135. löggjafarþing — 62. fundur
 7. feb. 2008.
umræður utan dagskrár.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:06]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þótt ég fagni snjónum og sé gefinn fyrir þá birtu sem hann veitir getur hann oft verið okkur landsbyggðarmönnum fjötur um fót. Internettengingar í dreifbýli eru mikið hagsmunamál þess fólks sem þar býr, ekki síst vegna þess hve öflugt tæki netið er til að afla upplýsinga og skiptast á þeim við aðra. Oft er það nauðsynlegt atvinnutæki, ekki síst fyrir þá sem koma til með að sækja um störf án staðsetningar eins og Samfylkingin boðaði fyrir síðustu kosningar en lítið hefur orðið úr.

Samkvæmt áætlunum hins opinbera er ætlunin að Fjarskiptasjóður, sem stofnaður var með 2,5 milljarða framlagi af söluverðmæti Símans, tryggi öllum þeim háhraðatengingar sem þess óska. Samkvæmt því sem Friðrik Már Baldursson, formaður Fjarskiptasjóðs, sagði á ráðstefnu Skýrslutæknifélags Íslands þann 4. maí 2007 er gert ráð fyrir tveimur útbreiðslusvæðum, annars vegar með tenginguna á bilinu frá 512 kílóbætum og hins vegar með 2 megabæta tengingu og yfir. Þá er átt við gagnaflutningshraða að notanda en hraði frá notanda er minni.

Samkvæmt fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005–2010 er hins vegar talað um að á árinu 2007 verði fullnægjandi háhraðatenging að vera 50 megabæti á sekúndu að og frá notanda. Takið eftir, hér er miðað við árið 2007. Þetta bendir hugsanlega til þess að tækni gærdagsins sé notuð til að tengja einstök landsvæði við umheiminn. Þetta gerðist árið 2001 þegar Landssíminn tengdi lögbýli á landinu við ISDN-tæknina sem löngu er orðin úrelt og gagnast ekki í verkefnum ársins 2008 og gerði það varla árið 2001. Hér er samkeppnishæfni landsins alls í húfi því að á mörgum svæðum, sem byggð eru vinnandi fólki, er mönnum ekki kleift að vinna á samkeppnishæfum forsendum.

Samgönguráðherra og Fjarskiptasjóður hljóta að endurskoða áætlanir um viðmið um hvað telst háhraði og miða uppbyggingaráætlanir sínar við háhraða dagsins í dag. Mig langar til að spyrja hæstv. samgönguráðherra út í þetta og hlakka til að heyra svör hans.

Í stuttu máli sagt hefur gengið illa að koma á viðunandi háhraðatengingu til þeirra sem þess óska í dreifbýlinu. Upphaflega var áætlað að vinna við háhraðatengingar yrði boðin út um mitt síðasta ár og síðan færðist sú áætlun aftur til desember. Ekki varð af útboðinu þá heldur og ekki liggur enn fyrir hvenær það verður. Gott væri að fá svör frá hæstv. samgönguráðherra um dagsetningu þess útboðs.

Fjarskiptasjóður sendi í desember bréf til sveitarstjórna til að gefa þeim kost á að fara yfir lista yfir þau heimilisföng sem verði með í útboðinu, þ.e. skilgreint er nákvæmlega hvaða heimilisföngum verður gefinn kostur á að fá tengingar. Samkvæmt könnun Fjarskiptasjóðs vantar háhraðatengingar á allt að 1.500 sveitabæi um land allt en ekki 200 eins og áður var talið. Í fréttum í vikunni boðaði samgönguráðherra skjótar úrbætur í þessum efnum og er það vel. Hann notaði hins vegar það orðalag sem ráðherrum Samfylkingarinnar er nokkuð tamt þessa dagana, þ.e. að háhraðatengingum verði komið á hvert býli á næstu missirum.

Ég óska eftir skýrara orðalagi frá ráðherra hvað þetta varðar og spyr hvenær komið verði á háhraðatengingum við þessa sveitabæi. Hvenær á fyrrgreint útboð að fara fram og við hvaða hraða tenginga verður miðað? Ég spyr jafnframt hvort fjármagn til verksins liggi ekki fyrir fyrir þá 1.500 sveitabæi sem vantar háhraðatengingar.

Framsóknarmenn lögðu á það áherslu þegar ríkið seldi hlutafé sitt í Símanum að hluti af andvirði fyrirtækisins yrði lagður í Fjarskiptasjóð til að tryggja íbúum dreifbýlisins sambærilega fjarskiptaþjónustu og öðrum landsmönnum. Í þessu samhengi langar mig til að nefna að borið hefur á að einstök fyrirtæki á fjarskiptamarkaði haldi minni byggðarlögum í gíslingu með loforðum um þjónustu. Það hefur komið í veg fyrir aðkomu Fjarskiptasjóðs að því að bæta netaðgang. Fjarskiptasjóður kemur nefnilega bara til aðstoðar á svæðum þar sem markaðsbrestur er skilgreindur, þ.e. á svæðum þar sem fjarskiptafyrirtæki byggja ekki upp þjónustu á eigin vegum og án aðstoðar hins opinbera.

Við framsóknarmenn teljum nauðsynlegt að setja fjarskiptafyrirtækjum frest þannig að ef ekki verði komin viðunandi þjónusta gegn sambærilegu verði og aðrir landsmenn búa við innan tólf mánaða verði litið svo á að á svæðinu sé engin þjónusta. (Forseti hringir.) Þá fari Fjarskiptasjóður inn á svæðið og tryggi fullnægjandi netsamband. Til þess að þetta megi verða þarf væntanlega að auka fjármagn í Fjarskiptasjóð. Ég kalla eftir svörum frá (Forseti hringir.) samgönguráðherra um hvort hann styðji ekki þessar tillögur okkar framsóknarmanna.



[11:12]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að hér gefist tækifæri til að ræða málið sem hér hefur verið gert að umtalsefni í þingsal, koma upplýsingum á framfæri og heyra í þingmönnum hvað það varðar.

Þetta er sams konar spurning, virðulegur forseti, og í óundirbúinni fyrirspurn sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson beindi til mín á mánudag um hvað liði háhraðatengingum landsins. Við ræddum þá um sama efni og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson tekur upp nú með þeim spurningum sem hann leggur fyrir mig.

Ég ítreka að það er gott að þessi umræða skuli eiga sér stað. Það er margt að gerast í þessum efnum, í raun er málið sannarlega á háhraða. (Gripið fram í: Já.) Hv. þingmaður spyr: Hvað líður háhraðatengingum landsins alls hvað varðar útboð? Útboð mun eiga sér stað næstu daga í febrúar, þá verður útboð sett fram.

Það er rétt sem hefur komið fram að áður unnu menn út frá því að þetta væru í kringum 200 býli. Nú hefur komið í ljós að þau eru 1.500 talsins. Fyrirtæki á markaði hafa sýnt okkur þau svæði sem þau ætla að sinna á markaðslegum forsendum, sem eru minni en áður var ætlað. Bæirnir sem verða því 1.500. Það hefur að sjálfsögðu gert útboðið töluvert flóknara og skýrir þær tafir sem orðið hafa. Fjarskiptasjóður þurfti að fara um landið og hnitsetja alla bæi til að gera útboðið betra og markvissara. Þau gögn voru ekki til.

Varðandi fyrstu spurninguna um háhraðatenginguna, sem er ári á eftir áætlun, þá mun útboðið fara fram á næstu dögum. Þar mun gert ráð fyrir 2 megabæta lágmarkstengihraða.

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu sambandi einnig nefna, eins og hæstv. utanríkisráðherra skýrði frá 15. ágúst í fyrra þegar við tókum yfir Ratsjárstofnun og ræddi þar um NATO-ljósleiðarapörin þrjú sem eru í strengnum, að sú vinna hefur verið á fleygiferð en gengur hægar en maður hefði óskað, m.a. vegna þess að Mannvirkjasjóður NATO á þau en ekki Bandaríkjamenn þannig að yfirfærslan er ekki auðveld. Ef þessi NATO-ljósleiðarapör væru á markaði hjá fyrirtækjum sem væru í samkeppni hygg ég að við mundum sjá betri niðurstöðu í háhraðaútboðinu hvað það varðar. Hins vegar er einnig unnið af fullum krafti við að reyna að koma þessum NATO-ljósleiðarapörum í borgaraleg not eins og hæstv. utanríkisráðherra talaði um. Það held ég að muni valda algjörri byltingu ofan á útboðið sem fram fer í þessum mánuði.

Virðulegi forseti. Ég vil líka geta þess að síðast á fundi í samgönguráðuneytinu í morgun sáum við kort sem gerir ráð fyrir að í lok þessa árs verði allt Ísland, helstu ferðamannasvæði og miðin, allt að 80–100 km út frá ströndinni, komið í fullkomið GSM-samband. Þau kort sem við höfum séð frá fyrirtækjum sem að þessu vinna, Símanum, Vodafone — Síminn með GSM-útboð 1 og Vodafone með GSM-útboð 2 — sýna að það sem fyrirtækin eru að gera á markaðslegum forsendum eru stórkostlegir hlutir. Við getum sagt að þetta ár verði bylting í þessum málum líkt og Strandamenn skrifuðu um í síðustu viku þegar sendir var settur upp við Húnaflóa. Þar var talað um byltingu í fjarskiptum á þessu svæði og miðunum.

Virðulegi forseti. Málið er því á sannkölluðum háhraða eins og ýmislegt annað hjá þessari ágætu ríkisstjórn. Hér hefur sannarlega verið gefið í og við sjáum árangur og munum sjá mikinn árangur á árinu 2008.

Hv. þingmaður spyr hvort ríkissjóður muni beita sér fyrir auknum fjárveitingum til Fjarskiptasjóðs ef þörf krefur. Að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin tryggja framgang þessa máls eins og allra annarra góðra mála sem eru skrifuð inn í stjórnarsáttmálann.



[11:17]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Sala og einkavæðing Símans með grunnneti fjarskipta í landinu innan borðs er tvímælalaust einhver byggðafjandsamlegasta aðgerð sem lengi, ef ekki frá upphafi, hefur verið ráðist í. Þetta var gert í andstöðu við yfirgnæfandi meirihlutavilja þjóðarinnar en samkvæmt rækilegum skoðanakönnunum voru yfir 60% landsmanna á móti því að Síminn hyrfi úr opinberri eigu. Það fer einstaklega vel á því að það séu framsóknarmenn sem nú taki upp umræður um ófremdarástandið því að það voru framsóknarmenn sem láku niður og gengu inn á stefnu Sjálfstæðisflokksins í að einkavæða þennan málaflokk.

Á forsíðu Fréttablaðsins 29. ágúst 2004 var fyrirsögn: Ekki stendur á Framsókn að selja. Og hvað var það sem stóð ekki á Framsókn að selja? Það var Símann með grunnneti fjarskipta innan borðs, þvert á þá stefnu sem Framsókn hafði boðað fyrir alþingiskosningarnar 2003, að ekki skyldi selja grunnnetið.

Laugardaginn 1. apríl 2005 var forsíða Morgunblaðsins: Halldór og Davíð hafa náð samkomulagi um sölu Símans. Það eru að verða þrjú ár síðan, það er nú allur háhraðinn, hæstv. samgönguráðherra, sem þetta er á. Veruleikinn er sá að þetta hefur dregist og dregist og peningar legið vaxtalausir og ónotaðir inni á bók og það hefur ekki verið neinn sérstakur myndarbragur á því hvernig núverandi samgönguráðherra hefur tekið á málum frekar en aðrir. Það er að dragast upp óskapnaður hvað varðar skipulagið í þessum efnum sem helst væri hægt að líkja við það að þjóðvegakerfið væri bútað niður og mismunandi kaflar reknir af einkaaðilum með misgóðri þjónustu og færir af og til. Það er ekki nóg að það eigi að heita svo að boðið sé upp á einhverja háhraðaþjónustu ef hún dettur út annan hvorn dag og er gagnslaus kannski helminginn af tímanum eins og sums staðar er þar sem einkaaðilar eru af veikum burðum að reyna að sinna þessu.

Það þýðir ekkert annað en að horfast í augu við að þetta verklag gengur ekki, það verður að endurskoða vinnureglurnar og það verður með einhverjum hætti að vera hægt að tryggja öllum, ekki bara sumum, (Forseti hringir.) ekki bara þeim sem komast inn í útboðin, fullnægjandi (Forseti hringir.) þjónustu í þessum efnum. Það er of langt að bíða árum saman (Forseti hringir.) eins og framsóknarmenn leggja nú til.



[11:19]
Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt að því sé haldið vel til haga í þessari umræðu að uppbygging fjarskiptakerfa í sveitum landsins byggir á lögum um Fjarskiptasjóð sem samþykkt voru hér á hv. Alþingi fyrir rúmum tveimur árum og að frumkvæði þáverandi hæstv. samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar. Hinar dreifðu byggðir, sveitir landsins falla að miklu leyti undir svæðið þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki treyst sér í uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að íslenskur landbúnaður hefur á síðustu árum tekið stór skref fram á við í tækniþróun og þessi gamalgróna atvinnugrein treystir í æ ríkari mæli á nútímaupplýsingatækni, til að mynda með tölvuvæddum mjaltakerfum. Traustar og góðar háhraðatengingar eru því bændum jafnmikilvægar og þeim sem búa í þéttbýli.

Markmiðið með Fjarskiptasjóðnum er að stuðla að aukinni samkeppni íslensks landbúnaðar með því að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta í hinum dreifðu byggðum landsins. Fullyrða má að stofnun þessa sjóðs hafi verið mikið framfaramál fyrir bændur og aðra þá sem treysta á háhraðatengingar á svæðum þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki treyst sér í uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Þess má geta hér að sjóðnum var ætlað til ráðstöfunar 2,5 milljarðar kr. af söluandvirði Símans. Á árinu 2006 var 1 milljarði kr. varið til uppbyggingar og síðan var gert ráð fyrir 500 millj. kr. í sjóðinn árlega á árunum 2007–2009.

Þessi mikla uppbygging fjarskiptakerfisins á landsbyggðinni mun taka tíma og á fundi með sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins í þessari viku greindi formaður Bændasamtakanna frá því að tæplega helmingur bænda býr enn við gamaldagsnettengingar. Það er því afar brýnt (Forseti hringir.) að hæstv. samgönguráðherra fái stuðning (Forseti hringir.) til að halda því góða verki áfram sem hófst í tíð forvera hans.



[11:22]
Hanna Birna Jóhannsdóttir (Fl):

Frú forseti. Á samdráttartímum í hefðbundnum atvinnugreinum svo sem sjávarútvegi og landbúnaði þar sem störfum hefur fækkað stórlega á undanförnum árum er mjög mikilvægt að allir landsmenn fái notið þeirra miklu möguleika sem háhraðatenging býður upp á.

Í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, eru aðstæður mjög mismunandi til að nýta sér tæknina. Í Vestmannaeyjum eru möguleikarnir mjög góðir en víða annars staðar í kjördæminu eru þeir mun lakari og á mörgum stöðum afleitir. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi háhraðatengingar í menntakerfinu og í dreifbýlinu geta slíkar tengingar skipt sköpum um möguleika fólks til fjarnáms á ýmsum sviðum. Sama er að segja um möguleikana til atvinnu og er nærtækast að minna á hugmyndir um störf án staðsetningar sem allir stjórnmálaflokkar hafa lýst stuðningi við, en það er forsenda þess að slíkar hugmyndir nái fram að ganga að þjóðbrautir tölvutækninnar séu greiðar.

Frú forseti. Að lokum vil ég minna á nauðsyn þess að bæta GSM-símasambandið en nú þegar NMT-kerfið verður tekið úr notkun í lok þessa árs, eins og boðað hefur verið, verður GSM-síminn eitt mikilvægasta öryggistæki okkar.



[11:24]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða um fjarskiptaþjónustuna og hæstv. samgönguráðherra var svo skemmtilegur að segja að ríkisstjórnin væri á háhraða í uppbyggingu á fjarskiptaþjónustunni. Ég verð nú, virðulegi forseti, að líta svo á að hæstv. ráðherra hafi verið með, eins og krakkarnir segja, „smádjók“ (Gripið fram í.) eða „hábrandara“. Hraðinn hjá ríkisstjórninni er ekki háhraði, það er unnið á hraða snigilsins og það vita allir landsmenn. Landsbyggðin veit það vel að það er unnið á hraða snigilsins í þessu máli því miður.

Á sínum tíma glöddumst við framsóknarmenn mjög þegar átti að setja fjármagn, m.a. að okkar kröfu, í að byggja upp fjarskiptaþjónustu þannig að hún yrði sambærileg á öllu landinu. Þetta hefur gengið afar hægt. Við vitum öll að í nútímasamfélagi er fólk meira og minna á netinu, bæði fyrirtæki og fjölskyldur. Hver þekkir það ekki bara heima hjá sér? Börnin eru á netinu, við erum öll sjálf á netinu, það er varla að maður fari í rúmið nema vera á netinu. Já, þetta er bara raunveruleikinn í dag. Lítið til ykkar barna, þið skuluð ekki gera grín að þessu, þetta er bara svona í flestum fjölskyldum landsins í dag.

Um daginn hringdi ég í fólk til þess að ræða um heimasíðuna sem ég rek, siv.is, og um myndir sem þar voru og hvort þau hefðu tekið eftir ákveðnum myndum. Þau sögðu: Jú, við skoðuðum þetta, að vísu fórum við í kaffi meðan myndirnar voru að hlaðast inn. Það var bara kaffipása, þetta gekk svo hægt. Það er ekki hægt að bjóða fólki á landsbyggðinni upp á þetta og við getum ekki skilið svona á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar þannig að landsbyggðin verði eftir. Það verður að spýta í, hæstv. samgönguráðherra verður að standa sig betur, þetta er ekki hægt.

Því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan ætla ég að vísa til föðurhúsanna. Framsóknarflokkurinn hefur staðið á bak við þetta verkefni og hefur viljað að þetta gengi miklu hraðar og það á (Forseti hringir.) hv. þingmaður að vita.



[11:26]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram, ég held að hún sé afar mikilvæg. Við erum að tala um grundvallaratriði í uppbyggingu landsbyggðarinnar, möguleika á að tengjast internetinu og að hafa trygga GSM-þjónustu. Ég vil líka þakka hæstv. samgönguráðherra, sem þrátt fyrir allt, þrátt fyrir fullyrðingar um að þetta gangi hægt o.s.frv. hefur tilkynnt að í lok þessa árs verði allt landið með tryggt GSM-samband og jafnvel 80–100 km út á sjó. Þetta stefnir því allt saman í rétta átt.

Mér þótti mjög athyglisvert í framsögu hv. málshefjanda að þar kom fram að 2001–2007 hefði verið heldur misheppnað tímabil, þ.e. að þá hefði verið tekin ákvörðun um ISDN og sú tækni hefði ekki einu sinni dugað 2001 og því síður 2008. Ég get tekið undir það, en það er ekki hægt að nota það til þess að skamma hæstv. samgönguráðherra. Hæstv. samgönguráðherra hefur brugðist ágætlega við, hann reynir að keyra þetta mál fram og á þann hátt að það komi landsbyggðinni sem best.

Það er hins vegar rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að líklega hefðu möguleikar okkar og tækifæri til þess að gera þetta enn hraðar verið betri ef grunnnetið hefði ekki verið selt með Landssímanum. Það hefði getað verið lykilatriði og þá hefði verið hægt að byggja grunnnetið og þessa þjónustu meira upp á byggðalegum forsendum en markaðslegum, eins og nú er verið að gera. Við misstum reyndar af því tækifæri, við í Samfylkingunni vorum á þeim tíma einarðlega þeirrar skoðunar að ekki ætti að selja grunnnetið með. Það var hins vegar gert og nú verðum við að halda áfram (Forseti hringir.) að byggja á þessum grunni og mér sýnist hæstv. samgönguráðherra takast það mjög vel.



[11:28]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil skoða þetta mál í nokkuð öðru samhengi. Okkur þingmönnum, ríkisstjórn, stofnunum ríkisins og sveitarfélögum, fyrirtækjum og reyndar öllum borgurum landsins ber að virða stjórnarskrána, hlíta henni í hvívetna og ekki síst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem kveður á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Búseta er eitt reginatriðið í þessu jafnræðishugtaki, að menn njóti jafnræðis eftir búsetu.

Þrátt fyrir þessa skýru reglu sitja íbúar landsbyggðarinnar ekki við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins og það gildir svo sannarlega í þessu máli þar sem heilu landsvæðin t.d. í Suðurkjördæmi og úti á landi eru dæmd úr leik, ekki bara varðandi háhraða heldur líka aðrar símatengingar. Því miður er það svo að íbúum á landsbyggðinni er mismunað á fjölmörgum öðrum sviðum, ég nefni póstþjónustu, ég nefni banka, ég nefni læknisþjónustu, ég nefni menntun, ég nefni aðgengi að lánsfé og þannig mætti lengi telja.

Þessi stjórnarskrárbrot eru um margt afleiðing af ríkisstjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins síðastliðin ár. Þar er byggt á þröngum sértækum gróðasjónarmiðum. Einokunarfyrirtæki þjónusta ekki byggðir og býli þar sem hámarksgróði er ekki af starfseminni, hver þjónustuleggur verður að skila sértækum hámarksgróða algjörlega óháð samfélagslegum ávinningi eða heildarhagsmunum okkar. Þetta er viðvarandi og óþolandi ástand, þetta hamlar atvinnustarfsemi, þetta hamlar félagsstarfsemi, þetta hamlar pólitík, þetta hamlar okkur landsbyggðarþingmönnum í starfi og þetta hamlar fjarnámi. Ég verð að minna á það í þessu samhengi að 70% nemenda við fjarnám eru konur.

Íbúar á landsbyggðinni (Forseti hringir.) eru ekki að biðja um ölmusu eða styrki. Þeir eiga skýlausan rétt á því að sitja við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins.



[11:31]
Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá ágætu umræðu sem hér fer fram um uppbyggingu fjarskiptakerfisins á landsbyggðinni. Ljóst er að Fjarskiptasjóður hefur miklu hlutverki að gegna og stofnun hans á sínum tíma bar því vott um mikla fyrirhyggju hjá stjórnvöldum. Það er forsendan fyrir þeirri öflugu uppbyggingu sem nú stendur fyrir dyrum um allt land á sviði fjarskipta og samgönguráðherra kom inn á áðan.

Ég tek heils hugar undir nauðsyn þess að háhraðavæða landið allt. Öflugt gagnaflutningskerfi er nauðsynlegur þáttur í lífi, starfi og, eins og fleiri hafa komið inn á, leik allra landsmanna. Í mínum huga er það brýnna verkefni nú að koma upp háhraðatengingum um land allt en var að koma á sjónvarpsútsendingum um allt land á sínum tíma.

Fjarskiptasjóður hefur líka öðru mikilvægu hlutverki að gegna en það er að byggja upp GSM-kerfi á þeim svæðum sem ekki þykja markaðsvæn. GSM-kerfið er ekki aðeins nauðsynlegt til að byggja upp atvinnulíf úti á landi heldur er þar líka um mjög mikilvægt öryggistæki að ræða. Nú er svo komið að ýmsir aðilar sem stunda ferðaþjónustu lenda undir í samkeppninni ef ekki er GSM-samband á viðkomandi svæði. Þetta er því mjög nauðsynlegt í þessu tvennu tilliti að bæta samkeppnisstöðuna og eins að bæta öryggi þeirra sem ferðast um landið. Nýlegt dæmi, sem kom upp fyrir nokkrum dögum, sýndi fram á að GSM-síminn getur bjargað miklu.

Hæstv. samgönguráðherra kom inn á að ýmsar skýringar eru á því að þessu verkefni hefur seinkað. Meðal annars hefur tækninni fleygt fram auk þess sem býlum sem verða hluti af útboðsferlinu hefur verið að fjölga mjög mikið. En það er greinilegt að samgönguráðherra er að taka á þessum málum og hann hefur lýst því yfir að háhraða GSM-væðingunni verði lokið nú um áramót. Hann tekur háhraðavæðinguna föstum tökum.



[11:33]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Uppbyggingu fjarskipta hefur verið beðið með mikilli óþreyju víða á landsbyggðinni. Í mínu kjördæmi má nefna svæði eins og Reykhólahrepp, Dalabyggð, mestalla Strandasýslu svo dæmi séu tekin. Útbreiðslan er afar léleg víða og sums staðar engin. Það ber að þakka það sem gert hefur verið og áfanga var vissulega náð við Húnaflóa með aðgerðum Vodafone sem setti upp sendi sem m.a. nær út á fiskimiðin og vítt um svæðið.

Með minni atvinnu og uppsögnum fólks víða vegna óheppilegs niðurskurðar á þorskafla er landsbyggðarfólk enn frekar ósátt við þann hægagang sem verið hefur í fjarskiptamálum. Það gæti vissulega opnað nýja möguleika ef átak verður gert eins og að var stefnt en ekki hefur enn orðið af.

Við hljótum að spyrja okkur hvað valdi þessum hægagangi. Ég veit ekki hvort ég á að fara yfir svör hæstv. samgönguráðherra en held ég verði að gera það, hæstv. forseti. Samgönguráðherra sagði áðan að Fjarskiptasjóður hefði verið á ferð um landið við að hnitsetja bóndabæi. Ég hélt að slík gögn væru til hjá Landmælingum Íslands og mér er næst að halda að þessi ferð Fjarskiptasjóðsins um landið hafi verið farin á gönguhraða eða einhverju annars konar ferðalagi miðað við hvernig þetta hefur gengið síðustu þrjú ár. Ég fagna því hins vegar ef nú er að verða bylting, eins og hæstv. samgönguráðherra sagði. Vonandi gengur það eftir að við náum miklum áföngum á næstu mánuðum við að ljúka því ætlunarverki sem að var stefnt varðandi útbreiðslu grunnnetsins og að opna aðgengi allra landsmanna að tækninni á jafnréttisgrundvelli.



[11:35]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur farið fram um þetta mikilvæga mál og mikla hagsmunamál landsbyggðarinnar. Full þörf er á að ræða þetta og ég fagna því að þingmenn hafa rætt þetta á mjög málefnalegan hátt, reyndar með einni undantekningu sem ég ætla að koma aðeins inn á hér á eftir.

Það skiptir öllu máli fyrir landsbyggðina að hún sé samkeppnishæf. Í rauninni er það eina krafa landsbyggðarinnar í augnablikinu að hún sé samkeppnishæf varðandi samgöngur, GSM-samband og háhraðatengingar. Það skiptir öllu máli varðandi nám svo að ekki sé minnst á störf án staðsetningar að allir geti notið háhraðatengingar.

Ég varð fyrir vissum vonbrigðum með svör hæstv. samgönguráðherra og hefði viljað að hann gæfi skýrari fyrirheit um það hvað gert yrði í framtíðinni, að verið væri að hraða þessu máli eins og kostur er. Það er ekki eftir neinu að bíða í þessum efnum og því miður er staðan þannig víðs vegar um landsbyggðina að ef það verður beðið verður ekki aftur snúið. Hin stóru orð, að í lok þessa árs verði bylting í fjarskiptum, minntu mig reyndar á það þegar mótvægisaðgerðirnar voru kynntar, einhverjar stórkostlegustu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar fyrr og síðar, sem hafa ekki reynst annað en kruður og, eins og einn hv. þingmaður sagði, dónaskapur við landsbyggðina.

Ég fagna því reyndar að samgönguráðherra ætlar að beita sér fyrir auknum fjárveitingum í Fjarskiptasjóð. Við framsóknarmenn munum ekki liggja á okkar liði. (Forseti hringir.) Ég vil að lokum segja, af því að hv. þm. Steingrímur J. sagði að við framsóknarmenn mundum leggja til (Forseti hringir.) að þessum framkvæmdum verði frestað, þá er það alls ekki það sem ég sagði og mjög ómaklega að okkur vegið. Við munum hins vegar beita okkur fyrir að þessum framkvæmdum (Forseti hringir.) verði flýtt hið allra fyrsta.



[11:38]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill minna hv. þingmenn á að nefna aðra hv. þingmenn með fullu nafni og ávarpa ráðherra sem hæstvirta ráðherra.



[11:38]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka málshefjanda fyrir að taka upp þessa umræðu og þeim þingmönnum sem tóku þátt í henni. Hér hafa orðið ágæt skoðanaskipti um þetta mál.

Ég held að við séum öll sammála um það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Ófremdarástand hefur verið í háhraðatengingum í netnotkun á landsbyggðinni og það sem við samþykktum fyrir ansi mörgum árum um alþjónustu hvað varðar ISDN. Ég man enn hve við þingmenn vorum ánægðir með þá samþykkt en ég hygg að hæstv. forseti lýðveldisins hafi ekki verið búinn að skrifa undir það þegar við áttuðum okkur á að það sem við höfðum verið að samþykkja hvað varðar alþjónustu var nánast orðið úrelt þá þegar. Þess vegna er það sem Fjarskiptasjóður var settur á fót og þar hefur verið unnið eftir því prógrammi sem þar var sett upp og nú erum við að ná því fram að fá ADSL-þjónustu með tveggja megabæta lágmarkstíðni inn á útboði sem er, og ég ítreka það, að fara út á næstu dögum.

Ég fullyrði, virðulegi forseti, að á síðustu átta mánuðum hafi unnist mjög margir sigrar í þessu máli til útboðs og annað slíkt. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hvað það var sem tafði málið en ég sagði líka við umræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar fyrr í þessari viku að fátt væri svo með öllu illt að ei boðaði gott, ef til vill. Það getur verið að í útboðinu núna fáum við miklu betri tilboð, miklu betri tækni og miklu meiri hraða þó að þau ár sem þjónustan hefur verið svona léleg séu vissulega slæm.

Framsóknarmenn hafa talað um snigilshraða, t.d. hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Hún er sjálf í Sniglunum og þeir fara ekki hægt yfir. Frá því að Framsóknarflokkurinn fór úr ríkisstjórn hefur verið gefið í frá þeim snigilshraða sem núverandi formaður bráðabirgðastjórnar Framsóknarflokksins lýsti svo vel að hefði verið í landbúnaðarráðuneytinu, þar hafi svo margt gerst á snigilshraða.

Virðulegi forseti. Að þessu máli hefur verið unnið á háhraða á þessu ári. Um næstu áramót munu stórir sigrar hafa unnist.