135. löggjafarþing — 75. fundur
 5. mars 2008.
löggæsluskóli á Keflavíkurflugvelli.
fsp. BjörkG, 371. mál. — Þskj. 613.

[14:39]
Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Tilefni fyrirspurnar minnar til hæstv. dómsmálaráðherra er það að hann skipaði nefnd í ágúst sl. til að gera tillögu um uppbyggingu alhliða löggæslu- og öryggismálaskóla og einnig var sömu nefnd falið að meta möguleika á því að starfsemi löggæslu- og öryggismálaskóla fari fram á fyrrum varnarsvæðum á Keflavíkurflugvelli. Eftir því sem ég best veit hefur nefndin nú lokið störfum. Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort vænta megi að fyrirhugaður skóli verði stofnsettur á Keflavíkurflugvelli.

Á Keflavíkurflugvelli eru kjöraðstæður fyrir hendi fyrir löggæslu- og öryggisskóla sem styður það að slíkur skóli eigi að byggjast upp á Keflavíkurflugvelli á fyrrum varnarsvæðum. Þar er góð aðstaða til kennslu nú þegar fyrir hendi. Kennslan getur farið fram á einum stað og landrými er nægjanlegt fyrir sérstaka þjálfun og kennslu utan dyra sem öryggisskóla er nauðsynlegt. Á vallarsvæðinu eru til staðar þau íþróttamannvirki sem þarf til kennslu og æfinga og leyfi ég mér að nefna sérstaklega sundlaugina sem er sú dýpsta á landinu og hentar því vel til kennslun í köfun og björgunarstörfum. Í næsta nágrenni er síðan alþjóðaflugvöllur þar sem nemendur gætu eflaust notið þjálfunar í landamæravörslu og á ýmsum öðrum sviðum. Þarna er fjölmennt tollgæslulið, eitt það fjölmennasta á landinu, og einnig starfar í flugstöðinni mikill fjöldi öryggisvarða sem eflaust kemur til greina að hljóti þjálfun og menntun í nýjum löggæslu- og öryggismálaskóla. Þá er embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum næststærsta lögreglulið landsins sem býr yfir mikilli þekkingu, m.a. vegna starfa sinna á alþjóðaflugvelli.

Fyrir skömmu flutti Landhelgisgæslan hluta af starfsemi sinni til Keflavíkurflugvallar og Brunamálaskólinn er nú þegar fluttur með starfsemi sína á svæðið. Það er ekki hægt að segja annað en að gamla varnarsvæðið sé rétti staðurinn fyrir slíkan skóla enda hefur í áratugi farið fram á þessum stað þjálfun vegna öryggismála landsins. Á svæðinu er Keilir, miðstöð menntunar og fræða, sem býður upp á samstarf við helstu háskóla landsins. Háskóli Íslands er stærsti hluthafi Keilis. Nýr löggæslu- og öryggismálaskóli gæti því auðveldlega tengst námi á háskólastigi í gegnum Keili.

Ég tel að það hljóti að skipta töluverðu máli að á vallarsvæðinu eru nemendaíbúðir til reiðu á hagstæðum kjörum sem án efa munu laða til sín nemendur bæði utan af landi og af höfuðborgarsvæðinu. (Forseti hringir.) Það hlýtur því að vera hagkvæmt að staðsetja löggæslu- og öryggismálaskóla á þessum stað, virðulegi forseti.



[14:42]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þegar rætt var í ríkisstjórn sumarið 2006 um nýtingu húsakosts í Keflavíkurstöðinni eftir brottför varnarliðsins hreyfði ég því sjónarmiði að æskilegt kynni að vera að fá þar aðstöðu fyrir nýjan löggæsluskóla þar sem lögreglumenn, fangaverðir, tollgæslumenn og starfsmenn Landhelgisgæslu yrðu menntaðir og þjálfaðir. Ég skipaði síðan nefnd til að vinna að undirbúningi þessa skóla og starfar hún undir formennsku Ólafs Kristófers Ólafssonar, sýslumanns Snæfellinga. Nefndin hefur skilað mér áfangaskýrslu en hún hefur ekki lokið störfum og mun ljúka henni eftir að hafa fengið viðbrögð við ákveðnum atriðum í þessari áfangaskýrslu.

Virðulegi forseti. Ég er sömu skoðunar og árið 2006, að kannað skuli til hlítar að löggæsluskólinn fái aðstöðu í Keflavíkurstöðinni. Aðstaðan þar er í mörgu tilliti mjög góð fyrir skóla sem þennan eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda. Um leið og ég árétta þessa skoðun mína vil ég láta þess getið að forráðamenn Lögregluskóla ríkisins telja hann starfa við hinar bestu aðstæður á Krókhálsi hér í Reykjavík. Hafa þeir tekið dræmt hugmyndum um flutnings skólans. Málið verður ekki leitt til lykta af minni hálfu fyrr en nefnd Ólafs K. Ólafssonar sýslumanns hefur lokið störfum. Í þessu máli mun að sjálfsögðu verða að lokum lagt hlutlægt mat á hina ólíku kosti og komist að þeirri niðurstöðu sem þjónar best því markmiði sem að er stefnt.



[14:44]
Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin og auðvitað vona ég að niðurstaða í þessu máli liggi fyrir sem fyrst. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan eru mjög mörg rök sem hníga að því að þessi skóli eigi best heima í gömlu stöðinni uppi á Keflavíkurflugvelli. Þar þarf jafnframt, tel ég, að gera ráð fyrir að enn fleiri starfsgreinar á öryggissviðinu eigi aðgang að kennslu og þjálfun í slíkum skóla því að í nánustu framtíð verða án efa til störf á þessu sviði sem við sjáum ekki fyrir í dag.

Hins vegar má segja að vísir að skóla á sviði öryggis- og flugakademíu hafi verið stigið nú í febrúarmánuði þegar fagskóli Keilis og flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli gerðu með sér samning um að Keilir taki að sér að annast fræðslustarf það sem er á ábyrgð flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli frá og með 1. ágúst nk. Um er að ræða svonefnd flugverndarnámskeið ætluð þeim sem sækja um aðgangsskírteini að flugvellinum. Þá er um að ræða þjálfun fyrir öryggisverði, vopnaleit o.s.frv. Á síðasta ári var um 1.700 nemendum sinnt með slíkum námskeiðum.

Það hlýtur að kosta mikið fé að byggja upp aðstöðu fyrir löggæslu- og öryggismálaskóla með allri þeirri aðstöðu sem þarf. En með því að nýta þá aðstöðu sem fyrir er á Keflavíkurflugvelli og hefja samstarf við fagskóla Keilis hlýtur að vera hægt að spara fjármagn og því er hagkvæmasta lausnin að aðstaða skólans verði þar.