135. löggjafarþing — 48. fundur
 16. janúar 2008.
tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.
fsp. ÁÞS, 322. mál. — Þskj. 503.

[15:04]
Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi en segja má að þær þrjár fyrirspurnir sem ég hef lagt fram til hæstv. samgönguráðherra og eru til umræðu í dag tengist allar hver annarri.

Í gildandi samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi en hér hefur þegar komið fram í umræðum um Sundabraut það mat fjölmargra þingmanna að umferðaræðarnar að og frá höfuðborginni séu meðal mikilvægustu samgöngumannvirkja sem við þurfum að ráðast í. Tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi er orðin afar þýðingarmikil vegna vaxandi umferðarþunga. Umferðarþunginn til og frá höfuðborginni, m.a. um Vesturlandsveginn, hefur aukist ár frá ári og umferðaröryggissjónarmið kalla á brýnar úrbætur. Þetta er málefni sem íbúar á Kjalarnesi, hverfisráðið á Kjalarnesi, íbúasamtök og íbúar almennt á íbúafundum hafa margítrekað tekið til umfjöllunar, sent áskoranir til borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda á landsvísu, og kallað eftir úrbótum.

Vegagerðin hefur sömuleiðis látið þau sjónarmið í ljós að nauðsynlegt sé að ráðast í úrbætur á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. Það sem þar er hvað brýnast er að greina þá umferð sem beinist að Kjalarnesi, hvort sem það er í þéttbýliskjarnann í Grundarhverfi, á einstök lögbýli, því að enn er stundaður landbúnaður á Kjalarnesi, eða í þær stofnanir sem þar eru starfræktar eins og skólarnir, frá gegnumakstursumferðinni um Kjalarnes.

Ég hef þess vegna leyft mér að leggja fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra:

1. Mun ráðherra beita sér fyrir því að tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi verði í næstu samgönguáætlun?

2. Hvenær mætti búast við að framkvæmdir gætu hafist við þá mikilvægu samgöngubót?

3. Hvaða stefnu hefur ráðherra um fjármögnun verkefnisins? Mun hann tryggja jafnt aðgengi allra vegfarenda um veginn eða hyggst hann leggja til upptöku veggjalda?



[15:07]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrirspurn hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi vil ég segja þetta:

Í fyrsta lagi. Tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi er í samgönguáætlun 2008–2010 með 2.500 millj. kr. fjárveitingu samkvæmt sérstakri fjáröflun sem getur verið með ýmsum hætti en tekin verður ákvörðun um hana með framlagningu viðauka við samgönguáætlun 2007–2010 á vorþingi eða endurskoðaðri áætlun 2009–2012.

Í öðru lagi. Vegagerðin er með í undirbúningi tillögur að skipulagi fyrir Vesturlandsveg á Kjalarnesi. Umhverfismat framkvæmdarinnar liggur ekki fyrir og verkhönnun getur ekki hafist fyrr en þessum þáttum er lokið. Ekki liggur fyrir hver heildarkostnaður gæti orðið og framkvæmdatími liggur heldur ekki fyrir.

Í þriðja lagi. Eins og fram kom í svari við fyrstu spurningu minni eru 2.500 millj. kr. til verksins á samgönguáætlun 2008–2010 og eins og áður hefur verið sagt við framlagningu viðauka við samgönguáætlun 2007–2010 eða við endurskoðun samgönguáætlunar 2009–2012 mun skýrast nánar hvernig frekari fjármögnun verður háttað.

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður gat um er hér um þrjár spurningar að ræða og hálfgerðar raðspurningar og þar sem hv. þingmaður spyr hvernig þetta verði fjármagnað langar mig til að spyrja hv. þingmann, sem ræður miklu um samgöngumál, hvaða leið hann vill fara gagnvart sérstöku fjáröfluninni. Er hann veggjaldamaður eða hvað? Vill hann fara þá leið sem andlegur leiðtogi hans núna, Steingrímur J. Sigfússon, vildi fara þegar hann var samgönguráðherra? Var ekki svo að hv. þingmaður var þá aðstoðarmaður umrædds ráðherra sem er frumkvöðull að því að taka upp veggjöld á Íslandi, þ.e. með Hvalfjarðargöngum?



[15:09]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér skuli komnar til umræðu vegtengingar við Reykjavík, bæði með Sundabraut og um Kjalarnesið. Ég vildi aðeins að koma upp til að ítreka að hér er um gríðarlega mikilvæga framkvæmd að ræða sem skiptir miklu máli að vel takist og gangi hratt fyrir sig. Sjálfur sé ég fyrir mér að þarna verði strax ráðist í 2+2 veg um Kjalarnesið og að Sundagöngum og treysti á að það verði unnið hratt og vel að því að verkið komist í gang ásamt því að hafinn verði undirbúningur að tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Ég ætla bara að segja það strax hér, af því að umræðan um gjaldtöku hefur verið töluvert á döfinni undanfarið, að ég mun aldrei geta stutt það með neinum hætti að frekari gjaldtökur verði á þessari leið eingöngu. Ég er tilbúinn að skoða alla möguleika en sjálfur er ég þeirrar skoðunar að gjaldtökur á vegum með þeim hætti sem verið hefur hingað til séu úreltar og óþarfar og hægt sé að finna aðrar leiðir til að fjármagna vegaframkvæmdir.



[15:10]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Tvöföldun Vesturlandsvegar hlýtur að vera innan seilingar og hlýtur að tengjast ákvörðun um Sundaleiðina, vonandi Sundagöng eins og hér hefur komið fram í dag. Samhliða því að ljóst er að farið verður í tvöföldun Suðurlandsvegar liggur það skemmtilega fyrir, bæði varðandi Suðurlandsveg og Sundaverkefnið, Sundagöng eða hvað sem þar verður ákveðið, að þeir sem vilja taka að sér verkið eru aðilar með reynslu og þekkingu, Faxaflóahafnir, á sterkum grunni, Sjóvá – Almennar og Ístak á Suðurlandsvegi. Þetta ætti að stytta mjög allan framgang málsins og setja það í farsælasta veg og farsælasta framgang. Þetta eru aðilar sem að mínu mati eru best til þess fallnir eða sambærilegir að leysa málið og sýnt er að vegayfirvöld munu ekki koma (Forseti hringir.) að tómum kofanum í þessum efnum ef einkaframtaksleiðin verður valin.



[15:11]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þegar rætt er um Vesturlandsveginn ber auðvitað að hafa það alveg sérstaklega í huga að eins og hann er í dag er hann mikil slysagildra. Það eru fjölmörg vegamót á veginum þar sem ekið er þvert inn á veginn og í veg fyrir þá umferð sem eftir veginum fer eins og hann liggur í dag. Sérstaklega á þetta við um Kjalarnesið víða og í því liggja auðvitað miklar slysagildrur og mjög nauðsynlegt að fara að huga að því hvernig það á að leysa.

Ég vil því hvetja hæstv. samgönguráðherra til að setja þetta mál í mikinn forgang vegna þess að þarna erum við að tala um veg sem ber mikla umferð og er þannig úr garði gerður að á hverjum einasta degi gæti í raun orðið þar dauðaslys við innkeyrslu og útkeyrslu af brautinni eins og hún er í dag.



[15:13]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að nota þetta tækifæri til að fagna þeirri umræðu sem fer hér fram um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

Það vill svo til að þegar ég starfaði hér handan Tjarnarinnar fylgdist ég stundum með umræðu um samgöngumál á hinu háa Alþingi og ég saknaði oft í þeirri umræðu áherslu á höfuðborgarsvæðið. Mér finnst hins vegar umræðan í dag sýna að viðhorf manna eru að breytast, menn eru að átta sig á að á þessu svæði, þar sem langflestir íbúar landsins búa, er orðin þörf á miklu átaki í samgöngumálum og skilningurinn er að aukast, ekki bara á Sundabraut og Vesturlandsvegi heldur öllum helstu stofnæðum til og frá Reykjavík. Ég fagna því og tel að þetta sé til marks um breytta tíma og breytt viðhorf alþingismanna til höfuðborgarinnar og mikilvægi samgangna til og frá Reykjavík.



[15:14]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða sem við tökum hér um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að tryggja umferðaröryggi, það þarf að auka og bæta aðkomu að borginni og leiðir út úr henni og þar er það Sundabrautin sem við ræddum áðan og það er tvöföldun Vesturlandsvegarins. Það er rétt sem bent hefur verið á að þetta er mjög varasamur vegur og hættulegur oft og tíðum og hann þarf að tvöfalda. Við verðum að tryggja að fjölmennasta svæðið hér á landi búi við sómasamlegar samgöngur. Það má kannski segja að þingmenn hafi verið of værukærir hvað varðar aukna áherslu á höfuðborgarsvæðið. Tími höfuðborgarsvæðisins er kominn, við verðum að setja samgöngumál á þessu svæði í forgang.



[15:15]
Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka fyrir þessa fyrirspurn frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Ég tek undir það sem hefur verið sagt. Hér er sagt: Tími höfuðborgarinnar er kominn. Ég vil segja að nú sé tími landsbyggðarinnar kominn. Bílaeign landsmanna hefur stóraukist undanfarin ár og það hefur kallað á enn meiri umferð en verið hefur. Flutningar með vörur og annað eru líka komnir á vegi landsins, vöruflutningabílar komnir á þjóðvegina með varning sem áður var fluttur með skipum. Allt kallar þetta á viðbrögð sem endurspeglast í umræðunum hér.

Þá vaknar sú spurning hvort ekki þurfi að setja enn meira fé í vegamál í landinu en gert er, annaðhvort með (Forseti hringir.) auknum sköttum á bifreiðar, með olíugjaldi eða bensíngjaldi (Forseti hringir.) eða einhverju öðru. Eitt er víst, þetta kostar peninga.



[15:16]
Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Full ástæða er til að þakka fyrir þessa umræðu. Ég tek undir með þeim fjölmörgu sem hafa sagt að það sé ánægjulegt að heyra hve víðtækur stuðningur er við það að leggja áherslu á höfuðborgarsvæðið. Þó að ég vilji að sjálfsögðu halda því til haga að mörg samgöngumál vítt og breitt um landið eru brýn og mega ekki bíða, er ánægjulegt að sjá að menn hafa verulegan áhuga á því að horfa til höfuðborgarsvæðisins.

Virðulegur forseti. Mér er nokkur vandi á höndum, ég veit ekki hvort ég á að óska eftir því að klukkan verði stöðvuð. Hæstv. samgönguráðherra tók nefnilega upp á þeirri nýbreytni að ætlast til þess að ég, þingmaðurinn, svaraði fyrirspurn frá honum í fyrirspurnatíma til ráðherrans. Breytingar á þingsköpum gefa hæstv. samgönguráðherra fullt tækifæri til að spyrja mig undir liðnum um störf þingsins og ég bíð þá eftir því — (Gripið fram í.) Nei, nei, „og þingmenn“ stendur, „og þingmenn“, svo að flutningsmaður frumvarps um þingsköp sé upplýstur um það hvað í því stendur.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til ítarlegrar umræðu og hugsanlega skoðanaskipta við hæstv. samgönguráðherra um fjármögnun í samgöngumálum. Ég tel það mjög áhugavert viðfangsefni og mjög mikilvægt. Frá mínum bæjardyrum séð er eðlilegt að umferðin greiði þann kostnað sem hlýst af samgöngukerfinu. Mér finnst það t.d. mikilvægt umhverfismál. En ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að mismuna eins og gert er í dag og við komum kannski betur að í umræðum hér um næsta mál og þriðju raðspurninguna sem ég lagði fyrir hæstv. samgönguráðherra.

Ég vil þakka fyrir þau svör sem hann hefur gefið við þessari spurningu. Ég mun ekki liggja á liði mínu í samgöngunefnd og ég heyri það af málflutningi annarra þingmanna í samgöngunefnd að þau eru öll sammála um að þessi mikilvæga framkvæmd þurfi að komast á skrið, og að því getum við að sjálfsögðu (Forseti hringir.) stuðlað í umræðum um samgönguáætlun sem mun fara fram áður en langt um líður.



[15:19]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þingmönnum fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um samgöngumál, bæði nú og áður, það er hið besta mál. Hv. þingmenn tala um mikilvæga umræðu og breytingu hvað varðar umræðu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef átt sæti í samgöngunefnd í átta ár og held að alltaf hafi verið mikill skilningur á samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu á sama hátt og höfuðborgarþingmenn hafa skilning á samgöngubótum sem þarf að gera á landsbyggðinni. Það hefur hins vegar verið þannig og er enn að fé hefur verið af skornum skammti og ekki hefur verið hægt að gera allt.

Mikið var rætt um Sundabraut í þau átta ár, síðustu tvö kjörtímabil, sem ég var í samgöngunefnd. Það er einu sinni þannig að málin þokast áfram, sumum finnst allt of hægt og það er alveg rétt. Við nálgumst þó ákvörðunartöku, það er komið ótrúlega langt núna, og töluvert fé er veitt í þetta.

Ég ítreka þakkir mínar til þingmanna fyrir stuðning við mikilvægi samgangna, en vil jafnframt minna á að í stjórnarsáttmála þeirrar ágætu ríkisstjórnar sem nú situr er sérstaklega kveðið á um átak í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu verður staðið við það eins og annað sem ríkisstjórnin ætlar að gera. (Gripið fram í: Heyr!)