135. löggjafarþing — 58. fundur
 4. feb. 2008.
ræður og ávörp ráðamanna á íslensku, fyrri umræða.
þáltill. MÁ og KVM, 340. mál. — Þskj. 576.

[18:07]
Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að ræður og ávörp ráðamanna liggi fyrir á íslensku. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Karl Valgarður Matthíasson.

Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að Alþingi álykti að beina því til forseta Íslands og ráðherra að ræður og ávörp sem þeir flytja á erlendri tungu liggi fyrir á íslensku samtímis eða svo skjótt sem auðið er.

Í greinargerðinni, sem er stutt, segir að á tímum ört vaxandi alþjóðasamskipta hafi mjög færst í vöxt að ræður og ávörp forustumanna á ýmsum sviðum séu samin og flutt á öðru máli en íslensku, oft ensku. Þessir textar eru sumir hverjir mikilvægir fyrir íslenskt samfélag, varða hagsmuni Íslendinga og eru hluti af stjórnmála- og samfélagsumræðu í landinu. Hér er lögð áhersla á að þróunin er algjörlega eðlileg og ekki gerðar neinar athugasemdir við hana í sjálfu sér.

Hins vegar er jafneðlilegt að slíkar ræður og ávörp æðstu ráðamanna liggi fyrir á íslensku, helst við flutning eða birtingu en ella eins skjótt og auðið er. Með þeim hætti geta allir landsmenn kynnt sér hvað sagt er í þeirra nafni við erlenda menn, stendur í greinargerðinni, og með „opinberri“ þýðingu er ekki hætta á að orð ráðamanna á erlendri grund eða við alþjóðleg tækifæri sæti rangþýðingu eða mistúlkun vegna tungumálaörðugleika. Þá má ætla að íslenskur texti greiði fyrir við vinnslu og flutning frétta á Íslandi af slíkum ræðuhöldum.

Hér í eru sem sé þrenns konar sjónarmið. Í fyrsta lagi er lögð áhersla á ákveðinn rétt almennings til þess að geta kynnt sér á móðurmáli sínu það sem æðstu ráðamenn segja í þeirra nafni við útlendinga eða við þau tækifæri þar sem fluttar eru ræður á erlendri tungu. Slíkar ræður eru oft merkar. Þar kemur fram stefna stjórnvalda íslenskra sem getur eins átt erindi við Íslendinga og hina erlendu menn sem á hlýða fyrir utan að sumar af þessum ræðum eru fluttar við það tækifæri að töluverður hluti áheyrenda eða móttakenda eru Íslendingar þótt af kurteisisástæðum sé e.t.v. ákveðið að flytja ræðuna á erlendri tungu.

Þá er önnur forsenda þess að þetta sé gert sú að það sé skilmerkilegt hvað menn hafa sagt, að ekki sé verið að velta því fyrir sér, að opinber þýðing af einhverju tagi liggi fyrir þannig að menn fari ekki í grafgötur um hvað nákvæmlega hefur verið sagt eða séu að toga það eða teygja og þetta ætti að vera ráðamönnunum og stjórnsýslunni í hag.

Í þriðja lagi er með þessu greitt fyrir sæmilegum fréttaflutningi sem er bæði í hag þeim sem ræðurnar halda og þeim sem á hlýða og ekki síst fréttamönnum sem þá þurfa ekki í þeim flýti sem einkennir oft það starf að hafa fyrir því sjálfir að snara snúnum texta.

Að lokum segir í greinargerðinni að skynsamlegt sé að setja um þetta almennar reglur, til dæmis í forsætisráðuneytinu, og mætti fela hinni ágætu þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins, sem starfar af miklum dugnaði og þrótti, þessi verkefni ef mönnum finnst þau vandleyst á eigin skrifstofum. Við fjárlagasmíð þyrfti að gera ráð fyrir lítils háttar útgjaldaauka vegna þessa íslenskunarstarfs. Ég hef ekki á reiðum höndum hvað þyrfti af því tagi en ég hygg að það sé ekki mikið ef menn búa til regluverk sem er einfalt og undantekningarlaust í þessu skyni.

„... samtímis eða svo skjótt sem auðið er“, segir í tillögugreininni. Þar er auðvitað gert ráð fyrir því að menn hafi ákveðinn sveigjanleik í þessu efni, það sé ekki þannig að það þurfi nauðsynlega að liggja fyrir íslenskur texti um leið og hinn erlendi er fluttur. Að sjálfsögðu er ekki gert ráð fyrir því að allar ræður og ávörp, tækifærisræður eða einkasamtöl eða samtöl í fámennum hópi, liggi fyrir heldur einkum það sem mikilvægt er og til þess gætu þessar reglur í forsætisráðuneytinu tekið.

Auðvitað á þessi hugsun við um fleira. Hún á við samninga sem við erum að gera og ýmis álitamál og ýmsa þá texta sem valda hér álitamálum. Dæmi nýlegt er álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hér var til eingöngu á ensku þangað til Alþingi tók sig til vegna beiðni alþingismanna og lét þýða þetta álit og það gerðist í síðustu viku. En í raun og veru þurftu menn að þýða það sjálfir hver um sig til að vita hvað í þessu merka plaggi stóð áður en skrifstofa Alþingis tók sig til og gerði þetta.

Forseti. Þetta er lítið mál í sjálfu sér en hluti af mikilvægri umræðu um íslensku og stöðu hennar. Ég hef áður lagt til þeirrar umræðu, verið þeirrar gæfu aðnjótandi að geta gert það hér á þingi, þingsályktunartillögu um rannsókn á réttarstöðu íslenskunnar. Þó að hún hafi ekki verið samþykkt var henni vísað til ríkisstjórnarinnar og hún hefur gert töluvert gagn í umræðunni, meðal annars það að þessi tillöguflutningur átti sinn þátt í því að Íslensk málnefnd er núna að vinna gott starf, að ég tel, með stuðningi og atbeina hæstv. menntmálaráðherra, að því að rannsaka eða athuga réttarstöðu íslenskunnar og stöðu hennar yfir höfuð. Það á að enda í málstefnu sem svo er kölluð sem málnefndin skilar að lokum menntamálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra hefur nýverið lýst yfir að hún ætli sér að flytja hér sem þingsályktunartillögu þegar hún kemur fram. Ég fagna því.

Ég tel hins vegar ekki ástæðu til þess að láta þetta litla erindi bíða og vænti þess og vona að því verði vel tekið í þinginu og síðan í þeirri nefnd, allsherjarnefnd, sem ég tel eðlilegt að fjalli um þetta og leyfi mér að láta í ljósi þá ósk að hv. allsherjarnefnd leggi síðan til við þingheim að hann samþykki þetta að lokum í vor.



[18:15]
Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu þingsályktunartillaga um að ávörp ráðamanna og ræður liggi fyrir á íslensku. Ég vil taka undir þessa tillögu með hv. þm. Merði Árnasyni og finnst raunar þeir tilburðir hv. þingmanna til að auka og styrkja íslenskuna verulega til bóta. Ég tek jafnframt undir með hv. þingmanni að það er gaman að því þegar við þingmenn getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til þess að styrkja stöðu íslenskunnar.

Svo háttar til um þessa tillögu að þar er verið að ræða ræður sem ráðamenn hafa haldið og það er áhugavert að lesa fylgiskjalið sem fylgir tillögunni. Ég er búin að renna yfir það og oft og tíðum er það svo að ég mundi halda að um töluvert merkar ræður sé að ræða og jafnvel efnismiklar.

Hér er farið dálítið yfir ræður forseta Íslands þar sem hann er t.d. að fjalla um mál sem eru mjög ofarlega á baugi á Íslandi, t.d. orkumál, loftslagsmál og fleira. Hér eru efni er varða Atlantshafsbandalagið sem hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra fjalla um, þannig að hér er oft og tíðum um mjög merk mál að ræða. Það er gott fyrir almenning að geta kynnt sér þau og ekki síður það sem nefnt var hér áðan, að oft er um að ræða ræður sem haldnar eru á Íslandi, örfáir gestir koma erlendis frá sem veldur því að stundum þarf að halda ræðuna á erlendri tungu.

Nú er það svo að við teljum oft að við Íslendingar séum svo ansi sleip í erlendum tungumálum og sérstaklega hefur mönnum þótt sem enskan sé að ryðja sér töluvert til rúms. Mér finnst það mjög miður ef við látum það gerast, að við teljum okkur það góð í erlendum tungumálum að við verðum að láta íslenskuna víkja þegar kemur að efni sem þessu. Mér finnst góður bragur á því að menn reyni sem frekast er unnt að þýða skjótt og vel ræður af þessu tagi, alveg hreint eins og hefur verið hér og er um þau álit sem koma frá erlendum og alþjóðlegum stofnunum sem varða okkar mikilvægustu mál.

Fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að Íslensk málnefnd vinnur mikilvægt starf og ég hef aðeins fylgst með því. Ég veit að margir þingmenn hafa fylgst með þeirri vinnu sem nú er að fara í gang og ég bind miklar vonir við hún að muni skila töluverðu um framgang og umræðu um íslenska tungu. Það er brýnt að við höldum umræðunni um íslenskuna lifandi vegna mikilvægi tungunnar sem menningararfs okkar og ekki síst vegna þess að hún er tæki sem við notum alla daga. Fjölbreytileiki hennar skiptir svo miklu máli fyrir okkur í samskiptum okkar, ekki síst hér í sölum Alþingis.

Ég tek því undir með hv. þm. Merði Árnasyni og þakka honum fyrir að koma fram með þetta mál. Eins og jafnan þegar íslenskuna ber á góma, stend ég heils hugar að baki henni.



[18:19]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er nú gott að menn rugli ekki saman dagskrárliðum hér á hv. Alþingi eins og stundum hefur brugðið við. Í fimmta dagskrárliðnum vorum við að fjalla um siðareglur opinberra starfsmanna, að ekki mætti kaupa kynlífsþjónustu á erlendri grund, og í kjölfarið kemur að ræður og ávörp ráðamanna liggi fyrir á íslensku sem væri náttúrlega ekki hægt að nota á erlendri grund. Það er svona gott aðhald í þessu, svo menn gantist nú aðeins.

Í fyrsta lagi þá fagna ég þessari tillögu. Hún er fullkomlega tímabær og hún er metnaðarfull. Á hverjum degi þurfum við að standa vörð um framgang og notkun íslenskrar tungu vegna þess að hún er náttúrlega lykillinn að sjálfstæði okkar inn í framtíðina. Hún er hvorki meira né minna en höfuðatriðið í sjálfstæði okkar inn í framtíðina.

Ýmsir íslenskir embættismenn og aðrir nota í sívaxandi mæli erlendar tungur, það er hætta sem víða kemur upp. Það er eins og það slævi stundum málnotkun í íslensku í þeim efnum. Ég lenti til að mynda í því fyrir fáum dögum að vera á fundi þar sem mjög virtur, háttsettur, opinber embættismaður flutti ágætiserindi um það mál sem var á dagskrá en sagði með stolti: Ég aldist upp í Reykjavík. Auðvitað hefði bremsan átt að virka sjálfvirkt en það kom engin leiðrétting og þetta stingur í stúf og á auðvitað ekki að eiga sér stað. Það er bara hluti af því sem verðum að gæta að rækta inn í framtíðina.

Fjölmiðlar í dag kynna ekki metnaðarfulla málnotkun. Margir fjölmiðlamenn tala vitlaust og leggja á vitlausar áherslur. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem fara fyrir og tala fyrir hönd þjóðarinnar, fyrir hönd stofnana og fyrirtækja, standi sérstakan vörð um íslenskunotkunina. Þó að eðlilegt sé að þeir tali erlend mál undir mörgum kringumstæðum, skiptir mjög miklu máli að til sé þessi túlkun, eftir atvikum útdráttur eða túlkun í heilu lagi. Það fer svolítið eftir því hvort menn fjalla um ræður eða ávörp eða evrópska efnahagssamninginn sem auðvitað fylgja með í endalausum þýðingum. Þó væri ástæða til því að við höfum tapað ýmsum hlutum og möguleikum varðandi framgang okkar mála af því að stuðst er við erlend mál sem menn skilja misjafnlega og sumir láta hjá líða að kryfja til mergjar þegar kemur að íslensku þýðingunni af því að það er of mikil vinna.

Ég fagna fyrst og fremst tillögu hv. þm. Marðar Árnasonar og Karls V. Matthíassonar og vona að hún gangi til enda og komist heil í höfn.



[18:23]
Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Erindi mitt er eingöngu að þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu, þeim Árna Johnsen og Ólöfu Nordal. Ég hef tekið eftir því að þau hafa haldið hér uppi merki íslenskunnar með málflutningi og tillögugerð á þinginu og vil að þau viti að það er þakkað í samfélaginu.

Það er rétt hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að fylgiskjal er með þingsályktunartillögunni þar sem getið er óþýddra ræðna og ávarpa á þremur vefsetrum, forseta Íslands, forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Það tekur til ræðna og ávarpa sem þar eru birtar fyrir árið 2007 nema að listi utanríkisráðherra miðast við hálft árið því að núverandi utanríkisráðherra tók við í maí, eins og menn vita.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að þar eru að vísu ýmsar ræður sem ekki eru afar mikilvægar og eru kannski fluttar formsins vegna en aftur eru þar aðrar sem ættu að liggja fyrir á íslensku og varða mjög merk mál.

Ég geri ráð fyrir að þegar menn settust yfir reglur um þetta yrðu erindi sem menn flytja af þessu tagi að einhverju leyti flokkuð niður þannig að gert yrði ráð fyrir heildarþýðingu á sumum ávörpum og ræðum en útdrætti úr öðrum eftir atvikum og mikilvægi. Ég tek undir það með hv. þm. Árna Johnsen að um sem allra flesta texta af þessu tagi þyrfti að vera sú regla að það væri að minnsta kosti til útdráttur þannig að menn gætu nálgast textann, gætu vitað um hvað hann fjallar. Síðan ætti réttarstaðan í raun og veru að vera þannig í tungumálum okkar hér í stjórnsýslu og samfélagi að menn geti þá fengið nánari skýringar eða jafnvel þýðingu eftir atvikum ef á þarf að halda.

Ég þakka þessa umræðu og vonast til að hún verði til nokkurs gagns fyrir það efni sem til stóð að fremja.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allshn.