135. löggjafarþing — 86. fundur
 8. apríl 2008.
ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 558. mál (öruggt framboð raforku). — Þskj. 859.

[20:58]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

Með þessari tillögu er leitað heimilda Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007 um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn eins og áður sagði og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/89/EB um ráðstafanir til að tryggja öruggt framboð raforku og um fjárfestingar í grunnvirkjum. Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Tilskipun 2005/89/EB varðar ráðstafanir til að tryggja öryggi í orkuöflun og fjárfestingum í flutningi og dreifingu á raforku. Í tilskipuninni er lögð áhersla á nauðsyn þess að tryggja jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar raforku. Sú skylda er lögð á aðila að tryggja að settar séu, og staðfestar, viðbragðsáætlanir sem og að gripið verði til aðgerða til að mæta frávikum í raforkukerfinu. Skylda þessi hvílir jafnt á ríkjum, opinberum eftirlitsaðilum sem og dreifiveitum og kerfisstjórum flutningskerfa.

Tilskipunin fjallar að hluta til um viðskipti með raforku og tengingu yfir landamæri og á því ekki að öllu leyti við innlendar aðstæður enda er íslenska raforkukerfið einangrað frá öðrum kerfum. Þá mun tilskipunin ekki kalla á ítarlegar lagabreytingar þar sem einstaka ákvæði hennar er nú þegar að finna í innlendri löggjöf upp að vissu marki.

Tilskipunin kann að kalla á breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, og reglugerð um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005. Hins vegar er að svo stöddu ekki ljóst hversu ítarlegar þær breytingar munu verða.

Í iðnaðarnefnd er nú til umfjöllunar frumvarp til breytinga á raforkulögum þar sem m.a. er lögð til skylda á dreifiveitur, vinnslufyrirtæki og flutningsfyrirtækið til að hafa til staðar viðbragðsáætlanir við vá. Þar af leiðandi er þegar verið að leggja til breytingar á raforkulögum í anda tilskipunarinnar.

Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar í iðnaðarráðuneytinu.

Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar.



[21:01]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég gæti út af fyrir sig farið hér með nákvæmlega sömu ræðuna og ég flutti áðan um það mál sem var næst á undan á dagskránni, um hina formlegu aðkomu Alþingis að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og umfjöllun hér á hv. Alþingi. Ég ætla ekki að gera það heldur segja eingöngu að það sem ég sagði um það mál á að öllu leyti við um þetta mál líka. En nú ber svo við að ég stenst ekki að ræða aðeins efnislega um það sem hér er á ferðinni. Hér er sem sagt verið að fjalla um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um viðskipti með raforku. Það kemur fram, eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra, að hér er m.a. verið að fjalla um tengingu við landamæri og því eigi tilskipunin ekki að öllu leyti við innlendar aðstæður og á það er bent að íslenska raforkukerfið sé einangrað frá öðrum kerfum. Þetta er m.a. ástæða þess að margir voru þeirrar skoðunar að raforkutilskipunin sem slík ætti ekki heima í íslensku umhverfi vegna nákvæmlega þessa, að við erum ekki hluti af sameiginlegu raforkukerfi Evrópusambandsins.

Það hefur stundum verið spurt að því hvort íslensk stjórnvöld hafi verið nægilega á verði gagnvart þessu eða hvort það hafi beinlínis verið ásetningur íslenskra stjórnvalda á sínum tíma að taka raforkutilskipun Evrópusambandsins inn í íslensk lög og þess vegna hafi aldrei verið gerðir neinir fyrirvarar hvað hana varðaði eða leitað eftir því að fá hana aðlagaða íslenskum aðstæðum. Því hefur verið haldið fram að niðurstaðan hefði engu að síður orðið sú að raforkutilskipunin hefði verið innleidd í íslenskan rétt og þess vegna sé ekki um það að ræða nú á síðari stigum að fjalla um einhverjar undanþágur. Engu að síður kemur nú hér fram tilskipun þar sem m.a. er á það bent að tilskipunin muni ekki að öllu leyti eiga við um íslenskar aðstæður. Mér finnst þetta kannski vera dálítil staðfesting á því að þeir sem töluðu fyrir því að raforkutilskipunin yrði ekki innleidd í íslenskan rétt höfðu margt til síns máls eins og nú kemur á daginn.

Það kemur fram í greinargerðinni, virðulegur forseti, að tilskipunin mun ekki kalla á ítarlegar lagabreytingar þar sem einstaka ákvæði hennar sé nú þegar að finna í innlendri löggjöf upp að vissu marki. Síðan segir að hún muni fyrirsjáanlega kalla á breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, og hugsanlega reglugerð um framkvæmd raforkulaga frá 2005, og þetta liggi ekki að öllu leyti ljóst fyrir. Það sem mér finnst áhugavert að velta upp í þessu sambandi er að hér er um að ræða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá því í júní 2007, hún er að verða ársgömul, og að tilskipun Evrópusambandsins og Evrópuráðsins er frá ársbyrjun 2006. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið eðlilegt að strax þá, þegar Evrópuþingið og ráðherraráðið var búið að ganga frá þessari tilskipun, hefði farið fram kynning á þessu máli hér á landi gagnvart Alþingi, gagnvart utanríkismálanefnd og iðnaðarnefnd, og að menn hefðu þá farið í að skoða hvaða lagabreytingar þetta kallaði á.

Nú kann vel að vera að það hafi verið gert en í greinargerð með tillögunni segir engu að síður að það sé ekki ljóst á þessu stigi hvaða lagabreytingar þetta kalli á og þess vegna spyr maður sig: Hvernig ganga þessi mál í raun fyrir sig í stjórnkerfinu? Ef þetta lá fyrir fyrir tveimur árum, væntanlega í janúar 2006 þegar Evrópuþingið og ráðið gengu frá þessari tilskipun 2005/89, var þá ekki farið að huga að því að það þyrfti að innleiða þetta í íslenskan rétt? Það hefur væntanlega verið gert vegna þess að sameiginlega EES-nefndin tekur síðan ákvörðun um það í júní 2007 að það skuli gert, þannig að það hefur þá verið í einhverjum undirbúningi án þess að hafa fengið efnislega umfjöllun á Alþingi, án þess að undirbúnar hafi verið, væntanlega af hálfu iðnaðarráðuneytisins, nauðsynlegar lagabreytingar þannig að þær lægju þá fyrir og hugsanlega breytingar á reglugerð, ef þær væru nauðsynlegar.

Ég dreg þetta fyrst og fremst fram, virðulegur forseti, til þess að benda á og undirbyggja það sem ég sagði áðan um málsmeðferðina á vegum Alþingis. Það er í raun algjörlega nauðsynlegt að mínu mati að þessi mál fái umfjöllun strax á mótunarstigi vegna þess að það þarf að vera pólitísk ákvörðun — og hún á að vera Alþingis að mínum dómi — hvort tilteknar tilskipanir falla undir EES-samningin, því að fyrsta pólitíska spurningin sem menn standa frammi fyrir þegar nýjar tilskipanir eða gerðir koma frá Evrópusambandinu er: Heyra þær undir EES-samninginn eða gera þær það ekki? Slík umræða á ekki aðeins að vera á vegum embættismanna milli EES-ríkjanna annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar heldur á hún að vera pólitísk. Þetta er í raun og veru fyrsta spurningin. Og ef menn svara því þannig að viðkomandi tilskipun heyri undir EES-samninginn, þá er spurningin: Hvernig á að innleiða hana? Á hún að vera óbreytt eða þarf að semja um aðlaganir eða lengri tíma eða frávik eða eitthvað þess háttar?

Allt eru þetta pólitískar spurningar sem að sjálfsögðu eiga að fá umfjöllun í þinginu og reglurnar sem ég vitnaði í áðan frá forsætisnefnd 1994 gera einmitt ráð fyrir því að svo sé. Og eins og ég sagði líka þá held ég að góð samstaða sé um að það eigi að beita þeim reglum og innleiða þær. Ég dreg þessa tilskipun fram svona efnislega til að undirstrika og undirbyggja það að mikilvægt er að fram fari pólitísk umræða á Alþingi um þessi stóru mál og sérstaklega af því við erum að tala um raforkumálin sem eru ákaflega stórpólitísk mál í íslensku samhengi og hafa oft tekið til sín mikinn hluta hinnar pólitísku umræðu og um þau hafa verið ákaflega skiptar skoðanir.

Þetta eru þær athugasemdir sem ég vildi koma á framfæri, herra forseti, við umræðu um þessa þingsályktunartillögu. Ég ætla svo ekki að segja neitt meira sérstaklega um hana, ég geri ráð fyrir að hún fari til umfjöllunar í utanríkismálanefnd en það á í raun sama við og ég sagði um hina fyrri tillögu, að það er eðlilegt að mínu mati að viðkomandi fastanefnd fjalli líka efnislega um það sem hér er á ferðinni.



[21:09]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp vegna þess sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson impraði á eða kom inn á í tengslum við bæði þessa þingsályktunartillögu og hina fyrri sem ég mælti fyrir þar sem verið er að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem gera ráð fyrir því að gera þurfi ákveðnar breytingar á íslenskum lögum eða reglum til þess að innleiða í íslenskan rétt þessar ákvarðanir eða gerðir Evrópusambandsins.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hans að það er mikilvægt að breyta því vinnulagi sem hefur verið í kringum innleiðinguna á þessum gerðum. Ég tók það raunar upp sérstaklega og ræddi það þegar skýrsla utanríkisráðherra um Evrópumál var hér til umfjöllunar að þetta þyrfti að gerast og þingið þyrfti að koma fyrr að því að reyna í fyrsta lagi að hafa áhrif á gerðir sem eru á undirbúningsstigi og síðan að móta með hvaða hætti þær eru teknar upp í okkar lög og reglur.

Ég hygg að það sé enginn ágreiningur um þetta, að allir þingmenn séu sammála um að þetta þurfi að færa til betri vegar. Það er vinna í gangi núna milli formanns utanríkismálanefndar og utanríkisráðuneytisins til að setja þetta allt í fastari skorður en verið hefur. Þótt ráðuneytið eigi eflaust einhvern hlut að þessu máli hygg ég að utanríkismálanefnd Alþingis á undanförnum árum hafi líka verið dálítið sofandi fyrir því að kalla eftir því að farið væri eftir þeim reglum sem forsætisnefnd setti á sínum tíma. Ég minnist þess ekki, ég skal játa það, að menn tækju þetta nokkurn tíma til umfjöllunar þann tíma sem ég sat í utanríkismálanefnd eða væru að spyrja út í þessa hluti eða kalla eftir einhverjum gerðum frá Evrópusambandinu.



[21:12]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því sem hæstv. utanríkisráðherra segir um þetta efni. Ég tók reyndar fram að ég væri sannfærður um að um þetta væri enginn sérstakur ágreiningur. En það er stundum þannig að það þarf samt að koma hlutunum í verk og framkvæma þá jafnvel þó að allir séu sammála um hvað eigi að gera. Ég er jafnframt alveg handviss um að það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að ábyrgðin á því hvernig þessi mál hafa þróast í þinginu eru ekki bara ráðuneytisins, það er ekki síður þingsins sjálfs, bæði nefndarinnar og stjórnar þingsins. Nú verðum við vör við það að áhugi er á því, bæði hjá núverandi forseta eins og ég hef skilið það og enn fremur hjá formanni utanríkismálanefndar, að taka þetta nýjum tökum.

Ég get sagt það t.d. að það kom mér spánskt fyrir sjónir þegar ég kom til starfa í þingmannanefnd EFTA að það eru dæmi um það að þingmannanefndin hafi verið á fundum með sameiginlegu þingmannanefndinni og á svipuðum tíma hafi verið fundir hjá sameiginlegu EES-nefndinni og þar hafi verið teknar ákvarðanir sem þingmannanefndin hafði ekki hugmynd um — frétti fyrst af í fjölmiðlum einhverjum dögum síðar — og var þá kannski á fundi á sama tíma og jafnvel á sama stað. Þetta er auðvitað ekki góð stjórnsýsla og ekki góður bragur á þessu. Á þessu þarf að verða breyting og ég fagna því að góð samstaða er um það á hv. Alþingi að koma þessum málum í betra horf.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.