135. löggjafarþing — 58. fundur
 4. feb. 2008.
GSM-samband og háhraðatengingar.

[15:18]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni er eitt af því sem margir sem þar búa bíða eftir með mikilli óþreyju, sérstaklega útbreiðslu GSM-símanna og háhraðatengingarinnar. Strandasýsla er eitt af þeim svæðum þar sem útbreiðslan er stopul, svo að ekki sé meira sagt. Nú bregður svo við að Vodafone hefur sett upp sendi við Skagaströnd sem nær mjög langt, bæði út á miðin og í byggðirnar við Húnaflóa, þannig að nú er mjög víða samband þar sem ekki var áður — en aðeins hjá þeim sem skipta við Vodafone því að notendur Símans geta ekki nýtt sér þessar framfarir.

Þess vegna vildi ég gjarnan spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann viti til þess að Síminn sé að ganga frá reikisamningum við Vodafone þannig að notendur Símans geti nýtt sér þessar framfarir og það áform Vodafone að reisa 50 nýja senda um land allt til viðbótar þessum eina.

Í öðru lagi er ástæða til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað líði útbreiðslu GSM-sambands á vegum Fjarskiptasjóðs sem honum var falið að vinna að ásamt útbreiðslu á háhraðanetinu. Margir eru orðnir býsna óþreyjufullir eftir því að eitthvað gangi í þeim efnum. Auðvitað hafa náðst fram ágætir áfangar en verkinu miðar ákaflega seint að mati margra sem bíða eftir þessum þörfu framförum, virðulegur forseti.



[15:20]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gat hér um það sem mátti lesa um í Fréttablaðinu í morgun og svo á vefnum strandir.is, um ákaflega ánægjulegan áfanga sem þar náðist í síðustu eða þarsíðustu viku og var talað um á strandir.is sem byltingu í útbreiðslu GSM-sambands á Ströndum og siglingaleiðum á Húnaflóa vegna uppsetningar á sendi á fjalli sem mig minnir að heiti Steinnýjarstaðafjall og er einhvers staðar norðan við Skagaströnd. Ég verð að játa að ég þekki ekki nákvæmlega hvar það er.

Hann gat enn fremur um það sem líka mátti lesa um, að þegar þessi þjónusta verður komin upp standi hún aðeins viðskiptavinum Vodafone til boða og spyr hvað því líði að Síminn taki upp samband hvað það varðar.

Maður vonar að Síminn geri samning við Vodafone um viðskiptin á þessa sendi alveg eins og Vodafone hefur gert samninga inn á senda sem Síminn setti upp í svokölluðu GSM-útboði 1 þannig að þeir standi þá öllum landsmönnum til nota, þessir sendar sem búið er að setja upp í þessari háhraða- og GSM-byltingu sem á sér stað á landinu fyrir tilstilli Fjarskiptasjóðs. Vonandi gengur þetta eftir sem allra fyrst.

Hins vegar spyr hv. þingmaður eftir háhraðatengingunum. Því er til að svara að eins og mönnum er kunnugt átti því að vera lokið um síðustu áramót. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir af ýmsum ástæðum, m.a. þeirri að fyrirtæki á markaði ætluðu sér að taka stóran hluta lánsins á markaðslegum forsendum en loksins er komið fram að svo er ekki. Nú er unnið að útboði á háhraðatengingum sem verður vonandi sent út á allra næstu dögum, í samræmi við stefnu ríkisstjórnar sem þá getur náð til allt að 1.500 bæja (Forseti hringir.) sem þarf að vinna á í þessu sambandi.



[15:22]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hvet hann til að ýta enn frekar eftir því að þessi mál gangi fram af meiri hraða en verið hefur. Það er full ástæða til að svo verði.

Mig langar að spyrja hann aftur um útbreiðslu uppbyggingar GSM-sambands á vegum Fjarskiptasjóðs. Það er vissulega gott að símafyrirtækin tvö byggi upp fjarskiptakerfi sitt, en það er eðlilegt að þau reyni að hraða uppbyggingu hvort um sig eða sameiginlega því að fyrir símnotendur er aðalatriðið að fjarskiptakerfið sé byggt upp og að fyrirtækin hafi síðan samninga sín í milli, svokallaða reikisamninga, sem geri notendum kleift að nýta nýju sendana og tala í síma sína um þá óháð því hvor aðilinn hefur komið upp þessu kerfi.



[15:23]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst ætla ég að fá að klára það sem ég var að segja um háhraðatengingarnar í fyrra svari mínu. Staðan er einfaldlega þessi: Útboðsgögn eru, eins og ég segi, að verða tilbúin. Þetta getur náð til allt að 1.500 býla á landinu en ekki 200 eins og menn voru að vinna við í nokkuð langan tíma, þetta fari sem sagt út. Ég veit ekki nákvæmlega hvað tilboðsfresturinn verður langur en í stjórnarsáttmálanum stendur, með leyfi forseta:

„Tryggja ber að landsmenn hafi allir færi til að nýta sér þá byltingu sem orðin er í gagnaflutningum.“ — Eftir þessu er auðvitað unnið. Tækninni fleygir fram. Þó að við séum frekar óhress með að þetta sé ekki búið hefur samt verið athyglisvert að hlusta á aðila sem hafa mikið vit á þessu og tala stundum jafnvel um að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Jafnvel að þetta skuli ekki vera búið getur orðið til að við fáum enn þá betri tilboð í enn þá betri tækni en áður hefur verið talað um í háhraðatengingunum.

Til að svara hv. þingmanni (Forseti hringir.) segi ég bara þetta: Háhraðatengingarnar eru að fara út og GSM-útboð 2 er á fleygiferð eins og dæmin sanna núna frá Ströndum.