135. löggjafarþing — 65. fundur
 19. feb. 2008.
póstþjónusta í dreifbýli.

[14:46]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort tekin hafi verið upp breytt stefna í póstþjónustu, einkum í dreifbýli. Að undanförnu hefur okkur þingmönnum borist erindi frá sveitarstjórnum um skerta póstþjónustu og áform um frekari niðurskurð á þeirri þjónustu vítt og breitt um landið. Hér er um að ræða fækkun póstburðardaga á stórum landsvæðum og lokun pósthúsa, bæði á minni og stærri þéttbýlisstöðum.

Ég minni á þau ákvæði laga um póstþjónustu frá 2002 sem kveða skýrt á um að tryggja landsmönnum greiðan aðgang að póstþjónustu án mismununar, þ.e. að í þeirri alþjónustukvöð sem þar er um að ræða var lögð rík ástæða á að þetta skyldi gilda um landið allt.

Ég minnist digurrar yfirlýsingar frá þáverandi samgönguráðherra um fimm daga póstburð til allra staða á landinu nema þar sem væri sérstaklega slæmt óveður eða samgöngur næðu ekki til. Ég minnist líka yfirlýsingar frá þáverandi þingmanni, hæstv. núverandi samgönguráðherra, þar sem hann gagnrýndi póstþjónustuna, einkavæðinguna og markaðsvæðinguna á póstþjónustunni sem síðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir og gagnrýndi stöðug áform og áreiti Íslandspósts í að skera niður þjónustu í hagræðingarskyni.

Nú berast okkur boð um að búið sé að segja upp stórum hópi pósta sem hafa séð um póstþjónustu vítt og breitt um landið og áform um niðurskurð á þessari þjónustu. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru þau fyrirmæli sem hér eru að ganga yfir frá hæstv. ráðherra eða (Forseti hringir.) hvernig standa þessi mál?



[14:48]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna spurningar hv. þingmanns um hvort þetta séu fyrirmæli frá þeim sem hér stendur, þá mundi í raun og veru duga að segja bara eitt nei. Svo er ekki, og þar með gæti svarinu verið lokið. En það ætla ég hins vegar ekki að gera. Ég kannast við það að menn hafa verið að ræða hugmyndir um að fækka póstdögum, útburðardögum, úr fimm dögum í þrjá á nokkrum svæðum. Eftir því sem ég best man þá er það til umfjöllunar hjá Póst- og fjarskiptastofnun, hins vegar gæti verið að komið hafi álit frá þeim í ráðuneytið í lok síðustu viku. Ég var erlendis þá en rámar í að það hafi verið varað við að þau gögn væru að koma.

Ég kannast heldur ekki við að talað hafi verið um lokun pósthúsanna, kannski hefur hv. þingmaður upplýsingar um það. Auðvitað ber að hafa í huga að stjórn Íslandspósts ræður þessum málum og allur daglegur rekstur heyrir undir hana. Hitt atriðið varðandi póstburðardagana kemur á borð samgönguráðherra. Þannig að ég kannast ekki við þetta.

Hins vegar þekkjum við og vitum að víðast hvar, og bara hjá okkur sjálfum, er miklu minna borið út af pósti vegna þess að fleiri skjöl og bréf berast á rafrænan hátt. Þar kem ég að því sem ég vildi segja hvað þetta varðar sem ég held að sé vert fyrir Alþingi að hugleiða um áform um háhraðatengingarnar sem við ræddum ekki alls fyrir löngu á hinu háa Alþingi og eru að fara í útboð. Þá má kannski spyrja sig að því hvort það geti verið í lagi að fækka póstburðardögum ef tryggt er að póstur berist til fólks á rafrænan hátt, það megi skoða það í framhaldinu. Það má kannski spyrja hv. þingmann hvað hann segi um þá hugmynd.



[14:50]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Varðandi háhraðatenginguna þá minnir mig að það hafi verið loforð síðustu ríkisstjórnar að hún ætti að vera komin á fyrir um ári síðan. Við það hefur ekki verið staðið, það er eitt af því sem hefur verið svikið.

En góð póstþjónusta skiptir máli engu að síður. Grunnpóstþjónusta skiptir máli fyrir samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu um allt land. Þau loforð og fyrirheit sem voru gefin með fimm daga póstþjónustu um allt land eru bundin í lögum. Ég get vitnað til laganna. Ég get vitnað til orða þáverandi samgönguráðherra og ég get vitnað til fyrrverandi þingmanns og þáverandi framsögumanns samgöngunefndar, hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, um að póstur skuli borinn út alla virka daga um allt land nema náttúruhamfarir, eins og veður, hamli.

Þetta er því bundið í lögum og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að ganga eftir þessu hjá Íslandspósti og athuga hvort þarna sé verið að brjóta jafnræðisregluna, brjóta lögin um póstþjónustu og brjóta þau fyrirheit sem gefin hafa verið um póstþjónustu í landinu. Ég skora á hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra að ganga eftir þessu.



[14:51]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Já, ég skal skoða þetta og lesa yfir álitið frá Pósti og fjarskiptum sem ég hef áður talað um, ef það er komið. Það er alveg rétt að daglegur póstur og póstútburður er mikilvægur á landsbyggðinni sem annars staðar.

Hins vegar held ég að það þýði ekki fyrir okkur að loka augunum fyrir því að magn pósts er að minnka mjög mikið vegna þess hve mikið dreifist á rafrænan hátt. Við megum ekki loka augunum fyrir þeim nýjungum sem í því felast. Við megum ekki festa okkur í einhverri fortíð. Það má auðvitað spyrja sig að því hvort þörf sé á fimm daga póstútburði ef sáralítið er að til bera út. En til þess, eins og ég sagði áðan, þarf að vera boðið upp á háhraðatengingar og fjarskiptaþjónustu í sveitum landsins sem er sambærileg við það sem er í þéttbýli.

Nú á að fara í útboð á háhraðatengingum og fjarskiptaþjónustu og við skulum vona að það muni ganga eftir, sem ég hef áður lýst hér yfir, að það verði bylting í fjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni. Hvort það verður um þetta leyti á (Forseti hringir.) næsta ári eða eitthvað síðar veit ég ekki. En hvað þetta varðar held ég að menn verði að athuga að póstur berst á annan hátt en með hestum í dag. (Gripið fram í.)