135. löggjafarþing — 48. fundur
 16. janúar 2008.
störf þingsins.

[13:36]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef áhuga á að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson út í skipan héraðsdómara. Þau mál eru mjög til umfjöllunar í samfélaginu núna, hv. þingmaður hefur tjáð sig opinberlega um þau og á honum má skilja að honum mislíki hvernig staðið var að þessari skipan. Hv. þingmaður er einnig með frumvarp, sem lýtur að skipan dómara, í vinnslu hjá allsherjarnefnd.

Í ljósi þess að í gær komu afar ósanngjarnar og ósvífnar yfirlýsingar frá hæstv. fjármálaráðherra í Kastljósi um þessi mál finnst mér eðlilegt að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson geri svolítið grein fyrir því hver hans staða er í málinu og hvort hann hyggist beita sér fyrir því að málið sem hann hefur flutt og er til meðferðar í allsherjarnefnd verði klárað. Það er alveg ljóst að forustumenn stjórnmálaflokkanna hafa allir nema forustumenn sjálfstæðismanna talið það gott mál þannig að það er meiri hluti fyrir því í þinginu ef hv. þingmaður beitir sér. Ég hef áhuga á að vita hvort hann vill það.

Ég hef líka áhuga á að vita hvort hv. þingmaður — sem ég veit að hefur skoðað þessi mál mjög náið, er lögfræðilega menntaður og hefur skoðað þetta vegna þeirra mála sem hann hefur flutt hér — sé sammála sjálfstæðismönnum sem verjast í þessu máli með því að segja: Okkar er valdið, ráðherrann ræður þessu alveg, hann getur valið hvern sem er, óháð öllu. Okkar er valdið, skítt með allt það sem aðrir segja.

Á meðan segir dómnefndin sem gefur hæfismat samkvæmt lögum allt annað. Hún segir að á þeim 16 árum sem hún hefur verið að störfum hafi ráðherra ávallt virt rökstudda niðurstöðu nefndarinnar og valið úr hópi þeirra sem taldir voru hæfastir. Það er ekkert athugavert við það þó að ekki hafi verið valinn sá sem var í fyrsta sæti, heldur einhver úr hópi þeirra sem voru hæfastir. Það er alls ekki gert núna. Nefndin segir að það sé alveg óhjákvæmilegt að ætla að veitingavaldinu séu einhver takmörk sett við val sitt, a.m.k. með hliðsjón af góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og raunar ekki síður sjálfstæði dómstólanna. Hún segir að það sé algjört einsdæmi sem við erum að upplifa núna á Íslandi. (Forseti hringir.)

Hvort er hv. þingmaður sammála dómnefndinni eða sjálfstæðismönnum sem segja að þeirra sé valdið, algjörlega óháð því hvað allir aðrir í samfélaginu segja?



[13:38]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þann heiður að vera sá fyrsti sem spurður er samkvæmt þessum nýju reglum. Það er ákveðinn heiður sem ég þakka fyrir sérstaklega. Ég þakka fyrir þessar fyrirspurnir því að mér finnst mjög mikilvægt að þessi nýju vinnubrögð skapi hér öfluga og mikla þjóðmálaumræðu og að þingið verði sá umræðuvettvangur sem við viljum að það sé. (Gripið fram í: … svara spurningunni.) Eins og hæstv. forseti sagði eru hér allir þingmenn og allir geta tekið til máls.

Til mín var beint tveimur spurningum. Í fyrsta lagi er spurningin um það frumvarp sem ég hef lagt fram um breytingar á skipan hæstaréttardómara. Að sjálfsögðu mun ég beita mér fyrir því að það gangi fram. Sú fyrirmynd sem ég hef í þeim efnum er Hæstiréttur Bandaríkjanna og hvernig skipað er í þann rétt. Í reynd er ekki meira vitnað til annars dómstóls og hefur enginn annar meiri virðingu. Það er mjög mikilvægt að mínu viti að við styrkjum Hæstarétt Íslands, þess vegna hef ég lagt þetta fram og að sjálfsögðu mun ég beita mér fyrir því að málið gangi fram.

Í annan stað er hér spurt um yfirlýsingar setts dómsmálaráðherra í Kastljósi í gær. Um þetta vil ég bara almennt segja: Við hæstv. fjármálaráðherra höfum átt hreinskiptnar og opnar viðræður um þessi mál. Þar hef ég greint honum frá því að ég sé ekki sammála mati hans, ekki sammála því sem fram hjá honum hefur komið enda er stjórnarsamstarfið þannig að þar getur farið fram hreinskiptin og opin umræða. Það er bara heilbrigðisvottorð á samstarfið. Þannig er það og þannig viljum við hafa það. (Forseti hringir.)

Ég vil líka taka skýrt fram að ég þekki ekki frekar en aðrir í þaula það álit (Forseti hringir.) sem fagnefndin gaf til þess að ég geti fullyrt um sjónarmið hans. (Forseti hringir.) Eins og málið lítur út og ég hef greint honum frá er ég ekki sammála mati hans í þessu máli.



[13:41]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að komist að í þessari umræðu. Í fyrsta lagi vildi ég nefna að í þessu tiltekna embættisveitingarmáli sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vakti máls á hafa verið höfð uppi ýmis gífuryrði, bæði innan þings og utan, sem mér finnst ekki eiga stoð í veruleikanum og ekki stoð í þeim lagagrundvelli sem ákvarðanir af þessu tagi eru byggðar á.

Mér finnst ljóst að í þessu máli liggi lagagrundvöllurinn skýr fyrir. Það eru gerðar ákveðnar hæfiskröfur í lögunum og enginn ágreiningur er um að þær hafa verið uppfylltar í þessu. Eins er gerð krafa um að ráðherra rökstyðji niðurstöðu sína með málefnalegum hætti. Það hefur hann gert og því er í mínum huga enginn efi um að þessi ákvörðun stendur sem fullkomlega málefnaleg og lögmæt ákvörðun.

Síðan geta menn deilt um það hvernig fyrirkomulag þessara mála á að vera. Það var kannski kjarninn í spurningu hv. þingmanns til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Þar hafa ýmsar hugmyndir verið uppi. Það er reyndar rétt að geta þess, af því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir blandar saman annars vegar skipan héraðsdómara og hins vegar skipan hæstaréttardómara, að um þetta gilda að nokkru leyti mismunandi reglur. Frumvarp hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar gengur út á skipan hæstaréttardómara en ekki skipan héraðsdómara þannig að á vissan hátt er tvennu ruglað saman í þessu sambandi. Ég hef engan heyrt halda því fram nema hv. formann Framsóknarflokksins að sömu reglur eigi að gilda um þessi efni, en hann lýsti yfir í blaðagrein að þingið ætti að fjalla um skipan allra dómara, bæði níu hæstaréttardómara og 38 héraðsdómara. Ég held að ekki séu aðrir uppi með þá tillögu.

Varðandi það hvort þingið eigi að koma að þessu vil ég segja að einmitt reynslan frá Bandaríkjunum sýnir að með þeim hætti er skipan dómara gerð að pólitísku bitbeini, ekki bara í undantekningartilfellum (Forseti hringir.) þar sem skoðanir kunna að vera skiptar, heldur í öllum tilvikum. (Forseti hringir.) Ég tel að það væri ekki til framdráttar að blanda pólitíkinni meira inn í þetta en nú er.



[13:43]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp sem var reyndar aðeins til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær þegar ég bar fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um embættaveitingar einstakra ráðherra. Í mínu máli kom þar fram sérstök gagnrýni varðandi skipan setts dómsmálaráðherra á héraðsdómara í norðausturumdæmi. Mér finnst eðlilegt að þessari fyrirspurn sé beint til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem sérstaklega hefur beitt sér fyrir umbótum á skipan dómara í landinu. Þó að þar hafi sérstaklega verið talað um hæstaréttardómara er engin vanþörf á að láta það líka eiga við um héraðsdómara.

Þingmaðurinn gerði grein fyrir því að hann hefði átt viðræður við settan dómsmálaráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, um þetta mál og gert honum grein fyrir afstöðu sinni. Hann segir að hann sé einfaldlega ekki sammála niðurstöðu ráðherrans. Það sem eftir stendur er engu að síður hitt að þingmenn stjórnarflokkanna bera ábyrgð á þeim ráðherrum sem hér sitja og stjórnarathöfnum þeirra, að sjálfsögðu. Ráðherra fer ekki fram með neinar ákvarðanir öðruvísi en að hafa til þess stuðning meiri hluta þingsins. Ef fleiri þingmenn Samfylkingarinnar eru ósammála og ósáttir við þessa ákvörðun ráðherra væri auðvitað fróðlegt að vita hvort ráðherrann njóti þá almennt trausts þessara sömu þingmanna til að gegna störfum sínum.

Það er síðan alveg ljóst og kemur fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar að Sjálfstæðisflokknum svíður undan harðri gagnrýni á þá stöðuveitingu sem hér er til umræðu. Það er líka ljóst að valdi ráðherranna eru takmörk sett og ég er þeirrar skoðunar að ómálefnaleg ákvörðun eins og sú sem hæstv. fjármálaráðherra, settur dómsmálaráðherra, tók í þessu máli sé ólögmæt og ógildanleg.

Ég vil svo bara geta þess, hæstv. forseti, að (Forseti hringir.) vegna þeirra ummæla sem féllu hjá hæstv. fjármálaráðherra í Kastljósi er enn frekar ástæða til að (Forseti hringir.) halda áfram með málið á þingi og ég mun gera það fyrir mitt leyti með þingmáli sem ég hef kynnt formönnum þingflokka.



[13:46]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í tilefni þeirra orða sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir viðhafði í upphafi máls síns um að forustumenn stjórnmálaflokkanna hefðu almennt tjáð þá skoðun fyrir hönd flokka sinna að eðlilegt væri að taka upp aðra skipan á embættisveitingum hæstaréttardómara, og þess vegna héraðsdómara, en verið hefur tel ég rétt að lýsa því yfir að ég hef fyrir hönd Frjálslynda flokksins í störfum nefndar um stjórnarskrármálefni lýst þeirri skoðun, m.a. opinberlega á Hótel Loftleiðum á ráðstefnu, að ég teldi að skipan manna í dóm Hæstaréttar ætti að fara fram með samþykki Alþingis og að ráðherrar ættu ekki að koma þar að, það væri sem sagt eðlilegt að einhver nefnd legði dóm á hæfni manna en að öðru leyti kláraði Alþingi málið. Ég hef talið eðlilegt að tveir þriðju alþingismanna væru því sammála.

Það er mjög nauðsynlegt að mínu viti að við komumst út úr þeirri umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu á undanförnum árum, að embættisveitingum í dómskerfinu sé stýrt pólitískt. Þannig hefur umræðan verið og undan því geta sjálfstæðismenn alls ekki vikið sér. Það er hægt að rifja þá umræðu upp langt aftur í tímann að því er varðar skipun í embætti dómara, sérstaklega hæstaréttardómara.



[13:48]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hóf um það hvort rétt væri að breyta þeim reglum sem gilda um skipan dómara get ég sagt fyrir mína parta að ég er í sjálfu sér alveg hlynntur því að þær reglur verði teknar til endurskoðunar, sérstaklega hvað varðar veitingu embættis hæstaréttardómara. Ég hef margoft lýst því yfir, bæði hér og annars staðar, að ég tel óeðlilegt að hæstaréttardómarar sjálfir gefi dómaraefnum sem sækja um starf við réttinn einkunn og hafi um það að segja hverjir eru ráðnir og hverjir ekki. Af því að hv. þingmaður varpaði þeirri spurningu til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar hvort hann væri sammála því að niðurstaða nefndarinnar sem við höfum rætt hér byndi hendur ráðherra eða hvort hann væri sammála því sjónarmiði sem við sjálfstæðismenn höfum sett fram um að hún geri það ekki er fyrir öllu að menn hafi í huga í þessari umræðu að í lögum um dómstóla er hvergi tekið fram að ráðherra skuli við skipan í embætti héraðsdómara fara að tillögum nefndar sem samkvæmt lögum á að fjalla um hæfni umsækjenda um stöðu héraðsdómara. Í reglum sem settar voru á grundvelli laganna segir í 7. gr., með leyfi forseta:

„Umsögn nefndarinnar er ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara.“

Okkar fremsti stjórnsýslufræðingur, dr. Páll Hreinsson, fyrrverandi forseti lagadeildar og núverandi hæstaréttardómari, skrifaði árið 1994 um þetta grein í afmælisrit Gauks heitins Jörundssonar sem var umboðsmaður Alþingis. Þar fjallar hann um þetta mál og er líklega eini fræðimaðurinn sem hefur gert það. Þar segir prófessorinn, með leyfi forseta:

„Þó að stjórnvaldi sé að lögum skylt að leita sérstakrar umsagnar utanaðkomandi aðila áður en það tekur ákvörðun í máli er umsögnin ekki bindandi fyrir stjórnvaldið við ákvörðun málsins nema svo sé fyrir mælt í lögum.“

Þetta er álit hæstaréttardómarans. Ég las upp (Forseti hringir.) hvaða regla gildir um þessi málefni, þær reglur sem gilda um störf nefndarinnar. Lögin eru alveg skýr, menn geta haft skoðun á því hvort eigi að breyta þeim en þau eru skýr og það er ráðherrann sem fer með veitingavaldið (Forseti hringir.) og þarf ekki að sæta því sem nefndin segir.



[13:50]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Einu sinni enn er til umræðu það mikilvæga mál sem varðar skipan dómara. Einhverra hluta vegna kemur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nú fram með allt öðrum hætti en á undanförnum árum og einhvern veginn virðist allur vindur úr honum. (Gripið fram í.) Er það sennilega vegna þess að hann er kominn í annað hlutverk. Minnist ég þess oft að hafa séð hann í þessum stóli kraftmeiri en í ræðunni sem hann flutti áðan.

Hér erum við að fjalla um stórt mál, og ekkert gamanmál. Það verður að koma málum þannig fyrir að meiri friður ríki um skipun dómara á Íslandi, hvort sem við erum að tala um hæstaréttardómara eða héraðsdómara. Það er ekki hægt að hafa þennan ófrið. Þetta rýrir stórkostlega álit borgaranna, álit Íslendinga, á dómstólum. Svo leyfir hæstv. fjármálaráðherra sér að segja í viðtali í gær að hafi álit á dómstólunum eitthvað rýrnað sé það út af þessari nefnd sem hafi farið eitthvað fram úr sér. Það er fáránlegt að bera þetta á borð. Það er verknaðurinn sjálfur, gjörningurinn, skipanin, sem gerir það að verkum að fólk er algjörlega gáttað.

Eins fannst mér hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem hér talaði tala með nokkuð öðrum hætti en hann gerði í vetur. Þegar mál hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar var hér til umfjöllunar vitnaði hann fyrst og fremst í Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómara og Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins. Það var línan sem hann hafði í þessu máli og kannski hefur hann þá línu enn. En eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu oftsinnis er það fyrst og fremst gagnrýnivert að mati Styrmis Gunnarssonar ritstjóra að hæstaréttardómarar skuli hafa hlutverk hvað varðar það að meta umsækjendur.

Þetta er ómögulegt (Forseti hringir.) eins og það er og ég vona að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þó að vindurinn sé dálítið úr honum, (Forseti hringir.) standi við það að reyna að koma þessu máli inn í þingið til atkvæðagreiðslu.



[13:53]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir skýr og greið svör. Það er alveg ljóst hver vilji hans og meining er í því máli og gagnvart þeirri spurningu sem til hans var varpað hvort sem menn telja að hann sé orðinn vindlaus eða ekki. Það er allt annað mál.

Það liggur fyrir að skipan og veiting dómaraembætta skiptir gríðarlega miklu máli í lýðræðisþjóðfélagi. Við erum að tala um eina af meginstoðum þjóðfélagsins, lýðræðislega valdsins sem við búum við, eitt valdið í þrígreiningu ríkisvaldsins. Þá er spurningin hvernig eigi að haga veitingavaldinu. Á að haga því þannig að annar þáttur ríkisvaldsins, þ.e. framkvæmdarvaldið, hafi algjörlega með það að gera eða er eðlilegt að koma að því með vandaðri hætti? Ég tel að það eigi að koma að því með vandaðri hætti þannig að löggjafarvaldið hafi ekki síður með það að gera.

Menn getur greint á um einstakar embættaveitingar. Stundum tekst vel til að mati manna og stundum miður. Það borgar sig þegar menn eru að tala um og móta almennar reglur að gera það án tilvísana í það þegar flokksgæðingum eða vinum hefur kannski verið hossað meira en eðlilegt hefði verið. En einmitt slík tilvik gera kröfu til þess að löggjafarvaldið setji vandaðar reglur um það hvernig að skuli fara til að þvo þau óþrif pólitískra embættaveitinga af íslensku lýðræðisþjóðfélagi. Þess vegna er nauðsynlegt að vanda til reglna varðandi skipan dómara og hafa það þannig að Alþingi hafi með hana að gera til jafns við framkvæmdarvaldið. Að sjálfsögðu er það rétt sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði um það að veitingavaldið er hjá ráðherra en það þarf að koma í veg fyrir að hann geti notað það að geðþótta í jafnmikilvægu máli.



[13:55]
Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Menn hafa farið mikinn í gagnrýni á ákvörðun setts dómsmálaráðherra, Árna Mathiesens, við skipan héraðsdómara. Stór orð hafa fallið, bæði á síðum dagblaða og (Gripið fram í.) ekki síður í bloggheiminum. Mér finnst að menn hafi gengið allt of langt í yfirlýsingum og stóryrðum. Það liggur alveg fyrir að ráðherra hafði fulla heimild til að taka þessa ákvörðun. Viðkomandi matsnefnd og niðurstöður hennar hafa ekki bindandi gildi og ef ráðherra telur rökstuðning nefndarinnar ósannfærandi ber honum að gera það sem hann telur rétt. Í því felst ábyrgð ráðherrans.

Settur dómsmálaráðherra lýsti því yfir í Kastljósi í gær að hann teldi matsnefndina hafa gert mistök í umsögn sinni. Ætlast menn þá til að ráðherrann gangi gegn sannfæringu sinni við ákvörðun um val á skipan dómara?

Það má spyrja sig hvað átt sé við þegar kallað er eftir aukinni ábyrgð matsnefnda. Er þá lagt til að ráðherra beri ávallt að fara að niðurstöðu hennar án tillits til þess hvaða skoðanir hann hafi á rökstuðningi nefndarinnar? Er það þá nefndin sjálf sem ræður valinu en ekki ráðherrann? Í okkar stjórnsýslu ber viðkomandi ráðherra ábyrgð á ákvörðunum sínum og verksviði. Er það vilji manna að ráðherra afsali ábyrgð sinni til matsnefnda á ýmsum sviðum? Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt.

Ráðherra ber, og á að bera, pólitíska ábyrgð. Finnst mönnum sjálfgefið að dómarar ákveði hverjir setjast í dómarastétt? Er það endilega réttur framgangsmáti?



[13:57]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að formaður þingflokks Samfylkingarinnar styður ekki skipan setts dómsmálaráðherra Árna Mathiesens í stöðu héraðsdómara. Þá vitum við það, og að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ætlar að beita sér fyrir því að ráðningarferli verði breytt. Hér er frumvarp um hæstaréttardómara en hv. þingmaður hefur opnað á það í umræðum að þar verði líka skoðaðir héraðsdómarar. Við höfum heyrt á máli þeirra sem hér hafa rætt, þ.e. allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins, að þeir vilja sjá breytingar. Það lítur vel út með að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nái árangri með að ráðningarferlinu verði breytt. Það er greinilega að myndast um það meiri hluti í þinginu.

Það var alveg dæmalaus ósvífni sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesens í gær í Kastljósinu þar sem hann réðst að nefndinni sem mat hæfi þeirra sem sóttu um og sagði að hún sjálf væri að veikja tiltrú almennings á dómstólum, nefndin kynni ekki þær reglur sem hún starfaði eftir og hefði gert mistök. Þetta eru geysilega alvarlegar ávirðingar.

Fyrst þingflokksformaður Samfylkingarinnar er nokkuð opinskár og talar gegn settum hæstv. dómsmálaráðherra spyr ég hann, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, hvort hann sé sammála hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesen með að það sé dómnefndinni að kenna að þessi staða er komin upp og að nefndin kunni ekki sínar eigin reglur, viti ekkert eftir hvaða reglum hún eigi að starfa og hafi gert stórkostleg mistök.



[13:59]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í samtal hv. þingflokksformanna Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Mér finnst hins vegar rétt, af því að hér hefur töluvert verið rætt um hvernig skipa ætti í dómaraembætti, að menn hafi í huga að þetta er auðvitað vandaverk. Það er vandi að móta reglur um þetta. Um það hljóta allir að vera sammála. Ég er sammála hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni sem nefndi áðan að tilefni kynni að vera til að fara í endurskoðun. Það hafnar því enginn að það megi fara yfir þessar reglur.

Ég átti sæti í stjórnarskrárnefnd á síðasta kjörtímabili þar sem skipan dómara við Hæstarétt var töluvert til umræðu. Þó að niðurstaða næðist ekki í því máli er ekki óeðlilegt að einhver slíkur vettvangur sé notaður til að komast að niðurstöðu um þetta. Hæstiréttur er æðsti dómstóll landsins og það er ekki útilokað að einhver samstaða kunni að nást um breytingar að þessu leyti.

Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði áðan að ég hef áhyggjur af því ef þingið fer inn í þessi mál með þeim hætti sem tillaga hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar gerir ráð fyrir og þær tillögur ganga út á sem hér hafa verið nefndar. Ég held, eins og ég nefndi áðan, að reynslan frá Bandaríkjunum sýni að dómaraskipan við Hæstarétt er alltaf pólitískt bitbein. Hún hefur valdið miklum deilum á Bandaríkjaþingi og ég hef áhyggjur af því að ef þetta yrði með þeim hætti hér á landi — sem reyndar á sér ekki fordæmi í Evrópulöndum, ekki fordæmi í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við hvað varðar réttarskipan — yrði dómaraskipan, ekki bara níu hæstaréttardómara heldur líka 38 héraðsdómara, bitbein annaðhvort í pólitískum deilum eða þá hrossakaupum í þinginu. Hvorugt tel ég gott.



[14:01]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að ég held að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi verið að lýsa eigin vanlíðan þegar hún lýsti því yfir að menn hefðu vind eða ekki vind eftir því hvort þeir væru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég held einmitt að Framsóknarflokkurinn hefði haft gott af því að tala opið, ærlega og hreinskilið í samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn í stað þess að beygja sig ætíð ... (Gripið fram í.) nei, vegna þess að það skiptir máli (Gripið fram í.) að við höfum talað saman um þessi mál opið og hreinskiptið og sett fram sjónarmið okkar og leyfum okkur að gera það. Það er einfaldlega heilbrigðisvottorð um það samstarf sem nú er í gangi. (Gripið fram í: Það er nákvæmlega þetta ...) Það er lykilatriðið og eins hitt að sú ríkisstjórn sem nú starfar hefur ákveðin verk að vinna og verkefni sem hún stefnir að og það breytir engu um það þó að einstaka þingmenn kunni í einstaka tilvikum ekki að vera sammála þeim ákvörðunum sem teknar eru. Þessi innkoma hv. þingmanns fannst mér alveg makalaus og endurspegla í raun og veru miklu frekar vanlíðan sem væntanlega hefur ráðið ríkjum á sínum tíma í samstarfinu. Lesa má úr orðum hennar að nú sé vindur í seglunum, nú sé hún komin í stjórnarandstöðu, nú sé kominn vindur, ef ég skil hv. þingmann rétt. (Gripið fram í.)

En hitt vildi ég segja varðandi þá fyrirspurn sem hér kom fram að það er afar óheppilegt að það séu deilur milli framkvæmdarvalds og dómsvalds um skipan þessara mála. Það er mikilvægt að við komum þessari skipan í annan farveg og það er mikilvægt að um þetta sé sæmileg sátt og einnig að virðing sé borin fyrir þessum stofnunum, bæði þinginu og dómstólum sem hefur verið þverrandi á undanförnum árum og að því viljum við vinna. Ég vil líka segja, (Forseti hringir.) af því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom upp áðan, að hv. þingmaður nefndi að hann væri opinn fyrir öllum þessum breytingum. Það hefur því komið fram að allir flokkar eru tilbúnir að skoða breytingar á þessum málum.



[14:04]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að brydda örstutt á öðru máli en því sem hér hefur verið til umræðu. Hæstv. forseti lét þess getið í upphafi fundar að samkvæmt breyttum þingsköpum væri hugsunin sú í umræðum um störf þingsins að menn gætu beint máli sínu til forustumanna í þinginu, eins og ég held að hann hafi orðað það. Ég lít svo á að hæstv. forseti sé einn af forustumönnum í þinginu. Ég hjó eftir því að þegar þing kom saman í gær sagði hæstv. forseti að í kjölfar breytinga sem átt hefðu sér stað á þingsköpum hefði hann í hyggju að funda fljótlega með formönnum þingnefnda um ýmis atriði sem þeim breytingum fylgja en hluti þeirra breytinga varðaði störf nefnda. Mér finnst auðvitað mikilvægt að benda á í þessu samhengi að eins og staðan er í þinginu í dag, og hefur reyndar lengstum verið, þá koma allir nefndarformenn, og reyndar varaformenn líka, úr röðum stjórnarliða. Störf þingnefnda hljóta að koma öllum nefndarmönnum við, líka stjórnarandstöðunni. Ég leita því eftir viðbrögðum frá hæstv. forseta um það: Stendur til að hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum þegar farið verður í að ræða um breytingar á fyrirkomulagi í starfi þingnefndanna? Kemur til álita að hæstv. forseti muni hugsanlega tala við fulltrúa flokkanna sem eru í stjórnarandstöðu núna, annaðhvort þingflokksformanna eða fulltrúa í einstökum nefndum eða hvernig hyggst forseti haga samráði sínu við stjórnarandstöðuna í þessu efni ef hann telur það þá einhverju máli skipta?



[14:06]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Vegna orða hv. þingmanns er rétt að geta þess að forseti mun að sjálfsögðu leggja áherslu á að eiga gott samstarf við alla þingmenn og alla þingflokka nú eins og hingað til. Vegna tilvitnunar í ávarp mitt um samstarf við formenn þingnefnda þá háttar svo til að við höfum gert breytingar á þingsköpum. Þær fela m.a. í sér að hægt er að vísa málum til nefndar eftir 2. umr. ef þess er óskað sem ekki hefur verið sjálfgefið áður. Eitt af því sem ræða þarf við formenn nefndanna er hvernig meðferð verður háttað auk þess sem gert er ráð fyrir fjölgun starfsmanna á nefndasviði. Forseti þarf að sjálfsögðu að eiga gott samstarf við formenn nefndanna vegna þeirra breyttu vinnubragða sem ætlast er til að verði á nefndasviðinu.

Í framhaldi af samtölunum er síðan að sjálfsögðu samráðið innan forsætisnefndarinnar þar sem allir flokkar eiga kost á að koma að og eins á vettvangi samstarfs forseta við formenn þingflokka. Ég held því að engin ástæða sé til að hv. þingmenn hafi áhyggjur af því að ekki verði haft gott samráð við þingmenn og þingflokka um þær mikilvægu breytingar sem við höfum gert og ætlum okkur að gera á störfum þingsins til að bæta starf okkar.