135. löggjafarþing — 65. fundur
 19. feb. 2008.
um fundarstjórn.

yfirlýsing ráðherra.

[14:20]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli Alþingis á því að þessi umræða fer fram samkvæmt 45. gr. þingskapa þar sem kveðið er á um hvernig haga skuli umræðu ef ráðherrar í ríkisstjórn gefa skýrslur hvort sem þær eru skriflegar eða munnlegar. Í hvoru tilvikinu um sig skal fara eftir þingskapalögum um tímalengd og aðra málsmeðferð. Hins vegar er hægt að semja um frávik frá því sem og var gert. Þingflokksformenn náðu samkomulagi við forseta Alþingis um tímalengd umræðunnar, um að hæstv. forsætisráðherra mundi tala í 15 mínútur og fulltrúar annarra þingflokka í 8 mínútur hver. En hvað varðar röðun á mælendaskrá gegnir allt öðru máli. Þar hefur hæstv. forseti greinilega tekið sér það bessaleyfi að láta fulltrúa ríkisstjórnarinnar, annars vegar formann Sjálfstæðisflokksins og hins vegar formann Samfylkingarinnar, hafa fyrsta og síðasta orðið í þessari umræðu. (Forseti hringir.) Er það með ráðum gert? Ég vil fá skýringu hæstv. forseta þingsins á því.



[14:22]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti vill taka fram að hann tekur sér ekkert bessaleyfi. Hann fer að þingsköpum við stjórn fundarins. Forseta þótti ekki óeðlilegt að uppröðun væri með þessum hætti, því að hér er um það að ræða að forsætisráðherra gefur yfirlýsingu, talsmenn flokkanna taka síðan til máls og forseti taldi að það væri í þágu umræðunnar, upplýstrar umræðu, að utanríkisráðherra væri síðastur á mælendaskrá og gæti þá brugðist við og svarað efnislega fyrirspurnum sem kynnu að koma upp. Sá er tilgangurinn með þessari röðun en auðvitað er það alltaf álitamál hvernig forseti á að raða á mælendaskrá. Aðalatriðið er að þetta er væntanlega ekki síðasta umræðan sem fer fram um þau málefni sem hér eru á dagskrá og hv. þingmenn munu að sjálfsögðu fá mörg tækifæri til að koma skoðunum sínum og áliti á framfæri um þau málefni sem hér eru til umræðu.



[14:23]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eflaust má deila um þau hugtök sem hér eru notuð, hvort við tölum um bessaleyfi eða duttlungastjórnun, jafnvel pólitíska duttlungastjórnun. Hæstv. forseti segir að hann hafi hagað skipan á þann veg að það þjónaði sem best umræðunni, þjónaði sem best málefnalegri umræðu. Ég leyfi mér að halda því fram að þetta þjóni fyrst og fremst pólitískum hagsmunum ríkisstjórnarinnar sem er að reyna að slá sig til riddara á grundvelli þeirra kjarasamninga sem hér er verið að fjalla um.

Ég tek undir að þessir samningar og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðar kalla á miklu meiri umræðu í þinginu, t.d. varðandi svokallaðan áfallatryggingasjóð sem ætlast er til að ríkið komi að, almannatryggingar og lífeyrissjóðir. Þetta kallar að sjálfsögðu á víðtæka umræðu í þjóðfélaginu áður en frá þeim er gengið.

En varðandi hinn málefnalega þátt (Forseti hringir.) og hina málefnalegu aðkomu ríkisstjórnarinnar, þá fannst mér fara harla lítið fyrir henni í yfirlýsingum og hnjóðsyrðum sem komu frá formanni Samfylkingarinnar í lok umræðunnar.



[14:24]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er mjög sérstakt að hlusta á þá umræðu sem hér fer fram um fundarstjórn forseta. Ég tel mjög réttmætt þegar fram fer umræðu eins og hér hefur farið fram, þar sem við fáum tækifæri til að ræða um mikilvæg mál í samfélaginu, að þá tali talsmenn flokkanna eins og þeir hafa gert hér og það er ósköp eðlilegt að við fáum svör við þeim spurningum sem hljóta að koma upp við slík tækifæri. Mér fannst samt heldur óréttmætt hvernig vinstri grænir kjósa að ráðast að hæstv. forseta þingsins (ÖJ: Og líka þá meiri hlutinn allur?) og vil sérstaklega koma því á framfæri að mér þykir þessi umræða fara út fyrir öll eðlileg mörk. Við hljótum að geta staðið saman um það á þinginu að ræða mál með þeim hætti (Gripið fram í.) að þar sé einhver sanngirni og þó að Vinstri hreyfingin – grænt framboð þreytist seint á því (Forseti hringir.) að segjast vera stærsta stjórnarandstöðuaflið á þinginu þá kastar nú tólfunum þegar við (Forseti hringir.) getum ekki einu sinni rætt mál eins og nú er rætt um nema árásir komi úr þeirri áttinni.



[14:26]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér fór fram afar mikilvæg umræða um aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum og hver hún er. Umræðan gekk út á það að forsætisráðherra kæmi fram og gæfi yfirlýsingu og síðan færi fram umræða um þá yfirlýsingu. Ýmsum spurningum var beint að ríkisstjórninni og hæstv. utanríkisráðherra kom svo og brást við. Meðal annars lagði hv. þm. Guðni Ágústsson fram nokkrar spurningar sem reynt var að bregðast við. Hver og einn talaði einu sinni og þetta var í þágu umræðunnar. Og mér fannst satt best að segja fyrir neðan allar hellur þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson kom upp með þá orðræðu sem hann var með áðan og ekki aðeins það heldur einnig hitt að hv. þingmaður fer upp undir liðnum um fundarstjórn en hefur efnisumræðuna með gagnrýni á þá umræðu sem var nýlokið. Mér þótti þetta afar athyglisvert og ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að þetta er ekki til þess að efla virðingu þingsins.



[14:27]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að þessi skoðanaskipti sýni hversu misráðið það var að láta þessa umræðu ekki fara fram samkvæmt þingsköpum, þ.e. þegar forsætisráðherra eða annar ráðherra óskar að gefa þinginu munnlega yfirlýsingu, flytja þinginu munnlega skýrslu eða gefa yfirlýsingu um opinbert málefni, þá skal fara um þá umræðu eins og fer um umræður um skýrslur. Í þeim umræðum eru tvær eða fleiri umferðir og þá er að sjálfsögðu vel viðeigandi að menn beri upp spurningar, enda hafa menn þá kost á að svara þeim í seinni ræðum sínum. Ef það var ætlun þessarar umræðu að hægt væri að leggja fram spurningar fyrir hæstv. forsætisráðherra sem er málshefjandi hér þá hefði að sjálfsögðu þurft að ganga þannig frá málum að hann fengi orðið aftur. En að nota það sem rök að hæstv. utanríkisráðherra botni umræðuna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þannig að hún eigi bæði fyrsta og síðasta orðið, það heldur ekki. Ef tilgangur umræðunnar var m.a. sá, sem við vorum ekki upplýst um, að mönnum gæfist kostur á að bera fram spurningar við hæstv. ráðherra, átti að sjálfsögðu að skipuleggja umræðuna í samræmi við það og þá var eðlilegt að allir hefðu jafnan rétt í þeim efnum, gætu borið upp spurningar sínar og fylgt þeim eftir eða brugðist við svörunum. Þannig er umræða hugsuð þegar menn eiga þess kost að skiptast á skoðunum. Ég tók það ekki þannig að umræðan væri hugsuð svoleiðis (Forseti hringir.) heldur að hér gæfist okkur kostur á að flytja yfirlýsingar af hálfu okkar flokka og í því ljósi var röð ræðumanna ekki eðlileg.