135. löggjafarþing — 89. fundur
 10. apríl 2008.
framganga lögreglu gagnvart mótmælendum.

[10:43]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nokkuð hefur borið á mótmælaaðgerðum undanfarna daga hjá bílstjórum eins og alþjóð er kunnugt og framganga lögreglunnar í þeim efnum hefur mér þótt vera til fyrirmyndar. Hún hefur við þessar erfiðu aðstæður sýnt festu en um leið þá hófsemi og það umburðarlyndi sem nauðsynlegt er að sýna gagnvart mótmælaaðgerðum í lýðræðissamfélagi eins og okkar — hún á hrós skilið, og hæstv. dómsmálaráðherra, fyrir framkvæmd löggæslunnar í þessu efni.

Við höfum því miður ekki alltaf borið gæfu til að sýna mótmælendum slíkt umburðarlyndi í aðgerðum þeirra. Er skemmst að minnast framgöngu gagnvart mótmælendum í umhverfismálum á síðasta ári. Á Snorrabrautinni í Reykjavík voru þá nokkrir einstaklingar að mótmæla og voru umsvifalaust handteknir og kærðir fyrir framferði sitt. Var mótmælendum, bæði þar og fyrir austan, sannarlega sýnd fyllsta harka.

Það er ánægjulegt að mótmælendum sé sýnt umburðarlyndi í lýðræðissamfélagi eins og okkar. Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann hafi beitt sér fyrir mildari framgöngu og túlkun á lögum og löggæslu gagnvart mótmælaaðgerðum í lýðræðissamfélagi — hvort hér sé orðin stefnubreyting og hvort við megum treysta því að framvegis verði mótmælendum sýnt það nauðsynlega umburðarlyndi sem þarf að vera í samfélagi eins og okkar og svo almennt um skoðun hans á þróun mála í þessum efnum.



[10:45]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég hef ekki beitt mér gagnvart lögreglunni í þessu máli og í hvorugu þeirra mála sem hv. þingmaður nefndi. Ég tel að lögreglan sé fullfær um að taka þessar ákvarðanir sjálf.



[10:45]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið en hlýt þó að inna hann eftir því hvort hann kunni einhverja skýringu á svo ólíkri framkvæmd laga frá ári til árs. Það blasir við hverjum manni að hér er með ákaflega ólíkum hætti tekið á borgurunum við það að standa fyrir lýðræðislegum mótmælaaðgerðum gegn einhverju því í stjórnarfarinu sem þeir eru ósáttir við.

Ef ekki er um að ræða stefnubreytingu af hálfu ráðuneytisins eða löggæslunnar í landinu spyr ég hvort hann kunni þá einhverjar aðrar skýringar á þessu. Það er grundvallaratriði í réttarríki að fyrirsjáanleiki sé í réttarríkinu og fyrirsjáanleiki í löggæslunni. Ég tel mikilvægt að hæstv. dómsmálaráðherra tjái sig um málefnið einmitt vegna þess að borgararnir verða að geta gengið að stefnunni í þessum efnum vísu.



[10:46]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég tel að í báðum tilvikum hafi lögreglan farið að lögum og ekki sé um ólíka framkvæmd laga að ræða.