135. löggjafarþing — 81. fundur
 31. mars 2008.
ummæli forsætisráðherra á aðalfundi Seðlabankans.

[15:09]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir ummælum sem hann viðhafði á aðalfundi Seðlabankans nú á dögunum um að til skoðunar ætti að taka að gera óháða úttekt á virkni peningamálastefnunnar og tækja Seðlabankans í þeim efnum. Um þetta atriði hafði hæstv. forsætisráðherra m.a. eftirfarandi orð og ég styðst við prentaða útgáfu ræðunnar eins og hún kemur fyrir á heimasíðu forsætisráðuneytisins þó að þar sé vissulega tekið fram að talað orð gildi. Ég var erlendis og átti ekki kost á að sækja fundinn þannig að ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra vék orðum sínum eitthvað öðruvísi að þessu en þarna er í hinum prentaða texta en hann stendur alla vega óhaggaður á heimasíðu ráðuneytisins en, með leyfi forseta, sagði forsætisráðherra:

„Senn verður tímabært að gera fræðilega úttekt á þessu viðfangsefni í góðu samstarfi við Seðlabankann því það er nauðsynlegt að svara þeim spurningum sem upp hafa komið, meta reynsluna af framkvæmd seðlabankalaganna frá 2001 og hvort allar þær viðmiðanir sem stuðst er við séu þær heppilegustu til framtíðar litið. Til slíks verks þarf, þegar þar að kemur, að fá hæfustu sérfræðinga, erlenda og innlenda“ o.s.frv.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað felst í orðunum „senn verður tímabært“ og í orðunum „til slíks verks þarf, þegar þar að kemur“ í aðeins afmarkaðri tíma talað? Er hæstv. forsætisráðherra að tala um að þetta verði undirbúið í nokkra mánuði eða missiri og svo fari þessi könnun af stað eða hefur hann hugsanlega orðið fyrir einhverjum áhrifum m.a. af hvatningarorðum leiðarahöfundar Morgunblaðsins að það sé ekki eftir neinu að bíða?

Ég vil einnig spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna að takmarka þessa úttekt þröngt við peningamálastefnu Seðlabankans og tæki Seðlabankans? Af hverju ekki að hafa þetta úttekt á hagstjórninni og efnahagsmálunum og efnahagsstefnunni í heild sinni þannig að verk ríkisstjórnar, aðgerðir og aðgerðaleysi, verði einnig tekið til skoðunar?



[15:12]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta var alveg rétt upp lesið hjá hv. þingmanni, nákvæmlega orðrétt eftir haft. Hugsunin á bak við þessi ummæli er sú að hér á landi hafa á undanförnum missirum verið háværar umræður um það hvort peningamálastefnan hjá Seðlabankanum hafi verið í réttum farvegi eða hvort hún væri hugsanlega komin í öngstræti og hvort öll þau tæki sem hugsanlega kynnu að vera tiltæk séu í vopnabúri bankans við núverandi aðstæður. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, vænti ég, að um þetta hefur verið deilt.

Ég er ekki sammála allri þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á Seðlabankann en ég tel rétt, og þess vegna sagði ég það sem ég sagði á fundinum, að fram fari fræðileg úttekt á þessu viðfangsefni með þátttöku sérfræðings eða sérfræðinga erlendis frá auk innlendra aðila. Þetta hefur verið gert víða þar sem sambærilegt fyrirkomulag í peningamálum hefur verið tekið upp. Meðal annars hafa slíkar athuganir átt sér stað í Svíþjóð og í Nýja-Sjálandi. Það getur enginn gefið sér fyrir fram hver niðurstaðan úr slíkum athugunum yrði en það er hins vegar fáránlegt að ætla að leggjast gegn því, ef það var ætlun þingmannsins, að slík athugun fari fram.

Það sem ég átti síðan við með því að þetta væri senn tímabært og þegar þar að kæmi bæri að standa svona að verki, kemur líka fram í ummælum mínum. Það er vegna þess að um þessar mundir eigum við öll að taka höndum saman um að koma okkur út úr því ölduróti sem fjármálakerfi okkar er í núna. Þegar um hægist í þeim efnum er tímabært að ráðast í þessa úttekt.



[15:14]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef þegar tjáð mig um þessa hugmynd á jákvæðan hátt og sagt að þetta sé gagnlegt og sjálfsagt að gera um leið og ég segi að það leysir að sjálfsögðu ekki á nokkurn hátt úr vanda okkar á líðandi stundu í efnahagsmálum, og þar er ég sammála hæstv. forsætisráðherra að það þurfa allir að taka á árinni og líka hæstv. ríkisstjórn. Ég held hins vegar að það sé gagnslaust að skoða Seðlabankann og tæki hans einangrað og þröngt. Það verður að skoða hagstjórnina í heild og horfast í augu við þá staðreynd að Seðlabankinn hefur meira og minna einn og óstuddur verið að reyna að kæla niður hagkerfið og halda aftur af verðbólgu og þenslu og bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnir hafa ýmist ekkert gert eða tekið ákvarðanir sem hafa unnið gegn viðleitni Seðlabankans á mismunandi tímum. Þetta eru staðreyndir. Það fæst engin raunhæf úttekt á og raunhæf niðurstaða gagnvart því hvort núverandi stefna og tæki Seðlabankans virka nema að skoða heildarsamhengið. Þess vegna endurtek ég þá spurningu til hæstv. forsætisráðherra: Er hann tilbúinn til að víkka út viðfangsefni þessarar könnunar og kæmi til greina að eiga um það samráð t.d. við viðkomandi þingnefndir?



[15:15]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Sú úttekt sem ég vék þarna að í ræðu minni er hugsuð sem alveg sjálfstætt fyrirbæri og á sér fyrirmyndir í öðrum löndum eins og ég gat um. Það hefur stundum verið talað um að það peningamálafyrirkomulag sem við komum okkur upp árið 2001 sé á vissan hátt eins og tilraun sem verið er að gera og ef það er rétt, eins og m.a. hefur komið fram hjá aðalhagfræðingi Seðlabankans, þá þarf eftir ákveðinn tíma að skoða hvernig sú tilraun hefur reynst. Og það er auðvitað hugmyndin með þessu að gera það með aðferðum nútímapeningamálahagfræði.

Hinn hluti ræðu þingmannsins var svo þetta hefðbundna karp um að ríkisstjórnin væri ekki að gera neitt og það litla sem hún gerði væri í andstöðu við markmið Seðlabankans. Ég fór nú aðeins yfir það í ræðu minni á fundinum. Ég er auðvitað ósammála þessu en við bætum okkur ekki með því að vera að kvarta eða kvabba um slík mál þegar við erum með virkilega stór og erfið viðfangsefni til meðferðar.