135. löggjafarþing — 66. fundur
 20. feb. 2008.
atvinnumál kvenna í Suðurkjördæmi.
fsp. HBJ, 377. mál. — Þskj. 621.

[15:09]
Fyrirspyrjandi (Hanna Birna Jóhannsdóttir) (Fl):

Herra forseti. Fyrirspurnin er lögð fram vegna þekkingar og reynslu minnar af takmörkuðum atvinnutækifærum kvenna í heimabyggð minni Vestmannaeyjum. Þar, líkt og í öðrum byggðarlögum sem grundvallast af sjávarútvegi, vega störf í fiskvinnslu þungt.

Þótt ástand hjá fiskverkunarfólki í Vestmannaeyjum sé nú um stundir nokkuð stöðugt miðað við önnur byggðarlög sem eru undir sjávarútvegi komin má lítið út af bera í atvinnugreininni. Í þessu ljósi má t.d. nefna að á þessu fiskveiðiári hefur útflutningur á óunnum fiski aukist um 30% sem hefur bein áhrif á störf fiskverkunarfólks í landi. Nú eru blikur á lofti um samdrátt vegna loðnunnar.

Fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra er eftirfarandi:

Hefur það verið kannað hvernig atvinnumálum kvenna í Suðurkjördæmi er háttað, svo sem um hvaða störf þær stunda og í hve miklum mæli?

Er vitað hvort störfum kvenna í sjávarútvegi, landbúnaði og þjónustu í Suðurkjördæmi hafi fjölgað, þau staðið í stað eða fækkað síðastliðin fimm ár?

Er vitað hvernig atvinnumál kvenna í Suðurkjördæmi hafa þróast miðað við atvinnu kvenna í öðrum kjördæmum?



[15:11]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Birnu Jóhannsdóttur fyrir þá umhyggju sem hún ber fyrir atvinnumálum í sínu kjördæmi.

Ég get ekki annað en tekið undir með áhyggjum hv. þingmanns varðandi þá stöðu sem er í Vestmannaeyjum. Auðvitað blæðir mér sem byggðaráðherra það líka í augum þegar útflutningur á óunnum afla við þessar aðstæður stóreykst þrátt fyrir þær aðstæður sem nú eru uppi í sjávarútvegi þar sem Vestmannaeyingar hafa þurft að sæta ákveðnum þorskaflaskerðingum. Mér finnst það ekki viðunandi og kveð þá heldur varlega að orði sem er nú háttur minn eins og þingmenn vita.

Hagstofa Íslands fylgist jafnan með stöðu á vinnumarkaði og samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá henni þá eru alls starfandi konur árið 2005, sem eru þær síðustu heildarupplýsingar af þessu tagi sem ég hef, á Suðurlandi og Suðurnesjum alls 9.950. 2.410 þeirra voru starfandi í heilbrigðis- og félagsþjónustu og 1.250 konur í verslunar- eða viðgerðarþjónustu eins og það er flokkað þar. Þar á eftir koma 880 konur í fræðslustarfsemi, 680 í fiskvinnslu, 640 í samgöngum og flutningum og 630 í opinberri stjórnsýslu. Í öðrum þjónustugreinum starfa 470 í hótel- og veitingahúsarekstri. Sami fjöldi í fasteigna og viðskiptaþjónustu. Konur í fjármálaþjónustu eru 380, 120 í fiskveiðum, 50 í veitustarfsemi og athyglisvert er að það eru 800 konur í annarri þjónustu. Hvað aðrar greinar varðar þá eru 400 konur sem taldar eru starfa við landbúnað, 220 í mannvirkjagerð og 550 í öðrum iðnaði.

Hv. þingmaður spyr hvort vitað sé um þróun kvennastarfanna sem ég hef talið hér upp. Ég reyni að draga þetta í þá flokka sem hv. þingmaður spyr um, sjávarútveg, landbúnað og þjónustu. Á tímabilinu 2001–2005 fjölgaði störfum kvenna í landbúnaði um tíu úr 390 í 400 störf. Störfum kvenna í sjávarútvegi fækkaði um 140, eða úr 940 í 800. Það er mjög athyglisvert að störfum kvenna í þjónustu fjölgaði hins vegar um 620 þannig að heildarstarfafjöldi, ef maður leggur það allt saman, hefur aukist um 490 störf á þessu tímabili, frá 2001–2005. Ég ítreka að þetta eru upplýsingar sem koma frá Hagstofu Íslands.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort vitað sé hvernig atvinnumál kvenna í Suðurkjördæmi hafa þróast miðað við atvinnu kvenna í öðrum kjördæmum. Nú er það þannig að í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar er ekki sundurgreining á tölum um atvinnuþátttöku eftir landshlutum heldur er einvörðungu greint í höfuðborgarsvæði og landsbyggð. Samkvæmt þeim tölum hefur atvinnuþátttaka kvenna sveiflast á bilinu 75%–79% og athyglisvert er að hún hefur sveiflast töluvert eftir árum. Árið 2007 var atvinnuþátttaka kvenna 76,6%.

Miðað við hvað atvinnuleysi er lítið er ekki ástæða til að ætla að atvinnuþátttaka kvenna í Suðurkjördæmi þróist með öðrum hætti en annars staðar á landinu. Þó ber að taka það alveg skýrt fram að við sem höfum fylgst með þessum málum töluvert lengi vitum auðvitað að atvinnuleysi hefur verið töluvert hátt, t.d. á Suðurnesjum og atvinnuleysi kvenna hefur stundum verið hæst þar. Ef tekið er mið af síðastliðnum fimm árum er atvinnuástand meðal kvenna á Suðurnesjum t.d. mun lakara en meðaltalið á landsbyggðinni en á þessu tímabili hefur það samt minnkað úr 5,2% í 3,8%.

Á Suðurlandi hefur ástandið verið svipað landsmeðaltalinu framan af tímabilinu en það er samt betra nú síðustu árin og á þessu tímabili lækkaði það t.d. úr 3,5% í 1,7%. Það þóttu mér merkilegar upplýsingar því að það er svo nálægt þessu prósenti sem menn segja stundum að sé einungis (Forseti hringir.) eðlileg færsla fólks á milli starfa.



[15:16]
Fyrirspyrjandi (Hanna Birna Jóhannsdóttir) (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin.

Í Suðurkjördæmi eru atvinnumöguleikar tengdir sjávarútvegi og störfum í landbúnaði og ýmiss konar þjónustu og eru mörg þessara starfa oft nefnd láglaunastörf. Ætla má að atvinnumöguleikar kvenna í kjördæminu tengist þessum störfum fyrst og fremst og þess vegna var ég að forvitnast um þessar sveiflur.

Eftir mínum upplýsingum voru 4.000 störf síðastliðið haust á landinu öllu í fiskvinnslu, þar af voru 1.200 unnin af fólki með erlent ríkisfang. Aðeins 40% eru eftir af þeim störfum sem voru til staðar fyrir u.þ.b. 15 árum í greininni og má ætla að þeim hafi nú þegar fækkað, samanber uppsagnir og lokanir fiskvinnslufyrirtækja á síðustu vikum.

Ég endurtek þakkir til hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin og kem til með að vinna úr þeim upplýsingum sem hér hafa komið fram.



[15:17]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór hér með tölur sem fólu í sér upplýsingar sem eru auðvitað dálítið sláandi um það hversu störfum hefur fækkað í fiskvinnslu á síðustu 15 árum. Þetta er alveg hárrétt. Störfum hefur á síðustu tíu árum fækkað t.d. samanlagt í fiskvinnslu og sjómennsku um 5.000. Þetta er það sem má segja að sé afleiðing framþróunar og aukinnar framleiðni í greinunum að verulegu leyti. Við vitum að á hverju ári fækkar störfum í þessum greinum um 4–5% vegna þess að verið er að taka í notkun nýja tækni. Það eru auðvitað jákvæðar hliðar á því, það eykur framleiðni eins og ég sagði og það eykur hagnað fyrirtækjanna en fækkar störfum. Þetta ásamt ýmsu öðru er það sem við er að glíma þegar menn velta fyrir sér ástæðum þess að fólki er að fækka á landsbyggðinni. Þeim störfum sem hafa haldið uppi atvinnulífi þar, bæði í hefðbundnum landbúnaði og í hefðbundinni fiskvinnslu og útgerð, fækkar alltaf vegna framvindu tækni og til viðbótar því gerist það síðan að það er mikill sogkraftur héðan af suðvesturhorninu. Það er einmitt þess vegna sem byggðaráðherrann hefur ekki verið að lýsa mikilli ánægju með ýmis áform um stórframkvæmdir á suðvesturhorninu þar sem engin þörf er fyrir þær.

Þetta vildi ég sagt hafa en ég þakka hv. þingmanni fyrir þann áhuga sem hún hefur fyrir velferð umbjóðenda sinna.