135. löggjafarþing — 62. fundur
 7. feb. 2008.
endurskoðun á skattamálum lögaðila, fyrri umræða.
þáltill. EBS, 169. mál. — Þskj. 182.

[16:53]
Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á skattamálum lögaðila.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að hefja nú þegar endurskoðun á skattamálum lögaðila, einkum einkahlutafélaga.“

Flestum er kunnugt að skattar hafa löngum verið vinsælt umræðu- og viðfangsefni bæði þings og þjóðar og þarf það ekki að koma á óvart. Skattlagning tekna felur í sér að af launum og afrakstri hvers einstaklings er tekinn hár tollur, ef svo má segja. Það fé rennur til sameiginlegra verkefna og þjónustu í samfélaginu sem innt er af hendi af ríki og sveitarfélögum. Ber þar hæst heilbrigðismál, skólamál og öryggismál enda er sú krafa skýr og það viðhorf ríkjandi að það sé skylda hins opinbera að veita alla slíka grundvallarþjónustu, sem er um leið helsta stolt velferðarsamfélagsins, a.m.k. hér á landi.

Meðan samhljómur er um hina opinberu þjónustu er afar sjaldan sátt um skattlagninguna og þau skatthlutföll sem lögð eru á þegnana. Við viljum að jafnræði ríki þegar kemur að útgjöldunum og eitt eigi yfir alla að ganga í aðgengi að þjónustu og þar af leiðandi er sanngjarnt að fara fram á að jafnræðis sé sömuleiðis gætt í álagningu skatta, í því hvernig skattarnir leggjast á borgarana. Því miður er víðs fjarri að svo sé. Jafnræðissjónarmiðum hefur verið ýtt til hliðar og vissum þjóðfélagshópum fengin veruleg skattaleg forréttindi í skjóli óljósra og ósannaðra fullyrðinga um hættuna á flótta fólks og fjármagns frá Íslandi eða með vísan til eðlis tekna viðkomandi skattþega.

Ég bendi í því sambandi á fjármagnstekjuskattinn, sem er tiltölulega nýr skattur hér á landi. Sá skattur byggist á fjármagnstekjum, hvort heldur er í sparnaði eða fjárfestingu. Á sama tíma er fjárfesting launafólks í gegnum lífeyrissjóðakerfið skattlögð með allt öðrum hætti þrátt fyrir að þar sé um sparnað að ræða sem meira að segja er lögbundinn. Ég hef áður bent á þetta misræmi en hef því miður enn sem komið er talað fyrir daufum eyrum. Það mál er út af fyrir sig ekki á dagskrá, nema þá á ská ef svo má segja, Fjármagnstekjuskatturinn er ekki með beinum hætti efni þessarar tillögu sem hér er lögð fram heldur það skattalega misrétti sem fjallað er um og tengist lágu skatthlutfalli af fjármagnstekjum.

Í árslok 2001 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt, m.a. var skatthlutfall hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð lækkað úr 30% í 18% og skatthlutfall annarra lögaðila úr 38% í 26%. Í athugasemdum og rökstuðningi með því frumvarpi, sem síðar varð að lögum, kom fram að grundvallarforsenda þessara breytinga væri sú að ætla mætti að þær mundu leiða til aukinna fjárfestinga erlendra aðila hér á landi og koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki flyttu starfsemi sína til útlanda.

Auðvitað er hin svokallaða samkeppni milli landa engan veginn hafin yfir gagnrýni. Hitt er þó mun alvarlegra að mínu mati þegar slíkur málatilbúnaður er notaður til að stofna til verulegs skattahagræðis fyrir stóran hóp þjóðfélagsþegna sem ljóst er að ekki á í neinni samkeppni við atvinnurekstur í öðrum löndum. Með áðurnefndri lagasetningu gafst þeim sem stundað höfðu margvíslega þjónustustarfsemi og aðra skylda starfsemi, sem eingöngu snýr að innanlandsmarkaði, kostur á að breyta starfseminni úr einstaklingsrekstri í félagsform og njóta þannig verulegrar skattalækkunar á stórum hluta tekna sinna. Í dag nemur þessi lækkun um 10% og 10% munur á skatthlutfalli er verulegt skattamisrétti.

Sá hópur sem nýtur forréttindanna sparar sér að lágmarki, að því er mér er sagt, um milljarð kr. á hverju ári en sennilega er það hærri upphæð. Slíkt misrétti hefur þó ekki aðeins fjárhagsleg áhrif heldur ekki síður skekkir það jafnframt alla lýðræðislega umræðu og eðlilega framþróun skattamála. Vegna tilhögunar skattkerfisins vill svo til að sá aðili sem verður fyrir beinu tapi í þessum sérkennilega skattaleik eru sveitarfélögin sem fá ekki neitt af fjármagnstekjuskatti. Háværar umkvartanir þeirra hafa ekki farið fram hjá neinum.

Einkahlutafélög er það félagsform sem best hentar í þessu skattaumhverfi enda hefur fjölgun einkahlutafélaga verið með ólíkindum síðan umrædd lög voru sett á árinu 2001. Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru þau vel yfir 25 þús. eða 26 þús. talsins. Hin einfalda aðferð til að hagnast sem mest í þessum leik er að taka sem lægst laun hjá félaginu og greiða sem hæstan arð af hlutafénu. Í einkahlutafélagi er helsti launþeginn yfirleitt jafnframt ráðandi í stjórn félagsins og semur við sjálfan sig um kaup og kjör.

Þegar farið var í lagabreytinguna á sínum tíma var lögð áhersla á að endurnýjuð ákvæði um svokallað reiknað endurgjald kæmu í veg fyrir að menn kæmust langt í að breyta launatekjum í arð af hlutafé. Vissulega hafa verið gerðar lítils háttar lagfæringar á skilgreiningu þessa reiknaða endurgjalds en engu að síður var fullkomlega ljóst á þeim tíma, þegar hagsmunir eru jafnmiklir og hér um ræðir, að slík ákvæði mundu engan veginn ná tilgangi sínum. Komu þar til ýmis atriði sem ég mun ekki fjölyrða um að svo stöddu.

Til að bregða ljósi á framkvæmd þessara mála lagði ég síðasta vor fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um reynsluna sem fengist hefði af umræddum skattalagabreytingum að því er varðar skatta á einkahlutafélög og hluthafa þeirra. Með svörum hæstv. ráðherra fékkst staðfesting á því að þessi mál eru í allsendis ófullnægjandi farvegi. Við blasir að mikill meiri hluti þessara félaga er ekki í rekstri sem á í samkeppni við önnur lönd. Hins vegar hefur verið gengið ótrúlega langt í því að greiða hluthöfum einkahlutafélaga arð í stað launa. Á árinu 2005 greiddu samkvæmt upplýsingum frá hæstv. ráðherra 1.752 einkahlutafélög arð sem var umfram 100% af hlutafé. Arðshlutfallið hjá þessum félögum var að meðaltali 650%.

Þá spyr maður, frú forseti: Var þetta tilgangur laganna? Er það í samræmi við sanngjarnt og réttlátt skattkerfi að þúsundir skattgreiðenda geti hagrætt sköttum sínum með því að telja óeðlilegan hluta af tekjum sínum fram sem arð í stað launa? Er það í samræmi við sanngjarnt og réttlátt skattkerfi að með hækkandi tekjum lækki það hlutfall sem greitt er í skatt? Fer nokkuð á milli mála að tilurð skattívilnana gagnvart einkahlutafélögum hefur leitt af sér óverjandi mismun á skattbyrði af raunverulegum tekjum einstaklinga?

Frú forseti. Með þessari tillögu er ekki lagt til að skattar á lögaðila verði hækkaðir. Þvert á móti get ég almennt talið vel fallist á að ráðast þurfi í endurskoðun skattalaga sem snýr að atvinnurekstri með það í huga að lækka megi slíkan skatt, ef það reynist rétt að skattalækkanir í prósentum gefi meira af sér í skatttekjur fyrir hið opinbera. Því er gefið undir fótinn í stjórnarsáttmálanum og ekkert nema gott um það að segja. En þá geng ég líka út frá því að almennir skattar og skattar á lífeyrissparnað fólks verði sömuleiðis endurskoðaðir.

Nei, þessi tillaga felur ekki í sér aðför að sköttum lögaðila. Hér er ekki ýjað að því að skattprósentan eigi að hækka né heldur aðrir skattar vegna þess að eitt verður yfir alla að ganga. Tillagan er hins vegar hugsuð sem viðleitni til að ráða bót á því skattamisrétti sem blasir augljóslega við. Í henni felst athugun á því hvort réttmætt sé að öll hlutafélög, hvers eðlis sem þau eru, sitji við sama borð að því er tekjuskatt varðar. Stærstur hluti þessara félaga er í reynd einstaklings- og fjölskyldufyrirtæki með þjónustu eða aðra starfsemi sem bundin er heimamarkaði án allrar samkeppni við útlönd.

Í umræðunni um skattamál lögaðila hér á landi hefur oft verið vísað í gott fordæmi frá Írlandi. Mér er kunnugt um að Írar hafi lögfest sérákvæði um viðbótarskatta á þessum vettvangi, á svokölluð „close companies“, einmitt til að hindra misrétti í sköttum vegna lækkunar skatta á lögaðila. Hliðstæðs eðlis væri t.d. ákvæði um að í tilgreindum flokkum lögaðilanna sem ég hef gert að umtalsefni sé sett hámark á þann arð sem notið geti 10% skatthlutfalls. Tilgangur þessarar tillögu er að afla sem fyllstra upplýsinga frá öðrum löndum í sambandi við þetta mál og afla hvarvetna reynslu og þekkingar í skattamálum sem læra má af.

Það var, frú forseti, borið á mig í umræðu í þinginu fyrr í dag að ég hefði vit á peningum. Ég vil bera af mér þær sakir. Ég held því þó fram að ég hafi það mikið peningavit að ég telji að í þessu máli sé vitlaust reiknað. Málflutningur minn snýst um réttlæti, jafnræði og leiðréttingu á skattamisrétti sem vonandi mundi leiða til þess að við hefðum meira fé í höndum til allra góðra mála í þessu velferðarsamfélagi okkar.

Að svo mæltu, frú forseti, legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til efnahags- og skattanefndar.



[17:06]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég hélt því fram áðan að hv. þm. Ellert B. Schram hefði fjármálavit. Ég ætla svo sem ekki að draga úr því en ég skal draga það til baka en halda því þá fram í staðinn, eins og kemur fram í ræðu hans, að hann hafi réttlátt hjartalag. Það er í rauninni miklu dýrmætari eiginleiki í einum manni því að maður með réttlátt hjarta og velviljaður nær yfirleitt árangri þar sem hann fer og það hefur hv. þingmaður gert.

Það er athyglisvert að sjá hv. þingmann taka þetta mál upp og margar spurningar kvikna undir ræðu hans. Ég minnist þessa máls og þeirrar aðgerðar sem gerð var eins og lýst er í þessari tillögu og rökin voru þau sem hér koma fram, að fyrirtæki færu ekki úr landi og að erlendir aðilar kæmu hingað. Nú sjáum við þessa gríðarlegu þróun, 24 þúsund fyrirtæki ekki rétt? (Gripið fram í: 25.) 25 þúsund fyrirtæki eru til orðin í landinu um þetta. Hverjir eiga öll þessi fyrirtæki? Hefur málið þróast öðruvísi en til var stofnað? Ég sat í þeirri ríkisstjórn og tel mikilvægt að fara yfir þetta. Eru þetta 25 þúsund einstaklingar, eru það margir einstaklingar sem eiga mörg þessara fyrirtækja? Þetta eru spurningar sem ber að fara yfir. Síðan er spurningin: Hvað komu margir erlendir aðilar? Ég skoðaði því miður ekki fyrirspurn hv. þingmanns frá síðasta þingi. Hvað komu margir aðilar inn í landið út á þessa aðgerð? Við getum eðlilega spurt að því. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með fjármálaráðuneytið hátt í 17 ár og þar af leiðandi stýrt skattamálaráðuneytinu svo völd hans hafa verið mikil í þessu efni. (Gripið fram í.) Í samstarfi við Framsóknarflokkinn hafa skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður. Það er rétt, hér hefur verið mikil tekjumyndun og við breyttum skattkerfinu oft og tíðum í þágu fólks og fyrirtækja. Það er hárrétt. Ég held að það hafi verið góðar aðgerðir yfir höfuð. Hins vegar get ég auðvitað sagt hér að kannski hafi mér fundist að aldrei hefði verið horft til litla mannsins í þjóðfélaginu eins og býr í eðli okkar framsóknarmanna og því er auðvitað athyglisvert að sjá hv. þingmann úr Samfylkingunni, Ellert B. Schram, flytja þetta mál.

Það gerðist nú fyrir jólin að ASÍ ætlaði að reyna að ná kjarasamningum til langs tíma á breiðum grundvelli og hafði sérstaklega áhuga á að skoða skattamál og sjá lækkun á sköttum þeirra sem verst eru settir. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn vísuðu þessu fólki heim og sögðu núna eftir áramótin: Við viljum ekki tala við ykkur um það mál sem þið eruð að tala um. Þeir sögðu ekki einu sinni: Við viljum skoða málið með ykkur. Þeir sendu bara ASÍ heim og sögðust ekki vilja koma að málinu með þessum hætti. Það er þess vegna óvissa í kjaramálum sem er gríðarlega erfitt við þær aðstæður sem nú eru. Hvað ef ríkisvaldið hefði nú getað stuðlað að langtímakjarasamningum á vinnumarkaði með skynsemi til að halda verðbólgu niðri og skapa öryggi á vinnumarkaði? Nei, þegar Alþýðusamband Íslands var að hugsa um hvort hægt væri að koma eitthvað til móts við þá sem eru með lökust kjörin í skattamálum, þá var það ekki einu sinni viðræðugrundvöllur, bara burt með ykkur, farið þið heim, við höfum ekkert við ykkur að tala um þessi mál. Þetta er ríkisstjórn hv. þingmanns og ég minnist bara á þetta í framhjáhlaupi til að hafa vakið athygli á því.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að það er gríðarlega mikilvægt í litlu landi eins og okkar, og reyndar í öllum þjóðfélögum að mínu mati, að virða jafnræði á milli einstaklinganna. Ef þetta mál hefur þróast með allt öðrum hætti en til stóð og menn með mjög háar tekjur eru kannski að reyna að koma þeim undan því að taka þátt í samfélagi sínu — við höfum náttúrlega heyrt það í umræðum hjá sveitarfélögunum að þau hafi orðið af, ég man ekki hvaða upphæðir þau nefna, gríðarlegum tekjum, að því er þau telja, vegna þessa fyrirkomulags og hafa verið að gera kröfur á ríkisvaldið — þá vil ég taka undir það með hv. þingmanni að það sé mjög mikilvægt að fara yfir stöðu þessa máls og afla frekari upplýsinga. Skoða það í grunninn hvort þetta hafi skapað frítekjukerfi fyrir fólk frá því að gjalda keisaranum það sem keisarans er og taka minni þátt í samfélaginu, sveitarfélaginu, og minni þátt í útgjöldum ríkisins en því ber miðað við þá tekjuöflun sem þarna á sér stað.

Ég tek undir þá skoðun að það sé mikilvægt að fara yfir þetta og það er kannski líka tímabært, ekki síst vegna þess hvernig farið var með Alþýðusamband Íslands, að fara yfir skattamál í heild sinni. Við erum á margan hátt vel sett, Íslendingar, en við þurfum að skoða tekjuöflunarkerfi okkar hjá ríki og sveitarfélögum. Þar þyrfti kannski að fara í gang heildarendurskoðun á því hvað sé heppilegast fyrir alþýðuna. Hvernig verða kjör hennar bætt? Hvernig er tekjuskipting þjóðfélagsins? Við notuðum skatta til að jafna tekjur manna í samfélaginu í gegnum tíðina og það er í rauninni eina leiðin sem ríkið hefur. Við vitum að á síðustu árum hefur margt breyst gríðarlega. Eitt sinn voru sumir með laun sem þóttu meira að segja há, einhverjir voru að fá tvöföld og þreföld laun forsætisráðherra. Nú eru hér gríðarlega margir nýríkir menn — kannski eru þeir að falla í tekjum, ég veit ekkert um það, ég vona ekki — sem hafa tekið sér óhófleg laun og laun sem við höfum í rauninni ekki heyrt um á Íslandi fyrr en á síðustu árum, bæði vegna útrásar fyrirtækja og stöðu í öðrum löndum. Þetta eru náttúrlega laun sem menn eiga ekki að bjóða sér í okkar litla landi því að það er aldrei einn maður sem dregur fyrirtæki áfram, það er auðvitað fjöldinn, hver maður er mikilvægur í fyrirtækinu hvort sem það er skúringastúlkan eða skúringamaðurinn eða forstjórinn, þetta er ein keðja. Við þekkjum hið réttláta kerfi sem notað var til sjós, það var mikilvægt, þar voru menn á hlut, skipstjórinn hafði tvo, aðrir höfðu einn og einhverjir einn og hálfan og einn og einn fjórða. Þannig var skiptingin þá. En núna er kominn mjög stór hópur manna með gríðarlega há laun og mjög miklar tekjur sem ég trúi að vilji sjálfir borga ríkinu meira og gjalda keisaranum meira af því sem þeir hafa.

Um leið og ég tek undir það að menn fari yfir þetta mál og brjóti það til mergjar tel ég mikilvægt að farið verði yfir réttlæti í skattlagningu bæði hvað varðar einstaklinga og fyrirtæki og miðað við breytta tíma í þjóðfélagi okkar.



[17:15]
Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á skattamálum lögaðila, 169. mál sem borið fram af hv. þm. Ellerti B. Schram.

Mér finnst málið athyglisvert og greinargerðin ekki síður. Þar er farið yfir þessi mál og ýmsar upplýsingar koma fram, m.a. hefur hv. flutningsmaður málsins velt fyrir sér hvort niðurstöðurnar séu í samræmi við tilgang laganna. Þar er varpað upp mjög málefnalegum spurningum og eðlilegt að menn leiti svara við þeim og skýri málið. Það hefði verið fróðlegt að hafa hæstv. fjármálaráðherra við þessa umræðu ef hann hefði verið tilbúinn til að taka þátt í henni. Þetta er þannig mál og eflaust býr hann yfir upplýsingum sem gagnlegt væri að fá fram.

Það er svo, hæstv. forseti, að á síðustu árum hafa verið stofnuð mörg einkahlutafélög í ýmsum sveitarfélögum landsins. Eitthvað er það misjafnt eftir byggðarlögum en ég þekki dæmi þess að menn telji það nánast óhóflegt á einstaka stöðum hve mikið hefur verið stofnað af einkahlutafélögum um jafnvel einn mann sem starfar við eitthvað tiltekið. Sveitarfélögin hafa mikið fjallað um þetta á síðustu árum. Þau hafa haldið því fram að þau hafi orðið af töluvert miklum útsvarstekjum vegna þessarar þróunar. Það hefur hins vegar verið erfitt að meta það. Það hefur verið reynt en reynst erfitt að meta hvað um er að ræða en engu að síður held ég að það sé rétt hjá sveitarstjórnarmönnum að þessi þróun hafi að einhverju leyti haft áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga. Við vitum að í mörgum sveitarfélögum getur það skipt verulega miklu máli og menn hafa því áhyggjur af þessari þróun.

Ég tel eðlilegt og rétt að verða við þessari tillögu. Ég er ekki með það í kollinum hvenær lögum var breytt þannig að einkahlutafélög fóru að verða algeng. Ætli það hafi ekki verið einhvern tíma eftir 2000 ef ég man rétt (Gripið fram í: 2001.) eða 2001. Ég held að það sé eðlilegt og sjálfsagt að menn fari yfir þessi mál og meti hvernig þetta hefur komið út. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. flutningsmanns Ellerts B. Schrams að líta til annarra þjóða til að læra af þeim um svona mál.

Ég vildi, hæstv. forseti, segja örfá orð um þetta mál sem mér finnst gott og tel eiga fullan rétt á sér. Ég leyfi mér að hvetja til að þessi tillaga nái fram að ganga og hæstv. fjármálaráðherra sjái til að farið verði ofan í saumana á þessum málum, ekki síst út frá sjónarhóli sveitarfélaga en kannski öllu fremur út frá því sem mér fannst rauður þráður í framsögu hv. þingmanns, þ.e. sanngirni og réttlæti í skattkerfinu. Ég styð þetta mál, styð að farið verði í þessa vinnu, að reynslan af þessu fyrirkomulagi verði metin og reynt að finna leiðir til að bæta úr, komist menn að þeirri niðurstöðu að það þurfi.



[17:19]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á skattamálum lögaðila.

Mér þótti miður, frú forseti, að hv. flutningsmaður Ellert B. Schram taldi ástæðu til að bera af sér þá sök að hafa vit á peningum. Mér finnst það engin sök að teljast hafa vit á peningum og mættu fleiri Íslendingar vera þeim eiginleikum gæddir.

Í greinargerð með tillögunni, sem mér finnst vera mjög athyglisverð, kveður við dálítið neikvæðan tón og er talað um að menn geti hagrætt sköttum sínum o.s.frv. Ég bendi á að skattrannsóknarstjóra ber að gæta þess að menn reikni sér endurgjald eins og um óskylda aðila væri að ræða. Hins vegar er í mörgum rekstri, t.d. búrekstri hjá bændum, ákveðin áhætta. Hjá trillukörlum og mönnum sem eru að gera út báta er líka heilmikil áhætta. Sú áhætta á ekki að teljast til launa. Það er hagnaður eða tap rekstrarins. Ég hef heyrt af því að menn hafi kvartað undan því að reiknaða endurgjaldið sé hærra en hagnaðurinn af rekstrinum, enda á það að geta komið upp þegar um er að ræða tap á rekstrinum.

En það vantar inn í umræðuna fjöldann allan af öðrum atriðum. Ef við t.d. tökum mann sem borgar 18% skatta af hagnaði fyrirtækis og síðan af rekstri, þ.e. af 82% greiðir hann 10% fjármagnstekjuskatt, þá er það um 26% sem hann greiðir í stað þess að greiða 36% tæp í staðgreiðslu. Hann sparar sér eitthvað um 10%. En það vantar inn í umræðuna að hann neitar sér um ýmislegt annað, t.d. ef hann verður atvinnulaus. Hann neitar sér um fæðingarorlof sem er háð tekjunum og ýmiss konar bætur eins og örorkulífeyrir hjá lífeyrissjóðum, réttindi í lífeyrissjóðum sem eru háðar tekjunum. Réttindi í sjúkrasjóðum eru háðar tekjunum sem greitt er af þannig að menn fórna ýmsum réttindum í kerfinu með því að telja fram of lágar tekjur, eins og gefið er í skyn í greinargerð tillögunnar.

Ég hugsa að ef menn mundu setjast yfir allt dæmið þá mundu menn sjá að það er ekki voðalega skynsamlegt að telja fram annað en raunverulegar tekjur. Það er hlutverk skattrannsóknarstjóra að sjá til að menn telji fram raunverulegar tekjur, eins og um óskyldan aðila væri að ræða. Þannig hygg ég að þetta eigi að vera. Síðan getur komið hagnaður eða tap af rekstrinum, vonandi yfirleitt hagnaður, að búskapurinn eða útgerðin, gangi þannig að hagnaður verði af því. Þá borga menn fyrst skatt af hagnaði, þ.e. 18% og síðan skatt af arðgreiðslu. Við getum svo að sjálfsögðu hugleitt að halda áfram að lækka prósentuna í staðgreiðslunni. Það er nokkuð sem ég er hlynntur þannig að munurinn á milli þessara tveggja forma hverfi.

Ég skora á hv. flutningsmann að vinna með mér í því að lækka prósentuna í skattkerfinu til að jafna þennan mun og jafnframt hvetja launþega og aðra tekjuskattsgreiðendur til dáða þannig að við höldum áfram að stækka kökuna eins og við höfum gert síðustu 15 ár. Hún hefur stækkað svo að launin hafa hækkað meira á Íslandi en annars staðar.



[17:23]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þingsályktunartillaga um endurskoðun á skattamálum lögaðila sem hv. þm. Ellert B. Schram hefur mælt fyrir er allrar athygli verð. Ég tek undir þau meginsjónarmið þingsályktunartillögunnar að það verði kannað hvernig háttað sé jafnræði skattlagningar í tengslum við stofnun einkahlutafélaga. Í greinargerð með tillögunni er rakin þróun þessara mála frá því að lög voru sett sem lækkuðu tekjuskatt á atvinnurekstur árið 2001. Síðan er rakin gríðarleg fjölgun á einkahlutafélögum í tengslum við margs konar rekstur.

Ég vil víkja að þeim mun sem skapast milli þeirra aðila sem fá tekjurnar, þ.e. ef um venjulegan tekjuskatt er að ræða rennur útsvarið til sveitarfélaganna en sé um að ræða skatt á arðgreiðslur eða fjármagnsskatt og annað þá rennur það beint til ríkisins. Þetta hefur orsakað mun á milli tekna sveitarfélaganna annars vegar og ríkissjóðs hins vegar. Sveitarfélög hafa ítrekað gert athugasemdir við þessa þróun og óskað eftir því að þetta fyrirkomulag verði tekið upp. Talað var um að með þessari breytingu sem hefði orðið á síðustu árum hefðu jafnvel nokkrir milljarðar færst frá tekjustofnum sveitarfélaga yfir til ríkisins.

Ég man ekki betur en að í haust hafi forustumenn, bæði Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem nú mynda ríkisstjórn, verið með digrar yfirlýsingar um að þessu fyrirkomulagi yrði breytt, að sveitarfélögin fengju hlutdeild í fjármagnstekjuskatti, í þeim skatti sem tengist einkahlutafélögum, bæði skatti af arðgreiðslu og svoleiðis. Ég minnist yfirlýsinga frá leiðtogum í sveitarstjórnarmálum af hálfu þessara flokka, hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, varaformanns fjárlaganefndar, og hv. þm. Gunnars Svavarssonar sem er í bæjarstjórn í Hafnarfirði og formaður fjárlaganefndar. Þeir voru með miklar yfirlýsingar í þessu sambandi. Hv. flutningsmaður er í flokki með öðrum þessara höfðingja, hv. þingmanna sem ég nefndi. Fleiri hafa síðan komið inn á þessa liði og þetta hefur sannarlega verið baráttumál margra sveitarstjórnarmanna, að þarna komist á jafnræði.

Ekkert hefur gerst í þessu máli. Ekki neitt. Ég held að það hljóti að valda vonbrigðum miðað við öll þau sterku orð af hálfu forustumanna og áhrifamanna ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum að ekkert skuli hafa gerst. Ég sé að hv. þingmaður, þótt ég ætli alls ekki að gera lítið úr því að hann gerir það af fullum myndugleik, er einn flutningsmaður þessarar tillögu. En stór angi þessa máls er stórpólitískur og lýtur að þessari skiptingu og um hana hefur verið deilt.

Ég tek undir tilganginn með þingsályktunartillögunni, að þetta verði endurskoðað og kannað. En ég vil jafnframt spyrja hv. þingmann um stöðu umræðunnar, m.a. innan Samfylkingarinnar, hvað varðar ráðstöfun á sköttum á fjármagnstekjur og af arði og hagnaði sem nú rennur til ríkisins en sveitarfélögin hafa gert tilkall til að fá a.m.k. bætt með einhverjum hætti, frú forseti.



[17:29]
Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í þeirri trú að ég sé að flytja lokaræðu þessarar umræðu en það má vera að það sé kannski ekki tímabært. Engu að síður vil ég þakka þeim sem tekið hafa til máls og tjáð sig um þetta mál fyrir þeirra hlut og jákvæðar athugasemdir að langmestu leyti.

Beint er til mín stórum spurningum um afstöðu hæstv. ríkisstjórnar til skattatillagna verkalýðshreyfingarinnar í yfirstandandi kjaraviðræðum. Spurt er um afstöðu stjórnarflokkanna eða Samfylkingarinnar til þess vandamáls sem hefur sprottið upp í kjölfarið á þeirri staðreynd að sveitarfélögin fá ekki fjármagnstekjuskatt og tekjur þeirra hafa rýrnað, a.m.k. hlutfallslega, miðað við það að fjármagnstekjuskattur er náttúrlega stærri þáttur í skattinnheimtu hins opinbera en áður.

Þessum spurningum er ég ekkert sérstaklega að blanda inn í þessa umræðu. Við vitum vel að afstaða ríkisstjórnarinnar til skattatillagna byggðist kannski á því að ekki var tímabært fyrir ríkisstjórnina að taka afstöðu til mála meðan annað var að mörgu leyti óútkljáð og er enn í viðræðum milli aðila vinnumarkaðarins. Ég útiloka út af fyrir sig ekki að tekið verði tillit til þessara tillagna að einhverju leyti þegar þar að kemur. En á þeim voru líka ákveðnir gallar sem sneru að jaðarsköttum sem okkur er öllum ljóst að er ekki endilega hagstætt fyrir launafólk. Þannig að á því máli eru margar hliðar og ekki tilefni til þess fyrir mig að fara að ræða það út í hörgul enda það mál ekki hér á dagskrá. Það sama má kannski segja um það viðfangsefni sem snýr að fjármagnstekjusköttum og hlutdeild sveitarfélaganna í rýrnandi hlutfalli af skattinnheimtunni almennt, það mál er að ég best veit í skoðun og niðurstöður munu væntanlega liggja fyrir áður en þessum vetri lýkur eða jafnvel fyrr.

Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um neikvæðan tón í greinargerð með tillögunni, að það vanti margt. Ég viðurkenni fúslega að ekki er verið að taka þar almennt á skattamálum eða gera úttekt á því heildarregluverki. Tillagan snýr að ákveðnum þætti skattalöggjafarinnar. Hana þarf að skoða og skilja á þann veg, eina og sér. Ef eitthvað vantar inn í hana er ekki við neinn að sakast nema flutningsmanninn. Er þá hægt að bæta úr því með vinnu í efnahags- og skattanefnd þar sem við báðir sitjum, hv. þm. Pétur H. Blöndal og ég. Hann lýsir því yfir að hann hafi áhuga á að leggjast yfir tillöguna og ég er þakklátur fyrir það. Við getum þá væntanlega staðið saman að því að bæta um betur í þessum tillöguflutningi og reyna að draga fram þau atriði sem á skortir.

Kjarni þessa máls er mjög einfaldur. Búið er til nýtt kerfi og ný skattalöggjöf sem gerir Íslendingum kleift að stofna félagaform um lítinn eða mjög fámennan rekstur. Þarna getur verið um að ræða einstaklings- og fjölskyldufyrirtæki, eins, tveggja eða örfárra einstaklinga. Það er ljóst að Íslendingar hafa áttað sig á gildi þessa fyrirkomulags vegna þess að slíkum fyrirtækjum hefur fjölgað úr 4 þúsund fyrirtækjum árið 2001 eða þar um bil og upp í 25–26 þúsund nú síðast þegar skýrslur voru gefnar upp um það. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi fjölgun hefur átt sér stað vegna þess að fólk hefur séð möguleikana á skattaívilnunum með því að stofna fyrirtæki af þessu tagi.

Það er auðvitað aðalatriðið í þessu máli og skattalöggjöfinni allri að hún sé gegnsæ, hún sé réttlát og ekki sé verið að gera upp á milli fólks eftir því hvernig það telur fram með teknískum hætti til þess að komast hjá því að borga sanngjarna og réttláta skatta. Ekki með því að svindla heldur með því að fara eftir löggjöf sem hefur þau áhrif og þær afleiðingar að fólk getur í rauninni ákveðið sjálft hvað það hefur í laun.

Það eru vísu til hjá fjármálaráðuneytinu reiknuð endurgjöld þar sem sett eru einhver lágmörk á það hvað fólk verður að skrá á sig sem beinar launatekjur en það er ekkert þak á því og í raun og veru ekkert gólf heldur. Þar eru bara skilgreindir ákveðnir flokkar eða störf sem falla undir ákveðnar upphæðir í laun, algjörlega án tillits til þess hver hagnaðurinn er svo af starfinu og fjölskyldufyrirtækinu eða einstaklingsfyrirtækinu sem stofnað var. Það virðist því vera þannig að fólk borgi minna í tekjuskatt en ella vegna þess að það hefur tækifæri til að skilgreina sjálft hvað eru launatekjur og hvað er arður. Tekjurnar eru þess vegna í lágmarki en arðurinn í hámarki og skatturinn samkvæmt því. Fullyrt er við mig af sérfróðum mönnum, ég get ekki annað en vitnað til þess, að áætlað tekjutap ríkissjóðs og eftir atvikum sveitarfélaganna sé ekki minna en einn milljarður á ári vegna þeirra ívilnana sem þessi löggjöf felur í sér.

Að gefnu tilefni vil ég ítreka að hér er ekki verið að tala um að hækka skattana eða breyta þessu fyrirkomulagi að öðru leyti en því að settar verði ítarlegri skilgreiningar um það hvers eðlis þau fyrirtæki séu sem falla undir þessa skattalöggjöf. Vitna ég þá til fordæmisins á Írlandi þar sem menn hafa sett sambærilega löggjöf en hafa hins vegar mismunandi skattaálagningu eftir tekjum og eftir eðli fyrirtækjanna og eru takmörk sett á það hvað menn geta komist upp með að ákveða sem tekjur sínar. Verið er að tala um, ég vitnaði í það í ræðu minni, Closed Companies og Open Companies, og ég held að það geti verið þess virði fyrir íslensk skattayfirvöld og íslensk stjórnvöld að kynna sér þetta fyrirkomulag, þetta skattakerfi, útfærslu þess á Írlandi og annars staðar þar sem það er fyrir hendi, og styrkja löggjöfina hér hjá okkur að þessu leyti, að skattar séu réttlátir og innheimtir með þeim hætti að enginn geti sakað aðra eða skattayfirvöld um það að misrétti sé viðvarandi samkvæmt lögum.



[17:38]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem eingöngu upp í þennan ræðustól til að lýsa stuðningi við þingsályktunartillögu, um endurskoðun á skattamálum lögaðila, sem hv. þm. Ellert B. Schram hefur flutt og gert grein fyrir. Ég tel að um mjög þarft mál sé að ræða og nauðsynlegt að fjármálaráðherra endurskoði skattamál lögaðila, einkum einkahlutafélaga.

Eins og kemur fram í greinargerðinni eru fjölmargar ástæður til að skoða þessi mál að nýju, bæði fjöldi einkahlutafélaganna, sá skrýtni arður sem greiddur er upp á 650% í mörgum tilfellum, tæplega tvö þúsund tilfellum o.s.frv. Þetta þarf líka að skoða með tilliti til þess hvort þarna er um óeðlilegan arðshluta að ræða o.s.frv. og hvort þau lög sem sett voru á sínum tíma um einkahlutafélögin hafi yfirleitt náð þeim tilgangi sem ætlast var til. Það er því nauðsynlegt að þeirra upplýsinga sem hér er óskað eftir verði aflað og unnin um það samantekt sem þingsályktunartillagan gengur út á. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við þetta nauðsynlega mál.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og skattn.