135. löggjafarþing — 64. fundur
 12. feb. 2008.
mannvirki, 1. umræða.
stjfrv., 375. mál (heildarlög). — Þskj. 617.

[17:49]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um mannvirki.

Vorið 2002 ákvað umhverfisráðuneytið að ráðast í heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Í þessu skyni voru skipaðar tvær nefndir eins og áður hefur komið fram við umræðu um frumvarpið sem var rætt hér á undan í dag. Nefndirnar skiluðu tillögum sínum vorið 2006 í formi tveggja frumvarpa og það frumvarp sem ég mæli nú hér fyrir er annað þeirra.

Í nefnd um endurskoðun byggingarhlutans, þ.e. frumvarp um mannvirki, sátu fulltrúar umhverfisráðuneytis, forsætisráðuneytis, Samtaka iðnaðarins, Samtaka íslenskra sveitarfélaga og Brunamálastofnunar.

Nefndin hafði samráð við fjölmarga aðila við gerð frumvarpsins, þar með talinn sérstakan ráðgjafarhóp sem skipaður var helstu hagsmunaaðilum á sviði mannvirkjamála. Sumarið 2006 fór fram af hálfu ráðuneytisins víðtæk kynning á framangreindum frumvörpum og voru þau send 159 aðilum, þar á meðal öllum sveitarfélögum landsins. Jafnframt kynnti ráðuneytið frumvörpin í fjölmiðlum og á heimasíðu sinni og var almenningi gefinn kostur á að gera athugasemdir við efni þeirra.

Ráðuneytið fór vandlega yfir þær tæplega 70 skriflegu athugasemdir sem því bárust og voru gerðar breytingar á frumvörpunum m.a. vegna þeirra. Frumvarpið var lagt fram á 133. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það var mælt fyrir því 2. mars á síðasta ári, ef ég man rétt. En eins og ég hef áður greint frá í umræðu um frumvarp til skipulagslaga voru þessi mál til nákvæmrar skoðunar í ráðuneytinu eftir að ég kom þangað og haft víðtækara samráð m.a. við Samband íslenskra sveitarfélaga fram á haustið þegar þau voru síðan lögð fram aftur.

Í frumvarpi til nýrra laga um mannvirki er lögð til ný skipan stjórnsýslu mannvirkjamála en þó byggt á þeim grunni sem fyrir er. Lögð hefur verið á það áhersla að líta heildstætt á alla löggjöf þar sem fjallað er um öryggi og heilnæmi mannvirkja með það að markmiði að gera stjórnsýslu mannvirkjamála sem skilvirkasta, auka faglega yfirsýn í málaflokknum og tryggja samræmt byggingareftirlit um land allt. Lagt er til að sett verði á fót ný stofnun, Byggingarstofnun, sem hafi yfir að ráða faglegri hæfni til að hafa með höndum yfirstjórn byggingareftirlits í landinu með það að meginmarkmiði að auka öryggi mannvirkja og gæði.

Ef og þegar þetta frumvarp verður að lögum mun Brunamálastofnun verða lögð niður eða réttara sagt verkefni hennar færð undir Byggingarstofnun og ábyrgð á framkvæmd byggingarmála færð frá Skipulagsstofnun til Byggingarstofnunar.

Í frumvarpinu er lagt til að eftirlit með framkvæmd laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, færist frá Neytendastofu til Byggingarstofnunar. Enn fremur er lagt til að eftirlit með lyftum færist frá Vinnueftirlitinu til Byggingarstofnunar og að aðgengismál verði í höndum Byggingarstofnunar. Þetta er að sjálfsögðu gert til þess að einfalda stjórnsýsluna og hafa allt eftirlit með öryggi og heilnæmi, eins og það er orðað, mannvirkja á einni hendi og samræmt og eins á landinu öllu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að meginþungi byggingareftirlits í landinu verði áfram í höndum sveitarfélaganna en örfá mannvirki verða þó háð byggingarleyfi og byggingareftirliti Byggingarstofnunar, svo sem virkjanir, mannvirki á hafi og mannvirki á flugvallarsvæði Keflavíkurflugvallar og varnarsvæðum utan Keflavíkurflugvallar. Gert er ráð fyrir þeirri breytingu að byggingarnefndir verði ekki lengur lögbundnar, þ.e. skylda samkvæmt lögum að hafa byggingarnefndir í sveitarfélögum. Sveitarstjórnir ráða byggingarfulltrúa sem síðan munu sinna útgáfu byggingarleyfa og framkvæmd eftirlits.

Í eðli sínu eru byggingarmál tæknileg og þess vegna eðlilegt að framkvæmd þeirra sé almennt í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði. Ákvarðanir um landnotkun og fyrirkomulag byggðar verða hins vegar áfram í höndum sveitarstjórna og skipulagsnefnda á grundvelli skipulagslaga.

Þar sem lagt er til að skipulags- og byggingarlögum verði skipt í tvenn lög er nauðsynlegt að settar verði skýrar línur um mörk þessara laga. Gert er ráð fyrir að í lögum um mannvirki verði ákvæði er varða tæknilega gerð mannvirkja, sérstaklega varðandi öryggi, heilnæmi og aðgengi. Ákvæði er varða útlit mannvirkja og staðsetningu tilheyri hins vegar skipulagslögum.

Gert er ráð fyrir að allt byggingareftirlit verði framkvæmt af faggiltum aðila í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka sem Byggingarstofnun býr til. Þetta þýðir að annaðhvort er byggingareftirlit, og þá aðallega yfirferð hönnunargagna og framkvæmd úttekta, framkvæmt af faggiltum skoðunarstofum eða af byggingarfulltrúum sem þá þurfa að hafa fengið faggildingu til að annast slíkt eftirlit. Sama gildir um það beina eftirlit sem Byggingarstofnun mun hafa með höndum. Henni verður annaðhvort heimilt að fela það faggiltum skoðunarstofum eða að annast það sjálf og þarf þá að afla sér faggildingar. Í frumvarpinu eru tiltekin þau hæfnisskilyrði sem aðilar þurfa að uppfylla til að geta öðlast faggildingu og er gert ráð fyrir að þau sé misströng eftir umfangi mannvirkjagerðarinnar.

Í frumvarpinu er lagt til að fleiri mannvirki en áður verði háð byggingarleyfi. Hér er einkum um að ræða virkjanir, fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta auk mannvirkja á hafi utan sveitarfélagamarka. Í flestum tilfellum eru þessi mannvirki háð framkvæmdarleyfi samkvæmt gildandi lögum en verða samkvæmt frumvarpinu háð byggingarleyfi í staðinn. Áfram er gert ráð fyrir að tiltekin mannvirki falli utan gildissviðs laganna, svo sem hafnir, varnargarðar og samgöngumannvirki. Þessi mannvirki og eftirlit með þeim falla undir aðra löggjöf, svo sem vegalög og siglingalög, og því eru þau undanþegin ákvæðum þessa frumvarps.

Í frumvarpinu er lögð á það áhersla að skýra hlutverk og ábyrgð eiganda mannvirkis, hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara betur en gert er í gildandi lögum. Tekið er fram að hin endanlega ábyrgð sé eigandans en hann ráði til sín fagaðila sem sjái um afmarkaða þætti mannvirkjagerðarinnar og beri ábyrgð gagnvart eiganda. Þeir sjái um innra eftirlit eigandans og bæti gæðastjórnunarkerfum við undirbúning og stjórnun framkvæmda. Í frumvarpinu er leitast við að tryggja öguð vinnubrögð þeirra sem að mannvirkjagerðinni koma með því að gera kröfu um að þeir hafi gæðastjórnunarkerfi varðandi þá þætti rekstrar sem snúa að lögum og reglugerðum um mannvirkjagerð. Á þetta bæði við um hönnuði, byggingarstjóra og iðnmeistara. Vonast er til þess að þessi ákvæði leiði til bættra vinnubragða við mannvirkjagerð og verði þar með til hagsbóta fyrir neytendur í landinu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Byggingarstofnun rannsaki sérstaklega tjón á mannvirkjum sem valda manntjóni eða alvarlegri hættu, svo sem af völdum veðurs, jarðskjálfta, flóða eða annarrar náttúruvár, eða ef mannvirki t.d. hrynja eða skemmast illa af óþekktum ástæðum. Hugsunin að baki því ákvæði frumvarpsins er að finna orsakir slíkra tjóna, læra af mistökum sem kunna að hafa átt sér stað við hönnun eða gerð þeirra. Einnig gætu slíkar rannsóknir leitt í ljós að breyta þurfi reglum um hönnun og byggingu mannvirkja. Nokkuð hefur skort á að slíkar rannsóknir fari fram með skipulögðum og markvissum hætti hér á landi. Þessu til viðbótar skal Byggingarstofnun samkvæmt ákvæðum frumvarpsins árlega gefa út skýrslu um stöðu og þróun mannvirkjagerðar í landinu í því skyni að auka yfirsýn yfir þennan víðfeðma og flókna málaflokk.

Frú forseti. Lagt er til að gjald með nýju heiti, byggingaröryggisgjald, muni fjármagna starfsemi Byggingarstofnunar. Ekki er um nýtt gjald að ræða heldur hefur ákvæði um svokallað brunavarnagjald, sem innheimt hefur verið á grundvelli laga um brunavarnir, verið fært inn í frumvarp til laga um mannvirki. Skattstofn gjaldsins er óbreyttur og er það innheimt áfram af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu. Hér er hins vegar lagt til að gjaldið verði hækkað úr 0,045 prómillum í 0,07 prómill. Hingað til hefur brunavarnagjald verið einungis ætlað að standa undir rekstri Brunamálastofnunar vegna yfirumsjónar með brunavörnum en hér er lagt til að byggingaröryggisgjaldið renni til Byggingarstofnunar og standi þannig undir kostnaði við yfirumsjón byggingaröryggismála almennt. Með því að leggja slíkt gjald á brunatryggingar er gjaldtökunni dreift á mörg ár, þ.e. allan líftíma mannvirkisins, í stað þess að innheimta hærra gjald einu sinni í upphafi mannvirkjagerðar. Eigendur mannvirkja eiga að njóta góðs af yfireftirliti og umsjón Byggingarstofnunar allan líftíma mannvirkisins og því mæla góð rök með því að þessi leið verði valin.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Breytingin er fólgin í því að árlegt gjald af brunatryggðum húseignum, sem er helsti tekjustofn ofanflóðasjóðs, lækkar úr 0,3 prómillum í 0,22 prómill. Fjárþörf ofanflóðasjóðs er mætt þrátt fyrir þá lækkun sem hér er lögð til en framkvæmdartími hefur lengst frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir. Þessi lækkun mun vega upp á móti hækkun brunavarnagjaldsins, sem í frumvarpinu er nefnt byggingaröryggisgjald eins og áður segir. Gjaldtaka af brunatryggingum húseigna lækkar því þegar á heildina er litið.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið í stuttu máli meginefni frumvarps til laga um mannvirki og ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.



[18:00]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir framsögu sem hún hafði með frumvarpi til laga um mannvirki. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarpið því að eins og fram kom í máli ráðherrans er þetta mál tengt því sem við vorum að ræða áðan. Nú er verið að gera þá meginbreytingu að skipulags- og byggingarlögum sem nú eru í gildi — þau tóku gildi fyrir tíu árum — er skipt í tvo lagabálka, skipulagslög annars vegar og mannvirkjalög hins vegar, verði frumvörpin samþykkt eins og þau eru hér lögð upp.

Ég vil fyrst nefna eitt atriði sem kannski hefði mátt nefna líka í umræðunni um frumvarp til skipulagslaga og það er kostnaðarmat lagafrumvarpa almennt. Í samstarfssamningi ríkis og sveitarfélaga er kveðið á um að lagafrumvörpum skuli fylgja kostnaðarmat þar sem lagt er mat á kostnað sveitarfélaga, verði viðkomandi frumvarp samþykkt. Ég sakna þess að ekki skuli fylgja kostnaðarmat með frumvarpinu og það ég hef áður tekið upp í þessum ræðustól. Frumvörp hafa komið hér fram án þess að kostnaðaráhrif séu metin. Ekki er lítil ástæða til þess að geta þess eða nefna það þegar um er að ræða frumvörp á þessu sviði þar sem bersýnilegt er að þau snerta sveitarfélögin mjög. Vafalítið munu þau hafa í för með sér áhrif á sveitarfélögin, hugsanlega til kostnaðarauka, það þori ég ekki að fullyrða. Ástæða hefði verið til að eitthvert mat hefði legið fyrir og fylgt frumvarpinu eins og kveðið er á um í samstarfssamningi ríkis og sveitarfélaga. Ég spyr hæstv. ráðherra því hvort henni sé kunnugt um hvort einhver slík vinna hafi farið fram eða hvort reynt hafi verið að nálgast það með einhverjum hætti?

Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að auðvitað eru mörg tæknileg atriði í frumvarpinu um mannvirki. Engu að síður eru hér nokkrar pólitískar prinsippspurningar á ferðinni eftir sem áður. Þó að ég ætli ekki að fara í tæknileg atriði í þessari umræðu vil ég aðeins nefna nokkrar spurningar sem vakna í tengslum við málið.

Í fyrsta lagi er það auðvitað ákvörðunin um að skipta skipulags- og byggingarlögum upp í tvo lagabálka. Ég vil geta þess að strax árið 2002 þegar ég tók sæti í nefndinni sem vann fyrstu tillögu að breyttum skipulagslögum, gerði ég grein fyrir afstöðu minni og Sambands ísl. sveitarfélaga gagnvart umhverfisráðuneytinu, að við værum andvíg því að þessum lögum yrði skipt í tvennt. Hæstv. ráðherra hefur rakið það ágætlega og fært rök fyrir því að byggingarlögin séu tæknilegs eðlis á meðan skipulagslögin eru meira pólitísks eðlis og þess vegna séu rök fyrir því að skipta þeim upp. Rökin á móti eru hins vegar þau að málin eru mjög samtengd og samtvinnuð. Úti í sveitarfélögunum þar sem verið er að vinna með skipulags- og byggingarmálin frá degi til dags eru þau algjörlega samtvinnuð og víðast hvar í stjórnsýslu sveitarfélaganna eru þau einnig á sömu hendi. Meira að segja er sérstaklega getið um það í frumvarpi til mannvirkjalaga að heimilt sé að reka þau sameiginlega, að heimilt sé að fela byggingarfulltrúum að fara einnig með hlutverk skipulagsfulltrúa. Að vísu sýnist mér það ekki vera á hinn veginn, að fela megi skipulagsfulltrúum að vera byggingarfulltrúar og má spyrja sig að því af hverju það er. Það er arfleifð úr gömlu lögunum, held ég, að heimilt sé að fela byggingarfulltrúum að fara jafnframt með hlutverk skipulagsfulltrúa. Tíðkast hefur í mörgum sveitarfélögum mjög lengi að skipulagsnefndir og byggingarnefndir hafa verið ein og sama nefndin. Það hafa verið rökin fyrir því að eðlilegt sé að líta til þess — ekki síst vegna þess að þar er verið að praktísera lögin frá degi til dags. Ég bendi á að eðlilegt sé að fara enn á ný yfir þetta og heyra betur rökin með og á móti í umsögnum þeirra sem fá málið til umfjöllunar og síðan innan umhverfisnefndar.

Ég velti líka fyrir mér ákvörðuninni sem hér er tekin um að leggja niður byggingarnefndirnar. Að vísu tek ég eftir því að í framsöguræðu ráðherrans hefur hún aðeins dregið úr hvað þetta snertir í orðalagi frá því sem er í greinargerð með frumvarpinu. Í greinargerð með frumvarpinu er beinlínis sagt að leggja eigi niður byggingarnefndirnar en hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að ekki væri lengur skylt að setja á laggirnar byggingarnefndir. Mér finnst rétt að draga það fram og taka framsöguræðu ráðherrans með inn í nefndarvinnuna. Mér segir svo hugur að þetta sé hugsanlega í samhengi við að í 40. gr. sveitarstjórnarlaga er sérstakt ákvæði sem heimilar sveitarstjórnum að setja á laggirnar nefndir um hvert það mál sem sveitarfélögin fást við og sem þær kjósa.

Á vegum sveitarfélaganna starfa ýmsar lögbundnar nefndir. Það eru nefndir sem sveitarfélögum ber skylda til að setja á laggirnar samkvæmt lögum, og/eða nefndir sem ekki eru lögskipaðar heldur eru þær skipaðar einfaldlega vegna þess að sveitarfélagið hefur sjálft ákveðið að setja þær á laggirnar. Mér sýnist því að sveitarstjórnarlögin mundu eftir sem áður heimila sveitarfélögum að setja á laggirnar byggingarnefnd til þess að fjalla um byggingarmál. Munurinn á þessu yrði engu að síður sá að þær hefðu ekki lögformlega stöðu til að fjalla um mál. Væntanlega væri ekki hægt að kæra ákvarðanir eða áfrýja ákvörðunum byggingarfulltrúa til byggingarnefnda eins og er gert í dag sem er mjög mikilvægt tæki fyrir íbúann, þann sem leitar til byggingarfulltrúa. Ef byggingarfulltrúi synjar umsókn um byggingarleyfi er nú heimild til þess að skjóta til byggingarnefndar og jafnvel áfram til sveitarstjórna. Ég fæ ekki séð að í þessu frumvarpi séu slíkar kæruleiðir sem ég held að sé mjög mikilvægt að fara yfir hvernig á að bera sig að. Hér er bara um að ræða þennan almenna rétt sem hver einstaklingur sem leitar til stjórnvalds verður að hafa til þess að fá málum sínum framgengt þannig að hann sé ekki bundinn því að ef byggingarfulltrúi segir nei þá verði hann að fara alla leið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Þetta tel ég vera galla og þess vegna velti ég upp þeirri spurningu hvort rétt sé að leggja niður byggingarnefndirnar.

Ég ætla líka að velta upp spurningunni um hvort Byggingarstofnun eigi að gefa út byggingarleyfi. Ég hef miklar efasemdir um að taka eigi ákveðna gerð af byggingarleyfum frá sveitarstjórnum og fela sérstakri ríkisstofnun, Byggingarstofnun. Þetta er einfaldlega hlutur sem ég áskil mér rétt til að fara betur yfir á vettvangi nefndarinnar og leita frekari röksemda fyrir og reyna að átta mig á afleiðingum þessa ef einhver byggingarstofnun væri staðsett í Reykjavík, væntanlega. Vegna þess að hæstv. byggðamálaráðherra er staddur hér verður hún kannski staðsett einhvers staðar annars staðar, það verður fróðlegt að heyra um það. Maður veltir fyrir sér hvort gefa eigi út byggingarleyfi hér í Reykjavík fyrir hvaða mannvirki sem er sem heyra undir Byggingarstofnun hvar sem er á landinu með það óhagræði sem það hefur bersýnilega í för með sér. Ég set spurningarmerki við þetta atriði.

Varðandi Byggingarstofnun var aðeins rætt um skipulagslögin, að verið væri að setja á fót nýja stofnun, þetta væru tvær litlar stofnanir. Nú er þetta í raun þannig að verið er að taka byggingarmálin frá Skipulagsstofnun og færa þau ásamt Brunamálastofnun og verkefnum hennar saman í eina stofnun, Byggingarstofnun. Ég tel það fullkomlega eðlilegt að við veltum fyrir okkur hvort skynsamlegra kunni að vera að reka þetta í einni stofnun, eins og komið hefur verið inn á í umræðunni.

Ég tek reyndar undir það með hæstv. umhverfisráðherra að ekki má nálgast umræðuna út frá því hvort sameina eigi stofnanir sameiningarinnar vegna, vegna þess að menn séu frekar hlynntir einni stofnun en tveimur. Sú umræða verður auðvitað að vera á faglegum forsendum, hvort þessi mál falli vel saman í einni stofnun eða ekki. Ég minni á það sem ég sagði áðan, að á vettvangi eru þessi mál algerlega nátengd og byggingarleyfi og mannvirki byggja á skipulagi. Það verður engin bygging eða mannvirki heimiluð nema á grundvelli skipulags þannig að málin eru svo nátengd að frá mínum bæjardyrum séð eru full fagleg og efnisleg rök fyrir því að þau heyri undir eina stofnun. Það er eðlilegt að nefndin fari þá yfir röksemdirnar betur og fái til sín sérfræðinga sem fjalla um þessi mál frá degi til dags. Við heyrum þá röksemdir þeirra fyrir því að hafa málin með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Í 4. gr. er m.a. fjallað um hlutverk sveitarstjórnanna. Þar er sagt að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og framkvæmd eftirlits byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laga þessara, það er eðlilegt. Þegar sagt er um leið að sveitarstjórnir beri ábyrgð á því að stjórnsýslan og framkvæmd eftirlits byggingarfulltrúa séu í samræmi við ákvæði þessara laga finnst mér þeim mun meiri ástæða til að sveitarstjórnin geti og eigi að hafa sérstaka byggingarnefnd sem hefur það hlutverk. Ég sé ekki fyrir mér að sveitarstjórnin sjálf, t.d. borgarstjórnin í Reykjavík, fari yfir einstakar byggingarleyfisafgreiðslur (Gripið fram í.) og að eðlilegt sé að — já, það er byggingarnefnd sem hefur þetta hlutverk í dag. Ég sé ekki alveg fyrir mér að eðlilegt sé að vísa því yfir á sveitarstjórnirnar sjálfar, eins og mér sýnist að frumvarpið geri ráð fyrir. Ég vil því halda því sterklega til haga í þessu samhengi.

Ég nefndi einnig að Byggingarstofnun sé falið að gefa út byggingarleyfi. Ég held að mjög sterk rök séu fyrir því að skoða eigi það ákvæði frumvarpsins betur hvort skynsamlegt sé að taka ákveðna tegund mannvirkja úr hendi sveitarfélaganna og setja í sérstaka stofnun. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það sé skynsamlegt og vil halda því áfram inni í umræðunni.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál, frú forseti, en ég ætla að nefna 50. gr. sem fjallar um gjaldtökuheimildir. Þar er sveitarstjórnum veitt heimild til að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu. Eins og venjan er um gjaldtökuheimildir opinberra stofnana er sérstaklega tekið fram að gjaldið megi ekki nema hærri upphæð en þeim kostnaði sem er af þjónustunni í heild sinni. Ég þekki svo mörg dæmi um að kostnaður sveitarfélaganna, byggingarfulltrúaembættanna, er gríðarlega mikill við yfirferð á teikningum og uppdráttum og sérteikningum o.s.frv. sem koma skipti eftir skipti til meðhöndlunar hjá þessum embættum. Ég held því að aðeins þurfi að fara yfir hvort hægt sé að skýra eitthvað betur hvaða gjaldtökuheimildir eru raunverulega til staðar. Skýra þarf hvort hér sé bara um eitthvert eitt almennt gjald að ræða sem allir borga eða hvort hugsanlega eigi að hafa heimildir til að taka viðbótargjald fyrir þann sem kemur með umsókn sína aftur og aftur af því að hún er svo illa unnin að starfsmenn stofnunarinnar þurfa margsinnis að fara yfir sömu umsókn og leggja mikla vinnu í hana.

Þetta eru bara örfá atriði, frú forseti, sem ég vildi nefna í sambandi við frumvarpið. Eins og hér hefur komið fram er málið tæknilegs eðlis og þarf að fara rækilega yfir það í nefndinni. Það hangir að sjálfsögðu með skipulagslögum, óhjákvæmilegt er að þau fylgist að í umfjöllun nefndarinnar. Þau þurfa að fylgjast að við afgreiðslu hér á hv. Alþingi þar sem þau leysa væntanlega af hólmi ein lög.



[18:14]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við erum þegar tekur að líða á þennan ágæta dag að ræða frumvarp til laga um mannvirki. Þau eru sýnu efnismeiri, víðtækari og viðameiri en sá lagabálkur sem við vorum að ræða áðan, skipulagslögin. Það er ekki síður mikilvægt að þessi lög sem við erum að fjalla um verði heilsteypt. Kannski sökum þess hversu stór og viðamikill þessi lagabálkur er þá eru efnisatriði þau sem ég kem inn á minni. Ég hef ekki öðlast þá miklu reynslu eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson að vera búinn að sitja hátt í áratug í nefnd er undirbjó þessa lagabálka og þekkir þess vegna forsöguna og hverja grein eins og fingurna á sér. Það er gott að hafa slíkan mann í umhverfisnefnd og margt af því sem hv. þingmaður sagði áðan, margt, allflest get ég tekið undir. Ég er sammála honum um mjög margt og þess vegna get ég stytt mál mitt hvað það varðar. Málið er sem sé viðamikið og það er flókið. Það er alls ekki einfalt að koma svona lagabálk saman. Það er í eðli sínu flókið, ekki að það sé verið að flækja það endilega í þessu frumvarpi.

Ég hef sagt það fyrr í dag um skipulagslögin að það sé mín skoðun að fara eigi ítarlega í saumana á því hvort ekki sé rétt að hafa þetta innan einnar stofnunar, skipulags- og byggingarmálin, og ætla ekkert að fara fleiri orðum um það. Mikilvægi þessa lagabálks varðar viðhald og rekstur bygginga. Við þekkjum þá sögu á Íslandi að undangengna áratugi höfum við verið að fjárfesta gríðarlega mikið í nýbyggingum. Viðhaldskostnaður hefur ekki verið í takt við þær miklu nýframkvæmdir vegna þess að við erum með ungar byggingar í landinu. En nú næstu árin og næstu áratugina mun þetta dæmi snúast við þannig að viðhaldskostnaður mun fara að verða meiri en jafnvel nýframkvæmdir og þess vegna er og hefur alla tíð verið gríðarlega mikilvægt að vandað sé til bygginga. Það getum við sagt að sé okkar sjálfbæra þróun að viðhald og rekstur bygginga sé þannig að kostnaðurinn verði sem lægstur og þar skiptir máli auðvitað eftirlitsþátturinn. Við höfum heyrt um og vitum um dæmi þess að það hafi ekki verið vandað nóg til nýbygginga hér á landi. Ég held að þessi lög muni bæta þar um.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom aðeins inn á byggingarfulltrúana um það nýmæli sem hér er lagt til um að þeir verði lagðir niður. Ég get fullkomlega, eins og ég sagði áðan, tekið undir hans afstöðu hvað það varðar og það mun hv. umhverfisnefnd skoða enn frekar.

Mig langar aðeins að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um 2. gr. frumvarpsins. Reyndar kemur það inn á fleiri greinar eins og 8. gr. Það er um gildissviðið, hvaða framkvæmdir þetta taki yfir og eins um byggingarleyfin. Mig langaði að hafa spurninguna þess eðlis hvort eðlilegt sé að tengja saman gildissviðið og byggingarleyfisskyldar framkvæmdir við þær framkvæmdir sem borga fasteignagjöld. Það er ekki tekið á því neitt. Nú þekkjum við það að fasteignagjöld eða lög um fasteignagjöld fara ekki alveg saman við það sem þarna er verið að tala um. Mig langar aðeins að fá að vita hvort það hefði verið í umræðunni eða til skoðunar við þessa lagasmíð og sjáum hvort það sé raunhæft að gera það.

Síðan kemur fram í 13. gr. gildistími byggingarleyfa. Ég ætla örskot að fara inn í greinina. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Byggingarleyfi fellur úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Í reglugerð skal kveða nánar á um hvenær talið er að byggingarframkvæmdir séu hafnar.“

Þarna finnst mér annars vegar lögin segja þetta 12 mánaða tímabil en svo gefur aftur reglugerðin færi á að túlka þetta með sínum hætti. Þetta finnst mér vera atriði við yfirlestur þessa frumvarps sem ég hjó eftir og vildi ég spyrja um það.

Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort það sé ekki í takt og stefna núverandi ríkisstjórnar að þær nýjar stofnanir sem verða búnar til — sem ég vænti og vona að verði ein eins og fram hefur komið í mínum ræðum — hvort það væri ekki eðlilegt að slík stofnun verði einhvers staðar utan höfuðborgarsvæðisins.



[18:21]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar spurningu hv. þm. Kjartans Ólafssonar um 2. gr. frumvarpsins, um það hvort sú hugmynd hafi verið rædd að tengja fasteignagjöldin við þessa skilgreiningu þá skilst mér að það hafi ekki verið gert og það hafi ekki verið til umræðu í þessu langa ferli.

Hvað varðar 13. gr. þá verður einfaldlega að gæta þess að samræmi sé á milli lagabókstafsins og reglugerðarinnar.

Ég vil vara hv. þingmenn við því að fara mjög langt á undan sér í umræðunni um eina nýja stofnun. Hér er ekki verið að leggja það til í þeim frumvörpum sem við höfum verið að ræða, frumvarpi til skipulagslaga og frumvarpi til laga um mannvirki heldur það að sundurgreina og skýrt skilgreina þá stjórnsýslu sem hér er á ferðinni og gera hana í raun skýrari og gegnsærri en hún hefur verið auk þess, sem er atriði sem má ekki gleymast í þessari umfjöllun, að hér er verið að lyfta, bæta og efla byggingarhlutann, eftirlitshlutann með mannvirkjum og nýbyggingum hér á landi og þar hefur vantað upp á á síðustu árum og áratugum. Við þurfum að bæta þann hluta og við teljum að við gerum það best með þessum hætti.



[18:23]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið hjartanlega sammála hæstv. umhverfisráðherra varðandi byggingareftirlit. Þar þurfum við að bæta okkur og það er ætlan frumvarpsins. Ég er sannfærður um að við náum því að vinna þar gott verk og nauðsynlegt verk eins og ég benti á í minni stuttu ræðu, þ.e. að viðhald og rekstur bygginganna er það sem skiptir máli fyrir framtíðina.

Að öðru leyti var ég sammála hæstv. umhverfisráðherra.



[18:23]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er hér til umfjöllunar síðara frumvarpið af tveimur sem leysa eiga af hólmi lög nr. 73/1997 og það frumvarpið sem fremur er tæknilegs eðlis eða meira tæknilegs eðlis en pólitísks og eðlilegt þess vegna að umræða um það verði nokkru skemmri og hafi nokkuð verið reifað í hinni fyrri umræðunni. Ég held þó að það megi klárlega segja um það frumvarp um mannvirki sem hér fyrir liggur að í því felast verulegar framfarir í byggingareftirliti og ýmsar nýjungar á því sviði sem vissulega sé þörf á og sú þróun sem við höfum fylgst með í byggingariðnaði á undanförnum árum gefur fullt tilefni til að endurskoða og efla alhliða byggingareftirlit en fram til þessa höfum við sem kunnugt er lagt mikla áherslu á eldvarnarþáttinn en kannski síður á ýmsa aðra þætti í byggingareftirliti.

Hér er það auðvitað eins og með fyrra frumvarpið að það skarast að nokkru við hlutverk og valdmörk ríkis og sveitarfélaga enda sveitarfélögin á sínum tíma stofnuð beinlínis um brunavarnir og fátækraframfærslu og í þeim skilningi einhvers konar tryggingafélög síns tíma. Þess vegna er rík hefð fyrir því að þau mál liggi heima í héraði og þær efasemdir sem hér hefur verið hreyft um að leggja af byggingarnefndirnar eru þess vegna eðlilega fram komnar. En ég tel að sú áhersla sem hæstv. ráðherra lagði á það í sinni framsögu um að eftir sem áður væri það heimilt mæti nú þeim sjónarmiðum að nokkru.

Á sínum tíma átti ég sem formaður stjórnkerfisnefndar Reykjavíkurborgar frumkvæði að því að hér voru sameinaðar í eina nefnd byggingarnefnd og skipulagsnefnd. Það var eftir að rannsókn leiddi í ljós að íbúunum var vísað á milli nefndanna í tíma og ótíma jafnvel ítrekað þannig að það að tvískipta því var til verulegs trafala fyrir þá sem njóta áttu þjónustunnar. Það var þess vegna til einföldunar gert og hefur síðan verið. En ég tek undir með hv þingmanni Árna Þór Sigurðssyni að það væri þó ákjósanlegt að það væri ekki aðeins heimilt að starfrækja slíkar nefndir heldur mikilvægt að við tryggjum að það séu áfrýjunarleiðir heima í héraði vegna þess að eins og hér kom fram hjá hæstv. ráðherra þá hefur málafjöldi verið óhóflegur hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Fjárveitingar þar eru af skornum skammti og þess vegna er brýnt, og líka bara út frá almennum sjónarmiðum, að sem allra flestum ágreiningsmálum megi ráða til lykta heima í héraði og að þar hafi menn leiðir til þess og úrræði til þess en sem fæst þurfi að koma til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála þó að auðvitað verði það eftir sem áður talsverður málafjöldi sem það gerir.

Ég held líka að það megi ráða af umræðunni hér að menn hljóta að skoða það hvort mannvirkjastofnunin eigi að vera sérstök stofnun. Ég vek þó athygli á því að það er ekki ný stofnun í sjálfu sér því að við höfum Brunamálastofnunina fyrir og það er í raun og veru bara útvíkkun á hennar verksviði og meiri samhæfing í eftirliti með byggingum almennt sem þeirri stofnun væri falið þannig að við erum ekki að búa bara til hreinlega nýja ríkisstofnun með þessu. En það er sjálfsagt að skoða hvort það væri ávinningur að því að hafa skipulags- og byggingarmálin í einni stofnun eins og þau eru víða rekin í einni og sömu nefndinni og í einu og sama embættinu hjá sveitarfélögunum. En ég tek undir með hæstv. ráðherra að ég tel að hingað til hafi í umræðunni ekki komið fram þau efnisrök fyrir því að hafa þetta eina og sömu stofnunina sem duga til þess að gera þær breytingar á málinu. En það getur auðvitað ýmislegt komið fram við umfjöllun nefndarinnar.

Þá vil ég í þriðja lagi nefna byggingaröryggisgjaldið. Það felur í sér nokkuð hærri gjaldtöku en það nú er og við erum sömuleiðis að sjá ný störf verða til í eftirliti. Það er mikilvægt að Alþingi fari vel yfir þá þörf sem hér er verið að mæta, hversu mikil hún er og hvaða kostnaður því verði samfara og veiti það aðhald með stjórnsýslunni í aukinni eða nýrri gjaldtöku sem eðlilegt er að þingið veiti.

Þess utan verða fjölmörg mál sem umhverfisnefndin þarf að skoða sérstaklega. En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera vel grein fyrir málinu hér og hlakka til að fást við það í góðri samvinnu við aðra nefndarmenn í umhverfisnefnd.



[18:30]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nýta þetta andsvar til þess að svara spurningum sem komu frá hv. þm. Helga Hjörvar og hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, þeim síðarnefnda um kostnaðarmat fyrir sveitarfélögin. Það mun hafa farið fram og komið í ljós að af þessu breytta fyrirkomulagi væri ekki kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin í landinu.

Hvað varðar áfrýjunarleiðir í héraði þá hefur komið fram við umræðu og undirbúning þessa máls sú ábending að þær þyrfti að skoða betur. Áfrýjunarleiðin í frumvarpinu er til úrskurðarnefndarinnar og með einhverjum hætti, ef ég man rétt, beint til Byggingarstofnunar sem er eftirlitsaðili í málinu. Ég legg það í hendur hv. umhverfisnefndar og formanns hennar, hv. þm. Helga Hjörvars, að skoða það mál nákvæmlega við umfjöllunina í nefndinni.



[18:31]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um mannvirki sem hæstv. umhverfisráðherra hefur lagt fram. Eins og fram hefur komið í umræðunni eru þau frumvörp sem hér eru til umræðu nátengd.

Mig langar að gera að umtalsefni nokkrar greinar þessa frumvarps. Í fyrsta lagi 7. gr., um byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi er ráðinn af sveitarstjórn en þó að hún beri ábyrgð á því að ráða hann hefur hún, eins og ég get lesið út úr þessari grein, afar litla íhlutun í störf hans almennt. Þá er komið að því hver sé réttarstaða byggingarfulltrúans sem starfsmanns sveitarfélagsins án þess að sveitarfélagið hafi yfir höfuð íhlutunarrétt í störf hans á einn eða annan hátt. Mér fannst hæstv. umhverfisráðherra svara ágætlega spurningum um áfrýjunarleiðir sem hugsanlega þarf að skoða heima í héraði vegna þess að samkvæmt þessu og samkvæmt stöðu byggingarfulltrúa eru allar ákvarðanir hans stjórnvaldsákvarðanir og ekki bundnar samþykki eða ákvörðun sveitarstjórna. Þetta er bara stjórnvaldsákvörðun og samkvæmt henni er ákvörðun hans ein og sér, miðað við þetta, beint áfrýjunarferli til úrskurðarnefndarinnar margfrægu og því þarf með einhverjum hætti að hafa þessar áfrýjunarleiðir klárari heima í héraði.

Ég tel einnig að bæði í 9. gr. og 10. gr. þurfi að skerpa dálítið betur á hlutverki hvors um sig, Byggingarstofnunar annars vegar og byggingarfulltrúa hins vegar, um það hvor er að gefa út leyfi og fyrir hvað, því að þar stendur „byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Byggingarstofnun“. Þetta er orðað með þessum hætti í báðum greinunum og ég tel að það þurfi að vera skýrara hvað átt er við um hvora stofnun fyrir sig.

Ég ætla einnig að vekja athygli á 16. gr. þar sem talað er um framkvæmd eftirlits með mannvirkjum. Ég verð reyndar, hæstv. forseti, að fá að koma því að að orðið „mannvirki“ er fyrir mér eiginlega hálfgerður tungubrjótur vegna þess að mér finnst bara vont að líta á venjulegt hús heima í minni sveit sem mannvirki — ég hefði kannski kosið að þetta væru mannvirkja- og byggingarlög — og þó að vissulega megi heimfæra orðið mannvirki á hvað sem er, þá er það svolítill tungubrjótur.

Í 16. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Eftirlit með mannvirkjum skal framkvæmt í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka sem Byggingarstofnun býr til á grundvelli ákvæða laga þessara og reglugerða …“

Hins vegar er nú komið upp ágreiningsmál um túlkun. Í skoðunarhandbókinni er Byggingarstofnun úrskurðaraðili og jafnframt stendur að álit Byggingarstofnunar og eftir atvikum ráðherra sé bindandi fyrir aðila máls. Hugsanlega þyrfti að skoða þetta frekar og beini ég þá tilmælum mínum til hv. formanns umhverfisnefndar að skoða það.

Síðan tel ég að gera megi athugasemd við 17. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Byggingarstofnun getur tekið til athugunar að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög.“

Þarna hefur Byggingarstofnun, sem er stjórnsýslustig ríkisins, íhlutun í annað stjórnsýslustig, sem er sveitarfélagið, og getur samkvæmt 17. gr. eins og greint er frá í greinargerðinni, farið hér inn og án andmælaréttar af hálfu byggingarfulltrúa eða sveitarstjórnar. Ég bendi á þessa grein og bið um að kannað sé hvort það standist.

Ég vil jafnframt þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þetta frumvarp. Fyrir mig er það að mörgu leyti allt of tæknilegt, ég hef hvorki þekkingu né færni til að taka á kannski flestöllum þáttum málsins. Hins vegar er ljóst að þetta er sett fram til að efla faglegt eftirlit og það er af hinu góða og því ber að fagna. Ég geri hins vegar athugasemdir við þær greinar sem ég hef nefnt hér og vísa því til hv. umhverfisnefndar að skoða þær frekar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til umhvn.