135. löggjafarþing — 64. fundur
 12. feb. 2008.
brunavarnir, 1. umræða.
stjfrv., 376. mál (flutningur verkefna Brunamálastofnunar o.fl.). — Þskj. 618.

[18:37]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brunavarnir. Í frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem nauðsynlegt er að gera á lögum um brunavarnir vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til á löggjöf um byggingarmálefni í frumvarpi til laga um mannvirki. Einnig eru lagðar til nokkrar breytingar til viðbótar sem æskilegt er talið að gerðar verði á lögum um brunavarnir í ljósi reynslu þeirra sex ára sem lögin hafa verið í gildi.

Í frumvarpi til laga um mannvirki eru, eins og ég lýsti í framsöguræðu minni um það, lagðar til margháttaðar breytingar á stjórnsýslu byggingarmála. Er lagt til að hin nýja stofnun, Byggingarstofnun, taki við því hlutverki sem Brunamálastofnun hefur sinnt á grundvelli laga um brunavarnir. Í frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir er gert ráð fyrir að öll ákvæði sem verið hafa í lögum um brunavarnir varðandi hlutverk Brunamálastofnunar færist undir lög um mannvirki og undir Byggingarstofnun. Enn fremur er lagt til að brunamálaráð verði lagt niður.

Í frumvarpi til laga um mannvirki er lagt til að Byggingarstofnun leiti í störfum sínum samráðs við hina ýmsu aðila, þar með talið Samband íslenskra sveitarfélaga. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að sérstakt fagráð starfi að baki stofnunarinnar heldur leiti stofnunin þeirrar ráðgjafar sem hún þarfnast hverju sinni eftir aðstæðum. Útvíkkun á hlutverki stofnunarinnar kallar á samráð við mun fleiri aðila en þá sem setið hafa í brunamálaráði. Eðlilegt er að stofnunin skipuleggi sjálf einhvers konar samráðsvettvang, mismunandi eftir málefnum og málaflokkum sem undir stofnunina heyra. Ekki er talin þörf á að binda slíkt samráð eða fyrirkomulag þess í lög umfram það sem gert er í frumvarpi til laga um mannvirki. Auk þessa er lagt til að skólaráð Brunamálaskólans verði lagt niður í núverandi mynd en í stað þess verði skipað sérstakt fagráð sem hafi það hlutverk að vera Byggingarstofnun til ráðgjafar um fagleg málefni Brunamálaskólans. Gert er ráð fyrir að sömu aðilar tilnefni í fagráð Brunamálaskólans og skólaráð, þ.e. Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna auk þess sem formaður er skipaður af ráðherra án tilnefningar.

Gert er ráð fyrir að lög um brunavarnir haldi gildi sínu sem sjálfstæð lög og að mestu óbreytt fyrir utan þær breytingar á yfirstjórn málaflokksins sem hér eru raktar, enda hafa þau í aðalatriðum reynst vel frá því að þau voru sett árið 2000.

Meðal annarra breytinga má nefna að lagt er til að björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum verði eitt af lögbundnum hlutverkum slökkviliða. Í meira en áratug hafa langflest slökkvilið landsins sinnt þessu verkefni án lagaskyldu. Björgun fólks úr farartækjum, t.d. eftir umferðarslys, krefst sérhæfðs búnaðar og þjálfunar þeirra sem búnaðinn nota. Þegar beita þarf slíkum tækjum er nauðsynlegt að slökkvilið sé á staðnum vegna eldhættu við farartækið. Hefur því skapast sú hefð að slökkvilið sinni þessu verkefni og er kennsla í meðferð búnaðarins hluti af námsefni Brunamálaskólans. Búnaðurinn nýtist einnig við björgun fólks úr mannvirkjum. Var ákveðið, að höfðu samráði við dómsmála- og samgönguráðuneytið, að lögbinda þetta hlutverk við slökkvilið landsins. Með því að gera verkefnið lögbundið er tryggt að þessi þjónusta sé fyrir hendi á öllu landinu og hún uppfylli tilteknar lágmarkskröfur.

Önnur breyting sem lögð er til er að ákvæðum um slysatryggingu slökkviliðsmanna verði breytt og kveðið á um að þeir njóti sambærilegs réttar til bóta og aðrar starfsstéttir sem sinna hættulegum störfum, svo sem lögreglumenn og sjómenn.

Virðulegur forseti. Ég hef í stuttu máli rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.



[18:41]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir sem er að mörgu leyti gott frumvarp. En í því er eitt atriði sem ég vil sérstaklega gera athugasemdir við. Ég hef áður gert ráðherra og þeim sem komu að þessari vinnu grein fyrir athugasemdum mínum þar að lútandi. Það snýr að nokkrum greinum frumvarpsins þar sem talað er um björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði.

Við höfum í mörg ár búið við ákveðið skipulag björgunarmála á Íslandi og þar hafa slökkvilið landsins klárlega stórt hlutverk. Í gangi hefur verið ákveðin verkaskipting milli þessara aðila þegar unnið er í hinum mismunandi verkefnum og ég vildi koma því að en í greinargerð með þessu frumvarpi er talað um að í langan tíma hafi flest slökkvilið landsins sinnt þessu verkefni án lagaskyldu, þ.e. björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum. En það er það ekki alls kostar rétt. Það hefur þróast með þeim hætti að björgun á fastklemmdu fólki úr farartækjum hefur í flestum tilfellum verið verkefni slökkviliða landsins. Þó eru undantekningar á því en ég er sammála því að binda í lög að þetta verði lögbundið verkefni þessara aðila. Ég tel það eðlilegt að þegar er að ræða umferðarslys eða flugslys eða önnur slys með farartækjum þar sem þau skemmast það mikið að fólk er fast í þeim og þarf að beita klippivinnu, þá sé það lögbundið hlutverk slökkviliða að sjá um það verkefni.

Þetta hefur þróunin verið, eins og ég segi. Þetta hefur á flestum stöðum verið á könnu slökkviliða. Sums staðar hafa björgunarsveitir reyndar séð um þetta og kaup á búnaði. En víða úti á landi er það sama fólkið sem sinnir þessum störfum á hinum fámennari stöðum þótt á höfuðborgarsvæðinu og svona fjölmennari stöðum komi hópur fólks að verkefninu.

Þegar kemur að vinnu við björgun úr mannvirkjum, svokallaðri rústabjörgun, er um allt annan búnað, allt aðra tækni og allt aðra þjálfun að ræða en almennt er miðað við þegar fólk er klippt úr flökum. Oft þarf líka að vera að leita að fólki í rústum. Það liggur ekki fyrir hvar sá er sem leitað er að þegar bygging er hrunin eða löskuð eftir snjóflóð eða aurflóð eða byggingar hafa laskast af öðrum ástæðum eða hrunið. Það er mjög sérhæfð tækni sem og viðkvæm sem þarf til þess að leita í rústum. Það krefst mikillar þjálfunar og til þess er notaður sérhæfður búnaður, sérstakar rústamyndavélar og hlerunar- eða hlustunarbúnaður sem notaður er til að finna merki frá fólki o.s.frv. Mér er ekki kunnugt um og reyndar er ég klár á því að það er ekkert slökkvilið í landinu sem á þennan búnað eða hefur hann til umráða.

Síðan kemur til alls konar búnaður til björgunar á fólki og vinnu við að ná því úr rústum sem er að hluta til til hjá slökkviliðunum en að hluta alls ekki. Sá þáttur björgunarstarfa hefur fyrst og fremst legið hjá björgunarsveitum slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem hafa á sínum vegum sérstaka rústabjörgunarhópa og hafa með þeim hópum búið til það sem við köllum rústabjörgunarsveit félagsins sem t.d. hefur verið send til verkefna á vegum íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi.

Ég tek þetta upp hér þar sem ég tel algjörlega óhæft að lögbinda þetta hlutverk hjá slökkviliðunum. Það hefur vissulega verið ákveðið samstarf á milli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og rústasveitar slysavarnarfélagsins Landsbjargar en það hefur fyrst og fremst falist í að þeir hafa mannað ákveðnar stöður bráðatækna til að vera til staðar til að veita fyrstu hjálp og hlúa að björgunarmönnum og hugsanlega þeim fórnarlömbum sem finnast. Einnig hefur verið lánaður búnaður frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að til að fara í þessi útköll og við þær æfingar sem um er að ræða.

Slysavarnarfélagið hefur komið sér upp mikilli og góðri aðstöðu til þjálfunar og æfinga á Gufuskálum á Snæfellsnesi til að æfa þennan þátt björgunarstarfa. Ég held að vandfundin sé, þótt víðar væri leitað og þá í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við, betri aðstaða en við höfum á Gufuskálum. Aðstaðan er svo góð að það er ekki langt síðan að Belgar fengu teikningar frá félaginu til að þjálfa og æfa sína rústabjörgunarsveit og koma upp æfingaraðstöðu í Belgíu. Þeir kalla sína björgunarstöð Gufuskála.

Félagið og félagar þess vinna sín störf í sjálfboðavinnu en af fullum aga og fagmennsku og uppfylla fyllilega allar þær kröfur sem á alþjóðavísu eru settar til slíkra sveita. Því er ekki að neita að mjög sterkar hugmyndir hafa verið uppi, sérstaklega hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, um að efla þennan þátt í sínu starfi, eins og það hefur reyndar gert í björgunarmálum á mjög breiðum vettvangi. Það getur verið af hinu góða og í mörgum tilfellum er það svo. En það verður að gæta að því að við höfum ákveðna verkaskiptingu á þessum hlutum og það er ekki sjálfsagt að þau verkefni gangi á milli aðila. Við verðum að huga að því ef við ætlum ekki að fara út í það í framtíðinni að manna þetta björgunarstarf okkar algjörlega með atvinnumönnum, sem ég tel reyndar ómögulegt í þessu landi, þá verður að hafa í huga þau verkefni og þær skyldur sem hvíla á björgunarsamtökum og rýra ekki þeirra starfsgrundvöll.

Ég sagt það, virðulegi forseti, að mér er ekki kunnugt um að nokkur önnur slökkvilið á landinu en þau sem eru staðsett í næsta nágrenni við Gufuskálar hafi nokkru sinni nýtt sér þá aðstöðu sem er á Gufuskálum til þjálfunar og æfinga fyrir mannskap sinn á þessum vettvangi þrátt fyrir að það hafi staðið til boða í nokkur ár. Að þessu sögðu þá tel ég að ná þurfi samkomulagi á milli aðila og að þær greinar sem innihalda þann texta að það skuli vera lögbundið hlutverk slökkviliða að bjarga fastklemmdu fólki úr mannvirkjum verði teknar úr þessum lögum og þetta verkefni verði eftir sem áður á ábyrgð björgunarsveita. Það hefur a.m.k. enginn komið fram með þá gagnrýni að þær séu ekki til þess bærar að sinna þessu og aðrir geti gert það betur. Á meðan að svo er tel ég verkefninu sé best fyrir komið á þeim bæ og við ættum ekki að rýra starfsgrundvöll þessara sveita.

Við ættum að horfa til þess að byggja frekar í framtíðinni upp þetta sjálfboðaliðastarf. Það er ómetanlegt fyrir þessa þjóð að geta gengið að svo breiðum hópi karla og kvenna sem skipa sér í þessar stöður. Í seinni tíð höfum við orðið vör við mikilvægi þess að hafa þetta fólk í góðri þjálfun og hafa það til staðar, einmitt á undanförnum vikum og mánuðum og kannski einmitt í verkefnum sem tengjast rústabjörgun. Þetta eru náskyld verkefni, öll þessi óveðursútköll og björgun mannvirkja og verðmæta sem þeim tengist eru náskyld því að bjarga fólki úr rústum. Þetta er að mörgu leyti sami búnaðurinn og sama þjálfunin og unnið við byggingar og tæki sem eru löskuð og þarf að gæta allrar varúðar.

Við höfum séð á prenti hugmyndir frá forsvarsmönnum slökkviliða í landinu, um að sameina slökkviliðin frá Borgarfirði og austur í Rangárvallasýslu. Þar er talað um björgunarlið Suðvesturlands. Þá eru Suðurnesin innifalin. Þetta geta verið ágætar hugmyndir og er sjálfsagt að ræða allar hugmyndir en það verður að gæta að því starfi sem fyrir hendi er og að því að kippa ekki starfsgrundvellinum undan þeim sveitum sem gegna þegar mikilvægu hlutverki.

Það verður að segjast að samstarfsáhugi forsvarsmanna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur verið ákaflega takmarkaður þegar kemur að samstarfi við björgunarsveitir á svæðinu. Vil ég t.d. nefna í því sambandi að þrátt fyrir ítrekaðar hugmyndir af hálfu undirritaðs og fleiri til forsvarsmanna slökkviliðsins í gegnum árin hefur Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins ekki séð ástæðu til að þjálfa varalið sem gæti komið þeim til aðstoðar á hættustundu, þegar um stórbruna er að ræða eða aðra vá sem þeir sinna, til að vera þeim til aðstoðar, geta gengið í þau verk sem þarf að sinna og hafa hlotið þá þjálfun sem til þarf.

Það segir sína sögu þegar menn sjá ekki ástæðu til þess, sérstaklega í ljósi þess að upp hafa komið atvik þegar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur þurft á björgunarsveitunum að halda. Nefna mætti stórbruna eins og Hringrásarbrunann, sinuelda sem hafa komið upp tíðum á vorin. Þá eru kallaðar út björgunarsveitir til þess að aðstoða. Þá kemur það fólk í sínum göllum og skóm, engan veginn búið til að eiga við þau verkefni en ganga í þau samt til að gera sitt besta.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég geri mér vonir um að umhverfisnefnd taki þetta til sérstakrar skoðunar þegar um þetta verður fjallað. Ég geri mér vonir um að fullt tillit verði tekið til þeirra sem hér er talað um að færa verkefni frá þannig að um þetta náist sem víðtækust sátt.



[18:55]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að bregðast við ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Þannig er að það er með engum hætti verið að leggja til í þessu frumvarpi að taka verkefni frá einhverjum. Hér er einungis verið að skýra björgun á fastklemmdu fólki þegar slökkvilið er annars vegar, ekki lagt til að draga úr, minnka eða gera lítið úr hlutverki björgunarsveita í björgunaraðgerðum, rústabjörgun eða öðru.

Þetta er mál sem hefur í þessu samhengi beðið úrlausnar um nokkra hríð. En ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það getur þurft að skýra málið betur í frumvarpstextanum þannig að enginn sé í vafa um hvað er á ferðinni.

En ekkert er fjær mér, frú forseti, en að taka verkefni frá björgunarsveitum eða koma málum þannig fyrir að það dragi úr starfi eða þrótti björgunarsveita í landinu.



[18:56]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessi orð. Ég er þess alveg fullviss að við munum á sátt í þessu máli. Í fljótu bragði verð ég þó að segja það að ég get ekki séð að sú sátt muni felast í því að þetta verði lögbundið hlutverk slökkviliða.

Samstarf þeirra slökkviliða, sem hafa einhverja getu að gagni, og björgunarsveita hefur ekki verið mjög mikið. Það hafa kannski ekki verið mörg verkefni, eins og ég talaði um áðan, sem hafa skarast. En að því leyti tel ég að björgunarsveitirnar vilji hafa skýrt í framtíðinni að þessi verkþáttur sem þær hafa búið sig upp í og þjálfað sig í á undanförnum árum, og hafa náð mjög góðum árangri með, hafa á mjög sterkri sveit að skipa, verði á þeirra ábyrgð. Þannig yrði um hnútana búið að þau sinni þessu hlutverki áfram eins og hingað til hefur verið.

Björgunarsveitirnar starfa í flestum sínum verkefnum undir stjórn lögreglu og á ábyrgð lögreglu og eru kallaðar í verkefni á vegum lögreglu og þannig tel ég að þessu væri best fyrirkomið í framtíðinni.



[18:58]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fara aðeins yfir þá ræðu sem hv. þm. Jón Gunnarsson flutti áðan varðandi björgunarmálin. Ég get verið honum sammála um það verkefni umhverfisnefndar að fara nákvæmlega yfir þennan þátt frumvarpsins. Ég vil ekki gera lítið úr því ómetanlega sem björgunarsveitirnar í landinu vinna fyrir þessa þjóð. Það er öllum kunnugt. Ég er sannfærður um að bæði í hv. umhverfisnefnd og á Alþingi eru störf björgunarsveitanna mikils metin.

Ég hef í dag, í umræðu um mannvirkjafrumvarpið og skipulagsmálin, lagt áherslu á að við værum að horfa fram á eina stofnun, eina stofnun sem tæki þetta allt yfir. Nú langar mig að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson: Er ekki hægt að samræma og ná meiri samhæfingu vinnuafls, þekkingar og tæknibúnaðar?

Þá langar mig að spyrja nákvæmar og skýra það sem ég á við. Á Selfossi er verið að byggja upp björgunarmiðstöð þar sem slökkvilið, björgunarsveitin og sjúkraflutningar eru til húsa í sama húsi og vinna saman. Er það ekki einmitt þetta sem við þurfum að huga að? Að samhæfa kraftana og ná sem bestri nýtingu úr þeirri fjárfestingu, þekkingu og mannafla sem við erum með?



[19:00]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni að samstarf er lykillinn að árangri á þessum vettvangi eins og öðrum. Á undanförnum árum hafa verið stigin mjög mikilvæg skref í samstarfi viðbragðsaðila í landinu. Nægir þar að nefna sameiginlega neyðarsímsvörun, 112, sem skilað hefur alveg gríðarlega miklum árangri og hraðari og skipulagðri boðun viðbragðsaðila á slysstað. Við höfum komið okkur saman um, sem er nánast alveg einstakt í heiminum, samræmingarstöð á sviði almannavarna og allra stærri aðgerða í landinu í Skógarhlíð. Þar starfa þessir aðilar allir saman að stjórnun og skipulagi þeirra verkefna sem verið er að leysa hverju sinni og svo má lengi telja.

Ég kom inn á það áðan að t.d. í rústabjörguninni, sem hér var sérstaklega til umfjöllunar, er samstarf á milli björgunarsveita og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, rústahópanna og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ákveðnir aðilar hafa verið hluti að þessari rústabjörgunarsveit en þeir hafa fyrst og fremst haft það verkefni að vera bráðaliðar. Þeir sinna björgunarfólki sem slasast eða fólki sem verið er að leita að og bjarga. Það er þetta sem málið snýst um. Þegar verið er að lögfesta verkefnið sem hefur kannski legið lögfest fram að þessu, hvort það hefur þá verið undir lögreglu eða björgunarsveitunum, þá óttast ég að þeir sem eiga að fá verkefnið samkvæmt lögum muni fara að sinna þessum verkefnum meira sjálfir. Þetta verði þá til þess að draga úr starfsemi björgunarsveitanna, það er það sem ég hræðist.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til umhvn.