135. löggjafarþing — 82. fundur
 1. apríl 2008.
störf þingsins.

[13:31]Útbýting:

[13:32]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef áhuga á því að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformann Samfylkingarinnar, út í þá miklu yfirlýsingu sem hann gaf í gær um að hann hefði efasemdir um að skipta ætti upp tollinum og löggæslunni á Suðurnesjum. Það mál hefur vakið upp mjög mikinn óróa suður með sjó og þótt víðar væri leitað. Hv. þingmaður sagði, og er ég honum sammála um það, að þetta orkar mjög tvímælis, það er líklega afar rangt skref sem verið er að stíga. Að vísu sagði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að ef góð rök fylgdu yrði hann með opinn huga þannig að hann bakkaði aðeins, virðulegur forseti, í seinna svari sínu. En látum það nú vera.

Ég tel að vinnubrögðin hafi verið með ólíkindum í þessu máli. Það var tilkynnt á heimasíðu hæstv. dómsmálaráðherra að breyta eigi þessum málum, splitta upp þessum embættum. Það er með ólíkindum að hæstv. ráðherra leyfi sér að tilkynna á heimasíðu að breyta eigi lögum. Það er alveg ljóst að það þarf að breyta lögum til að koma þessari breytingu í gegn. (Gripið fram í.) Ég býst varla við því að ríkisstjórnin springi á þessu máli þó að fulltrúi Samfylkingarinnar hafi lýst sig mikinn efasemdarmann. Ég vil athuga hvort innstæða sé fyrir þessari yfirlýsingu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar síðan í gær. Er innstæða fyrir þessari yfirlýsingu? Ætlar Samfylkingin að styðja lagabreytingar um að þessum embættum verði splittað upp, þ.e. að færa tollgæsluna undir fjármálaráðuneytið og halda löggæslunni undir dómsmálaráðuneytinu? Eða ætlar Samfylkingin að passa upp á að það verði ekki gert? Málið verður í höndum þingsins og það er brýnt að vita núna hvað Samfylkingin ætlar að gera.



[13:34]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Meginatriðið er það að lögreglan fái vinnufrið, að lögreglan fái að sinna verkum sínum og berjast við þá glæpamenn og þá aðila sem henni er ætlað að vinna gegn og vinna að því að tryggja öryggi borgaranna. Það er algert lykilatriði. (Gripið fram í.) Það er það sem þarf að vera og þær reglur þurfum við að setja.

Það er líka alveg ljóst að það hefur ekki verið neitt bilað, það hafa ekki verið nein vandræði hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum. Það hefur gengið vel, það hefur gengið mjög vel. Meðal annars hafa lögreglustjórarnir eða lögreglustjóraembættin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum fengið samfélagsverðlaunin fyrir framúrskarandi árangur og því ber að fagna. Því er alveg ljóst að veigamikil rök þurfa að koma til þegar breyta á fyrirkomulagi sem gengur vel. Ég sagði það því hér í gær að ég hefði miklar efasemdir um að skipta ætti upp tollinum og löggæslunni á Suðurnesjum og við það stend ég. Ég tala hins vegar sem þingmaður og ég tala hér samkvæmt þeirri samvisku sem ég hef og því viðhorfi sem ég hef í þessu tiltekna máli. Ég er sannfærður um það að í dag eru samlegðaráhrif af því að vinna þetta saman, bæði faglega og fjárhagslega. Ef það á að breyta þessu þurfa mjög veigamikil rök að koma til, það er mín niðurstaða. Það kom fram á fundinum í gær og það hefur ekkert breyst á 24 tímum.



[13:36]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst nokkuð grannt með þeim hræringum sem orðið hefur vart í tengslum við löggæsluna á Suðurnesjum og þá sérstaklega og ekki síst á Keflavíkurflugvelli, bæði hvað varðar toll- og löggæslu, lögreglustarfið. Ég held að óhætt sé að segja að ekki sé aðeins deilt um skipulag þessarar starfsemi heldur einnig um þann fjárhagsramma sem henni er sniðinn. Ég varð var við það á mjög fjölmennum fundi, sem efnt var til nýlega á vegum lögreglumanna innan Landssambands lögreglumanna og tollvarða innan Tollvarðafélags Íslands, að þar hafa menn mjög þungar áhyggjur af of litlum fjárveitingum til þessarar starfsemi. Menn eru nú að leita leiða til að ráða bót á fjárhagsvanda og komið hafa fram tillögur um skipulagsbreytingar. Ég hvet til þess, og geri það í samráði við og eftir að hafa heyrt í mönnum innan löggæslunnar, innan Tollvarðafélagsins og innan Landssambands lögreglumanna, að menn grafi sig ekki ofan í skotgrafir heldur leiti lausna og leiða til að leysa þau ágreiningsefni sem uppi eru. Að mínum dómi verður það aðeins gert í nánu samstarfi við þau samtök sem ég vísaði til og hafa lýst yfir vilja til að leysa málin.



[13:38]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að óhætt sé að taka undir með hv. síðasta ræðumanni, Ögmundi Jónassyni, þar sem hann talar um að mikilvægt sé að þessi mál séu leidd til lykta í góðu samráði og án þess að uppi séu höfð stóryrði eða mjög digrar yfirlýsingar um þessi mál eins og nokkuð hefur borið á í opinberri umræðu.

Það er alveg ljóst að þau áform sem dómsmálaráðherra hefur gert grein fyrir að standi til af hálfu ríkisstjórnar ganga út á að færa stjórnsýslumál á Keflavíkurflugvelli í það horf sem stjórnsýsla þessara mála er almennt í í landinu. Það er í samræmi við þá stefnu sem var mörkuð eftir brottför varnarliðsins 2006 að afnema þær sérstöku kringumstæður eða sérstöku reglur sem giltu á Keflavíkurflugvelli um starfsemi þar og færa þær nær því sem gerist annars staðar í landinu. Þannig er staðreynd málsins að tollgæsla og löggæsla eru aðskildar í landinu þó að þessar stofnanir eigi auðvitað náið samstarf. Þær breytingar sem boðaðar hafa verið varðandi Keflavíkurflugvöll ganga einmitt út á að það verði skýrt að löggæslumál þar lúti forræði dómsmálaráðuneytisins eins og gerist almennt í landinu, að tollgæslumál lúti forræði fjármálaráðuneytisins eins og almennt gerist í landinu og flugöryggismál heyri undir samgönguráðuneytið eins og gerist annars staðar í landinu. Það útilokar hins vegar ekki, og ég vil undirstrika það sérstaklega, að það góða og nána samstarf sem hefur verið milli starfsmanna þessara mismunandi greina ríkisvaldsins haldi áfram og það er auðvitað mikilvægt. Það dregur enginn úr því að mikilvægt og gott starf hefur verið unnið á Keflavíkurflugvelli en ég held að breytingar af þessu tagi, að skýra stjórnsýslulega og rekstrarlega ábyrgð betur, hjálpi til við að ná utan um fjármuni og fjármunahald í þessari starfsemi en eins og fjárlaganefndarmenn og aðrir þingmenn margir þekkja hafa fjárheimildir þessa embættis ekki verið í samræmi við rekstrarútgjöld og það er sérstakt mál sem þarf að taka á.

(Forseti (ÁRJ): Ég bið þingmenn að halda tímamörk.)



[13:41]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Við höfum orðið vitni að því í þessu máli að við fáum tilkynningu frá dómsmálaráðherra um það að hann ætli að breyta lögum. Hann kemur fram við Alþingi eins og hann ráði því einn og geti stjórnað því einn.

Við stöndum frammi fyrir því að það á að skipta þessu sýslumannsembætti upp í þrjár jafnvel fjórar einingar og það þarf að vera með stjórn í hverri einingu. Þetta verður miklu dýrara með þessu formi, að skipta þessu upp, heldur en það er í dag. Þetta er sennilega ein best heppnaða aðgerð fyrir 16 mánuðum að sameina toll, löggæslu og öryggisgæslu en nú horfum við upp á það að þessu verður að öllum líkindum skipt upp í fjórar einingar, löggæslu, toll og öryggisgæslu undir samgönguráðuneytið og síðast en ekki síst jafnvel sérdeild um landamæravörsluna. Það er ömurlegt að horfa upp á þetta. Fyrir nú utan það að fyrir 16 mánuðum, þegar embættin voru sameinuð, sýslumannsembættið í Keflavík og sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli, var loforðið á þann veg að almenn löggæsla yrði meiri á Suðurnesjum en er í dag. Talað var um að það ættu að vera sex lögreglubílar á svæðinu í gangi en þeir eru ekki nema fjórir og stundum jafnvel ekki nema þrír. Það þarf að skera niður. Það er búið að fækka um 20 lögreglumenn á svæðinu á síðustu þremur árum.

Fjárveitinganefnd fór á fund embættisins í haust og þar var henni gerð grein fyrir því að það vantaði meiri peninga en dómsmálaráðuneytið brást ekki við því í tillögum sínum.



[13:43]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þau alvarlegu mál sem nú blasa við, óeining um lögreglustjóraembættið í Keflavík, hafa valdið því að ég hef skrifað 1. þm. Suðurk., Árna Mathiesen, bréf og beðið um að þingmenn kjördæmisins komi saman, hitti lögreglustjórann og yfirmenn tollgæslunnar og lögreglunnar og enn fremur bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Hér er mjög stórt mál á ferðinni og mjög undarlegt mál. Það vekur grunsemdir um að maðkar séu í mysunni. Hvers vegna slíta menn í sundur fyrirtæki sem var stofnað fyrir 16 mánuðum og hefur vakið þjóðarathygli fyrir varnir og gæslu við Íslands fremstu dyr? Tekið á eiturlyfjabraski, unnið gegn glæpalýð, lögreglustjórinn og hans fólk verðlaunað fyrir afrek. Mig minnir að Stöð 2, sú gagnrýna stöð, hafi kosið þetta fólk menn ársins. Á sama tíma leyfir dómsmálaráðherra sér, sjálfsagt í samstarfi innan ríkisstjórnarinnar með fjármálaráðherra og fleirum, að slíta þetta allt í sundur, sundra fylkingu sem stendur vörð við Íslands dyr. Þarna er mikið uppnám. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði hér að hann hefði samvisku. Ég efast ekki um það. En ef hann greiðir lögunum atkvæði sem boðað er að fari í gegnum þingið þá er hann eins og fleiri samviskulaus. Það er mjög mikilvægt að standa vörð um það mikla starf sem lögreglustjórinn, lögreglan, tollgæslan og öryggisgæslan á Keflavíkurflugvelli og í Keflavík hafa unnið á 16 mánuðum. Þar standa varðmenn sem verða ekki dregnir niður í svaðið á þennan hátt og lögreglustjórinn verður ekki hrakinn frá því mikla starfi sem hann hefur verið að móta með þessum hætti.



[13:46]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það reynir mjög á löggæslu á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum um þessar mundir. Almenningur finnur fyrir sífellt meira óöryggi. Það mæla kannanir. Fólk óttast jafnvel um að vera ekki óhult á ferli í miðborg Reykjavíkur. Fleiri og fleiri kunna sögur af undarlegu atferli, af eiturlyfjasölu í næsta nágrenni. Við þessar aðstæður skiptir miklu máli að tryggja öfluga löggæslu, styðja við hana í hvívetna og ef eitthvað er, auka sýnilega löggæslu og möguleika löggæslunnar til að taka á þessum erfiðu aðstæðum.

Mér þykir mestu skipta að hrófla ekki við því sem vel er gert heldur þvert á móti styðja við það. Staðreyndin er að starfsemin á vegum lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum hefur verið gríðarlega árangursrík og skilað miklum árangri. Ljóst er að sú starfsemi er til þess fallin að ná þeim markmiðum sem við hljótum öll að vilja setja löggæslu í landinu við þessar aðstæður. Maður hlýtur að kalla eftir faglegum rökum fyrir ákvörðunum af þessum toga.

Mér finnst sú röksemd að fella beri það sem tilheyrir fjármálaráðherra undir hann og síðan löggæslu undir dómsmálaráðuneytið ekki sérlega sterk. Slíkum árangri má ná án þess að brjóta embættið upp. Það er með öðrum orðum hægt að ná þeim árangri með viðurhlutaminni aðferðum. Við hljótum öll að vilja staldra við og horfa til þess hvað við getum raunverulega gert til að styrkja löggæslu í landinu, sem þarf nú sem aldrei fyrr á stuðningi Alþingis að halda. Það er þess vegna mjög mikilvægt að fara með gát þegar í hlut (Forseti hringir.) eiga embætti sem hafa sýnt gríðarlegan árangur í starfi.



[13:48]
Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum starfa um 200 manns sem finnst sem þeim góða árangri, sem náðst hefur í löggæslu og tollamálum frá sameiningu embættanna, sé stefnt í voða. En ef málið er skoðað nánar spyr maður sig hvort ekki sé eðlilegt að stjórnsýslan á Suðurnesjum sé með sama hætti og almennt gerist í landinu, þ.e. að færa ábyrgðina á tollgæslunni undir fjármálaráðuneytið, öryggis- og vopnaleitina til samgönguráðuneytisins og lögregluna til dómsmálaráðuneytisins.

Áhrif sameiningarinnar frá því fyrir einu og hálfu ári síðan eru samt sem áður til staðar. Lögreglan á Suðurnesjum verður enn rekin sameiginlega og tollgæslan einnig. Það er ekki verið að tala um það að færa þetta algjörlega til fyrra horfs. Fyrirkomulagið sem nú er viðhaft er arfur frá því að varnarliðið var á Suðurnesjum. Því er sjálfsagt að endurskoða fyrirkomulagið og færa í annað horf ef það gengur ekki upp eins og ætlast er til. Allt samstarf þessara aðila þótt yfirstjórnin sé mismunandi verður áfram á faglegu nótunum.

Hins vegar skil ég áhyggjur starfsmanna að mörgu leyti. Fram hefur farið gott og farsælt starf hjá lögreglustjóraembættinu undir öruggri stjórn lögreglustjórans. Það er almennt álit manna að lögreglustjórinn hafi staðið sig vel í starfi og hafi gert góða hluti. Ég vona sannarlega að löggæslan á Suðurnesjum njóti (Forseti hringir.) krafta hans, þótt síðar verði. (Gripið fram í.) En það er mjög mikilvægt að sátt (Forseti hringir.) og friður ríki um löggæsluna á Suðurnesjum. Þess vegna vona ég að þetta mál fái farsæla lausn.



[13:51]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér mætast stálin stinn í slagsmálum í beinni útsendingu á milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tala með breytingunni. Fulltrúar Samfylkingarinnar tala á móti henni, meira að segja hv. þm. Árni Páll Árnason gefur ekkert fyrir aðalrökin fyrir því að splitta upp þessum embættum, þ.e. að stokka þetta undir viðkomandi ráðherra. Gefur ekkert fyrir þau. Veigalítil rök, segir hv. þingmaður.

Ég spyr háttvirta þingmenn Samfylkingarinnar, sérstaklega hv. þm. Lúðvík Bergvinsson: Ætlar Samfylkingin að samþykkja þessar breytingar eða ekki? Er innstæða fyrir orðum Samfylkingarinnar? (Gripið fram í.) Eða ætlar Samfylkingin að gleypa þessar breytingar og samþykkja breytingar á lögum? Þá hefur Björn Bjarnason hæstv. dómsmálaráðherra unnið þetta mál algjörlega.

Ég ætla að minna hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem núna er í þröngri stöðu og ég geri mér grein fyrir því, að það er hættulegt að gefa falskar vonir í svona máli. Það er afar hættulegt að gefa lögreglumönnum og tollvörðum sem hafa unnið afar gott starf falskar vonir. Þessir hópar, eins og við þingmenn, margir hverjir, binda vonir við að ekki verði af þessum breytingum. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur gefið þær vonir með yfirlýsingu sinni í gær og ítrekun hennar í dag.

Þannig að ég ætla að spyrja, virðulegi forseti, einu sinni enn: Ætlar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að standa við það sem hér hefur verið sagt? Ætlar hv. þingmaður að vinna gegn breytingunum eða ætlar hv. þingmaður einungis að gefa falskar vonir og lyppast niður á endasprettinum og samþykkja það sem væntanlega kemur frá hæstv. dómsmálaráðherra? Það teldi ég vera afar miður, virðulegi forseti.



[13:53]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þótti síðasta ræða mjög athyglisverð. Ég veit ekki hvort ég ætti að skilja hana svo að þar lýsti hv. þingmaður einhvers konar reynslu, það væri einhver reynslusaga eða reynslurök sem þar kæmu fram.

Ég hef komið í ræðustól og gert grein fyrir því að ég hef miklar efasemdir um þessar breytingar og að það þurfi veigamikil rök, allt önnur rök heldur en komið hafa fram til þessa, til að sannfæra mig um að gera þurfi þessar breytingar. Það er lykilatriði.

Í annan stað vil ég segja um þessa umræðu að meginreglan er sú að lögreglustjóri og tollstjóri séu sami maður, að sami maður fari með lögregluvald og tollvald. Frá því er aðeins undantekning á höfuðborgarsvæðinu. Það er hvergi annars staðar þannig, í þeim átta umdæmum sem eru við lýði þá eru sjö þannig að lögreglustjóri fer með toll- og löggæsluna. Sú breyting sem hér er verið að boða er undantekning frá meginreglunni á landinu. Það þarf veigamikil rök til að fara þá leið, ekki hvað síst þegar viðkomandi embætti hafa staðið sig vel. Því það er engin ástæða til þess að brjóta upp það sem hefur gengið vel. Það er engin ástæða fyrir menn að gera við það sem ekki bilar.

Ef málið snýst um það að færa til í fjárlögum eða á fjárlagaliðum framlög til embættisins, þ.e. að tollurinn heyri undir fjármálaráðuneytið á fjárlagalið o.s.frv., þá þarf engar lagabreytingar til þess. Það er mjög auðvelt að gera það í fjárlögum ef það er meginatriðið. Ég met það þannig að verði þetta brotið upp muni það til lengri tíma skaða embættið og starfið þar suður frá. Ég mun ekki standa að því.



[13:55]
Alma Lísa Jóhannsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að í dag, 1. apríl, er dagurinn sem öryrkjum og ellilífeyrisþegum verður greidd 4% lífeyrishækkun almannatrygginga.

Öryrkjabandalagið, Landssamband eldri borgara og ASÍ sendu um helgina frá sér yfirlýsingu þar sem þessari ákvörðun var mótmælt harðlega á þeirri forsendu að þessar hækkanir væru allt of litlar og ekki í anda nýgerðra kjarasamninga. Hækkun elli- og örorkulífeyris um einungis 4–5 þús. kr. í kjölfar nýgerðra kjarasamninga kristallar þá sorglegu staðreynd að enn og aftur sitja þessir hópar eftir. Þeir hópar sem minnst hafa. 18 þús. kr. hækkun lægstu launa á vinnumarkaði getur engan veginn samræmst 4–5 þús. kr. hækkun á bótum almannatrygginga. Við erum að tala um 4–5 þús. kr. til þeirra sem hafa einungis bætur frá almannatryggingum.

Við vinstri græn höfum verulegar áhyggjur af afkomu hinna lægst launuðu og síðast í gær sýndu fréttir Stöðvar 2 fram á nærri 20% hækkun á matarkörfu á einu ári, þegar búið er að taka tillit til virðisaukaskattslækkana. Þær hækkanir sem nú eru að koma til duga ekki til að halda í horfinu. Ríkisstjórnin segir þetta 7,4% hækkun á lífeyri almannatrygginga frá því í desember. Inni í þeirri tölu er hækkun um áramót sem nemur 3,3%. Sú hækkun er samkvæmt lögbundnum hækkunum til að halda í horfinu og felur ekki í sér kjarabætur.

Frú forseti. Eigum við ekki að líta í eigin barm? Viljum við í alvöru talað skilja þennan hóp eftir? Finnst okkur það í alvöru talað sanngjarnt? Við vinstri græn svörum þessari spurningu neitandi. Það er engan veginn sanngjarnt. Engan veginn. Ég spyr því hv. (Forseti hringir.) formann félagsmálanefndar: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að koma til móts við þennan hóp og leiðrétta kjör hans á sanngjarnan hátt?



[13:57]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í þeim kjarasamningum sem skrifað var undir fyrir stuttu, sem eru afskaplega skynsamlegir og góðir að mínu mati, var niðurstaðan sú að hækka lægstu laun mest og laun þeirra sem setið hafa eftir í launaskriði undanfarinna ára. Talið var að um helmingur launþega fengi ekkert út úr þeim kjarasamningum.

Með tilliti til þess voru bætur til öryrkja hækkaðar eins og hér hefur komið fram, um 4% og 3,3%. Þau 3,3% sem komu um áramótin voru utan þessa kjarasamninga, voru ekki afleiðingar af þeim. Samanlagt hafa þeir fengið 7% og munu fá aldurstengda lífeyrisuppbót hækkaða, fyrir utan öll þau atriði sem voru bætt með lagasetningunni fyrir páska og fólust m.a. í að hætt var að taka tillit til tekna maka, hætt að taka tillit til séreignarsparnaðar o.s.frv. Þá bættust við fjöldamörg atriði sem bættu kjör öryrkja. Samanlagt held ég að þeir séu ekki mikið verr settir heldur en þeir lægst launuðu á vinnumarkaði.

Ég vil benda á að þeir lægst launuðu á vinnumarkaði eru með lægri laun en öryrkjar með lægstur bætur.



[13:59]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég óska hv. þm. Ölmu Lísu Jóhannsdóttur til hamingju með jómfrúarræðuna og þakka henni kærlega fyrir fyrirspurnina.

Við deilum þeim áhuga að tryggja að bætur úr almannatryggingum, hvort sem er til öryrkja eða ellilífeyrisþega, verði aldrei undir lágmarkslaunum. Þessa dagana er verið að vinna mikið í þessum málum. Við erum nýkomin í gegn með almannatryggingafrumvarp og eigum von á frumvarpi um útfærsluna á 25 þús. kr. til ellilífeyrisþega í gegnum lífeyrissjóðakerfið og fleiri málum sem ég ætla ekki að rekja hér en hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi á undan. Hér er rætt um bókun í kjarasamningum sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Bætur almannatrygginga hækki í samræmi við gildandi lög.“

Sumir höfðu væntingar um að þá kæmi samhliða 18 þús. kr. hækkun á lágmarkslaun, eins og gert er ráð fyrir í samningum. Það var ekki gert. Aftur á móti er verið að flýta því sem kemur í seinni hluta samþykktarinnar um að endurskoða almannatryggingakerfið, að fara yfir og skoða leiðir til að tryggja lágmarksframfærslu. Það er búið að flýta þeirri vinnu. Það hefur verið boðað af hæstv. félagsmálaráðherra að unnið verði í því fyrir 1. júlí í staðinn fyrir 1. október. Ég bind við það miklar vonir líkt og hv. ræðumaður að við náum að laga þetta fyrir sumarið á þessu vorþingi.



[14:01]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er gott og mikilvægt að hv. þm. Alma Lísa Jóhannsdóttir skuli hafa vakið athygli á kjörum aldraðra og örorkuþega. Sjálfum finnst mér það mikið áhyggjuefni hve smátt þessi ríkisstjórn hugsar þegar öryrkjar og aldraðir eru annars vegar.

Það er nýbúið að ganga frá kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Í þeim samningum er kveðið á um að lægst launaða fólkið skuli hækka um 18 þús. kr. á mánuði. Hvað er öldruðum og öryrkjum ætlað af hálfu ríkisstjórnarinnar núna 1. apríl? Á milli 4 og 5 þús. kr. Stundum er talað um að þessi tala sé hærri, á bilinu 7.700–9.400, en þá eru þar inni, eins og kom fram í máli hv. þm. Ölmu Lísu Jóhannsdóttur, hækkanir frá síðasta ári. Við erum þá að tala um hækkanir um síðustu áramót sem eru lögbundnar. Það eru á milli 4 og 5 þús. kr. sem öryrkjar og aldraðir eru að fá þegar við berum saman hækkanir til lægst launaða fólksins á almennum vinnumarkaði. Þetta er framlag ríkisstjórnarinnar til þeirra sem búa við lægst kjör á Íslandi í dag. Greiðslur aldraðra einstaklinga sem þurfa að reiða sig eingöngu á almannatryggingar hækka um næstu mánaðamót úr 130 þús. kr. á mánuði, og 400 kr. til viðbótar hygg ég upp, upp í 135 þús. kr. Það þekkja allir sem fara út í búð (Forseti hringir.) og þurfa að greiða húsaleigu eða þurfa að draga fram lífið hvað við erum að tala um agnarsmáar upphæðir en þær eru góður spegill á þá ríkisstjórn sem nú situr að völdum á Íslandi.



[14:03]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi það mál sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir tók upp fyrst á fundinum þá vil ég eindregið taka undir þær efasemdir sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafði um þær breytingar sem boðaðar hafa verið. Þó að þær kunni að eiga við ákveðin efnisrök að styðjast þá er það svo að embættið í Keflavík hefur náð gríðarlega góðum árangri í málaflokki sem varðar okkur æ meira og skiptir allan almenning miklu máli og við höfum öll áhyggjur af sem eru fíkniefnamálin. Þegar aðilar eru að ná jafnmiklum árangri og menn hafa verið að gera í Keflavík í þeim mikilvæga málaflokki sem fíkniefnamálin eru þarf mjög veigamiklar röksemdir fyrir því að gera breytingar á því fyrirkomulagi og ég tel að þær röksemdir séu a.m.k. ekki enn fram komnar.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ölmu Lísu Jóhannsdóttur fyrir að taka upp málefni lífeyrisþega, ekki síst á þessum degi því að í dag, 1. apríl, fögnum við sigri, fullnaðarsigri öryrkja í einu af stærstu mannréttindamálum sem við höfum barist fyrir í á annan áratug. Í dag féll niður tengingin við tekjur maka sem við höfum barist fyrir breytingum á í á annan áratug og í dag hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tryggt það undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur að litið er á lífeyrisþega sem sjálfstæða einstaklinga en þeir eru ekki látnir vera á framfæri eða í bónbjörgum hjá maka sínum. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni og það er rétt hjá Alþýðusambandinu, Öryrkjabandalaginu og Landssambandi eldri borgara að nú eru aðeins komnar til framkvæmda ákveðnar lágmarksbætur úr þeim kjarasamningum sem gerðir voru nýverið og betur má ef duga skal. Tryggingakerfið er ákaflega flókið og það er nefnd að vinna í því að endurskoða það og taka afstöðu til lágmarksframfærslu í kerfinu. Nefndinni hefur verið gert að skila tillögum (Forseti hringir.) hinn 1. júlí næstkomandi og við hljótum að binda miklar vonir við að þar komi enn frekari kjarabætur fram til lífeyrisþega en þegar er orðið en þær eru sem kunnugt er orðnar verulegar.