135. löggjafarþing — 65. fundur
 19. feb. 2008.
umferðarslys og vindafar.

[14:34]
Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra varðandi umferðarslys og vindafar. Líkt og menn vita er hluti umferðarslysa utan þéttbýlis á Íslandi til kominn vegna slæmra akstursskilyrða vegna veðurfars. Í mörgum þessara slysa eru vindur og hálka meðverkandi orsakir. Búast má við að vindur sé meðverkandi orsök í hluta umferðarslysa óháð staðsetningu á vegakerfinu. Hins vegar eru staðbundnar aðstæður á vissum stöðum á vegum landsins þannig að þar geta ítrekað myndast varhugaverð umferðarskilyrði vegna vindafars sem valdið geta slysum.

Má til að mynda nefna athugun undir Hafnarfjalli og aðstæður í Draugahlíðarbrekku jafnt sem á ýmsum stöðum uppi á Kjalarnesi en vel má vera að hæstv. ráðherra þekki fleiri staði. Unnin hafa verið ýmis verkefni vegna þessa máls og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort samgönguráðuneytið eða Vegagerðin horfi til niðurstaðna úr þeim verkefnum eða hvort ráðherrann hefur kynnt sér þessi mál. Ég tel að það sé afar mikilvægt þegar verið er að hanna vegakerfi landsins að skoða niðurstöður úr þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á umliðnum árum, sérstaklega með hliðsjón af því sem ég sagði hér í upphafi að hvort tveggja loftfræðilegir eða aflfræðilegir eiginleika hafa áhrif og einnig svörun ökumanns sem tengist vindafari.

Virðulegi forseti. Við þekkjum að vindafar hefur verið mjög mismunandi á undanförnum vikum og mánuðum og ökumenn vítt og breitt hringinn í kringum landið hafa lent í vandræðum, sérstaklega þar sem hálka hefur einnig tengst akstursskilyrðum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biðst velvirðingar á því að klukkan í ræðupúltinu lætur ekki alveg að stjórn.)



[14:36]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Svavarsson spyr um athyglisverða hluti hvað varðar rannsókn á veðurfari, vindum og öðru slíku við veghönnun og hvernig að því er staðið. Ég skal játa strax að ég er ekki mikill sérfræðingur á þessu sviði en hef þó lesið mér til um það að Vegagerðin hefur verið að styrkja slík verkefni. Slík verkefni eru í gangi, hafa verið í gangi undanfarin ár, og eftir því sem ég best veit er margt af því sem þar hefur komið fram notað við nýhönnun vega, vindmælingar og annað slíkt er notað. Einnig er unnið með þessa þætti þegar verið er að lagfæra þekkt svæði sem eru slæm. Svarið er því: Já, litið er til niðurstaðna rannsókna og þess sem er í gangi hvað þetta varðar með tilliti til umferðarslysa og áhrifa veðurs á þau.

Við þekkjum það, og heyrðum af því fréttir ekki alls fyrir löngu, að á ákveðnum svæðum, sem betur fer hafa kannski ekki hlotist af því slys, hefur klæðning, jafnvel malbik, verið að flettast af vegum. Ég veit um þekkt svæði nálægt minni heimabyggð. Ég get líka sagt af eigin reynslu hvað varðar áhrif vinds, hálku, snjóþunga og annarra veðurfræðilegra þátta á akstursskilyrði. Ég lenti í því á síðasta ári á keyrslu frá Raufarhöfn, var á leiðinni til baka í Kelduhverfi, að mikil vindhviða kom og hálka var á vegi og ekki var hægt að gera annað en að sveigja út af. Sem betur fer var frágangur Vegagerðarinnar á þessu svæði þannig að vel var gengið frá bakka og gamli vegurinn ekki langt undan þannig að hægt var að sveigja í þá áttina. En það voru tvímælalaust vindur og hálka sem gerðu það að verkum að maður lenti út af.



[14:38]
Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegurinn fyrir Tjörnes og í Kelduhverfi hefur vissulega skánað og er orðinn mjög greiðfær. Ég fór nýlega um hann og get tekið undir að þar er allur frágangur góður þannig að menn geta tekist á við aðstæður eins og hæstv. ráðherra hefur greinilega lent í í Kelduhverfi á sínum tíma.

Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir þann áhuga sem hann sýnir málinu. Ég tel að það sé afar mikilvægt, virðulegur forseti, að við horfum til þeirra rannsókna sem unnið hefur verið að á undanförnum árum varðandi vindafar. Ekki er bara um að ræða 2+2 vegi eða 2+1, heldur skiptir líka máli hvernig við hönnum vegina og þá sérstaklega með hliðsjón af veðurfari á Íslandi. Við höfum safnað miklum upplýsingum með vindmælingum og við eigum að styðjast við þær við hönnun á umferðarmannvirkjum.



[14:39]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir til þingmannsins fyrir að taka þetta upp. Ég gat kannski ekki um það áðan að meðal atriða sem Vegagerðin hefur verið að vinna með er hvort flytja þurfi til vegi á þekktum svæðum þar sem vegir eru tilbúnir núna í dag og þetta er vel þekkt vandamál. Menn eru líka að skoða hvort planta þurfi trjám eða setja vindskeiðar eða vindhlífar, eða hvað það nú er kallað, á svæði sem við vitum um og verðum oft vör við að bílar jafnvel fjúka út af vegna mikils veðurofsa. Nægir að nefna hér svæðið undir Hafnarfjalli og er ekki líka þekkt svæði hér uppi á Kjalarnesi? Ég þakka því fyrir þetta.