135. löggjafarþing — 57. fundur
 31. janúar 2008.
flug herflugvéla.

[10:47]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku voru fluttar fregnir af því í norrænum fjölmiðlum, m.a. í danska ríkisútvarpinu og færeyska blaðinu Sósíalnum, að á síðustu þremur árum hafi það gerst tíu sinnum að F16 orrustuþotur danska hersins hafi farið of nærri farþegaþotum á flugi. Fjögur þessara tilvika áttu sér stað á síðasta ári.

Það er óþarft að fjölyrða um þá hættu sem getur skapast af því fyrir áhafnir og farþega í almennu flugi þegar flugmenn á orrustuþotum, sem flogið geta á 2.000 kílómetra hraða á klukkustund, virða ekki nauðsynlegar öryggisreglur á flugi.

Fregnir þessar ættu að vekja sérstaka athygli Íslendinga enda hafa íslensk stjórnvöld verið fús til að leyfa erlendum herjum að stunda flugæfingar í og við landið. Slíkar æfingar, og þá einkum lágflugsæfingar, hafa mætt mikilli andstöðu hér á landi, m.a. frá aðilum í ferðaþjónustu.

Af þessu tilefni vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. utanríkisráðherra. Í fyrsta lagi: Valda þessar fregnir hæstv. utanríkisráðherra áhyggjum í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa á síðustu missirum kappkostað að bjóða dönskum herþotum og vélum annarra NATO-ríkja til æfinga og eftirlitsflugs við Ísland? Og í öðru lagi: Hyggst utanríkisráðuneytið fara fram á skýringar frá dönskum yfirvöldum vegna þessa máls?



[10:49]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alltaf áhyggjuefni ef flugvélar, hvort sem það eru herflugvélar eða aðrar flugvélar, fljúga of nærri öðrum þannig að hætta geti stafað af því og full ástæða til að skoða þau mál vel ef einhver tilvik eru uppi um slíkt.

Ég þekki ekki vel það tilvik sem hv. þingmaður nefnir hér en mun að sjálfsögðu skoða það í framhaldi af þessari fyrirspurn og kanna hvernig í því máli lá. En ég tel ekki tilefni til þess að draga einhverja samlíkingu á milli þeirra tilvika sem þarna er um að ræða og síðan æfingaflugs herflugvéla, danskra eða annarra, þegar þær eru á Íslandi til æfinga. Vegna þess að ég tel að einmitt þegar vélar eru hér til æfinga sé meira eftirlit og meira skipulag á hlutunum en er kannski í annan tíma. Ég get því ekki séð ástæðu til að draga samlíkingu þarna á milli.



[10:50]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin þó svo að innihald þeirra valdi mér nokkrum vonbrigðum. Mér finnst við ekki taka nógu alvarlega þær hættur sem geta stafað af heræfingum hér við land. Það er alkunna í löndunum í kringum okkur að borgaralegt flug og æfingar herflugvéla fara illa saman og ég tel að fregnirnar frá Danmörku séu ekkert einsdæmi í þeim efnum.

Ísland á ekki að vera í hlutverki æfingabúða fyrir orrustuflugmenn erlendra ríkja og hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar ættu að sjá sóma sinn í því að tryggja öryggi flugfarþega og afþakka bara að öllu leyti herflugsæfingar við landið.



[10:51]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti fullyrt að íslensk stjórnvöld gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja öryggi flugfarþega, hvort sem það er í almennu flugi eða æfingaflugi og gera ekkert það sem getur með einhverjum hætti stofnað lífi eða limum flugfarþega í hættu. Það held ég að við hljótum öll að vera nokkuð fullviss um.

Varðandi æfingarnar þá held ég eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, að þegar um heræfingar er að ræða sé þannig frá málum gengið að ekki eigi að vera hætta á ferðum.