135. löggjafarþing — 60. fundur
 6. feb. 2008.
skimun fyrir krabbameini.
fsp. ÁI, 330. mál. — Þskj. 542.

[14:00]
Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Hinn 17. mars árið 2007 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra var falið að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og skyldi leitin hefjast á árinu 2008. Það var Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks á Suðurlandi sem var 1. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar en auk hennar voru á tillögunni fimm þingmenn úr öllum flokkum.

Þessi tímamótasamþykkt Alþingis átti sér langan aðdraganda en allt frá árinu 2000 hafði Árni heitinn Ragnar Árnason þingmaður lagt á það áherslu hér í málflutningi og tillögugerð að auka fræðslu um þennan sjúkdóm og á mikilvægi þess að fólk þekkti fyrstu einkenni hans. Árni Ragnar Árnason var ásamt 17 öðrum þingmönnum úr öllum flokkum flutningsmaður þingsályktunartillögu sem var samþykkt hér á árinu 2002 um að gerðar skyldu tillögur um hvernig standa skyldi að forvörnum og leitarstarfi. Síðan birti nefnd á vegum landlæknisembættisins klínískar leiðbeiningar og mælti með að skimun fyrir ristilkrabbameini yrði framkvæmd en þá höfðu Finnar hafið slíka skimun. Þar var lagt til að hefja leit meðal karla og kvenna 50 ára og eldri á tveggja ára fresti auk þess sem gert var ráð fyrir sérstakri leit hjá áhættuhópum.

Krabbamein í ristli er annað algengasta krabbameinið sem greinist á Íslandi og er önnur algengasta dánarorsökin af völdum krabbameina á landinu. 120 manns greinast árlega með krabbamein í ristli, konur jafnt sem karlar, og látast 50 af hans völdum. Áhættan vex með hækkandi aldri, 67% þeirra sem fá ristilkrabbamein eru 75 ára og eldri en þess eru dæmi að fólk mun yngra, jafnvel niður í 40, 45 ára fái þennan sjúkdóm.

Alþingi lagði óvenjulega mikla áherslu og með mikilli samstöðu á þessa leit eða skimun eins og þetta mun kallað og því er forvitnilegt að heyra nú á nýbyrjuðu ári hvað undirbúningnum líði og hvenær þessi samþykkt þingsins kemur til framkvæmda.

Ég hef því lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra:

Hvað líður undirbúningi að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi sem hefjast á á árinu 2008, samanber ályktun Alþingis frá 17. mars 2007?



[14:03]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir þessa fyrirspurn og sömuleiðis hvernig hún rakti hér í máli sínu forsögu málsins. Eins og við þekkjum sem erum búin að vera hér í nokkurn tíma var þetta mál unnið undir forustu fyrrverandi félaga okkar, hv. þm. Árna Ragnars Árnasonar, og hv. þm. Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi þingmaður, er sú manneskja sem kom þessu máli í höfn ef þannig má að orði komast. Ég ætla aðeins að rekja hvernig staða málsins er, með leyfi, virðulegi forseti.

Sem kunnugt er veitti Alþingi við afgreiðslu fjárlaga í lok sl. árs 20 millj. kr. til að hefja undirbúning að leit að krabbameini í ristli og endaþarmi. Allmikil vinna hefur verið lögð í undirbúning þessarar skimunar bæði með starfi hérlendis sem og að fylgjast vel með aðgerðum nágrannaþjóða. Ljóst er að um mjög umfangsmikið verkefni er að ræða og þýðingarmikið að það takist vel og því mikilvægt að læra af reynslu nágrannaþjóðanna. Hugmyndin er að leitin fari fram á þann hátt að til að byrja með takmarkist leitin við skimun hjá 60–69 ára einstaklingum af báðum kynjum. Leiði fyrsta athugun í ljós blóð er viðkomandi boðið að koma til ristilspeglunar þar sem frekari leit verður gerð til að ganga úr skugga um hvort að baki liggi forstigsbreytingar að ristilkrabbameini eða hvort blóðið átti sér saklausari skýringar.

Aðrar aðferðir en leit að blóði í hægðum hafa fram að þessu ekki sannað gagnsemi sína en margar rannsóknir standa yfir eða eru fyrirhugaðar til skimunar á einkennalausum aldurshópum. Einnig hafa margar þjóðir farið af stað í skrefum, byrjað með afmarkaða aldurshópa og jafnvel afmarkaða landshluta til þess að skimunin megi fara sem best. Sömuleiðis eru í gangi víða um lönd rannsóknir til að kanna hentugleika annarra aðferða til leitunar eða skimun að krabbameini í ristli eða endaþarmi, bæði speglanir og lífeindafræðilegar rannsóknir.

Það fjármagn sem heilbrigðisráðuneyti er ætlað til undirbúnings er 20 millj. kr. Er ætlunin að hefja undirbúningsvinnu innan skamms og kalla til helstu aðila sem þessu máli tengjast svo sem fulltrúa frá landlækni, Lýðheilsustöð og Krabbameinsfélagi Íslands, sem hefur mikla reynslu af skimun eins og kunnugt er. Áformað er að þessum undirbúningi miði þannig að formleg skimun geti hafist í byrjun árs 2009.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.



[14:05]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli sem var niðurstaða þingsályktunartillögu sem var samþykkt í mars 2007. Ég taldi sannast sagna að undirbúningurinn væri komin lengra á veg en raun ber vitni samanber svar hæstv. ráðherra.

Það er þó ánægjulegt að vita að það skuli þó vera vinna í gangi. Þetta er næstalgengasta krabbamein sem greinist á Íslandi, það leggur marga að velli en það eru möguleikar á að greina þennan sjúkdóm á fyrri stigum en gert er í dag. Það eru rannsóknir í gangi til þess að finna nýjar rannsóknaraðferðir og ég tel mikilvægt að þeim sé fylgt eftir. (Forseti hringir.) Ég tel líka mikilvægt að skimunin geti farið fram á öllum heilsugæslustöðvum úti um allt land svo fólk þurfi ekki að leita hingað suður til Krabbameinsfélagsins þegar (Forseti hringir.) leitin fer í gang.



[14:07]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil undirstrika að ristilkrabbamein er algengasta krabbamein í Evrópu samkvæmt nýjum upplýsingum þegar austurhlutinn og EFTA-löndin eru tekin með, þ.e. nýgengi ristilkrabbameins er hærra en nýgengi lungnakrabbameins. Þetta er því mikilvægt mál.

Ég vil líka undirstrika að það var gerð forkönnun á skimun á vegum Krabbameinsfélagsins 1986 og 1988 og þá fundust einstaklingar með krabbamein eða í einu tilfelli af hverjum 800 sem tóku þátt í rannsókninni. Þá fannst líka fjöldi ristilsepa sem er forstig flestra krabbameina í ristli en brottnám þeirra skilar árangri í fækkun krabbameinstilfella í framhaldinu á næstu 7 til 10, 20 árum þar á eftir, þannig að þessi tillaga sem var samþykkt hér gengur bæði út á að finna krabbameinið sjálft og líka forstig krabbameinsins, þ.e. sepana.

Þetta er því mikilvægt mál og ég fagna því að við sjáum fyrir endann á því að hefja þessa skimun þó að við höfum reyndar samþykkt að hefja hana 2008 en ég heyri að það á að gera það 2009.



[14:08]
Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin þó að þau valdi mér vissum vonbrigðum og nokkrum áhyggjum. Þetta er ansi takmarkaður hópur, 60–69 ára að aldri, sem þarna á að byrja með og er ekki í samræmi við þá tillögu sem nefnd landlæknis gerði á sínum tíma. En mjór er mikils vísir og við skulum vona að þetta muni takast vel.

Ég vil leggja áherslu á það að árangur hópleitar er gríðarlega mikill og við þekkjum hann til að mynda hjá Krabbameinsfélaginu, leitina að brjóstakrabbameini sem félagið hefur annast og skipulagt allt frá árinu 1971 og með röntgenmyndatökum frá 1988. Ég get ekki stillt mig um að nefna hér niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem er kynnt í nýjasta hefti Læknablaðsins þar sem sýnt er fram á að dánartíðni kvenna sem mæta í brjóstaskoðun hjá Krabbameinsfélagi Íslands er 30–40% lægri en hinna sem ekki mæta. Þetta er sannarlega árangur sem ber að fagna og á að hvetja allar konur til að panta sér tíma eigi síðar en nú þegar á Leitarstöðinni.

Þessi árangur vekur okkur bjartsýni um að það sé hægt að ná miklum árangri í skimun fyrir öðrum krabbameinum. Ég legg á það áherslu að samvinna verði höfð við Krabbameinsfélagið við undirbúning þessa máls og að félaginu verði falið að sjá um boðun og mögulega einnig skimunina þar sem því verður við komið til þess að nýta þekkingu og reynslu Leitarstöðvarinnar og krabbameinsskrárinnar í þessum efnum, því að þar er þekking og reynsla sem á að nýta að mínu viti. Það mun auðvelda allar aðgerðir og með slíkt veganesti getum við orðið öðrum þjóðum góð fyrirmynd.



[14:10]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Það liggur fyrir og þarf náttúrlega ekki að koma neinum á óvart að við vissum hvaða fjármunir voru lagðir í þetta í fjárlögum, það voru 20 millj. kr. til að undirbúa þetta. Ég held að við séum sammála um það, virðulegi forseti, þegar við skoðum mál eins og þessi að það borgar sig að leggja góða vinnu í undirbúning. Þetta er ekki einfalt mál og ef við ætlum að láta takast vel til, sem ég veit að við erum öll sammála um, skiptir máli að við leggjum okkur fram um að undirbúa málið eins vel og mögulegt er.

Það voru athyglisverðar upplýsingar sem komu fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hversu miklu betri árangurinn er varðandi lífslíkur fyrir þær konur sem mæta í brjóstaskoðun. Þetta ætti að vera hvatning fyrir okkur að hvetja í þessu tilfelli konur til þess að nýta sér þetta úrræði og það er nokkuð sem við eigum að leggja mikla áherslu á. Við kannski tökum það sem sjálfsagðan hlut að þar sem þetta er í boði þá nýti fólk sér þetta en það er ekki svo, því miður. Það er einn þátturinn í þessu, eitt er að fara í verkefnið og annað að sjá til þess að það nýtist sem best. Það nýtist ekki vel nema fólk mæti í þessu tilfelli í viðkomandi skimun og aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir.

Varðandi það hvort Krabbameinsfélagið eigi að koma að þessu tók ég það fram í svari mínu að að sjálfsögðu munum við kalla eftir því og í rauninni hef ég rætt við forsvarsmenn þeirra aðila og gerði það fyrir áramótin í tengslum við þessi mál. Auðvitað viljum við helst gera alla hluti sem allra fyrst og það er vel, en það borgar sig að leggja mikla og góða undirbúningsvinnu í mál eins og þetta ef við ætlum að sjá til þess að það beri tilætlaðan árangur.