135. löggjafarþing — 81. fundur
 31. mars 2008.
starfslok forstjóra Landspítala.

[15:16]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra því að sá alvarlegi atburður hefur átt sér stað að forstjóri Landspítala er að hætta störfum, virtur embættismaður.

Landspítalinn er stærsti vinnustaður Íslands, flaggskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu, og þar fer fram bæði bráðaþjónusta og allra flóknustu verkefni á sviði heilbrigðisþjónustu. Hér er því svo sannarlega um mikilvæga stofnun að ræða í okkar samfélagi og um stórt mál að ræða. Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna hættir forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss?



[15:17]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þingmanninum er auðvitað kunnugt um það að málefni þessarar miklu og merku stofnunar heyra undir heilbrigðisráðherra. Ég tek undir það að fráfarandi forstjóri Landspítala er mjög mætur embættismaður. Ég þekki hann mjög vel og hef unnið með honum lengi. Hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu þegar ég var þar ráðherra til að byrja með, áður en hann tók við núverandi starfi, og við höfðum unnið saman áður um allnokkurt skeið, þannig að það er ekki málið. Það sem gerst hefur þarna hins vegar er að ráðherra og viðkomandi embættismaður hafa náð samkomulagi um að viðkomandi láti af störfum og ég veit ekki annað en það sé allt í góðu samkomulagi gert.



[15:18]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mér er vel kunnugt um það að heilbrigðismál heyra undir hæstv. heilbrigðisráðherra en þegar um svona stórt mál er að ræða þarf ekki að segja mér að þessi atburður hafi átt sér stað án þess að hæstv. forsætisráðherra hafi komið að málum. Ég tel algjörlega ljóst að svo hafi verið og ég leyfi mér að halda því fram að þetta tengist því sem hæstv. forsætisráðherra sagði um það leyti sem sú ríkisstjórn var mynduð sem nú situr þegar hann var að réttlæta samstarfið við Samfylkinguna við flokksmenn sína á fundi með þeim í Valhöll. Þá sagði hæstv. forsætisráðherra að hann gæti náð fram breytingum á heilbrigðiskerfinu í samstarfi við Samfylkinguna sem hann næði ekki fram í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Þessi aðgerð á Landspítalanum tengist því sem þar var sagt, leyfi ég mér að fullyrða. Ef hæstv. forsætisráðherra getur haldið því fram að svo sé ekki að þá skal hann reyna að rökstyðja það hér.



[15:19]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér er auðvitað öllu snúið á haus. Hér er komið með dylgjur og fullyrðingar og svo er sagt: Ef hann getur afsannað það forsætisráðherrann þá skal hann sko reyna að gera það hér.

Málið er auðvitað það að atriðið sem ég vék að og ekki var hægt að ná fram í samstarfi við Framsóknarflokkinn en er hægt að ná fram í samstarfi við Samfylkinguna eru breytingarnar á sjúkratryggingunum sem eru í vinnslu núna og er að hluta til búið að afgreiða á Alþingi en að hluta til á eftir að afgreiða eins og við vitum. Það er verkefni sem við þurfum að ljúka á vorþinginu.

Forstjórastarfið á Landspítalanum hefur nákvæmlega ekkert með það að gera. (Gripið fram í.) Það hefur nákvæmlega ekkert með það að gera. Sjúkratryggingar, já. Er fólk búð að gleyma því að Tryggingastofnuninni var skipt upp í tvennt með lögum fyrir jólin? Lífeyristryggingarnar fóru í félagsmálaráðuneytið, sjúkratryggingunum á að breyta í sérstaka innkaupastofnun, sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur valið alls kyns ósmekkleg heiti á. Það hefur ekkert að gera með forstjórastarfið á Landspítalanum. (ÖJ: Er forsætisráðherra búinn að gleyma eigin orðum í Valhöll í september?)