135. löggjafarþing — 52. fundur
 23. janúar 2008.
öryggismál í sundlaugum.
fsp. SF, 316. mál. — Þskj. 455.

[15:41]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að gerð verði úttekt á öryggismálum í sundlaugum landsins í ljósi umhverfisslyssins í Varmá í Hveragerði. Tappi í klórgeymi við sundlaugina í Laugaskarði gaf sig og klórgeymirinn var í öryggiskari sem brást þegar á reyndi þannig að 800 lítrar af mjög sterkri klórblöndu runnu út í umhverfið og skiluðu sér niður í Varmá. Það varð mikill fiskadauði á svæðinu og áhrifin ná örugglega yfir mjög stórt svæði, marga kílómetra. Menn sáu smáseiði og stóran hrygningarfisk fljóta dauðan um ána en þarna er lax, urriði, bleikja, hornsíli, áll, flundra og ósakoli. Það er ljóst að flestir halda að þetta slys muni hafa mjög mikil áhrif á fiskigengd í Varmá á komandi árum. Nú þegar hafa nokkrir aðilar rannsakað þetta mál. Ég nefni Tryggva Þórðarson, vatnalíffræðing hjá Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands í Hveragerði, og frá Veiðimálastofnun hafa komið að þessu Magnús Jóhannsson fiskifræðingur og Benóný Jónsson líffræðingur þannig að það er verið að rannsaka málið. Ég tel þetta mjög alvarlegt mál og það telja líka þeir sem hafa áhyggjur af náttúrunni almennt og vilja vernda hana og jafnframt þeir sem nýta hana.

Ég vil nefna að tvenn samtök hafa ályktað um þetta mál, bæði Landssamband stangaveiðifélaga og Stangaveiðifélag Reykjavíkur. Það hefur verið bent á að víða eru laugar. Það eru fá ár síðan rann úr Árbæjarlauginni í Elliðaárnar. Það var miklu þynnri blanda og miklu minna magn, líklega um 50 lítrar þá, en hafði talsverð áhrif á Elliðaárnar. Það er sundlaug á Flúðum og þar er Laxá nálægt, það er sundlaug á Varmalandi sem gæti haft áhrif á Norðurá í Borgarfirði og það er sundlaug t.d. í næsta nágrenni við Selá á Vopnafirði. Geysilegir umhverfishagsmunir og miklir fjárhagshagsmunir hanga á spýtunni. Bændur taka tugi milljóna króna í stangaveiðileyfum í gegnum þessar mikilvægu laxveiðiár og aðrar veiðiár. Ég tel að það verði að gera einhvers konar úttekt á sundlaugunum, á öryggismálum þeirra og að forráðamenn sundlauga verði að fara yfir þessi mál.

Ég bendi líka á skaðabótaskylduna, t.d. með slysið í Hveragerði. Er bærinn skaðabótaskyldur? Það er búið að selja Stangaveiðifélagi Reykjavíkur leyfi, það félag heldur utan um stangaveiðileyfin í þessari á í einhver ár og núna breytast forsendurnar. Í Englandi hefur svona mál komið upp og þar þurfti að borga miklar skaðabætur vegna árinnar Wendel, einnar af þekktari urriðaám landsins. (Forseti hringir.) Það þurfti að endurnýja stofninn og menn þurftu að borga skaðabætur í verndarsjóð sem stangaveiðimenn héldu utan um þannig að ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hyggist taka á þessu máli.



[15:45]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst er það að segja í svari við þessari fyrirspurn að lög um hollustuhætti og mengunarvarnir taka til öryggisþátta og eftirlits með þeim þáttum sem eiga að draga úr mengun. Samkvæmt lögunum skulu sundstaðir hafa gilt starfsleyfi sem er gefið út af viðkomandi heilbrigðisnefnd.

Í reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002, er kveðið á um að heilbrigðisnefnd geti gert kröfur um að innra eftirlit sé í starfsemi þar sem sérstakra öryggisráðstafana er þörf. Í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, nr. 457/1998, er fjallað um mengunarvarnir á sundstöðum og er í reglugerðinni lögð megináhersla á innra eftirlit, þ.e. eftirlit rekstraraðila með starfseminni sem framkvæmt er af honum sjálfum, starfsmönnum hans eða þjónustuaðila í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfsleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.

Í ráðuneyti umhverfismála er nú unnið að heildarendurskoðun á umræddri reglugerð um sund- og baðstaði með hliðsjón af reynslu undanfarinna missira.

Það er mikilvægt að hafa í huga í þessari umræðu að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa eftirlit með sund- og baðstöðum og það er hlutverk þeirra að fylgja eftir að farið sé að ákvæðum starfsleyfa og reglugerða sem gilda um starfsemi sundstaða. Mikilvægast er að innra eftirlit í sundlaugum sé virkt til þess að draga úr hættunni á óhöppum eða slysum og þá er auðvitað nauðsynlegt að starfsmenn sundlauganna kunni vel að fara með tæki, kunni á mælitæki, búnað og efni vegna hreinsunar vatnsins og fái reglulega viðeigandi þjálfun í meðferð þessa búnaðar.

Kveðið er á um þessa þætti í reglugerðinni um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

Ég tel ekki endilega nauðsynlegt að gera sérstaka úttekt á sundstöðum almennt vegna þess sem gerðist í Varmárlauginni í Hveragerði, en það þarf að brýna fyrir heilbrigðisnefndum að tryggja að eftirfylgni með starfsemi sundstaða sé í samræmi við kröfur þar að lútandi. Ráðuneytið hefur vakið sérstaklega athygli á því við Umhverfisstofnun sem starfar með heilbrigðisnefndunum. Við endurskoðun reglugerðarinnar um sund- og baðstaði legg ég áherslu á að tryggt verði að öryggi og mengunarvarnir á sund- og baðstöðum séu fullnægjandi.

Ég tek að auki undir með hv. fyrirspyrjanda, þetta eru alvarleg slys og geta valdið skaða, jafnvel á fólki eru dæmi um, á dýralífi eða öðru. Það þarf að búa svo um hnútana að almennilegt eftirlit sé, alls öryggis sé gætt á sundstöðum og að komið sé í veg fyrir að svona geti endurtekið sig.



[15:48]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg sátt við að hæstv. umhverfisráðherra telji ekki nauðsynlegt að gera sérstaka úttekt vegna þessa máls. Ég bendi á að tvö svona slys hafa orðið, í Elliðaánum og Varmá í Hveragerði. Það er ekki um sligandi marga staði að ræða þar sem sundlaug er í næsta nágrenni við mikilvæga á sem menn nýta í sambandi við veiðar.

Ég tel þetta alls ekki sligandi verkefni, það er frekar lítið mál að gera svona úttekt. Það þarf bara að fara í það verkefni. Það eru geysilega miklir hagsmunir í húfi, bæði umhverfislegir og líka fjárhagslegir. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að íhuga þetta betur.

Ég heyri að það er verið að endurskoða reglugerðina í ráðuneytinu um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra aftur hvort við megum búast við því að hert verði á reglunum varðandi þetta atriði, að skýrari reglur komi um þessi mál þannig að hugsanlega sé hægt að fyrirbyggja svona slys með harðari reglugerð.

Varðandi það að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sé ábyrgt, jú, það er rétt, sveitarfélögin eru ábyrg gagnvart því að hafa þetta allt í lagi hjá sér. Hins vegar vinna þau eftir lögum, reglum og reglugerðum sem ráðherra setur þannig að það er geysilega mikilvægt að reglurnar séu skýrar. Fyrir utan það held ég að það sé mjög mikilvægt að gera úttekt. Það er ekki svo mikið mál, það er frekar lítið mál. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að endurskoða þá ákvörðun sína að fara ekki í úttekt og íhuga hvort ekki sé rétt að gera það. Þetta eru ekki margar ár, en þetta eru stórir hagsmunir.



[15:50]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Jú, það er einmitt verið að endurskoða reglugerðina með tilliti til þess að eftirlits og öryggis sé betur gætt og að eftirfylgnin sé betri en raun hefur borið vitni. Ég tel að það sé leiðin, lögin eru skýr, þessar reglugerðir eru, eins og hv. fyrirspyrjandi veit, nokkuð flóknar og tyrfnar en þær þurfa að vera þannig að auðvelt sé að vinna eftir þeim.

Ég vil ekki gera lítið úr ábyrgð heilbrigðisnefnda sveitarfélaga í þessu. Þær eiga að sjá til þess að þessir hlutir séu í lagi. Það er rétt hjá hv. þingmanni að kannski eru ekki margir staðir á landinu þar sem þetta fer saman, þó örugglega nokkrir, þar sem sundlaug er í nágrenni ár og fiskigengd í ánni. Ég held að það sé ekki slíkt verkefni að það þurfi sérstaka tilskipun úr ráðuneytinu til að fara yfir það. (Gripið fram í.) Við endurskoðum reglugerðirnar, heilbrigðisnefndirnar fylgja þeim eftir og það er á þeirra ábyrgð að sjá til þess að þessir hlutir séu í lagi.