135. löggjafarþing — 66. fundur
 20. feb. 2008.
fjárhagsleg staða Orkusjóðs.
fsp. MS, 392. mál. — Þskj. 636.

[14:58]
Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Heita vatnið er ein af okkar helstu auðlindum og hefur, eins og við vitum, verið mikið notað til upphitunar húsa og til fleiri nota. Því fylgja jafnan mikil lífsgæði í hverju byggðarlagi þar sem hægt er að nýta heitt vatn. Eins og við vitum er ekki alls staðar heitt vatn í jörðu við byggðarlög þannig að þar hefur þurft að notast við raforku að öðrum kosti. Hins vegar er það svo að mörg undanfarin ár hefur verið gert átak í því og unnið að því að leita að heitu vatni á svæðum sem hafa verið talin köld eins og kallað er, leita að heitu vatni til að nýta í viðkomandi byggðarlögum. Sem betur fer hefur orðið nokkur árangur í því á mörgum undanförnum árum og þar hefur Orkusjóður spilað stórt hlutverk, sjóðurinn hefur veitt styrki til rannsókna og leitar og til uppbyggingar á hitaveitu.

Ég hef borið upp fyrirspurnir til hæstv. iðnaðarráðherra sem eru þannig, með leyfi forseta:

1. Hver er fjárhagsleg staða Orkusjóðs vegna leitar að heitu vatni og uppbyggingar hitaveitna á köldum svæðum?

2. Hefur Orkusjóður gert upp alla styrki vegna slíkra verkefna?

3. Hver er framtíðarsýn ráðherra varðandi stuðning við leit að heitu vatni og uppbyggingu hitaveitna á köldum svæðum?

Ég veit að hæstv. ráðherra er mikill áhugamaður um málið og það hefur komið fram í máli hans áður. Þess vegna bíð ég spenntur, og ég veit að þingheimur allur gerir það, að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um málið að segja. Ég vil leyfa mér að hvetja hann til dáða vegna þess að þetta er mikilvægt mál og hefur skilað góðum árangri. Við þekkjum það að því fylgja aukin lífsgæði í byggðum þar sem heitt vatn finnst og hægt er að nýta. Ég bíð því mjög spenntur eftir að heyra hæstv. ráðherra svara þessum spurningum og ég veit að þingheimur allur bíður í ofvæni eftir því.



[15:00]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Mér líkar best við hv. þm. Magnús Stefánsson þegar hann er spenntur. Hins vegar gleður það mig sem þann ráðherra sem fer með jarðhitaleit og uppbyggingu, eða alla vega útgreiðslu stofnstyrkja til hitaveitna, að þingið skuli bíða í ofvæni eftir því að fá fréttir af þessu.

Staðan er þannig að 90% af orkuþörf til hitunar húsa í landinu er mætt með jarðvarma. En eins og hv. þingmaður sagði þá er enn rými til þess að finna meira vatn og við höfum sannkallaða galdramenn á því sviði sem bókstaflega finna vatn þar sem áður var talið, t.d. í þeim kennslubókum sem ég og hv. þingmaður lærðum í æsku okkar, að væru sannarlega köld svæði, þar væri ekkert vatn að finna.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður ber fram að þá vil ég segja að hlutverk Orkusjóðs sjálfs er fyrst og fremst að lána áhættulán en hann greiðir hins vegar líka út stofnstyrki til uppbyggingar hitaveitna.

Hv. þingmaður spyr um fjárhagslega stöðu Orkusjóðs vegna leitar og uppbyggingar hitaveitna á köldum svæðum. Eins og ég sagði er hlutverk Orkusjóðs að lána 60% áhættulán sem eru á ábyrgð ríkissjóðs, þ.e. ríkið tekur ábyrgð á skuldbindingum Orkusjóðs þannig að það er í reynd aðili að þessum framkvæmdum sem eru í eðli sínu oft áhættusamar. Þessi lán eru með 6% vöxtum til 15 ára en líka verðtryggingum. Það eru því mörg dæmi þess að þegar vel horfir þá leita þeir sem standa í svona frekar til bankanna þar sem þeir geta fengið betri kjör.

En Orkusjóður hefur sem sagt lánað á tímabilinu 2000–2007 alls 138 millj. kr. Eins og ég sagði þá eru þetta áhættulán og við tilteknar aðstæður, t.d. ef borun bregst og ekkert kemur út úr þessu — það eru reyndar fleiri skilyrði sem geta leitt til þess — þá fellur lánið niður. Það er auðvitað það sem er eftirsóknarvert við þessi lán. Á tímabilinu sem ég nefndi áðan hefur upphæð niðurfelldra lána numið mjög háu hlutfalli af þessu, meira en helmingi, eða nánast 72 millj. kr.

Ef ég svara saman seinni hluta fyrstu spurningar og spurningu númer tvö frá hv. þingmanni þá hefur ríkissjóður frá árinu 1999 styrkt lagningu nýrra hitaveitna á köldum svæðum með eingreiðslum og á þessu tímabili, frá 1999, og hefur ríflega hálfum milljarði verið varið til þess. Framkvæmdarvaldinu eru settar skorður sem markast af ákvörðunum Alþingis hverju sinni og fjárheimildirnar sem Alþingi hefur varið til þessa hafa ekki dugað. Þurft hefur að grípa til þess að dreifa greiðslum yfir fleiri fjárlagaár.

Ég nefni það sérstaklega að sá góði skilningur sem hv. fjárlaganefnd hefur í þessu máli birtist í því að í fjáraukalögum síðasta árs voru samþykktar 55 millj. kr. til viðbótar við fjárheimildir þess árs. Miðað við stöðuna eins og hún er núna og eins og hún verður þegar árinu 2008 er lokið, þá skuldar ríkið um það bil 152 millj. kr., sem svarar sjö hitaveitum. Þessar skuldir eru sumar mjög litlar, allt frá því að vera 254 þús. kr. upp í að vera 92 millj. kr. sem er nýjasta hitaveitan sem sett var á laggirnar við Eyjafjörð síðla síðasta árs.

Ég get hins vegar glatt hv. þingmann með því að það er alveg rétt sem hann sagði hérna áðan. Ég er mikill áhugamaður um þetta og ég hef verið að berjast fyrir því að þessi hali verði klipptur af. Ekki vil ég lofa neinu upp í mína ermi en ég hef rætt þetta við félaga mína í ríkisstjórninni og málið er í þeirri stöðu að það eru sérstakar viðræður milli mín og hæstv. forsætisráðherra um þennan vanda. Meira vil ég nú ekki segja að svo stöddu.

Hv. þingmaður spyr síðan um framtíðarsýn mína varðandi stuðning við leit að heitu vatni og uppbyggingu hitaveitna á köldum svæðum. Það er alveg klárt að ég vil gjarnan fá rýmri fjárheimildir til þess að geta greitt upp þennan skuldahala sem ég nefndi áðan og vonast til þess að það verði hægt.

En framtíðarsýn mín varðandi leit að heitu vatni er að hægt verði að fara á þá staði þar sem vísbendingar eru um heitt vatn og kannað verði til þrautar hvort þar sé hægt að draga upp heitt vatn til þess að hita hús. Það eru sterkar vísbendingar um það á mörgum stöðum á Vestfjörðum og á nokkrum stöðum á Austfjörðum. Þetta eru lífsgæði sem ég tel að eigi að reyna að uppfylla gagnvart íbúunum. Í þessu skyni hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja 150 millj. kr. til (Forseti hringir.) jarðhitaleitar (Forseti hringir.) á næstu tveimur árum í tengslum við það sem hv. þingmaður þekkir og við köllum mótvægisaðgerðir.



[15:05]
Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin og það sem ég þóttist merkja af máli hans, og reyndar vissi ég það fyrir, að hann er mikill áhugamaður um þetta. (Gripið fram í: Það lá vel á honum.) Það lá vel á honum og mér líkar alltaf best við hæstv. ráðherra þegar liggur vel á honum. Ég get sagt það.

En það fram kom hjá hæstv. ráðherra að nú séu viðræður uppi um að gera upp þá ógreiddu styrki sem ríkissjóður á eftir að gera upp í gegnum Orkusjóð. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í því og ef ég get eitthvað hjálpað honum þá er ég meira en tilbúinn til þess. Ég veit að það á við um fleiri.

Ég vona því að árangur náist úr þeim viðræðum milli félaganna í ríkisstjórninni um að ganga frá þessum málum því að ég veit að það eru litlar hitaveitur úti á landi sem hafa verið í þessum framkvæmdum og mega illa við því að þetta dragist lengur. Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það.

Einnig ber að fagna því að ráðherrann hefur áhuga á því að halda áfram með þetta verkefni sem hefur verið í gangi í allmörg ár. Auðvitað vonum við öll að heitt vatn finnist sem víðast þannig að sem flestir íbúar landsins geti notið þeirra lífsgæða sem því fylgja að hafa hitaveitu og heitt vatn. Ég bind því miklar vonir við dugnað hæstv. ráðherra. Hann er þungur á skriðinu þegar hann fer af stað og ég vænti þess að svo verði einnig í þessu máli.



[15:07]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þótt ég sé ekki kominn hér til þess að svara fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar utan úr sal að þessu sinni þá get ég samt upplýst hann um að þessi ráðherra er bara yfirleitt alltaf í góðu skapi þótt stöku maður sem sé stundum að angra hann. En það er önnur saga sem tengist ekki leit að heitu vatni.

Ég get þó fullvissað hv. þm. Magnús Stefánsson um að þetta er eitt af því sem mér er nokkuð annt um. Af sérstökum ástæðum er mér haldið við efnið á heimaslóð þar sem mikill áhugi er á leit að heitu vatni. Það er líka svo makalaust að þrátt fyrir að hér fyrr á árum hafi menn talið að sum svæðin væru ísaköld og ekki hægt að draga þar upp heitt vatn þá kemur í ljós með nýrri tækni að hægt er að finna heitt vatn miklu víðar. Sömuleiðis er líka að koma í ljós tækni sem við erum ekki nema að litlu leyti byrjuð að skoða og taka í notkun hér á landi sem gerir það kleift að nota vatn við töluvert lægri hita en menn hafa gert áður m.a. til orkuframleiðslu.

Síðan skiptir líka máli að komin er fram ný bortækni sem gerir það að verkum að auðveldara er að komast í gegnum lög þar sem menn vita af heitu vatni en hafa þurft undan að hverfa áður. Ég nefni Ísafjörð sérstaklega sem dæmi. Í Tungudal vita menn af heitu vatni á töluvert miklu dýpi. Þar var í gegnum erfið surtarbrandslög að fara. Nú eru komnir nýir borar sem sérfræðingar segja mér að eigi að duga til þess. Á þessu ári verður væntanlega látið til skarar skríða í enn eitt skiptið og ég bind miklar vonir við það.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að þau sveitarfélög sem þarna eiga inni upphæðir hjá ríkinu eiga mjög erfitt með að bera þær byrðar. Þetta eru allt saman sveitarfélög þar sem sjávarútvegur er meira en 10% af umsvifunum, allt upp í 26% og jafnvel 30%. Það er ekki síst þess vegna sem ég hef lagt mikla áherslu á að þetta verði klárað hið fyrsta og hef átt í samræðum við forsætisráðherra (Forseti hringir.) um það eins og ég sagði hv. þingmanni.