135. löggjafarþing — 48. fundur
 16. janúar 2008.
störf á Norðvesturlandi.
fsp. ÞKM, 314. mál. — Þskj. 420.

[14:22]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir bar fram fyrirspurn til iðnaðarráðherra fyrir jól meðan hún átti sæti á Alþingi í stað hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Hefur ráðherra áform um að beita sér fyrir fjölgun dagvinnustarfa sem henta konum á Norðvesturlandi í ljósi þess að hlutfall atvinnulausra kvenna er hærra en hlutfall atvinnulausra karla á svæðinu?

Með Norðvesturlandi er átt við kjördæmið, Norðvesturkjördæmi. Þegar skoðaðar eru upplýsingar sem tiltækar eru um atvinnuleysi á þessu svæði, skipt eftir kynjum, og borið saman við framboð á atvinnu kemur í ljós að á svæðinu öllu eru samkvæmt nýjustu upplýsingum 149 atvinnulausir en 45 störf í boði. Þar eru liðlega 100 fleiri atvinnulausir en störf í boði. Sé þetta er skoðað kyngreint kemur í ljós að af þeim 149 sem eru atvinnulausir eru 95 konur eða 64% atvinnulausra. Langstærstur hluti þeirra er á Vesturlandi, þ.e. 48 konur.

Það er ekki gott að átta sig á því hvernig störfin sem í boði eru falla að atvinnulausum konum en þó er ljóst að á Vesturlandi, þar sem atvinnuleysi kvenna er mest, eru langfæst störf í boði eða aðeins sex. Ég hygg að þau eigi ekki öll við þær konur sem um er spurt eða fyrirspyrjandi hafði í huga, þ.e. konur sem geta ekki tekið að sér að vinna vaktavinnu heldur leitast við að starfa utan heimilis á dagvinnutíma frá 8–4 eða 8–2.

Það er ljóst, af þeim upplýsingum sem tiltækar eru um þróun mála á þessu landsvæði, að störf í boði fyrir konur sem vilja vinna á þessum tíma eru afar fá. Það er tilefni þess að fyrirspurnin er borin fram, að vekja athygli hæstv. ráðherra á þessari stöðu. Spurt er um hvaða áform ráðherra hafi til að fjölga dagvinnustörfum fyrir konur á þessu svæði.



[14:25]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að flytja til mín fyrirspurn í stað Þórunnar Kolbeins Matthíasdóttur sem sat á þingi fyrir jól. Ég vil líka þakka hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins fyrir þann mikla áhuga sem þeir hafa sýnt á atvinnumálum landsbyggðarinnar og hv. þingmanni sem sérstaklega hefur borið fyrir brjósti atvinnumál í Norðvesturkjördæmi.

Það er rétt, sem fram kemur í aðdraganda fyrirspurnarinnar, að atvinnumálin eru ekki í nógu góðu lagi í kjördæminu. Það er rétt sem hann segir, að þar eru um tveir þriðju þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá konur. Eigi að síður er það þannig, ef maður skoðar atvinnuleysi kvenna í Norðvesturkjördæmi í samanburði við aðra landshluta, að það er meira en á Austurlandi og í Reykjavík en minna en á Suðurnesjunum og Suðurlandi. Ástandið er því alls ekki verst á Norðvesturlandi miðað við landið í heild hvað varðar atvinnuleysi kvenna. Sannast sagna hefur þar, fram undir það síðasta, verið eitthvert besta atvinnuástand á landinu sem verið hefur ákaflega lengi.

Fyrirspurn hv. þingmanns til mín er um hvort ég hafi uppi áform um að beita mér fyrir fjölgun dagvinnustarfa sem henti konum á Norðvesturlandi. Svarið er já. Ég mundi reyndar þiggja öll góð ráð frá hv. þingmanni í því efni. Ég hef þegar gripið til ákveðinna ráðstafana sem segja má að henti sköpun starfa fyrir konur betur en gagnvart körlum.

Ég nefni sérstaklega að í fyrradag skrifaði ég undir vaxtarsamning á Norðurlandi vestra sem er mikilvægur hluti þess svæðis sem fyrirspurnin tekur til. Vaxtarsamningurinn var mikilvægur að því leyti og braut í blað fyrir tveggja hluta sakir. Í fyrsta lagi var sett í hann af hálfu ríkisstjórnarinnar helmingi meira fé en til flestra annarra samninga, þ.e. 90 milljónir kr. Í annan stað er fullt vald um framkvæmd samningsins í höndum þeirra sem eru í héraði. Að því leyti er um valddreifingu að ræða þannig að hugmyndir sem heimamenn hafa uppi, t.d. um sköpun starfa fyrir konur, eiga greiðan farveg í gegnum þann vaxtarsamning. Þó get ég upplýst hv. þingmann um að í grunnlínum samningsins er lögð sérstök áhersla á ferðaþjónustu og það er leiðbeining af hálfu iðnaðarráðherra til þeirra sem véla með samninginn.

Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem borin er uppi af konum og brautin er rudd af konum. Að stærstum hluta eru frumkvöðlar í ferðaþjónustu konur. Þarna er um að ræða möguleika til þess að greiða fyrir því.

Í annan stað hef ég beitt mér sérstaklega fyrir því að 20 millj. kr. verði settar til námskeiðahalds fyrir konur sem áhuga hafa á frumkvöðlastarfsemi og fyrirtækjarekstri. Þessi upphæð var sett í verkið sérstaklega með tilliti til þess, hv. þingmaður, hve mikil eftirspurn er eftir því sökum þess hversu vel það hafði gengið í tilteknum hluta í kjördæmi hv. þingmanns, þ.e. á Vestfjörðum.

Í þriðja lagi hefur ríkisstjórnin sett upp sérstakan ráðgjafa, atvinnuráðgjafa, á Sauðárkróki sem hefur beinlínis það verkefni að miðla og stuðla að sköpun starfa fyrir konur í krafti verkefnisins Átak fyrir konur á vegum félagsmálaráðuneytisins.

Í fjórða lagi hef ég beitt mér fyrir því og fengið góða samvinnu við aðra ráðherra um að 160 millj. kr. verði sérstaklega varið til að styrkja og byggja upp ferðaþjónustu á þeim svæðum þar sem þorskaflaskerðingin var hvað mest. Ég hef áður rakið hvað sú atvinnugrein er mikilvæg fyrir konur.

Í fimmta lagi hefur iðnaðarráðuneytið í samvinnu við Framleiðnisjóð beitt sér fyrir verkefnum undir heitinu Vaxtarsprotar , sem m.a. hafa verið á tilteknum landbúnaðarsvæðum í því kjördæmi sem fyrirspurnin varðar. Þar er um að ræða störf við uppbyggingu á bóndabýlum sem hefur gagnast konum ákaflega vel eins og sést á því að þær eru þar yfirleitt í forsvari. (Forseti hringir.)

Í sjötta lagi ætlaði ég síðan að tala um það sem hv. þingmanni er hjartfólgnast en hef ekki tíma til núna, sem er norðvesturnefndin.



[14:31]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Einhverjum kann að þykja atvinnuleysistölurnar lágar í þessu kjördæmi. Út af fyrir sig má segja að það sé rétt í ljósi íbúafjölda. En það á sér skýringar í því að atvinnuleysi er ekkert á landinu. Það að þessar atvinnuleysistölur skuli yfir höfuð vera fyrir hendi endurspeglar stöðuna í atvinnumálum á þessu landsvæði. Það er samdráttur, fólksfækkun og fólkið flytur frá þessu landsvæði þangað sem atvinnan er fyrst og fremst í boði og það er hér á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysistölurnar væru því mun hærri ef ekki væru þessir fólksflutningar sem lækkuðu þær. Reynsla þeirra sem hafa mikið skipt sér af byggðamálum og fylgst með þeim er sú að einna erfiðast í því er brottflutningur kvenna af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Auðvitað hlýtur það að vera eðlilegt, eins og fyrirspyrjandinn Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir bendir hér á, að beina sjónum sínum að konunum, skapa atvinnu fyrir þær því að með því er kannski meiri von til þess að halda í íbúaþróun á landsvísu.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það er greinilegt að ráðherrann hefur ýmislegt á prjónunum í því skyni að bregðast við þessari atvinnuþróun. Það er allt vel sem þar er tiltekið og ráðherrann gat um. Ég vil sérstaklega nefna það sem kom fram hjá ráðherranum fyrir jól, áhuga hans á því að skipa sérstaka nefnd í hinu gamla Norðurlandskjördæmi vestra til þess að vinna að hugmyndum og síðar verkefnum í atvinnumálum í samræmi við það sem Vestfjarðanefndin gerði. Nú er sú nefnd komin á koppinn þannig að það eru út af fyrir sig jákvæð teikn af hálfu ráðherra.



[14:33]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er jafnan í gangi hljóðvær en sígandi atvinnuháttabylting. Hún birtist í því að stöðugar tækniframfarir valda því að störfum við frumframleiðslu eins og í landbúnaði og í sjávarútvegi er alltaf að fækka. Við það glímum við á ýmsum svæðum á landinu, til dæmis í þessu kjördæmi, sérstaklega í hluta þess, Húnavatnssýslum og þar í kring.

Besta ráðið til þess að snúa við fólksfækkun er að hækka menntunarstigið á þessum svæðum því rannsóknir sýna að um leið hækkar launastigið og þá dvelur fólk frekar í viðkomandi kjördæmi. (GÁ: Háskóli.) Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta eru lágar atvinnuleysistölur. En auðvitað spegla þær fólksfækkunina líka að hluta. Atvinnan, þar sem hún er, sogar til sín fólkið.

Ég vil segja að ég hef lagt mig fram um að reyna að stuðla að breytingum sem lúta að þessu. Það hef ég gert með því að styðja það mjög dyggilega að sett verði upp nefnd til dæmis á Norðurlandi vestra, eins og nú er búið að taka ákvörðun um, sem er samsvarandi að eðli og markmiði og Vestfjarðanefndin. Ekki má gleyma því að Vestfjarðanefndin lagði fram tillögur sem að hluta til er búið að hrinda í framkvæmd og verður væntanlega lokið á þessu og þar næsta ári.

Ríkisstjórnin hefur þegar í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi og í fjáraukalögum fyrir síðasta ár samþykkt fjárveitingar sem nema samtals 280 millj. kr. til þessa. Þar er um að ræða mikilvægan flutning starfa sem ekki tengjast þessari frumframleiðslu sem ég gat um áðan heldur rannsóknum og menntun. Mörg þessara starfa henta sérstaklega konum.

Það sem skiptir máli er að reyna að skjóta fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið og reyna að flytja til þessara svæða störf sem krefjast menntunar og sem geta lagt þræði inn í framtíðina. (Forseti hringir.) Það er það sem skiptir máli og það erum við að gera. Ég þakka svo hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð og okkar sem unnum Norðvesturkjördæmi.