenn stjórnmálaflokkanna þannig að það hefur verið rætt talsvert lengi.

Hvað varðar þá gagnrýni sem komið hefur fram vil ég aðeins fá að grípa niður, virðulegi forseti, í nefndarálit minni hlutans. Þar kemur fram að samráð við undirbúning að gerð frumvarpsins hafi verið í lágmarki og það hafi aðeins verið rætt í þröngum hópi og nánast haldið frá þingmönnum þar til það lá fyrir í nokkuð endanlegri mynd. Ég er ekki sammála því sem minni hlutinn heldur fram af því að ljóst er að margir þingmenn komu að málinu. Ég vil taka það sérstaklega fram og tek sem dæmi að a.m.k. við í þingflokki framsóknarmanna fjölluðum um málið á nokkrum fundum. Við dreifðum drögum að frumvarpinu þar, sýndum þingmönnum okkar frumvarpið og innkölluðum það síðan. Því er alveg ljóst að þingmenn Framsóknarflokksins gátu kynnt sér málið ágætlega og tekið var tillit til óska okkar flokks. Það var ýmislegt sem við vildum sjá með öðrum hætti frá upphaflegri mynd þess, frá upphaflegu hugmyndunum og tekið var tillit til hluta þeirra athugasemda sem við bárum fram. Við teljum þess vegna að við eigum talsvert mikið í þessu máli þótt að sjálfsögðu fái ekki allir flokkar fram sínar ýtrustu kröfur í svona vinnu. (Gripið fram í: Sumir ekkert.) Og sumir ekkert, kallar hér fram í fulltrúi Vinstri grænna. Málinu var breytt á lokastigi, þegar þingflokksformenn fjölluðu um það á lokastigi var málinu breytt, m.a. til að koma til móts við sjónarmið vinstri grænna. Það dugði ekki til til að fá vinstri græna með í hópinn frekar en þær breytingar sem gerðar voru síðar í allsherjarnefnd til að koma þar líka til móts við sjónarmið þeirra, þær dugðu ekki til. Ég get ekki tekið undir að þingflokkur Vinstri grænna hafi ekki haft nein áhrif á þetta mál, alls ekki, ég held að hann hafi haft áhrif á málið.

Það kemur líka fram og hefur komið fram í tali einstakra þingmanna að hér sé brotið í blað varðandi einhverja hefð og varðandi söguna. Hér sé alveg nýtt sögulegt fyrirbæri á ferðinni af því að ekki séu allir þingflokkar á málinu, þ.e. einn þingflokkur er ekki á málinu. Það er ekki svo. Hér hafa verið gerðar breytingar á þingsköpum án þess að samkomulag eða sátt væri um þær breytingar. Ég nefni breytingar á þingsköpum 1936. Það var aldeilis ekki sátt um þær breytingar. Mér skilst að atkvæðagreiðslan hafi farið 17:9 í efri deild og 9:5 í neðri deild þannig að hér ekki brotið í blað varðandi hefðir að þessu leyti.

Tilgangur frumvarpsins er að skapa snarpari umræðugrundvöll en við höfum í dag. Við viljum gjarnan sjá styttri ræður þar sem þingmenn koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að hér eigi sér stað frekar rökræður en einræður. Við viljum líka gera vinnustað okkar fjölskylduvænni. Það er mjög óheppilegt að vita ekki nokkurn veginn hvenær þingstörfum lýkur dags daglega og það er líka óheppilegt að þurfa að vinna hér langt fram á kvöld og á nóttinni. Reyndar hefur slíkum fundum fækkað mjög mikið hin seinni ár.

Við viljum líka að þinghaldið sé líkara því sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Þar er ræðutími takmarkaður. Kollegar okkar á öðrum Norðurlöndum skilja ekkert í fyrirkomulaginu hér þegar maður segir þeim frá því. Ég var rétt áðan hinum megin við Austurvöll að ræða við nokkra þingmenn frá Norðurlöndum sem eru í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og sagði þeim frá þessari umræðu. Þeir furðuðu sig á að við gætum staðið í 2. umr. endalaust, eins lengi og stætt er, til að ræða mál.

Ég held, virðulegi forseti, að þegar við lítum til baka, þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum, munum við jafnvel skellihlæja að því fyrirkomulagi sem við höfum í dag. Ég held að við munum hlæja að þessu fyrirkomulagi eftir nokkur ár, þá verði orðið svo sjálfsagt að vinna eftir nýja fyrirkomulaginu að okkur finnist gamli tíminn fráleitur í þessu sambandi. Tíðarandinn er verulega breyttur og við munum örugglega öll sjá það betur síðar, vona ég.

Það kemur fram í frumvarpinu, í athugasemdum við 16. gr., að við viljum að umræðan sé markvissari og fjörugri. Við viljum draga úr löngum ræðum, stytta umræðutímann, en við ætlum hvorki að setja takmarkanir á málfrelsi þingmanna né hindra það að hver og einn geti gert grein fyrir sjónarmiðum sínum á eðlilegan hátt við meðferð mála. Miðað við breytingartillögurnar verður þetta þannig að við 2. umr. getum við talað í 20 mínútur í fyrstu ræðu, 10 mínútur í næstu og svo 5 mínútur eftir það og farið upp eins oft og við viljum, það eru engin höft á því. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að ekki er verið að taka málfrelsi af neinum.

Ég vil líka benda á að mörg dæmi eru um að þingmenn haldi ræður í klukkutíma og það verður líka hægt í nýja fyrirkomulaginu en í dag er það þannig að hægt er að standa hér í klukkutíma í einni lotu eða 10 tíma eða eins lengi og stætt er. Í nýja fyrirkomulaginu tekur það mann átta ræður að komast upp í klukkutímann í annarri meðferð mála hér, þ.e. fyrst í 20 mínútur, svo í 10 mínútur og síðan sex sinnum í 5 mínútur, samtals 60 mínútur. Það tekur tvær ræður að komast upp í hálftímann. Það er spá mín að flestir muni taka eina ræðu í 20 mínútur, einhverjir taki svo 10 mínútur í viðbót en líklega muni það heyra til undantekninga og ekki verði mikið um það að mínu mati, virðulegi forseti, að þingmenn komi mjög oft upp í 5 mínútna ræður. Ég held að það verði ekki þannig. Það er vegna þess að ég held að almenningur muni furða sig á því ef þingmenn koma kannski upp níu sinnum í umræðu, ef þeir eru búnir að tala í klukkutíma samtals, þ.e. í 20 mínútur, 10 mínútur og sex sinnum í 5 mínútur, og fara svo upp í níundu ræðuna og hafa þá talað í 65 mínútur samtals. Ræðufjöldinn eykst auðvitað í hvert sinn sem menn munu koma upp í ræðustól og almenningur mun furða sig á því og segja: Hvernig í ósköpunum stendur á því að þingmenn geta ekki komið rökum sínum til skila nema með 12 ræðum, 15 ræðum, 17 ræðum o.s.frv. ef menn reyna að stunda málþóf. Ég held að þetta nýja fyrirkomulag geti verið til verulegra bóta.

Ég hefði getað sagt reynslusögur af núverandi fyrirkomulagi en ég ætla ekki að fara með margar slíkar. Ég get þó sagt að mér er mjög minnisstætt þegar við fjölluðum um eitt mál fyrir nokkrum árum, þá var næturfundur og sami þingmaðurinn var í pontunni alla nóttina og engir voru á staðnum nema forseti og ritari, viðkomandi ráðherra í málaflokknum og sú er hér stendur. Verið var að fjalla um mál sem var umdeilt í samfélaginu en ég er algerlega sannfærð um það, virðulegi forseti, að ræða þessa hv. þingmanns, sem sat hér á þeim tíma, og stóð yfir í marga klukkutíma var ekki til að bæta ásýnd þingsins, alls ekki. Líklega hafa fáir heyrt þessa ræðu en hún tafði bara störf hér. Þetta var ekki gagnlegt og ég tel að við eigum ekki að opna fyrir það að við getum viðhaldið slíku fyrirkomulagi. Þetta var ekki skemmtileg reynsla og sú er hér stendur var eiginlega þvinguð til að vera hérna þar sem ég var fulltrúi nefndar sem þetta mál tilheyrði og flutningsmaður að nefndaráliti og hægt var að gera kröfu um að maður væri hér alla nóttina.

Varðandi málsmeðferðina í allsherjarnefnd vil ég taka fram að hún var að mínu mati vönduð. Við héldum að mig minnir sex eða sjö fundi, fórum vel yfir málið og áttum góðar umræður meðal þingmannanna um þau efnisatriði sem hér eru til umfjöllunar og reyndar fleiri atriði sem eru ekki í þessu frumvarpi. Hv. formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, stýrði nefndinni á mjög lipran hátt að mínu mati og ég er ánægð með málsmeðferðina sem málið fékk og tel ekki hægt að gagnrýna hana.

Ég ætla ekki að fara mikið yfir breytingarnar í þessari ræðu af því að það hefur verið gert hér á eðlilegan hátt, formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, gerði það. Það sem mér finnst standa upp úr eru breytingarnar á ræðutímanum, það eru langstærstu breytingarnar, og ég hlakka mjög til þess, verði frumvarpið að lögum, að við getum farið að vinna eftir nýja fyrirkomulaginu.

Það var svolítið rætt hvort við ættum að stytta 1. umr. enn frekar frá því sem nú stendur til. Rökin voru þau að þannig væri þetta í Danmörku og að mig minnir í Finnlandi. Þetta yrði þá stutt snörp umræða á almennum nótum um frumvörp og þingsályktunartillögur. Síðan færi málið til nefndar og 2. umr. yrði svo meginumræðan. Rökin voru líka þau að þannig mætti ná meiri afköstum í þinginu og þingmannamál næðu frekar inn í nefndir og hraðar inn í nefndir. Nú er það þannig að stjórnarfrumvörp taka mestallan tímann og þingmannamál komast seint og illa til nefndar. Ég vildi ekki taka undir þessi sjónarmið á þessu stigi, ég útiloka samt ekki að við getum skoðað það í framtíðinni, og það er vegna þess að ég tel að 1. umr. sé mikilvæg. Það er tækifærið sem þingmenn hafa, sérstaklega þingmenn í stjórnarandstöðu, til að ræða við ráðherrana sem flytja stjórnarfrumvörpin sem eru fyrirferðarmestu frumvörpin hér. Þá er hægt að ræða við ráðherrana, yfirheyra þá um einstakar greinar og það er vettvangurinn þar sem ráðherrann er hér við umfjöllun mála. Við 2. umr. er þingið með forræði á málinu á sinni hendi og þá fer meginumræðan fram. Ég taldi að ekki ætti að stytta 1. umr. frá því sem nú er af því að það er mikilvægt, sérstaklega fyrir stjórnarandstöðu, að geta rætt beint við ráðherra um viðkomandi frumvarp. Það eru líka rök að við erum fámenn þjóð og mjög æskilegt er að 1. umr. sé nokkuð sýnileg þannig að hún nái eyrum samfélagsins en málið fari ekki mjög hratt inn í lokaðar nefndir í þinginu. Ég féllst ekki á þessi sjónarmið sem voru frekar sterk í nefndinni og það kom mér svolítið á óvart hve margir í nefndinni voru á því að skoða þetta en ég vildi ekki gera það að þessu sinni.

Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það er bráðabirgðaákvæði í þessu máli, þ.e. endurskoða á málið eftir þrjú ár. Ég tel það mjög heppilegt ákvæði af því að við erum að gera talsverðar breytingar og eðlilegt er að skoða málin aftur þegar við sjáum hvernig þetta fyrirkomulag virkar. Ég tel eðlilegt að þingmenn hafi í huga að við erum að ákveða fyrir fram að endurskoða fyrirkomulag mála, ég legg mikla áherslu á það. Þetta er fyrsta skrefið á langri leið sem við erum að taka núna, þetta er áfangi.

Það er talsverður þungi á bak við þær hugmyndir að breyta nefndastarfi verulega í þinginu og ég tel alveg ljóst að það hljóti að verða næstu skref sem við tökum eftir að þessi eru stigin. Þá endurskoðum við nefndastarfið, sköpum meira rými fyrir það starf, gerum það virkara og komum því þannig fyrir að mál fái dýpri umræðu í nefndum en nú er. Og ég get bent á það, virðulegi forseti, að í sumum þjóðþingum eru þingmenn bara í einni nefnd, ekki mörgum. Það er mjög þungt að vera í mörgum nefndum.

Við höfum verið sökuð um óðagotsmeðferð í allsherjarnefnd og ég vil mótmæla því. Fram kemur í áliti minni hlutans að í málsmeðferð allri ráði hér e.t.v. lýðræðisþreyta framkvæmdarvaldsins og stjórnsýslunnar gagnvart Alþingi. Ég mundi frekar vilja orða það þannig, virðulegi forseti, að það gæti þreytu undir maraþonræðum í þinginu og þess vegna viljum við breyta fyrirkomulaginu til nútímahátta. Að mínu mati hefði verið æskilegast að allir flokkar stæðu að þessu máli. Þeir eru það því miður ekki. Vinstri grænir hafa einir flokka kosið að vera ekki með og talað um að reyna ætti lengur að semja og ná málamiðlun en ég tel það fullreynt. Það hafa gefist mörg tækifæri til að semja um málið. Þau hafa ekki verið nýtt að mínu mati, þ.e. ef fullur vilji hefði verið til að ná saman hefðum við náð saman. Það vantar viljann, því miður. Við höfum teygt okkur í átt til vinstri grænna og málið hefur að mínu mati haft gott af því og allt gott um það að segja. Ég sé ekki stóran mun á 15 mínútum og 20 mínútum og 5 og 10 í fyrstu og annarri umferð í 2. umr. og tel líka ágætt að sett hafa verið inn ákvæði um að hver þingflokkur geti beðið um tvöfalda umræðu tvisvar sinnum á þingvetri. Ég tel að búið sé að teygja sig í átt til Vinstri grænna og að gott hafi verið að gera það en það sé óheppilegt að þeir vilji ekki standa að málinu í heild með okkur. Viljinn hefur ekki verið nægur og þess vegna stöndum við í þessum sporum en eigi að síður er ég sannfærð um að við erum að taka hér mjög heppilegt skref og það verði gaman að vinna í nýju fyrirkomulagi.



[21:08]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fjallaði nokkuð um aðdraganda þess máls sem hér er verið að ræða og sagði það afrakstur málamiðlunar og hefði lengi verið rætt. Það hefur verið tekið fyrir á nokkrum fundum í þingflokki Framsóknarflokksins, því dreift og við sýndum okkar þingmönnum það, sagði hv. þingmaður. Tekið er tillit til fullt af atriðum sem við bentum á, sagði hv. þingmaður einnig. Ég spyr: Getur hv. þm. Siv Friðleifsdóttir upplýst mig og aðra þingmenn um nokkur af þeim fjölmörgu atriðum sem Framsóknarflokkurinn náði fram í breytingu á frumvarpinu frá því að það kom fram í haust? Ég er ekki að tala um liðið kjörtímabil eða þar áður. Ég er að tala um frá því í haust vegna þess að það er þetta þing og þeir þingmenn sem það sitja sem eiga að taka ákvarðanir í þessu máli.



[21:09]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að við sýndum þetta frumvarp í þingflokki okkar, þingmenn okkar fóru í gegnum það. Við ræddum ekki hverja einustu grein, enda sumar þess eðlis að okkur fannst við ekki þurfa þess, en aðrar greinar ræddum við ítarlega. Athugasemdir komu fram við nokkrar greinar og við báðum um breytingar á þeim.

Tekið var tillit til hluta þeirra athugasemda sem við bárum fram en ekki var fallist á annað og það sama gilti um aðra flokka. Menn höfðu mismunandi sjónarmið eins og gengur og gerist. Ég tel að menn eigi ekki að hæla sér af því að þeir náðu fram ákveðnum atriðum og harma að þeir náðu ekki einhverjum öðrum. Ég tel að það bæti ekki þetta mál. En ég get alla vega sagt að við vorum ánægð með þær breytingar sem við vitum að gerðar voru fyrir okkar tilstilli, við vorum ánægð með að tekið var tillit til okkar óska varðandi þær breytingar. Frumvarpið hefði ekki litið eins út ef þingflokkur framsóknarmanna hefði samið það aleinn, það er afrakstur málamiðlunar.

Frumvarpið er það gott að við styðjum það og teljum að það sé til mikilla bóta. Ég er sannfærð um að eftir nokkur ár munum við hlæja þegar við lítum til baka. Við munum furða okkur á því að við 2. umr. hafi verið hægt að standa upp tvisvar sinnum og tala endalaust. Við vitum að hluti þingheims notar þennan rétt til þess að lesa upp úr gömlum bókum og ég veit ekki hvað. Það er hlægilegt.



[21:11]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það tók sig upp lítill biturleiki í síðustu orðum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Það var oft erfitt fyrir ráðherra fyrrverandi ríkisstjórnar á liðnu kjörtímabili að sitja undir gagnrýni þingheims á störf sín og stefnu.

Frú forseti. Ég fékk ekki svör við þeirri fyrirspurn minni hver áhersluatriði Framsóknarflokksins voru í þessu máli og hvað það var sem flokkurinn náði fram.



[21:12]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður á við með biturleika. Ég er ekki vitund bitur og kvarta ekki undan því að hafa þurft að sitja hér sem ráðherra á sínum tíma og hlusta á þingmenn, alls ekki, og reyndar þurfti ég ekki að sitja undir löngum maraþonræðum. Sú reynslusaga sem ég var að vísa í áðan var þegar ég var þingmaður en ekki ráðherra, sú nótt sem ég átti hér þá sannfærði mig um að það fyrirkomulag sem við búum við í dag er úrelt.

Spurt er um áhersluatriði framsóknarmanna. Eins og ég sagði áðan tel ég ekki við hæfi í þessu máli og ekki eðlilegt að þingflokkarnir fari að hæla sér af því hverju þeir náðu fram og hverju ekki. (Gripið fram í.) Stefnan er sú að stytta umræðurnar á þinginu (ÁI: Rétt.) og ég get alveg eins farið aftur í ræðu mína. Það er stefnan, það er innihald þessa máls.



[21:13]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði í ræðu sinni að nú yrði Alþingi gert að fjölskylduvænum vinnustað og það væri ómögulegt að vita aldrei hvenær fundi lyki. Þá veltir maður því fyrir sér af hverju þingmaðurinn styður það þá að það verði algerlega í valdi forseta að ákveða hversu lengi fundir standa, hvort settir verði á kvöldfundir eða næturfundir. Slíka ákvörðun getur forseti tekið einn og fyrirvaralaust. Ég hlýt líka að velta því fyrir mér hvaða afstöðu þingmaðurinn hefur til umsagnar Félags starfsmanna Alþingis um það atriði sérstaklega, þeir benda á að vinnustaðurinn verði ekki fjölskylduvænn þegar þessi ákvæði eru galopin eins og þau eru í frumvarpinu. Mér finnst að þingmaðurinn verði að finna þessum orðum sínum um fjölskylduvænan vinnustað með frumvarpinu einhver haldbetri og sterkari rök en hún gerði í máli sínu. Ég vænti þess að hún geri það í svari við þessu andsvari.



[21:15]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að í nýja fyrirkomulaginu mun líklega heyra til undantekninga að menn verði hér fram eftir á kvöldin. Af því að við styttum ræðutímann og við höfum þá trú að menn muni ekki stunda málþóf í eins ríkum mæli og hægt er í dag, hlýtur starfsáætlun og dagsáætlun að standast betur. Ég tel ekki eðlilegt að hægt sé að útiloka að forseti geti kallað saman þingfund. (Gripið fram í: Fyrirvaralaust.) Já, fyrirvaralaust, ég tel að ekki sé óeðlilegt að forseti geti kallað saman þing fyrirvaralaust. Upp geta komið aðstæður sem kalla á það. Maður hlýtur að þurfa að hafa þann möguleika fyrir hendi. Ég tel hins vegar að tíðarandinn sé þannig — öðruvísi samsetning á þinginu en áður, fleiri konur komnar á þing og talsvert af ungu fólki sem á ung börn — að ólíklegt sé að forseti muni stunda að skella á fyrirvaralausum fundum, sér og ríkisstjórninni til skemmtunar. Ég hef meiri trú á forseta en það. Ég á ekki von á að forseti muni misbjóða þinginu að þessu leyti, misbeita valdi sínu og setja á einhverja kvöldfundi að óþörfu.



[21:17]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið þótt ég geti ekki að öllu leyti tekið undir það sem góða röksemd. Ég tel að hér séu engar tryggingar fyrir hendi hvað þetta atriði snertir.

Annað sem ég vildi spyrja hv. þingmann um í framhaldi af ræðu hennar tengist því að ég varð ekki var við að hún hefði vikið mikið að breytingartillögunum sem hér fengust lagðar fram fyrir náð og miskunn þingskapameirihlutans sem veitti góðfúslega afbrigði til þess að breytingartillögur þingmanna Vinstri grænna gætu komið fram. Ég heyrði að þetta með ræðutímann var Framsóknarflokknum sérstaklega mikilvægt en ef við horfum burt frá ágreiningi um ræðutíma spyr ég þingmanninn: Er eitthvað annað í breytingartillögum Vinstri grænna sem þingmanninum hugnast hugsanlega og hún getur verið sammála?



[21:18]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þingmaður spyr hvort sú er hér stendur ætli að greiða atkvæði með tillögunum þá á ég síður von á því. Ég treysti mér ekki í andsvari sem ég á 40 sekúndur eftir af til að fara yfir tillögur Vinstri grænna og segja hvort mér hugnist eitthvað hér eða ekki. Sumar og líklega flestar af tillögunum sem hér eru hafa verið til umræðu í allsherjarnefndinni. Þar ákváðum við að taka þær ekki inn í breytingartillögurnar sem við gerum nú þannig að á þessu stigi — maður verður alltaf að passa sig á að útiloka ekkert til framtíðar — mun ég ekki styðja þær.



[21:19]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi hin Norðurlöndin og samanburð á ræðutíma á íslenska löggjafarþinginu og hinum Norðurlöndunum en nefndi ekki önnur viðmið eins og vinnuaðstöðu, stuðning við þingmenn, stuðning við stjórnarandstöðuna, faglegan stuðning o.s.frv. Telur hv. þingmaður að því sé saman að jafna, aðstöðu þingmanna á íslenska þinginu og á hinum Norðurlöndunum? Ef við lítum til breytinganna sem lagðar eru til í frumvarpinu og þeirra breytinga sem komið hafa fram frá þingmeirihluta, telur hún að með þeim sé jafnræði náð með hinum Norðurlöndunum hvað starfsaðstöðu varðar? Telur hún að við munum ná þeirri valddreifingu sem þekkist á hinum Norðurlöndunum?

Varðandi stórmál og fimm mínútna innlegg, eins og hún nefndi áðan, telur hæstv. forseti að hún trúi því að ekki verði margir sem koma aftur og aftur eftir fimm mínútna innlegg? Hvað með stóru málin? Hvað gerist þegar mál er það yfirgripsmikið að ekki er hægt að fara yfir það eða gera því skil á þeim ræðutíma sem gefinn er í 1. umr. eða öðrum ræðutíma? Hvað gerist þegar kemur að fimm mínútna bútunum? Hvernig er hægt að koma til skila, svo að skiljanlegt sé í mæltu máli, einhverju samhengi í ræðu þegar um er að ræða fimm mínútna búta? Telur hv. þingmaður að hún hefði getað komið máli sínu á framfæri á tíu mínútum í stað 20 mínútna sem hún gerði hér áðan?



[21:21]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég talaði áðan í innan við 20 mínútur og það er reiknað samkvæmt nýja kerfinu þannig að ég var að æfa mig í því. Ég tel að ég hefði getað komið meginsjónarmiðum mínum á framfæri á þessum 20 mínútum, já. 1. umr. Í 2. umr. eru 20 mínútur, síðan er næsta tíu mínútur og svo fimm mínútna bútar, eins og hv. þingmaður kallar það, þaðan í frá en þá er búið að tala í 30 mínútur þegar farið er í fimm mínúturnar. Það geta þingmenn á öðrum Norðurlöndum þannig að ég tel að við getum það alveg eins hérna. Ég tel að faglegur stuðningur sé ekki nægilegur á þinginu hjá okkur. Ég hef ekki heyrt neinn halda því fram að með þessum breytingum komum við einhverju jafnræði á við aðstöðuna sem aðrir þingmenn á Norðurlöndunum búa við. Frumvarpið nær því ekki. Við tökum bara á einum þætti hér og það er ræðutíminn. Það er svo margt, margt annað sem þarf að gera hér. Efla þarf nefndarstarfið og faglegan stuðning. Ég get nefnt sem dæmi að á nefndarfundi í nefnd Norðurlandaráðs um daginn voru nokkrir þingmenn frá Norðurlöndunum sem voru með aðstoðarmenn með sér. Það er miklu algengara að aðstoðarmannafyrirkomulag sé notað á öðrum Norðurlöndum. Við höfum það ekki hér. Við tökum það vonandi upp mjög bráðlega þannig að það er langt í frá að við séum við búin að jafna aðstöðumuninn með þessu frumvarpi.

Ég vil einnig taka fram vegna umræðunnar um ræðutímann að í stærri málum verður umræðan lengri og hver þingflokkur getur beðið um það tvisvar á vetri. Svo hef ég líka meiri trú á þingforseta en ég finn að vinstri grænir hafa. Ég hef meiri trú á því að þingforseti leyfi lengri umræður um stærri mál.



[21:23]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann um hvort hún telji að undirbúningur þingmála verði betri í framtíðinni. Ekkert sem við vinnum að með frumvarpinu breytir í nokkru undirbúningi þingmála. Eitt af því sem gert hefur störf þingmanna erfið hvað varðar aðstöðuleysi í þingnefndunum er að þingmálin hafa komið óskaplega illa unnin inn í þingið. Þau hefðu þurft miklu betri og faglegri yfirferð í nefndum og hefur ekkert veitt af rækilegri yfirferð í þinginu. Treystir hv. þingmaður því að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar muni breytast?

Ég vantreysti þingforseta ekki sérstaklega en ég get leyft mér að vantreysta sterkri ríkisstjórn og sterkum þingmeirihluta hér inni.



[21:25]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef enga sérstaka trú á núverandi ríkisstjórn, alls ekki, og tel að mjög mikilvægt sé að veita henni fullt og grimmt aðhald. Hún er mjög fjölmenn og þess vegna er aðhaldið mjög mikilvægt.

Varðandi spurninguna um hvort ég telji að undirbúningur þingmála verði betri í framtíðinni er alveg ljóst að við tökum ekki á því með þessu frumvarpi. Þó er hægt að færa rök fyrir að með því að umræðan styttist í þingsal, sem við vonumst til, gefist meiri tími til nefndastarfs sem er mjög æskilegt. Ég tel að undirbúningur þingmála hafi batnað mjög mikið nú á síðari árum en undirbúningurinn er samt ekki nægilega góður. Í samfélagi okkar er allur undirbúningur mjög tengdur ráðuneytunum, hann fer að meira eða minna leyti fram þar. Annars staðar á Norðurlöndunum fer undirbúningurinn meira fram í samfélaginu og inni í þinginu.



[21:26]
Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka langan tíma í ræðuhöld í þessari umferð, reyna að temja mér þær takmarkanir sem fyrirhugaðar eru á ræðutíma alþingismanna. Mig langar að rifja það upp að þegar ég kom í þingsal fyrir 36 árum eða svo fannst mér andrúmsloftið einkennast af silagangi. Svefnhöfgi sótti að þingmönnum sem hér sátu og hlustuðu á ræður og störf þingsins fóru meira og minna fram á hraða snigilsins svo að ég segi það hreint út. Hér voru á þeim tíma margir snjallir ræðumenn sem gaman var að hlusta á en það var regla fremur en undantekning að hv. þingmenn stóðu í pontu og töluðu a.m.k. í 30 mínútur jafnvel þó að ekki væri tilefni til, það var lenska í þá daga.

Þegar ég kom aftur á þing í fyrravetur sem varamaður fyrir minn flokk, Samfylkinguna, upplifði ég þetta sama ástand. Ræðuflutningur ýmissa ágætra þingmanna, m.a. úr röðum míns flokks, sem þá var í stjórnarandstöðu, var til þess fallinn að svæfa mál, drepa þeim á dreif og koma með þeim ómálefnalega hætti í veg fyrir að önnur mál kæmust til afgreiðslu. Þetta hefur verið algengur siður á Alþingi, ég held við getum öll viðurkennt það. Við hljótum öll að geta verið sammála um að ekki hefur verið góður svipur á störfum hins háa Alþingis hvað þetta snertir. Þrátt fyrir alla þjónustu, tækni og lipurð af hálfu starfsfólks þingsins og þrátt fyrir miklu betri vinnuaðstöðu er yfirbragð þingsins enn hið sama, silagangur og hraði snigilsins ráða ferð.

Það er ekki nýtt af nálinni að gerð sé tilraun til að breyta og bæta þingsköp. Það var gert á síðasta áratug. Gerðar voru atlögur að því sem ekki tókust og allar voru í þá átt að reyna að koma á betra verklagi og bæta ásýnd Alþingis. Nú hefur verið lagt fram enn eitt frumvarpið undir forustu forseta þingsins með stuðningi fjögurra flokka af fimm og er almenn samstaða um framgang þess máls ef Vinstri grænir eru undanskildir. Það eru vonbrigði að sá flokkur skyldi heltast úr lestinni vegna þess að í frumvarpinu er margt mjög gagnlegt. Umræðan hefur að mestu leyti snúist um ræðutímann en frumvarpið fjallar um miklu meira en lengd eða styttingu ræðutíma.

Í frumvarpinu er m.a. fjallað um að starfstími Alþingis verði lengdur. Það hefur stundum verið gagnrýnt að Alþingi standi of stutt og að alþingismenn fari of snemma í frí, hér er tekið á því. Í frumvarpinu er eftirlitshlutverk þingsins eflt að mun og er það vel, það þarf að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Gerð er tilraun til að fækka kvöld- og næturfundum og koma þannig til móts við þær hugmyndir að þingið skuli vera fjölskylduvænna en það er, það snýr reyndar líka að starfsfólki sem er í stöðugri óvissu um lengd funda og vinnutíma. Þá eru í frumvarpinu lagðar nokkrar skyldur á ráðherra hvað varðar Alþingi, að ráðherrar komi á fund þingnefnda, kynni frumvörp sín og geri grein fyrir verkum sínum á komandi þingi.

Í frumvarpinu er enn fremur gert ráð fyrir því að mál sem taka breytingum í 2. umr. fari aftur til nefnda fyrir 3. umr., sem ég tel til mikilla bóta. Það styrkir stöðu þingsins og nefnda og tryggir betri afgreiðslu viðkomandi mála. Ég nefni þetta vegna þess að fyrri ræðumönnum í kvöld hefur því miður láðst að geta um flest af þessu. Umræðan hefur fyrst og fremst einskorðast við ræðutímann. Vinstri grænir, sem eru andvígir málinu, hafa gert ræðutímann að umtalsefni og í upphafi töldu þeir reyndar að í frumvarpinu fælist atlaga að málfrelsinu. Nú er það fyrst og fremst lengd ræðutímans sem er til umræðu. Ekki er lengur talað um að málfrelsi skuli túlka á þann veg að menn geti talað eins lengi og þeir vilja. Væntanlega hafa þá allir fallist á að einhverjar takmarkanir þurfi að vera fyrir hendi. Mér finnst að það þurfi að koma skýrt fram og halda því til haga að menn eru fyrst og fremst að agnúast út í og gera athugasemdir við lengd ræðutímans. Ekki er verið að tala um að ræðutími eigi að vera ótakmarkaður enda er ég sannfærður um af langri reynslu í félagsmálum að því lengri sem ræður eru þeim mun verri eru þær.

Ég vil líka gera athugasemd við það orðalag hv. þm. Atla Gíslasonar að óviðunandi vinnubrögð hafi verið höfð í frammi af höfundum frumvarpsins og nefndinni sem fjallaði um það. Ég minni á að málið hefur áður verið til umfjöllunar á Alþingi og menn hafa tekið mið af þeim sjónarmiðum og þeim hugmyndum sem þar hafa komið fram. Forseti þingsins hefur enn fremur, eftir því sem ég hef verið upplýstur um, haft náið samráð við þingflokka og formenn stjórnmálaflokka við vinnslu frumvarpsins. Allt frá því í haust eða jafnvel í sumar hefur verið lögð í þetta veruleg vinna, (Gripið fram í.) það má segja að sú viðleitni að reyna að laga þinghaldið að samtímanum hafi verið samfelld þannig að þessir hlutir hafa verið í stöðugri endurnýjun og allt gott um það að segja.

Formaður allsherjarnefndar hefur að mínu mati sýnt verulegan skilning og þolinmæði, ég vil jafnvel kalla það langlundargeð, við meðferð málsins í nefndinni. Fjöldamargir fundir voru haldnir, boðið upp á umræður og skoðanaskipti og boðið upp á að tillögur væru lagðar fram. Það gerði fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni að lokum og allt gott um það að segja. Þær tillögur voru teknar til umræðu og afgreiðslu í nefndinni með mjög málefnalegum hætti og því var gefinn góður tími. Niðurstaðan varð sú að fallist var á þrjár eða fjórar af þeim tillögum sem Vinstri grænir fluttu en að öðru leyti var það tilkynnt skýrt og skilmerkilega að meiri hluti nefndarinnar gæti ekki fallist á fleira.

Ég sé út undan mér að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem kallaði fram í áðan, er mættur á svæðið eins og hans er von og vísa. Ég minni á að við eigum báðir sæti í Evrópuráðinu sem fulltrúar Alþingis. Þar er stór og mikil samkoma. Evrópuráðið er eiginlega vettvangur mannréttinda með stórum staf. Þar mæta 500–600 fulltrúar, jafnvel fleiri. Ræðutími fyrir framsögumenn er þar að hámarki sjö mínútur og öðrum sem tjá sig sem fulltrúar einhverra tiltekinna hópa, Evrópuráðið skiptist í pólitíska hópa, eru gefnar fjórar mínútur. Ég held að síðan séu skammtaðar tvær mínútur ef einhverjir aðrir vilja blanda sér í umræðuna. Það hefur líka verið upplýst í þessari umræðu, og hefur komið fram í gögnum sem við höfum fengið í nefndinni, að almenna reglan á Norðurlöndunum er sú að tími er skammtaður. Þó að menn vilji taka til máls komast þeir kannski ekki að, verða jafnvel að skrá sig deginum áður til að komast á mælendaskrá. Ef þeir komast ekki að í ræðustól er þeim gefinn kostur á að leggja ræðurnar inn og þær eru síðan prentaðar út. Það eru fjöldamargar takmarkanir á ræðuhöldum og ræðutíma hér og hvar sem við á Íslandi hljótum að geta og vilja tileinka okkur. Það er engin hemja að Alþingi hafi þá ásýnd að menn séu hér í einhverri ræðukeppni, komi upp og haldi langa ræðu til að snúa út úr fyrir öðrum. Ég er ekki að segja að allar ræður séu því marki brenndar en því miður er oft sá keimur af umræðunni. Það er verið að teygja lopann og reyna að koma höggi á andstæðinga og stundum á lítt málefnalegan hátt. Ræður eru margs konar en margar þeirra, og þá aðallega þegar um málþóf er að ræða, eru ekki til að auka virðingu fyrir þessari samkundu.

Ég ber fulla virðingu fyrir sjónarmiðum Vinstri grænna að því leyti að þeir vilja verja hlut stjórnarandstöðunnar hverju sinni. Vonandi verða þeir ekki í stjórnarandstöðu alla tíð en ég legg mikið upp úr áhrifum og stöðu minni hlutans, stjórnarandstöðunnar, hverju sinni. Ég held að treysta eigi sess stjórnarandstöðunnar og tryggja stöðu hennar en það má ekki ganga út í öfgar. Þegar ég lít í fyrsta lagi á tillögurnar sem bornar voru fram í nefndinni á sínum tíma, í öðru lagi á þær tillögur sem Vinstri grænir gáfu út opinberlega sem hugmyndir sínar og í þriðja lagi á tillögurnar sem þeir hafa lagt fram sýnist mér að margt af því megi framkvæma án þess að það sé endilega haft með í þessum lögum. Þar er um að ræða mál sem varða upplýsingaþjónustuna, verið er að tala um útvarpið, útsendingar í útvarpi, að bókasafnið þurfi að vera aðgengilegra og betra og að setja þurfi upp skrifstofur fyrir alþingismenn og aðstoðarmenn. Þetta er vel hægt að gera hvort sem það er fest í lög eða ekki. Þetta eru framkvæmdaratriði sem ég mæli með að eigi sér stað í tímans rás. Að því leyti finnst mér að komið hafi verið til móts við þessi sjónarmið Vinstri grænna og það má gera enn frekar í framtíðinni. Það þarf ekki að gera svo mikið mál úr því hvort við fáum að tala nokkrum mínútum lengur eða skemur.

Ég vek í leiðinni, af því að ég er kominn í pontu, athygli á því sem ég hef gagnrýnt, a.m.k. á göngunum, að þegar alþingismenn leggja fram mál, þingmannafrumvörp, er óvíst hvort þau komast nokkurn tíma á dagskrá. Ég lagði fram mál í upphafi þingsins nú í haust. Ég er ekki enn búinn að flytja framsögu um það, það er ekki einu sinni komið á lista yfir það sem er á dagskrá. Það er fyrirsjáanlegt að einhvern tíma kemst það til 1. umr., kannski seint um síðir, þá fer það til nefndar og eftir það þarf að kalla eftir umsögnum. Það er því ljóst að flest þessara mála fá aldrei neina afgreiðslu eða umfjöllun. Þetta er virðingarleysi gagnvart hinum óbreytta alþingismanni.

Ég geri mér vonir um að með styttingu ræðutímans verði leiðin greiðari fyrir ýmis þörf mál sem hinn óbreytti þingmaður flytur. Forsendan fyrir því að við getum haft betra skipulag á störfum þingsins er að okkur sé í grófum dráttum ljóst hvað umræðan stendur lengi á hverjum degi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að menn geti lengt og tvöfaldað umræðu. Þingflokkar hafa heimild til þess tvisvar sinnum á vetri að krefjast lengri umræðu, fá tvöfaldan tíma, opnað hefur verið fyrir það að fjárlagaumræðan geti verið lengri og forsetinn getur sjálfur ákveðið lengri tíma ef þörf er á. Það er ekki verið að segja hingað og ekki lengra þegar þessar 10 eða 20 mínútur, eða hvað við erum að tala um, eru búnar. Enn er líka sá möguleiki til staðar að halda uppi svokölluðu „málþófi“ með 5 mínútna ræðum. Ég tók sjálfur þátt í málþófi á árum áður með góðum árangri sem kannski frægt er orðið. Ég er ekki að hreykja mér af því en ég gæti gert það sama þó að lögum verði breytt og ræðutími styttur. Menn gætu þá komið oftar upp og menn sem hafa þrek og úthald fara létt með að tala 10 sinnum í 5 mínútur í hvert skipti.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég nefna eitt enn sem mér finnst mjög áríðandi að komist til skila í þessari umræðu en það eru nefndirnar. Ég er þeirrar skoðunar að nefndir og nefndastörf séu einn mikilvægasti þátturinn í störfum Alþingis. Það sem blasir við almenningi úr ræðustól er á stundum skemmtun, á stundum til fróðleiks, oft nokkurs konar skylmingar sem margir hafa gaman af að horfa á. Í nefndunum takast menn hins vegar á og skiptast á skoðunum með vitrænum hætti. Þar er gögnum safnað saman og þar er farið yfir hlutina með faglegum hætti. Mér finnst að styrkja eigi stöðu nefndanna á Alþingi og opna þær jafnvel eftir atvikum, bjóða ekki einungis tilteknum umsagnaraðilum heldur fá einnig hluta almennings og íbúa til að eiga samræður við löggjafarvaldið.

Ég fór á mjög fróðlega ráðstefnu nýlega um svokallað íbúalýðræði þar sem fluttir voru gagnlegir og skemmtilegir fyrirlestrar. Þar töluðu menn um þá þróun sem er líka í gangi hér hjá okkur að almenningur er miklu upplýstari, hann kemur nær störfum okkar í gegnum tæknina en áður var, er meðvitaður um það sem er að gerast og hefur þekkingu og vitneskju með og á móti í flestum málum. Þingið á ekki að loka sig of mikið af. Við eigum ekki að vera eins og í sýningarglugga og tala í eina átt. Alþingi á að vera opnara og móttækilegra fyrir viðhorfum úti í þjóðfélaginu og það gerum við fyrst og fremst í gegnum nefndirnar. Ég hefði viljað sjá meira og betur um það fjallað í frumvarpinu en ég geri mér vonir um að á því sé hægt að taka í náinni framtíð. Reyndar er talað um endurskoðun eftir þrjú ár, við getum fetað okkur fram veginn og gert margt í millitíðinni. Þegar upp er staðið finnst mér þetta mál eiga rétt á sér og alþingismenn, ekki síst þeir sem hafa verið hér lengi, ættu að taka því vel. Ég segi af fullri vinsemd við ágæta kollega mína úr Vinstri grænum: Mér finnst óþarfi að hafa svona miklar áhyggjur af þessu.



[21:45]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skemmtilega og uppbyggilega ræðu og mörg áhugaverð sjónarmið sem hann lýsti. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hann sagði. Talað var af mikilli reynslu, sérstaklega þegar kom að málþófi því að hv. þingmaður man nú tímana tvenna í því og tilheyrði þá flokki sem var meistari málþófsins hér. Síðasti þingflokkur sem haldið hefur uppi umtalsverðu málþófi var þingflokkur sjálfstæðismanna, sérstaklega í stjórnarandstöðu á árunum 1988–1991.

Ég vil bara biðja menn um eitt, að fara nú varlega í samanburði þegar þeir eru komnir svo langt að þeir eru komnir til Strassborgar og farnir að bera saman 700 manna samkomu Evrópuþingsins þar sem menn hittast fjórum sinnum á ári í nokkra daga í senn. Það eru nú talsvert aðrar aðstæður en á fámennu þjóðþingi okkar Íslendinga og viðfangsefnin jafnframt ólík, menn reyna að vanda sig við lagasetningu og tryggja að mál fari hér ekki of hratt í gegn eða í of miklu óðagoti.

Ég get að mörgu leyti tekið undir með hv. þingmanni að ég sakna ekkert daganna þegar lengstu og mestu ræðuhöldin voru hér og næturfundir endalaust. Meðalhófið er þó stundum vandratað. Spurningin er hvar við eigum að sætta sjónarmiðin sem eru svo margþætt og tengjast ólíkum hlutverkum Alþingis sem er ekki bara lagasetningarstofnun heldur líka umræðuvettvangur, vettvangur skoðanaskipta, spegill kjörinna fulltrúa út í þjóðfélagið o.s.frv. Við þurfum því að hyggja að öllu saman.

Hér talaði nú sá maður sem að mínum dómi hefur haldið uppi einhverju árangursríkasta málþófi sem ég hef nokkurn tímann séð einn mann gera. Það var þegar hv. þingmaður, þáverandi forseti KSÍ, stoppaði af frumvarp til laga um að Öryrkjabandalagið fengi að taka upp talnalottó vegna þess að hann óttaðist að íþróttahreyfingin sæti eftir með sitt talnalottó og kom í veg fyrir að málið hlyti afgreiðslu. Það leiddi til þess að við forustumenn gerðum samkomulag um að taka sumarið í að reyna að sætta Öryrkjabandalagið og íþróttahreyfinguna, það tókst. Þessir aðilar hafa síðan staðið saman að lottóinu með glæsilegum árangri. Hv. þm. Ellert B. Schram er því (Forseti hringir.) talandi dæmi um hvað jafnvel einn maður getur ef hann hefur réttinn til þess.



[21:48]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka Steingrími J. Sigfússyni, hv. þingmanni fyrir að rifja þetta atvik upp. Það er ein af mínum stóru stundum hér á Alþingi. Ég held satt að segja, minn kæri vinur, að árangur minn hafi stafað af því af hversu miklu viti ég talaði, ekki hversu lengi ég talaði.

Ég rifjaði það upp fyrir okkur hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, varðandi Evrópuráðið í Strassborg, ekki vegna þess að ég gerði mér ekki grein fyrir að þar væri allnokkuð fleiri þingfulltrúar en hér, heldur vegna þess að ég tek eftir því — og vonandi höfum við báðir tekið eftir því — að sjö mínútur duga alveg.

Menn koma þar með stór, flókin mál, alþjóðlegs eðlis, mál sem snúast um mannréttindi, um heilögustu mál. Þeim tekst að gera skýra grein fyrir máli sínu og rökum á einum sjö mínútum, þeir þurfa ekki meira. Þá er spurningin: Þurfum við svona miklu, miklu meira en ræðusnillingarnir úti sem hafa atvinnu af því að flytja mál sitt?



[21:49]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að ræða hv. þingmanns á sínum tíma var mjög góð og röksemdafærslan prýðileg en það var líka síðasti dagur þingsins og beðið var eftir því að þingið næði að klárast. Þess vegna var nú gert samkomulag hér uppi á pöllunum þar sem við nafnarnir, ég og þáverandi forsætisráðherra, handsöluðum að stuðla að viðræðum íþróttahreyfingarinnar og Öryrkjabandalagsins yfir sumarið og lofuðum Öryrkjabandalaginu því að næðist ekki samkomulag þá skyldi það fá lög sín aftur fyrir jól. Samkomulagið náðist og þar við sat.

Það er alveg rétt, menn koma oft því sem þeir þurfa til skila á sjö mínútum, bæði á Evrópuráðsþinginu og annars staðar. Það er líka stundum þannig, meira að segja á þeirri stóru samkomu að þegar mikið er undir fá menn lengri ræðutíma. Það fékk t.d. Dick Marty þegar hann mælti fyrir sinni merku skýrslu. Sérstakir gestir þingsins fá allt upp í hálftíma þegar þeir fara yfir flókin mál. Það ræðst því allt af aðstæðum.

Þess vegna held ég að það snúist ekki um nein algild sannindi, um mínútur, heldur um sanngirni, um að finna meðalhófið í þessum efnum. Við á Alþingi Íslendinga hefðum betur reynt að (Forseti hringir.) þróa málið í sameiningu í þá átt sem við teljum að það eigi að fara en ekki berja hvert annað í höfuðið með aðferðum af því tagi sem hér hafa verið ástundaðar.



[21:50]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki spurning um hvernig maður stendur í pontunni og talar og talar. Það er spurning um að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þá sem hlusta og við fólk úti í þjóðfélaginu.

Ég held að sá sem ég er hér í andsvörum við sé kannski besta dæmið um það hvernig menn geta komið málstað sínum fram með snjöllum og stuttum tilsvörum. Einn besti ræðumaður þingsins þarf ekkert á því að halda að tala í marga klukkutíma.

Aftur að málinu með lottóið. Ég var að tala um vitið áðan en maður verður að líka hafa rétta tímasetningu. Fyrst þú talar um að þetta hafi verið á síðasta degi þingsins þá kemur enn einu sinni til snilli mín sem knattspyrnumanns, að muna eftir því að skora markið (Forseti hringir.) á síðustu mínútunni.



[21:52]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams. Ég heyri og finn að þar er mikill reynslubrunnur á ferð. Hann hefur starfað lengi á Alþingi, tekið þátt í félagsmálum eins og við mörg hver hér höfum gert.

Í máli hv. ræðumanns kom fram að reynsla hans væri sú, og mín reyndar líka, að langar ræður skiluðu ekki alltaf miklu í félagsmálum. Það gera hins vegar hinar stuttu, gagnorðu ræður sem eru rökrænar og þar sem farið er yfir hlutina.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Ellert Schram einmitt vegna ræðutímans sem verið hefur þó nokkuð til umræðu: Getur verið að ákveðnir flokkar þrífist bókstaflega á því að geta talað og talað burt séð frá því hvað þeir segja?

Getur verið að einstakir stjórnmálamenn nærist og lifi á því að vera í umhverfi sem þessu? Við þekkjum fullt af einstaklingum í félagsmálunum sem ástunda það. Þess vegna langar mig að spyrja að þessu: Getur verið að það sé nauðsynlegt ákveðnum stjórnmálaöflum að hafa þetta úrræði en fara ekki yfir málin með rökrænum hætti?



[21:53]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kjartan Ólafsson, takk fyrir góð orð í minn garð. Almennt er það örugglega svo, sem við báðir þekkjum úr félagsmálum, að til er fólk sem þrífst á því að tala mikið og lengi. Það gildir ekki bara í þinginu, það gildir í félagsmálum úti í bæ. Það gildir ekki bara um einn flokk, það gildir um alla flokka að fólk stendur upp bara til að tala.

Ég held að hér gildi sömu lögmál og á vettvangi fótboltans um hvort fólk þrífist, hvort það endist og hvort það gagnist. Menn geta talað og talað og svo ég taki aftur tilvitnun úr fótboltanum þá geta menn líka æft og æft en þeir eru aldrei neitt betri. Það endar með því að þeir komast aldrei í lið. Þar gilda sömu lögmál.



[21:54]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem fram kom í máli hv. þingmanns, að eitt af því sem nauðsynlegt er að gera breytingu á í þinghaldi er að efla starf þingnefnda og færa athugun og umræðu um mál meira úr þingsalnum í nefndirnar.

Eitt af því sem nefnt var í umræðunni í sumar og haust var að breyta þingsköpum á þann veg. Nefndastarfið yrði þá að nokkru leyti fyrir opnum tjöldum þannig að þar færu fram umræður um mál sem nefnd hefði til umfjöllunar. Þar mundi ráðherra jafnvel sitja fyrir svörum og skiptast á skoðunum við nefndarmenn og svara spurningum þeirra eða að þangað kæmu gestir sem væru málinu viðkomandi og ræddu við nefndarmenn um það.

Ég er alveg sannfærður um að það væri mjög til hins betra að taka upp þann sið. Því miður var ekki nægjanlegur stuðningur við þá hugmynd að þessu sinni til þess að hún næði fram að ganga í umræðunni.

Þó var lögð fram sú tillaga að mál fari til nefndar milli 2. og 3. umr. ef einn þingmaður, hið minnsta, óskar þess. Það dugar að einn þingmaður beri fram þá ósk, þá fer málið til nefndar til frekari athugunar. Ég held að það sé mjög til bóta og muni skila árangri. Auk þess verður hægt að þróa áfram breytingar í nefndastarfi án breytinga á þingsköpum. Hægt verður að brydda upp á opnum nefndafundum í þingnefnd. Menn ættu einfaldlega að taka höndum saman um að þróa þá hluti á næstu þremur árum, en þingsköpin verða endurskoðuð innan þriggja ára, og taka upp þessa nýjung hægt og varlega. Það er greinilegt að sumir þingflokkar eru varkárari í breytingum af því tagi en aðrir.



[21:56]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú engu að svara, engri spurningu var beint til mín. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir þau sjónarmið mín að efla þurfi stöðu og hlutverk nefndanna. Ég held að það sé eitt aðalviðfangsefni þingsins á komandi missirum því að þar er vettvangurinn.

Menn hafa stundum talað um rannsóknarnefndir þótt það hafi nú ekki enn þá ratað inn í þingsköpin eða fengist viðurkennt. Það gæti þá orðið vísir að einhverjum rannsóknum ef nefndirnar fengju meiri tíma og meira vægi og væru jafnvel fyrir opnari tjöldum en þær eru núna.

Þingsköpin og starf þingsins hafa að mörgu leyti komið í veg fyrir að nefndirnar hafi fengið nægilegt ráðrúm til þess að sinna verkum sínum. Fólk þarf auðvitað að hafa tíma til að lesa gögn, setja sig inn í mál og geta setið lengur en klukkutíma hverju sinni og rökrætt hlutina. Nefndirnar þurfa að fá það svigrúm.

Enginn vafi er á að vegur Alþingis mun styrkjast. Þau mál sem héðan eru afgreidd munu verða vandaðri og þingmenn sem eru í viðkomandi nefndum verða betur að sér. Þeir verða sterkari á svellinu, bæði inn á við og út á við. Þeir munu örugglega ávinna sér virðingu með þeim störfum þótt ekki sé allt til sýnis héðan úr ræðustól.



[21:58]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einnig kom fram í ræðu hv. þingmanns hvernig málum er hagað á Evrópuráðsþinginu. Ég hef setið þar undanfarin fjögur ár sem aðalmaður í Íslandsdeild Alþingis og þekki fyrirkomulagið og tek undir það sem fram kom í máli hv. þingmanns um það.

Þar er auðvitað líka tilgangurinn sá að ræða mál, skiptast á skoðunum og ljúka umræðu um niðurstöðu. Auðvitað á það að vera á öllum þjóðþingum, ekki bara á Evrópuráðsþingi þar sem þingmenn úr 47 Evrópuþingum koma saman. Þess vegna er fráleitt að hafa það fyrirkomulag sem hér hefur gilt, að þingmenn geti dögum saman haldið máli í gíslingu með innihaldslausum ræðum sem gera ekkert annað en að misbjóða réttindum annarra.

Af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallaði fram í ræðu hv. þingmanns að menn ættu kannski að athuga breytingar á þingsköpum frá síðustu öld, vildi ég koma því að, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að það er alveg rétt. Forsætisnefnd Alþingis lagði fram frumvarp um breytingar á þingsköpum árið 1999 með þeim tillögum um (Forseti hringir.) ræðutíma sem nú eru gerðar. Einn af flutningsmönnum var hv. þm. Ragnar Arnalds sem þá hafði setið 32 ár á Alþingi.



[22:00]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson nefndi eitt atriði að því er varðar 1. umr. Ég var þeirrar skoðunar að fara ætti þá leið að stytta tímann í 1. umr., eins og ég held að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafi nefnt, að menn komi hér og geri grein fyrir aðalatriðum máls og sjónarmiðum sínum án þess að fara í debatt út af því. Málið fari síðan til meðferðar í nefnd og þegar það kemur aftur hefur það verið lagað til og menn hafa tekið tillit til skoðana hver annars og þá getur hin raunverulega stjórnmálaumræða, um kosti og galla, farið fram.

Frumvarpið er ekki óskatillaga mín en engu að síður held ég að það sé skref í rétta átt.



[22:01]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er að mörg leyti að þróast út í mjög skemmtilegar umræður. Margt athyglisvert kom til að mynda fram í ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams þótt mér þætti hann gerast fullalhæfingarsamur á stundum þegar hann talaði um að ásýnd Alþingis væri eins konar ræðukeppni þar sem menn stunduðu skylmingar. Ég held að þetta sé nú kokteill af skylmingum og markvissum, iðulega mjög stuttum málefnalegum umræðum.

Ég vil taka sem dæmi að í dag hefur farið fram 3. umr. um erfðafjárskatt, olíugjald og kílómetragjald, aukatekjur ríkissjóðs, ársreikninga, kjararáð, fjarskipti, greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna, greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Við erum að vonast til að fleiri mál verði afgreidd úr nefnd og ég vísa þar sérstaklega til jafnréttisfrumvarps um jafna stöðu karla og kvenna sem hefur verið ákaflega vel unnið í nefnd, sem gildir einnig um hin málin sem ég nefndi. Ekkert þessara mála hefur kallað á langa eða ítarlega umræðu hér í þingsal vegna þess hve vel þau hafa verið unnin í nefnd og stuðlað að því að finna niðurstöðu sem allir geta sætt sig við. Hér eru einnig á dagskrá mjög umdeild mál. Við erum að ræða þingskapalög sem deilur standa um, breytingar á Stjórnarráðinu, breytingar á almannatryggingum, sem hafa kallað á lengri umræður. Við skulum forðast að gerast alhæfingarsöm.

Eins vil ég taka sem dæmi um hve varasamt er að gerast alhæfingarsamur um ræðutíma að þegar þingmál koma inn til 1. umr. gera menn í sumum tilvikum grein fyrir sjónarmiðum sínum á fáeinum mínútum, í öðrum tilvikum taka þeir ekki til máls einfaldlega vegna þess að þeir þekkja takmarkað til málsins, það er ekki fyrr en það er komið til nefndar sem það fær slíka efnislega umfjöllun að menn treysta sér í málefnalega umræðu. Í öðrum tilvikum getur verið gott að fá við 1. umr. allítarlega umfjöllun. Ég nefni umdeilt frumvarp um sölu á áfengi í almennum matvöruverslunum. Mikið var um það rætt hér í þinginu þar sem mjög margir tóku til máls og það gerðist, sem ég tel vera ákjósanlegt í lýðræðisþjóðfélagi, að þing og þjóð fóru að kallast á. Er það ekki gott? Ég tel að slíkt sé heppilegt fyrir þingið, fyrir þjóðina og fyrir málefnið að sjálfsögðu. Ég held því að menn eigi að forðast að gerast mjög alhæfingarsamir.

Þessi umræða í dag og undanfarna daga hefur verið mjög tilfinningaþrungin og hefur einkennst af ásökunum á báða bóga um vafasöm vinnubrögð. Annars vegar er Vinstri hreyfingin – grænt framboð sökuð um þvergirðingshátt, að vera þverplanki í vegi breytinga, og á hinn bóginn höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gagnrýnt meiri hlutann á þingi fyrir að vilja þröngva í gegnum þingið frumvarpi sem við eigum afar erfitt með að sætta okkur við.

Ef við nú gerum eitt, ef við nú reynum að skyggnast í gegnum þessa tilfinningaþoku alla og reynum að eygja það sem sameinar í stað þess sem sundrar, hvað kemur þá í ljós? Þá kemur í ljós að þingmenn eru í reynd að stefna að sameiginlegum markmiðum. Hver eru þau? Því hafa menn marglýst yfir. Jú, það er að bæta lagasmíðina, gera starfið hér markvissara, hafa það sveigjanlegt en jafnframt markvisst, og lýsa með því yfir að þeir vilji styrkja þingið og þá ekki síst stjórnarandstöðuna í þeim stjórnarskrárbundnu skyldum sínum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Þetta eru yfirlýst markmið allra. Hvers vegna nefni ég þetta? Jú, ef við gefum okkur að hugur fylgi máli þá er líka kominn grundvöllur fyrir sættir og fyrir samkomulag. Það er sú áhersla sem við höfum verið að hamra á hér í dag að við teljum góðar líkur á því að við getum náð samkomulagi og sátt.

Aðeins um ferlið, ekki bara undanfarna daga, vikur, mánuði, lítum til síðustu ára. Alþingi hefur verið að taka miklum breytingum. Eins og fram kemur í greinargerð með þingmáli okkar hefur þróunin heldur verið á þá lund að ræður hafa verið að styttast þegar allt kemur til alls, næturfundir eru ekki eins tíðir og áður var, því fer reyndar fjarri. Tímaáætlanir standast betur en áður gerðist. Jafnframt hefur framkvæmdarvaldið verið að styrkja sig í sessi, stjórnarmeirihlutinn hefur reynst ágengari gagnvart þinginu en áður var. Þetta eru meginþræðirnir í þróuninni.

Hvernig hafa þingskapalögin fylgt þessari þróun? Jú, þau hafa smám saman verið að taka breytingum. Grundvallarbreyting var gerð árið 1991, minni háttar breyting var gerð 1992, aftur 1993. Gerð var tilraun til breytingar, eins og hér var vísað í, árið 1999. Umræður héldu áfram. Síðan voru gerðar breytingar í byrjun þessa árs, 2007, og aftur í tengslum við breytingar á Stjórnarráðinu síðasta vor. Breytingarnar í upphafi þessa árs voru allumfangsmiklar, þó fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Það voru breytingar í 33 greinum þar sem verið var að laga þingskapalögin að þeirri þróun sem hafði átt sér stað af fúsum og frjálsum vilja vegna þess að þingið hafði verið að taka breytingum vegna breyttra starfshátta og vegna breytts vilja okkar. Við höfum nefnilega líka verið að breytast.

Mig langar til að segja litla reynslusögu af sjálfum mér, hvernig ég hef verið að breytast. Ég hef iðulega haldið því fram að Alþingi væri einhver þægilegasti og sveigjanlegasti vinnustaður sem ég gæti hugsað mér. Ekki svo að skilja að á þingmönnum hvíli ekki mikil ábyrgð og miklar vinnuskyldur, en þeir geta í talsverðum mæli hagað vinnutíma sínum eftir sínum kortum borið saman við ýmsar aðrar stéttir. Borið saman við einstaklinginn sem situr á símborðinu í fyrirtæki og verður að standa sína vakt allan daginn frá klukkan 8 til 4 og hugsanlega stunda yfirvinnu. Borið saman við vinnutíma fiskvinnslustarfsmannsins, sem stendur við færibandið allan daginn, er vinnutíminn sveigjanlegur og þótt menn þurfi að sinna skyldum sínum um jól, um sumar, um páska er þarna meiri sveigja en almennt gerist á vinnumarkaði.

Ég tók þessa umræðu — og hef oft haldið þessu fram — við ungt foreldri fyrir tæpu ári. Það var ung kona sem bjó ein með barnið sitt. Hún leiddi mig í sannleika um að ég fór villur vegar. Hún sagði: Þetta snýst ekki um sveigjanleika af því tagi sem þú ert að boða. Þetta snýst um barnið þitt, um heimilið þitt, að þú lagir vinnustaðinn að þörfum þess en knýir ekki barnið inn í þann sveigjanleika sem þú dáist svo mjög að, barnlaus maðurinn, börnin farin að heiman.

Ég skal segja það beint út að þetta breytti mjög viðhorfum mínum og ég fór að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Ég fór að hugsa á hvern hátt — og ég er ekki einn um þessa hugsun, þetta er hugsun sem við höfum verið að þróa áfram í okkar hópi í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og við fórum líka að hugleiða það sjónarmið sem hv. þm. Ellert B. Schram tefldi fram, sem er alveg hárrétt, að til þess að geta skipulagt vinnudaginn þarftu að vita nánar um ræðutímann, hve langar umræður verða. Það er alveg hárrétt, og við fórum að þróa hugmyndir okkar samkvæmt þessu tvennu, hvernig við gætum teflt þessu tvennu saman, að stytta vinnudaginn, laga hann að þörfum litla barnsins og fjölskyldufólksins, án þess að við glötuðum þeim markmiðum sem við viljum standa vörð um.

Hver eru þau? Þar vísa ég aftur í það sem við segjumst öll vera sammála um: Að tryggja vandaða lagasmíð sem þýðir að óvönduð lög og umdeild renni ekki áreynslulaust í gegnum þingið með hraði og án þess að þau fái málefnalega og vandaða umfjöllun. Að meiri hluti knýi ekki fram mál sem eru umdeild, pólitískt umdeild, sem kalla á umræðu í samfélaginu. Hvernig látum við þetta tvennt ríma saman? Það er þessum hugmyndum sem við tefldum inn í umræðu um breytingar á þingskapalögum og við höfum verið að gera það á undanförnum mánuðum, missirum og árum, hvernig við gætum fært næturfundi inn í dagsljósið, stytt vinnudaginn, lengt þinghaldið, náð markmiðum okkar um vandaðri vinnubrögð, vandaðri umræðu, en um leið þessum fjölskylduvænu áherslum. Þetta hefur verið verkefnið.

Þessar áherslur ríma nákvæmlega við það sem við heyrum nú frá starfsmönnum Alþingis. Í bréfi starfsmanna Alþingis til okkar er þessu einnig teflt fram vegna þess að þeir hafa áhyggjur af því að þær hugmyndir sem meiri hlutinn hér vill knýja í gegn gangi ekki upp gagnvart þeim. Þá spyr ég: Getum við virkilega talað um vönduð vinnubrögð og að hv. formaður allsherjarnefndar hafi sýnt geysilega þolinmæði og langlundargeð þegar í ljós kemur að hann hefur ekki einu sinni rætt við starfsmenn Alþingis, það fólk sem starfar hér undir okkar handarjaðri? Finnst mönnum það vera vönduð vinnubrögð, finnst mönnum það vera ásættanlegt? Nei.

Þá kem ég aftur að megináherslunni í máli mínu. Þingið er að þróast. Við erum að þróast og við eigum að gefa okkur tíma til þess að móta þessa þróun af yfirvegun. Þegar menn fóru að ræða þessa hluti í haust, menn hafa verið að gera það á undanförnum missirum, bæði í þingflokkum og að mjög takmörkuðu leyti en nokkru í hópi þingflokksformanna, fórum við sem sagt að tefla fram þessum hugmyndum um vinnutímann, að við værum sátt við að stytta ræðutímann ef við gætum þrengt að umræðunni hér, gert hana markvissari og komið í veg fyrir að mál rynnu áreynslulaust í gegn og án gagnrýni.

Þessum spurningum, þessum viðhorfum okkar, var að hluta til svarað mjög yfirborðslega, á þá lund að þingið skyldi að jafnaði standa til klukkan sjö eða átta, ljúka klukkan átta nema á þriðjudögum, þá mætti það vera til tólf. En vandinn var sá að þetta átti að vera á forræði forseta þingsins og meiri hlutans í þinginu. Tveir þriðju meiri hluta, sem er stjórnarmeirihlutinn hér nú, gat breytt þessu öllu, starfsmenn Alþingis benda líka á þetta, að þetta sé vafasamt. (Gripið fram í.) Þar gildir einfaldur meiri hluti. Með öðrum orðum, þessar grunnreglur, þetta grunnsjónarmið, sem er jákvætt, er mjög yfirborðslegt og heldur illa. Þegar ég kynnti þetta fyrir ungu konunni sem breytti mér og mínum viðhorfum spurði hún: Hvers vegna ekki klukkan fimm, hvers vegna lýkur deginum ekki klukkan fimm? Hvers vegna byrjar dagurinn í þingsal ekki klukkan níu? Hvers vegna er skipulag þingsins með þessum hætti? spurði hún.

Svar mitt var þetta: Þetta er byrjun. Ég tel að við eigum að sætta okkur við þetta sem byrjun og koma til móts við þá sem vilja fara þessa leið með því að byrja að þrengja að umræðunni. Byrjum á því að stytta 3. umr., sem nú er ótakmörkuð, styttum hana, gerum hana stutta og markvissa. Við lögðum upp með það að láta 2. umr. bíða. Þegar við stígum næstu skref í styttingu umræðutímans hér á þingi skulum við fara inn í 2. umr. Þetta var það sjónarmið sem ég kom margoft á framfæri.

Menn vildu ekki fallast á þetta. Menn vildu líka þrengja að 2. umr. Nú var úr vöndu að ráða, við vorum ein um þetta sjónarmið. Þá sögðum við: Við erum reiðubúin til samkomulags, að teygja okkur líka í þessa átt, að takmarka að einhverju leyti ræðutíma við 2. umr., að einhverju leyti, en það verður að ráðast af rammanum og reglunum sem settar eru að öðru leyti. Um þetta snýst deilan. Við vorum reiðubúin að teygja okkur mjög langt, í hjarta mínu finnst mér allt of langt, vegna þess að mér finnst það óskynsamlegt hve langt við vorum tilbúin — og ég líka með mínu samþykki — að teygja okkur, en við vildum gera allt til að ná samkomulagi.

Ef fara á þessar leiðir og ef ákvörðunarvaldið liggur hjá forseta þingsins væri allt önnur staða uppi ef forseti þingsins, verkstjórinn í þessu húsi, kæmi úr stjórnarandstöðunni, kæmi frá þinginu sem stendur hér gagnvart framkvæmdarvaldinu og á að gæta þess að framkvæmdarvaldið og stjórnarmeirihlutinn gerist ekki of ágengur gagnvart Alþingi. Þarna voru komnar hugmyndir og tillögur sem við tefldum einnig fram, bæði varðandi stjórn þingsins og einnig stjórn í nefndum. Við vorum ekki mjög afdráttarlaus hvað það varðar og sögðum: Jafnvel þótt við næðum ekki formennsku í nefndum fyrir stjórnarandstöðuna, gerumst ögn málefnalegri en við erum nú, nýtum reynsluna, horfum til reynslunnar, þingreynslunnar, og látum ekki skipta okkur eða draga okkur í dilka eftir stjórn eða stjórnarandstöðu. Það var hugsun sem við höfum teflt fram til málamiðlunar.

Þetta er umræða sem hefur verið að þróast og er að þróast og ég vil leggja áherslu á að við erum að breytast, við erum að taka breytingum og við eigum að taka á móti þessum breytingum saman en ekki með þeim hætti sem hér er verið að reyna að þröngva upp á okkur.

Aðeins um löngu ræðurnar og stuttu markvissu skoðanaskiptin. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum almennt miklu hlynntari snörpum umræðum en mjög löngum og langdregnum, að sjálfsögðu, þær eru skemmtilegri og ef menn eru í því sem sumir kalla pólitískar skylmingar, að koma sínum pólitísku sjónarmiðum á framfæri, getur það verið ágætlega árangursríkt. Hins vegar geta komið upp frumvörp sem kalla á ítarlega umræðu, frumvarp til laga um hegningarlöggjöf, lagabálkur um umhverfisvernd, ég tek þetta sem dæmi, sem getur kallað á ítarlega umræðu, ekki af hálfu allra þingmanna heldur hugsanlega tveggja, þriggja, þeirra sem best og gerst þekkja til mála. Það er þetta sem ég segi, menn eiga ekki að gerast of alhæfingarsamir.

Ég man eftir því þegar ég kom fyrst inn á vettvang verkalýðshreyfingar sem formaður BSRB og tók þátt í kjarasamningum þar sem öll aðildarfélög bandalagsins komu að málum og ég var spurður af viðsemjendum okkar hvort ég hefði bevís upp á vasann um að menn hefðu afsalað sér samningsumboði. Ég sagði nei. Hvernig get ég gengið út frá því að þið standið öll saman þegar á reynir? Þú getur ekki gengið út frá því á annan hátt en þann, svaraði ég, að við höfum viljann til þess. Við störfum saman af fúsum og frjálsum vilja en ekki í járnum. Það er þannig sem þróa á Alþingi Íslendinga. Við eigum að þróa starfið af fúsum og frjálsum vilja en ekki með þvingunum af því tagi sem við erum að verða vitni að hér.



[22:21]Útbýting:

[22:22]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég mun að mestu leyti halda mig við það að mæla fyrir breytingartillögum sem við þingmenn þingflokks Vinstri grænna flytjum saman, fara yfir þær og bera þær saman við efni frumvarpsins sem fyrir liggur og reyndar efni þingskapanna sjálfra sem ég gleymdi að taka með mér og einhver er kannski svo vænn að skutla í stólinn til mín, þ.e. bera gildandi þingskapalög saman við frumvarp forseta. Ég vil segja strax um þingskapalögin að þó að þeim hafi verið breytt og þar á meðal nú í vor talsvert tæknilega, eins og kom fram, er ég þeirrar skoðunar að þau eigi og hljóti að þurfa að vera áfram undir í vinnu hvað sem líður afgreiðslu þessa máls. Það á að tengja miklu metnaðarfyllri áætlun um að endurskipuleggja hér störfin og skoða þau ofan í kjölinn en enn liggur fyrir. Ég verð að játa það á mig eins og alla aðra sem hafa kannski haft aðstöðu til að hafa einhver áhrif að í tímans önn á undanförnum árum hefur það einhvern veginn lent í hálfgerðri útideyfu að Alþingi tæki sín eigin mál nógu föstum tökum og byggði betur að sjálfu sér. Ég held að Alþingi hafi ekki haft að þessu leyti nægan metnað fyrir eigin hönd og ég held að Alþingi hafi því miður, eins og vill verða, verið pínulítið spéhrædd stofnun og hrædd við að neikvæð umræða í fjölmiðlum og annars staðar mundi dynja á mönnum ef menn hefðu metnað og réðust í einhverjar myndarlegar og marktækar aðgerðir til að bæta virkilega starfsaðstæður og búa betur að þinginu, þingmönnum og ekki síst starfsfólki Alþingis og allri starfseminni hér. Það er þörf fyrir áframhaldandi störf í þessum efnum hvað sem líður meðferð þessa máls. Hvernig sem það verður afgreitt spái ég því að við sjáum ekki hér með fyrir endann á vinnu sem að þessu lýtur, bæði þingsköpunum sjálfum og ýmsu öðru sem tengist starfsemi Alþingis.

Ég verð þá fyrst að segja, virðulegur forseti, því miður að ég hef mikla ömun af því hvernig þetta mál hefur borið að og í hvaða farveg það er komið. Mér finnst mjög dapurlegt að ekki skuli takast betur til þegar Alþingi sjálft ræðir eigin vinnureglur og starfslöggjöf en hér hefur stefnt í, og stefnir í. Ég verð líka að segja fyrir mína eigin hönd sem einn af þingreyndustu mönnunum hér, væntanlega sá sem á eftir hæstv. félagsmálaráðherra hefur setið hér næstlengst samfellt, og lengst í heild, að mér finnst mjög dapurlegt eftir að hafa eytt hér rjómanum af starfsævi minni að þurfa að horfa upp á þingið í þessu ljósi, hvort sem það er gert innan frá sem gamalreyndur verkamaður hér eða utan úr samfélaginu. Það er kannski að sumu leyti gott að þjóðin er orðin upptekin við að baka fyrir jólin og ekki endilega að velta mikið fyrir sér hversu gott upplitið á því er að þjóðþingið sjálft skuli ekki ná að taka betur á og vera samstilltara í vinnubrögðum sínum þegar kemur að grundvallarleikreglum.

Ég vona að ég hafi í gegnum tíðina hér á þingi lagt mitt af mörkum og reynt að vinna vinnu mína sómasamlega. Svo mikið er held ég víst að ég mæti nokkuð vel og skrópa ekki mikið í vinnunni. Ég reyni að taka virkan þátt í störfunum og tel mig búa að þó nokkurri reynslu um það hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig og hvernig hið margslungna hlutverk þingsins og eðli þingmannsstarfsins mætist allt hér í einum punkti á vissan hátt innan veggja Alþingis, að ógleymdum þó þeim stóra hluta þingmannsstarfsins sem auðvitað liggur úti í samfélaginu, í samskiptum við kjósendur, þjóðina og þjóðarsálina. Mér finnst satt best að segja niðurlægjandi fyrir Alþingi að þetta skuli ganga svona fyrir sig.

Ég heimsótti þýska þjóðþingið fyrir nokkrum árum. Það var ákaflega lærdómsrík heimsókn og er þar að sjálfsögðu ólíku saman að jafna, hinum volduga Bundestag og Alþingi. Þó er ýmislegt sem má skoða og bera saman þó að stærðarhlutföll séu eins og þau eru og Þjóðverjar hafi sinn stíl á hlutunum og við okkar. Eitt vakti mikla athygli mína þegar forustumenn þýska þingsins, forseti þýska þingsins, fulltrúar í forsætisnefnd og forustumenn þingflokka á þýska þinginu, voru að ræða við okkur og við að bera saman bækur okkar og það var hvernig þeir nálguðust þingið sem fyrirbæri gagnvart þjóðinni og metnaðurinn og virðingin sem þeir lögðu í upplit þingsins og að yfir þeirri mynd sem þjóðin hefði af löggjafarsamkomu sinni væri reisn og virðuleiki. Þar á meðal sögðu þeir að það væri síðasta þrautaráðið, þegar öll önnur úrræði væri tæmd og öll sund lokuð, að bera á borð deilur uppi í þingsalnum, sérstaklega um málefni þingsins sjálfs, vinnubrögð, dagskrá, meðferð mála, umræður og annað slíkt. Vegna þess, sögðu þessir forustumenn á þýska þinginu, að við viljum ekki láta okkar þjóð horfa upp á það að sjálft þjóðþingið geti ekki leyst slíka hluti í góðu samkomulagi, haft reisn og virðingu yfir því sem þar er borið á borð og rætt er og gert í heyranda hljóði. Nú er auðvitað hinn þýski agi alþekktur og ég er ekki að segja að við eigum endilega að samsama okkur Þjóðverjum að öllu leyti, en það var þó ekki hægt að komast hjá því að verða dálítið snortinn af því hvernig þeir nálguðust þetta vegna þess að þetta snerist ekki um að kúga einn eða annan og þetta snerist ekki um einhverja harðstjórn heldur fyrst og fremst um virðingu og reisn, það skyldi leggja þessa hluti til grundvallar þegar menn ræddu málin á vettvangi formanna þingflokka í forsætisnefnd þingsins til að hafa sem bestan svip á hlutunum og ná samkomulagi eins lengi og frekast og þess væri nokkur kostur. Ég verð að segja að hvað varðar vinnuna að þessu máli hefðum við getað lært mikið af þýska þinginu, mjög mikið. Taki það til sín allir sem eiga, allir. Ég undanskil ekki sjálfan mig þar eða minn þingflokk.

Ég held að aðalógæfan í þessu máli sé sú að aðdragandinn að því frumvarpi sem hér hefur orðið að miklu deilumáli er ekki eins og hann hefði þurft að vera. Frumvarpið er sannanlega ekki samið af þverpólitískri nefnd með aðild allra þingflokka. Það er ekki heldur samið með aðild starfsmanna Alþingis. Það fæðist á einhvern mjög þröngan hátt og höfundarnir, eða kannski jaðrar við að nota megi þar eintölu, vinna það upp í hendur forseta sem leggur það síðan fram, kynnir það í drögum sem trúnaðarmál, fyrst í forsætisnefnd og svo miklu síðar á fáeinum fundum með formönnum þingflokka, og einu sinni óskaði forseti þingsins eftir fundi með mér sem formanni stjórnmálaflokks og reifaði lauslega við mig hugmyndir sínar um þessar breytingar. Einu sinni, í septembermánuði í haust ef minni mitt svíkur ekki. Þá þegar varaði ég forseta við því að vissar hugmyndir hans í frumvarpinu væru þannig að ég teldi öll tormerki á því að um þær gæti orðið sátt, a.m.k. af okkar hálfu. Þetta hefur þar af leiðandi forseti Alþingis a.m.k. vitað lengi hvað varðar afstöðu okkar í þingflokki Vinstri grænna. Ég held að það hafi verið mjög miður að þetta starf skyldi ekki vera sett af stað frá byrjun þannig að öll sjónarmið væru með, að frumvarpið sjálft væri samið af nefnd þingmanna allra þingflokka eða með aðild allra þingflokka og grunnurinn lagður þannig en ekki á því formi að fullbúið frumvarp birtist allt í einu í höndum forseta, og því miður fylgdu því næstum frá byrjun þau ummæli af hans hálfu að tvennu yrði ekki breytt, órjúfanleg tenging væri milli frumvarpsins og tiltekinna hliðarráðstafana sem hér hefur staðið til að gera, óverulegra að vísu, og varða fyrst og fremst starfsaðstæður þingmanna landsbyggðarkjördæmanna þriggja, minni háttar ráðstafanir sem tengjast nefndasviði Alþingis og aðstoðarmenn handa forustumönnum stjórnarandstöðuflokka.

Um þetta þrennt er það að segja að í fyrsta tilvikinu á við níu ára gamalt loforð sem hefur staðið upp á alla aðstandendur að efna. Ég hef ekki séð og sé ekki enn rökin fyrir því eða sanngirnina í því að spyrða það saman við breytingar á þingsköpum Alþingis, að efna nú loksins það loforð sem gefið var fyrir kjördæmabreytinguna 1999, að þegar til yrðu hin gríðarstóru og víðlendu landsbyggðarkjördæmi væri óumflýjanlegt að gera ráðstafanir til að auðvelda þingmönnum þar störfin við þessar landfræðilega erfiðu aðstæður og menn nefndu þá þegar sérstaklega hlutskipti þeirra sem yrðu einyrkjar, yrðu einir fulltrúar sinna flokka í þeim kjördæmum. Varðandi það að ráða eins og kannski þrjár viðbótarstarfsmenn á nefndasvið Alþingis eru þar ekki stórtíðindi á ferð, er það? Ekki ef haft er í huga að lengi hafa verið uppi hugmyndir um að efla þá starfsemi verulega. Hér hafa verið uppi hugmyndir um að stofna hagdeild eða hagskrifstofu, allt frá því að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Það hafa verið uppi hugmyndir um að styrkja nefndasviðið og Alþingi allt, t.d. með því að hér væri öflug ráðgjöf og þekking á sviði lögfræði til að meta lagaleg álitamál og ekki síst það hvort frumvörp stönguðust á við stjórnarskrá og fleira í þeim dúr.

Hér hafa lengi verið uppi hugmyndir um að efla starfsemi á bak við utanríkismálanefnd og þannig má áfram telja. Ráðning þriggja starfsemi, sem ekki einu sinni verða eyrnamerktir því að aðstoða stjórnarandstöðu sérstaklega, inn á nefndasvið, eru ekki stórtíðindi. Það er ekki heimsviðburður í mínum huga.

Í þriðja lagi hefur lengi verið rætt um að það væru að mörgu leyti ósanngjarnar aðstæður sem forustumenn stjórnarandstöðuflokka væru settir í, að kljást við keppinauta sína ríkisstjórnarmegin, formenn þeirra flokka sem jafnan eru ráðherrar, og aðstöðumunurinn ærinn. Ekkert er nú nýtt af þessu, ekki neitt. Ef raunverulegur vilji og samstaða er um að grípa til ráðstafana af þessu tagi gera menn það í krafti þeirra eigin ágætis og spyrða það ekki saman við aðra hluti, eins og þá hvernig við göngum frá leikreglunum hvað varðar umræður í þinginu og tilhögun funda og réttindi þingmanna sem eru lögvarin af þingsköpum.

Því miður hefur ekki að mínu mati reynst nægjanlegur vilji til að láta það fyrst og fremst ráða för hér í vinnunni að menn vilji og ætli sér að ná samstöðu. Nú ganga að sjálfsögðu ásakanirnar þar á báða bóga, eins og hér hefur komið fram, og við bætum okkur sjálfsagt ekki mikið með því að lengja umræður um það. En ég ætla bara að benda á eina til tvær staðreyndir sem ekki verða hraktar. Að slepptum örfáum dögum síðasta vor, eftir kosningar, er þetta þing nú á sínum fyrstu mánuðum. Við höfum verið hér síðan 1. október sl. Það er ekki langur tími á fjögurra ára kjörtímabili. Er einhver ástæða til að búa sér til heimatilbúna tímapressu og láta eins og það skipti sköpum hvort niðurstaða fæst í þessu máli einhverjum dögum, vikum eða þótt það væri einum til tveimur mánuðum fyrr eða síðar? Það er í raun það sem ræður för, menn eru ekki tilbúnir til að gefa því örlítinn viðbótartíma að láta reyna á það til þrautar hvort samstaða geti náðst.

Mér finnst það stórdapurlegt, sérstaklega vegna þess að ég hef býsna sterka sannfæringu fyrir því að þegar upp er staðið þurfi ekki að vera svo langt á milli sjónarmiða í þessu máli. Þetta er aðeins spurning um það hvort unnt er að finna flötinn og u.þ.b. svæðið þar sem menn gætu mæst með ólík sjónarmið. Við höfum alveg áttað okkur á því að við yrðum að ganga langt til móts við sjónarmið þeirra sem hafa viljað ganga harðast fram í því að takmarka umræður mjög verulega og í raun og veru gjörbreyta umræðuumhverfinu og réttindum þingmanna að því leyti frá því sem verið hefur. Það vill, finnst mér, stundum gleymast að við erum að fara úr þjóðþingi sem fyrir ekkert löngu síðan hafði ótakmarkaðan ræðutíma í öllum þremur umræðum um frumvörp og yfir í það núna að taka í einu skrefi það stóra stökk að loka alveg hvað tímamörkin snertir bæði 2. og 3. umr. Eins og hér kom fram áðan hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni spurðum við: Er ekki ágætisáfangi á þeirri leið að takmarka mjög verulega ræðutímann við 3. umr.? Fyrir því eru veigamikil efnisleg rök að það eigi ekki að þurfa að vera á kostnað neinna annarra markmiða vegna þess að þá er aðalumfjöllun og aðalefnisumræða og aðalrökræða yfirleitt búin um mál. Hún hefur farið fram við 1. umr. og þó sérstaklega 2. umr. sem er samkvæmt hefð og þingskapalögum meginefnisumræða um mál.

Menn vildu ganga lengra og við sögðum þá: Gott og vel, við skulum skoða það. Við höfum reynt að teygja okkur verulega í þá átt en þó viljað halda í a.m.k. ákveðinn rétt sem hægt væri að grípa til þegar mikið lægi við, þótt hann væri takmarkaður og bundinn við tiltölulega fá skipti kannski á hverju þingi.

Það hefur greinilega ekki dugað og hugur manna stendur fremur til þess að afgreiða þetta mál í ágreiningi og deilum og andstöðu við stærsta flokk stjórnarandstöðunnar en að gefa því meiri tíma að leita sátta. Það finnst mér mjög dapurlega niðurstaða, ég hef sagt það áður og get endurtekið það hér að mér finnst ábyrgð forseta Alþingis mikil í þeim efnum. Mér finnst hans hlutur ekki vaxa við það að þurfa að bera ábyrgð á því og hafa forustu um þessi vinnubrögð. Ég lít svo á að ein meginskylda forseta Alþingis, eins og allra annarra góða verkstjóra hvar sem er, sé sú að reyna að skapa sátt og andrúmsloft samvinnu og friðar á vinnustaðnum og ef það á einhvers staðar við ætti það að eiga við á sjálfu þjóðþinginu.

Ég þóttist skynja það þegar leið á nóvembermánuð að þetta mál væri að fara í ógæfulegan farveg. Ég reyndi að gera mitt til þess með ýmsum hætti að fá menn til a.m.k. að staldra við, þar á meðal forseta Alþingis, hvort ekki mætti t.d. bíða með það í einhverja daga eða sólarhringa að leggja málið fram í ágreiningi, hvort það væri ekki þess virði að skoða það aðeins betur. Ég kom þeim skilaboðum, og við fleiri, rækilega til skila, að við værum tilbúin til að reyna að teygja okkur áfram í átt til samkomulags. Ég vil líka láta það koma fram úr ræðustóli á Alþingi að ég hafði samband við forsætisráðherra. Nú er þetta mál að sjálfsögðu á forræði þingsins og ég er ekki að tala við forsætisráðherra vegna þess að hann eigi að fara að blanda sér í það. (Gripið fram í.) Nei, nú skyldi hæstv. forseti varast að grípa ógætilega fram í. Það er líka þannig að forsætisráðherra er verkstjóri stjórnarmeirihlutans og þetta mál snýst mjög verulega um þau samskipti, samskipti stjórnarandstöðu annars vegar, minni hlutans á þingi, og hinnar þingbundnu ríkisstjórnar og meiri hlutans sem að baki henni er hins vegar. Það vita allir sem eitthvað vita um þingræði að þannig er það. Ég hafði samband við forsætisráðherra og höfðum við þá ekki átt mörg persónuleg samtölin frá því að ríkisstjórn var mynduð í vor satt best að segja. Ég sagði sem svo við hæstv. forsætisráðherra: Mér finnst rétt og skylt að hæstv. forsætisráðherra viti af því í hvaða stöðu þetta mál er og að ég hef miklar áhyggjur af að það sé að fara í ógæfulegan farveg.

Ég var ekki að biðja um neitt, ég tók það fram, en ég veit vel að það reyndur er hæstv. forsætisráðherra að hann skildi skilaboðin. Ég gerði meira, ég talaði aftur við hæstv. forsætisráðherra hér fyrir eins og þremur sólarhringum og kynnti honum málamiðlunartillögur okkar, tók skýrt fram að þetta væru engir úrslitakostir af okkar hálfu, við værum tilbúnir að teygja okkur áfram og reyna að ganga jafnvel enn lengra ef það mætti verða til samkomulags, nákvæmlega sömu skilaboð og forseti Alþingis hefur margfengið og komið var skýrt á framfæri í allsherjarnefnd. Þetta hefur ekki dugað. Þetta eru allt staðreyndir sem ég rek hér. Ég vona að enginn maður reyni að vefengja orð mín í þessum efnum. Svo geta menn auðvitað haldið hér áfram gagnkvæmum ásökunum um að sáttavilja hafi skort, en það hefur þá bara sinn gang.

Ég rek þetta hér vegna þess að ég held að enginn hafi neina sæmd af því að þetta mál gangi til enda í þeim farvegi sem það er. Það mun enginn hafa neina sérstaka sæmd af því ef þessi breyting verður gerð í erfiðum ágreiningi og með afleiðingum sem eru ekki heillavænlegar upp á samstarfsandrúmsloft milli manna hér á þessum vinnustað. Það er bara þannig.

Því miður er það svo að þótt vissulega séu sumar tillögur til bóta, í þessu frumvarpi forseta og fleiri, eru þar aðrir hlutir sem ég óttast mjög að muni ekki reynast heillavænlegir og að þar sé farið offari og gengið of langt, sérstaklega í því umhverfi og vegna þeirra aðstæðna sem við erum stödd í nákvæmlega núna. Ég óttast að sumar þessar breytingar, þótt þær séu í orði kveðnu og sagt að þær séu gerðar af góðum hug til þess að styrkja Alþingi, betrumbæta löggjafarstarfið o.s.frv., geti snúist upp í andhverfu sína.

Valdahlutföll í þessari stofnun eru þannig, meiri hluti svo fjölmennur og völdum innan þingsins þannig dreift, eða öllu heldur ekki dreift, um þessar mundir að þar er allt á hendi meiri hlutans. Allt. Meiri hlutinn hefur meiri völd, sterkari stöðu, en hann hefur yfirleitt nokkru sinni haft. (KÓ: … kosningar.) Já, það sé vegna kosninganna, segir hv. þingmaður. En þegar menn fá mikil völd þurfa menn að kunna að fara með þau. Það er til hlutur, hv. þm. Kjartan Ólafsson, ef þú hefur ekki heyrt af því, sem heitir sanngirni. Það er til nokkuð sem heitir lýðræðisþroski og lýðræðisskilningur. Það er ákaflega gott að hafa það í farteskinu og muna eftir því, sérstaklega þegar menn eru við völd og eru í meiri hluta. Það er ekki eitthvað sem menn fengu um aldur og ævi af himnum ofan eins og einvaldskonungarnir trúðu forðum. Það reyndist ekki þannig því að einvaldskonungunum var steypt af stóli og almenningur tók til sín þau völd sem honum réttilega ber. Síðan kalla menn það lýðræði, í anda þess fallega orðs, að það sé lýðurinn, fólkið sem ráði.

Því skulum við ekki heldur gleyma, hv. þingmenn, að við erum ekki hér sjálfra okkar vegna, í okkar eigin umboði. Við erum fulltrúar kjósenda okkar og verkfæri þeirra á þessum stað. Þaðan sprettur valdið. Það kemur ekki innan úr brjóstum okkar sjálfra, ekki innan úr brjóstum ríkisstjórnar og ráðherra, ekki innan úr brjóstum forseta Alþingis eða meiri hlutans hverju sinni, heldur frá þjóðinni. (LB: Hefur einhver dregið það í efa?) Ja, maður veltir því stundum fyrir sér hvort menn séu eitthvað ryðgaðir í þessum hlutum þegar maður stendur frammi fyrir vissum hlutum sem tengjast meðferð og skilningi þeirra á valdinu.

Hver er staðan hér? Hún er sú að meiri hlutinn eru 43 þingmenn af 63. Það þýðir að þeir eru meira en tveir þriðju og geta veitt sjálfum sér afbrigði gagnvart öllum ákvæðum þingskapanna. Ég játa það fúslega að það hefur haft umtalsverð áhrif á mat mitt á þessu máli að við stöndum í þeim sporum nú. Það hefur þegar reynt á að núverandi meiri hluti er ófeiminn við að nota þetta vald og veita sjálfum sér slík afbrigði. Það er erfitt að þurrka þá staðreynd út úr huganum að þannig er staðan. Hvað þýðir þetta? Jú, þetta þýðir m.a. það að sá sólarhringafjöldi að lágmarki sem þingsköpin ella tryggja að mál sé a.m.k. til umfjöllunar á leið sinni í gegnum þingið gildir ekki ef meiri hlutanum býður svo við að horfa.

Hver er staðan varðandi forustustörf í þinginu? Hún er sú að ekki bara forsetinn, sem hefur gríðarlega umfangsmikið og jafnvel vaxandi vald samkvæmt frumvarpinu, kemur frá meiri hlutanum, heldur fyrsti varaforseti líka, sem er afar óvenjulegt og helgast af því sama, að meiri hlutinn er svo fjölmennur og hann kaus að nota þann styrk sinn til að sækja sér líka fyrsta varaforseta Alþingis. Það þýðir að meiri hlutinn þarf ekki að deila forsetavaldinu með neinum öðrum en sjálfum sér nema ef svo ólíklega vildi til að bæði forseti og fyrsti varaforseti væru forfallaðir samtímis. Það er staðreynd sem við verðum líka að horfast í augu við, sem skipum þennan fáliðaða minni hluta, að ég tali ekki um okkur Vinstri græn, þá 9 þingmanna stjórnarandstöðu sem birtist a.m.k. í þessu máli.

Hver er staðan gagnvart forustu í þingnefndum og alþjóðanefndum? Hún er líka einsdæmi. Það þarf að fara langt aftur, hygg ég, til að finna stöðu þar sem meiri hlutinn hefur kosið að skammta sjálfum sér hverja einustu formennsku og varaformennsku í fastanefnd, hverja einustu formennsku og varaformennsku í alþjóðanefnd. Að vísu voru ekki margar undantekningar frá reglunni á síðasta kjörtímabili en þó að minnsta kosti ein mjög fræg, núverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, var sýnt það mikla traust að vera formaður sendinefndar Íslands á NATO-þinginu. Það voru kannski engin ósköp og ekki öfunda ég hann af því en hann var þar samt. Það sýnir að einhvers staðar í örlitlum afkima var sú hugsun að kannski gæti stjórnarandstaðan komið að einhverju, einn og einn maður. Ef við förum lengra aftur munum við þá tíma þegar reynt var að skipta formennsku í fastanefndum og alþjóðanefndum nokkuð sanngjarnt á milli þingflokka og á milli meiri hluta og minni hluta.

Þetta þurfum við að hafa í huga út frá þeim verkefnum, því stjórnskipulagi sem hér er og hinu mikla valdi forsetans. Við þurfum líka að hafa þetta í huga þegar við ræðum hið fjölþætta hlutverk Alþingis og muna að Alþingi er ekki bara afgreiðslustaður. Ég hrökk við áðan þegar ég, að vísu í gegnum sjónvarp á neðri hæðinni, hlustaði á ræðu og einn ræðumanna talaði um afköst, að með styttingu ræðutímans væri ætlunin að auka afköst Alþingis. Þá fór ég að hugsa: Bíddu, er það kannski þannig sem einhverjir nálgast þetta? Að þetta snúist um afköst í skilningnum magn? Að þetta gangi greiðar fyrir sig, hraðari afgreiðsla? (Gripið fram í: Vönduð vinnubrögð.) Ég held að hugtakið afköst sé mjög hættulegt hér. Afköst er fyrirbæri sem menn tengja við iðnaðarframleiðslu, færibönd og framleiðni á færiböndum frá Marel eða einhverju slíku (Gripið fram í: Hver talaði um afköst?) Það gerði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Ég held að menn þurfi að fara mjög varlega gagnvart öllu slíku og muna eftir því að það er ekki magnið heldur gæðin sem skipta máli, þ.e. að lagasetningin sé vönduð, að hér verði ekki mistök, að öll sjónarmið fái að koma fram og að menn gefi sér a.m.k. sæmilegan tíma til að huga að málunum, rannsaka þau ofan í kjölinn, að menn séu móttækilegir fyrir utanaðkomandi sjónarmiðum, leyfi umsagnaraðilum að koma sjónarmiðum sínum að, kallist á við þjóðina um málin. (Gripið fram í.) Þetta er fyrst og fremst það sem snýr að hlutverki Alþingis sem löggjafarvalds og kannski fjárstjórnarvalds. Þá er alveg ónefndur sá þátturinn sem er Alþingi sem helsti pólitíski umræðuvettvangur í landinu, vettvangur pólitískra skoðanaskipta. Þá er ónefndur sá þáttur sem snýr að því, óháð lagasetningu, að Alþingi standi sterkt gagnvart framkvæmdarvaldinu og veiti því aðhald. Hvernig búa menn best um að það sé tryggt? Er það með því að meiri hlutinn, sem ber ábyrgð á sama framkvæmdarvaldi, ráði hér öllu? Getur einhver fært málefnaleg rök fyrir því að þannig sé best búið um aðhald löggjafarvaldsins að framkvæmdarvaldinu, að sá hinn sami meiri hluti og ríkisstjórnin starfar í skjóli af fari með öll völd, allt forræði. Nei, auðvitað ekki, (Gripið fram í: Þetta frumvarp …) það gengur ekki upp. (LB: Þetta frumvarp mun ekki breyta því.) Það gengur ekki upp, hv. þingmaður. Nei, en það þyrfti kannski að gera það. Ég tala nú ekki um ef slíðra á beittasta brandinn sem stjórnarandstaðan hefur yfirleitt haft í sínum höndum og bítur helst þegar á reynir. (LB: Það er óheft málfrelsi.) Það þarf ekki að vera óheft málfrelsi en a.m.k. réttur til að veita andóf og sýna viðspyrnu þannig að færibandið gangi ekki á margföldum hraða.

Það má ekki gerast vegna þess að Alþingi má aldrei breytast í færiband fyrir umdeild, flókin eða illa unnin mál framkvæmdarvaldsins né mál þingmanna. Enn síður ætti Alþingi að láta nokkurn mann sjá að það afgreiði sín eigin mál öðruvísi en að undangengnum vönduðum undirbúningi, rækilegri skoðun og hefði gefið sér góðan tíma til að fara yfir málin.

Ég vil einnig nefna að Alþingi og starfsreglur þess, lög um þingsköp og það hvernig við stöndum að málum, er ekki okkar einkamál. Þess vegna undrast ég að menn skuli varla telja það rökræðu virði að hafna því að frumvarp um grundvallarstarfslöggjöf Alþingis geti farið til umsagnar í þjóðfélaginu, að ástæða geti verið til að kalla til skrafs og ráðagerða sérfróða aðila sem Alþingi hefði gagn af að bera sig saman við. Er það vegna þess að menn líta svo á að starf og starfshættir Alþingis séu einkamál þess, að þjóðinni komi það ekki við, að engum úti í þjóðfélaginu komi það við? Nei, vonandi ekki. Þá held ég að menn séu á hálum brautum, að horfa ekki á þetta með gagnstæðu hugarfari og segja: Það varðar auðvitað þjóðina miklu hvernig hér er staðið að málum. Við viljum hlusta á sjónarmið, ef einhver eru, þaðan.

Hvaða aðilar hefðu t.d. verið, að mínu mati, gagnlegir til skrafs og ráðagerða um þetta mál í nefnd eða á hvern hátt sem það hefði verið gert? Jú, það hefðu getað verið fræðimenn á sviði stjórnsýsluréttar, stjórnmálafræði, úr háskólasamfélaginu og víðar að. Það hefðu að sjálfsögðu getað verið sérfræðingar og forustumenn úr heildarsamtökum í landinu, sem eiga margvísleg samskipti við Alþingi og sækja hagsmuni sína mikið undir það. Ég tel að það væri að mörgu leyti áhugavert að ræða þá hluti við fulltrúa fjölmiðla, t.d. Blaðamannafélags Íslands. Hvernig upplifir fjölmiðlaheimurinn þingið og samskipti sín við það og öfugt? Það væri kannski þess virði að halda einn fund um slíkt, því ekki? Það var ekki gert, ekki talin ástæða til. Menn hæla því sem sérstaklega sem vönduðum vinnubrögðum og ítarlegri og rækilegri skoðun að allsherjarnefnd hafi verið með málið til skoðunar í nokkra sólarhringa. Er það ekki satt? Er það ekki staðreynd? Jú, það held ég.

Við, frú forseti, leggjum fram viðamiklar breytingartillögur. Ég ætla að nefna nokkrar þær helstu. Þær tengjast mjög þeim rökstuðningi og þeirri umfjöllun sem ég hef farið yfir. Ég skal reyna að fara hratt yfir sögu.

Við teljum að frumvarpið eins og það er nái alls ekki tilgangi sínum og sumar breytingar þess geti snúist upp í andhverfu sína, muni ekki styrkja þingið heldur hið gagnstæða. Sumir hlutar frumvarpsins eru í mótsögn við aðra og yfirlýstan tilgang málsins, t.d. ákvæðin um fundartíma, sem ég kem betur að.

Í breytingartillögum okkar á þingskjali 525 leggjum við til, í fyrsta lagi, og þar er nú ekki langt gengið, að þegar þannig háttar til að forseti Alþingis kemur úr röðum meiri hlutans, sem er hefðin hér á Íslandi, komi fyrsti varaforseti jafnan úr röðum minni hlutans. Það er þá a.m.k. þannig að forsetinn þarf að ráðgast við sinn nánasta og næsta samstarfsmann sem kæmi úr hinni fylkingunni. Auðvitað fyndist mér koma mjög vel til greina að gefa fyrsta varaforseta sérstaka stöðu í þingsköpunum og að kveðið sé á um að forseti og fyrsti varaforseti, sem jafnan kæmi úr gagnstæðri fylkingu, ættu með sér sérstakt samráð, t.d. um ákvörðun dagskrár, fundarboðun og fleira í þeim dúr. Þó yrði að vera, ef ágreiningur yrði uppi, að þá réði forseti hvort sem þeim ágreiningi væri lýst eða ekki.

Í öðru lagi leggjum við til að breyting verði gerð á 1. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um fundartíma. Þar segir m.a. að reglulegir fundir, samkvæmt starfsáætlun, í frumvarpinu, skuli ekki standa lengur en til átta síðdegis en frá því megi þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um eða ef þingið samþykkir, samanber 67. gr. Hvaða grein er það? Það er greinin um einfaldan meiri hluta, að einfaldur meiri hluti atkvæða ráði.

Svo segir:

„Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli, virðulegur forseti? Þetta þýðir það að forseti Alþingis getur hvenær sem er borið upp tillögu um að lengja fund og honum nægir til þess einfaldur meiri hluti stjórnarmeirihlutans, eða hluta hans, hverju sinni. Þetta ákvæði er í undarlegri mótsögn við yfirlýstan tilgang málsins, að búa til fyrirsjáanlegri og reglulegri ramma um fundastörfin. Hvaða hald er í því að setja í lög að fundir skuli jafnan vera búnir klukkan átta ef hvenær sem er og fyrirvaralaust er hægt að breyta því? Halda menn ekki að hætta verði á að forseti, undir þrýstingi frá ráðherrum meiri hlutans eða einhverjum öðrum um að drífa hlutina áfram, freistist til að grípa til þessa ákvæðis? Hvað hafa menn þá unnið með því, ef fimm mínútum fyrir átta á kvöldin er allt í einu tilkynnt að fundurinn standi í þrjá, fjóra tíma áfram eða hvað það verða margir klukkutímar í viðbót? Við leggjum til að forseta sé skylt, komi það til greina að tillaga kunni að verða flutt um lengri fund, að gera viðvart um það um miðjan dag og þurfi, ef svo má orða það, að flagga, eins og sagt er á máli kauphallarhéðna, og gera mönnum viðvart þannig að bæði þingmenn og starfsmenn Alþingis og aðrir sem málið varðar fái a.m.k. nokkurra klukkutíma ráðrúm til undirbúnings mögulegum lengdum fundartíma.

Í þriðja lagi leggjum við til varðandi kosningar í fastanefndir og alþjóðanefndir, að þó að þær fari fram samkvæmt sömu reglum og um þær gilda í dag, skv. 14. og 35. gr., þá skuli koma þarna inn leiðbeinandi ákvæði um það að jafnan sé leitast við að ná samkomulagi sem tryggi sanngjarna og hlutfallslega eðlilega dreifingu viðkomandi forustustarfa milli þingflokka og milli meiri hluta og minni hluta á hverjum tíma. Þarna er ekki gengið svo langt sem vissulega kæmi til greina, að flytja inn í þingsköpin ákvæði um að það skyldi kjósa hlutfallskosningu af heildarlista samkvæmt vali og d´Hondt-reglu og þá væntanlega þannig að stærsti flokkurinn eða þingflokkurinn veldi sér þá nefnd sem hann fyrst vildi taka, síðan næsti og koll af kolli. Þannig er að sjálfsögðu nauðaeinfalt að búa út kosningareglur sem tryggja ósköp einfaldlega hlutfallslega dreifingu forustustarfanna í þingnefndum í samræmi við þingstyrk flokka og meiri hluta og minni hluta. En hér er valin sú leið af því að væntanlega mundi mönnum þykja þetta róttæk breyting frá núgildandi ákvæðum, að setja inn leiðbeinandi reglu sem við mundum að sjálfsögðu treysta að yrði reynt að hafa í heiðri eftir að hún væri komin í lög.

Við leggjum í fjórða lagi til að sett verði inn ákvæði um almennan rétt þingmanna til að fá upplýsingar um opinber málefni og frá opinberum aðilum leiti þeir eftir slíku starfa sinna vegna. Þótt það sé vissulega þannig að almennt séð er þingmönnum vel tekið þegar þeir bera sig eftir gögnum og upplýsingum úr ráðuneytum eða opinberum stofnunum eða hjá almannasamtökum eða hvar það nú er, þá verða því miður líka stundum brögð að hinu að það er mikil tregða til að veita þingmönnum, jafnvel þingnefndum á Alþingi sem slíku, slíkar upplýsingar. Stundum er hægt að sækja þær eftir öðrum leiðum með formlegum fyrirspurnum, með því að beiðast skýrslu o.s.frv. en það er dálítið krókótt leið ef þetta snýst kannski fyrst og fremst um að fá einhver einföld, almenn eða opinber gögn. Það væri því tvímælalaust til bóta að setja inn leiðbeinandi reglu sem styrkti rétt og stöðu þingmanna að þessu leyti og reynslan sýnir að það er full þörf fyrir það.

Við lögðum það til í allsherjarnefnd og við leggjum það sömuleiðis til í breytingartillögu að ræðutími við 2. umr. fjárlagafrumvarps, hinn almenni ræðutími, skuli alltaf vera tvöfaldur og einnig að unnt sé að lotuskipta umræðunni eftir helstu efnisflokkum til að auðvelda skoðanaskipti þingmanna og ráðherra. Þessa breytingartillögu hefur meiri hlutinn að vísu að hluta til tekið upp í breytingartillöguskjali sínu og má kannski segja að málflutningur okkar við 1. umr. sem og tillögur okkar sem við spiluðum inn í allsherjarnefnd hafi að því leyti til náð þarna sumpart fram að ganga.

Við flytjum í breytingartillögum okkar nýja töflu um viðmiðunarræðutíma sem ég vísa til að öðru leyti og þar eru tímamörkin allmiklu rýmri en þau sem aðstandendur frumvarpsins leggja til í frumvarpinu og rýmri en þær breytingar eða þrátt fyrir að þær breytingar yrðu gerðar sem meiri hlutinn flytur tillögu um sem eru reyndar mjög óverulegar, þá er þar talsverður munur á. Það er vissulega alveg rétt sem hér hefur verið á bent að þar er talsverður munur á. Vil ég þá leggja áherslu á að tillögur okkar eru þær málamiðlunartillögur sem við lögðum fram. Þær ber ekki endilega að skoða sem óskafyrirkomulag okkar í þessum efnum en við vildum standa við í formi þeirra breytingartillagna sem við flyttum, þær tillögur og þann grundvöll til málamiðlunar sem við höfðum lagt fram. En þar til viðbótar viljum við að það sé á valdi hvers þingflokks að óska eftir því a.m.k. fjórum sinnum á hverju þingi að ræðutími við 1. og 2. umr. máls sé tvöfaldur eða við síðari umræðu þingsályktunartillögu og einu sinni geti þingflokkur á hverju þingi gripið til einhvers konar neyðarréttar sem við getum kallað svo og fengið því framgengt að 2. umr. um frumvarp eða síðari umræða um þingsályktunartillögu færi fram í tveimur ótímabundnum umræðum. Það er kannski ástæðulaust að nefna einhver dæmi um mál sem maður gæti hugsað sér að þessum rétti yrði beitt gagnvart en ég get þó nefnt t.d. ef hér kæmi fram tillaga til þingsályktunar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þar væru einn eða fleiri flokkar sem væru í minni hluta og réðu ekki dagskrá og fundahaldi á þingi í sérstöðu með því máli eða á móti, það skiptir ekki máli, þá gætu þeir gripið til þessa réttar í ljósi þess hvað málið væri gríðarlega viðamikið og afdrifaríkt og knúið fram slíka umræðu. Ætli einhverjum þætti það óeðlilegt, skaðlegt fyrir lýðræðið, vont fyrir Alþingi eða þjóðina að slík söguleg stórmál gætu fengið allt aðra og ítarlegri umfjöllun en önnur? Menn kunna að vísa til þess að forseti hafi heimildir til að lengja umræður og allt þetta og það sé þá í öllu falli hægt að tvöfalda hana en það kynni að þykja nokkuð magurt ef annað yrði ekki í boði og aðstæður væru kannski þannig hér að það einasta sem einhver hópur þingmanna, einn tveir þingflokkar í minni hluta t.d. ættu í sínum fórum eftir væri neyðarréttur af þessu tagi, og er þá eitthvað óeðlilegt eða ólýðræðislegt við að hann sé til staðar? Nei, það held ég ekki og ég er reyndar þeirrar skoðunar að einhver slík vörn fyrir málfrelsið ætti að vera í stjórnarskrá lýðveldisins sem verði að þessu leyti rétt þingmanna svipað og gerist í finnsku stjórnarskránni.

Við leggjum í sjöunda lagi til að síðari málsliður a-liðar 15. gr. frumvarpsins falli niður. Þar á að koma inn í þingsköpin — mér liggur við að segja læða inn í þingsköpin samkvæmt frumvarpi forseta og fleiri — algeru nýmæli sem ekki hefur áður verið í þingsköpum á Alþingi, sem sagt því að mismuna megi þingflokkum hvað varðar ræðutíma eftir stærð. Þetta er mál sem er auðvitað oft rökrætt með heitum tilfinningum bæði hér og annars staðar, spurningin um það hvort sjónarmiðið á að ráða þegar menn nálgast reglur, ræðurétt, málfrelsi í svona tilvikum að fullt jafnræði gildi milli talsmanna ólíkra sjónarmiða óháð stærð eða stærðarhlutföllin eigi að hafa þar eitthvert vægi. Þessu er skipað með mismunandi hætti á mismunandi stöðum. Það er vissulega rétt sem haldið er fram í greinargerð frumvarpsins að þetta þekkist í umræðum en hin reglan er þó ekki síður algeng. Hér var nefnt Evrópuráðsþingið, stór samkoma. Þar hafa flokkahópar jafnan rétt sem hópar utan um mismunandi sjónarmið en þeir eru gríðarlega ólíkir að stærð. Norðurlandaráð, þar er réttur flokkahópa til umræðna þegar kemur að tímalengd framsögumanna og talsmanna, jafn og eru þeir þó mjög ólíkir að stærð. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefur utanríkisráðherra Íslands sama ræðutíma og utanríkisráðherra stórþjóða. Menn skyldu því fara varlega í að halda að það sé óumdeild regla að skipa þessu svona. En það hefur lengi blundað áhugi á vissum stöðum, bæði innan þings og í nágrenni við það, á að reyna að koma þessari reglu inn þannig að einnig þarna komi til aflsmunur hins stóra gagnvart minnihlutasjónarmiðum eða hvað við kjósum að kalla það, meiri hlutans gagnvart stjórnarandstöðunni.

Við leggjum til í áttunda lagi að þröskuldurinn til að veita afbrigði hækki úr tveimur þriðju í þrjá fjórðu. Það þarf nánast ekki að rökstyðja þá tillögu í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru á þingi nú að svo óvenjufjölmennur meiri hluti situr að hann getur ella skammtað sér afbrigði sjálfur og upphafið alla þá fresti og þá öryggisventla eða varnagla sem þingsköpin eiga að tryggja gagnvart því að mál fái ekki óhóflega flýtiafgreiðslu í gegnum þingið. Ég vísa aftur í þá sérstöku töflu um ræðutíma sem er í breytingartillögum okkar og er í veigamestu atriðum ólík þeirri sem meiri hlutinn leggur fram, að við leggjum til að við 1. umr. gildi í tveimur fyrri umræðunum óbreyttur ræðutími um frumvörp, þ.e. þær 20 og 10 mínútur sem gilda í dag. Við sjáum ekki sérstök rök fyrir því að það þurfi að stytta hann. Má ég þá minna á að í gildandi þingsköpum er óskilyrt heimild til að tvöfalda þann ræðutíma sem auðvitað hverfur ef þessar breytingar verða gerðar þannig að einnig að þessu leyti er verið að takmarka geysilega ræðutíma og ræðuréttindi við 1. umr.

Við leggjum til að almennur ræðuréttur ráðherra og þingmanna annarra en framsögumanna nefndarálita við 2. umr. verði 40 mínútur og 20 mínútur og síðan 5 ef haldnar eru fleiri ræður í stað 20 og 10 eins og meiri hlutinn leggur nú til í breytingartillögum sínum og telur sig þar hafa komið mikið til móts við okkur. Þó að hreyfingin sé í þá átt þá er hún ekki mikil, 5 mínútur á hvorum stað og bilið alllangt þarna á milli en við föllumst hins vegar á að ræðutími við 3. umr. sé sá sem frumvarpið upphaflega bar með sér enda höfðum við áður lýst okkur reiðubúin til þess að takmarka þann ræðutíma verulega. Aðrar breytingar á ræðutíma í tillöguskjali okkar eru mjög óverulegar og að mestu leyti getum við fallist á þá tímatöflu sem að öðru leyti gildir um þingsályktunartillögur, skýrslur og í þeim dúr.

Loks leggjum við til, virðulegi forseti, að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða og það ákvæði feli í sér ákvörðun um úttekt á starfsemi og starfsháttum Alþingis, starfsaðstöðu þingmanna jafnt sem starfsmanna og hlutverki og stöðu Alþingis í nútímasamfélagi eða samfélagi nútímans. Við viljum að þessu starfi stýri starfshópur eða nefnd fulltrúa allra þingflokka ásamt fulltrúum frá yfirstjórn Alþingis og Félagi starfsmanna Alþingis. Við leggjum sérstaka áherslu á það að þessir hlutir verði eftirleiðis unnir í góðri sátt og í samstarfi við almenna starfsmenn þingsins og þeirra félag en á því virðist því miður hafa orðið umtalsverður misbrestur samanber það sem fram kemur í umsögn Félags starfsmanna Alþingis sem sent var til allsherjarnefndar og fylgir með nefndaráliti okkar.

Þetta eru þær breytingartillögur sem við flytjum, virðulegi forseti, og ég held að þær skýri sig og rökstyðji sig í veigamiklum mæli sjálfar. Þær eru allar hugsaðar þannig að þær tryggi betur viðunandi jafnvægi innan þingsins, dreifi betur völdum allt frá valdi forsetans a.m.k. þannig að 1. varaforseti komi þá jafnan úr röðum minni hlutans sé forseti úr hópi meirihlutamanna. Að forustu í þingnefndum og alþjóðasendinefndum sé betur dreift, að þeir frestir og þeir öryggisventlar sem þingsköpin eiga að fela í sér séu til staðar áfram með því að þröskuldurinn fyrir veitingu afbrigða hækki. Þar með teljum við að það sé verulega dregið úr þeirri hættu sem ella blasir auðvitað við að þingsköpin breytt eins og forseti leggur til búi til háskalegan farveg fyrir flýtiafgreiðslu mála í gegnum þingið, að sjálfsögðu þá og því aðeins og fyrst og fremst ef óbilgjarn og harðsækinn meiri hluti kýs að beita valdi sínu þannig. En ætli það séu ekki einhver fordæmi fyrir því bæði úr skammtímaþingsögunni og lengra aftur og ætli ekki sé hætt við að það sem einu sinni hefur gerst eða reyndar margoft gerst á Alþingi geti gerst aftur, að stjórnblindur meiri hluti og ríkisstjórn hafi ekki endilega mikla samúð með því að þingið sé eitthvað að móast við þegar menn telja sig þurfa að koma málum áfram og það fljótt og vel.

Virðulegur forseti. Ég fer að ljúka máli mínu, enda tel ég mig hafa farið yfir það sem ég ætlaði mér að gera og gaf upp að ég mundi gera í ræðu minni, að rekja breytingartillögur okkar. Ég held að það væri verulega mikill annar svipur á niðurstöðu þessa máls ef lending gæti orðið eitthvað í áttina að því sem við erum að leggja til í breytingartillögum okkar og ég tala ekki um ef það gæti tekist um það sæmileg sátt. Það er nú þannig að góðir hlutir gerast gjarnan hægt og þeir mega gjarnan þróast hægt og oft er það heppilegt fyrir alla aðila að málin eigi sér dágóðan meðgöngutíma og gerist í skynsamlegum og yfirveguðum áföngum.

Ég spyr mig að því, herra forseti: Hvað er að því að menn taki þessa hluti áfram í einhverjum skrefum eins og reyndar hefur verið gert, t.d. með því að setja tímamörk á 1. umr. fyrir mörgum árum og þrói það áfram? Menn hafi í huga að þingið þróast sjálft óháð þingsköpunum og hefur gert það, ræðutími og starfshættir hafa breyst heilmikið án þess að það hafi verið þvingað fram með þingskapalagabreytingum. Ef menn telja síðan og komast að þeirri niðurstöðu, hafandi kannski tekið skemmri skref í þessum efnum, að ekki hafi verið nóg að gert er auðvelt að breyta því. Það er mjög auðvelt að ganga lengra í næstu umferð og takmarka ræðutíma enn frekar eða gera einhverjar aðrar þær breytingar á þingsköpunum sem menn vilja þá gera.

Hitt er alveg ljóst að ég held að það væri ákaflega torsótt að sækja málin í hina áttina, ég held að breytingar í þá átt verði mjög torsóttar við hvaða aðstæður sem eru uppi. Ég sé það seint fyrir mér að stjórnarmeirihluti á Alþingi verði við einhverjar aðstæður ginnkeyptur fyrir því að auka réttindi stjórnarandstöðu af þessu tagi á nýjan leik. Ég á ekki von á því að það verði auðsótt mál, a.m.k. ekki á meðan þeir flokkar eru fyrirferðarmiklir og ráða miklu sem standa að þessu máli.

Að lokum verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér finnst dapurlegt að málin skuli vera að festast í þeim farvegi sem raun ber vitni. Mér finnst þetta heldur leiðinleg stund fyrir Alþingi, að það skuli lenda í því að standa svona að verki þegar það er að taka á sínum eigin málum, sínum eigin starfsreglum. Ég held að það sé svo sem aldrei neitt sérstaklega góður svipur á því, hvorki inn á við né út á við, þegar hér logar allt stafna á milli í deilum. En við tökum því og skiljum það þegar hér fara í gegn og eru til umfjöllunar stórpólitísk deilumál sem eru eiginlega dæmd til að lenda í ágreiningi vegna þess að það liggur í eðli stjórnmálanna að menn eru ósammála um slíkt, einkavæðingu velferðarþjónustu eða hvað sem það gæti verið.

Það er sorglegt að menn skuli þurfa að lenda í slíkum deilum um það sem við gætum kannski kallað faglegt mál þingsins og á að geta verið algerlega hafið yfir flokkapólitík að mér finnst, af því að hér á engin önnur nálgun að gilda en sú sem tekur útgangspunkt í lýðræðislega þroskaðri hugsun af metnaði og virðingu fyrir því sem hér er gert, sanngirni og vilja til að ná saman.

Ég hlýt því að harma þessa niðurstöðu, mér eru hún mikil vonbrigði, ég dreg enga dul á það. Ég er ekkert að skorast undan minni ábyrgð og minna félaga í því, við erum að sjálfsögðu aðilar að þessari deilu, það dylst engum. En ég á þó erfitt með að sakast eitthvað við sjálfan mig í þeim efnum vegna þess að ég tel að við höfum komið heiðarlega og málefnalega fram og við séum að leggja hér fram okkar áherslur, tölum fyrir þeim og rökstyðjum þær þannig að menn eigi að geta tekið því, verið okkur ósammála eða sammála eftir atvikum og ekki að þurfa að hafa um það einhverjar óskaplegar hrakspár eða heimsendadóma.

Ég mun að sjálfsögðu taka gleði mína hvernig sem þessu máli reiðir af og að sjálfsögðu mun stjórnarandstaða hvers tíma glíma við störf hér í þinginu á grundvelli þeirra leikreglna sem gilda og auðvitað leynast oft ýmis úrræði í málum af þessu tagi þó að menn sjái þau ekki endilega strax. Það var hér ágætur maður sem einu sinni var formaður í þingnefnd og þar böksuðu menn mikið við að setja skattalög og þá sagði sá hinn sami gjarnan: Já, já, við erum að setja lögin núna en svo á skattgreiðandinn næsta leik. Hann finnur oft leiki, skattgreiðandinn, og það gerir komandi stjórnarandstaða örugglega líka. Ég get a.m.k. lofað hv. þingmönnum því að við munum gera okkar besta, hér eftir sem hingað til, til þess að halda uppi vaskri og málefnalegri stjórnarandstöðu meðan það er okkar hlutskipti.

Svo ætla ég sannarlega að vona að við berum gæfu til þess, þegar við lendum hinum megin víglínunnar og eigum aðild að meiri hluta, hverjir sem þá verða þar í verkum, að við munum sýna mikinn skilning og þroska í samskiptum okkar við minni hlutann og átta okkur á því grundvallareðli lýðræðisins að það er ákaflega mikilvægt að gera það. Annars eru þeir hlutir ekki í góðu sambandi.

Pútín Rússlandsforseti og hans félagar eru svolítið að flaska á þessu. Þó að menn hafi haft jafnvel ágæt orð um kosningar þar eystra held ég að ekki verði sagt að þar hafi menn sýnt mikinn lýðræðisþroska og skilning í verki, t.d. í samskiptum við veikburða andstöðu sem þar hefur verið að reyna að tala rödd lýðræðis og frjálsra skoðana, t.d. flokkur skákmeistarans Kasparovs. Við stöndum auðvitað með honum og okkur finnst sárt hvernig hann er leikinn, er það ekki? En við þyrftum kannski stundum að líta okkur aðeins nær og þurfum ekkert endilega út í heim, alla leið til Rússlands, til þess að tilefni gefist til að velta fyrir okkur grundvallarviðfangsefnum af þessu tagi. Hvernig umgöngumst við vald, hvernig lýðræðisþroska sýnum við í framgöngu okkar í stjórnmálum hér innan lands, í samskiptum okkar á þessum vettvangi? Er það endilega víst að það sé allt til fyrirmyndar? Mér finnst það ekki hafa verið í þessu máli. Það urðu mér umtalsverð vonbrigði en ég á erfitt með að finna einhverja sök í eigin brjósti í þeim efnum. Ég set ábyrgðina annars staðar, á höfunda og helstu aðstandendur þessa máls og þar fer fyrir forseti Alþingis.



[23:23]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi í niðurlagi ræðu sinnar um meðgöngutíma máls af þessu tagi. Eins og raunar kom fram í fyrri hluta ræðu hans, og hefur komið fram áður hér við umræðuna, eiga þær tillögur sem er að finna í frumvarpinu sér langan aðdraganda eins og hv. þingmaður þekkir gjörla. Þær tillögur um ræðutíma sem eru settar fram í frumvarpinu eiga sér rætur í frumvarpi sem kynnt var á þingi 1999 og hafa komið upp reglulega síðan í umræðum, þar á meðal á síðasta þingi þegar gerðar voru viðamiklar breytingar á þingsköpum. Á fyrri stigum þess máls var líka verið að ræða ræðutímann en það var ekki inni í hinum endanlegu tillögum.

Allt frá því að þetta mál bar á góma í sumar hefur verið ljóst að verulegur ágreiningur væri um ræðutímamál og þar hefur flokkur hv. þingmanns haft mikla sérstöðu og óþarft að rekja það. En í ljósi þess að málamiðlunartónn hefur heyrst í hv. þingmönnum Vinstri grænna nú á allra síðustu sólarhringum er rétt að rifja upp að svo seint sem þann 3. desember hélt Vinstri hreyfingin – grænt framboð blaðamannafund þar sem höfð voru uppi verulega stór orð í sambandi við takmarkanir á ræðutíma og hrópað hátt um skerðingu málfrelsis, mannréttindi og ég veit ekki hvað. Í yfirlýsingu sem var kynnt á þeim fundi er talað um að þegar sjónarmiðin hafi komið fram, eða (Forseti hringir.) forseti bent á ræðutíma, og málfrelsi skorið niður við trog, eins og segir í tilkynningum vinstri grænna, hafi Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki verið til umræðu (Forseti hringir.) um að afsala sér slíku vopni.



[23:25]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, og við erum það ekki. Ef ganga á svo langt í þeim efnum að við teljum það óásættanlegt erum við það ekki og það er ekki verslunarvara af okkar hálfu. Við áttum okkur alveg á því að eigi að takast samkomulag í þessum efnum þurfum við að fallast á einhverjar takmarkanir umfram það sem okkur þætti gott en það eru mörk fyrir því hvert við erum tilbúin til að ganga í þessum efnum. Þá er betra og mér líður betur með það að aðstandendur þessa frumvarps hafi það þá á samviskunni að hafa afgreitt það í ágreiningi við mig heldur en að ég standi að því. Ég ætla ekki hér, væntanlega frekar ofarlega á mínum þingmannsferli, að gera eitthvað sem stríðir gegn samvisku minni í þessum efnum, það er algerlega á hreinu.

Varðandi söguna er rétt að hv. þingmaður hafi það í huga að um frumvarpið sem var kynnt, sem var sýnt, 1999 var ágreiningur og sá ágreiningur var ekki bara í röðum þeirra sem ekki stóðu að flutningnum heldur var vitað að í þingflokkunum á bak við forsætisnefndarfulltrúana var heldur ekki samstaða svo að því sé til haga haldið. Þetta hef ég kannað með samtölum við tiltekna flutningsmenn málsins og ég fullyrði að ég fari rétt með. Það var fjarri því að um það mál væri einhver samstaða þá. Og hvað gerðu menn? Menn létu kyrrt liggja. Það hvarflaði ekki að þeim mönnum sem þá voru aðstandendur málsins að reyna að knýja það í gegn í ágreiningi. Auðvitað hefði verið hægt þá, nákvæmlega eins og núna, að lengja Alþingi um einhverja daga og troða málinu í gegn ef meiri hluti hefði fundist fyrir því, en það gerðu þeir ekki, Ólafur G. Einarsson og félagar sem að flutningi málsins stóðu, þannig að þar er ólíku saman að jafna.

Þetta snýst um málfrelsi, hv. þingmaður, ræðuréttindi, málflutningsréttindi þingmanna, það er deginum ljósara. Við vitum auðvitað að hann getur ekki verið ótakmarkaður og hann hefur aldrei verið það. En reglurnar hafa verið þannig lengi að menn hafa haft rétt til að flytja tvær ræður án tímatakmarkana. (Forseti hringir.) Það er takmarkaður ræðuréttur, takmarkað málfrelsi en það er þó rúmt.



[23:27]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti, nokkur atriði. Ég geri mér grein fyrir því að það frumvarp sem var lagt fram 1999 var umdeilt og rengi ekki að það var umdeilt í fleiri flokkum en þeim flokki sem nú er Vinstri grænir, hygg að hafi verið óháðir á þeim tíma ef ég man rétt.

Staðreyndin er hins vegar sú að þessar tillögur hafa verið lengi í gerjun, það var það sem ég var að benda á. Þessar hugmyndir hafa verið lengi í umræðu, hafa átt sér langan meðgöngutíma og allan þann tíma hafa af og til komið upp umræður um þetta, m.a. á síðasta kjörtímabili þó að ekki væri farið fram með frumvarp að þessu leyti. Hæstv. núverandi forseti þingsins hefur lagt fram þessa tillögu og hefur frá því á sumarmánuðum verið að ræða þessi mál við formenn þingflokka, formenn flokka, forsætisnefnd og fleiri aðila. Þetta mál hefur átt sér langan aðdraganda, það er ekki eins og það detti hér af himnum ofan eða eigi að koma mönnum á óvart.

Það sem hefur hins vegar verið athyglisvert í þessu er að á síðustu missirum hefur alltaf strandað á Vinstri grænum sem hafa dregið línu í sandinn, ef svo má segja, um að ekki eigi að takmarka ræðutíma með þeim hætti sem tillögur hafa gengið út á. Vinstri grænir hafa í rauninni einangrast mjög mikið í þeirri afstöðu sinni. Það er kannski í ljósi þess og í ljósi þess hvernig sá flokkur hefur einangrast í þessu máli sem hann hefur talið sig knúinn til þess nú á síðustu dögum að leggja fram einhverjar tillögur um nokkrar takmarkanir með þeim hætti sem voru kynntar t.d. hér á þriðjudag.

Aðalatriðið í þessu máli er það að eftir sem áður verður málfrelsi þingmanna tryggt með margvíslegum hætti. Möguleikar manna til að koma sjónarmiðum að verða ekki skertir, menn verða bara að gera það í styttra máli en áður.



[23:30]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það ekki samboðið hv. þingmanni að vera að ýja að hlutum eða næstum að vera með dylgjur í okkar garð af því tagi sem hér voru uppi áðan vegna þess að hv. þingmaður veit að við byrjuðum strax í haust að gera grein fyrir því, og gera forseta viðvart um það, hvert við værum tilbúin til að reyna að teygja okkur í þessum efnum án þess að setja nokkurn tíma fram neina úrslitakosti í því. Það er einfaldlega rangt, það er ekki rétt með farið af hv. þingmanni, annaðhvort vegna þess að hann veit ekki betur eða kýs að haga máli sínu með þessum hætti, að halda því fram að það sé nýtilkomið að við höfum boðið upp á að reyna að leita sátta og málamiðlana í þessu máli. Það höfum við gert frá byrjun.

Það er hins vegar rétt að við höfum haft umtalsverða sérstöðu í því að við höfum viljað standa fastar vörð um það sem við teljum vera mikilvægan hluta af réttindum þingmanna og minni hluta og stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Ég segi það bara aftur sem ég sagði í morgun, að við upplifum okkur í þessari stöðu þannig að við séum hér, því miður ein, að reyna að standa vörð um réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðu að þessu leyti. Og það er gríðarlega mikilvægt að einhver geri það því að ekki er það í þágu lýðræðisins að allir gefist upp í þeim efnum og velji bara þægindin.



[23:31]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Atli Gíslason, fulltrúi okkar í allsherjarnefnd, fór fyrr í kvöld vel yfir afstöðu þingmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og kynnti nefndarálit og breytingartillögur sem við leggjum fram í því máli sem við nú ræðum, breytingar á lögum um þingsköp Alþingis.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður okkar, fór yfir aðkomu sína að málinu og síðasti ræðumaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, gerði rækilega grein fyrir þeim breytingartillögum sem við leggjum fram. Í sjálfu sér ætti ég því ekki að þurfa að hafa um það mörg orð en sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í forsætisnefnd vil ég þó lýsa skoðunum mínum á vinnu forsætisnefndar og forseta þingsins við undirbúning málsins.

Margoft hefur komið fram að árið 1999 var að störfum nefnd sem átti að skila af sér breytingum á þingsköpum Alþingis. Sú nefnd vann að miklu leyti þann grunn sem hér liggur fyrir að frumvarpi til laga sem við fjöllum um. Ekki náðist samkomulag í nefndinni, sem var skipuð fulltrúum allra flokka, og frumvarpið var aldrei lagt fram. Það var kynnt en náði ekki lengra.

Ég tel að undirbúningur að frumvarpinu beri keim af því að ekki var skipuð sérstök nefnd um málið. Gildir þá einu hvort það hefði verið forsætisnefnd, blönduð nefnd eða einhver annars konar nefnd, en skipa hefði átt sérstaka nefnd til að leggja fram hugmyndir eða tillögur að breytingum á þingsköpum Alþingis, ef þingheimur teldi ástæðu til að breyta þeim. Það er ekki eins og mörg ár séu frá því að þingsköpin voru yfirfarin og þeim breytt, í mars síðastliðnum og nú í sumar voru gerðar á þeim breytingar. En á þinginu hafa líka verið að mótast hefðir um þingstörf sem eru á skjön við þingsköpin ef maður les þau bókstaflega, og eins hefur ýmislegt verið að breytast, bæði úti í þjóðfélaginu og hér í þinginu, sem hefur vakið menn til umhugsunar um að ástæða sé til að skoða allt vinnuumhverfið, gera það líkara því sem gerist úti á vinnumarkaðnum eða gera vinnustaðinn a.m.k. fjölskylduvænni bæði fyrir þingmenn og starfsfólk. Það var því vissulega ástæða til að fara í þessa vinnu.

Ég tel að undirbúningurinn hafi verið nokkuð laus í reipunum með þeirri aðferð sem viðhöfð var — hæstv. forseti þingsins hélt utan um vinnuna, lagði frumvarpsdrög fyrir forsætisnefnd og þingflokksformenn, viðraði hugmyndir sínar og leitaði eftir skoðunum annarra. Þrátt fyrir að hæstv. forseti hafi lýst því yfir — og ég trúi því að hann meini það — að hann vilji efla þingið, styrkja það gagnvart framkvæmdarvaldinu og vanda enn frekar til vinnubragða við lagasetningu, náði hann ekki að laða fram margvíslegar hugmyndir sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum farið yfir, bæði í flokkshreyfingunni og eins í þingflokknum, um það með hvaða móti hægt er að styrkja þessa stofnun. Það veitir svo sannarlega ekki af.

Það kom líka strax fram hjá hæstv. forseta að þetta væri allt einn pakki, að styrkja stöðu þingsins með því fjölga starfsmönnum á nefndasviði um þrjá, eins og rætt hefur verið við afgreiðslu fjárlaga, að bæta vinnuskilyrði formanna stjórnarandstöðuflokkanna með aðstoðarmönnum og styrkja starf þingmanna í dreifbýliskjördæmunum — að þessar breytingar væru algjörlega bundnar breytingu á þingsköpunum og þá sérstaklega ræðutíma.

Þegar farið var yfir drögin benti ég á að ég teldi að líta ætti á þetta sem tvo aðskilda hluti. Við viðurkenndum það öll að stórlega þyrfti að bæta starfsaðstöðu þingmanna og þingsins sjálfs með því að styrkja nefndasviðið, bæta sérfræðiþjónustuna, sérstaklega hvað varðar fjárlagagerðina, og eins þyrfti vinnustaðurinn að verða fjölskylduvænni. Langeðlilegast hefði verið að byrja á þessu, við gætum tekið hálft kjörtímabilið, eitt til tvö ár, í að koma þessum breytingum á hér innan húss, það hefði ekki kallað á breytingar á þingsköpum. Við hefðum getað tekið þetta í skrefum og séð hvernig sú styrking hefði breytt vinnubrögðunum. Á þeim tíma hefði verið hægt að ná samkomulagi innan þingsins meðal þingflokka um að stefna að markvissari afgreiðslu eða ræðum í þingmálum og reyna að semja um ræðutíma einstakra þingmanna í viðkomandi máli til að reyna að halda betur utan um hlutina, og eins hefði stjórn þingsins getað haft í huga að setja ekki svo mörg mál á dagskrá að töf verði á afgreiðslu vegna þess að ekki tekst að ljúka henni. Það hefur viljað brenna við að dagskráin hefur verið óeðlilega löng miðað við eðlilega umræðu, þannig að það er margt sem hefði mátt skoða án þess að breyta þingsköpunum.

Ef ræðutíminn hefði verið tekinn í skrefum, eins og fram kom í máli mínu í forsætisnefndinni, og sérstaklega með tilliti til þess hvað þingmeirihlutinn er sterkur, hefði verið eðlilegt að byrja á því að takmarka 3. umr. Það gat verið í samræmi við tillögurnar en geyma 2. umr., sjá hvernig mál þróast, hvort við getum ekki reynt að stilla okkur af varðandi 2. umr. Þegar við skoðum ræðutímann, þess vegna mörg ár aftur í tímann, er það í einstaka hitamáli að ræður hafa verið haldnar í einhverja klukkutíma. Það hafa verið mjög umdeild mál, sem hafa verið mjög heit pólitískt og sem mikill ágreiningur hefur verið um bæði innan þings og utan. Í slíkum málum er ótakmarkaður ræðutími eina vörn eða vopn fámenns minni hluta.

Valdahlutföllin í þingsalnum hafa, að því er ég tel, aldrei verið jafnóhagkvæm stjórnarandstöðunni og nú. Samkvæmt þingsköpum og samkvæmt frumvarpinu sem liggur frammi getur þingmeirihlutinn valtað yfir allar þær varnir og girðingar sem eru í þingskapalögum og eiga að hindra að hægt sé að rúlla í gegn umdeildum stjórnarmálum á færibandi. Með svo sterkum þingmeirihluta er líka hægt að veita afbrigði á færibandi. Einmitt við slíkar aðstæður hefði ég talið rétt og sanngjarnt að takmarka ræðutímann í áföngum eftir því sem við hér á þinginu stæðum saman að því að styrkja þingið sem stofnun, og við þurfum að halda áfram að gera það.

Ekkert í frumvarpinu tryggir betur lýðræði innan stofnunarinnar hvað varðar formennsku stjórnarandstöðunnar í nefndum eða meiri aðkomu að stjórn þingsins. Við erum svo óralangt frá starfsumhverfi og lýðræðislegum viðhorfum og vinnubrögðum annarra Norðurlanda að við getum ekki einungis horft á ræðutímann þegar við berum okkur saman við þau. Við þurfum líka að hafa í huga að ekki eru nema 63 þingmenn á íslenska löggjafarþinginu miðað við u.þ.b. 200 þingmenn á hinum Norðurlöndunum. Það segir sig sjálft að á 200–250 manna þingi er meiri þörf á að stytta ræðutímann en á 63 manna löggjafarsamkundu.

Hæstv. forseti. Ég lýsti því yfir við forseta þingsins á síðasta fundi, þegar við ræddum þær tillögur sem þá lágu fyrir, að ég harmaði að leggja ætti málið fram í ágreiningi. Ég tel mikilvægt að við stöndum saman um allt sem snýr að löggjafarvaldinu, að þinginu sjálfu og þingstörfum, að við stöndum saman um að stuðla að góðum vinnubrögðum og efla virðingu okkar gagnvart þinginu og þjóðarinnar gagnvart þinginu. Við ættum að stíga þau skref sem við getum öll gengið og bíða aðeins með þau næstu.

Ég tel mikilvægt að strax í vetur verði sett á laggirnar nefnd innan þingsins, eins og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gerum tillögu um, sem geri úttekt á starfsháttum þingsins og starfsaðstöðu, ekki bara þingmanna heldur starfsmanna, og með hvaða hætti hægt sé að styrkja stofnunina enn frekar en nú er gert og með hvaða hætti hægt sé að standa enn betur að vandaðri lagasetningu en nú er.

Ég sé ekki að sterkar girðingar séu settar gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað varðar tímasetningar eða framlagningu frumvarpa sem koma inn á þingið, eins og hefur verið, á síðustu stundu, greinilega illa unnin, oft án samráðs við viðkomandi aðila — þingið hefur fengið slík frumvörp til afgreiðslu eftir tilskilinn tíma, afgreitt þau í nefnd með svo stuttum fyrirvara að ekki hefur verið hægt að senda þau út til umsagnar. Ég nefni sem dæmi frumvarp um almannatryggingar, stórt mál sem ekki var hægt að senda út, þar er jafnvel verið að kalla viðkomandi fulltrúa á fund nefndar að kvöldi og um helgar án þess að þeir hafi haft möguleika á að undirbúa sig almennilega eða skila inn skriflegum greinargerðum og umsögnum. Ég sé ekki að neitt í frumvarpinu forði okkur frá vinnubrögðum af því tagi og með svo sterkan meiri hluta sem nú er og ef vilji er fyrir hendi er hægt að veita slíkum frumvörpum afbrigði og rúlla þeim í gegn eins og gert var í sumar.

Ég tel óráðlegt af hæstv. forseta þingsins að leggja svo ríka áherslu á að ljúka afgreiðslu þessa máls fyrir jól, það var líka óráðlegt að setja þetta fram sem einn pakka, hafa breytingar hvað varðar fjölgun starfsmanna á nefndasviði og aðstoðarmenn fastbundnar því að breyta þingsköpum og ræðutíma. Margt í þessum breytingum snýr að nýju og breyttu vinnulagi sem við erum fylgjandi. Við höfum bent á að æskilegt sé að skipta þingtímanum betur upp, að betri tími gefist til þess fyrir þingmenn landsbyggðarkjördæma að komast heim í héruð, að sinna því hlutverki að vera fulltrúar héraða sinna og kjósenda, og að það sé mikilvægt fyrir nefndirnar að hafa betri tíma til vinnu. Við tökum því undir þær tillögur sem fram koma í frumvarpinu um að breyta vinnutíma þingsins. Að öðru leyti hefði verið rétt að fara þá leið sem við óskuðum eftir, að fresta ákveðnum hlutum fram yfir áramótin og reyna til þrautar að ná sátt. Við höfum lagt fram fjölda tillagna um að styrkja þingið enn frekar og við höfum viljað gera það í þessum áfanga, ekki bíða með það, þó að ég telji að styrkja þurfi þingið enn frekar. Ég tel að nýta hefði mátt tímann þar til eftir áramótin til að reyna að ná betri sátt hvað varðar þingsköpin, en því miður fór þetta svona.

Ég hvet eindregið til þess að strax verði sett á fót sérstök nefnd sem hugi að þessum málum og leiti leiða til að styrkja þingið enn frekar í þá átt sem við höfum sérstaklega nefnt og sem lýtur að öðrum þáttum en ræðutíma þingmanna annars staðar á Norðurlöndum.



[23:53]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, mikið átakamál eins og komið hefur fram í ræðum þingmanna. Upp í hugann koma ýmsar sögur og ýmis atvik frá átta ára þingreynslu þeirrar sem hér stendur. Það gæti verið gaman að skiptast á svolitlum reynslusögum, nokkrar hafa komið fram í ræðum þingmanna í dag. Sannarlega búa þingmenn yfir mikilli reynslu í þessum efnum og menn hafa ýmsa fjöruna sopið í átökum sem hér hafa farið fram. Það sannast fyrir mér aftur og aftur sem góður vinur minn sagði þegar hann komst að því að ég væri að gefa kost á mér í kosningum til Alþingis en þá sagði hann: „Já, ætlarðu að fara út í pólitík, hún er skrýtin tík þessi pólitík.“ Hún er það vissulega, hæstv. forseti.

Þegar við ræðum um Alþingi Íslendinga, sem er vinnustaður okkar sem hér störfum, staður þar sem við verjum mér liggur við að segja megninu af vökutíma okkar yfir vetrartímann, þá skiptir það okkur verulegu máli hvernig bragur er á öllum vinnubrögðum hér. Alveg á sama hátt og það skiptir okkur öll máli hvernig áferðin er á heimili okkar, hversu vel er þrifið, hversu vel okkur gengur að strauja, hversu vel okkur gengur að hlúa að börnunum okkar og fjölskyldunni, hversu vel okkur gengur að halda reglu á matmálstímum og þannig mætti áfram telja. Reglurnar innan þessara veggja eru okkur öllum jafnmikilvægar og reglurnar heima hjá okkur. Það er eðlilegt að við viljum koma skikki á hluti hér en það er ekki eðlilegt að knýja það skikk fram í gríðarlegum ágreiningi milli manna eða hópa og í þessu tilfelli flokka. Það er ekki góður bragur á því, það er slæmur bragur á því og það kann ekki góðri lukku að stýra um framhaldið. Ekki frekar en að húsbóndinn á heimilinu ráði öllu um heimilisbraginn eða húsmóðirin ráði öllu um það hvernig matmálstímum sé háttað eða hvernig þrifið sé eða straujað. Eins og það er skylda okkar að komast að samkomulagi inni á heimilum okkar um þann brag sem þar á að ríkja er það líka skylda okkar að komast að samkomulagi um þann brag sem hér á að ríkja varðandi vinnubrögð.

Það að hæstv. forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, skyldi hafa gefist upp í þeirri vinnu að ná sáttum um niðurstöðu eru mér gríðarleg vonbrigði og okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er sá hópur hér innan þings, sá hópur í þessari fjölskyldu sem er ósáttur við það sem er gerast hér. Við teljum að við höfum boðið fram ákveðnar málamiðlunartillögur. Það má vel gera athugasemdir við að þær hafi komið seint fram, við tökum þeirri gagnrýni og bregðumst við henni en það er ekki hægt að halda því fram að við höfum ekki lagt eitthvað til málanna eða komið til móts við þær kröfur sem á okkur stóðu. Mér finnst satt að segja að til þess að standa vörð um fagmennsku í vinnubrögðum hefðu allir hlutaðeigandi og þeir sem stýra hér för átt að reyna til þrautar. Síðast í dag var hæstv. forseta boðið að taka 2. umr. um þetta mál á snörpum og snaggaralegum fundi, á einhverjum umsömdum tíma, en geyma 3. umr. fram að því að þing kæmi saman eftir jól. Því var hafnað. Það eru mér mjög mikil vonbrigði, virðulegi forseti, að þeirri tillögu skyldi hafa verið hafnað í dag. Ég undirstrika það að mér eru það mikil vonbrigði að yfirstjórn þingsins skyldi ekki leggja í örlítið lengri leiðangur eða leggja á sig örlítið meira en hún á endanum var tilbúin til til þess að menn gætu staðið hér sæmilega sáttir og þá meina ég allir hóparnir sem hér starfa. Það er ekki góður bragur á því að beygja þann sem óánægður er undir sitt vald. Það er það ekki og það var óþarfi í þessu máli.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að vinnuaðferðin sem beitt hefur verið eða það vinnuferli sem við höfum farið í gegnum upp á síðkastið lýsir kannski í hnotskurn því sem að er í stjórn þingsins, í stjórn vinnubragðanna. Það er auðvitað allt of oft, finnst mér sem hef starfað í stjórnarandstöðu í átta ár, sem maður lendir í því að þurfa að kvarta undan því hvernig unnið er hér og að það skuli ekki oftar vera leitað eftir samstöðu um vinnubrögð. Mér finnst t.d. afleitt hversu lengi þetta mál var trúnaðarmál. Ég held að ég fari rétt með, þegar ég reyni að rifja það upp, að í fyrsta skipti sem ég sá einhvern pappír um málið var langt liðið á október, sennilega var komið um eða fram yfir mánaðamótin október/nóvember sem ég sá fyrst pappír sem stimplaður var trúnaðarmál. Ég fékk ekki tækifæri til að lesa hann í gegn, mér var kynnt innihaldið og síðan var mér sagt að málið væri enn á trúnaðarstigi milli þingflokksformanna og enn væri verið að reyna að finna leiðir til að leysa úr ágreiningi.

Ég hef líka heyrt að í einhverjum þingflokkum hafi menn ekki fengið að sjá frumvarpið fyrr en tveir dagar voru í að það yrði lagt fram. Það er enginn bragur á þessu og það er ekki eðlilegt að hleypa fólki ekki að í ríkari mæli en gert var í þessu máli. Við buðum það, fyrir tilstilli varaformanns þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í byrjun nóvember að fá hæstv. forseta Alþingis á þingflokksfund til að ræða atriði þessa máls við allan þingflokkinn en því var hafnað. Mér voru það mikil vonbrigði. Það að forðast að tala við alla hlutaðeigandi kann ekki góðri lukku að stýra, það lýsir ekki tryggri, öruggri eða framsækinni verkstjórn heldur þvert á móti einhvers konar ótta og gefur til kynna einhvers konar stíflur í boðleiðum. Það verður ekki þægilegt vinnuandrúmsloft ef stíflur eru í boðleiðum á milli manna á flóknum vinnustað þar sem menn tala um sín hjartans mál og bera þau á borð aftur og aftur, tala um sína pólitík og reyna að koma henni til skila, ekki bara hér hvert við annað heldur líka út til almennings sem við erum fulltrúar fyrir á löggjafarsamkomunni.

Í hólf og gólf fjalla þingsköp Alþingis um gæði löggjafarstarfs, við erum að fjalla um það hversu vel okkur getur tekist til við að setja lög. Stöndum við vel að vígi í þeim efnum? Erum við stolt af þeirri löggjöf sem við höfum unnið, t.d. á þeim tíma sem er nálægt okkur í tíma, á síðustu 8–10 árum? Umboðsmaður Alþingis segir okkur að við stöndum okkur ekki vel, ég les það út úr skýrslum hans, að við hleypum allt of oft í gegn löggjöf sem meinbugir eru á, eins og umboðsmaður orðar það. Í nýjustu skýrslu umboðsmanns Alþingis kemur fram samantekt sem umboðsmaður gerði á ákveðnu tímabili, þ.e. árabilinu frá 2002–2006, en þá gerði hann ákveðna greiningu á þeim viðfangsefnum sem koma til kasta hans. Greiningin á þeim viðfangsefnum birtist í síðustu skýrslu og hann segir að hún ætti að vera Alþingi ákveðinn leiðarvísir um það hvar þurfi að huga að umbótum í löggjöf sem og við ráðstöfun fjármuna til starfsemi stjórnsýslunnar þannig að hún sé í samræmi við þær ákvarðanir og stefnumörkun sem Alþingi hefur samþykkt eða kýs að stjórnsýslan fylgi í störfum sínum. Þegar þau mál eru skoðuð sem umboðsmaður fékk til umfjöllunar á þessum fimm árum þá sýnir samantektin alls 179 mál og þau voru þess eðlis þegar grannt er skoðað að 23 þeirra varða beinlínis meinbugi á lögum. Það er nokkuð hátt hlutfall, virðulegi forseti. Þótt meiri hluti athugasemda umboðsmanns eða 51,6% hafi beinst að formreglum en ekki efnisreglum, formreglum sem eru þá einkum málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, þá beinist samt stórt hlutfall að efnisreglunum og er ástæða, að hans mati, til að staðnæmast sérstaklega við það í skýrslunni hversu hátt hlutfall þessara athugasemda er vegna efnisreglna sem eru innihald laga en þar er um hlutfallið 23,4% að ræða af heildinni.

Ég held að skilaboðin sem umboðsmaður sendir okkur séu afar skýr, ég les það a.m.k. þannig að í allt of mörgum tilfellum sé lagasetning hér á einhvern hátt óljós, ónógar skýringar fylgi í lögskýringargögnum með löggjöfinni og þar fram eftir götunum. Það er sem sagt full þörf á að bæta gæði löggjafarstarfsins. Ég held að við séum öll jafnmikið af vilja gerð til að reyna að átta okkur á hvar skórinn kreppir í þeim efnum en leiðin sem hér er valin er ekki sú vænlegasta til að tryggja gæði löggjafarstarfsins. Það er gríðarlega margt sem hægt er að gera til að bæta gæði löggjafarstarfsins áður en farið er í það að skerða ræðutímann. Satt að segja hefur mér fundist þessi þráhyggja, liggur mér við að segja, hjá ákveðnu fólki sem tengist þessari ræðutímastyttingu þvælast fyrir okkur og gera okkur erfitt fyrir við að tala um kjarna málsins sem er að bæta gæði löggjafarstarfsins.

Ég vil leyfa mér að nefna nokkra hluti sem hægt væri að gera án þess að fara út í að stytta ræðutímann og gætu orðið til þess að bæta gæði löggjafarstarfsins. Ég nefni t.d. seinaganginn hjá ríkisstjórninni við að koma með mál til þingsins, ég held að hvern einasta vetur sem ég hef starfað á þinginu hafi verið kvartað undan því af þingmönnum í stjórn og stjórnarandstöðu að stjórnarfrumvörp komi seint og illa fram og það sé allt of algengt að slík frumvörp komi fram löngu eftir að allir frestir samkvæmt þingskapalögum eru liðnir. Ef ný ríkisstjórn hefði sameinast um að leggja fram stjórnarfrumvörp í tæka tíð til að þau gætu fengið faglega umfjöllum í þingnefndum, þótt ekki hefði verið gert neitt annað en það hefðum við verið að bæta gæði löggjafarstarfsins. Af hverju er fókusinn ekki á því?

Við getum líka talað um vinnuna við fjárlagafrumvarpið, ég er alveg sannfærð um að hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, hefur rétt fyrir sér í þeim efnum að bæta þurfi vinnubrögðin varðandi fjárlagafrumvarpið. Hvaða vit er í því að fjárlagafrumvarpið standi hér galopið eins og óútfylltur tékki fyrir ríkisstjórnina í tæpa þrjá mánuði og ríkisstjórnin nýti sér innkomu sína bæði við 2. og 3. umr. með einhverjar breytingar þegar eðlilegra væri að þingið fjallaði um tillögur ríkisstjórnarinnar sem koma fram í frumvarpinu, þ.e. að ríkisstjórnin afhendi þinginu frumvarpið í þeirri bók sem dreift er hér 1. október og síðan sýslaði þingið og eingöngu þingið með þær tillögur sem á eftir kæmu en ekki ríkisstjórnin? Fleiri atriði gæti ég nefnd úr ræðum hv. þm. Gunnars Svavarssonar þar sem hann hefur talið að pottur sé brotinn í þessu starfi, löggjafarstarfinu sem tengist fjárlögunum. Við erum ekki að fjalla um það, við erum heldur ekki að tala um hvernig nefndarfundir fara fram. Við höfum ekki talað mikið um möguleika á opnum nefndarfundum eða strúktúr nefndarfundanna. Það gerist allt of sjaldan á nefndarfundum, eftir að gestir hafa verið kallaðir inn og umsagnir yfirfarnar, að nefndin gefi sér tíma til að fjalla um málið málefnalega og taka púlsinn á því hvar ágreiningur liggi, hvort hann sé þess eðlis að það sé erfitt að leysa hann eða auðvelt. Ég á reyndar ánægjulegar endurminningar úr starfi allsherjarnefndar undir stjórn Bjarna Benediktssonar á síðasta kjörtímabili. Hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði sig mjög fram um það í erfiðum málum að ná öllum að borðinu, finna alla snertifleti og alla ágreiningspunkta líka og lagði sig verulega fram um það, oft á fleiri en einum og fleiri en tveimur fundum þar sem aðeins nefndin sat og reyndi að ná niðurstöðu. Mér fannst vinnubrögð undir hans stjórn á síðasta þingi vera alveg til fyrirmyndar. Hann náði oft góðum árangri þó svo á endanum skildu leiðir í einhverjum ákveðnum tilfellum. Mér finnst nefndirnar allt of sjaldan gefa sér þennan tíma eða vinna á þessum nótum.

Þarna eru ákveðin atriði sem stendur upp á okkur öll að lagfæra og við getum svo auðveldlega gert. En við erum ekki að tala um það, nei, við erum bara að tala um styttingu á ræðutíma. Það er þessi þráhyggjutilhneiging að því er virðist að festa sig bara í því að ræða um ræðutímann. Við höfum nefnt það, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það væri kannski eðlilegt að gera stjórnsýsluúttekt á þinginu, á störfum þingsins. Ég teldi það afskaplega skynsamlega lausn og að við mundum fá talsverðar upplýsingar í gegnum slíkt. En við erum ekki að tala um það, nei, við erum bara að tala um styttingu á ræðutíma.

Hæstv. forseti. Ég held því líka fram að þarfagreiningunni hafi verið ábótavant hér, þ.e. á hverju væri helst þörf og hverju væri helst þörf á að breyta. Engin slík þarfagreining lá fyrir þegar þetta frumvarp var samið. Mér er til efs að allsherjarnefnd hafi farið ofan í t.d. mjög efnismiklar ritgerðir sem starfsmenn þingsins hafa verið að gera í námi sínu meðfram vinnu. Ég nefni efnismikla ritgerð um fjárlagagerð, sem einn af starfsmönnum þingsins gerði fyrir tveimur, þremur árum, kannski fjórum. Ég minnist annarrar ritgerðar sem fjallaði um ánægju þingmanna með störf starfsmanna þingsins, rekstrarskrifstofu og þjónustuþátta þingsins. Ég minnist líka nýlegrar ritgerðar sem einn af starfsmönnum okkar gerði varðandi upplýsingasviðið og hlutverk upplýsingasviðs í löggjafarsamkundum, ekki bara á Íslandi heldur víðar í nágrannalöndum okkar. Allar eru þessar úttektir afar efnismiklar og hefðu getað auðgað mjög opna umræðu um það hvar skórinn kreppir og hvar við ættum að bera niður í breytingum til að lagfæra gæði löggjafarstarfsins og bæta það.

Ég get líka nefnt hvernig dagskrárliðirnir Umræður utan dagskrár og Athugasemdir um störf þingsins hafa þróast. Ég held að við gætum bætt okkur talsvert þar. Ég teldi að við gætum skapað mjög fjörugar og skemmtilegar utandagskrárumræður ef við hefðum þær nógu oft og nógu margar og við fleyguðum hér fundi iðulega með utandagskrárumræðum. Eins og greinin er í þingskapalögunum um utandagskrárumræður er beinlínis gert ráð fyrir því að þar komi skyndilega inn beiðnir frá þingmönnum um umræður utan dagskrár um einhver atriði sem ekki þola að bíða eftir að verða sett á dagskrá þingsins. Talað er um tvo klukkutíma, ef ég man rétt, sem frest til að koma slíkri umræðu á og ekkert endilega að ráðherrar séu alltaf viðstaddir. Við getum búið til alls kyns varíanta út frá þeim þingskapalögum sem við búum við í dag varðandi utandagskrárumræðurnar og fengið þetta snarpa samtal sem okkur finnst skemmtilegt í þingsal. Stundum tökumst við á um mál sem er mjög erfitt eðli málsins samkvæmt að taka snarpar og snöggar umræður um og allt í stuttum 5 mínútna ræðum. Við erum kannski, eins og ég sagði áðan, að koma okkar hjartans málum á framfæri, miklum rökstuðningi eftir ítarlega skoðun á flóknum málum. Það eru mál sem eru ekki til þess fallin að taka snarpar umræður um eða sem hentar að gera í 5 mínútna ræðum. Ég held að við höfum lokað augunum fyrir því að hér þurfi að vera fjölbreytilegar umræður, við höfum ýmsar leiðir í núgildandi þingskapalögum til að praktísera alls kyns fjölbreytni. Til þess þurfum við að tala saman og til þess þurfum við að láta af styttingu ræðutímaþráhyggjunnar.

Ég hef nefnt hér nokkuð margar leiðir sem ég hefði talið að væru færar til þess að gera umræður hér öðruvísi og skilvirkari en þær eru í dag. Ég lýsi því yfir að til þess hefur verið vilji hjá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ef menn hefðu ekki fest sig svona mikið í þessari einu kröfu um styttingu ræðutímans hefði verið hægt að skapa ýmislegt sem ekki hefur verið hægt vegna þeirrar einstefnu sem ríkt hefur.

Mig langar til að gera hér örstutt að umræðuefni, hæstv. forseti, hugtakið málþóf. Ég varð sjálf fyrir því að fá tilvitnun í fyrirsögn í Fréttablaðinu í eitthvað sem ég hafði sagt við blaðamann um málþófið, ég man ekki fyrirsögnina nákvæmlega en hún var eitthvað á þá leið að ég vildi halda í réttinn til málþófs. Ég fékk athugasemdir um hvort ég teldi að ég hefði verið nógu gáfuleg í formúleringum þarna. Þegar grannt er skoðað og dýpra hugsað er svar mitt við þeirri spurningu já, ég held að ég hafi bara verið nokkuð gáfuleg. Ég fékk staðfestingu á því þegar ég las leiðara Fréttablaðsins á föstudaginn var, skrifaðan af Svanborgu Sigmarsdóttur þar sem hún fjallar um breytingar á þingsköpum Alþingis og fyrirsögn hennar í þessum leiðara er Málþóf er tæki til virks aðhalds. Svanborg færði mér heim sanninn um að ég hefði haft rétt fyrir mér í því að vilja halda í réttinn til málþófs. Ég held því nefnilega fram að hugtakið málþóf hafi verið notað yfir ranga hluti í þessum þingsal og í umræðu í fjölmiðlum. Orðið málþóf hafi verið notað yfir hluti sem eru í mínum huga efnismikil rökræða en málþóf er að skilningi Svanborgar Sigmarsdóttur eftirfarandi svo ég vitni til leiðarans í Fréttablaðinu á föstudaginn var en þar segir Svanborg, með leyfi forseta:

„Með öðrum orðum á að útiloka málþóf frá Alþingi og takmarka þannig réttmætt tæki stjórnarandstöðu til að sinna hlutverki sínu þegar henni finnst meiri hluti þings, eða ríkisstjórn, fara offari.

Málþóf er eitt helsta vopn stjórnarandstöðunnar gegn ríkisstjórninni, enda lítill munur á meiri hluta Alþingis og ríkisstjórn hér á landi. Eins og þingmenn Vinstri grænna hafa réttilega bent á þarf lítil stjórnarandstaða nú enn fremur á því að halda að hafa einhver vopn.“

Hún heldur áfram, með leyfi forseta:

„Fulltrúar meiri hlutans hafa blásið á gagnrýni Vinstri grænna, meðal annars með þeim rökum að málþófsræður séu svo leiðinlegar eða lítið upplýsandi. Í þessu felst reginmisskilningur á eðli málþófs, eða hótana um málþóf. Það er ekki tilgangur málþófs, hvorki hérlendis né á erlendum þingum að standa í rökræðu. Tilgangurinn er að nota eitt af fáum vopnum sem stjórnarandstaðan hefur til að fá meiri hlutann til að gera breytingar á umdeildum lögum, eða jafnvel að draga frumvörp til baka. Langar ræður og málþóf eru ekki vísbending um að alþingismenn séu ekki starfi sínu vaxnir, heldur einmitt að þingmennirnir séu að nota þá kosti sem lýðræðið býður upp á til að standa í fæturna þegar nauðsyn krefur.“

Hæstv. forseti. Mér líkar þessi tilvitnun. Mér líkar þessi hugsun hjá blaðamanninum. Hún hljómar við þá hugsun sem er innra með mér og við höfum nefnt, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð, að í örfáum tilfellum á síðustu árum hefur málþófið einmitt skilað árangri og við höfum nefnt lagasetningu um Ríkisútvarp og vatnalögin. Sömu tvö dæmi nefnir blaðamaðurinn Svanborg Sigmarsdóttir í leiðara sínum og niðurlag leiðarans hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Það er skiljanlegt að þingmenn vilji nútímavæða störf þingsins, meðal annars með því að takmarka kvöld- og næturfundi. En þægindi þingmanna eiga ekki að koma niður á lýðræði. Gott lýðræði snýst ekki bara um að verða við vilja meiri hlutans, heldur einnig að leyfa fjölbreytileika skoðana og aðhald með þeim sem valdið hafa. Með skynsamlegri notkun á málþófi eða hótunum um málþóf er hægt að veita meiri hluta Alþingis virkt aðhald.“

Svo mörg voru þau orð blaðamannsins Svanborgar Sigmarsdóttur, hæstv. forseti. Mér finnst hún hafa mikið til síns máls og mér finnst starfsmenn Alþingis hafa það líka í umsögn sem þeir sendu allsherjarnefnd. Þeir fjalla ekki um málþófið sem tæki. Þeir fjalla miklu frekar um hugmyndafræðina sem liggur að baki því frumvarpi sem hér um ræðir og þeim aðferðum sem beitt var við vinnsluna. Mér finnst mjög alvarlegt, hæstv. forseti, þegar við fáum að heyra það frá Félagi starfsmanna Alþingis að ekkert samráð hafi verið haft við félagið og þau efist um að markmið frumvarpsins náist með þeim aðferðum sem þar eru tíundaðar. Mér finnst þetta vera rödd sem við eigum að hlusta á. Við erum mjög fús til að þakka starfsmönnum Alþingis fyrir afskaplega óeigingjarnt starf og við gerum það iðulega í ræðum og alltaf í lok hvers þings. Fjárlaganefnd og nefndarmenn þakka starfsmönnum þingsins við lok fjárlagavinnu á hverju einasta ári og við erum öll afar þakklát mjög fórnfúsu starfi starfsmanna Alþingis. Við áttum okkur auðvitað á því að þau vinna undir alveg sama vinnuálagi og við og kannski meira vinnuálagi því að þau gáfu aldrei kost á sér til starfa í pólitík. Það gerðum við. Við fórum að starfa í stjórnmálaflokkum og gáfum kost á okkur í kosningum og fengum fylgi kjósenda til að standa hér á löggjafarsamkundunni og vinna þau störf sem við erum að vinna. Svo ræður Alþingi, stofnunin Alþingi, til sín starfsfólk og mér finnst dapurlegt að finna það á starfsmönnum Alþingis að samráðið við þá við breytingar á reglunum sem hér er unnið eftir sé ekkert. Mér finnst það einn af þeim þáttum sem er dapurlegur í þessu máli og í vinnubrögðunum við það. Mér finnst það mjög alvarlegt og mér finnst það fara gegn því sem við í sjálfu sér höfum praktíserað hér, að sýna þakklæti og virðingu því fólki sem starfar hér.

Ég hefði haft gaman af að heyra hv. þm. Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar, fara yfir þessa umsögn frá Félagi starfsmanna Alþingis og fá að heyra hvernig umræðan í nefndinni var um þau atriði sem starfsmennirnir benda okkur á í mikilli vinsemd og af mikilli fagmennsku, því að mér finnst umsögnin afar hógvær og mjög málefnaleg og rétt. Mér finnst það t.d. rétt ábending þegar starfsmennirnir segja að markmiðin með frumvarpinu hefðu þurft að vera mælanlegri þannig að hægt væri að meta á hlutlægan hátt hvort þau náist. Ég hefði vilja heyra hvaða umræða fór fram um þetta atriði í allsherjarnefnd.

Mér finnst líka athyglisvert að starfsmenn skulu segja að í frumvarpinu sé engin trygging fyrir því að vinnutíminn verði mannsæmandi eða fjölskylduvænni. Mér finnst athyglisvert að starfsmenn skulu benda á það. Það er reyndar samhljóma við það sem við höfum bent á þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Síðan benda starfsmennirnir á sumarorlofstímabilið og ákveðin vandkvæði sem kæmu upp fyrirsjáanlega að þeirra mati og ég dreg ekki í efa að þeir hafi rétta sýn til þess máls. Ég sé því ekki fram á annað en að við séum að kalla yfir okkur erfiðleika, a.m.k. ef við ætlum að búa við þann starfsmannafjölda sem við búum við í dag. Verði þessi leið farin og reynslan verður sú sem starfsmenn Alþingis benda á í umsögn sinni þá erum við að tala um að fjölga þurfi starfsmönnum umtalsvert ef við ætlum ekki að auka óheyrilega álagið á þá starfsmenn sem eru.

Það mætti líka nefna atriði sem starfsmennirnir benda á í umsögn sinni, t.d. er varða stór og flókin mál þar sem gera þarf margar og flóknar breytingartillögur þá er talað um að nauðsynlegt sé að nefndir gefi starfsmönnum Alþingis þann tíma sem þörf er á til að undirbúa t.d. stöðuskjöl sem við höfum iðulega kallað eftir í slíkum málum. 5. gr. í frumvarpsins kveður á um það að þingmaður eða ráðherra geti óskað þess að mál gangi aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. og það ákvæði gæti kallað fram gríðarlega vinnu vegna þess að það þurfi að búa til ný stöðuskjöl eða fara í pappírsvinnu sem tekur tíma. og Við þurfum að átta okkur á því að þetta ferli muni taka meiri tíma og það þurfi að gefa starfsfólki eðlilegt svigrúm til að ganga frá málunum. Hér kunna að vera innbyggðir ákveðnir hlutir í frumvarpinu sjálfu sem ekki eru til þess fallnir að flýta fyrir eða hraða færibandinu, hraða vinnslunni. Ég held að við séum að gleyma því að fara ofan í saumana á þessum atriðum sem starfsfólk Alþingis bendir okkur á. Einnig get ég nefnt atriði sem starfsmannafélagið bendir okkur á og leggur mikla áherslu á að starfsmenn séu hafðir með í ráðum við þá endurskoðun sem fara eigi fram innan þriggja ára, úr því að ekki var haft samráð við starfsmennina í þessari lotu þá biðja þau engu að síður náðarsamlegast um að það verði gert að þremur árum liðnum þegar bráðabirgðaákvæðið gengur í garð og endurskoðun kemur til með að fara fram. Að lokum hefur starfsmannafélagið efasemdir um að sú útfærsla sem er í frumvarpinu um að pólitískir aðstoðarmenn þingmanna og formanna stjórnarandstöðuflokkanna eigi að vera starfsmenn skrifstofu Alþingis gangi upp. Mér finnst það líka réttmæt ábending sem ég hefði haldið að við þyrftum að fara betur ofan í saumana á en gefinn er tími til hér.

Hæstv. forseti. Megininntakið í ræðu minni hefur verið það að hér hafi verið beitt vinnubrögðum sem ekki var þörf á að beita. Það var ekkert sem knúði yfirstjórn þingsins til að beita þeim vinnubrögðum sem beitt var. Við hefðum getað gert mjög mikið af róttækum breytingum sem hefðu bætt löggjafarstarfið án þess að fara í styttinguna á ræðutímanum. Mér þykir mjög miður að það hafi ekki verið gert og að ekki hafi verið reynt til þrautar að fá alla sátta á síðustu dögum þingsins rétt fyrir jól. Tækifærin voru við hvert fótmál en það var gengið yfir þau og mér þykir það mjög miður. Með þeim orðum lýk ég máli mínu, hæstv. forseti.



[00:24]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt atriði í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem ég vil staldra við. Það var atriði sem hún vék að í upphafi sem voru tilvísanir í umboðsmann Alþingis varðandi gæði lagasetningar. Við höfum kynnt okkur þessar ábendingar umboðsmanns Alþingis og m.a. rætt þær í allsherjarnefnd. Ég er alveg sannfærður um að það er fullur vilji af hálfu allra í þinginu til að taka mark á þessum athugasemdum en ég verð að játa að ég átta mig ekki á samhenginu milli athugasemdanna um gæði lagasetningar og þörf á að vanda betur til verka varðandi lagasetningu almennt og þeirrar kröfu sem Vinstri grænir hafa lagt hvað mesta áherslu á í þessari umræðu sem snýr að ótakmörkuðum ræðutíma eða litlum takmörkunum á ræðutíma. (Gripið fram í.) Vegna þess að ég held að lengri ræður eða lengd ræðuflutnings við 2. og 3. umr. í þinginu hafi afskaplega lítið með gæði lagasetningar að gera. Við viljum flest eða öll bæta vinnubrögð í þinginu og því held ég að það sé miklu meira atriði að horfa á aðra þætti frumvarpsins eins og möguleika nefnda til að kalla ráðherra á sinn fund, kalla eftir því að ráðherrar kynni mál sín í upphafi vetrar og síðan atriði sem snúa að skipulagningu þingstarfa. Í mínum huga er það alveg skýrt að skipulagning þingstarfa hlýtur að verða miklu auðveldari ef ræðutíma eru takmörk sett. Það er miklu fyrirsjáanlegra hvernig umræða þróast en við þær aðstæður sem við búum við í dag þegar ræðumenn geta komið jafnvel með litlum fyrirvara og talað klukkustundum saman og sett allt þingstarfið úr skorðum.



[00:27]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu en það er grundvallarmisskilningur í henni. Hv. þingmaður talaði eins og það hafi verið markmið okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að hafa ótakmarkaðan ræðutíma í öllum umræðum eða a.m.k. 2. og 3. umr. Það er rangt, það var ekki og er ekki markmið okkar. Ég skal viðurkenna að við vorum sein að borðinu. Við vorum sein, alla vega að mati þeirra sem stjórnuðu hér för, að koma með tillögurnar, ég skal viðurkenna það, en þegar tillögur okkar að takmörkun ræðutíma lágu fyrir átti líka að ná niðurstöðu. Hv. þingmaður hefur því rangt fyrir sér þegar hann segir að það hafi verið markmið okkar að halda langar ræður og hafa hér langa fundi. Það hefur aldrei verið markmið okkar.



[00:28]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hafi ég á einhvern hátt misskilið málflutning Vinstri grænna í þessu máli þykir mér það leitt og bið afsökunar á því. Hins vegar hefur mér þótt málflutningur þeirra vera í þá veru að best væri að hafa takmarkanirnar sem minnstar, a.m.k. var málflutningurinn lengi vel á þá leið að ekki ætti að vera um neinar takmarkanir að ræða í 2. umr. og það væri afskaplega mikilvægt.

Það kann að vera að ég hafi ekki hlýtt nægilega vel á mál hv. þingmanns en mér fannst hún tala um þetta tvennt í sömu andrá, annars vegar gæði lagasetningar og hins vegar þann mikilvæga rétt að hafa uppi langar umræður a.m.k. við 2. umr. ef ekki þá 3. Þannig skildi ég málflutninginn. Ég lagði áherslu á það í máli mínu áðan að ég teldi að það væru aðrir þættir í frumvarpinu sem skiptu miklu meira máli um gæði lagasetningar en ræðutíminn sem slíkur.

Loks verð ég að geta þess, enda þótt Vinstri grænir hafi talað um þær breytingar sem boðaðar hafa verið á starfsaðstöðu þingmanna eins og þær væru fremur léttvægar, að þessar þingskapabreytingar eru ekki einstök aðgerð heldur eru þær hugsaðar í ákveðnu samhengi við það að bæta starfsaðstöðu þingmanna og mér finnst óviðeigandi að tala um það sem verslunarvöru eða hrossakaup eða hvernig menn hafa orðað það. Það er alveg ljóst að þeir sem að frumvarpinu standa eru jafnframt fúsir til þess og hafa fullan vilja til þess að bæta starfsaðstöðu þingmanna og þegar hafa verið boðuð ákveðin skref í þeim efnum. Hins vegar eru þetta ekki endanleg skref og í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því er boðað að þarna sé aðeins um að ræða áfanga á leið.



[00:30]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að ræða mín hafi ekki verið nægilega skýr hvað þetta varðar. Kannski helgast það af því að ég var að reyna að halda stutta ræðu, reyna að hafa hana ekki of langa, því að það kemur iðulega fyrir að maður stendur hér með mikið efni og liggur mikið á hjarta en vill ekki halda of langa ræðu af því að markmiðið er ekki að halda langa ræðu. Markmiðið er að vera skýr og koma rökum sínum vel til skila. Okkur gengur það auðvitað misvel, við erum misgóðir ræðumenn en í þessu tilfelli átti ég alls ekki við að rétturinn til málþófs væri eitthvað sem nýta ætti í öllum umræðum eða alltaf í 2. og 3. umr. Þvert á móti, og það getur hv. þingmaður kynnt sér í breytingartillögum okkar á þskj. 525 þar sem við leggjum til takmarkaðan ræðutíma í 2. og 3. umr. Hins vegar höfum við aldrei viljað sleppa réttinum til málþófs til að geta átt möguleika á að fresta málum, nota það beitta vopn sem málfrelsið er í þeim tilfellum sem við teljum okkur þurfa að nýta það en við höfum líka nefnt það neyðarrétt. Þegar tillögur okkar lágu fyrir finnst mér að stjórn þingsins hafi borið skylda til að vinna sig inn í gegnum þennan ágreining og tryggja að allir hér gætu farið sæmilega sáttir heim í jólafrí.

Varðandi hitt, þetta með verslunarvöruna, bætta aðstöðu þingmanna, aukinn fjölda starfsmanna o.s.frv., þetta eru bara atriði sem búið var að semja um, hæstv. forseti, þetta eru atriði sem samið var um þegar kjördæmabreytingin fór fram og maður kaupir ekki tvisvar sama hlutinn. Það er því ekki rétt að þessi breyting sé eitthvað sem fylgir þessari þingskapalagabreytingu, þetta er eitthvað sem var komið inn löngu fyrr.



[00:32]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Nú er langt liðið á kvöld og við fjöllum í þessari umræðu um frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum Alþingis. Fyrr í dag fór fram stutt umræða um störf þingsins um það hvernig þetta mál bar allt að og hvernig það var sett á dagskrá. Við höfðum gert athugasemdir við það, þingmenn Vinstri grænna, hve skammur tími hafði verið gefinn frá því að málið var tekið út úr hv. allsherjarnefnd og þar til það var komið hér á dagskrá miðað við það að ætlast var til að við lykjum vinnu við nefndarálit og þær breytingartillögur sem við höfðum kynnt í nefndinni og að starfsfólki þingsins gæfist ráðrúm til að ljúka vinnu við þær og koma þeim í dreifingu í þingsal.

Í umræðunni fyrr í dag sagði ég að ég harmaði það mjög með hvaða hætti þetta mál er komið á dagskrá og til umræðu í þinginu. Það er ekki vegna þess að ég vilji ekki ræða um frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum heldur harma ég að ekki skuli vera fullkomin samstaða um það meðal þeirra stjórnmálaflokka sem starfa á hinu háa Alþingi. Það er vegna þess að við fjöllum hér um grundvallarsamskiptareglur, grundvallarreglur um það hvernig störf ganga fyrir sig í þinginu. Ég tel afskaplega þýðingarmikið að um slíkar grundvallarleikreglur sé góð samstaða og sátt burt séð frá því að menn takist á um stjórnmál og efnisinnihald þeirra tillagna sem hingað koma í formi lagafrumvarpa, þingsályktunartillagna eða í öðru formi, vegna þess að það er eðlilegur hluti af stjórnmálaumræðunni, af stjórnmálalífinu að tekist sé á um slíka hluti. En það er vont ef menn vinna ekki eftir leikreglum sem allir eru þokkalega ásáttir við að gildi.

Sagt hefur verið í umræðunni og hér á göngum þegar þessi mál hefur borið á góma — því að þessi mál hafa vissulega verið mikið til umræðu og ekkert minna á göngunum og í kaffistofu en í þingsal — að ekki sé eðlilegt að níu manna þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi eitthvert úrslitavald um það hvernig þessum málum er háttað þegar 54 þingmenn annarra flokka séu væntanlega á annarri skoðun. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að meiri hlutinn ráði að lokum en hér erum við, eins og ég sagði áðan, að fjalla um þær leikreglur sem við ætlum að vinna eftir og afstaða mín er sú að þá sé ákaflega þýðingarmikið að allir geti skrifað upp á leikreglurnar og ekki sé skynsamlegt að meiri hlutinn, jafnvel þó að hann sé 54 þingmenn, taki ákvörðun sem hluti þingsins er ekki sáttur við. Mér finnst það skipta máli fyrir þingið sjálft þegar hluti þess er ekki sáttur við þær leikreglur sem þar gilda og það skiptir engu máli í mínum huga hvaða hluti það er. Mér finnst að í því tilliti eigi menn að leggja mjög hart að sér við að ná sameiginlegri niðurstöðu og teygja sig langt. Við í þingflokki Vinstri grænna höfum verið reiðubúin til að teygja okkur langt og þær hugmyndir og tillögur sem við höfum sett fram í þessu efni hafa aldrei verið settar fram sem úrslitakostir, aldrei, það hefur ævinlega komið fram. Við höfum alltaf verið opin fyrir því að aðrir kæmu á móti og segðu: Við skulum ræða þennan hlut eða þennan hlut.

Ég innti hv. þm. Siv Friðleifsdóttur eftir því fyrr í kvöld eftir ræðu hennar hvort henni hugnaðist eitthvað í þeim tillögum sem við hefðum sett fram og bað hana þá að horfa fram hjá ákveðnum ræðutíma, sem hefur verið sérstakt deilumál, vegna þess að ég held að í þeim tillögum sé margt sem þessi 54 þingmanna meiri hluti, sem þegar er farið að tala um hér, getur skrifað upp á. Þá veltir maður því fyrir sér líka hvort komið hefði til álita að reyna að sáttum um aðra hluti og leyfa ágreiningnum um ræðutímann að koma fram við atkvæðagreiðslu jafnvel þótt menn reyndu að leysa aðra hluti í sátt og samlyndi, leyfa ræðutímaágreiningnum að birtast hér. Hefði það skaðað málið?

Annar hlutur í þessu er hraðinn. Sumir segja að þetta mál sé búið að vera í gerjun hér í mörg, mörg ár og þess vegna hafi verið orðið tímabært að afgreiða það. Ég var kjörinn til þings í vor, ég hef aldrei komið að umræðu um þetta mál fyrr. Óvenjumargir nýir þingmenn voru kjörnir til setu á Alþingi í vor, frú forseti, 24 af 63, ef ég man rétt. Þeir hafa aldrei komið að umræðu um þetta mál á fyrri stigum og því er að sjálfsögðu tómt mál að tala um það í þessu samhengi frá mínum bæjardyrum séð, heldur þarf að miða við þann tíma sem við höfum haft til að ræða málið núna. Upplýst hefur verið að forseti Alþingis kynnti hugmyndir sínar fyrir þingflokksformönnum og í forsætisnefnd á haustdögum og þær voru þá meira og minna fullmótaðar og ekki gefið mikið svigrúm til að koma með nýja vinkla inn í þá hugmyndafræði sem þar lá að baki.

Ég tel að byrja hefði átt á því að fulltrúar allra flokka settust niður í einhvers konar nefndarstarfi, hvort sem það væri í forsætisnefnd eða í samstarfi forseta með þingflokksformönnum, í sérnefnd eða hvernig sem það hefði verkað, menn hefðu komið að auðu borði, allir aðilar máls hefðu getað komið og sagt: Hvað teljum við að lagfæra þurfi í þingsköpunum, hvað þarf að laga í starfinu og umgjörðinni utan um starfið á Alþingi? Þannig hefðu menn unnið sig áfram og að lokum hefði orðið til einhver afurð, frumvarp til nýrra þingskapalaga, samkomulag um breytta starfshætti, bætta aðstöðu stjórnarandstöðu sem mikið hefur verið rædd í þessu samhengi og mér heyrist flestir tala um að sé mikilvæg. En ég fæ ekki séð að mikil eða stór skref séu stigin í þá átt í því frumvarpi sem meiri hlutinn leggur hér fram, því miður. Ég heyri líka sagt úr herbúðum þeirra, í þeirri umræðu sem fram hefur farið um þetta mál, að verið sé að koma mjög mikið til móts við stjórnarandstöðuna og bæta aðstöðu hennar og verið sé að koma mjög mikið til móts við sjónarmið Vinstri grænna í þessu samhengi og menn hafi ekki verið reiðubúnir til að teygja sig lengra.

Gott og vel. Þarna erum við ekki öll á einu máli en ég tel og ég er sannfærður um að með lengri tíma, með lengri umþóttunartíma hefði verið hægt að ná góðu samkomulagi ef vilji hefði verið til staðar. Ég hef sjálfur talsvert langa reynslu af því að starfa í stjórnmálum, þó ekki á vettvangi Alþingis en sem borgarfulltrúi í Reykjavík í 13 ár, m.a. gegndi ég þar starfi formanns borgarstjórnarflokks Reykjavíkurlistans og var forseti borgarstjórnar. Ég hef átt þátt í að endurskipuleggja starf borgarstjórnar, m.a. við að takmarka ræðutíma sem er í fyrstu umræðu þar 30 mínútur og síðan 10 mínútur. Þar voru líka gerðar miklar breytingar á starfsháttum borgarstjórnar og starfsaðstæðum borgarfulltrúa sem ég beitti mér sérstaklega fyrir í samstöðu allra flokka. Raunar var það svo þegar ég var forseti borgarstjórnar að félögum mínum í meiri hlutanum blöskraði stundum hvað ég hlustaði mikið á minni hlutann, sem þá var Sjálfstæðisflokkurinn. Mér fannst mikilvægt að hafa ekki síst minni hlutann með í ráðum þegar verið var að fjalla um allt sem lýtur að starfsumhverfi þannig að enginn gæti fyllst tortryggni eða fengið það á tilfinninguna að meiri hlutinn ætlaði að valta yfir minni hlutann í slíkum málum.

Reyndar gerðist það síðan að ég var fyrstur manna í sögu borgarstjórnar Reykjavíkur kjörinn forseti með öllum atkvæðum þegar Sjálfstæðisflokkurinn og F-listinn ákváðu að styðja mig í því starfi eftir að við höfðum gengið í gegnum svona ferli þar sem allir flokkar voru kallaðir að. Það var gríðarlega tímafrekt, því ætla ég ekki að leyna, að efna til svo mikils samráðs sem það hafði í för með sér. En ég er sannfærður um að maður uppskar eins og maður hafði sáð til. Þetta var ég að reyna að benda forseta Alþingis á við 1. umr. um þetta mál, að menn þurfa að leggja verulega mikið á sig og það hvílir mjög mikið á þeim sem valinn er til æðstu metorða, ef svo má segja, á vettvangi kjörinna fulltrúa. Hér er það forseti Alþingis. Mér þykir leitt að forseti Alþingis skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu en vonandi er hann einhvers staðar í húsi og heyrir það sem hér fer fram.

Ég upplýsti það við 1. umr. að ég hefði ljáð núverandi forseta Alþingis atkvæði mitt í kosningu sem þó var leynileg þegar forseti Alþingis var kjörinn. Það voru nokkrir þingmenn úr mínum þingflokki sem gerðu það, m.a. ég, vegna þess að ég vildi gjarnan setja traust mitt á þann sem stjórnarmeirihlutinn hafði tilnefnt sem forseta. Ég vildi gjarnan að hann nyti trausts fyrir fram og það yrði þá að koma í ljós hvort hann stæði undir því trausti.

Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja það að ef sú staða kæmi nú upp á nýjan leik að það ætti að kjósa hér forseta Alþingis, þá er ég ekki sannfærður um að ég mundi greiða atkvæði með sama hætti með þeim einstaklingi sem núna gegnir þessu ábyrgðarmikla starfi vegna þess að ég er sjálfur persónulega ósáttur við það hvernig að undirbúningi þessa máls hefur verið staðið og mér finnst forseti ekki hafa lagt sig nægilega mikið fram. Ekki heldur eftir að honum átti að vera orðið fullkomlega ljóst að af hálfu okkar vinstri grænna var ríkur vilji til þess að skapa breiða samstöðu og koma til móts við sjónarmið annarra aðila í þessu tilliti.

Af því hér er verið að ræða um undirbúninginn, þá vil ég vekja máls á því að forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis hafa í sameiningu gefið út skjal, plagg sem heitir Handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa. Hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, skrifar inngang að þessu plaggi þar sem segir í upphafi, með leyfi forseta:

„„Með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða,“ er haft eftir Njáli Þorgeirssyni í Njáls sögu. Það má til sanns vegar færa að lögin skapa umgjörðina um samfélag okkar og mikilvægt er að hún sé sem einföldust og skýrust og leggi ekki óþarfa hömlur á athafnafrelsi borgaranna.“

Í þessari handbók er áfram fjallað um það hvernig við tryggjum góða og vandaða lagasetningu. Hvernig ríkisstjórnin þarf að standa að málum til þess að þau frumvörp sem hún leggur fram hér á Alþingi séu sem skýrust og vönduðust til þess að auðvelda Alþingi störf sín og til þess að koma í veg fyrir eða draga úr hættum á mistökum sem því miður gerast í lagasetningu hér á Íslandi og umboðsmaður Alþingis, sem við vorum nú að kjósa á ný, endurkjósa hér í dag, hefur bent á.

Það hefði kannski ekki verið úr vegi að hv. allsherjarnefnd hefði fengið umboðsmann Alþingis á sinn fund til að ræða einmitt þetta atriði. En það mun ekki hafa verið gert. (Gripið fram í.) Um það mál er ég ósammála þingmanninum. Það er alltaf gott og hollt að leita í reynslubrunn annarra, (Gripið fram í.) allra, m.a. umboðsmanns Alþingis.

Í handbókinni er farið yfir það hvernig undirbúningi lagafrumvarpa er best háttað og þó að hér sé verið að fjalla fyrst og fremst um stjórnarfrumvörp þá er þessi handbók gefin út einnig af skrifstofu Alþingis. Maður hlýtur að reikna með því að Alþingi sjálft vilji viðhafa jafnvönduð vinnubrögð og ætlast er til að ráðuneytin viðhafi.

Hér er það rakið hversu mikilvægt er að efna til samráðs í undirbúningsferli frumvarpa, samráðs af ýmsum toga, óformlegs samráðs við hagsmunaaðila, sérfróða aðila, jafnvel áður en tillaga verður lögð fram. Hér er lögð áhersla á hversu mikilvægt það er að skilgreina hvað það er sem menn ætla að ná fram með lagafrumvarpi. Er lagafrumvarp nauðsynlegt? Hvað er það sem menn ætla að ná fram? Það á sem sagt að leggja mat á slíka hluti og jafnvel skilgreina einhverja valkosti sem hægt er að fara til að ná þeim markmiðum sem menn setja sér áður en lagafrumvarpið sjálft verður til. Þetta er að mínu mati dæmi um vönduð vinnubrögð sem á að viðhafa við samningu frumvarpa og að mínu mati hefði átt að beita slíkri aðferð við samningu þess frumvarps sem við erum hér að ræða, þ.e. um breytingu á þingsköpum.

Hér hefði verið hægt að leita eftir viðhorfum sérfróðra aðila, eins og þegar hefur verið bent á í umræðunni. Hér hefði verið hægt að leita eftir viðhorfum Félags starfsmanna Alþingis en það var ekki gert. Félag starfsmanna Alþingis taldi sig engu að síður knúið til senda allsherjarnefnd, óumbeðið, umsögn um málið. Enda varðar það hagsmuni félagsmanna í Félagi starfsmanna Alþingis verulega, eðlilega. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur rakið efnisatriðin í umsögn starfsmanna Alþingis.

Mér finnst í raun og veru dapurlegt að meiri hlutinn hér á Alþingi og allsherjarnefndin hafi ekki látið svo lítið að líta á þá umsögn eða fá fulltrúa starfsmanna á sinn fund til að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þar koma fram eða taka að einhverju leyti tillit til þeirra. Það er í engu gert eftir því sem ég fæ best séð.

Varðandi vinnubrögðin þá vil ég líka segja að það kom fram í umræðunni í dag, m.a. í máli hv. þm. Jóns Magnússonar, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði ekki lagt fram neinar tillögur í þessu máli. Við mótmæltum því hér fyrr í dag og sögðum það ekki rétt og aðrir þingmenn, m.a. hv. formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri staðfestu það sem við sögðum í þeirri umræðu, að við hefðum að sjálfsögðu lagt fram tillögur. Mér finnst að hv. þingmaður Jón Magnússon ætti að koma hér og biðja okkur afsökunar á þessari fullyrðingu í ræðu sinni hér á eftir vegna þess að hún er röng.

Varðandi markmið lagafrumvarpsins sem hér liggur fyrir þá held ég að við getum flest ef ekki öll tekið undir þau. Það er mikilvægt að bæta störfin hér á Alþingi og það hljóta menn í sjálfu sér alltaf að gera hvar sem þeir starfa, að reyna að gera betur en þeir eru að gera á hverjum tíma. Hér er talað um þau meginmarkmið að lengja reglulegan starfstíma Alþingis. Ég tel að það sé löngu tímabært að gera það og hefði helst viljað gera það með þeim hætti að Alþingi kæmi saman 1. september en ekki 1. október eins og hér er lagt til. Hér er farin sú leið að gera ráð fyrir haustþingi, kannski tveimur til þremur vikum í september, en ég hefði talið betra að þingið hæfist hreinlega 1. september og að fjárlagafrumvarp væri tilbúið á þeim tíma. Það yrði meðal annars til þess að betri tími gæfist til vinnu við fjárlagafrumvarp því það er m.a. það sem menn kvarta yfir. Hér er talað um að efla eftirlitshlutverk þingsins. Það er að sjálfsögðu mjög þýðingarmikið og ekki síst er það nú verkefni stjórnarandstöðunnar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Í því samhengi finnst mér skipta máli hvaða viðhorf stjórnarandstaðan á hverjum tíma hefur. Því miður er það svo í þessu máli að stjórnarandstaðan er ekki einhuga. Ég segi því miður. Mér finnst það mjög miður að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi ekki náð að vera samstiga í afstöðu sinni í þessu máli.

Það er miður — ekki endilega út af þessu máli sérstaklega, látum það nú vera, það er miður upp á allt framhald, samstarf stjórnarandstöðunnar í öllum öðrum málum sem hún þarf að eiga samstarf um, stór og smá, efnisleg og tæknileg. Þess vegna er þetta mjög bagalegt að mínum dómi. Ekki síst finnst mér það bagalegt þegar leiðir stjórnarandstöðuflokkanna liggja ekki saman, eins og í þessu máli, að þá skuli ekki einu sinni vera skilningur á því í þeim röðum að reyna að koma til móts við okkar sjónarmið sem voru sérstök í þessu máli.

Í þriðja lagi er hér í markmiðsgrein talað um að draga úr kvöld- og næturfundum. Ég tel líka að það sé jákvætt. En því miður þá fæ ég ekki séð að þetta frumvarp geri það. Sömu skoðun hefur Félag starfsmanna Alþingis í sinni umsögn. Þar segir að það sé engin trygging fyrir því í þessu frumvarpi að það muni draga úr kvöld- og næturfundum. Þess vegna höfum við gagnrýnt það sem frumvarpið býður upp á í því efni.

Það er talað um að ráðherrar komi oftar á fundi þingnefnda. Ég tel það jákvætt að gera umræður markvissari og styttri en verið hefur með nýjum reglum um ræðutíma. Það er kannski það sem hefur verið ágreiningur um, það er ræðutíminn.

Í þeim reglum sem gilda í dag er ótakmarkaður ræðutími í 2. og 3. umferð um lagafrumvörp og í síðari umræðu um þingsályktunartillögur en nú verður farið niður í takmarkaðan ræðutíma. Við höfum sagt að við erum reiðubúin til þess að styðja það að ræðutími verði takmarkaður. Það út af fyrir sig er að sjálfsögðu mjög stórt skref burt séð frá því hvar menn setja viðmiðið varðandi ræðutímann og mér finnst satt að segja þegar menn eru að taka svo stór skref og geta náð saman um það prinsipp út af fyrir sig, þá sé það nánast fáfengilegt að deilan skuli standa um einhverjar mínútur til eða frá. Því það er það sem upp úr þessu máli stendur, að menn skuli ekki vilja gefa sér allan þann tíma sem þarf til að ná niðurstöðu þar um.

Nú er lagt til að umræðutími í 2. umr. um lagafrumvörp verði 20 mínútur, við nefndum 40 mínútur í tillögum okkar. Kannski hefðum við getað mæst þar á miðri leið, hver veit? En á það var ekki látið reyna til neinnar þrautar að mínu viti og mér finnst það fáfengilegt.

Varðandi þær tillögur sem við höfum lagt hér fram, þá hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon farið mjög ítarlega yfir þær og gert þeim góð skil og ég ætla ekki að eyða tíma í að endurtaka það sem þar kom fram.

Ég vil aðeins segja í lokin, frú forseti, að það er talað mikið um virðingu Alþingis og ásýnd Alþingis út á við og að það sé mikilvægt að bæta hana. Í því samhengi er vísað til þess að í skoðanakönnunum hafi oft komið fram að Alþingi nyti ekki nægilegrar virðingar meðal þjóðarinnar í samanburði við ýmsar aðrar stofnanir. Vitaskuld er það mjög bagalegt.

En mér finnst líka mikil einföldun að halda því fram eða trúa því að þar sé fyrst og fremst um það að ræða að það sé ótakmarkaður ræðutími við tilteknar umræður um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur vegna þess að staðreyndin er sú að langar ræður eru undantekning en ekki regla.

Ég held að það sé ekkert síður ýmislegt annað sem háir Alþingi í þessu samhengi, m.a. þetta sem ég hef þegar nefnt, að löggjöf sé oft ábótavant, að vinnubrögð séu óvönduð. Það eru oft miklar lotur hér fyrir jól og á vorin, ekki síst vegna þess að þingmál koma seint inn frá ríkisstjórninni og það er hún sem knýr á um að afgreiða mál fyrir tilteknar dagsetningar. Það á ekki við um þingmannafrumvörp. Það er ekki látið svona með þingmannafrumvörp að það þurfi að koma þeim út fyrir jólahlé eða fyrir sumarleyfi. Þau eru bara látin bíða.

En það eru stjórnarfrumvörpin sem lögð er áhersla á að koma í gegnum afgreiðslu Alþingis fyrir tilteknar dagsetningar. Þá verður til tímapressa. Þá verða oft langir fundir á kvöldin og fram á nætur vegna þess að það er verið að knýja í gegn frumvörp sem því miður koma oft og allt of oft seint fram. Síðan er oft minna að gera, bæði í þingnefndum og hjá starfsfólki Alþingis strax fyrst á haustin, reikna ég með, ég veit a.m.k. hvernig það er í þingnefndum.

Ég held því að þetta hafi mikið að segja varðandi ásýnd Alþingis. Ég held að það hafi mikið að segja um ásýnd Alþingis þegar verið er að ræða mál af þessum toga að það eru fáir þingmenn sem sitja í þingsal og hlýða á umræðuna. Ég hef miklu oftar heyrt það sagt þegar verið er að tala um starfshætti Alþingis, að menn sitji nú aldrei í þessum þingsal og séu að hlusta, miklu oftar en að menn séu endilega að kvarta yfir löngum ræðum. Því eins og ég segi, þær eru fátíðar á Alþingi.

Mín afstaða er því sú að jafnvel þótt ég taki undir þau meginmarkmið sem sett eru fram í frumvarpinu sem forseti Alþingis leggur hér fram ásamt þingflokksformönnum fjögurra flokka, þá tel að þau markmið náist ekki nægilega vel og ég tel að það þurfi að gera meira til þess að ná þeim markmiðum og það sé þá í þá veru sem við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram í okkar tillögum. Ég held að ef menn hefðu gefið sér nægilegt ráðrúm hefði verið hægt að ná góðri sameiginlegri niðurstöðu.

Ekki síst vegna þess að það er ekkert sem knýr á um að þetta frumvarp verði að lögum 1. janúar næstkomandi. Það er ekkert í heiminum sem knýr á um það. Heill og hamingja hinnar íslensku þjóðar er ekki undir því komin að þetta frumvarp verði að lögum 1. janúar næstkomandi. Ef menn hefðu nú brotið odd af oflæti sínu og ákveðið það hér eins og hugmyndir voru uppi um af okkar hálfu, að ljúka 2. umr. um þetta fyrr í kvöld og fresta 3. umr. um málið fram í byrjum þingfunda í janúar, um miðjan janúar, þá hefði verið hægt að ljúka 3. umr. á einum degi eða svo og lögin þess vegna getað tekið gildi 20. janúar, ef út í það hefði verið farið. Hefði þá verið allur munur á því sem hér er lagt upp með, þ.e. að frumvarpið tæki gildi 1. janúar eða 20. eða 25. janúar eða 1. febrúar?

Ég held að menn hafi kastað frá sér tækifæri sem var í stöðunni til þess að ná samkomulagi og ég ætla ekkert að draga dul á það frekar en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Að sjálfsögðu eigum við líka þátt í því að þetta mál hefur lent í ákveðnum hnút. En við erum hér á þessum síðustu sólarhringum að segja það trekk í trekk að við viljum leggja mikið á okkur til að ná samkomulagi en við höfum því miður ekki fundið að sú einlæga ósk okkar að ná samkomulagi allra flokka um þetta mikilvæga mál, þessa mikilvægu umgjörð um þingstörfin, hafi verið endurgoldin.

Það verður hins vegar að koma í ljós hvernig þetta mun reynast verði frumvarpið að lögum. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að fram fari endurskoðun á þingsköpum Alþingis innan þriggja ára. Ég hefði talið að þar hefði nú þessi ágæti og mikli meiri hluti komið til móts við okkur með því að fallast á þá tillögu sem við erum með varðandi endurskoðun á þingsköpum en væntanlega verður ekki því að heilsa. Þegar menn eru komnir ofan í skotgrafirnar þá getur leiðin upp úr þeim oft reynst torsótt.



[01:04]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja í upphafi máls míns að það er mjög miður hvernig þetta mál hefur borið að og ég tek undir orð hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hér rétt á undan mér, það eru nákvæmlega engin rök fyrir því að þvinga fram afgreiðslu á þessu þingskapamáli í bullandi ágreiningi við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn með því móti sem hér er lagt upp með. Það hljóta að vera forseta Alþingis, hv. þm. Sturlu Böðvarssyni, mikil vonbrigði hvernig þessu fyrsta missiri fyrsta þingvetrarins lýkur.

Ég sem nýr þingmaður sem hefur störf á þessum vinnustað rek mig á margt sem er mjög gott í störfum Alþingis en líka á margt miður gott, eins og á öllum vinnustöðum. Maður veltir fyrir sér hvernig hlutirnir megi fara betur, hvað manni finnst í rauninni að í daglegum störfum þingsins, árangri þess, lagasetningu, rannsóknum á málum, afgreiðslu fjárlaga, eftirliti með þeim stofnunum sem Alþingi ber að hafa eftirlit með og með aðhaldi gagnvart framkvæmdarvaldinu, ríkisstjórninni.

Hvað má betur fara þarna? Nokkur atriði hafa verið tínd til við þessa umræðu í kvöld, m.a. að undirbúningur lagasetningar sé ekki nægilega vandaður. Af þeim ástæðum hefur hæstv. forsætisráðherra gefið út leiðbeiningar um það hvernig skuli nú að slíku standa svo að betur megi fara en það er alveg ljóst af undirbúningi þessa máls að ekki hefur verið farið eftir því plaggi.

Hér hefur líka verið nefnd sú tímapressa sem ríkisstjórn leggur á mál oft og tíðum og þær málaskriður sem falla inn á þingið fyrir þinghlé, mál sem berast bæði seint og illa frá ríkisstjórn.

Loks hefur verið nefnt að virðingarleysi ríki fyrir tillöguflutningi almennra þingmála, þ.e. annarra en þeirra sem koma ofan úr Stjórnarráði og ráðherrar setja inn með þeim hætti sem gagnrýnt hefur verið og ég hef nefnt.

Gagnrýnin á störf þingsins hvað varðar lagasetningu hefur einkum beinst að meiri hlutanum á Alþingi og ríkisstjórn hverju sinni en í þessu máli sem við nú ræðum, þar sem allar þessar athugasemdir eiga við ef grannt er skoðað, hittir gagnrýnin fyrir verkstjórann á Alþingi, hæstv. forseta Alþingis. Ég ætla að koma betur að því í máli mínu aðeins síðar en það er ljóst þegar maður gengur inn á þennan vinnustað að það er gríðarlega margt sem má betur fara í störfum þingsins.

Ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum þegar menn tala hér hátt og lengi um að ásetningurinn með þessu þingskapafrumvarpi sé að nútímavæða Alþingi, eins og það var orðað fyrr í dag, að laga Alþingi að breyttum tíðaranda, hverfa til nútímahátta í störfum Alþingis o.s.frv. Þessi orð hafa flutningsmenn þessa frumvarps til nýrra þingskapalaga notað yfir frumvarpið og tilganginn í dag og aðallega er þar verið að ræða um takmarkanir á ræðutíma. Þetta á að vera að nútímavæða en ef grannt er skoðað eru þessir flutningsmenn pikkfastir í fortíðinni. Allt aftur til ársins 1999 hafa menn rakið hér sorgir sínar yfir því að hafa ekki getað komið fyrr á takmörkunum á ræðutíma. Nú heitir það, átta árum síðar, að nútímavæða starfsemi þingsins.

Hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur talað um það úr þessum ræðustól að það hafi verið algjör ósvinna, ég man ekki hvort það var á þinginu 1998 eða 1999, að tveir þingmenn, þingflokkur með tvo þingmenn, skuli hafa fengið jafnlangan tíma í eldhúsdagsumræðum og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sem hafði 26 þingmenn.

Þegar grannt er skoðað og hlustað aðeins ofan í tóninn á þeim sem hér hafa talað dúkkar þetta alltaf upp, eitthvað sem gerðist á árinu 1999. Það er algjörlega fjarri mér að taka undir það. Eins og ég sagði fyrr í kvöld í andsvörum er það auðvitað þetta þing sem á að skoða þingsköpin, og það á að gera það vissulega með tilliti til framtíðar og með tilliti til þess að nútímavæða störf þingsins.

Því nefni ég þetta að það er dapurlegt þegar maður skoðar þær tillögur sem eru lagðar fram að í þeim skuli vera eitt allsherjargat sem snýr að nefndasviðinu sem er auðvitað það sem þarf virkilega að styrkja og breyta í störfum Alþingis til að gera störfin öll skilvirkari, lagasetninguna markvissari og þar með stytta ræðutíma í þingsal.

Af því tilefni vek ég, frú forseti, athygli á blaðsíðu 12, fylgiskjali II í nefndaráliti minni hluta í allsherjarnefnd þar sem raktar eru hugmyndir Vinstri grænna um eflingu Alþingis og bætta starfsaðstöðu þingmanna óháð þingskapabreytingunum eins og þær eru lagðar fyrir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndasvið Alþingis verði endurskipulagt og stóreflt og liður í því verði að bæta sérstaklega starfsaðstöðu stjórnarandstöðu. Undir nefndasvið heyri sérstakar deildir, svið eða skrifstofur sem komið verði á fót. Til að byrja með mætti hugsa sér að þar yrði hagskrifstofa (fjárlög og ríkisfjármál, skattar, viðskiptamál, efnahagsmál og hagstjórn o.fl.); í framhaldinu yrði komið á fót laga- og félagsmálaskrifstofu (stjórnarskrá og lagasetning, mannréttindamál, dóms- og sakamál, velferðarmál o.fl.); alþjóðaskrifstofu sem sinnti EES, WTO og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum og væri utanríkismálanefnd og þinginu almennt til stuðnings; og umhverfis- og atvinnuvegaskrifstofu (umhverfisvernd og auðlindir, atvinnuvegir, nýsköpun og byggðamál o.fl.).“

Hér er í hugmyndum að málamiðlun sem lögð var fyrir hv. allsherjarnefnd frá Atla Gíslasyni, fulltrúa Vinstri grænna í allsherjarnefnd, komið að kjarna málsins. Þetta er það sem þarf að breyta til þess að gera störf Alþingis markvissari. Það þarf að styrkja nefndasviðið. Ég er alveg sannfærð um að ef það yrði gert mundi margt í verklagi í þessum sal breytast.

Ég ætla ekki að fjalla mikið um ræðutímann, frú forseti. Það er vissulega mjög mikilvægt að skerða ekki málfrelsi þingmanna og ég tek undir það að stjórnarandstöðunni í þeirri stöðu sem hún er í nú í dag, miðað við þann ofurstyrkleika sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa í þinginu, veitir ekki af að geta nýtt sér málfrelsið eins og þurfa þykir.

Mér finnst mjög dapurlegt, frú forseti, að svo virðist sem hv. þingmenn bæði Framsóknarflokks og Frjálslyndra hafi gleymt því hvert fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var á sumarþingi í sumar þegar meiri hlutinn knúði fram breytingu á þingskapalögum, aðra í röðinni á þessu ári, án minnsta tillits til verklags sem áður hafði verið viðhaft og án minnsta tillits til minni hlutans sem þá var stjórnarandstaðan sameinuð. Í þessu ljósi ber að skoða tillögu okkar vinstri grænna um aukinn meiri hluta til að fá hér fram afbrigði. Mér þykir miður að hafa ekki heyrt neinn fulltrúa Framsóknarflokks eða Frjálslyndra taka undir þá tillögu, ekki síst í ljósi þess sem gerðist í sumar.

Frú forseti. Það er hlálegt að umræður um þingsköp sem að sögn flutningsmanna er ætlað að koma í veg fyrir næturfundi skuli einmitt vera hér til umræðu á síðasta degi þingsins, samkvæmt starfsáætlun — eða á ég að segja síðustu nóttinni? Það er talað um mikinn og vandaðan undirbúning og marga fundi í allsherjarnefnd. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að þingskapafrumvarpið var sent allsherjarnefnd fimmtudaginn 6. desember sl. Þegar við þingmenn mættum hér til vinnu í morgun var 13. desember, þ.e. ein vika hafði þarna liðið, fimm vinnudagar, og mér er til efs að sú tímalengd geti borið vott um vandaða vinnu í svo stóru máli og þegar svona mikill ágreiningur ríkir um það eins og hér hefur komið fram.

Ég minni líka á það, frú forseti, að þingsköp Alþingis eru sá rammi sem þingmenn starfa eftir en þau hafa víðtækari áhrif með því að þau eru í rauninni fyrirmynd að verklagi og fundarsköpum í félögum um allt land. Mönnum hefur orðið tíðrætt hér um virðingu Alþingis og álit almennings á störfum þingsins. Hingað koma í hverri viku skólanemar af öllum skólastigum til að kynnast starfsháttum Alþingis og nýlega hefur verið opnað skólaver til að nemarnir geti kynnst störfunum af eigin raun. Þar er væntanlega ætlunin að kynna þingsköp Alþingis og, eins og ég segi, þau munu hafa víðtækari áhrif en bara innanvert í þessum sal.

Hvað varðar umræður um virðingu Alþingis er ég þeirrar skoðunar að flestir Íslendingar séu stoltir af Alþingi Íslendinga og sé annt um virðingu þingsins. Hér veit nánast hvert mannsbarn að Alþingi er eitt elsta þjóðþing veraldar, saga þess er löng og merk. Hún byggir á sterkum hefðum. Þetta er elsta stofnun landsins og um leið sú æðsta. Þetta er sú mynd sem ég held að flestir vilji hafa af Alþingi Íslendinga. Og þetta er sú mynd sem við sem hér störfum viljum gjarnan viðhalda og styrkja.

Ég átti þess kost snemma í haust að taka á móti hópi nemenda Menntaskólans í Reykjavík, og splunkunýjum þingmanni var falið að kynna þeim störf þingmanna einmitt hér þessum sal. Ég leitaði þá fanga í eigin reynslu sem og í bæklingi Alþingis sem gefinn hefur verið út um Alþingi Íslendinga. Ég lagði auðvitað áherslu á það við þessi ungmenni að vinnan í þinginu færi minnst fram hér í salnum og að sú mynd sem sést í sjónvarpi og blöðum af þunnskipuðum ráðherrabekkjum og fáum þingmönnum í sal væri ekki rétt mynd af störfum Alþingis, vinnan sjálf færi fram annars staðar, hún færi fram í nefndum þingsins þar sem þingmenn ræddu mál í viðræðum sín í milli og með beinum viðræðum við hagsmunaaðila, veltu upp ýmsum hliðum og kölluðu eftir formlegu áliti frá mönnum og að þangað kæmu gestir frá félagasamtökum, fyrirtækjum og sveitarfélögum — hagsmunaaðilum sem væri hlustað á.

Ég hafði líka svolítið gaman af því að benda þessum nemendum úr Menntaskólanum í Reykjavík á það að hér sætu ekki einungis lögfræðingar með stúdentspróf frá MR, eins og áður var, og lék mér að því að biðja þá um að geta upp á því hverjir væru hér í hópi alþingismanna — stærðfræðingar, sjómenn, hagfræðingar, jarðfræðingar, prestar, líffræðingar, bændur. Alþingi er og á að vera þverskurður af íslensku þjóðinni. Í dag er auðvitað einn mjög alvarlegur halli á því, hlutfall kvenna sem er mjög skert. Myndin sem er dregin upp af Alþingi almennt er í heild svolítið skökk að þessu leyti. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir lögfræðingnum sem væntanlega er með stúdentspróf úr MR og er hér næstur á mælendaskrá. (Gripið fram í: Málamiðlunar…) En ég var að segja frá því hvernig ég nálgaðist það að kynna Alþingi fyrir þessum hópi ungmenna úr menntaskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Ég lagði á það áherslu að í þessum sal færi fram lýðræðisleg umræða og menn tækjust á í fullri alvöru um grundvallarmál eftir skoðun sinni og sannfæringu en menn gerðu það í bróðerni og af virðingu. Ég hlýt að spyrja mig í dag hvort sú mynd sem ég dró upp af störfum á Alþingi sé sönn. Atburðir dagsins í dag hafa því miður orðið á þann veg að ég hlýt að segja að svo er ekki, a.m.k. ekki í þessu máli.

Hér eru sannarlega þunnskipaðir bekkir ráðherra og fáir þingmenn í sal enda er, frú forseti, klukkan tuttugu mínútur gengin í tvö að nóttu, á aðventunni. Skyldu þingmenn og ráðherrar, ég tala nú ekki um forseta Alþingis, vera að hlusta og fylgjast með umræðunni? Ég veit það ekki. Ég ætla að leyfa mér að vona það. Vann allsherjarnefnd vinnuna sína vel? Voru kallaðir til gestir? Var leitað álits? Hvað var gert með álit starfsmanna Alþingis sem barst nefndinni? Talsmenn þessa frumvarps hafa ekki fjallað mikið um það hér, þær kröfur sem maður hlýtur að gera til framsetningar frumvarps af þessu tagi. Frumvarpið sem hér liggur fyrir uppfyllir þær á engan hátt.

Það er miður, eins og ég sagði áðan, að í þessu efni er ekki eins og venjulega við ríkisstjórnarmeirihluta á Alþingi að sakast, heldur á forseti Alþingis hér beinan hlut að máli, verkstjóri okkar á Alþingi, og vinnutæki hans eru einmitt þingsköpin. Mig langar, frú forseti, til að vitna aðeins um það hvernig Alþingi kynnir störf sín í þessu riti hér og kannski sérstaklega störf þingsins.

Í fyrsta kafla þessa bæklings um Alþingi sem ber heitið Alþingi og lýðræðið er lögð á það áhersla að kjósendur og fulltrúar þeirra beri ábyrgð á að varðveita virkt lýðræði í landinu og að Alþingi sé hornsteinn lýðræðis. Um störf forseta segir, með leyfi forseta:

„Þingforsetinn stýrir störfum Alþingis. Oft þarf hann að sætta ólík sjónarmið og gæta hagsmuna margra. Þannig getur þingforseti ekki látið sjónarmið eigin flokks ráða gerðum sínum heldur verður hann að gæta þess að tekið sé á erindum allra þingmanna af sanngirni og réttsýni.“

Ég verð að segja, frú forseti, að sú mynd sem hér er dregin upp af hlutverki og störfum forseta Alþingis stenst ekki atburði dagsins. Þetta er einhver glansmynd sem við þingmenn höfum vissulega verið ákaflega meðvirkir í að sýna og varðveita og við höfum upp til hópa ekki talið það efla virðingu Alþingis að ræða mikið hér eða opinbera ágreining við forseta þingsins um störf forsetans eða það sem miður fer í störfum þingsins innanvert.

Mér þykir mjög miður að óhreini þvotturinn hafi verið borinn á torg með þessum hætti eins og hér hefur verið gert í þessu frumvarpi í dag þar sem stór meiri hluti í þinginu er að þvinga í gegn breytingar á þingsköpum án þess að virða álit stærsta stjórnarandstöðuflokksins og tillögur okkar um málamiðlanir. Og mér þykir miður að ekki hafi verið leita sátta af hálfu forseta þingsins um þetta, heldur hefur það þvert á móti verið hlutverk þingmanna Vinstri grænna, formanns okkar þingflokks og fulltrúa okkar í allsherjarnefnd og formanns flokksins, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, Atla Gíslasonar og Steingríms J. Sigfússonar, að leita eftir því að ná fram sátt og málamiðlun um nær hvert einasta atriði þessa máls. Og ég hlýt að lýsa ábyrgð á hendur forseta Alþingis vegna þeirrar óeiningar sem hér er uppi um þessi mál. Sú mynd og það andlit sem uppi er af Alþingi eftir atburði dagsins er af meiri hluta sem einskis svífst í að beita minni hlutann ofurvaldi sínu eins og reyndar gerðist hér á sumarþinginu.

Það hefur sem sagt, frú forseti, fallið aðeins á glansmyndina, þessa sem ég dró hér upp við nemendurna úr Menntaskólanum í Reykjavík í haust og á þá mynd sem Alþingi gefur gjarnan af sjálfu sér eins og í því ágæta plaggi sem ég las hér upp úr. En það er ekki ábyrgð okkar, þingmanna Vinstri grænna, að málum er svo komið og það er heldur ekki hlutverk okkar úr þessu, frú forseti, að fægja myndina fyrir næstu sýningu. Það verða aðrir að ganga í þau verk.

Hv. þm. Atli Gíslason kallaði viðbrögðin sem hafa kallað fram þetta frumvarp lýðræðisþreytu. Við umræðurnar hér fyrr í kvöld, og þá á ég sérstaklega við andsvör frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, kom í ljós að hin hliðin á teningnum lýðræðisþreytu er valdhroki, því miður.

Ég vona að meiri hlutinn á Alþingi sjái að sér, hætti þeirri óbilgirni sem ég tel hann hafa sýnt. Ég vek athygli á breytingartillagnaskjali okkar þskj. 525, á bráðabirgðaákvæðinu í 9. lið þar sem við leggjum til að í framhaldi af setningu laga þessara skuli „skipa starfshóp fulltrúa allra þingflokka sem ásamt fulltrúum frá yfirstjórn skrifstofu Alþingis og Félagi starfsmanna Alþingis stýri úttekt á starfsemi og starfsháttum Alþingis, starfsaðstöðu þingmanna jafnt sem starfsmanna og hlutverki og stöðu Alþingis í samfélagi nútímans. Tillögur sínar til úrbóta skal starfshópurinn leggja fyrir Alþingi í formi skýrslu fyrir árslok 2008“.

Ég tel mjög brýnt að hefja slík störf. Þau hefðu þurft að vera undanfari þessa frumvarps sem við erum að tala um en voru það því miður ekki. Það er rétta leiðin og ég tel, frú forseti, að mikið verk sé óunnið enn í því að breyta og bæta vinnubrögð á Alþingi og að það frumvarp sem hér liggur fyrir muni ekki tomma mikið í þeim efnum.



[01:28]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Orðið er áliðið og fáir þingmenn í húsinu enda hafa þær ræður sem fluttar hafa verið að undanförnu ekki verið það skemmtilegar að þær hafi haldið mörgum þingmönnum hér. Vegna þess hvernig ástandið er fer ég fram á við frú forseta að hún fresti fundinum og að málið verði tekið áfram til umræðu á fundi í fyrramálið. Ég spyr forseta hvort hún telji ekki eðlilegt að fresta fundi vegna þess hve fáir þingmenn eru í salnum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti telur eðlilegt að halda þessari umræðu áfram þangað til henni lýkur.)

Þá veit ég það.

Ég vil byrja á því, og kem þá nokkuð öðruvísi að en þeir ræðumenn sem hingað til hafa talað í umræðunni eða alla vega upp á síðkastið, að þakka forseta þingsins fyrir að hafa átt forgöngu um að hreyfa þingsköpum Alþingis og leggja fram tillögur um þau atriði. Hvað svo sem segja má um þingskapafrumvarpið liggur alveg ljóst fyrir að markmiðið sem stefnt er að með breytingunum sem lagðar eru til eru í fyrsta lagi að koma betri svip á þinghaldið, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gat rækilega um í ræðu sinni að væri æskilegt. Í öðru lagi að skipuleggja þinghaldið betur, í þriðja lagi að gefa þinginu betri kost á að fá upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu og í fjórða lagi að gera störf þingsins skilvirkari. Í fimmta lagi að gera þingmönnum og starfsfólki Alþingis auðveldara að skipuleggja störf sín. Ég tel það skref í rétta átt hvernig staðið hefur verið að frumvarpinu eins og það er nú með breytingartillögunum sem liggja fyrir.

Ég tek undir sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar. Ég skrifa jafnframt undir nefndarálit meiri hlutans og vísa til sjónarmiðanna sem þar koma fram. Ég vil þó að gefnu tilefni taka fram ákveðin atriði. Í fyrsta lagi hefði ég viljað sjá meiri breytingar á þingsköpum Alþingis en hér eru lagðar til. Ég hefði viljað að sett væru ný ákvæði um starfsemi fastanefnda Alþingis sérstaklega, m.a. hvenær fundir nefndanna skyldu vera opnir og að nánari skilgreiningar kæmu fram á því með hvaða hætti afgreiðslu nefndanna væri háttað í málum sem vísað er til þeirra. Þingmenn sem hafa langa þingreynslu þekkja að stjórnarfrumvörp hafa algjöran forgang. Með sama hætti er það þannig að þingsályktunartillögur komast sjaldnast á dagskrá nefndanna, þær eru sjaldnast afgreiddar út úr nefndunum. Nauðsynlegt er að ákveða að nefndir taki mál í eðlilegri tilvísunarröð nema afbrigða sé leitað sem þá þarf að samþykkja með auknum meiri hluta. Við hefðum í því efni þurft að taka dönsku þingskapalögin til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Til þess að stuðla að vandaðri lagasetningu skiptir gríðarlega miklu máli að starf nefndanna sé þannig að þar sé umgjörð sem býður upp á slíka vinnu. Einnig skiptir máli að þingmönnum sé ekki mismunað, né heldur stjórnarfrumvörpum eða einstökum þingmannafrumvörpum, varðandi með hvaða hætti mál eru tekin fyrir í nefndum.

Fyrir liggur að mjög mikilvægt er að nefndafundir séu í ákveðnum tilvikum, samkvæmt ákveðinni skilgreiningu sem liggur fyrir í þingskapalögum, opnir fyrir almenning og fjölmiðla til þess að fólkið í landinu fái meiri innsýn í störf Alþingis. Mér finnst mikilvægt að það komi fram. Það kann að vera að í kjölfar umræðunnar sem hér fer fram gefist kostur á að taka málin til frekari umræðu eftir áramót. Ég vil líka geta þess að ég hefði viljað ganga mun lengra en gert er í frumvarpinu og breytingartillögunum sem allsherjarnefnd kom sér saman um varðandi takmörkun á ræðutíma. Ég hefði viljað stytta hann enn meira en lagt er til.

Það er misskilningur að með því að takmarka ræðutíma, svo sem lagt er til að litlu leyti, að verið sé að skerða málfrelsið. Þvert á móti má gera ráð fyrir að fleiri þingmenn komist að til að gera grein fyrir máli sínu og það skiptir líka máli. Það hefur líka þýðingu fyrir málfrelsi að sem flestir þingmenn komist að til þess að tjá sig í hinum ýmsu málum.

Vegna málatilbúnaðar og málflutnings sem vinstri grænir hafa haft uppi, og ekki síst vegna þeirra spurninga sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson beindi til mín áðan, finnst mér nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir með hvaða hætti þessa hluti ber að. Formaður þingflokks Vinstri grænna kom að mótun þingskapafrumvarpsins ásamt öðrum flokksformönnum. Ég átta mig ekki á og þekki ekki út í hörgul með hvaða hætti sú vinna fór fram en þar sem ég veit að hv. formaður þingflokks Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, er hér næstur á eftir mér á mælendaskrá getur hann væntanlega gert ítarlega grein fyrir því með hvaða hætti þar var unnið. Ég hefði talið, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, að farið hafi verið vel yfir þau mál og sjónarmið sem um ræðir áður en frumvarpið varð til í þeirri mynd sem það var lagt fram á Alþingi og í allsherjarnefnd.

Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson: Hverjar voru tillögur vinstri grænna á þeim tíma? Hvað var lagt inn í þá umræðu? Hvað var lagt til að gert yrði varðandi þingskapalögin? Málið kom til meðferðar Alþingis og hefur verið, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir rakti í ræðu sinni áðan, hjá allsherjarnefnd um skamma hríð. Það er ekki spurning um lengd tímans sem mál eru hjá nefndum heldur hvernig nefndin vinnur. Ég verð að segja að ég tel að formaður allsherjarnefndar hafi lagt sig í líma við að farið væri vel yfir málið og kölluð fram sjónarmið einstakra nefndarmanna. Við lok nefndarstarfsins komu fyrst fram hugmyndir frá fulltrúa Vinstri grænna og þá tóku nefndarmenn til við að skoða hvernig náðst gæti samstaða í málinu innan nefndarinnar en því miður tókst það ekki.

Hvað varðar orð mín í morgun vísaði ég til þess að sjónarmið og hvati til að ná samkomulagi komu aldrei frá vinstri grænum. Mér þótti miður að ekki skyldi liggja fyrir um hvað hægt væri að ná samkomulagi þannig að allir flokkar stæðu að því. Nú stendur meiri hluti stjórnarandstöðunnar að þingskapafrumvarpinu og telur að hagsmunum sínum sé betur borgið með lögfestingu þess en án hennar og það er staðreyndin í málinu.

Þegar málið var tekið úr nefndinni fannst mér í sjálfu sér ekkert liggja á og greiddi ekki atkvæði með að því yrði hraðað vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að skoða fleiri atriði. Fyrst og fremst fannst mér nauðsynlegt að skoða atriðin sem ég hef fjallað um varðandi nefndastarfið, umbúnaðinn um það. Það sem mestu máli skiptir varðandi vandaða lagasetningu er góður tími sem nefndirnar hafa til að vinna að málum, að einstakir þingmenn fari yfir málin, grandskoði þau, beri saman bækur sínar í nefndunum og kalli til fulltrúa sem hafa eitthvað til málanna að leggja.

Ég verð að segja að þegar ég settist á sínum tíma inn á þing sem varaþingmaður fyrir margt löngu, þegar enn þá voru hér efri og neðri deild, var eiginlega það fyrsta sem kom mér á óvart hversu vel þingmenn unnu störf sín, hversu vel þeir settu sig inn í málin sem var um að ræða. Ég hafði satt að segja búist við að þar væri um mun yfirborðslegri skoðun á málum að ræða en raun bar vitni. Ég hef einnig tekið eftir því þegar ég sest inn á þing sem kjörinn þingmaður að hin almenna regla er sú að þingmenn gæta þess að fara vel yfir mál og skoða þau. Ég skal alveg gefa vinum mínum í Vinstri grænum þá einkunn að þeir eiga heiður skilinn fyrir hversu faglega þeir vinna lagafrumvörp sín. Þó að ég sé iðulega ósammála þeirri niðurstöðu sem þeir komast að tel ég að þeir séu starfsamir og góðir þingmenn og vinni vel að þeim sjónarmiðum sem þeir standa fyrir og það er annað mál.

Þar sem þingskapafrumvarpið er vinstri grænum svo kært að þeir hafa bæði boðað til blaðamannafundar og tekið það til umræðu í þjóðfélaginu almennt, kom mér nokkuð á óvart að nákvæmar tillögur þeirra lægju ekki fyrir fyrr en raun bar vitni og að nefndarálitið frá minni hluta allsherjarnefndar skyldi fyrst sjá dagsins ljós klukkan 18 í dag. Öll efnisatriði málsins voru fyrir löngu ljós og þess vegna fannst mér vægast sagt nokkuð sérstakt að vinstri grænir skyldu ekki hafa mótað tillögur sínar nákvæmlega. Þeir þurftu heilan þingdag til að ganga frá nefndaráliti í málinu sem, eins og ég benti á, þeir höfðu í raun haft góðan tíma til að gera. Ég get ekki gert að því að mér finnst alltaf nokkur ljóður á ráði manna í umræðu þegar þeir setja sig í fórnarlambshlutverkið, fjalla um mál út frá yfirborðinu en víkja ekki að helstu efnisatriðum þar.

Í ræðu sinni sagði hv. þm. Atli Gíslason, sem stendur að minnihlutaáliti allsherjarnefndar um frumvarpið, að þeim hefði verið gefinn hálfur dagur til að vinna nefndarálitið. Hv. þingmaður sagði að málsmeðferð allsherjarnefndar kallaði á óvönduð vinnubrögð en hvorugt er rétt. Í fyrsta lagi var gefinn mun lengri tími til að vinna nefndarálitið, afstaðan lá ljós fyrir alllöngu áður og málsmeðferð allsherjarnefndar var síður en svo óvönduð. Ég hefði að vísu kosið að fyrrverandi forsetar Alþingis hefðu komið fyrir nefndina, fyrst og fremst vegna reynslu sinnar — í sjálfu sér skal ég ekki segja hverju það hefði skilað, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, að kalla umboðsmann Alþingis fyrir nefndina, það tel ég ekki rétt. Ég tel ekki eðlilegt að umboðsmaður Alþingis sé kallaður fyrir allsherjarnefnd til þess að fjalla um þingsköp Alþingis. Umboðsmaður Alþingis er í sérstakri stöðu og á ekki að vera í nánari tengingu við Alþingi. Hann skilar skýrslu sinni og gerir Alþingi og allsherjarnefnd grein fyrir málum sem hann vinnur að. Hann á ekki að fjalla um þingsköp Alþingis.

Í ræðu sinni sagði talsmaður minni hlutans, hv. þm. Atli Gíslason, að öðru leyti að þetta væri átakanlegt dæmi um vinnubrögð en forðaðist að víkja að einstökum efnisatriðum frumvarpsins. Í ræðu sinni rakti hv. þm. Siv Friðleifsdóttir undirbúning og aðdraganda að framlagningu frumvarpsins og gerði grein fyrir að margir hefðu komið að málinu og ég gat ekki skilið orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur öðruvísi en svo að þingflokksformaður Vinstri grænna hefði komið að undirbúningi alveg frá upphafi málsins. Ég kalla enn eftir svörum af hans hálfu ef hér er ekki rétt með farið.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði í ræðu sinni áðan að þau í Vinstri grænum hefðu verið tilbúin til að ná samstöðu um frumvarp til þingskapa. Ég velti fyrir mér hvaða kostir væru í stöðunni. Ég spurðist ítrekað fyrir um hvað þyrfti til en fékk ekki svör við því og vísaði til þess í ræðu minni í morgun. Ég sagði að hér vantaði að fá nákvæmlega fram hvað gera þyrfti til að samkomulag gæti orðið milli allra þingflokka á Alþingi.

Allsherjarnefnd og einstakir fulltrúar í nefndinni teygðu sig mjög langt til að reyna að ná samkomulagi og augljós vilji var þar til að ganga til móts við hugmyndir vinstri grænna þó að þær kæmu fram seint og um síðir.

Hv. þm. Atli Gíslason spurði í ræðu sinni hvort breytingar á þingsköpum styrktu Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu en sagði síðan að svo væri ekki, þvert á móti væri þar verið að draga úr mikilvægi Alþingis. En er það svo? Er það svo að með þingskapafrumvarpinu sé verið að draga úr mikilvægi Alþingis? Er verið að styrkja framkvæmdarvaldið á kostnað Alþingis? Stenst fullyrðing hv. þm. Atla Gíslasonar þegar frumvarpið er skoðað? Er það rétt sem talsmenn Vinstri grænna hafa haldið fram, að lögfesting frumvarpsins mundi veikja stjórnarandstöðuna og gera starf hennar erfiðara?

Ég hlustaði satt að segja með mikilli athygli á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar þegar hann mælti fyrir minnihlutaáliti sínu. Ég beið eftir því að hann fjallaði efnislega um einstakar greinar frumvarpsins og færi yfir með hvaða hætti og hvar þessir hlutir væru sem kæmu framkvæmdarvaldinu svo til góða en drægju úr mikilvægi Alþingis. Ég verð satt að segja að viðurkenna að mér fannst skorta á að þeim hlutum væri fundinn staður.

Í þeim löngu umræðum sem farið hafa fram í dag, í kvöld og í nótt um frumvarpið hafa hv. þingmenn sem tekið hafa til máls fæstir vikið að efnisatriðunum sem eru í frumvarpinu. Ef við skoðum fullyrðingar hv. þm. Atla Gíslasonar sem ég vék að og efnisatriðin í frumvarpinu, hvar eru þá þeir hlutir sem gera störf stjórnarandstöðunnar erfiðari, auðvelda framkvæmdarvaldinu og styrkja framkvæmdarvaldið gagnvart Alþingi?

Ef við skoðum 1. gr frumvarpsins er verið að fjalla um að þingflokkur sem ekki á fulltrúa í forsætisnefnd skuli samkvæmt ákveðnum tillögum eiga áheyrnarfulltrúa til setu á fundum hennar. Síðari hluti 1. gr. fjallar um lengingu á þingtímanum og hvernig hann er. Ef eitthvað þarf að ræða varðandi 1. gr. er það fyrst og fremst að hún gerir störf Alþingis skilvirkari, tryggir rétt lítils minni hluta til að geta fylgst með og hafa eftirlit með því sem verið er að gera.

Í 2. gr. frumvarpsins er viðbót og þar segir að þriðjungur nefndarmanna geti óskað eftir því að ráðherra komi á fund þingnefndar í þinghléum. Hvað er um að ræða? Hér er verið að leggja skyldu á framkvæmdarvaldið þar sem löggjafarvaldið getur gert kröfu til þess að framkvæmdarvaldið sinni eðlilegri upplýsingaskyldu og þurfi að mæta á fundi hjá löggjafarvaldinu eða handhöfum löggjafarvaldsins til þess að fjalla um og gefa skýringar. Hvað þýðir það? Verið er að styrkja stöðu Alþingis og gefa stjórnarandstöðunni betri möguleika en ella væri.

Ef við skoðum 3. gr. frumvarpsins, hvað er þá verið að fjalla um? Jú, verið er að setja þá skyldu á hendur ráðherrum að þeir skuli að jafnaði á fyrstu vikum þings koma á fund þingnefnda til að fjalla um málaflokka sem undir þá heyra. Með sama hætti er hér verið að leggja aukna skyldu á hendur framkvæmdarvaldsins og auka möguleika löggjafarvaldsins til að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Þvert gegn því sem hv. þm. Atli Gíslason og ýmsir aðrir talsmenn Vinstri grænna hafa haldið fram er hér verið að styrkja löggjafarvaldið á kostnað framkvæmdarvaldsins.

Ef við skoðum síðan 4. gr. er vísað til með hvaða hætti lagafrumvörpum skuli útbýtt og hvenær hægt sé að taka þau til umræðu. Ef eitthvað er þá er um aukna skilvirkni að ræða og tekin af öll tvímæli um hvernig með þau skuli fara. Ekki getur það verið til þess fallið að draga úr skilvirkni í störfum þingsins eða valdið því að störf þingsins séu gerð erfiðari en hlutur framkvæmdarvaldsins meiri.

Í 5. gr. er ákvæði sem fjallar um vandaðri vinnubrögð við umfjöllun og setningu laga þar sem sagt er að ef frumvarp breytist við 2. umr. skuli nefnd fá það aftur til afgreiðslu og skoðunar fyrir 3. umr. Í 6. gr. eru líka ákvæði sem lúta að vandaðri lagasmíð þannig að ekki er það gert á kostnað þess að draga úr þeim hlutum heldur þvert á móti.

Í 7. gr. er fjallað um þingsályktunartillögur, hvenær þeim er útbýtt og ákveðnar starfsreglur í kringum þær. Síðan fjallar 8. gr. um umræður um munnlega skýrslu ráðherra þar sem nánast er kveðið á um með hvaða hætti þær skuli fara fram. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það en segja má að aðrar greinar séu einstaka lagfæringar á því með hvaða hætti þær skuli vera.

Í c-lið 10. gr., og reyndar einnig í 11. gr., er fjallað um með hvaða hætti koma má fyrir umræðum um störf þingsins og eins eru reglur hvað það varðar gerðar skýrari. Ekki er þar með einum eða neinum hætti verið að draga úr möguleikum þingmanna nema að vísað er til þess að það skuli gert á ákveðnum tímum og ekki öðrum.

Síðan er fjallað um ræðutímann í 12. gr. Það er það sem málið virðist snúast töluvert um. Ég vil fyrst geta þess að í 15. gr. er heimildargrein fyrir forseta, að hann geti ákveðið umræður og með hvaða hætti þær skuli vera samkvæmt ákveðnum skilgreiningum. Menn geta kannski fett fingur út í það sjónarmið en það er þá forseti Alþingis sem hefur þetta vald og er ekkert út á það að setja.

Varðandi ræðutímann er spurningin um hvort þar sé um að ræða, og þar vísa ég til 12. og 16. gr., þann umbúnað sem Alþingi skapar sér, með hvaða hætti málin eru rekin. Ég get ekki séð að þar sé verið að rýra kosti löggjafarvaldsins til hagsbóta fyrir framkvæmdarvaldið.

Þetta eru þau efnisatriði sem ég vildi minnast á, virðulegi forseti, sem lagafrumvarpið fjallar um. Ég fæ því ekki séð hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu sem hv. þm. Atli Gíslason rakti hér áðan, að verið sé að veikja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu og gera störf stjórnarandstöðunnar erfiðari. Þvert á móti sé ég ekki annað, eins og ég hef rakið, en að hér sé að öllu leyti verið að styrkja störf löggjafarvaldsins, gera lagastarf skilvirkara og betra en nú er og auka möguleika lítils minni hluta. Það sem þá steytir á er spurningin um ræðutímann.

Ég staldraði akkúrat við það þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar og hann vísaði til þess hvernig hlutirnir gerðust í þjóðþingum sem okkur eru skyldust. Allt í einu vék hann að öðrum hlutum og taldi að okkur hefðu ekki verið kynntar þær reglur í allsherjarnefnd sem um það giltu.

Það er nú ekki alls kostar rétt því að bæði stjórnarskrár- og þingskapalög annarra Norðurlanda voru kynnt. Ef við skoðum þingskapalög þau sem fyrir liggja og gilda á hinum Norðurlöndunum sést að við erum tengdust danskri lagahefð. Þar af leiðandi liggur ljóst fyrir að dönsku þingsköpin eru skyldust frumvarpi okkar.

Hjá okkur vantar að vísu inn í þá þætti sem varða nefndarstarfið en eru í dönsku þingsköpunum. Ef vikið er að ræðutímanum er eftirtektarvert að ræðutími í þjóðþingum á Norðurlöndum — eða ef við tökum Danmörku sérstaklega þá hefur flutningsmaður tíu mínútur við 1. umr., aðrir þingmenn fimm. Í annarri umferð hefur flutningsmaður fimm mínútur en aðrir þingmenn þrjár. Þeir hafa hins vegar sérreglur um lengri ræðutíma hjá ráðherrum.

Í 2. umr. hefur framsögumaður tíu mínútur en aðrir þingmenn hafa fimm mínútur og þrjár mínútur. Sama regla er í 3. umr. þannig að í danska þjóðþinginu er ræðutíminn mun styttri en í okkar tilviki.

Það sem mér fannst skipta máli og ég lagði áherslu á í allsherjarnefnd var að ræðutíminn yrði styttur frá því sem gert er ráð fyrir í þingskapafrumvarpinu sem fyrir liggur. Hvernig þá? Í fyrsta lagi varðandi 1. umr. um frumvörp til þess að þeir þingmenn sem leggja mikla vinnu í að semja frumvörp og koma þeim fram, geti mælt fyrir þeim og komið þeim til nefnda.

Það eru margir þingmenn sem flutt hafa frumvörp og mæla ekki fyrir þeim á því þingi sem frumvörpin eru lögð fram. Það er óviðunandi, það er skerðing á málfrelsi. Það er skerðing á því að um eðlilega umgjörð sé að ræða fyrir þingmenn til að koma málum sínum fram og við það getum við ekki sætt okkur.

Ég taldi því nauðsynlegt og eðlilegt að við 1. umr. væri reynt að ná fram meiri skerðingu á ræðutíma en hér er gert ráð fyrir, einmitt í þessum tilgangi. Reyndar var upplýst að ræðutíminn við 1. umr. væri um 40% alls ræðutíma, ef ég man rétt. Það kom mér nú reyndar nokkuð á óvart að svo mikill hluti ræðutímans væri í þeirri umræðu en það sýnir að rétt er að leggja sérstaklega til styttingu hvað það varðar. Þar er fyrst og fremst verið að leggja fram mál og eftir það eiga að fara fram málefnalegar umræður og vinna í nefndum.

Það var í danska þjóðþinginu en í norska þjóðþinginu er um enn þá takmarkaðri ræðutíma að ræða. Þar má enginn taka oftar til máls en þrisvar sinnum. Talað er um að mál megi almennt ekki fara fram yfir 30 mínútur í heildina. Þar er forseta þingsins veitt víðtæk heimild til þess að ákveða og gera tillögur um ræðutíma og takmarkanir.

Í Svíþjóð er enn þá takmarkaðra aðgengi hvað það varðar. Þar verður að koma fyrir fram með tillögu og leggja hana fram ef þingmenn ætla að taka til máls. Þegar þetta er skoðað liggur fyrir að Alþingi Íslendinga sker sig úr að þessu leyti, við höfum langrýmsta ræðutímann fyrir þingmenn. Ég hef misnotað tímann nú þar sem ég er búinn að tala í hálftíma sem það er samt sem áður ekki nema brot af því sem ýmsir aðrir þingmenn hafa notað sér.

Við erum í sérflokki hvað ræðutímann varðar meðal þjóðþinga sem ég hef kynnt mér. Hann er mun lengri og auk þess eru heimildir þingmanna til að tala úr ræðustól á Alþingi meiri en almennt gerist. Þess vegna get ég ekki fallist á að það sé skerðing á málfrelsinu eða möguleikum stjórnarandstöðu sem hér um ræðir t.d. til þess að halda uppi málþófi.

Ég get alveg viðurkennt rétt til þess að halda uppi málþófi vegna þess að það kann að vera nauðsynlegt og rétt í ákveðnum tilvikum. Menn mega hins vegar ekki misnota það. Það kann að vera alveg réttlætanlegt. Eins og bent hefur verið á er það eitt af þeim fáu vopnum sem stjórnarandstaðan hefur í höndunum gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Á þjóðþingum Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar eiga sæti mun fleiri þingmenn en á Alþingi Íslendinga en þar er ræðutíminn samt sem áður mjög skertur.

Hv. þm. Ellert B. Schram vék að því í ræðu sinni áðan að menn hefðu sjö mínútur til að tala á Evrópuþinginu og rakti síðan í ágætri ræðu ýmsa hluti sem komið hefðu upp, enda um að ræða langa en að vísu slitna þingsögu.

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að stytta ræðu mína þótt af mörgu sé að taka til viðbótar miðað við þær umræður sem farið hafa fram en ég spyr: Hvernig stendur á því að við skulum ekki hafa getað tileinkað okkur starfsreglur eins og gilda í þjóðþingum með mjög langar lýðræðishefðir eins og á hinum Norðurlöndunum? Dettur einhverjum í hug að í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð sé brotið sé gegn málfrelsinu vegna þess að þar eru settar ákveðnar reglur um ræðutíma? Að sjálfsögðu ekki.

Staðreyndin er sú að hér er að mestu leyti um eðlilegar breytingar að ræða, breytingar sem eru til þess fallnar að setja betri umgjörð og starfsreglur um Alþingi. Þær eru til þess fallnar að auka veg Alþingis, ef eitthvað er, og gera störf þess skilvirkari. Þess vegna styð ég heils hugar frumvarpið sem fyrir liggur um breytingu á þingsköpum með þeim breytingartillögum sem allsherjarnefnd gerir að tillögu sinni.

Ég ítreka að ég hefði viljað ganga lengra. Ég hefði viljað taka til umfjöllunar reglur um starfsnefndir Alþingis og skerða ræðutíma enn frekar, sérstaklega við 1. umr. um lagafrumvarp til að gera störf Alþingis enn skilvirkari. Ég lít þannig á að vönduð lagasetning komi frá Alþingi Íslendinga fyrst og fremst með því að þingmenn hafi tíma, tækifæri og umgjörð í starfsnefndum Alþingis til að fara yfir málin með vönduðum hætti, með samræðum sín á milli og með því að kalla til fagfólk til að fá fram öll mikilvægustu sjónarmiðin varðandi þá lagasetningu sem um er að ræða. Það er það sem ég legg höfuðáherslu á í þessu sambandi.

Eins og þingskapafrumvarpið liggur fyrir — af því ég er nú einn af þeim sem er í hinum ofurstóra þingskapameirihluta — fæ ég ekki annað séð en að tillögurnar sem lagðar eru fram séu til bóta þó að vissulega þyrfti meira að koma til. Við gerum það þá í næstu atrennu.



[02:03]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni fyrir prýðilega ræðu sem hann flutti á 35 mínútum, um það bil þeim tíma sem okkar tillögur gera ráð fyrir að þingmenn hafi við 2. umr. Hv. þingmaður kvaðst hafa fleiri röksemdum fram að tefla. En ég saknaði þess að hann héldi ofurlítið lengur áfram vegna þess að það sem þingmaðurinn hafði fram að færa var fróðlegt og málefnalegt. Hann spurði ýmissa spurninga um afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem ég vil gjarnan reyna að svara.

Varðandi samanburð við önnur ríki þá skulum við ekki gleyma því þegar við berum okkur saman við þjóðþing í ýmsum löndum sem hv. þingmaður nefndi að þá er ekki saman að jafna okkar fámenna þingi og þingum þar sem þingmenn skipta hundruðum. En látum það liggja á milli hluta. Það sem skiptir máli er að menn eigi kost á að koma skoðunum sínum og rökstuðningi á framfæri eins og hv. þingmaður gerði í máli sínu.

Þegar um flókin mál, umdeild og umdeilanleg er að ræða þá þarf góðan tíma til slíks. Í öðrum tilvikum nægir skammur tími. Ég nefndi fjölmörg þingmál sem við höfum afgreitt frá þinginu á undanförnum dögum og vikum sem hafa kallað á mjög stutta umræðu hér í þinginu en þeim mun vandaðri umfjöllun í nefndum þingsins. Síðan eru önnur mál sem við viljum gjarnan takast á um í þingsal.

Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hvernig þingið hefði breyst á undanförnum árum að því leyti að næturfundum hefði fækkað og þegar allt kemur til alls hafa ræður verið að styttast. Við höfum fært okkur úr því sem kalla mætti skipulegri óreiðu yfir í straumlínulagaðra kerfi. Ég verð að játa að hið skipulega kaos, hin skipulega óreiða, finnst mér að sumu leyti heillandi. En við erum öll sammála um að það er skilvirkara og markvissara fyrir þingstarfið að koma betra skipulagi á það.

Samhliða þessari þróun hefur framkvæmdarvaldið, ég held að flestum beri saman um það, sótt í sig veðrið og gerst ágengara gagnvart löggjafarvaldinu, gagnvart Alþingi. Af þessu hafa menn haft nokkrar áhyggjur. Ef við síðan teflum þessu saman verður til kokteill sem hlýtur að verða okkur til umhugsunar. Hver er hann? Jú, í hinni skipulegu óreiðu, í hinni löngu umræðu, felast nefnilega sóknarfæri fyrir stjórnarandstöðu. Það er á grundvelli langrar umræðu sem hún hefur, samkvæmt minni reynslu á undanförnum árum, sest að samningaborði með framkvæmdarvaldi og stjórnarmeirihluta og komist að niðurstöðu. Þetta hefur, þegar allt kemur til alls, reynst ákveðið valdatæki inni í þinginu. Það er bara staðreynd. Það er á grundvelli þess sem við höfum samið.

Þegar það gerist að við styttum ræðutíma eða setjum hömlur á hann að því marki sem hér er gert ráð fyrir, tökum 2. og 3. umr. um þingmál þar sem ræðutími hefur verið ótakmarkaður og styttum hann niður í 20 mínútur í 2. umr. þá er náttúrlega um meiri háttar takmörkun að ræða sem hefur mikil áhrif á þinghaldið. Þá þarf, til að ná markmiðum um aðhald gagnvart stjórnarmeirihluta og framkvæmdarvaldi, að grípa til einhverra annarra ráða. Hver eru þau? Hér er komið að tillögum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð og ég fyrir hönd okkar þingflokks tefldi fram í þessari umræðu. Jú, það var að stytta vinnudaginn í annan endann, inn í nóttina, færa nóttina inn í dagsljósið. Þessi hugmynd hefur síðan litið dagsins ljós í frumvarpi meiri hlutans, um að þinghaldi skuli lokið á degi hverjum klukkan átta, helst klukkan sjö, en í síðasta lagi klukkan átta. Hún er frá okkur komin. Það er tillaga frá okkur.

Það er alrangt þegar því er haldið fram að tillögur frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði séu seint fram komnar. Þetta er umræða sem hefur verið að þróast og við höfum teflt fram hugmyndum okkar. Við tefldum fram þeirri grundvallarhugsun að finna þyrfti samspil á milli þess að koma böndum á ræðutímann og styrkja stjórnarandstöðuna á annan hátt. Við höfðum hugmyndir um að forseti þingsins kæmi úr röðum stjórnarandstöðunnar, að verkstjórinn inni í þinginu kæmi úr röðum stjórnarandstöðu. Að sama skapi yrði stefnt að því að verkstjórar í þingnefndum kæmu úr stjórnarandstöðu. Þetta voru hugmyndir sem við tefldum fram.

Ég ætla að koma aðeins nánar að því og skýra með hvaða hætti þetta blasir við mér. Þessar viðræður eiga sér langan aðdraganda, margra ára, og ég hef komið að þessum málum í mörg ár, allar götur frá 1999 þegar menn hafa rætt þessi mál. Við höfum verið að gera breytingar á þingskapalögunum. Gerðar voru breytingar á þingskapalögunum á 10. áratugnum og síðan voru gerðar talsverðar breytingar fyrr á þessu ári, þ.e. 33 greinum var breytt á þessu ári. Við löguðum þingskapalögin að ýmsu leyti að breyttum háttum. En það sem gert er núna ristir hins vegar miklu dýpra.

Það sem við lögðum áherslu á var að það yrði aðgreint algerlega annars vegar á milli þess sem við gerðum til þess að styrkja stjórnarandstöðu og Alþingi, með því að efla nefndasvið, svo dæmi sé tekið og styrkja stjórnarandstöðuna á annan hátt, og hins vegar breytinga á þingskapalögunum. Því hafnaði hæstv. forseti algjörlega. Það er á þessum forsendum sem við vorum að tala um verslun og viðskipti. Það var gert að skilyrði að við samþykktum hvort tveggja í senn en þarna vildum við greina algjörlega á milli. Þetta var sú meginhugsun sem við tefldum fram.

Ég sagði alltaf í þessum viðræðum að við skyldum stíga þessi skref í áföngum. Þegar unga konan sem sannfærði mig um að það bæri að breyta þinghaldinu, stytta vinnudaginn, færa nóttina inn í daginn, heyrði að við værum sennilega að ná þeim áfanga að ljúka þinghaldinu á milli sjö og átta á hverjum degi nema á þriðjudögum, vildi hún að við gengjum lengra. Í raun er heimilt fyrir forseta að bæta við tímann, sem er eitt mál í þessu. Heimildir forsetans, sem kemur úr stjórnarmeirihlutanum, eru auknar. Þarna vildum við heldur draga úr. En þegar ég sagði þetta, að þarna væri skref í rétta átt, þá vildi hún að við færum lengra og þingdeginum lyki klukkan fimm, á sama tíma og leikskólum er lokað á daginn.

Ég var ekki alveg sammála þessu, mér fannst þetta vera skref í rétta átt en sagði: Samhliða þessu skrefi sem við stígum þá skulum við fallast á að beisla umræðuna að verulegu leyti. Föllumst á að minnka 3. umr. að því marki sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Föllumst á það. Látum 2. umr. bíða að sinni. Látum hana bíða að sinni og metum síðan málið eftir því sem það þróast. Á þessi sjónarmið var ekki fallist. Við vorum ein um þessi sjónarmið sem mér fannst þó eðlileg. Við stigum stórt skref með því að takmarka 3. umr. en þegar við áttuðum okkur á því að ekki væri vilji til þess af hálfu stjórnarmeirihlutans og meiri hlutans hér í þingi þá tefldum við því fram að við værum tilbúin að fallast á einhverjar takmarkanir.

Við settum fram hugmynd, í síðustu viku held ég að það hafi verið, um að ræðutími sem er núna ótakmarkaður, færi niður í 40 mínútur. Á allsherjarnefndarfundinum sem ég sat í fyrradag sagði ég fyrir okkar hönd að við værum líka tilbúin að endurskoða þetta og með því móti yrðum við reiðubúin að skuldbinda okkur til að leggja okkar af mörkum til að tryggja að þingskapafrumvarpið yrði samþykkt í síðasta lagi 8. febrúar, að við fengjum meira ráðrúm til að ræða málin.

Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Magnússon sagði um nefndastarfið. Hæstv. forseti hefur sjálfur tekið undir þau sjónarmið líka og sitthvað af þeim hugmyndum sem voru ræddar á okkar fundum hafa ratað inn í þetta frumvarp vegna þess að menn hafa verið nokkuð sammála um hvert beri að stefna í þessum efnum.

Ein hugmynd sem ég hef lagt áherslu á í þessum viðræðum er að við byrjum á því að breyta fyrirkomulaginu við umræður um þá starfsmenn sem heyra undir þingið. Þá er ég til dæmis að tala um umboðsmann Alþingis. Umræða um skýrslu umboðsmanns Alþingis er þannig að við ræðum skýrsluna hér í þessum þingsal en umboðsmaður situr í hliðarsal og hlýðir á erkibiskups boðskap. Þeir sem umboðsmaður Alþingis hefur síðan fjallað um fá aldrei tækifæri til þess að bera hönd fyrir höfuð sér. Það fer aldrei nein umræða fram í reynd um hans skýrslu. Það er nú ekki alveg rétt hjá mér. Oft fer hún reyndar inn í þingnefndir. En ég held að það væri snjöll hugsun að efna til opinna funda með umboðsmanni og þeim aðilum sem hann gagnrýnir og þingnefndum og opna það fyrir fjölmiðlum svona á bandaríska vísu, liggur mér við að segja. Þarna væri skref sem við gætum stigið til þess að opna nefndastarf í þinginu og gera skýrslur og gagnrýni sem kemur fram á stofnanir hins opinbera gagnsærri, skulum við segja, lýðræðislegri, efla umræðu um þau atriði. Þetta er hugmynd sem ég tefldi fram inn í þessa umræðu.

Þá kemur að því að rekja hvers eðlis þessi umræða var. Við höfum átt í þessari umræðu miklu lengur en nemur þessu sumri. Við höfum verið að þróa þessa umræðu í langan tíma, í mörg ár. Við, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, höfum sjálf verið að breytast. Afstaða okkar hefur verið að breytast og þingið hefur verið að breytast eins og ég byrjaði á að segja. Við höfum síðan verið að þróa þessa umræðu áfram á okkar fundum á þessum almennu nótum, reynt að finna grundvöll sem við gætum sameinast um. Þegar ég hef hlýtt á menn tala hér þá finn ég að við erum að tala um mjög svipuð markmið. Við erum að gera það. Þess vegna hef ég verið svo trúaður á að við gætum náð samstöðu með því að gefa okkur tíma til þess. Ég tel að við ættum að gefa okkur að við séum öll að reyna að gera þingið að markvissari og betri vinnustað, ekki bara að betri vinnustað heldur betri lýðræðislegum vettvangi og lagasmiðju. Þetta er það sem við öll stefnum að væntanlega og þess vegna er ég svo dapur yfir því hvernig þetta gerist.

Þá er komið nánar að þessari vinnu. Nú er ég búinn að lýsa því hvernig við höfum þróað þessa hugsun áfram, teflt inn hugmyndum um áherslur sem við viljum sjá í breyttu þinghaldi. Annað mætti nefna sem við erum öll sammála um. Það er að breyta umræðu til dæmis um fjárlög. Við erum búin að upplifa það núna hversu ómarkviss þessi umræða er. Allir eru sammála um þetta, þ.e. að æskilegt væri að breyta umræðunni, að einangra hana eða skipta henni niður í ákveðin svið þar sem ráðherrar kæmu og fulltrúar viðkomandi nefnda, hafa heilbrigðismálin á vissum tíma, félagsmál á öðrum og svo framvegis. Allir eru sammála. Af hverju gerum við þetta ekki og þá af fúsum og frjálsum vilja? Vegna þess að það er þannig að það er svo erfitt að setja þinghald, lýðræðislega samkundu, undir straujárn. Það á eitt við hér og annað þar alveg eins og lögmaðurinn þekkir, eins og lögmaðurinn hv. þm. Jón Magnússon þekkir. Í réttarstarfi gildir eitt hér og annað þar og þannig er þessu líka varið hérna. Ég er talsmaður þess að menn geri hlutina af fúsum og frjálsum vilja. Ég er mjög eindregið fylgjandi því.

Það sem síðan gerist er að hæstv. forseti vinnur úr þessum hugmyndum og það gerir hann í samráði væntanlega við starfsmenn þingsins. Þar er ákveðinn rauður þráður í gegnum þessa vinnu í langan tíma og sá dagur rennur upp að hann leggur fyrir okkur ákveðnar tillögur. Eftir því sem ég kemst næst í mínu minni og eftir því sem ég hef rætt það við mína félaga sem voru staðgenglar mínir síðast þegar ég var utan þings í tvær, þrjár vikur í nóvember, að þegar kom að því, þessu tvennu sem ég nefni, að aðskilja annars vegar breytingar á þingskapalögum og hins vegar styrkingu á þinghaldinu og bættri aðstöðu stjórnarandstöðunnar þá var ekki vegur að fallast á slíkt. Í annan stað, þegar um var að ræða ræðutímann þá var það sett fram þannig við okkur að því bæri annaðhvort að taka eða hafna. Menn fá því skyndilega frumvarp eða frumvarpsdrög í hendur sem eru að mínu mati allt of langt á veg komin og ekki í samræmi við umræðuna. Hún var ekki orðin mótuð eða þróuð eða þroskuð á þennan hátt. Þannig upplifði ég þessa hluti. Menn verða að taka það alveg trúanlegt að okkar vilji, okkar einlægur vilji í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var að þróa þessa umræðu á grunni þess módels sem ég er að lýsa, að við gerum tvennt í senn, stytta ræðutímann, setja hann í einhverjar umbúðir en styrkja samhliða stjórnarandstöðuna á annan hátt og þar nefndi ég verkstjórnina í þinginu, verkstjórnina í þingnefndum og ýmsa aðra þætti. Þannig upplifði ég þessa hluti en ég ítreka að inn í þessa umræðu tefldum við ekki — það er mikill misskilningur að við höfum teflt hugmyndum fram seint og um síðir. Við höfum tekið þátt í þessari umræðu af fullum krafti og ekki síður og eigum að vissu leyti hluta í þeim hugmyndagrunni sem hér hefur verið að mótast. Það er nú staðreynd málsins.

Síðan tala menn um hversu vel hafi verið unnið að málinu í allsherjarnefnd og þeir hafa talað um ótrúlega þolinmæði hv. formanns nefndarinnar. Vita menn hvenær málinu var vísað til nefndar? Málinu var vísað til allsherjarnefndar síðastliðinn fimmtudag. Okkar fulltrúi óskaði eftir því að kallaðir yrðu til nefndarinnar fyrrum forsetar þingsins, að leitað yrði eftir upplýsingum frá öðrum þjóðþingum og þar fram eftir götunum og að okkur gæfist tími til að ræða málin í þaula vegna þess að sú umræða sem ég hef alla vegana tekið þátt í sem formaður þingflokks undir verkstjórn hæstv. forseta þingsins hefur verið miklu dýpri og þróaðri en það sem hefur verið að gerast í allsherjarnefnd á undanförnum dögum. Þar hafa menn ekkert farið djúpt í saumana á málinu eftir því sem ég hef kynnt mér það heldur hafa þeir verið að þjarka um það hvort eigi að fara upp eða niður með þessar mínútur og hversu þá hátt upp. En að fara í gegnum einstakar greinar og taka þessa umræðu í þaula hefur alla vegana ekki verið gert á þá dýpt sem ég og við hefðum kosið að hefði verið gert enda á þetta að byggjast á miklu vandaðri vinnubrögðum en þessu nemur. Það er mín skoðun. Talað er um langlundargeð og þolinmæði gagnvart okkur. Við erum búin að taka þátt í þessari umræðu í langan tíma og við erum að þróa hana áfram.

Hv. þm. Jón Magnússon sagði að við værum að stilla okkur upp sem einhvers konar fórnarlambi í þessu máli. Í reynd erum við ekki að gera það. Við erum að ræða líka um efnisatriði málsins. Við höfum farið mjög ítarlega yfir okkar tillögur sem við höfum teflt fram núna til málamiðlunar og til þess að bæta þingskapafrumvarpið. Hv. þm. Atli Gíslason, fulltrúi okkar í allsherjarnefnd, fór almennum orðum yfir frumvarpið og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fór ítarlega yfir efnisatriðin, yfir þær tillögur sem við höfum sett fram.

Eitt vil ég leggja mikla áherslu á. Það er að rætt verði við starfsmenn Alþingis um alla útfærslu á þessu málum. Ýmis atriði eru vanreifuð tel ég vera, atriði sem við eigum eftir að ræða nánar í okkar hópi, eins og á hvern hátt stjórnarandstaðan og þingflokkarnir eru styrktir. Þar er eitt sjónarmiðið að styrkja nefndasviðið almennt. Annað sjónarmið er að færa starfsmenn nær hinum pólitísku flokkum. Starfsmenn Alþingis, eftir því sem ég hef séð og heyrt, hafa efasemdir um síðari kostinn og mér finnst eðlilegt að það verði teknar upp viðræður við starfsmannafélagið um það efni. Ég skil þeirra sjónarmið mæta vel sannast sagna og vil að það verði skoðað.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, flutti ræðu um hinar miklu samningaviðræður og framlag Framsóknar inn í þessa umræðu og miklu umræðu og djúpu í þingflokki Framsóknarflokksins. Það má vel vera að sá þingflokkur hafi rætt þetta ítarlega og það má vel vera að aðrir þingflokkar hafi gert það líka. Við fórum vissulega yfir þau drög og öll þau gögn samviskusamlega sem komu. En eftir því sem mín rannsóknarvinna leiðir í ljós þá voru þetta nú ekki miklar breytingar sem þessir flokkar geta státað af frá því plaggi sem hæstv. forseti Alþingis reiddi fram á sínum tíma.

Það er mér harmsefni að við skyldum ekki, og skulum ekki ef það verður ofan á, ná samkomulagi um að skjóta afgreiðslu þessa máls á frest. Ýmsir kostir eru enn í stöðunni. Sá kostur er til staðar að fresta gildistöku laganna og freista þess að ná samkomulagi um frekari breytingar á þingsköpunum. Við — og ég ítreka það — settum fram það tilboð af okkar hálfu að málið yrði ekki keyrt í gegnum þingið, gert að lögum fyrr en í byrjun febrúar. Við gætum hnikað þeirri dagsetningu til þannig að við gæfum okkur bara fyrstu vikuna í þinghaldinu eftir jól til þessa starfs. Við viljum allt til vinna til þess að fá betri tíma til þess að skoða þessi mál.

Ég legg áherslu á að þær hugmyndir sem við höfum teflt fram eru ekkert að koma fram á síðustu stundu. Það sem við erum hins vegar að gera á síðustu stundu er að tefla fram málamiðlun til að freista þess að koma í veg fyrir að frumvarpið í þeirri mynd sem það liggur núna fyrir verði að lögum.

Ég beini orðum mínum til hv. þm. Jóns Magnússonar og segi að ég vona að ég hafi gert grein fyrir því hvernig þetta mál lítur út frá mínum bæjardyrum. Ég geri mér grein fyrir því að aðrir hafa aðra sýn á þetta mál. Það hafa verið miklar og heitar tilfinningar í þessari umræðu og mismunandi sjónarmið. En ég legg áherslu á að þegar allt kemur til alls þá erum við öll að leita eftir svipuðum markmiðum. Við viljum bæta þinghaldið og við viljum efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við erum ekki að fullu sammála um hvernig það verði best gert, en ég segi: Eigum við ekki að leita leiða enn þá til að gera þetta saman?



[02:30]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir skilmerkilega ræðu. Engin mannanna verk eru óbrotgjörn eða standa til eilífðar og þegar um stofnun eins og Alþingi er að ræða verður stöðugt að leita þeirra leiða sem hagkvæmastar eru til þess að umgjörðin sé þannig að þar sé hægt að vinna með sem skilvirkustum og bestum hætti þjóðinni til heilla. Það erum við að sjálfsögðu sammála um að beri að gera.

Þá er líka spurningin um það með hvaða hætti við þjónum lýðræðinu sem best þannig að lýðræðisleg hugsun, lýðræðisleg sjónarmið og lýðræðisleg umræða geti átt sér stað, virk skoðanaskipti. Á þeim þjóðþingum sem ég hef fylgst með umræðum í fannst mér mjög skemmtilegt og athyglisvert að fylgjast t.d. með snörpum umræðum og skoðanaskiptum í enska þinginu. Það er í þá áttina sem ég vildi gjarnan geta þróað umræðuna í íslenska þinginu. Í stað langra og, að því er mörgum finnst, leiðinlegra ræðna, eins og þeirrar sem ég hélt hér áðan, verði um styttri og snarpari skoðanaskipti að ræða sem almenningur fylgist með af meiri áhuga, auk þess sem þá er verið að fjalla um einfaldari hluti hverju sinni.

Við erum að sjálfsögðu ekki komin á neinn endapunkt og næsta verkefni eftir að þingskapafrumvarpið hefur fengið fullnægjandi afgreiðslu er að halda áfram. Þá er það nefndastarfið sem við þurfum að koma að, breyttri umgjörð um nefndastarfið til að tryggja að verkefni og störf Alþingis verði enn skilvirkari en nú er. Ég vona að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé sammála mér um það.



[02:33]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni um að 35 mínútna ræða hans hafi verið löng og leiðinleg, síður en svo. Ég er einnig sammála hv. þingmanni um að snörp skoðanaskipti eru góð og æskileg. Ég er sama skapi á því máli að um flókin mál þurfi stundum að taka ítarlega umræðu.

Við skulum heldur ekki gleyma hinu. Hinar löngu ræður, sem stundum er vísað til, þarf að skoða í því samhengi sem þær verða til í. Ég get sagt litla reynslusögu af sjálfum mér. Lengsta ræða sem ég hef flutt var flutt hér eina nóttina fyrir nokkru þegar verið var að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þannig háttaði til að ég var á mælendaskrá ásamt einum öðrum einstaklingi. Ég reyndi að fá úr því skorið frá forseta þingsins hvort hann væri reiðubúinn að fresta umræðunni eftir að ég hefði lokið máli mínu vegna þess að mér var kunnugt um að aðrir þingmenn, sem ekki voru til staðar, höfðu áhuga á að halda umræðunni áfram daginn eftir. Við því vildi þáverandi hæstv. starfandi forseti þingsins ekki veita mér svör.

Ég varð þess áskynja að beita átti valdi til að stöðva umræðu sem menn vildu gjarnan halda áfram. Það var ástæðan fyrir því að ég teygði heldur á máli mínu, þó að ég sé nú á því að ræðan hafi verið málefnaleg. Hún var mjög löng og að sönnu óþarflega löng en þetta er skýringin. Við megum ekki gleyma þessu samhengi hlutanna. Þegar allt kemur til alls er þetta spurning um jafnvægi í þinginu. Það er að gerast núna að menn eru að breyta því jafnvægi og, að okkar dómi, að draga úr styrk og stöðu stjórnarandstöðu.



[02:35]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki verið sammála því, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að verið sé að draga úr styrk og möguleikum stjórnarandstöðunnar með þeim breytingum sem við erum að gera hér. Ég tel þvert á móti að með ákveðnum hætti sé verið að færa stjórnarandstöðunni betri hlut í hendur og alla möguleika. Ef menn vilja stunda málþóf eru þeir kostir til staðar eftir sem áður, bara með öðrum hætti, með snarpari og skilvirkari hætti en nú er.

Það er hins vegar mikilvægt að auka möguleika einstakra þingmanna á að koma sínum hlutum áfram, að við virðum einstaklingsfrelsið hér í sölum Alþingis. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn gjörsamlega brugðist, að virða einstaklingsfrelsið í sölum Alþingis, enda orðinn gamall, þreyttur og stjórnlyndur flokkur sem telur eðlilegt að haga hlutum með þeim hætti (Gripið fram í.) sem heppilegast er hverju sinni.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur ítrekað vikið að því að sá sem hér stendur hafi talað í 34 mínútur og 27 sekúndur eða þar um bil, (Gripið fram í.) eða 35, já já. Mér fannst einfaldlega tilvalið að nýta þann tíma sem ég hafði þar sem það yrði væntanlega í síðasta sinn áður en fyrirkomulagið breyttist. Hefði ég haft ákveðinn og skertari tíma hefði ég nýtt hann og ekki farið yfir þau tímamörk en komið sömu málefnum, væntanlega betur og skilmerkilegar, til skila af því ég hefði þurft að raða þeim og setja þau betur niður fyrir mig.



[02:37]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins ítreka það sjónarmið og þær áherslur sem við viljum draga athygli að í þessari umræðu, að það ber að skoða alla þætti þessa máls í samhengi.

Ef t.d., og ég ítreka það, hæstv. forseti þingsins, verkstjóri Alþingis, væri úr röðum stjórnarandstöðu, ef formenn þingnefnda væru úr röðum stjórnarandstöðu væri jafnvægið með öðrum hætti. Ég legg áherslu á, og við gerum það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að það beri að skoða þetta stóra samhengi hlutanna.

Þegar allt kemur til alls eru markmið okkar hin sömu og við leggjum áherslu á allt þetta, að við getum náð saman ef við gefum okkur tíma. Og út á það ganga okkar tillögur, að stjórnarmeirihlutinn og meiri hlutinn hér á Alþingi fallist á þá sanngirniskröfu okkar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að skjóta gildistöku þessara laga á frest. Við vildum helst geyma þessa umræðu. Best væri að stöðva umræðuna núna, fresta henni og klára málið í þingbyrjun eftir hátíðar.