135. löggjafarþing — 73. fundur
 3. mars 2008.
vandi landbúnaðarins og staða lífeyrissjóða.

[15:10]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Við setningu búnaðarþings í gær komu fram miklar áhyggjur af miklum verðhækkunum á aðföngum landbúnaðarins, bæði á fóðri, áburði og olíu og hækkandi vöxtum innan lands o.fl. Í Morgunblaðinu var skrifaður frábær leiðari, Kúabændur í vanda , þar sem rætt var um að bændur hafi verið í hópi framsæknustu stétta landsins á síðustu árum og menn vilja auðvitað að málin séu leyst. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra að þetta mál verði leyst? Mun ríkisvaldið koma að málinu og þá hvernig eða verður þessum hækkunum velt út í verðlagið? Það er mjög mikilvægt að leysa þetta mál sem allra fyrst, bæði gagnvart bændum, neytendum og afurðastöðvum.

Svo ætla ég að minnast á annað mál. Fyrir helgi sat ég mjög áhugavert málþing um lífeyrissjóðamál hjá BSRB. Á ráðstefnunni staðfesti fulltrúi bankakerfisins að hlutur lífeyrissjóðanna í útrásinni hefði verið afgerandi. Mátti skilja það svo að útrásin hefði alls ekki átt sér stað án lífeyrissjóðanna. Þarna kom fram að íslensku lífeyrissjóðirnir eru að stærð og burðum öflugri með hliðsjón af fólksfjölda en sjálfur olíusjóður Norðmanna. Á ráðstefnunni komu fram vangaveltur um hvort unnt væri að nýta fjármuni lífeyrissjóðanna betur innan lands. Lífeyrissjóðirnir eru auðvitað sjálfstæðir eins og bankarnir og það ber að virða. Við framsóknarmenn höfum við núverandi aðstæður hvatt til þjóðarsáttar og mikils samráðs. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hefur hann íhugað að kalla lífeyrissjóðina að slíku samræðuborði með bönkum og atvinnulífi til þess að reyna að takast á við þann mikla efnahagsvanda sem við búum nú við á Íslandi og stefnir að okkur úr svo mörgum áttum?



[15:12]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi lífeyrissjóðina. Þetta eru þekktar staðreyndir sem hv. þingmaður rakti hér um stærð þeirra og styrk og það er eitt af því sem sker sig úr á Íslandi að lífeyrissjóðirnir eru þetta öflugir en sums staðar annars staðar eru þeir byrði á ríkissjóði viðkomandi landa. Þegar ríkisvaldið ræðir við aðila vinnumarkaðarins, vinnuveitendur og launþega, þá er líka óbeint verið að tala við lífeyrissjóðina vegna þess að þessir aðilar stjórna lífeyrissjóðunum og hafa með málefni þeirra að gera og þeir koma því óbeint inn í þetta. En að kalla þá til með sjálfstæðum hætti hefur ekki verið sérstaklega rætt, enda skiptir miklu máli að þeir haldi sjálfstæði sínu, m.a. varðandi þá fjárfestingarstefnu sem þeir reka, sem hefur í gegnum allmörg ár skilað mjög góðri ávöxtun, m.a. í þeim fyrirtækjum sem hafa verið í hinni svokölluðu útrás. Nú hefur að vísu aðeins slegið í bakseglin varðandi þær fjárfestingar á síðasta ári eins og kunnugt er. Auglýsingar eru að birtast frá lífeyrissjóðunum um afkomu þeirra á síðasta ári og hún er ýmist í járnum eða örlítið réttu megin við strikið en þó miklu lakari en undanfarin ár. Það sem skiptir máli varðandi fjárfestingu lífeyrissjóðanna er auðvitað það að hún er til langs tíma og útreikningsaðferðir þeirra reikna með 3,5% ávöxtun á ári til mjög langs tíma og við erum langt yfir því marki sem betur fer.

Varðandi landbúnaðinn þá er það alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þar steðja nú að óvænt vandamál. Þau vandamál eru hins vegar áfall fyrir þjóðarbúið í heild og munu fyrr eða síðar bitna á landsmönnum hvort sem það er beint í hærra vöruverði eða óbeint með einhvers konar þátttöku ríkissjóðs sem landsmenn borga í. Vandinn er tiltölulega nýtilkominn, við þurfum að rannsaka hann betur áður en einhverjar ákvarðanir eru teknar um aðkomu ríkisins en vissulega er þetta vandamál sem við þurfum öll að hugleiða á næstunni.



[15:14]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hvað varðar landbúnaðinn og þann vanda sem að honum steðjar þá undrast ég auðvitað ummæli hæstv. forsætisráðherra „að þurfa að hugleiða“. Hér þarf auðvitað snögg viðbrögð, bæði til þess að verja þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið og halda niðri verðbólgu og ekki síður að skapa hinum framsækna landbúnaði, sem hefur verið að byggja sig upp, vissu um að á þessar miklu hækkanir, eins og á áburði upp í 80% og fóðri yfir 50% og ýmislegt annað sem mun steðja að, verði höggvið og staða greinarinnar verði ljós.

Síðan er það auðvitað rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir um lífeyrissjóðakerfið að það hefur verið vel rekið og er sterkt en fjárfestingarstefna þess skiptir máli. Þeir hafa farið með auðmönnunum á vettvang þjóðanna til að sækja sér árangur og hafa vonandi gert það og eiga þar ekki mikið í töpum en það getur líka verið (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að eiga samráð við lífeyrissjóðina til að takast á við hin stóru verkefni hér heima í ríkari mæli.



[15:16]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Varðandi landbúnaðarmálin þá er þessi vandi tiltölulega nýtilkominn. Verðlagsþróun á erlendum mörkuðum hvað varðar áburð, fóður og annað þess háttar er ný, ef svo má segja. Þessi mál tóku þessa stefnu tiltölulega nýlega þannig að vandinn er ekki bara innfluttur. Hann er líka tiltölulega nýtilkominn. Við þurfum að átta okkur á því hvernig við bregðumst við því.

Hins vegar felast að mínum dómi líka tækifæri í þessum aðstæðum fyrir íslenskan landbúnað. Ég er alveg sannfærður um það að við getum unnið góða markaði til að mynda fyrir mjólkurafurðir okkar í Evrópu og jafnvel víðar ef við höldum vel á málum. Því að afurðirnar úr íslenska landbúnaðinum, eins og hv. fyrrverandi landbúnaðarráðherra þreytist aldrei á að segja, eru einkar góðar og hollar. Og ef þær fást líka á hagstæðu verði þá er ekkert vafamál að við getum gert okkur góðan mat úr því.