135. löggjafarþing — 60. fundur
 6. feb. 2008.
uppbygging heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.
fsp. ÁI, 336. mál. — Þskj. 570.

[14:26]
Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hlýt að nefna það í upphafi máls míns að ég sakna svars við fyrirspurn sem ég óskaði skriflegs svars við um fjölda heilsugæslulækna á höfuðborgarsvæðinu og hversu margir eru án heilsugæslu- eða heimilislæknis á starfssvæðinu, en svar við þessari fyrirspurn frá 16. janúar liggur því miður ekki fyrir. En því er ekki að neita að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, stærsta stofnun á því sviði í landinu með yfir 193 þúsund skjólstæðinga er í uppnámi og starfsemin lömuð af áratuga fjársvelti sem engan enda sér á.

Undanfarna daga höfum við fengið fregnir í fjölmiðlum m.a. af því að 30 þúsund manns á þessu svæði séu í raun án heilsugæslulæknis ef miðað er við að 1.500 manns skulu vera á bak við hvern lækni. En þeir eru víða mun fleiri sem hver læknir sinnir, allt að 2.300 manns þannig að samkvæmt opinberum tölum eru það aðeins um 8.500 sem teljast án læknis á höfuðborgarsvæðinu.

Við höfum líka fengið af því fregnir að það stefni í skort á læknum, að á næstu 10–15 árum séu 75 heilsugæslulæknar að hætta og aðeins 25 séu í sérnámi. Við höfum líka séð að 10 skjólstæðingar bætast við í hverri viku í Árbæ þar sem mikil uppbygging er bæði í Grafarholtinu og í Norðlingaholti og þó að þar sé verið að byggja stöð, sem er auðvitað sjálfsagt og lofsvert, þá eru engar heimildir til að fjölga þar læknum, það fæst ekki fjárveiting til þess og því er það að þegar læknir hættir þar af einhverjum ástæðum þá gerast þau ósköp að það er sent út bréf til 400 einstaklinga og þeim er sagt: Því miður, læknirinn þinn er hættur og þú færð ekki þjónustu. Þetta er auðvitað hneyksli. Ég skal taka það skýrt fram að þetta var leiðrétt en þarna varð fólki auðvitað verulega illa við. En þetta lýsir ástandinu og þegar umræddur læknir fer eitthvert annað þá er ráðningarbann í heilsugæslustöðinni, segir forstöðumaður heilsugæslustöðvarinnar.

Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að það vantar 500 millj. kr. í heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Það vantar 120 millj. kr. í rekstur ársins ef ekki á að skerða þjónustuna og skuldir við birgja, uppsafnaður halli og fyrirsjáanlegur halli á þessu ári gerir það að verkum að þetta eru um 500 millj. kr.

Það er greinilegt að að mati heilsugæslunnar hér er ástandið verst í Árbæ og Miðbæ en það er einnig mjög slæmt í Glæsibæ, Grafarvogi og í Mosfellsbæ. Það er auðvitað mjög aðkallandi að mæta þessari fjölgun og byggja upp heilsugæslu í nýjum hverfum og auka þjónustuna í eldri hverfum. Þetta er óþolandi ástand sem við horfum fram á og því spyr ég hvernig ráðherra hyggist bregðast við þessu ástandi.



[14:29]Útbýting:

[14:30]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Mér hefur fundist hv. þingmaður vera afskaplega málefnaleg í umræðum í dag en henni hefur væntanlega fundist ástæða til að breyta eitthvað örlítið út af því núna. Ég veit ekki hvers vegna menn hamast alltaf á því eða halda að með því að segja það nógu oft verði einhver sannleikur í því að það vanti 500 millj. kr. í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef ekki hugmynd um af hverju það er. (Gripið fram í.) Hins vegar veit ég að það er alrangt, það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að svo sé, enda mundi nú muna um minna ef þarna vantaði 500 millj. Ef menn vilja fá upplýsingar um þetta þá er það ekkert mál. En það er ekki gott þegar menn tyggja þetta upp hvað eftir annað, því að ef allir segja þetta nógu oft telja menn jafnvel að eitthvað sé til í því.

En varðandi þessa fyrirspurn þá fagna ég því að hér séu rædd málefni heilsugæslunnar sem og annarrar heilbrigðisþjónustu. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir spyr hvernig bregðast eigi við aukinni þörf fyrir þjónustu, bæði í eldri stöðvunum og í nýjum hverfum. Því er til að svara að ég tel að heilsugæslan sé og verði áfram hornsteinn grunnþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar á landinu. Alls staðar á landinu er mikilvægt að heilsugæslan sé nálæg, vel aðgengileg fyrir fólk og mönnuð af færu starfsfólki.

Eftir að ég kom í ráðuneytið var strax farið í það að skoða þessi mál. Við höfum verið að skoða reynsluna af þeirri þjónustu sem er til staðar núna. Rekstrarform er mismunandi og mismunandi hlutir sem verið er að nýta þarna og við höfum ágætisupplýsingar um gæði og þjónustu, afköst og annað slíkt. Þetta höfum við verið að skoða og ekki aðeins það, heldur hef ég, eins og ég hef lýst yfir, skipað sérstakan starfshóp undir formennsku Guðjóns Magnússonar, sem er fyrrum framkvæmdastjóri hjá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Kaupmannahöfn. Guðjóni er ætlað að leiða þennan hóp og hópnum að skila mér áfangaskýrslu strax á vormánuðum. Auk þess höfum við átt samræður við ýmsa aðila, forustumenn lækna og aðra slíka á heilsugæslunni til að fá fram hugmyndir þeirra um framtíðaruppbyggingu á þessu sviði og ég var bara fyrir nokkrum klukkustundum að ræða við yfirlækna um þessi mál. Ég mun bregðast frekar við þegar ég hef álit þessarar nefndar í höndunum.

Hvað varðar byggingaráformin þá er nú verið að vinna að byggingu nýrrar 10 lækna stöðvar í Árbæjarhverfi og á því verki að ljúka á þessu ári. Mun það bæta verulega möguleika þeirrar stöðvar til að sinna nálægum hverfum. Einnig er í skoðun sá möguleiki að stækka húsnæði heilsugæslustöðvar Miðbæjar en ákvarðanir hafa ekki verið teknar í því efni. Frekari áform um byggingar munu bíða þar til álit áðurgreindrar nefndar liggur fyrir.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að heilsugæslan sé og verði hornsteinn þjónustunnar. Hún mun fá vaxandi verkefni í framtíðinni og verður að geta sveigt sig og sinnt breyttum þörfum fólks, bæði hvað varðar aðgengi og úrlausnir.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í svari mínu er veruleg undirbúningsvinna í gangi er tengist þessari fyrirspurn og ég á von á því að frekari áætlanir liggi fyrir á fyrri hluta þessa árs eða um mitt þetta ár. Eins og hjá mörgum öðrum þjóðum sjáum við fram á aukna eftirspurn á þessu sviði. Til að einfalda hlutina aðeins getum við farið yfir það. Ef við tölum um heilbrigðisþjónustuna í heild og ef við berum okkur saman við nágrannalöndin, OECD-löndin, þá eyðum við eða setjum til hennar sem samsvarar því að við séum númer 5 eða 6 hvað útgjöld snertir á hvern íbúa. Það er kannski ekkert merkilegt vegna þess að við erum rík þjóð en það er merkilegt vegna þess að við erum ein yngsta ef ekki yngsta þjóðin innan OECD. Þumalputtareglan er sú að kostnaður vegna þeirra sem eru 65 ára og eldri eru fjórum sinnum meiri en vegna þeirra sem yngri eru. Og það sem er að gerast á Íslandi er einfaldlega það að þjóðin er að eldast mjög mikið eins og við vitum.

Við horfum fram á spennandi viðfangsefni, hvernig við mætum þessu og gerum góða þjónustu enn betri, og það er nokkuð sem við höfum verið að vinna að eins og ég nefndi áðan. Ég vonast til að þetta svari spurningu hv. þingmanns.



[14:35]
Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Mig rak í rogastans, ég verð að viðurkenna það, þegar ég las það í blöðunum að 30 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu væru án heimilislæknis samkvæmt skilgreiningu læknanna sjálfra, eins og ég skildi þingmann, en í raun séu það 8.500 manns sem vanti heimilislækni og það sé hin opinbera tala. Þá spurði maður sjálfan sig: Hversu mikið vandamál er þetta? Það er eitt að tala um að 8.500 manns séu án heimilislæknis en annað að fólk fái ekki þjónustu.

Ég man eftir því að áður en ég fékk heimilislækni á sínum tíma, sem tók svona smátíma, þá fékk ég samt sem áður alltaf þjónustu (Gripið fram í: Og dýrari.) og í dag þegar mig vantar þjónustu fer ég bara á einhverja heilsugæslustöðina í Kópavogi og fæ alltaf þjónustu. Það er því ekki samasemmerki á milli þess að fá ekki þjónustu og þess að vera ekki með heimilislækni. Svo ég tali nú ekki um hina frábæru þjónustu (Forseti hringir.) hjá Læknavaktinni. En það hefur ekki verið vandamál að fá þjónustu.



[14:36]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er mikilvægt málefni sem við fjöllum um hér því að ástandið á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar grunnþjónustuna, heilsugæsluþjónustuna hefur verið alvarlegt og hefur setið á hakanum.

Ef við erum að tala um skilvirka heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi, þá verður hún eingöngu tryggð með fullnægjandi grunnþjónustu, þ.e. heilsugæsluþjónustu um allt land. Þjónustan á höfuðborgarsvæðinu hefur setið eftir. Það er staðreynd. Og það er alvarlegt ástand þegar um 30 þúsund manns eru ekki skráðir hjá heimilislækni eða heilsugæslustöð. Þessir einstaklingar verða þá að leita annað, leita til sérfræðinga, leita til slysa- og vaktþjónustu og til vaktþjónustu utan dagvinnutíma. Þetta er dýrari þjónusta og hún er óskilvirkari, þ.e. án samfellu í þjónustu og eftirfylgni.

Annað sem við þurfum að hafa í huga, og er líka mjög alvarlegt ástand, er það að ekki hefur orðið endurnýjun í stétt heimilislækna. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem verður að horfa mjög alvarlegum augum á og ég hvet hæstv. ráðherra að draga það ekki og bíða ekki eftir enn verra ástandi en nú er. Það verður (Forseti hringir.) að vera hægt að manna stöðvarnar eins og þær eru og það verður að vera hægt að byggja þær upp.



[14:37]
Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að þakka fyrir þessa fyrirspurn og sömuleiðis þau svör sem hæstv. ráðherra hefur gefið. Hér er vakið máls á einu af grundvallarmálunum sem snerta samfélagið í heild sinni. Það snýst um líf og heilsu og það snýst um þá samfélagsþjónustu sem hver og einn þarf á að halda hvar sem hann að öðru leyti er staddur í mannvirðingarstiganum.

Ég held að þessi mál hafi ekki setið á hakanum en auðvitað koma stöðugt upp vandamál. Það eru stöðugt ný viðfangsefni, þeim fjölgar sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Mér þykir vænt um að heyra að ráðherrann sé á fullu við að vinna að þróun og aukinni þjónustu á þessu sviði en ég vil aðeins að lokum koma því á framfæri sem mjög vinsamlegri ábendingu til hæstv. ráðherra að hann tali ekki (Forseti hringir.) um að verið sé að eyða peningum í þetta, við erum ekki að eyða peningum, við erum að verja peningum til góðra málefna.



[14:39]
Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að þrátta hér við hæstv. ráðherra um þessar 500 millj. kr. Ég ætla að láta mér nægja, vegna þess stutta tíma sem ég hef hér, að leggja á borðið hjá honum viðtöl við tvo forsvarsmenn í heilsugæslunni. Annars vegar Guðmund Einarsson, forstjóra heilsugæslunnar, og hins vegar Gunnar Inga Gunnarsson, yfirlækni á heilsugæslustöðinni í Árbæ, þar sem þessar tölur koma fram og forsendurnar fyrir þeim eru raktar.

Ég tel afskaplega mikilvægt að tekið verði heildstætt á málefnum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég get ekki annað en fagnað því að það skuli hafa verið sett nefnd í að vinna málið undir forustu Guðjóns Magnússonar og ég vona svo sannarlega að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fái að koma að því verki.

Ég leyni ekki þeirri skoðun minni að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er í mínum huga allt of stór stofnun og of miðstýrð og of langt frá þeim sem eiga að njóta þjónustunnar, en það er kannski umræða sem við gætum tekið hér seinna.

Ég hlýt að ítreka það að ástandið á þessu svæði er miklum mun verra en nokkurs staðar annars staðar á landinu og í rauninni er um grófa mismunun að ræða gagnvart íbúum á þessu svæði. Það er vissulega ekki svo að 30 þúsund manns hafi ekki heimilislækni eða heilsugæslulækni hér á svæðinu. Þetta er útreiknuð tala út frá þeim forsendum sem læknar vilja hafa um að það eigi að vera aðeins 1.500 manns á bak við hvern lækni, en eins og ég rakti áðan eru það allt upp í 2.300. Samkvæmt tölum heilsugæslunnar eru það um 8.500 manns sem eru algjörlega án læknis og þvælast á milli í þessi dýru úrræði og fá ekki þjónustu nema að borga miklu meira fyrir hana. Þess vegna lagði ég fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra um tölur í þessum efnum en þar bíð ég enn skriflegs svars og vona að við eigum eftir að fjalla oftar um þetta mál hér og fá (Forseti hringir.) gleðilegri fréttir af því.



[14:41]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Ellerti B. Schram að við erum alltaf að fjárfesta og verja fjármunum í þennan málaflokk. Ég tek því að sjálfsögðu bara vel. Hins vegar er það ekki rétt að það vanti 500 millj. í rekstur heilsugæslunnar. Öllum sem skoða það mál ætti að verða það ljóst.

Hins vegar er það sjónarmið hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur athyglisvert, að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sé of stór og of miðstýrð. Ég hef heyrt þessi viðhorf víða og þetta er eitt af því sem menn þurfa að skoða.

Svo menn átti sig aðeins á hlutunum þegar verið er að miða við einhverjar tölur, eins og 1.500 manns á hvern lækni, þá segir það ekki allt, 1.500 manns á aldrinum 20–30 ára er ekki það sama og 1.500 manns á milli sjötugs og áttræðs eða sextugs og sjötugs, svo dæmi sé tekið. Ég var að koma frá Stokkhólmi og þar er einn læknir fyrir hverja 1.800 íbúa. Aldurssamsetningin skiptir gríðarlega miklu máli. Og að 8.500 manns hafi ekki skráð sig hjá heimilislækni gæti alveg verið af þeirri einföldu ástæðu að það eru ekki allir sem gera það, sérstaklega yngra fólk sem er ekki komið með fjölskyldu. Ég segi fyrir sjálfan mig að ekki gerði ég það þegar ég var einhleypur, að drífa mig að skrá mig hjá heimilislækni, það var ýmislegt annað sem maður var að gera en það.

Einn þáttur í þessu er líka skráningin, hún mætti vera nákvæmari. Það er t.d. fólk á skrá sem er flutt annað, til útlanda eða út á land og annað slíkt. Þetta eru atriði sem við þurfum að fara yfir og erum búin að vera að skoða og settum þennan hóp í sem mun vinna af krafti við að skoða þessa hluti sem best. Við erum algjörlega sammála um markmiðið, það er bara að finna út leiðir til að taka á móti þeim verkefnum sem fram undan eru sem eru m.a. nýliðunin, við erum að keppa um starfsfólk og við sjáum fram á aukin verkefni út af breyttri aldurssamsetningu.