135. löggjafarþing — 77. fundur
 12. mars 2008.
þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður, frh. 3. umræðu.
frv. StB o.fl., 403. mál (aðstoðarmenn alþingismanna). — Þskj. 742, nál. 714.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:11]

[14:07]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni lagafrumvarp sem byggir á samningi sem forseti þingsins gerði við þingflokksformenn stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, svo og Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins. Fyrri hluti þessa samnings var efndur með breytingum á þingskapalögum sem samþykkt voru fyrir jólahátíðir og síðari hlutinn sem m.a. kveður á um aðstoðarmenn þingmanna er hér til afgreiðslu. Hvorugt þessara frumvarpa er samkvæmt hugmyndum og tillögum sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram um þessi efni og getum við því ekki stutt frumvarpið. Um rökstuðning okkar vísa ég í umræður í þinginu.



[14:08]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar er mál þetta hluti af breytingum á þingstörfum sem forsætisnefnd þingsins hefur haft forgöngu um og hæstv. forseti þingsins, Sturla Böðvarsson. Um málið hefur verið allvíðtækt samstarf og samráð þó að rétt sé sem fram kom í máli hans að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ekki átt aðild að þeirri samstöðu. Eins hefur hv. þm. Jón Magnússon ekki verið fylgjandi málinu og hefur það komið fram við fyrri umræður.

Ég vísa til þess sem segir í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar sem gerð var grein fyrir við 2. umr. Þar segir að nefndin líti svo á að hér sé um að ræða hluta af því verkefni að bæta stöðu og starfsumhverfi Alþingis og alþingismanna og vísar til þess sem áður hefur komið fram að allsherjarnefnd beinir því til forsætisnefndar að halda áfram þeirri vinnu, m.a. með tilliti til þess að aðstoð verði almennt aukin við þingmenn.



[14:09]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta mál er hluti af samkomulagi sem gert var á sl. hausti sem miðar að því að breyta nokkuð störfum þingsins og aðbúnaði og aðstöðu þingmanna við störf sín. Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur staðið að þessu samkomulagi og mun gera það eins og til hefur staðið og um hefur verið samið.

Það má líka benda á að þetta ákvæði samkomulagsins, þ.e. um að taka upp stöðu aðstoðarmanna þingmanna var samkomulag milli allra flokka fyrir átta árum í tengslum við kjördæmabreytinguna sem ég rakti í þingræðu við 2. umr. málsins og vísa ég til þess. Í þeim efnum eins og öðrum eiga orð að standa og stjórnmálaflokkar sem gera samkomulag af þessu tagi eiga að standa við það. Þetta átti að koma til framkvæmda árið 2003 og ég fagna því að það er loksins að verða að veruleika. (Gripið fram í.)



[14:10]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa hljóð. Umræður eru ekki í gangi að öðru leyti en því að hér er til atkvæðagreiðslu breytingartillaga á þskj. 714, 1.–2. töluliður frá Jóni Magnússyni. (Gripið fram í: Hún er kölluð aftur.) Tillagan er kölluð aftur.



Brtt. í nál. 714 kölluð aftur.

Frv.  samþ. með 33:1 atkv. og sögðu

  já:  ArnbS,  ÁKÓ,  ÁJ,  ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BjH,  BjörkG,  EKG,  EMS,  EBS,  GHH,  GMJ,  GuðbH,  GÞÞ,  HAð,  IllG,  JóhS,  KVM,  KaJúl,  KÓ,  KHG,  KÞJ,  KLM,  MS,  ÓN,  PHB,  RR,  SKK,  StB,  VS,  ÞSveinb,  ÖS.
nei:  JM.
6 þm. (ÁI,  KolH,  MÁ,  SÞÁ,  ÞBack,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
23 þm. (AtlG,  ÁÓÁ,  ÁPÁ,  ÁMM,  ÁÞS,  ÁRJ,  BjarnB,  BjörgvS,  BBj,  GSB,  GAK,  GÁ,  GSv,  HHj,  HerdÞ,  JBjarn,  JónG,  LB,  REÁ,  SF,  SJS,  VB,  ÞKG) fjarstaddir.