135. löggjafarþing — 63. fundur
 11. feb. 2008.
kaupréttarsamningar.

[15:20]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að nota þetta tækifæri til að ræða við hæstv. viðskiptaráðherra um umræðuna sem verið hefur undanfarna daga um kaupréttarsamninga. Kaup stjórna fjármálafyrirtækja á hlutabréfum einstakra hluthafa á yfirverði hafa verið gagnrýnd harðlega og fram hefur komið að öðrum hluthöfum finnst þeir vera hlunnfarnir og hafa hugsað sér að láta á rétt sinn reyna í þessum efnum. Það er gert með því að vísa í 76. gr. hluthafalaga og er á þeim grunni dregið í efa að stjórnir fyrirtækja, og í þessu tilfelli fjármálafyrirtækja, hafi heimildir til að greiða einstaka hluthöfum fyrir hlutabréf sín á yfirverði.

Í þessu sambandi má líka benda á 79. gr. sömu laga, hlutafélagalaga, þar sem segir að starfskjarastefna skuli samþykkt af stjórn og síðan lögð fyrir hluthafafund. Spyrja má í ýmsum þessara tilfella hvort farið hafi verið að reglum, ef miðað er við ummæli ýmissa hluthafa í þessum efnum síðastliðna daga.

Þessir kaupréttarsamningar hafa verið umdeildir, enda eru þeir umdeilanlegir, að einstaka hluthafar séu teknir út með þessum hætti og samið við þá um hærri kjör og hærra verð fyrir hlutabréfin eins og gert hefur verið en þetta er eitt form launagreiðslna sem notað hefur verið í fjármálageiranum sérstaklega.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji, í ljósi þessarar umfjöllunar, að bregðast þurfi við þessu með einhverjum hætti. Hvort kaupréttarsamningar eins og þessir standist yfir höfuð hlutafélagalögin, hvort það hafi verið skoðað og hvort nota megi þetta sem launagreiðsluform eins og gert hefur verið.



[15:22]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög athyglisverðu máli sem hefur verið í fréttum að undanförnu og t.d. nú í morgun þar sem fram kom að framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta ætlar í mál við stjórn Glitnis því að hann segir stjórnina hafa keypt hlutabréf af fyrrum forstjóra á yfirverði. Komu fram mjög harðar ásakanir um þetta mál af hálfu Vilhjálms Bjarnasonar í fjölmiðlum í gær og í morgun.

Af því tilefni fórum við í viðskiptaráðuneytinu í gegnum lögin um hlutafélög í morgun og þau eru að mínu mati mjög skýr. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig málinu lyktar fyrir dómstólum, eins og nú hefur verið boðað af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hönd hluthafa í Glitni, af því að lögin virðast taka af öll tvímæli hvað þetta varðar þar sem þau segja að félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins megi ekki gera nokkrar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Og því er bætt við að slíkar ákvarðanir séu ógildar vegna þess að þær brjóti í bága við lög eða félagasamþykktir.

Í 79. gr. hlutafélagalaganna er líka mjög afdráttarlaust tekið á þessu að mínu mati þar sem félagsstjórn í félagi skal samþykkja tiltekna starfskjarastefnu félagsins varðandi laun og aðrar greiðslur til forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins. Sú starfskjarastefna er tíunduð nokkuð ítarlega í lögunum og þar við bætt að hún sé bindandi fyrir félagsstjórnina og skuli borin upp á hluthafafundi.

Ég tel þegar allt er skoðað að hlutafélagalögin séu mjög skýr hvað varðar gerð kaupréttarsamninga og þeirra hluta sem nú eru mjög gagnrýndir í viðskiptalífinu og hafa verið á undanförnum árum og verður mjög fróðlegt að fylgjast (Forseti hringir.) með prófmáli Vilhjálms Bjarnasonar sem hann boðaði í gær.



[15:24]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þótti þetta afar athyglisvert svar þar sem hæstv. viðskiptaráðherra telur að lögin séu nógu skýr í þessu efni, þ.e. að ekki sé heimilt að hafa þennan hátt á við launagreiðslur. Mér þykir það afar áhugavert svar hjá hæstv. ráðherra vegna þess að ég lít svo á og tek undir með Vilhjálmi Bjarnasyni sem segir í Fréttablaðinu í morgun að lög eigi ekki að vera upp á punt, heldur eigi að fara að þeim. Ég mun því eins og ráðherrann fylgjast spennt með því máli sem nú fer fram.

Þetta færir okkur auðvitað alltaf að sömu umræðunni, þ.e. þessari ofurlaunaumræðu og því sem hefur gengið á í viðskiptalífinu þar sem okkur hefur misboðið þær launagreiðslur sem þar hafa viðgengist. En ég verð þó segja, virðulegi forseti, að það er þó heiðarlegra að koma með 300 millj. kr. eingreiðslu en marga þá kaupréttarsamninga sem gerðir hafa verið og færðir mönnum í aðra höndina. Það er þó heiðarlegra að hafa hlutina uppi á borðinu (Forseti hringir.) en fela launagreiðslur í svona ósanngjörnum kaupréttarsamningum.



[15:25]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Til að svara spurningu þingmannsins beint þá tel ég persónulega að ekki þurfi að breyta lögunum til þess að utan um þessi mál sé sniðinn nægjanlega góður rammi. Um efnisatriði þess máls sem rætt er í fjölmiðlum um Vilhjálm Bjarnason og Glitni ætla ég ekki að fjalla, ég hef ekki kynnt mér það nákvæmlega, það er dómstólanna að kveða upp úr um það.

Lögin eru mjög skýr. Þegar þau eru skoðuð í ljósi þessarar umræðu virðast þau taka af öll tvímæli um hvað stjórnum félaga sé heimilt að gera og hvað ekki. Út frá því sjónarhorni virðist ekki þurfa að breyta lögum en auðvitað verður það metið í ljósi þeirra mála sem nú munu ganga fyrir dómstóla. Þar verður lagt mat á efnisatriði ásakana Vilhjálms og annarra í þessum málum og út frá því er sjálfsagt að skoða hvort breyta þurfi lögunum. Þau virðast vera mjög skýr og afdráttarlaus hvað þessi efni varðar almennt.