135. löggjafarþing — 87. fundur
 9. apríl 2008.
störf þingsins.

[13:31]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til formanns landbúnaðarnefndar. Þannig var að sl. fimmtudag mælti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir frumvarpi á þinginu sem snýst um að innleiða landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins. Þegar frumvarpið hefur verið samþykkt höfum við innleitt svo til alla landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins fyrir utan styrkjakerfið.

Á sínum tíma var samið um að Ísland hefði undanþágu frá upptöku ákveðinna gerða. Með þessum breytingum mun frelsi til innflutnings búfjárafurða aukast. Breytingin hefur þó engin áhrif á það fyrirkomulag sem er við lýði á innflutningi búfjárafurða að því er varðar tolla. En samkvæmt ræðu hæstv. ráðherra Einars Guðfinnssonar þegar hann mælti fyrir málinu er meginmarkmiðið að efla fæðuöryggi og tryggja þannig hnökralaus viðskipti með örugg matvæli á innri markaði Evrópusambandsins. Öll framsetning hæstv. ráðherra var mjög látlaus eins og til að undirstrika að hér væri ekki um grundvallarbreytingu að ræða eða a.m.k. ekki sérstaklega mikla breytingu.

Síðan gerðist það á laugardaginn að hæstv. ráðherra mætti á fund með flokksfélögum sínum í Valhöll þar sem hann kynnti frumvarpið samkvæmt fjölmiðlum. Þar talaði hann um frumvarpið með stjörnur í augum og sagði þetta vera grundvallarbreytingu, að þessa stundina væri fortakslaust bann við innflutningi á ósoðnu kjöti en að það mundi breytast með frumvarpinu. Spurningin til hv. formanns nefndarinnar er þessi: Er Sjálfstæðisflokkurinn að flytja póst frá Brussel inn í þingið eða er Sjálfstæðisflokkurinn að eigin frumkvæði að breyta landbúnaðarstefnunni í grundvallaratriðum?



[13:33]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur og minni á að þessi aðlögun sem við verðum að fara í varðandi matvæli — það var hafinn mikill og góður undirbúningur að því máli hjá fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hv. þm. Guðna Ágústssyni. Það hefur lengi legið ljóst fyrir að við hefðum ekki þessa undanþágu lengur. Þess vegna er nauðsynlegt að innleiða matvælalöggjöfina. Hluti af því er að við verðum að hafa óheftan aðgang fyrir sjávarafurðir okkar inn á Evrópumarkað. Til þess að þær verði ekki meðhöndlaðar eins og þriðja ríkis vara þá verðum við að taka yfir matvælalöggjöfina algerlega eins og frumvarp hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir og við höfum fjallað um í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Við hófum einmitt þá vinnu í morgun en ljóst er að hér er um heilmikla breytingu að ræða. En það eru auðvitað mörg atriði sem verður að íhuga sérstaklega og við verðum alltaf að hafa í huga, m.a. að hreinleiki landbúnaðarafurða okkar er meiri en tíðkast annars staðar Evrópu, sérstaklega varðandi kampýlóbakter, salmonellu (Forseti hringir.) og slíka hluti. Þetta eru allt saman atriði sem við verðum að fara yfir af því að við tölum þarna um (Forseti hringir.) hreinleika landbúnaðarafurða og hvernig við eigum að sinna þeim málum hér á landi.



[13:35]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög of í lagt að segja að við séum með þessu frumvarpi landbúnaðarráðherra og með þeirri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem á bak við liggur að taka upp alla landbúnaðarlöggjöf ESB nema styrkjakerfið, það held ég að sé nú ekki. Þetta er fyrst og fremst sá matvæla- og heilbrigðisþáttur sem við vorum undanþegin og fengum undanþágu frá í byrjun og tókum síðan upp gagnvart fiskafurðum nokkrum árum síðar. Núna verður það þá tekið upp gagnvart búvörum eða öðrum matvælum. Landbúnaðarbatterí ESB er að öðru leyti viðamikið eins og kunnugt er og tekur yfir helming af evrópsku fjárlögunum og snýst um fleira en styrki.

Ég held að þetta sé hins vegar stórt og vandasamt mál sem þurfi að gera allt sem hægt er til að innleiða hér ef ekki verður annar kostur þannig að ekki sé tekin óþarfa áhætta gagnvart sjúkdómavörnum og heilbrigði búfjárstofna og manna. Sömuleiðis þarf að huga að því hvaða áhrif þetta hefur á dýralæknaþjónustu og þá ekki síður hina almennu þjónustu sem stokka á upp í tengslum við þetta mál. Af því hefur ræðumaður nokkrar áhyggjur að það verði ekki til að styrkja hana og eins er það að kostnaður verður umtalsverður samfara þessu. Þetta mál er komið á borð þingmanna og hvernig sem hæstv. landbúnaðarráðherra talar um það hér eða annars staðar þá þarf þingið að vanda sig að sínu leyti og skoða það vel. Það þarf að nýta þá eftir því sem þarf þann aðlögunartíma sem við enn höfum inn á árið 2009 til að vanda þessa framkvæmd eins og kostur er. Það tókst ekki að öllu leyti nógu hönduglega til þegar þetta var fellt niður gagnvart fiskafurðunum. Það olli ýmsum fyrirtækjum umtalsverðu óhagræði, fyrirkomulag landamærastöðva og annað í þeim dúr og það verður að reyna að tryggja að í þessu tilviki takist betur til.



[13:38]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er vissulega undrunarefni að heyra skýringar á þessu frumvarpi hjá formanni þingflokks sjálfstæðismanna og reyndar hæstv. landbúnaðarráðherra líka. Í fyrsta lagi virðist sú meginstoð í málflutningi manna að vernda þurfi búfjárstofna og heilbrigði manna með þeim hætti að banna innflutning á hráu kjöti, ekki lengur vera neitt áhyggjuefni vegna þess að Brussel segir að þetta verði að vera svona. Var þá aldrei nein meining í rökum þessara tveggja hv. þingmanna og e.t.v. fleiri fyrst það er hægt með einu pennastriki að leggja þau til hliðar?

Ég hef árum saman fylgst með umræðunni um landbúnaðarmál (Gripið fram í.) sem einmitt hefur grundvallast á þessu að menn vildu tryggja að hingað bærust ekki sjúkdómar sem mundu verða skaðlegir fyrir þá stofna búfjár sem eru hér á landi eða mundu ógna heilbrigði manna sem vel gæti gerst. Þess vegna hafa verið mjög strangar reglur um innflutning á hráu kjöti til landsins. Ég átta mig ekki á því hvers vegna hægt er að segja að nú sé það allt í lagi að víkja þessum rökum til hliðar vegna hagsmuna á útflutningi á fiski. Voru þá heilbrigðisrökin bara fyrirsláttur, virðulegi forseti, eða hvaða endemis rugl er þetta, liggur við að ég segi, virðulegi forseti? Það sagði ég reyndar, ég verð víst að gangast við því, það er ekki hægt að þræta fyrir það. En mér er eiginlega öllum lokið að hlusta á þennan málflutning af hálfu þingmanna flokks sem segist vera andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu en um leið og Evrópusambandið segir eitthvað þá beygja menn sig bara og taka póstinn eins og ekkert sé.



[13:40]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er eftirtektarvert að hér skuli fara fram efnisumræða um lagafrumvarp nokkrum dögum eftir að mælt hefur verið fyrir því í þingsalnum og engu líkara en að efni þessa stóra og mikilvæga máls hafi að mestu leyti farið fram hjá sumum félögum okkar í stjórnarandstöðunni a.m.k. Ég held að það sé full ástæða til að taka undir með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að það var ánægjulegt að heyra landbúnaðarráðherra tjá sig um málið í Valhöll á laugardaginn. Þó að hér sé spurt um stefnu Sjálfstæðisflokksins þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að við í Samfylkingunni getum lýst mikilli ánægju með þær áherslur sem þar voru lagðar. Það er engum blöðum um það að fletta að hér er að verið að afnema ákveðnar viðskiptahindranir sem er mikilvægt hagsmunamál fyrir neytendur til lengri tíma þó að auðvitað séu tollarnir og vörugjöldin enn til staðar. Það gerir það að verkum að allur innflutningur verður lengi enn talsvert hindraður og innlendur landbúnaður þess vegna verndaður með þeim áhrifum sem það hefur á framfærslukostnað heimilanna. Það hlýtur auðvitað að vera eitthvað sem við þurfum að ræða í þinginu á næstu mánuðum og missirum. Það er með hvaða hætti við tollum síðan þetta innflutta kjöt, ekki síst hvíta kjötið, kjúklinga og svín, þar sem í raun og veru er um iðnaðarframleiðslu að ræða en ekki hefðbundinn landbúnað í þeim skilningi. (Gripið fram í: Lifi gamli Alþýðuflokkurinn.) Fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, fyrst hann er að kalla fram í, get ég hins vegar staðfest að fram kom hjá embættismönnum landbúnaðarráðuneytisins á fundi landbúnaðarnefndar í morgun að með þessu væri nær allur landbúnaðarréttur Evrópusambandsins innleiddur á Íslandi nema styrkjakerfið, eins og fram kom hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrr í umræðunni. Ég tel að mikilvægt sé að við ljúkum umfjöllun um þetta á þessu þingi (Forseti hringir.) og að við drögum ekki gildistökuna fram á næsta ár, a.m.k. ekki þann þátt sem snýr að þeim farþegum sem koma til landsins og fá heimildir (Forseti hringir.) til að flytja með sér þrjú kíló af kjöti hingað. Ég hef áhyggjur af því að sú umfjöllun sem verður um lögin núna gæti valdið misskilningi, að fólk telji að þau hafi tekið gildi (Forseti hringir.) og fari að taka með sér kjöt til landsins.



[13:43]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er talsmaður þess að við eigum að varðveita fram í rauðan dauðann þá einangrun sem við búum við hvað varðar matvælaöryggi eða sjúkdóma. Mér finnst ekki rétt það sem hv. þingflokksformaður sjálfstæðismanna leggur til að blanda innflutningi eða útflutningi fiskafurða okkar inn á evrópska markaði við þetta því að ég tel að það sé verulegur akkur að því fyrir evrópsk yfirvöld að geta boðið íslenskan fisk á mörkuðum sínum. Það er í sjálfu sér skrefið sem við ættum að stíga í þessum efnum, að tryggja þennan markað og aðgang að honum. Til að markaðurinn sé sem óheftastur ættum við að fara út í vottun á sjávarafurðum okkar þannig að þá þurfi engar sérstakar skoðanir á einhverjum landamærastöðvum, fiskurinn væri vottaður frá okkur. Evrópusambandinu er akkur að því að geta boðið okkar fisk á sem sanngjörnustu verði til evrópskra neytenda. Það vitum við og við eigum að hafa fulla trú á því og ekki blanda því saman til að fá óheftan aðgang inn á evrópska markaðinn með fiskafurðir okkar. Þá þurfum við að opna markaði okkar fyrir ferskum kjötafurðum sem eru nánast iðnaðarframleiðsla í Evrópu eins og hvíta fuglakjötið og hvíta kjötið. Ég held að það sé ekki rétt í þessari umræðu að hafa vantrú á fiskafurðum okkar. Við eigum að votta þær og tryggja að þær hafi óheftan og greiðan aðgang en ekki að aðgöngumiði fyrir það sé falinn í innflutningi hingað á fersku kjöti frá Evrópu.



[13:44]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi taka þetta mál upp til að reyna að átta mig betur á því hvað um væri að vera vegna þess að mér fannst ræða hæstv. ráðherra á laugardaginn í Valhöll vera í mjög miklu ósamræmi við ræðu hans síðast þegar hann mælti fyrir þessu máli og gerði í raun lítið úr því. En það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. formanni landbúnaðarnefndar að þetta mál hafi borist landbúnaðarráðuneytinu í tíð fyrri ríkisstjórnar þannig að þetta er bara pósturinn frá Brussel eins og maður segir. Við erum að innleiða þessa löggjöf vegna aðildar okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði og það er svo sem ekki nýtt að það sé gert en málið er eins og hv. formaður sagði að við verðum að taka yfir þessa matvælalöggjöf. Það er ástæða þess að við erum að ræða þetta á hv. Alþingi. Það er ástæða þess að hæstv. landbúnaðarráðherra mælir fyrir málinu hér og leggur það fram en ekki sú ástæða að hann sé að gerbreyta landbúnaðarstefnunni með málinu.

Það er eitt sem honum hefur þó tekist fyrir utan það að berja sér á brjóst í Valhöll og segja sem svo: Sáuð þið hvernig ég tók hann. Honum tókst að gleðja Samfylkinguna. Það er náttúrlega rosalega mikilvægt á þessum degi að (Gripið fram í.) honum hefur tekist að gleðja Samfylkinguna. Það veitir ekki af því vegna þess að mér sýnist að það sé svona alla vega samband á milli flokkanna. En nú liggur það fyrir. (Gripið fram í.) Mér finnst að innleiða þurfi þessa löggjöf vegna þess að ég hef setið í ríkisstjórn og þekki það alveg að við getum ekki fengið undanþágu frá því sem okkur sýnist. Við innleiðum þessa löggjöf en hún er ekki sú grundvallarbreyting á landbúnaðarkerfinu og landbúnaðarstefnunni eins og ráðherrann gaf í skyn.



[13:47]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég er hér með fyrirspurn til formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, um stuðning þingflokka Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við fyrirhugaðar breytingar á lögum um tollverði og sameiningu allra tollvarða undir eina yfirstjórn.

Tilefnið er að Alþingi hefur verið lítilsvirt af Birni Bjarnasyni, hæstv. dómsmálaráðherra sem gefið hefur fyrirmæli til hæstv. fjármálaráðherra um að breyta lögum um tollgæslu í landinu sem þó beinist aðallega að lögregluembættinu á Suðurnesjum. Við í Frjálslynda flokknum höfum óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á lögregluembættinu á Suðurnesjum og vegna þess ætti að fresta því að leggja fram frumvarp um breytingar á lögregluembættinu á Suðurnesjum þangað til sú úttekt hefði farið fram.

Fyrir 16 mánuðum varð sameining á tveimur embættum, sýslumannsembættinu í Keflavík og sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli, og þá voru rökin fyrir sameiningu sparnaður, hagræðing og samnýting á mannafla. Stjórnunarkostnaður átti að lækka og síðast en ekki síst átti að auka löggæslu á Suðurnesjum en það hefur reyndar verið svikið af hálfu dómsmálaráðherra. Þess vegna spyr ég formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) hvort hún telji að það sé stuðningur við þetta.



[13:49]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður kláraði ekki spurninguna fyrr en hann var kominn úr ræðustól var hún sú hvort ég héldi að það væri stuðningur við þetta mál í ríkisstjórninni. Ég veit að verið er að fjalla um þetta mál hjá ríkisstjórnarflokkunum og ég get glatt hv. þingmann með því að ég held að það sé ágætissamstarf fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra um þetta mál þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.

Umfjöllunarefnið er sem sagt til meðferðar hjá stjórnarflokkunum og ég á ekki von á öðru en að þaðan komi mjög skynsamlegar tillögur eins og ávallt koma frá þessum stjórnarflokkum þegar þeir fjalla um mál. Ég á ekki von á öðru en að það verði í þessu tilfelli eins og alltaf áður, þ.e. að við fáum lausn á þessum málum sem verða þá til þess að þarna gangi mál upp hvað varðar löggæslu, tollgæslu og flugvernd á Keflavíkurflugvelli.



[13:50]
Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þegar sú ákvörðun var tekin að sameina löggæslumál á Suðurnesjum og stofna embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum var sveitarstjórnarmönnum á svæðinu kynnt sú breyting á þann veg að hún mundi leiða til þess að styrkja og efla löggæsluna á Suðurnesjum auk þess sem sami fjöldi lögreglumanna mundi starfa við embættið.

Síðan hefur það gerst að lögreglumönnum hefur fækkað frá sameiningu. Það er skoðun sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum að lögreglan þurfi að vera sýnilegri, grenndargæsla sé ekki nægileg og að viðbragðstími sé of langur. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum hafa áhyggjur af öryggi íbúa Suðurnesja og vilja að þau loforð sem gefin voru við sameiningu um öflugri löggæslu verði efnd, að rekstrargrunnur löggæslunnar verði styrktur svo hægt verði að fullmanna lögregluliðið að nýju.

Öryggisgæslan snýst um starfsemina í flugstöðinni og það gerir tollgæslan einnig að mestu leyti. Löggæslan snýst um landamæragæslu og einnig um samfélagið á svæðinu og það þarf að efla hana í þágu allra íbúa á Suðurnesjum. Þær breytingar sem boðaðar eru á embætti lögreglustjórans eiga ekki að vera til þess fallnar að veikja starfsemina á neinu sviði, (Gripið fram í.) hvorki tollgæslu, öryggisgæslu né löggæslu heldur tryggja starfsöryggi aðila og að verkefnum sem þessir aðilar hafa haft með höndum verði áfram sinnt vel.

Með mikilli fjölgun farþega um flugvöllinn og með mikilli aukningu fraktsendinga hafa umsvifin í kringum flugstarfsemina aukist mjög. Það er skoðun mín að með nýju fyrirkomulagi eigi að skapast tækifæri til að efla og styrkja löggæsluna á svæðinu á forsendum löggæslunnar. Það er stærsti vinningurinn fyrir ört stækkandi samfélag á Suðurnesjum.



[13:52]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða eitt allra skrýtnasta mál sem rekið hefur á fjörur þingsins á undanförnum árum. Það er nýlega búið að hrinda í framkvæmd breytingum á embættunum á Suðurnesjum og sameina tollverði, öryggisþjónustu og löggæslu undir eina yfirstjórn með það að markmiði að ná fram fjárhagslegum sparnaði, meiri samhæfingu milli þessara starfsstétta og meiri árangri í starfi þeirra. Nú á að fara að snúa til baka, rífa þetta í sundur aftur — með sömu rökum. Hér kemur þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurnesjum og segir að í þessu felist ný tækifæri. Tækifæri til hvers? Til þess að henda út um gluggann þeim fjárhagslega sparnaði sem náðst hefur með þessari sameiningu? (Gripið fram í: Sinna löggæslu.) Tækifæri til þess að eyðileggja það samstarf milli lögregluþjóna og tollvarða sem tekist hefur vegna þess að þeir eru undir sama embætti, geta unnið saman með mismunandi lögheimildir til sinna starfa? (Gripið fram í.) Það eru engin tækifæri í þessu.

Þetta eru tækifæri til að eyðileggja gott verk, og ég er undrandi á að það sjónarmið skuli heyrast frá Sjálfstæðisflokknum, og það frá þingmanni kjördæmisins, að þetta skemmdarstarf sé tækifæri.

Virðulegi forseti. Það verður að gera kröfu til þess að flokkur dómsmálaráðherrans rökstyðji það og segi okkur frá því hvaða tækifæri það eru. Er það kannski tækifæri til þess að fá annan sýslumann, einhvern sem er með betra flokksskírteini en þann sem fyrir er, virðulegi forseti? (ArnbS: Hvaða flokksskírteini hefur þessi?) Hvers konar tækifæri er það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að sækja sér með því að henda sprengju inn í gott starf sem unnið hefur verið á sl. einu og hálfa ári og reyna að eyðileggja það í einu vetfangi, virðulegi forseti?

Ég segi eins og formaður þingflokks Samfylkingarinnar: Hvers vegna að gera við það sem ekki (Forseti hringir.) er bilað?



[13:55]
Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Það málefni sem ég ætla að tala um hér er ótengt löggæslumálum á Keflavíkurflugvelli en ég get í þessu tilviki gert orð Kristins H. Gunnarssonar algjörlega að mínum.

Ég vildi ræða hér lítillega um þjóðlendukröfur ríkisins. Nú er það komið upp að enn eru lagðar fram kröfur sem grundvallast á mikilli óbilgirni. Enn er farið inn í þinglýst lönd bænda og sveitarfélaga, meira að segja eru skíðasvæði norðanmanna ekki óhult fyrir þessari ásælni ríkisvaldsins og þetta er þvert á þau loforð sem gefin hafa verið slag í slag. Þess vegna kalla ég eftir viðbrögðum þingmanna Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi, þar sem nú er höggvið niður, við því hvort þetta sé þeim þóknanlegt. Ég tel að hér sé í raun og veru gengið algjörlega á bak þeirra orða sem hafa verið gefin um að kröfugerð verði milduð og einkanlega þó um það að öðruvísi verði farið að, þ.e. að þetta verði ekki rekið sem einskær málaferli heldur verði farin samningaleiðin í þjóðlendumálum. Það hefur verið margboðað fyrir kosningar og svo aftur nú á aðalfundi landeigenda, þá var boðað með mjög ákveðnum hætti af hæstv. fjármálaráðherra að farin yrði samningaleið, það yrði samið um hlutina og svo aðeins að í því sem ágreiningur væri um yrði stefnt að málaferlum. Eins var því lofað að heimildaöflun áður en kröfur yrðu lagðar fram yrði mun ítarlegri en hvorugs sér stað í því sem nú er verið að vinna.

Ég get alveg viðurkennt að það er kannski ögn mildari kröfugerð hjá fjármálaráðherra að því (Forseti hringir.) marki að hann tekur mið af þeim dómum sem fallið hafa. Honum væri líka algjörlega útilokað annað en að taka mið af þeim dómum sem fallið hafa.



[13:57]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er þeim sem hér stendur mikið mál að tala í þessum þjóðlendumálum, ég skal alveg viðurkenna það, fús og viljugur. Mér hefur frá upphafi þótt þetta mál hafa verið rekið þannig að það væri mikil óbilgirni af hálfu ríkisins í eftirrekstri og ásælni í lönd vítt um Ísland. Ég hef verið þeirrar skoðunar og aldrei dregið dul á það. Mér er hins vegar fullkomlega ljóst að það er ríkur þingmeirihluti fyrir þeirri lagasetningu sem kröfugerðin byggir á. Framkvæmd kröfugerðarinnar hefur hins vegar tekið breytingum eins og kom ágætlega fram í máli hv. þm. Bjarna Harðarsonar áðan. Í þessu síðasta máli, þó svo að skíðasvæði okkar norðanmanna uppi í Hlíðarfjalli falli að þjóðlendukröfunni að þessu sinni, hef ég fulla trú á því að við megum halda áfram upp fyrir þriðja mastur í Strýtu í Hlíðarfjalli og býð hv. þingmann velkominn á skíði með mér þar við fyrsta tækifæri.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á kröfugerðinni komu ágætlega fram í yfirlýsingu frá fjármálaráðherra sem birt var í Morgunblaðinu 8. apríl sl. og væntanlega í öðrum fjölmiðlum. Kröfugerðin tekur mið af niðurstöðu óbyggðanefndar og dómstóla undanfarin missiri. Það er stuðst við þinglýst landamerki sem ekki hefur verið gert áður nema þar sem þau ná inn til jökla. Þar liggja fyrir dómafordæmi frá Hæstarétti sem kröfugerðin getur ekki sniðgengið og verður að fá þá skorið úr með nýjum dómi.

Að öllu samanlögðu get ég litið svo á, og lít svo á, að kröfugerðin sé miklu afmarkaðri en hún áður var. (BjH: Hvar er sáttaleiðin?) Það er ekki leyst. Menn ganga þennan veg til enda á grundvelli þeirra laga sem hv. Alþingi setti.



[13:59]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það ber svo margt á góma hér að það leifir ekki af að maður muni á leiðinni í ræðustólinn hvað maður ætlaði að taka fyrir af því sem hér hefur verið tekið upp. Varðandi þjóðlendukröfurnar get ég ekki annað en tekið undir með hv. málshefjanda, Bjarna Harðarsyni, það kom mér á óvart að þau fyrirheit sem gefin höfðu verið um endurskoðun vinnubragða skyldu ekki leiða til mildari framsetningar á kröfum ríkisins en raun ber vitni.

Ég ætlaði að taka hér upp löggæslumálin á Suðurnesjum. Ég verð að taka undir með þeim sem þannig töluðu að það er ákaflega undarlegt að það sé borið á borð fyrir mann að nú skuli allt í einu boðið upp á að sundra nýtilkomnum kerfisbreytingum þar sem þetta var sameinað og talið hafa gefist vel, vitandi ekki annað en að ánægja ríki með það fyrirkomulag meðal starfsmanna, aftur og nokkurn veginn með sömu rökum og notuð voru til að sameina fyrir fáeinum missirum. Mér finnast stjórnvöld þurfa að skýra svona mál betur og það verður að fá upp á borðið ef eitthvað annað og meira er þarna á bak við og á ferðinni, einhver persónuleg mál eða ágreiningur eða annað í þeim dúr.

Hitt er að mínu mati ekki síður alvarlegt, og það vil ég taka hér upp, að hin almenna löggæsla er að drabbast niður á þessu svæði eins og víðar. Ég var í Grindavík á dögunum og þar er megn óánægja með það að lögreglustöðin þar stendur tóm. Það heyrir til viðburða að lögregla komi til Grindavíkur, (Gripið fram í.) í stærðarkaupstað, vaxandi kaupstað. Þá háttar þannig til að yfirleitt vita allir með góðum fyrirvara að lögreglubíllinn er á leiðinni og það er hægt að senda SMS í gegnum símana til að láta vita af því sem þurfi að fara í skjól rétt á meðan lögreglan er í plássinu. Alltsvo, þetta er ástandið sem boðið er upp á í einum af hinum stóru kaupstöðum landsins. Þetta er algerlega óviðunandi.

Ég veit svo sem ekki hvort þær hræringar að sundra og sameina embætti hafa nokkuð með það að gera að efla þessa starfsemi. Þarna vantar meiri peninga, það verður að leggja fjármuni í grenndargæsluna í landinu sem hefur drabbast niður undanfarin ár og er til háborinnar skammar. Það væri nær (Forseti hringir.) að setja í þetta eitthvað af peningunum sem á að setja í varnarmálaruglið, frú forseti. (Gripið fram í.)



[14:01]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Öll loforð sem gefin voru vegna sameiningar embættanna fyrir 16 mánuðum hafa verið svikin. Á síðustu þremur árum hefur fækkað um 18 til 20 löggæslumenn á Suðurnesjum. Sex lögreglubílar áttu að vera á Suðurnesjum. Því var lofað þegar lögreglustöðin var lögð niður í Grindavík og lögreglan sameinuð. Það áttu að vera sex bílar í gangi, einn í Sandgerði og Garði, einn í Grindavík og Vogum, tveir í Reykjanesbæ, sá fimmti við flugstöðina og loks áttu sérsveitarmenn að vera í sjötta bílnum. Ekki hefur verið staðið við neitt af þessu. Búið er að rústa þann mikla árangur sem lögregla, tollverðir og öryggisverðir höfðu náð á Keflavíkurflugvelli. Samstarf þessara aðila hefur verið frábært vegna þess að þeir hafa verið undir einni stjórn en ekki rifist um hver ætti að borga kostnaðinn af hverju embætti fyrir sig, með yfirstjórn yfir þremur embættum og jafnvel því fjórða því að það hefur heyrst að ríkislögreglustjóri vilji taka yfir svokallaða landamæravörslu. Þetta er allt á floti, þetta er allt í lausu lofti og enginn veit hvað verið er að gera þarna. Fólkið, bæði starfsmenn og almenningur á Suðurnesjum, er í mikilli óvissu út af þessum gerræðislegu vinnubrögðum og valdhroka ákveðinna ráðherra yfir því hvernig þeir standa sig. Það er hægt að spara með því að leggja niður Schengen og vera bara hálfur aðili að Schengen-samkomulagi. En númer eitt, tvö og þrjú vantar peninga í löggæslumál á Suðurnesjum. (Gripið fram í: Á landinu.) Á landinu reyndar, það er líka rétt. En númer eitt þarf að koma í veg fyrir að þessar breytingar verði gerðar á lögregluembættinu á Keflavíkurflugvelli.