135. löggjafarþing — 53. fundur
 24. janúar 2008.
bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra.

[10:56]
Dýrleif Skjóldal (Vg):

Frú forseti. Mig langar að beina fyrirspurn minni til hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um styrk til hreyfihamlaðra vegna bílakaupa.

Forsaga málsins er sú að styrkur þessi var veittur á fjögurra ára fresti þeim sem á því þurftu að halda að nota bíl vegna hreyfihömlunar sinnar. Árið 2004 var reglugerð nr. 752/2002 breytt þannig að styrkur til bifreiðakaupa er nú greiddur út á fimm ára fresti í stað fjögurra. Styrkurinn sem um ræðir er 1 millj. kr. Og nú segir það sig sjálft að slík upphæð dugar skammt í bílakaupum, sérstaklega þegar um er að ræða skipti á fimm ára gömlum bíl, sem er sérútbúinn og mikið keyrður, og á nýlegum eða nýjum bíl.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hyggist breyta þessari fjárhæð til samræmis við það sem eðlilegt getur talist sem milligjöf á milli hinnar gömlu bifreiðar og þeirrar nýju eða hvort hann hyggist halda upphæðinni en greiða styrkinn út á tveggja ára fresti þannig að skjólstæðingar hans sem eiga ferðir sínar að miklu leyti undir bifreið komnar geti verið sæmilega öruggir um að bifreið þeirra sé ekki alltaf að bila og að þeir komist sína leið tiltölulega áfallalaust.

Í framhaldi af því langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að 69. gr. laga almannatrygginga sem fjallar um árlegar breytingar á bótum og greiðslum Tryggingastofnunar nái einnig yfir alla styrki og greiðslur sem reglugerðir Tryggingastofnunar kveða á um þannig að fjárhæðirnar sem nefndar eru í reglugerðunum uppfærist árlega (Forseti hringir.) og að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs eins og það er sagt í lögunum.



[10:58]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Dýrleifu Skjóldal fyrir þessar fyrirspurnir. Fyrst út af bifreiðastyrkjunum, þetta eru málefnalegar og góðar ábendingar frá hv. þingmanni. Þetta hefur verið lítillega til skoðunar í ráðuneytinu og við munum fara betur yfir það. Eðli málsins samkvæmt þurfum við að halda eins vel utan um þetta og mögulegt er.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að það er afskaplega mikilvægt því fólki sem býr við hreyfihömlun að geta komist á milli staða og það hlýtur að vera til sífelldrar skoðunar hvernig þeim málum er best fyrirkomið. Ég hef hins vegar ekki endanlegt svar fyrir hv. þingmann núna, enda býst ég fastlega við að hv. þingmaður hafi kannski ekki ætlast til þess.

Síðan almennt varðandi greiðslur sem eru í hinum ýmsu lögum, menn hafa haft þá almennu reglu, eftir því sem ég best veit, að festa þær ekki við vísitölur. Ef menn ætla að skoða það þarf að skoða það í mun stærra samhengi.



[11:00]
Dýrleif Skjóldal (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þessi svör. Það mundi gleðja mig mikið ef þau svör og þessi fyrirspurn mín yrðu til þess að augunum verði rennt yfir þessi lög og þá styrki sem skjólstæðingar Tryggingastofnunar eiga rétt á. Það segir sig sjálft, eins og dæmið um bílastyrkinn, að við verðum að fylgjast með því sem er að gerast í samfélaginu. Við getum ekki bara ákveðið að við ætlum að veita styrk sem einhvern tímann dugði til þess að kaupa bíl og svo gleymt því í mörg ár.

Við skoðun mína á þessum lögum sá ég að á margan hátt má taka til hendinni í þeim, skoða þau, uppfæra og laga. Það vakti t.d. mikla kátínu mína að prósentuborgun á spelkum er misjöfn. Mér vitanlega (Forseti hringir.) hafa þeir sem nota spelkur ekki notað þær sem tískuskraut heldur af nauðsyn og þess vegna finnst mér eðlilegt að (Forseti hringir.) þær verði allar borgaðar 100%.



[11:01]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir. Nokkrir fleiri hafa líka vakið athygli á þessum málum og m.a. hafa þau verið tekin upp á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Í þessum málum eins og mörgum öðrum er ráðuneyti mitt nokkuð víðfeðmt þótt ég sé alls ekki að kvarta undan því stórskemmtilega starfi sem ég er í. Við komumst hins vegar ekki yfir að klára það allt á fyrstu sjö mánuðunum. En einstaklingar eins og Bergur Þorri Benjamínsson og ýmsir fleiri hafa verið duglegir að benda á það sem snýr að bifreiðastyrkjunum.

Það er hins vegar mjög gott að fá svona málefnalegar ábendingar og umræður hér í þinginu. Vil ég nota tækifærið og þakka hv. þingmanni aftur fyrir það.