135. löggjafarþing — 89. fundur
 10. apríl 2008.
Ríkisendurskoðun, 1. umræða.
frv. KHG o.fl., 497. mál (Alþingi kjósi ríkisendurskoðanda). — Þskj. 791.

[14:25]
Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Á þskj. 791 flyt ég frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun ásamt níu öðrum hv. þingmönnum, þeim Gunnari Svavarssyni, Höskuldi Þórhallssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Guðjóni A. Kristjánssyni, Helga Hjörvar, Ögmundi Jónassyni, Ellerti B. Schram og Siv Friðleifsdóttur.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að breyta 1. málsl. 2. gr. laga um Ríkisendurskoðun sem í dag hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forsætisnefnd Alþingis ræður forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn og nefnist hann ríkisendurskoðandi.“

Lagt er til að þessi setning orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn og nefnist hann ríkisendurskoðandi.“

2. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Greinargerðin sem fylgir með frumvarpinu er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að Alþingi kjósi ríkisendurskoðanda í stað þess að forsætisnefnd Alþingis ráði hann. Yrði þá ráðning ríkisendurskoðanda færð til sama horfs og gilt hefur frá upphafi varðandi umboðsmann Alþingis.

Fyrstu lögin um umboðsmann Alþingis eru frá 1987 og var þá þegar lögfest að Alþingi kysi umboðsmann. Í greinargerð með frumvarpinu segir um þetta atriði að þetta sé sama fyrirkomulag og viðhaft sé í Danmörku og að ætla megi að það sé til þess fallið að auðvelda umboðsmanni störf sín ef hann sækir umboð sitt beint til meiri hluta þess þings sem situr hverju sinni. Flutningsmaður frumvarpsins var þáverandi forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, og vísaði hann sérstaklega til þessa rökstuðnings í framsöguræðu sinni fyrir frumvarpinu.

Með lögum nr. 12/1986 var Ríkisendurskoðun flutt undir vald Alþingis. Rökstuðningurinn vísaði einkum til þess að stjórnarskráin færði Alþingi vald í hendur til þess að ákveða fjárveitingar. Því væri það rökrétt að á vegum löggjafans færi fram endurskoðun á því hvernig framkvæmdarvaldið, sem annast framkvæmd fjárlaga, hafi nýtt fjárlagaheimildir Alþingis og svo hvort farið hafi verið út fyrir þær. Var þá ákveðið að forsetar Alþingis réðu í sameiningu forstöðumann Ríkisendurskoðunar. Á þeim tíma voru forsetarnir þrír, einn fyrir neðri deild, annar fyrir efri deild og sá þriðji fyrir sameinað Alþingi.

Lögunum var breytt 1997 til samræmis við breytingar sem urðu 1991 á skipulagi Alþingis, þegar deildaskiptingin var afnumin og ákveðið að Alþingi starfaði aðeins í einni málstofu. Í stað forseta Alþingis var ráðningarvaldið fært til forsætisnefndar Alþingis, sem samanstendur af forseta Alþingis og varaforsetum þess. Hafa ber í huga að skv. 10. gr. þingskapalaganna frá 1991 sker forseti úr ef ágreiningur verður í forsætisnefndinni. Þetta þýðir að í raun er það vilji forseta sem ávallt ræður, því að þótt allir varaforsetar séu á einu máli dugir það ekki til ef ágreiningur er við forseta Alþingis.

Sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á því að ríkisendurskoðanda verður ekki vikið úr störfum nema með samþykki Alþingis rétt eins og gildir varðandi umboðsmann Alþingis. Verður að telja eðlilegt í ljósi þessa og í fullu samræmi við löggjöf um umboðsmann Alþingis að gera þá breytingu á lögunum um Ríkisendurskoðun að ríkisendurskoðandi verði kosinn af Alþingi.“

Virðulegi forseti. Þetta er meginefni frumvarpsins, að færa til sama horfs kosningu og val á nýjum ríkisendurskoðanda og gildir um umboðsmann Alþingis. Báðar þessar stofnanir heyra undir Alþingi beint og því er eðlilegt að sama fyrirkomulag sé um ráðningu og brottvikningu, ef til þess kynni að koma. Rökstuðningurinn fyrir því að í upphafi var tekið upp það fyrirkomulag um umboðsmann Alþingis fyrir 20 árum að Alþingi kysi hann, er enn í fullu gildi. Hann er sá að það styrki umboðsmann í starfi að styðjast við meiri hluta Alþingis, sýnilegan meiri hluta, og geri hann óháðan í störfum sínum eins og hann á að vera, bæði óháðan framkvæmdarvaldinu og óháðan forseta Alþingis sjálfum.

Sama röksemd á auðvitað við um ríkisendurskoðanda og þess vegna er eðlilegt að hafa fyrirkomulagið með sama hætti. Það er það nú þegar að hálfu leyti hvað varðar brottvikningu ríkisendurskoðanda, að honum verði ekki vikið úr embætti nema með samþykki meiri hluta Alþingis. Þess vegna er lagt til í frumvarpinu að stíga skrefið til fulls hvað varðar embætti ríkisendurskoðanda og samræma það því sem Alþingi ákvað að gilti um umboðsmann Alþingis. Nú er einmitt lag og kjörið tækifæri til að taka þessa lagabreytingu fyrir og til umræðu á Alþingi því að núverandi ríkisendurskoðandi hefur tilkynnt að hann muni láta af störfum síðar á þessu ári og þá er heppilegt fyrir Alþingi að breyta lögunum ef til þess er vilji, og gera það sem fyrst eða á næstu vikum þannig að nýr ríkisendurskoðandi yrði þá valinn með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og allsherjarnefndar. Að vísu var málinu og núverandi lögum um Ríkisendurskoðun frá 1996 þegar þau voru hér til meðferðar sem frumvarp vísað til sérnefndar en ekki allsherjarnefndar. Það kann að helgast af því að þá voru flutningsmenn forseti Alþingis og að ég held varaforsetar líka. Ég legg það í dóm forseta hvort hann telur eðlilegt að hafa sama fyrirkomulag og 1997 og hlíti niðurstöðu hans í þeim efnum ef hann telur það vera svo. Að öðru leyti er það tillaga mín að málið gangi til allsherjarnefndar.



[14:32]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Alþingi hefur ýmis hlutverk með höndum. Það er að sjálfsögðu augljósast að standa að lagasetningu en einnig að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Ein af grundvallarstofnunum sem sinnir slíku hlutverki og heyrir undir Alþingi er embætti ríkisendurskoðanda. Þetta frumvarp lýtur að því hvernig standa skuli að ráðningu forstöðumanns þeirrar stofnunar.

Fram hefur komið í máli 1. flutningsmanns, hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, hvaða röksemdum við flutningsmenn teflum fram máli okkar til stuðnings. Ég vek athygli á því hve víðtæk samstaða er að baki þessu frumvarpi. Þar er að finna þingmenn úr fjórum flokkum á þinginu. Úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er auk mín hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem stendur að þessu frumvarpi.

Eins og málum háttar nú ræður forsætisnefnd þingsins ríkisendurskoðanda. En ég vil hamra á því sem fram kom í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að sá framgangsmáti eða sú tilhögun er ekki ýkja lýðræðisleg því að ef uppi er ágreiningur í forsætisnefnd þingsins er það á valdi forsetans að skera úr um þann ágreining. Ef mismunandi sjónarmið eru uppi um hvern beri að ráða til þessa mikilvæga embættis er það því forseti þingsins sem hefur endanlegt úrskurðarvald í því efni. Þetta frumvarp sem gerir ráð fyrir því að ráðningarvaldið verði fært til þingsins alls gengur því út á að færa ráðninguna í lýðræðislegra samhengi en nú er.

Ég tel mjög mikilvægt að hraða afgreiðslu þessa máls í ljósi þess að núverandi ríkisendurskoðandi mun láta af störfum von bráðar og að ráða verður mann í hans stað. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs hér til að lýsa mjög eindregnum stuðningi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þetta þingmál.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.