135. löggjafarþing — 49. fundur
 17. janúar 2008.
samvinna um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna, fyrri umræða.
þáltill. KVM o.fl., 274. mál. — Þskj. 308.

[17:01]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hlýt að notfæra mér rétt sem þingsköp veita mér til að koma á framfæri yfirlýsingu og athugasemd vegna þeirra fimm mála sem næst eru á dagskrá.

Þau eru flutt í tilefni af 10 ára afmæli Vestnorræna ráðsins, til fullnustu á samþykktum ráðsins frá 23. ágúst 2006, en ekki 2007 eins og hér segir, í Nuuk á Grænlandi. Flutningsmenn þessara tillagna eru sex þingmenn úr öllum flokkum nema, eins og glöggir menn sjá flokki Vinstri grænna. Menn gætu því álitið að þingmenn þess flokks væru ekki þessum tillögum fylgjandi. Mér þykir miður að þurfa að upplýsa að þingflokknum var ekki kunnugt um þennan tillöguflutning, hafði ekki tækifæri til að vera með á skjölunum en ég lýsi eindregnum stuðningi mínum og þingflokksins í heild við allar þessar tillögur sem næstar eru á dagskrá.



[17:03]
Flm. (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Forseti. Ég vil í byrjun nota tækifærið og vekja athygli á því að tillögurnar eru lagðar fram af hálfu þingmanna í Vestnorræna ráðinu. En af því að svo háttar til að enginn þingmaður úr Vinstri grænum er í Vestnorræna ráðinu þá heiti ég því að næst þegar lagðar verða fram slíkar tillögur verði rætt við Vinstri græna um þau mál.

Ég geri ráð fyrir því, miðað við athugasemd hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að öðrum þingmönnum eða flokkum hafi verið boðið að standa að tillögunni sem var til umfjöllunar áðan og fjallaði um fangabúðirnar í Guantanamo. Mér datt það í hug.

Frú forseti. Síðastliðinn 23. nóvember sökk farþegaskipið MV Explorer með alls 154 manns innan borðs í Suðurskautshafi í kjölfar áreksturs við ísjaka. Tókst að bjarga öllum um borð í björgunarbát í norska skipið MS Nordnorge. Slysið er raunverulegt dæmi um áhyggjur sem þingmenn Vestnorræna ráðsins hafa vegna tíðari ferða flutninga- og farþegaskipa á Norður-Atlantshafi. Farþegaskipið sem sökk í Suðurskautshafi hefur margoft haft viðkomu á Íslandi og Grænlandi þar sem hafís er, eins og við vitum.

Þingmenn hafa áhyggjur af því að ekki sé til staðar nægilegur viðbúnaður til að bregðast við stórslysi sem gæti orðið á Norður-Atlantshafi. Í ljósi þessara áhyggna var samþykkt ályktun á síðasta ársfundi ráðsins sem haldinn var í Nuuk á Grænlandi í ágúst 2007. Á henni er byggð þingsályktunartillagan sem sett er fram í dag. Ályktun ráðsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um að stuðla að aukinni samvinnu, samráði og samhæfingu um öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi, bæði við Norðurlönd og önnur lönd við Norður-Atlantshaf. Lagt er til að unnið sé að því að koma á sameiginlegum björgunaræfingum til að samræma viðbúnað og samhæfa viðbrögð við stórslysum í Norður-Atlantshafi.“

Flutningsmenn ásamt mér eru aðrir fulltrúar Íslands í Vestnorræna ráðinu: hv. þm. Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson og Jón Gunnarsson.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hvorki er nægilegur björgunarviðbúnaður fyrir hendi til að bregðast við stórslysi á Norður-Atlantshafi né áætlun um hvernig samnýta megi þann búnað sem fyrir er hjá einstökum löndum við Norður-Atlantshaf. Það er áhyggjuefni í ljósi þess að atvinnustarfsemi eins og gas- og olíuvinnsla og skipaumferð vöruflutninga og skemmtiferðaskipa fer sívaxandi sem áður segir, sem eykur hættuna á slysum.

Skemmtiferðaskip á ferð um Norður-Atlantshaf hafa sum hver yfir þúsund farþega um borð. Lönd við Norður-Atlantshaf eiga öll aðild að fjölda alþjóðasamninga sem lúta að því að koma í veg fyrir stórslys og mengun. Siglingamálastofnun hefur eftirlit með að erlend skip uppfylli alþjóðleg skilyrði um haffærni eins og öryggisbúnað, áhöfn og mengun frá skipum á grundvelli Parísarsamkomulagsins. Það samkomulag kveður á um hafnarríkjaeftirlit en það er svæðisbundið samkomulag 27 ríkja Norður-Evrópu um skoðunarferli skipa sem tekur m.a. mið af reglum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Í frétt Morgunblaðsins um sjóslysið í Suðurskautshafi segir að gerðar hafi verið athugasemdir við skoðun á Explorer farþegaskipinu í mars, m.a. tvær um stjórnbúnað skipsins. Þá vaknar auðvitað spurningin um hvað sé gert í kjölfar slíkra athugasemda. Geta slík skip lagt úr höfn með fjöldann allan af farþegum?

Þrátt fyrir að kröfur um öryggisbúnað og áhafnir samkvæmt Parísarsamkomulaginu séu uppfylltar er það hins vegar oft svo að áhöfnin kemur annars staðar frá þar sem veðurfar og siglingaraðstæður eru gerólíkar því sem gerist í Norður-Atlantshafi. Á fundi þingmannaráðs Norðurskautsins sem haldinn var í október síðastliðnum í Ottawa, Kanada, kom t.d. fram að margir þeir sem sigla um Norðurhöf hafa litla sem enga reynslu af því að sigla við aðstæður svo sem sterka hafstrauma, hafís og þoku.

Landhelgisgæsla Íslands fer með löggæslu og hefur eftirlit með siglingu skipa á hafinu umhverfis Ísland og ber ábyrgð og yfirstjórn á leit og björgun á sjó. Sjóher Danmerkur sinnir sams konar hlutverki á hafsvæðinu kringum Færeyjar og Grænland og Siglingamálastofnun Danmerkur veitir m.a. leiðsögn við siglingar um hafsvæðið við Grænland. Ísland er í mikilli samvinnu við ýmis lönd um öryggismál á hafi, t.d. við Danmörku og Noreg. Ýmsir tvíhliða samningar eru fyrir hendi og fleiri eru í farvatninu og það er ánægjulegt.

Meira þarf að koma til. Vestnorræna ráðið telur að auka þurfi samvinnu, samhæfingu og sameiginlegar björgunaræfingar allra landanna við Norður-Atlantshaf. Það er samdóma álit þeirra sem vinna við siglingaeftirlit og björgun að ekki sé til staðar viðunandi áætlun um samnýtingu björgunarviðbúnaðar og samræmingu aðgerða til að bregðast við hugsanlegum mengunarslysum og mannskaða ef um stórfellt sjóslys yrði að ræða, t.d. í tengslum við gas- eða olíuflutninga eða siglingu skemmtiferðaskips með þúsundir farþega um borð. Hér er um að ræða gríðarlega víðfeðmt hafsvæði en mjög stór hluti þess er alþjóðlegur og því nauðsynlegt að ná víðtæku samkomulagi um björgunarmál eins og mælst er til í ályktun Vestnorræna ráðsins.

Í ályktuninni er kallað eftir samstarfi allra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta við Norður-Atlantshaf um að finna varanlegan, samræmdan og viðunandi viðbúnað til að fyrirbyggja slys og eiga samstarf um björgun á svæðinu ekki síst á alþjóðlegum sjóleiðum þar sem slys geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífsafkomu þjóða við Norður-Atlantshaf.

Einnig er lagt til að unnið verði að því að koma á sameiginlegum björgunaræfingum þar sem viðbúnaður til björgunar er samnýttur og viðbrögð við stórslysum í Norður-Atlantshafi samhæfð. Ársfundur Vestnorræna ráðsins í ágúst ákvað að björgunarmál yrðu þema næstu þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í júní í Færeyjum á næsta ári.

Í lok október kynnti ég ályktun Vestnorræna ráðsins á Norðurlandaráðsþingi á grundvelli samstarfssamnings milli Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs, sem undirritaður var árið 2006. Það er ánægjulegt að segja frá því að Norðurlandaráð varð við áskorun Vestnorræna ráðsins og var þemafundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem haldinn var í Reykjavík 14. desember um samstarf landa við Norður-Atlantshaf um björgunarmál. Ég vil nota tækifærið til að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem einmitt er í utanríkisnefnd og í forsætisnefnd Norðurlandaráðs fyrir góða framgöngu í því máli

Að svo mæltu legg ég til, frú forseti, að þessari tillögu verði vísað til utanríkismálanefndar.



[17:12]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa tillögu sem hér er fram komin og þakka góð orð hv. síðasta ræðumanns í garð okkar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Það náðist um það alger samstaða innan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs að leggja til við Norðurlandaráð að öryggismál á Norður-Atlantshafi yrðu tekin á dagskrá í norrænni samvinnu. Niðurstaða forsætisnefndarfundar Norðurlandaráðs sem haldinn var í Reykjavík 14. desember var sú að þetta efni yrði tekið á dagskrá á ráðstefnu sem til stendur að haldin verði á þessu ári um samfélagslegt öryggi á Norðurlöndum. Jafnframt var lagt fyrir norrænu ráðherranefndina að setja skýrslu fram um þetta efni fyrir Norðurlandaráðsþing í haust.

Ákveðið var jafnframt að öryggismál á norðurslóðum yrðu til langframa umfjöllunarefni á vettvangi norrænnar samvinnu og það tel ég hafa verið merkilegan áfanga. Við búum við breyttar aðstæður vegna loftslagsbreytinga og brotthvarfs varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Atlantshafið allt er að opnast með öðrum hætti en áður var en björgunar- og öryggisviðbúnaður er ekki eins og áður var. Það er mikilvægt að taka á þessu máli og ég vek athygli á því að þessi atriði hafa verið færð á umræðustig af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Hæstv. utanríkisráðherra hefur ítrekað tekið þessi mál upp við kollega sína. Sama hefur hæstv. dómsmálaráðherra gert og leitað sérstaklega eftir samstarfi við norræna starfsbræður og einkanlega hinn norska.

Það er ljóst að aukin áhersla verður af hálfu Atlantshafsbandalagsins á öryggi á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi á næstu árum. Það er a.m.k. mín trú. En það er mikilvægt að við Íslendingar séum í fremstu röð ásamt nágrönnum okkar við að draga athyglina hingað norður eftir svo að félagar okkar á hinum Norðurlöndunum og í Atlantshafsbandalaginu gæti þessa stóra hafsvæðis og öryggis á því.

Ég tel sérstaklega mikilvægt í þessu efni að við einskorðum okkur ekki við samstarf með vinaþjóðum okkar á Grænlandi og Færeyjum heldur tökum Norðmenn einnig að borðinu. Ég tel mikilvægt að þetta sé samstarf sem taki til Grænlands og Færeyja, Danmerkur fyrir þeirra hönd, og svo aftur Norðmanna, að við drögum að borðinu allar þjóðir sem raunverulegra hagsmuna eiga að gæta og ræðum þetta líka á norrænum vettvangi sem hluta af samnorrænum áherslum til að bregðast við breyttum aðstæðum.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en tel fulla ástæðu til að fara vandlega yfir þessa tillögu. Ég vonast til að koma í skynsamlegt form mögulegri ályktun frá Alþingi um þetta efni og eiga um það gott samstarf við þá ráðherra sem með málaflokkana fara.



[17:17]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert land í heiminum sem býr við eins öflugar og fjölþættar björgunarsveitir og Ísland og dreifðar um landið, ekkert land í heiminum kemst í hálfkvisti við það og þetta kerfi hefur reynst okkur vel. Það er hins vegar margt sem má ugglaust fara betur hjá nágrönnum okkar, ekki síst á Grænlandi og ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt að öðru leyti en því sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni en ég tel að við eigum ekki að blanda Norðmönnum sérstaklega inn í þá vinnu sem við erum að vinna vegna þess að þá ættum við alveg eins að teygja okkur til Skotlands, Hjaltlandseyja og fleiri landa í þeim kanti sem við erum að vinna með. Við eigum að rækta garðinn innan Vestnorræna ráðsins fyrst og fremst, þétta raðirnar þar. Það er ekkert launungarmál að Norðmenn hafa sótt fast að komast inn í Vestnorræna ráðið og hefja starf þar en að mínu mati er hyggilegast að þétta raðirnar innan Vestnorræna ráðsins sjálfs, þeirra þriggja landa sem um ræðir. Ég hygg að það sé farsælast og að við getum skilað og náð mestum árangri með því móti.



[17:18]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér fjallar um mjög veigamikið mál og nær til sviða sem við höfum kannski ekki rætt í þaula enn þá en allir eru þó orðnir meðvitaðir um, þ.e. að hafsvæðin á hinum norðlægu slóðum, við Grænlandi, norður af Íslandi og í Norðurhöfum eru að breytast og á komandi árum munu verða auknar siglingar um þetta svæði hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Það er afar nauðsynlegt að við reynum að koma þessum málum í góðan samstarfsfarveg og efla viðbúnað sem snýr að öryggi jafnt á hafi sem landi. Við skulum ekki gleyma því að ef við t.d. lítum til næsta nágranna okkar í norðvestri, Grænlands, þá eru langmestar líkur á því að þangað verði sótt í auknum mæli af skemmtiferðaskipum á komandi árum vegna þess að þarna er e.t.v. að opnast veröld, a.m.k. að sumarlagi og eitthvað fram á haustið sem heimurinn hefur ekki átt greiðan aðgang að. Þess vegna munu siglingar inn á þetta svæði aukast, þ.e. siglingar farþegaskipa sem vilja sigla um norðurhöf og skoða það sem þar er áhugavert, sem er vissulega margt og mikið. Jafnframt vitum við það eftir veru okkar m.a. í Grænlandi á sl. sumri að Grænlendingar hafa um það talsverðar áætlanir að auka nýtingu á ýmiss konar jarðefnum í landi sínu, námugreftri, olíuvinnslu o.s.frv. Vissulega veldur þetta okkur nokkrum áhyggjum, einkanlega olíuvinnslan, og svo auðvitað siglingar annarra þjóða norðan við landið milli Íslands og Grænlands þar sem verið er að flytja olíu og fleira en slíkir flutningar munu væntanlega aukast í framtíðinni. Þegar menn tala um að þessi svæði verði íslaus meira og minna þá er það rétt svo langt sem það nær því á þessum svæðum munu samt sem áður ævinlega vera borgarísjakar. Þó svo hinn vetrarmyndaði hafís nái að bráðna yfir sumartímann þá er svæðið ekki íslaust í þeim skilningi að þar sé ekki borgarís sem brotnar reglulega af á hafinu og slíkir ísjakar geta verið ákaflega hættulegir skipum vegna þess að þeir veðrast í vindi og sjó og verða glærir. Þegar verið er að sigla og menn halda að hafið sé íslaust þá getur slíkt flykki sem sést mjög illa verið stórhættulegt skipum, miklu hættulegra en einhverjar ísrastir sem menn sjá og vita af og haga svo siglingunni í samræmi við það. Slíkir ísjakar sem menn taka illa eftir og koma jafnvel ekki skýrt fram á ratsjá, einkum ef það er smáalda, eru auðvitað mönnum huldir að því leyti til að skipstjórnarmenn taka ekki mið af þeim vegna þess að þeir sjá þá ekki. Þetta á einkum við ef það er þoka og eitthvað sem hamlar skyggni, en þótt menn álíti að hafið sé íslaust þá er það ekki svo. Þannig að jafnframt því að möguleikar á siglingum og nýtingu landsvæðisins á Austur-Grænlandi aukist, kannski aukin jarðefnavinnsla og auknir flutningar, og menn byggja á því að hafið verði að meira og minna mæli íslaust þá verða menn að minnast þess að þessi hætta er ævinlega til staðar.

Því miður er það svo að hvorki Grænlendingar, Íslendingar né Færeyingar eiga nú yfir að ráða neinum skip sem mundu ná að draga verulega stór skip sem þyrftu á aðstoð að halda, t.d. vegna vélarbilunar eða sem fengju á sig gat og misstu vélarafl ef eitthvað væri að veðri þó svo það megi draga þessi skip í logni. Ef þetta svæði á að vera öruggt þá þurfa umræddar þjóðir að fara að vinna að því hvaða tæki þurfa að vera hér til staða, a.m.k. það nærri að koma megi til aðstoðar við hin gríðarlega stóru olíuskip ef þau fara að sigla í vaxandi mæli sem allt bendir til.

Það fer ekkert á milli mála að Grænland, ónumin að stórum hluta, afar áhugavert land, náttúrufegurð mikil og margt að sjá fyrir þá sem hafa yndi af því að skoða stórbrotna náttúru lítt snortna eða ósnortna, verður mikill sigur fyrir ferðamanninn í framtíðinni. Það mun verða leitast við að selja þá vöru sem er að komast á slóðir sem menn hafa ekki séð áður en það liggur líka fyrir að þjóðirnar þurfa að hafa viðbúnað til að geta brugðist við slysum og hættum. Þó svo að skip séu sérhönnuð til siglinga í ís þá er það svo að ef mistök verða þá þola skip ekki að fara á 12 mílna ferð á stóran ísjaka að öllu jöfnu. Það er því að mörgu að hyggja og ég held að þessi tillaga sem hér er til umræðu, um aukna samvinnu, um öryggis- og björgunarmál Vestur-Norðurlandanna og á Norður-Atlantshafinu, einkum hér norðan við okkur, sé afar nauðsynleg og það sé eftir verulegum ávinningum að slægjast í því að takast á við þetta mál í tíma vegna þess að það er ekki nóg að rjúka upp til handa og fóta þegar slysið er orðið. Við þurfum að takast á við þetta tímanlega og þess vegna fagna ég því mjög hversu einróma sátt varð um tillöguna og einnig því ef Norðurlandaráð tekur þetta mál sérstaklega upp á sína arma.

Ég held einnig að menn eigi ekki að forðast það að ræða norðurhjarann, norðurhafsvæðið þegar fram í sækir þótt við þurfum auðvitað að fara að móta okkur stefnu í því sem hér um ræðir, að ræða við Norðmenn og Rússa um samskipti og sameiginlegar aðgerðir á þessum svæðum ef til þarf að koma. Það væri t.d. hörmulegt slys ef 300 þúsund tonna olíuskip færi á rek norður af Vestfjörðum og við hefðum engan búnað til að ráða við slíkt skip, það ræki upp á t.d. norðanverða Vestfirði svo ég nefni sem dæmi. Straumakerfið mundi haga því þannig að slíkur farmur mundi berast með öllum norðurströndum landsins inn Húnaflóa og austur með öllu Norðurlandi. Það væri mengunarslys sem við mundum þurfa að fást við í áratugi. Þess vegna álít ég, hæstv. forseti, að virkileg þörf sé á því að taka á í því máli sem við erum að ræða. Það er nauðsynlegt.



[17:28]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir varnaðarorð hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar varðandi þann þátt er lýtur að fyrirsjáanlegum auknum siglingum við Grænland. Það er þróun sem menn sjá fram á að muni eiga sér stað og það þarf að bregðast við því á margan hátt og umrædd tillaga felur í sér að unnið verði að því verkefni.

Hins vegar gera sér kannski ekki margir grein fyrir að á Grænlandi eru nánast ekki til björgunarsveitir eða björgunarfélög, það er ekkert í líkingu við það sem er á Íslandi. Það er kannski það verk sem við höfum mest að vinnu í þessari stöðu sem stóri bróðirinn í Vestnorræna samstarfinu.

Það liggur fyrir að það þarf að taka upp hanskann í þessum efnum. Íslendingar hafa svolítið þreifað fyrir sér á undanförnum árum í að koma á samstarfi og uppbyggingu í þessum efnum á Grænlandi en það er þungt fyrir og það er þungt fyrir vegna þess að danska kerfið spilar þar inn í að verulegu leyti. Það er á móti því. Þetta er bara sannleikurinn í málinu. Við þurfum þess vegna að fara styttri leiðina, við þurfum að fara grasrótarleiðina, fara þetta sem nágrannar, vinir og félagar. Þannig þurfum við að ná árangri í að byggja þetta upp. Síðan kemur að stóru þáttunum sem lúta að hvort sem er Noregi, Rússlandi, Hjaltlandseyjum, Englandi eða Skotlandi. En við þurfum að byggja grunninn, byggja heimavöllinn upp og sinna okkar næstu grönnum í þessum efnum þar sem við höfum verið skrefinu á undan í uppbyggingu í þessum málum. En þetta mun koma til frekari umræðu í öðrum tillögum fulltrúa Vestnorræna ráðsins á hv. Alþingi.



[17:30]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af fyrir sig er ég ekki ósammála því sem hv. þm. Árni Johnsen sagði hér. Ég lít hins vegar svo á að við þurfum að koma á þessu samstarfi. Það verður best gert með því að við reynum að sýna mönnum hvað við höfum byggt upp sjálfir á Íslandi, að hverju við búum í björgunarsveitum okkar o.s.frv. Það er rétt að svo kann að vera að Danir hafi þau viðhorf að þeir eigi að sjá um björgunarmálin á Grænlandssundi eða í sundinu milli Íslands og Grænlands. Ég held hins vegar að það sé afar nauðsynlegt að við náum að kynna mönnum hvernig við höfum byggt upp björgunarmál okkar, sem ég held að sé að mörgu leyti til fyrirmyndar, og reynum að koma á því virka samstarfi milli þessara eyþjóða sem ég álít að þessi tillaga fjalli sérstaklega um.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.