135. löggjafarþing — 63. fundur
 11. feb. 2008.
kynning á stöðu þjóðarbúsins.

[15:08]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Veðrið úti fer að lagast og vetrarlægðirnar að grynnast þegar kemur fram á útmánuði þannig að við getum verið bjartsýn, vorið kemur. En það eru efnahagslægðirnar sem halda áfram að dýpka. Þær valda okkur og Íslendingum öllum miklum áhyggjum. Ég hef varað hæstv. forsætisráðherra við þeirri deyfð sem hefur ríkt í ríkisstjórninni, því átakaleysi að gangast ekki á hólm við hina háu vexti, við hina miklu þenslu, og við erum að sjá afleiðingarnar á heimilunum og í fyrirtækjunum.

Hæstv. forsætisráðherra veit eins og ég að þjóðarbú Íslendinga er samt sem áður á margan hátt mjög sterkt. Það býr við umræðu í viðskiptalöndum okkar sem er óásættanleg, um að hér sé allt í kaldakoli og allt að fara norður og niður, sem er auðvitað rangt. Ríkissjóður er hér um bil skuldlaus eftir síðustu ár. Við búum við eitt sterkasta lífeyrissjóðakerfi heimsins sem á líklega 17 hundruð milljarða í eignum. Ég hefði haldið að það væri mikilvægt fyrir ríkisstjórnina og Seðlabankann að gera það sama og gert var 2006, að fara í leiðangur til viðskiptalanda okkar til að vekja athygli á sterkri stöðu þjóðarbúsins. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort eitthvað sé áformað í þeim efnum, hvort ríkisstjórnin sé að undirbúa það að fara meðal viðskiptaþjóða okkar og kynna sterka stöðu þjóðarbúsins. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að það takist að stöðva þensluna — úrvalsvísitalan hefur nú fallið úr 5.400 stigum í 4.800 stig. Þetta er alvarlegt mál, umræðan um Ísland erlendis.

Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra: Kemur það kannski til greina við þessar aðstæður (Forseti hringir.) að stofna til þjóðstjórnar á Íslandi til að tryggja að farið verði í þessi mál af þeirri einurð sem ber að gera?



[15:11]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er vel boðið þykir mér. En ég treysti því að hv. þingmaður og flokkur hans eins og allir aðrir flokkar á Alþingi taki höndum saman um að vinna að því þjóðþrifamáli sem hv. þingmaður var að lýsa varðandi það að útrýma ranghugmyndum um íslenskt efnahagslíf í nálægum löndum og í viðskiptalöndum okkar um allan heim. Það er góð hugmynd og hún hefur verið til athugunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar um skeið. Ég tók sjálfur þátt í því átaki sem hv. þingmaður nefndi á árinu 2006 og það gerðu ýmsir fleiri og það skilaði ágætum árangri.

Ekki þótti mér þingmaðurinn daufgerður þegar hann lýsti því hvernig staða ríkissjóðs er um þessar mundir eða staða lífeyrissjóðakerfisins. Það er alveg rétt og á það benti Moody's í síðasta áliti sínu, sem hér var til umræðu um daginn, að það eru þessir þættir ásamt fleiri atriðum sem gera það að verkum að íslenska ríkið hefur, og íslenska þjóðarbúið, mikla sérstöðu miðað við ýmsa aðra sem eru skuldum vafnir upp fyrir haus þegar kemur að stöðu opinberra fjármála og eru með lífeyrissjóðakerfið sitt á hausnum. Það er ekki sú mynd sem er uppi á Íslandi um þessar mundir. En hugmynd þingmanns er vel meint, ég tek henni vel og við munum síðan vinna úr þessu máli. Þetta er ekki ný hugmynd, hún hefur verið rædd við forsvarsmenn í viðskiptalífinu og við sjáum svo hvað setur með þetta atriði.



[15:12]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég sá að það glaðnaði yfir hæstv. forsætisráðherra, ég sá gamalkunnugt bros taka sig upp og fagna ég því. Auðvitað þarf ríkisstjórnin á hjálp að halda og ég býð það af heiðarleika að við viljum Íslandi vel og það er mikilvægt að fara í þessa vinnu. Bankakerfið sjálft fór í álíka vinnu 2006 með Bjarna Ármannsson í broddi fylkingar að kynna stöðu hinna sterku banka. (Forsrh.: Hann er á lausu.)

Nú er í sjálfu sér mikilvægt að ríkisstjórnin og Seðlabankinn — þetta má ekki vera hugmynd sem liggur undir koddanum hjá hæstv. forsætisráðherra. Ef honum líst vel á hugmyndina þá vil ég að hann svari því strax hvort hann ætlar í slíka ferð til að berjast fyrir íslensku atvinnulífi og snertilendingu, að takast á við það í umheiminum og segja frá hinni sterku stöðu þjóðarbúsins sem er fyrir hendi þó að við tökumst eins og margar aðrar þjóðir á við ákveðna erfiðleika. Því að sannleikurinn er sá að illa er talað um Ísland í viðskiptalöndum okkar því miður og það ber að leiðrétta. (Forseti hringir.) Ég vil fá algerlega skýr svör hjá hæstv. forsætisráðherra. Ætlar hann ásamt Seðlabankanum í þennan leiðangur eða ekki?



[15:14]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður var afgerandi í sínum málflutningi en svo sá ég ekki betur en það hefði tekið sig upp gamalkunnur fýlusvipur þegar hann yfirgaf ræðustólinn.

Hugmyndin er „god nok“ eins og sagt er í Danmörku. Hún hefur verið til skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar um nokkurt skeið (GÁ: Síðan hvenær?) og ég hef verið í viðræðum við aðila á vegum viðskiptalífsins og bankanna um allnokkurt skeið. Ég ætla ekki að lýsa því yfir núna hver niðurstaðan verður en það verður gert heyrinkunnugt áður en langt um líður. (GÁ: En Seðlabankann?) Það er allt í góðu með hann.