135. löggjafarþing — 63. fundur
 11. feb. 2008.
loftslagsmál.

[15:26]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að Ísland eigi ekki að sækjast eftir undanþágum á vettvangi Kyoto-bókunarinnar. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að við eigum að gera það en hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt pass og hefur ekki verið skýr í máli sínu. Hann segir í grein 11. desember að á þessu stigi eigi ekki að sækjast eftir því að knýja fram hið íslenska ákvæði, enda sé ferill samninganna á Balí ekki á því stigi að þar sé verið að ræða einstök áherslumál ríkja.

Staðan er hins vegar allt önnur í dag. Samtök atvinnulífsins héldu fund á föstudaginn og þar kom fram að samtökin styðja það að íslenska ákvæðinu verði viðhaldið eða að minnsta kosti innihaldi þess, þó að orðalagið gæti orðið öðruvísi. Ég er afar sammála Samtökum atvinnulífsins. Það er mjög brýnt að íslenska ákvæðið eða innihald þess skili sér í næsta samningi og sá samningur verður frágenginn í Kaupmannahöfn árið 2009. Samningsferlið er að hefjast í þarnæsta mánuði en 22. febrúar nk. hafa ríkin möguleika á að leggja inn áherslumál til samningsins, og 22. febrúar er eftir 10 daga, virðulegi forseti.

Á sínum tíma lagði Ísland fram áherslur sínar við sams konar tækifæri, árið 1995 að mig minnir, og það hafði mikið að segja. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hvað er nefndin sem er að undirbúa samningsmarkmið okkar að gera? Ætlar hún að senda inn áherslumál okkar til samningsins fyrir 22. febrúar? Hvenær fáum við að sjá samningsumboð Íslands?

Samtök atvinnulífsins hafa ekki hugmynd um hvert samningsumboðið á að vera. Það þýðir ekki lengur að bíða, af því að samningsferlið er að fara í gang. Hvar er þetta mál statt, virðulegi forseti?



[15:28]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að sækja sinn hlut mjög fast en þeir eigi hins vegar að hlíta þeirri niðurstöðu sem verður á alþjóðavettvangi.

Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að Samtök atvinnulífsins setji fram harðar kröfur fyrir sig og fyrir þau fyrirtæki sem þau eru að slást fyrir. Ég dreg hins vegar mjög í efa að gerð þessa samnings verði með þeim hætti að þar verði endilega inni það sem hv. þingmaður kallar ígildi íslenska ákvæðisins. Ég held að þróun þessara samninga sé með öðrum hætti en uppbygging núverandi samnings.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og menn sjá t.d. varðandi flug og reyndar aðrar greinar sem Evrópusambandið hefur verið að beita sér fyrir að því er losun gróðurhúsalofttegunda varðar, að við eigum eftir að sjá þennan samning, sem vonandi verður gerður með tilstuðlan sem flestra þjóða, þróast yfir í þá átt að þar verði það sem ég sagði einmitt í svari mínu við hv. þingmann um miðbik desember síðastliðinn, að menn muni setja upp ákveðna geira fyrir tiltekna atvinnuflokka, fyrirtækjaflokka. Það hefur komið fram alveg skýrt af hálfu Evrópusambandsins t.d. að þar eru uppi tvær mismunandi skoðanir á því. Ég rifja það upp að framkvæmdastjóri iðnaðarmála er þeirrar skoðunar að fyrirtækjaflokkar sem falla t.d. undir stáliðnaðinn, áliðnaðinn, framleiðslu á sementi og öðru slíku, eigi að vera utan allra kvóta. Aðrir framkvæmdastjórar innan Evrópusambandsins hafa ekki nákvæmlega þessa skoðun. (Gripið fram í.) Þetta dreg ég hér fram til að sýna á hvaða stigi þessir samningar eru.

Ef ég má, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, freista þess að svara spurningunni, þá er það þannig að umhverfisráðherra er formaður ráðherranefndarinnar sem fer með þetta mál og hún fer sömuleiðis með þetta mál fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar gagnvart öðrum þjóðum á þessu stigi málsins. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður hefði því kannski frekar átt að spyrja hana um þetta. En málið er statt á eðlilegu stigi.



[15:31]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra segir: Við verðum að hlíta niðurstöðunni þegar hún kemur. Ég spyr hér: Ætlum við ekki að hafa áhrif á hver hún verður? Ætlum við ekkert að vinna að hagsmunum Íslendinga? Við gerðum það á sínum tíma, ráðherrar í fyrri ríkisstjórn, við börðumst um á hæl og hnakka til að ná fram íslenska ákvæðinu. Á að glutra því niður nú af því að menn eru ósammála í ríkisstjórninni? Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhalda íslenska ákvæðinu eða innihaldi þess eins og Samtök atvinnulífsins. Það vill Samfylkingin ekki, alla vega hefur hæstv. umhverfisráðherra talað gegn því.

Ég spyr nú: Á að nýta svigrúmið fram að 22. febrúar til að skila inn áherslupunktum okkar eða ætlum við að sleppa því? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera þegar samningalotan hefst í apríl? Ekki segja neitt? Segja bara: Já, við hlítum niðurstöðunni þegar hún kemur?

Það er ekki boðlegt, virðulegur forseti. Ríkisstjórnin verður að fara að koma fram með samningsumboðið og vinna svo að því að ná því. (Forseti hringir.) Þannig höfum við Íslendingar alltaf unnið og þannig á að vinna áfram í stórum hagsmunamálum.



[15:32]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er einfaldlega þannig að 22. febrúar er sú dagsetning uppi þegar Íslendingar munu skila inn ákveðnum viðhorfum sínum og það kemur bara í ljós á þeim tíma hver þau viðhorf verða.

Ef það huggar hv. þingmann eitthvað hefði hún átt að hlusta grannt eftir orðum mínum áðan. Ég sagði hér: Í fyrsta lagi er það mín skoðun — hæstv. forsætisráðherra orðaði það einu sinni þannig að hann hefði persónulega skoðun á þessu máli. Ég hef persónulega skoðun á málinu og hún er þessi: Ég tel í fyrsta lagi að við eigum að hlíta niðurstöðunum þegar þessari lotu lýkur. En ég er í öðru lagi þeirrar skoðunar að Ísland eigi að sækja sína hagsmuni fast. Ef hv. þingmaður getur ekki lagt út frá því hvað ég á við, er ég einfaldlega að segja að við eigum að sækja fast þá hagsmuni sem við kunnum að eiga fólgna í samningaferlinu og beita öllum þeim rökum sem við höfum. Hv. þingmaður kann kannski sum þeirra, ég kann þau öll. (Gripið fram í.)

Hins vegar eigum við að hlíta niðurstöðunni þegar hún kemur, (Forseti hringir.) algjörlega. Það er mín skoðun. (Gripið fram í: Þetta var nú ansi loðið.)