135. löggjafarþing — 67. fundur
 21. feb. 2008.
þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður, 1. umræða.
frv. StB o.fl., 403. mál (aðstoðarmenn alþingismanna). — Þskj. 654.

[16:53]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.

Að flutningi frumvarpsins standa auk mín fulltrúar í forsætisnefnd, varaforsetar þingsins, aðrir en fulltrúi Vinstri grænna, þ.e. Þuríður Backman 2. varaforseti, en flokkur hennar átti ekki aðild að þeim breytingum á þingsköpum sem þetta mál er sprottið úr.

Eins og hv. alþingismenn muna var samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, sem lagt var fram á Alþingi á haustþingi, gert samkomulag á milli þingflokkanna sem að því stóðu um að bæta starfsaðstöðu alþingismanna, ekki síst stjórnarandstöðuþingmanna, með ýmsum ráðum. Samkomulag náðist m.a. um að formenn stjórnarandstöðuflokka, sem jafnframt eru alþingismenn, og þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmis fái aðstoðarmenn sem vinni að tilteknum verkefnum í þágu viðkomandi kjördæmis vegna skyldustarfa þingmanna.

Ég tel löngu tímabært að formenn stjórnmálaflokka sem ekki eru jafnframt ráðherrar — það þýðir í reynd formenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi — fái aðstoðarmenn líkt og ráðherrar hafa haft um langan tíma eða allt frá 1970 er sett voru ný lög um Stjórnarráðið. Starf formanna flokkanna er ærið annasamt ekki bara á vettvangi innra starfs þeirra í flokkunum heldur fyrst og fremst í hinni almennu þjóðfélagsumræðu, bæði á Alþingi, í fjölmiðlum og á margvíslegum fundum og ráðstefnum. Ég tel að það sé réttmætt að þingið leggi þeim forustumönnum þess sem mest mæðir á þá aðstoð sem tök eru á og létti þannig undir.

Ég tel einnig að hér sé mikilvægt skref stigið með því að veita þeim þingmönnum sem kosnir eru í hinum víðfeðmu kjördæmum, Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi, rétt til þess að fá aðstoð til að sinna störfum sínum og skyldum í þeim kjördæmum. Ég held það sé nær samdóma álit allra þingmanna þessara kjördæma að stærð þeirra sé slík að það sé á mörkunum að þingmenn geti sinnt kjósendum, sveitarstjórnum, atvinnufyrirtækjum og félagasamtökum svo sem vera ber og sómi sé að. Með aðstoðarmönnum er verið að létta undir og auka tengslin við þá aðila í kjördæminu sem þingmaðurinn þarf að vera í sambandi við. Grundvallaratriðið er að aðstoðarmaður þingmannsins sé með fasta starfsstöð í kjördæminu og vinni þannig í grasrótinni eins og það er kallað.

Ég tel að með þessu frumvarpi séum við að stíga fyrstu skrefin inn á nýja braut í starfi alþingismanna og Alþingis. Hér er farið varlega, og kannski sparlega, af stað en við verðum síðan að sjá hvernig þetta fyrirkomulag reynist og laga það og bæta eftir því sem reynslan kennir okkur. Við útfærsluna höfum við haft úr ákveðnum fjárhagsramma að spila samkvæmt fjárlögum og tilhögun þessa kerfis byggist auðvitað mikið á því.

Forsætisnefnd afgreiddi nú í vikunni endanlega fyrir sitt leyti reglur um aðstoðarmenn alþingismanna í hinum stóru kjördæmum utan Reykjavíkursvæðisins og um aðstoðarmenn formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Jafnframt lágu fyrir í nefndinni nær fullbúin drög að ráðningarsamningum og þar með rammi um starfskjör aðstoðarmannanna. Ef okkur tekst að afgreiða þetta frumvarp á fáum dögum ætti þetta fyrirkomulag að geta tekið gildi frá og með 1. mars nk.

Ég vil geta þess að um þessi efni hef ég átt allmikið samstarf við formenn þingflokkanna og haldið marga fundi með þeim um málið. Jafnframt hefur farið fram umræða um málið í forsætisnefnd og ég hef átt samtöl við formenn flokkanna á þeim tíma sem undirbúningur hefur staðið. En það er rétt og skylt að halda því til haga að upp hafa komið álitamál um einstök atriði í útfærslu þessa nýja fyrirkomulags sem þetta frumvarp mælir fyrir um. Í þeim efnum verður forseti og forsætisnefnd að marka reglur sem vinna verður eftir á grundvelli þeirra laga sem fyrir liggja og á grundvelli fjárlaga.

Í þeim reglum sem fyrir liggja um starfskjör og starfsaðstöðu aðstoðarmanna segir að aðstoðarmenn alþingismanna, sem jafnframt eru formenn stjórnmálaflokka, hafi sem föst laun, og sem heildarlaun fyrir starf sitt, þingfararkaup auk greiðslna á móti ferðakostnaði og símakostnaði. Þessir aðstoðarmenn munu hafa skrifstofu í húsakynnum Alþingis og fá alla almenna skrifstofuþjónustu eins og starfsmenn þingsins.

Aðstoðarmenn alþingismanna úr stóru kjördæmunum munu hins vegar hafa sem grunnviðmiðun launa sinna 75% af þingfararkaupi. Hver þingmanna úr þessum kjördæmum sem ekki hefur aðstoðarmann nú þegar, eins og ráðherrar eða formenn flokka, á rétt á að fá aðstoðarmann í þriðjungsstarfshlutfalli. Það þýðir að laun aðstoðarmannsins verða 25% af þingfararkaupi. Í reglum forsætisnefndar er gert ráð fyrir því að þingmenn geti, ef þeir kjósa svo, komið sér saman um aðstoðarmann og hækkar þá bæði starfs- og launahlutfall sem því nemur.

Aðstoðarmenn alþingismanna munu hafa, eins og áður sagði, aðstöðu í kjördæmunum og fá auk fastra launa greiðslu á móti kostnaði við ferðir, farsíma og annan rekstur. Útlagður kostnaður verður endurgreiddur samkvæmt framlögðum reikningum. Settar verða nánari vinnureglur um framkvæmd þessara greiðslna. Öll umsýsla verður að sjálfsögðu eins og um aðra hluti í höndum skrifstofu Alþingis og þess ágæta fólks sem þar starfar.

Í reglunum sem forsætisnefnd hefur afgreitt er fjallað um ráðningar aðstoðarmanna og hvernig staðið verður að þeim. Ráða má í störfin án auglýsingar, a.m.k. verður það ekki skylt. Skriflegir ráðningarsamningar verði gerðir en skrifstofa Alþingis áritar samninginn og sér um alla launaumsýslu. Óheimilt verður að ráða sem aðstoðarmann náið skyldmenni alþingismanns. Er þessi regla ekki síst sett með þá reynslu í huga sem fengist hefur erlendis af þessu kerfi aðstoðarmanna þingmanna. Að öðru leyti má segja um störf aðstoðarmanna að þingmaðurinn setur aðstoðarmanni fyrir verkefni og stjórnar starfi hans, fer með öðrum orðum með húsbóndavald yfir honum. Enginn annar aðili kemst þar á milli.

Skrifstofa Alþingis mun veita aðstoðarmönnum þingmanna svipaða þjónustu og þá sem alþingismenn fá, eftir því sem við á, þar á meðal frá upplýsinga- og rannsóknarþjónustu skrifstofunnar og jafnframt mun skrifstofan veita leiðbeiningar um tölvunotkun.

Eins og fram kemur í frumvarpsgreininni er lagt til að lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur settar samkvæmt þeim gildi ekki um aðstoðarmenn alþingismanna, þeir séu með öðrum orðum ekki opinberir starfsmenn. Eðli þessara starfa er þannig að ekki getur talist eðlilegt að þeir teljist í þeim hópi og þannig fæst líka nauðsynlegt svigrúm fyrir alþingismanninn til þess að haga ráðningu aðstoðarmanns fyrst og fremst eftir sínum þörfum og sínum sjónarmiðum. Nauðsynlegt er jafnframt að 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, gildi ekki um aðstoðarmennina þannig að það ákvæði, að tímabundinn ráðningarsamningur megi almennt ekki vara lengur en tvö ár, eigi ekki við um ráðningu aðstoðarmanna alþingismanna.

Frumvarp þetta felur í sér almenna heimild til að ráða alþingismönnum aðstoðarmenn. Það sjónarmið liggur til grundvallar að til frambúðar verði réttur þingmanna í þessum efnum til staðar. Hér er hins vegar um mikla breytingu að tefla og við förum varlega af stað, eins og ég gat um fyrr, og höldum okkur innan þess fjárhagsramma sem til þessa er ætlaður. Verði breytingar á þessu fyrirkomulagi og fjárveitingar auknar má breyta þeim reglum sem forsætisnefnd hefur sett samkvæmt heimild í þessum lögum en ekki þarf þá sérstaka lagabreytingu verði það niðurstaða þingsins að leggja til meiri fjármuni.

Ég vil svo leggja áherslu á í lokin, hæstv. forseti, að það fyrirkomulag sem nú fer af stað sæti endurskoðun þegar reynsla er af því fengin þannig að við gætum þá sniðið af vankanta, ef þeir finnast, og lagað það svo að best henti störfum alþingismanna.

Hæstv. forseti. Þar sem frumvarp þetta hefur verið til umræðu á vettvangi þingmanna, bæði í hópi formanna þingflokka og innan forsætisnefndar, sé ég ekki ástæðu til að gera tillögu um að málið fari til nefndar milli umræðna.



[17:03]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka fram að ég var því sammála, og lýsti því í þingræðu þegar þingskapafrumvarpið svokallaða var til umræðu, að nauðsynlegt væri og sjálfsagt að formenn stjórnarandstöðuflokkanna ættu rétt á og hefðu möguleika til að ráða sér aðstoðarmann til að jafna þann aðstöðumun sem væri á milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnar. Því ber að fagna að tillögur skuli vera bornar fram um það atriði. Ég gerði hins vegar ítarlega grein fyrir því í umræðum á þeim tíma, í lok síðasta árs, að ég gæti ekki verið sammála því að þingmönnum væri mismunað, ég teldi að sömu reglur og sömu starfskjör ættu að gilda fyrir alla þingmenn. Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi.

Hæstv. forseti Alþingis á heiður skilinn fyrir það með hvaða hætti hann hefur komið að þessum málum. Hann hefur beitt sér fyrir ákveðnum lýðræðislegum umbótum sem snerta hagsmuni stjórnarandstöðu og verið með lýðræðisviðmiðanir sem að mörgu leyti eru ágætar og til þess fallnar að gera starf stjórnarandstöðu skilvirkara. Hann hefur beitt sér fyrir nauðsynlegum umbótum til að stjórnarandstaðan geti rækt skyldur sínar sem best og haft svipaða aðstöðu og ríkisstjórn á hverjum tíma. Það ber að þakka.

Í lok ræðu sinnar minntist hæstv. forseti á að spurningin snerist um að afgreiða frumvarpið, sníða hugsanlega af því vankantana og gera hlutina eins og best mundi henta. Um það snýst spurningin. Í sjálfu sér má velta því fyrir sér hvort rétt leið sé farin með því frumvarpi sem hér er lagt til. Verið er að tala um að bæta við III. kafla laganna um þingfararkaup og almennan alþingiskostnað, þar sem fjallað er um önnur starfskjör þingmanna, og er vísað til þess að alþingismanni sé heimilt að ráða sér aðstoðarmann eins og hér er lagt til. Í lögum um þingfararkaup Alþingis og þingfararkostnað er greint frá því með hvaða hætti og hvernig það skuli greitt en í frumvarpinu kemur svolítið annað inn í viðmiðunina. Í því er vísað til þess að ákveðin geðþóttaákvörðun forsætisnefndar Alþingis komi inn með viðmiðun um það fé sem veitt er á fjárlögum hvers árs. Það er fyrsta atriðið sem ég staldra við.

Í fyrsta lagi er hér um framsal lagasetningarvalds að ræða og það finnst mér óeðlilegt. Út frá lagatæknilegu sjónarmiði finnst mér þetta ákvæði vera með þeim hætti að gera verði á því breytingar þannig að það sé ákveðið nákvæmlega, með sama hætti og almennt er fjallað um málið í lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, hvaða reglur gilda um þennan kostnað — og þetta fellur undir kaflann um önnur starfskjör alþingismanna og því verður að gera nákvæmlega grein fyrir því vegna þess að við erum að setja lög sem eiga að standa lengur en eitt ár til tvö ár eða eitt kjörtímabil. Lög festast iðulega í sessi og við verðum að vanda til lagasmíða. Meðal annars þess vegna tel ég nauðsynlegt að þessu frumvarpi til laga verði að aflokinni 1. umr. vísað til allsherjarnefndar til umfjöllunar, til að málið verði kannað og gengið frá vandaðri lagasmíð um það.

Ég lýsti því áðan að mér finnst heimildarákvæðið, „alþingismanni er heimilt að ráða sér aðstoðarmann eftir nánari reglum sem forsætisnefnd Alþingis setur“, óeðlileg viðmiðun. Ákvæði eiga að vera um það hver kjör alþingismanns eru nákvæmlega og setja það í lög, það á ekki að vera valkvætt eða háð geðþóttaákvörðun forsætisnefndar eða því sem meiri hluti þings ákveður hverju sinni um fjárveitingar á fjárlögum. Lög standa iðulega lengur en eitt kjörtímabil, eins og ég sagði. Það kann vel að vera að forsetar komi að stjórn sem hugsa ekki með sama lýðræðislega hætti og sá hæstv. forseti Alþingis sem nú situr gerir. Þá vaknar spurning um það með hvaða hætti og hvernig farið verður með umrætt ákvæði og hvaða starfskjör þingmönnum verður þá boðið upp á. Það er m.a. þess vegna sem mér finnst þetta framsal lagasetningarvalds ekki koma til greina.

Ýmsar spurningar koma upp í hugann varðandi frumvarpið að öðru leyti. Hver er það sem í raun greiðir aðstoðarmanninum laun? Er það alþingismaðurinn sjálfur? Á hann að vera með sérgreint bókhald um þessi atriði vegna þess að honum er heimilt að ráða aðstoðarmann og vikið er að því að öðru leyti að starfskjör aðstoðarmannsins séu önnur og fari ekki eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ýmislegt í þeim dúr? Hver er hinn raunverulegi launagreiðandi aðstoðarmannsins? Er það þingmaðurinn sjálfur? Miðað við það orðalag að alþingismanni sé heimilt að ráða aðstoðarmann mætti ætla það. Þingmaðurinn yrði þá að gera bókhaldslega grein fyrir því. Hann er þá orðinn vinnuveitandi sem slíkur. Spurningin er: Hvernig verður uppgjöri háttað? Með það í huga m.a. velti ég því fyrir mér hvort ekki hefði verið heppilegra að hafa ákvæðið með öðrum hætti þannig að raunverulega væri farið í sama farveg og gildir að öðru leyti um lögin um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað og þeirri reglu fylgt sem þar er almennt mótuð um það að starfskjörin eru ákveðin í lögum — m.a. mætti koma fram með þá hugmynd að alþingismanni væri heimilt að ráða sér aðstoðarmann og fá þar af leiðandi ákveðnar greiðslur, t.d. einn þriðja af þingfararkaupi, til að standa straum af því. Sú spurning vaknar líka hvort binda ætti slíkt við að ráða aðstoðarmann, hvort það geti ekki verið hentugra fyrir vandað löggjafarstarf og fyrir hagsmuni þingmanna í stjórnarandstöðu að geta nýtt slíka fjármuni til ýmissa annarra hluta en vera með aðstoðarmann, t.d. í að greiða sérfræðiþjónustu og sérfræðiaðstoð.

Ég hefði því talið heppilegra að í fyrsta lagi yrði miðað við að þingmaður fengi þá, ef vilji er til þess að auka möguleika alþingismanna til að hafa hlutina í þessu formi, ákveðna viðbót sem hann gæti varið til ýmiss konar hluta, sérfræðiálits eða annars, og þyrfti þá að gera grein fyrir því, hugsanlega árlega eða með stuttu millibili, með hvaða hætti og hvernig fjármunum væri varið. Með þeim hætti kæmum við betur til móts við stjórnarandstöðu og stuðlum að vandaðra löggjafarstarfi og möguleikum stjórnarandstöðu og stjórnarandstöðuþingmanna til að fylgjast með og afla upplýsinga sem eru stjórnarþingmönnum almennt aðgengilegri. Þetta er spurningin um metnað fyrir hönd Alþingis, hvernig við lítum á Alþingi og hvert eigi að vera hlutverk þess.

Ég segi, virðulegi forseti: Alþingi er löggjafarstofnun. Það er starf okkar að setja þjóðinni vönduð lög og því þurfum við að hafa allar bestu tiltæku upplýsingar hverju sinni. Alþingismenn þurfa fyrst og fremst á þeirri aðstoð að halda sem auðveldar þeim það starf sitt að vera handhafar löggjafarvalds. Alþingismenn þurfa ekki sérstaklega á því að halda að vera með hlaupasnata einhvers staðar úti á landi sem pakkasendla eða frímerkjasleikjara — þið fyrirgefið orðbragðið. Menn verða að líta á starf sitt af bærilegri virðingu og aðalatriðið er að alþingismaður geti ævinlega leitað upplýsinga og fengið þær þannig að það auðveldi störf hans sem löggjafa og geri honum fært að vinna störf sín sem allra best.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því, og frumvarpið er orðað með þeim hætti, að alþingismanni sé heimilt að ráða sér aðstoðarmann. Í greinargerðinni er gerð grein fyrir því að það eigi ekki við um alþingismenn heldur eigi það við um ákveðinn hóp alþingismanna. Hvaða hópur er það? Það eru alþingismenn í þremur kjördæmum, Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Þetta á ekki að taka til starfskjara alþingismanna í Reykjavíkurkjördæmunum eða í Suðvesturkjördæmi. Málið snýst um það, og um það er talað í greinargerð, að auðvelda eigi þingmönnum að vera í virku sambandi við kjósendur sína. Þá ber þess að geta að kjósendur í Suðvesturkjördæmi eru fleiri en í Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi samanlagt. Ekki er hins vegar átt við að þingmenn Suðvesturkjördæmis eigi rétt á þessu. Þrátt fyrir orðalag í frumvarpinu, í drögum að lagatexta, eiga þingmenn Suðvesturkjördæmis ekki frekar en þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna rétt á slíkum starfskjörum. Hvað veldur? Ætlum við virkilega að líta þannig á að alþingismenn séu fyrst og fremst kosnir fyrir ferkílómetra en ekki fólk? Ég lít þannig á að alþingismaður sé kosinn til að þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar, ekki í sjálfu sér ákveðins kjördæmis heldur íslensku þjóðarinnar.

Við setjum þjóðinni lög og okkur ber skylda til þess. Á grundvelli stjórnarskrárinnar ber okkur skylda til að rækja skyldur okkar gagnvart öllum landsmönnum, ekki bara hluta þeirra. Það er þess vegna sem mér finnst óeðlilegt að greina og skilja þarna á milli réttinda alþingismanna. Ég tel það í raun andstætt lögum, andstætt stjórnarskránni hvað það varðar að þeir sem gegni sömu stöðum séu jafnir fyrir lögunum. Í 65. gr. í stjórnarskrá lýðveldisins segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda o.s.frv. Með því að setja fram löggjöf með þessum hætti er verið að mismuna þeim sem gegna sömu störfum og það er óásættanlegt.

Ég get ekki séð að ef frumvarpið færi í gegn óbreytt væri stætt á því að meina alþingismanni, sem krefðist þess að fá sömu starfskjör og aðrir sem fá aðstoðarmenn samkvæmt frumvarpinu, um það. Hann gæti þá að sjálfsögðu vísað til þess að hann ætti að hafa sömu starfskjör samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár. Ef litið er til ákvæða stjórnarskrár um þingmenn, þingstörf, er hvergi gerður greinarmunur á þeim eftir kjördæmum og að sjálfsögðu eigum við ekki að falla í þann ramma að fara að gera greinarmun á þingmönnum eftir kjördæmum. Við eigum að heimila öllum að hafa sömu starfskjör. Síðan er það annað mál, virðulegi forseti, hvort eðlilegt sé að Alþingi Íslendinga skammti sjálfu sér starfskjör með þessum hætti.



[17:19]Útbýting:

[17:19]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Magnússon fór í ræðu sinni nokkrum orðum um ást hæstv. forseta Alþingis á lýðræðinu. Ég ætla ekki að hætta mér út í neinar vangaveltur um það efni að sinni en vil þó segja að frumvarpið sem hann talar fyrir byggir á meirihlutavilja innan Alþingis. Það er hluti af pakka sem stjórnarmeirihlutinn ásamt Framsóknarflokki og Frjálslynda flokknum varð ásáttur um í aðdraganda jólahátíðar eins og menn muna eflaust. Þá vildi hæstv. forseti fyrir engan mun aðskilja kjarabætur, sem svo voru nefndar, til handa þingflokkunum, og einkum stjórnarandstöðunni, frá breytingum á þingskapalögum. Þetta er hluti af þessum pakka sem fluttur er af þeim sem sæti eiga í forsætisnefnd þingsins að undanskilinni hv. þm. Þuríði Backman sem stendur ekki að þessu frumvarpi, eins og kom fram í máli hæstv. forseta. Þetta vildi ég árétta í upphafi orða minna.

Rétt er að spyrja í þessu samhengi hvert sé meginviðfangsefni og hlutverk Alþingis. Það er tvíþætt: Það er annars vegar vinna sem tengist löggjöf, setningu laga, og síðan er það aðhald gagnvart stjórnarmeirihluta og framkvæmdarvaldinu hverju sinni. Hvernig verður það verk best innt af hendi? Jú, með góðri, faglegri aðstoð innan þingsins.

Ég hef jafnan verið talsmaður þess að sú leið sem við ættum að fara væri að leggja höfuðáherslu á að efla nefndasvið Alþingis þannig að þingmenn, hvort sem þeir koma úr stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu, eigi greiðan aðgang að nefndasviðinu um aðstoð við smíði frumvarpa, við að greina frumvörp sem fram koma og annað sem snertir löggjafarstarfið. Það er sú leið sem ég tel heppilegasta.

Varðandi aðstoð við stjórnmálastarfsemina, við stjórnmálaflokka, þá er ég mjög á því máli að hún eigi að vera á félagslegum forsendum, ekki einstaklingsbundnum eins og hér er verið að feta sig í átt að. Eins og fram hefur komið hafa þegar komið fram kröfur um að jafnræði ríki meðal þingmanna hvað þetta snertir. Við heyrðum það í röksemdafærslu síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Magnússonar, og hæstv. forseti Sturla Böðvarsson sagði að búast mætti við því að í framtíðinni yrði þetta réttur allra þingmanna. Finnst okkur það vera gott og eftirsóknarvert? Nei. Sem skattborgari hef ég ekki nokkurn einasta áhuga á að greiða fyrir þjónastarf við þingmenn sem einstaklinga, alls ekki. Ég væri tilbúinn að láta skattfé mitt renna til að efla þingið og þess vegna til að efla stjórnmálastarfsemi í landinu en ekki á þessum forsendum. Þannig að ég tel að við förum inn á afar vafasamar brautir með þessu frumvarpi.

Síðan spyr ég um hitt ... (JM: Skattborgarinn borgar laun til formanns BSRB.) Það vill svo til að formaður BSRB er ekki á neinum launum, þiggur engin laun og hefur ekki gert frá fyrsta degi eftir að hann kom inn á þing í maímánuði árið 1995. (KHG: Skattborgarinn borgar honum laun. Þá er það ...) Þetta var skemmtilegt málefnalegt inngrip frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem er að vísu alveg út í hött í þessu samhengi og byggir heldur ekki á neinum staðreyndum. En hafa menn hugleitt hvað þeir eru að gera gagnvart launakerfinu innan húss? Þeirri mismunun sem verið er að innleiða inn í húsið gagnvart starfsmönnum þingsins annars vegar og síðan starfsmönnum þingmanna hins vegar? Finnst mönnum það vera eðlilegt? Ég spyr: Hefur það verið rætt við starfsmannafélagið og hefur stjórn þingsins ákveðið með hvaða hætti hún muni taka á kjaramálum starfsmanna innan húss í kjölfarið? Það er nokkuð sem við sem alþingismenn munum að sjálfsögðu fylgjast með hvernig farið verður með, að hér verði ekki búið til mismununarkerfi, að eitt gildi um herraþjóðina og annað um þá sem henni eiga að þjóna. Hæstv. forseti. Þetta er umræða sem er nú að hefjast og ekki sér fyrir endann á.



[17:25]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti vill biðja þingmenn um að gæta að ávörpum.



[17:25]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fram komi strax í upphafi að þingflokkur Frjálslynda flokksins stendur að þessu máli. Hann á ekki flutningsmenn að frumvarpinu vegna þess að hann á ekki fulltrúa í forsætisnefnd en við tókum þátt í undirbúningi málsins á haustþingi og stóðum að flutningi lagafrumvarps um breytingu á þingsköpum þá. Þetta er hluti af því máli og við stöndum að því að öðru leyti en því að hv. þm. Jón Magnússon hefur gert grein fyrir sinni skoðun hér. Það gerði hann reyndar fyrir áramót eins og þingmönnum er kunnugt um.

Ég held að menn verði að átta sig á því að þörf er á því að þingmenn hafi aðstöðu og möguleika á að rækja starf sitt sem best. Það þykir mönnum sjálfsagt annars staðar. Það þykir hv. þm. Ögmundi Jónassyni sjálfsagt annars staðar. Honum finnst sjálfsagt að þegar þingmenn verða ráðherrar hafi þeir aðgang að starfsfólki og möguleika til að hafa aðstoð við að undirbúa starf sitt. Af einhverjum ástæðum þykir honum eitthvað annað eiga við um þingmenn, að ekki eigi að vera sömu möguleikar fyrir hendi og hann leggst gegn breytingum í þá átt að stíga skref til þess að þingmenn geti fengið aðstoðarmenn við störf sín.

Fram kom í haust að hv. þingmaður gerði sitt besta til að koma í veg fyrir að hér yrðu gerðar breytingar á þingsköpum og lagði sig mjög fram um að torvelda samkomulag í þeim efnum. En honum varð ekki að ósk sinni að lokum og samkomulag annarra flokka var gert og það náði fram að ganga sem betur fer. Við heyrðum fyrr á þingfundinum í 3. umr. um jafnréttisfrumvarpið að einn þingmaður þingflokks hans, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, tók það einmitt sérstaklega fram að einn þáttur í breyttum þingsköpum, þ.e. að heimilt væri að vísa máli til nefndar milli 2. og 3. umr. ef einn þingmaður óskaði þess, hefði verið mjög til góðs. Það var ein af breytingunum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lagðist gegn.

Sem betur fer er mikill meiri hluti fyrir því að halda áfram á þeirri braut sem menn hafa verið að stíga. Hv. þm. Ögmundi Jónassyni tókst í átta ár að koma í veg fyrir að þingsköpum yrði breytt. Það var einmitt líka fyrir átta árum sem tillögur um aðstoðarmenn landsbyggðarþingmanna komu fram í tengslum við kjördæmabreytinguna sem þá var verið að vinna að. Sérstök nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka, m.a. þess þingflokks sem hv. þm. Ögmundur Jónasson átti sæti í, lagði til breytingar í þessa veru, að landsbyggðarþingmenn fengju að ráða sér aðstoðarmann í hálfu starfi samhliða því að tekin yrðu upp mjög stór kjördæmi á landsbyggðinni. Fyrsti þingmaður í kjördæmi hvers flokks fengi að ráða sér aðstoðarmann í heilt stöðugildi. Þetta var samkomulag sem stjórnarflokkarnir gerðu sín á milli á sínum tíma og var liður í samkomulagi um kjördæmabreytinguna. Ekki var annað vitað á þeim tíma en að allir stæðu að því. Það kom hins vegar því miður í ljós eftir kosningarnar 1999 að formenn þeirra stjórnmálaflokka sem þá sátu í ríkisstjórn reyndust vera andvígir samkomulaginu þegar til átti að taka. Þeir höfðu einfaldlega ekki gert grein fyrir þeirri afstöðu sinni fyrir kosningar þannig að þingmenn flokka þeirra vissu ekki annað en að fullt samkomulag væri um það. Síðan kom í ljós að svo var ekki. Því miður náði þetta ekki fram að ganga þá.

Síðan var gerð önnur atlaga að þessu máli í tengslum við breytingar á þingsköpum sem einnig stóð til að gera fyrir átta árum og þess vegna var málið tekið upp undir forustu núverandi forseta Alþingis. Honum tókst að ná samkomulagi annars vegar um breytt þingsköp og hins vegar um að þetta yrði efnt. Mér finnst það ekki slæmur árangur að tekist hafi að efna það nú sem gera átti fyrir átta árum. Ég er algerlega ósammála þeim sem hér tala að um einhverja nýbreytni sé að ræða sem beri að varast. Ég held að allir sjái sem komið hafa að þessum störfum, hvort sem er hér á Alþingi eða annars staðar, að mikil þörf er á þessu og full rök fyrir því.

Atriðið um aðstoðarmann í landsbyggðarkjördæmi er sérstaklega rökstutt með því að það auðveldar þingmönnum að hafa samband við kjósendur og rækja skyldur sínar í kjördæminu. Einmitt vegna þess að kjördæmin eru stór og ferkílómetrarnir margir er talin þörf á því að þingmenn þessara kjördæma hafi menn sér til aðstoðar til að rækja skyldur sínar. Kjördæmin eru víðlend, dreifbýl, margir þéttbýlisstaðir í hverju kjördæmi og þingmenn hafa einfaldlega ekki möguleika á því að sinna hlutverki sínu á öllum stöðum sem vert væri vegna þess að margt fer fram samtímis. Það er bara þannig sem þetta er til komið. Það er ekki sérstaklega hugsað sem aðstoð við starf þingmannsins í málatilbúnaði, þ.e. aðstoð við að undirbúa mál. Það er annar rökstuðningur sem er gildur í sjálfu sér og getur stutt að starf aðstoðarmanns verði yfirgripsmeira en með þessu frumvarpi er gefinn möguleiki á að stofnað verði til þess. Það mundi þá auðvitað ná til allra þingmanna sem eðlilegt er því að allir sitja við sama borð í þeim efnum.

Hvað þennan þátt málsins varðar, þ.e. starfið í kjördæmunum, eru aðstæður sérstakar í landsbyggðarkjördæmum og halda áfram að vera það. Fyrsta skrefið sem stigið er varðar bara það, eins og kom fram í máli hæstv. forseta Alþingis. Væntanlega — og ég er sammála honum um það — verður næsta skref það að heimilað verði að ráða aðstoðarmenn sem hafa sérstaklega það hlutverk að aðstoða þingmanninn í málatilbúnaði. Það mun þá auðvitað gilda gagnvart öllum þingmönnum. Hvernig það verður eða hvenær veit ég ekki frekar en aðrir en væntanlega — og ég hef þá skoðun á þessu stigi — verður það fyrr en seinna sem það skref verður stigið.

Það er líka misskilningur sem hér kom fram að verið sé að mismuna þingmönnum með þessu í starfskjörum. Það er ekki verið að gera og ég get vísað til þess að nú eru í gildi mismunandi greiðslur til þingmanna eftir kjördæmum hvað varðar starfskostnað, húsnæðiskostnað og ferðakostnað. Það er vegna þess að aðstæður í landsbyggðarkjördæmi eru öðruvísi en í höfuðborgarkjördæmi. Þess vegna eru þessar reglur mismunandi eins og þær eru í dag og hafa verið í mörg ár. Það er rangt að halda því fram að svo hafi ekki verið. Ég vísa því algerlega á bug að slíkt sé brot á einhverri jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þeir sem svoleiðis tala gera það ekki af mikilli yfirvegun og menn eiga ekki að velja komandi aðstoðarmönnum, sem nú á að ráða, einhver ónefni eins og heyrðist úr ræðustóli fyrr í þessari umræðu. Það er ekki til þess að stuðla að málefnalegri umræðu og þeir sem leyfa sér slíkan málflutning eru fyrst og fremst að dæma sjálfa sig en ekki þá sem standa að því að flytja þetta frumvarp.

Það er að vísu minna en um var samið árið 1999 og var þá — ég ítreka — samkomulag allra stjórnmálaflokka eins og hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson veit því að hann var á þeim tíma í forsvari fyrir stjórnmálaflokk. Auðvitað er minna að ráða í einn þriðja úr stöðugildi í stað hálfs, að sjálfsögðu munar um það og er minna en til stóð. Ég vonast til þess að síðar meir verði hlutfallið hækkað upp í það sem um var samið milli stjórnmálaflokkanna á þeim tíma. Það er full ástæða til þess. En það er áfangi og ávinningur í því að koma þessu samkomulagi loksins í höfn og jafnframt ánægjulegt hversu víðtækur stuðningur er við það á Alþingi. Ég hygg að ef miðað er við breytingar á þingsköpum fyrir jól standi yfir 80% þingmanna að þessari breytingu og er það vel. Það ber vott um að um hana er almennt samkomulag og mikill stuðningur. Það er vonandi að hv. þingmenn taki mið af því í málflutningi sínum.



[17:36]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta sem hér er til umræðu er eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði byggt á samkomulagi sem gert var á Alþingi fyrir jól og það verður auðvitað að standa við samkomulag sem gert hefur verið. Ég hlýt hins vegar að lýsa þeirri skoðun minni að að því er snertir þennan hluta þessa samkomulags þá hefði ég talið það mun heppilegra ef þeim peningum sem á að verja til að greiða aðstoðarmönnum landsbyggðarþingmanna hefði verið varið til að styrkja störf þingsins og þá kannski sérstaklega nefndasviðið.



[17:37]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kom eiginlega fyrst og fremst hingað í ræðustól til að lýsa ánægju minni með að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sé ekki sagnfræðingur Alþingis og skrifar ekki sögu þess sem hér gerist. Sem betur fer geta menn kynnt sér afstöðu manna til þingskapafrumvarpsins og annarra mála sem komið hafa fyrir þingið í gögnum þingsins. Við gerðum grein fyrir okkar afstöðu til þingskapalaganna þegar þau komu til umræðu hér fyrir jólin í hnitmiðuðu máli og ég bendi þeim sem koma til með að kynna sér þessa umræðu þegar fram líða stundir að fara í þau rök sem við tefldum fram.

Að stilla okkur upp sem andstæðingum breytinga á þingsköpum er náttúrlega í hæsta máta mjög ósanngjarnt. Það er rangt og það er mjög ósanngjarnt. Við höfum beitt okkur fyrir breytingum á þingsköpum. Sitthvað hefur náð fram að ganga, meðal annars í þeim pakka sem samþykktur var núna í haust eða fyrir áramótin, en við höfum fært rök fyrir því hvers vegna breytingarnar sem þá voru gerðar í heild sinni væru því miður til þess fallnar að veikja stjórnarandstöðuna og hefðum viljað sjá allt aðrar áherslur þar inni.



[17:38]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað við erum að tala um þegar við tölum um að jafna starfskjör þingmanna. Samkvæmt lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað er kveðið á um að gera sérstakar ráðstafanir varðandi ákvörðun þingfararkaups og þingfararkostnaðar til þess að þeir sem búa fjarri Alþingishúsinu, þingstaðnum, njóti sambærilegra kjara og þeir sem búa í Reykjavík eða Suðvesturkjördæmi og við höfum ákvæði um þingfararkostnað hvað það varðar, þ.e. mánaðarlegan húsnæðis- og dvalarkostnað til að hafa dvalarstað í Reykjavík og geta verið í ferðalögum sem slíkum sem útheimtast vegna fjarlægðar. En það er síðan allt annað mál það sem við erum að ræða um hér.

Hér er verið að tala um að heimila þingmanni að ráða aðstoðarmann og þar er ekki um að ræða sömu aðstæður og þeirra sem búa langt frá þingstaðnum. Í þjóðþingum víða er farið að eins og í okkar þingskapalögum með þingfararkaup. Þeir sem búa fjarri þingstaðnum fá ákveðna aðstöðu til að geta rækt starf sitt. En hér erum við að fjalla um allt annan þátt starfskjara þingmanna. Hvaða þáttur er það? Hann er sá að gefa hluta þingmanna heimildir umfram annan hóp þingmanna en það er ekkert háð þeim atriðum sem eru sérákvæði um í þeim lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað sem hér ræðir um og sem er í lögum núna. Þar af leiðandi er það röng ályktun að halda því fram að hið sama gildi um það sem kemur fram í þessu frumvarpi um heimild alþingismanna til að ráða aðstoðarmann og þau ákvæði sem þegar eru fyrir í lögum um þingfararkaup. En vegna þess sem þar er einmitt rætt um skal tekið fram að það er ekki geðþóttaákvörðun einhverra aðila hvernig með skuli fara. Þetta er ákveðið í lögum. En samkvæmt því frumvarpi sem hér er um að ræða er það geðþóttaákvörðun forsætisnefndar og fjárveitingavalds hverju sinn hvernig þetta skuli vera. Við það staldra ég í fyrsta lagi og tel óheppilegt og ég tel í raun að þarna sé um of víðtækt lagasetningarvald því það sé sett í hendur þeirra sem í raun eigi ekki með það að fara. Lagasetningarvaldið á að vera í höndum Alþingis sjálfs og það er Alþingis að móta skýrar endanlegar reglur um það hvernig skuli með fara í þessu efni.

Þegar við mörkum starfskjör hluta þingmanna þannig að þeir megi eftir því frá hvaða kjördæmi þeir koma ráða sér aðstoðarmenn en það gildi ekki fyrir aðra þá erum við í raun að mismuna þingmönnum á þann hátt að ég stend við það og held því fram að það sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár og verði þetta að lögum þá væntanlega reynir á það hvort sá lagaskilningur er réttur eða ekki. Ég tel miklu eðlilegra og heppilegra ef menn á annað borð eru að velta því fyrir sér að bæta starfskjör þingmanna að hafa þá sömu reglu sem gildir fyrir þá alla. Ég hefði hins vegar talið heppilegra ef við hefðum farið aðra leið sem hefði verið skilvirkari og betur til þess fallin að stuðla að góðu löggjafarstarfi með því að heimila þingmönnum að greiða ákveðinn hluta eða sem sagt að veita ákveðna fjárheimild til að afla sér sérfræðiálita og/eða annarra slíkra hluta sem gætu orðið til að auðvelda lagasetningar- og löggjafarstarf. Það hefði mér fundist heppilegra og vera betur til þess fallið að auka virðingu Alþingis.

Eins og frumvarpið er núna finnst mér full ástæða til að taka þann góða vilja sem liggur að baki þeim frumvarpsflutningi sem hér er um að ræða til skoðunar og gera það ítarlega af því að okkur liggur ekkert á. Það liggur ekki á að afgreiða frumvarp fyrir einhverja ákveðna dagsetningu heldur liggur okkur á hverju sinni að afgreiða lög frá Alþingi sem eru vönduð og sem standast til lengri tíma en nokkurra mánaða.



[17:43]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um frumvarpið. Þar kom út af fyrir sig ekkert alveg nýtt fram, flest af því sem hér var rætt hefur komið fram áður og kom fram þegar við gerðum breytingar á þingskapalögunum. Með þessu frumvarpi er verið að styrkja þá ákvörðun, þá breytingu sem gerð var með þingskapalögunum og með afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008 hvað varðar kostnað vegna nefndasviðsins, vegna aðstoðarmanna og fleiri atriða sem tengjast þessari umfangsmiklu breytingu á störfum þingsins. En út af því sem hér kom fram vil ég nefna nokkur atriði.

Í fyrsta lagi tel ég það af og frá að þær breytingar sem hér er verið að gera á lögum nálgist með einhverjum hætti brot á stjórnarskránni. Ég tel það alveg af og frá og vísa til þess m.a. að þær tillögur sem hér er verið að fjalla um — sem í rauninni, eins og ég sagði fyrr, er búið að taka ákvörðun um á öðrum vettvangi með breytingum á öðrum lögum — eru allt saman tillögur sem lagðar voru til grundvallar breytingum á kjördæmaskipuninni. Ég minnist þess ekki varðandi tillögur sem fylgdu ákvörðunum um breytingar á kjördæmaskipuninni sem tengjast því að bæta starfsaðstöðu þingmanna í stóru kjördæmunum að ýjað hafi verið að því þá að menn væru að brjóta stjórnarskrána með því að skapa þingmönnum betri skilyrði til að sinna starfi sínu. Það væri þá með sama hætti brot á stjórnarskránni að kosta ferðalög og búsetu þingmanna. Ég vísa þessu algerlega á bug og tel það fjarri öllu lagi.

Það er fyrst og fremst verið að gera það sem menn gerðu ráð fyrir að yrði að gerast en það er að skapa betri starfsskilyrði og ef eitthvað er brot á einhverjum reglum þá er það auðvitað það að kjördæmaskipanin er eins og hún er í dag vegna þess að þingmenn kjördæmanna, Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmis þurfa að leggja svo mikið á sig vegna vegalengda að það er algerlega ósambærilegt við þá ágætu þingmenn sem aldrei fara upp fyrir Elliðaárnar. (Gripið fram í: Hverjir eru það?) Það eru mjög margir þingmenn og allt of margir kannski ef maður lítur á það út af fyrir sig. Ég bið menn um að hefja ekki svona umræðu vegna þess að aðstæðurnar eru svo gerólíkar, vinnutíminn sem fer í það að ferðast á milli staða vegna fundahalda, vegna upplýsingaöflunar og vegna margs konar vinnu í þessum landstóru kjördæmum kostar bæði peninga og aðallega tíma, þannig að vinnustundirnar hjá þeim þingmönnum sem gert er ráð fyrir að fái bætta starfsaðstöðu eru mjög margar. Nóg um það, ég ætla ekki að hefja umræðu um þessi grundvallaratriði aftur. Við tókum þá umræðu í haust og höfum gert það áður.

Vegna þess að þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að almennt séu þessar heimildir til staðar að þingmenn hafi aðgang að starfsfólki eða starfsmönnum í hlutastarfi — og það kann að vera þegar fram líða stundir, og kannski fyrr en seinna, að þá verði gerð krafa um meiri stuðning við alla þingmenn hvar sem þeir eru — vil ég minna á það að þegar kjördæmabreytingin var gerð fengu flokkarnir töluverða fjármuni. Teknar voru frá 50 millj. á ári sem er deilt milli þingflokkanna eftir ákveðnum reglum til að auðvelda þeim starfsemina við breyttar aðstæður. Það er nauðsynlegt að rifja þetta upp og stjórnmálaflokkarnir hafa þá fjármuni og þeir eru allnokkrir.

Eins og kom fram hjá hv. 9. þm. Norðausturkjördæmis þá erum við annars vegar að tala um bætta starfsaðstöðu úti í kjördæmunum og spurninguna um sérfræðivinnu eins og hv þm. Jón Magnússon nefndi réttilega og hins vegar starfið á nefndasviðinu og í þinginu. Ég hef alltaf lagt á það ríka áherslu að við verðum að skapa stjórnarandstöðunni sérstaklega betri starfsaðstæður á vettvangi nefndastarfsins. Þess vegna verða ráðnir þrír starfsmenn sem verða aðallega í því að sinna verkefnum fyrir stjórnarandstöðuþingmennina og allt er þetta liður í því að bæta vinnubrögðin í þinginu.

Hvað það varðar að forsætisnefndin taki ákvörðun um þær reglur sem snúa bæði að launakjörum og starfskostnaði aðstoðarmannanna þá er þar alls ekki um að ræða neinar geðþóttaákvarðanir. Forsætisnefnd leggur mjög mikla vinnu í að setja þessar reglur og hefur gert það nú þegar eins og um aðrar reglur sem gilda um útgjöld vegna starfa þingmanna. Ég tel að það sé allt saman byggt á mjög traustum grunni og ekki ástæða til að vefengja það. Ég held að launakjaraviðmiðun við þingfararkaupið sé ekki tilefni eða ástæða til að láta að því liggja að verið sé að innleiða einhverja mismunun hvað varðar kjör starfsmanna sem tengjast þinginu. En auðvitað þarf að fara varlega í þessu öllu saman og ég ýti ekki til hliðar varnaðarorðum um það þegar þau eru mælt fram af góðum vilja til þess að hér sé staðið vel að verki.

Ég undirstrika það sem ég sagði fyrr að þetta frumvarp er hluti af því að bæta starfsaðstöðu þingmanna en hér er hins vegar fyrst og fremst verið að fjalla um þá aðstöðu sem þingmenn í þremur kjördæmum og formenn stjórnarandstöðuflokkanna þurfa að hafa. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða um frumvarpið og út af fyrir sig kom fátt nýtt fram.

Ég tel eftir atvikum eðlilegt að frumvarpið gangi til allsherjarnefndar á milli umræðna og þá gefist færi á að fara vandlega yfir málið, þannig að ekki sé verið að efna til neins ófriðar vegna hraðrar afgreiðslu á málinu en ég legg engu að síður áherslu á það. Ég tel að það eigi að geta verið hægt að ljúka þessu fyrir 1. mars eins og við gerðum ráð fyrir til þess að m.a. stjórnarandstaðan geti fengið þá starfskrafta sem við gerum ráð fyrir að komi til skjalanna sem við byggjum á þessu frumvarpi. Að öðru leyti þakka ég fyrir ágæta umræðu og vona að hv. þingmenn geti sæst á málið fyrir rest.



[17:53]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þann hug sem býr að baki ummælum mínum um þann kjaramismun sem kann að vera að skapast innan þingsins á milli þeirra annars vegar sem eru hér kjörnir eða starfa á vegum þeirra eða þeim tengdum og svo hins vegar starfsfólks þá beinist hugsun mín inn á þá braut að við þurfum að hyggja vel að launum, kjörum og starfsskilyrðum starfsfólks Alþingis þannig að þar búi menn ekki við lakari kjör.

Varðandi þann mismun sem hæstv. forseti telur vera annars vegar á störfum þingmanna á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni hins vegar þá leyfi ég mér að segja að þar held ég að hljóti að vera einhver misskilningur á ferðinni eða kannski vanþekking þegar talað er um okkur sem sjaldan förum út fyrir Elliðaárnar. Ég hef trú á því að þegar kemur að löggjafarstarfinu sem slíku þurfi allir þingmenn á svipaðri aðstoð að halda við sérfræðiþjónustu og annað sem tengist starfi okkar innan þingsins.

Síðan er hitt annað mál að þingmenn í stórum kjördæmum fjarri Reykjavík þurfa að ferðast meira og væntanlega munu þessir aðstoðarmenn ekki sinna því hlutverki. Innan míns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hefur verið vilji til að efla stjórnmálastarf á landsbyggðinni. Við vildum gjarnan sjá skrifstofu verða til á Akureyri, á Ísafirði (Forseti hringir.) og annars staðar á landinu til að efla stjórnmálastarfsemi, til að þjóna okkar viðhorfum og fólki í kjördæmum okkar.



[17:55]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka að það er engin ástæða til að tengja starfskjör aðstoðarmanna eða skapa tortryggni gagnvart starfsmönnum Alþingis á nokkurn háttað. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að gera tilraun til þess.

Hvað varðar hins vegar þær vangaveltur hv. þm. Ögmundar Jónassonar um vilja vinstri grænna til að efla hið pólitíska starf á landsbyggðinni, þá efast ég ekki um það og það eru ýmsir sem leggja því lið en það fer hins vegar ekki á milli mála að aðstæður þingmanna í þessum þremur kjördæmum miðað við þá sem eru á höfuðborgarsvæðinu eru gerólíkar. Ég trúi ekki öðru en samskipti hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs séu með þeim hætti að þess hafi orðið vart. Ég hlýt að velta því fyrir mér og ég trúi ekki öðru en hv. þingmenn svo sem eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson verði þess var þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ferðast um sitt víðfeðma kjördæmi og leggur nótt við dag til að vinna sem best að hagsmunum umbjóðenda sinna. Allt er þetta staðreynd og tilgangurinn með þessari lagasetningu er að leggja lóð á þær vogarskálar að bæta starfsaðstöðuna, koma upp starfsstöðvum fyrir þingmennina úti í kjördæmunum til að auðvelda þeim þetta mikilvæga verkefni.



[17:57]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er hæstv. forseti Sturla Böðvarsson ekki forseti okkar allra, þingsins alls? Heldur hann að menn í þéttbýlinu, í Reykjavík og svæðunum hér leggi ekki nótt við dag, þeir sem eru samviskusamir við sín störf? Deilan snýst ekki um þetta. Deilan snýst um það á hvaða forsendum eigi að styrkja stjórnmálastarfið, hvort eigi að gera það á einstaklingsbundnum forsendum eða á félagslegum grunni. Um það snýst deilan. Það er það sem við erum að gagnrýna í málflutningi okkar eða ég er að gera.

Varðandi þau ummæli hæstv. forseta að hér sé verið að sá einhverjum fræjum tortryggni þegar talað er um kjaramálin þá vísa ég því til föðurhúsanna. Það er ég ekki að gera, aldeilis ekki. En ég er að segja hitt að okkur alþingismönnum ber skylda til að beina sjónum okkar að kjörum þess starfsfólks sem hér vinnur ekkert síður en þeirra sem fjallað er um í þessu frumvarpi. (Gripið fram í: Hvað áttu við með því?) Hvað á ég við með því? Bara nákvæmlega það sem ég segi. Skilur hv. þingmaður ekki íslensku? Ég er að tala um að okkur beri að beina sjónum að kjörum starfsmanna þingsins ekkert síður en þeirra sem hér er verið að kveða á um að verði ráðnir fyrir skattfé borgara. (KHG: Breytir frumvarpið …?) Ég leyfi mér að bara hafa þá skoðun þó að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson leyfi sér að hafa hér allt á hornum sér.



[17:59]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er feginn að heyra það ef hv. þingmanni hefur orðið á mismæli þegar hann sagði að með þessu frumvarpi væri verið að innleiða mismunun á Alþingi í starfskjörum. Það var það sem ég greip hjá hv. þingmanni að hann segði (Gripið fram í.) og væri með því að láta að því liggja að með starfskjörum væntanlegra aðstoðarmanna, hvort sem það eru aðstoðarmenn formanna stjórnarandstöðuflokkanna eða annarra þingmanna, sé verið að raska einhverju jafnvægi. Ég tel að svo sé ekki og vona að það sé ekki meiningin hjá þingmanninum.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um það sem kom fram hjá hv. þingmanni. Það hefur legið fyrir að það eru deildar meiningar um þetta og sérstaklega af hálfu hv. þingmanna Vinstri grænna en ég met auðvitað skoðanir þeirra, þær liggja fyrir. Ég mun að sjálfsögðu leggja mig fram eins og ég hef gert við það að ná sem mestri sátt milli þingmanna í þinginu með þær breytingar sem við erum að gera og líka hvað varðar starfskjör aðstoðarmanna þingmanna og eins um þær breytingar sem við ætlum að gera á nefndasviðinu. Það hefur mikla þýðingu. (Gripið fram í.) Þar munu væntanlega fá góða þjónustu bæði þingmenn sem að jafnaði eru í því kjördæmi sem við erum stödd í núna og hinir sem þurfa að fara yfir miklu stærra landsvæði en þetta ágæta höfuðborgarsvæði sem auðvitað nýtur þess að við erum öll að vinna þar upp á hvern einasta dag.



[18:02]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti Alþingis talaði um þingmenn sem treystu sér ekki eða færu aldrei austur fyrir Elliðaár. Ég velti fyrir mér hvort hann hafi verið að vega þar að hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem býr í Vesturbæ Reykjavíkur. Hæstv. forseta til upplýsingar teygir Reykjavíkurkjördæmi sig nú þegar langt austur fyrir Elliðaár og ég er þannig staðsettur að ég verð á hverjum einasta degi að fara austur fyrir Elliðaár þannig að ég veit að forseti hefur ekki átt við mig. En það er spurning hvort hann vill miða við þessa séraðstöðu sem hér er verið að leggja til við Elliðaárnar og þá náttúrlega er alveg ljóst að það mundi annað heyra til.

Hvað varðar aðstöðu og hvað þingmenn þurfa að gera þá ræður þar, eins og í svo mörgu í lífinu, bæði framboð og eftirspurn. Í sumum tilvikum er meira framboð eða meiri eftirspurn eftir einum en öðrum og þar koma ferkílómetrar málinu ekkert við. Ég get tekið undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að starf þingmannsins meðan þingtíminn stendur er þannig að það er allur dagurinn sem er um að ræða og mun meira en allur starfsdagurinn. Það liggur líka fyrir, hæstv. forseti, að um 75% kjósenda þjóðarinnar eru staðsettir og búsettir tiltölulega nálægt höfuðborgarsvæðinu. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr er það þannig. En það sem ég vil spyrja hæstv. forseta um er þetta miðað við orð hans áðan: Munu allir þingmenn hafa sömu starfskjör að hans mati verði þetta frumvarp að lögum?



[18:04]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við þær tillögur sem voru settar fram á sínum tíma þegar kjördæmabreytingin fór fram þá verður svo ekki. Það var gert ráð fyrir hærra starfshlutfalli aðstoðarmanna en við erum að fjalla um hér og hafi það verið það sem menn töldu að þyrfti til til að starfsaðstaðan væri jöfn þá erum við ekki að ná því marki hér.



[18:04]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það þannig að hér sé þá um ákveðna mismunun að ræða á milli þingmanna. Ég get ekki skilið svar hæstv. forseta með öðrum hætti. Þá erum við aftur komin að spurningunni um það hvort það frumvarp sem hér er um að ræða sé í samræmi við stjórnarskrá sem ég hef leyft mér að draga í efa og geri enn.

Ég tel að það skipti miklu máli að menn geri sér grein fyrir því að að meginhluta til er sama starfsálag á þingmönnum, óháð því hversu kjördæmi þeirra eru víðfeðm. Ég hef ekki fengið viðhlítandi röksemdir fyrir því að það réttlæti sérstaka aðstoðarmenn fyrir þingmenn úr dreifbýliskjördæmi eða fyrir þá sem eru fjarri Reykjavíkursvæðinu þó að það séu margir ferkílómetrar sem kjördæmið tekur yfir vegna þess að þingmaðurinn þarf eftir sem áður, vilji hann vera í sambandi við kjósendur sína að heimsækja þá. Og sem betur fer háttar þannig til í nútímasamfélagi að þeir miðlar sem eru virkasti samskiptamátinn í nútímalegu samfélagi eru jafntiltækir öllum þingmönnum. Þá skiptir ekki máli hvort kjósendurnir búa nálægt eða langt frá þingstað og á ekki að taka að einu eða neinu leyti tillit til þess að virkasti samskiptamátinn er með þeim hætti að hann er öllum þingmönnum jafntiltækur. Munurinn er hins vegar sá að þingmenn Suðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjördæmis þurfa, eðli máls samkvæmt, vilji þeir rækja starf sitt vel vera í sambandi við mun fleiri kjósendur en þingmenn þeirra kjördæma sem eiga að fá sérstaka aðstoðarmenn til að rækja þann starfa.



[18:06]
Flm. (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það skyldi þó ekki vera að það að þingmenn í landsbyggðarkjördæmunum svokölluðu fái greiddan ferðakostnað feli í sér óforsvaranlega mismunun? Með sömu rökum og hv. þingmaður benti á mætti líta svo á. Með aðstoðarmönnum sem hafa starfsstöð úti í kjördæmunum er verið að auðvelda þetta starf alveg á sama hátt og það er verið að auðvelda starf þingmannanna með því að greiða ferðakostnað fyrir þá. Ef starfið á aðallega að fara fram í sölum þingsins og í nefndasviðinu þá er leikurinn náttúrlega jafn, þ.e. ef menn fengju engan kostnað greiddan nema þingfararkaupið og þeim væri ætlað að vera hér. Það er þá alveg jafnmikil mismunun fólgin í því að greiða hv. þingmönnum ferðakostnað ef þeir færu út í kjördæmi. Ég held að menn ættu að hætta að jagast um þetta. Ég held að það sé í raun og veru góður skilningur á þessum breytingum, ég hef ekki fundið annað og ég hef fengið mjög góð viðbrögð hjá þingmönnum við öllum þessum breytingum, bæði hvað varðar þingskapalögin og sömuleiðis aðstöðu formanna stjórnarandstöðuflokkanna og þingmanna úr þremur kjördæmum. Ég er því mjög sáttur við það sem hér er verið að gera og vænti þess að við getum sem allra fyrst lokið þessu máli þannig að hægt verði að taka næsta skref sem er að mínu mati það að bæta að öðru leyti almenna starfsaðstöðu allra þingmanna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.