135. löggjafarþing — 90. fundur
 15. apríl 2008.
rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 553. mál (leyfisveitingarvald til Orkustofnunar). — Þskj. 854.

[18:03]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.

Það eru tvær efnisgreinar í þessu frumvarpi og báðar lúta að því að veita iðnaðarráðherra heimild til þess að fela Orkustofnun vald til þess að veita leyfi samkvæmt þessum lögum. Þarna er um að ræða rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi.

Þetta er í samræmi við tillögur sem auðlindanefnd, sem skilaði af sér skýrslu til ráðherra í október 2006, lagði fram. Hún taldi að veiting leyfa á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu ætti fyrst og fremst að lúta faglegu og sérfræðilegu mati og því taldi þessi nefnd að eðlilegt væri að færa úthlutun leyfanna alfarið frá iðnaðarráðuneytinu til Orkustofnunar. Það er rétt að geta þess að allir þingflokkar áttu fulltrúa í þessari nefnd og allir nefndarmenn voru sammála um þessa tilteknu breytingu. Ég legg hana því hér fram í frumvarpsformi, herra forseti.

Það eru ýmis rök sem menn hafa talið fyrir því að flytja leyfisveitingarvald ráðherrans til Orkustofnunar og ég tek það fram að hér er einungis um heimild að ræða. Þetta er í samræmi við aðra löggjöf á sviði auðlinda- og orkumála, m.a. lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, frá 2001, og svo náttúrlega raforkulögin sem og frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu sem var lagt var fram á 133. löggjafarþingi.

Það er hægt að færa sterk rök fyrir því að stjórnsýsla af þessu tagi eigi heldur heima á verksviði fagstofnunar sem starfar á sviði auðlinda- og orkumála heldur en hjá ráðuneytinu sjálfu. Ég held að það sé alveg ljóst að það skapar hagræði í stjórnsýslunni og það þjónar vel hagsmunum þeirra sem eru að sækja um leyfi að geta beint öllum sínum erindum til sama stjórnsýsluaðila. Ég tel því að það standi sterk rök að því að leyfishafar og þeir sem sækja um leyfi eigi samskipti við sama stjórnvaldið á öllum stigum þeirrar starfsemi sem er orpin undir viðkomandi lög.

Ég held sömuleiðis að það sé alveg ljóst að þetta framsal á leyfisveitingum til Orkustofnunar einfaldi ferli umsagna vegna laga um mat á umhverfisáhrifum en samkvæmt þeim lögum á Skipulagsstofnun að leita álits m.a. leyfisveitenda vegna framkvæmda sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Þar af leiðandi felst í því ákveðin einföldun að það sé Orkustofnun sem veiti umsögn um tilteknar framkvæmdir, bæði sem leyfisveitandi og líka sem fagstofnun á sviði auðlinda- og orkumála. Má segja að við það fáist ekki eingöngu faglegri umsögn heldur ætti verkferli með þessum hætti að auka hraða málsins meðan á umsagnarferlinu stendur samkvæmt skipulagslögunum. Þá er verið að leita umsagnar einnar stofnunar í stað tveggja áður.

Það sem mér finnast þó vera sterkustu rökin fyrir þessu og gera það að verkum að breytingin er mjög ákjósanleg eru þau rök sem til þess standa út af sjónarmiðum um réttaröryggið. Verði þetta frumvarp að lögum getur umsækjandi borið ákvörðun Orkustofnunar undir ráðuneytið. Hann getur sem sagt skotið umdeildri ákvörðun frá viðkomandi stofnun til æðra stjórnsýslustigs og þannig látið fjalla um mál sitt á tveimur stjórnsýslustigum í stað eins áður.

Fyrir utan það, eins og ég hef þegar rakið, er hér um að ræða mikla einföldun á meðferð máls og vonandi stytting á málsmeðferðartíma því að eins og kunnugt er hefur ráðuneytið sent flestar umsagnir um leyfi hvort sem er til umsagnar hjá Orkustofnun.

Af því að hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins Guðni Ágústsson hlýddi nú á meginpart ræðu minnar þá vil ég rifja það upp að á þeim tíma sem hann sat sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands var samþykkt aðgerðaáætlun um einfaldara Ísland. Það var í október 2006, ef ég man rétt. Það tók að vísu iðnaðarráðuneytið heilt ár að hrinda þessu í framkvæmd fyrir sitt leyti. Í september á síðasta ári 2007 setti ráðuneytið sér slíka áætlun og þetta frumvarp er liður í því að gera Ísland einfaldara hvað varðar stjórnsýslu og draga úr skrifræði.



[18:09]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra segir að það sem mestu skipti í sínum huga varðandi það mál sem hér liggur fyrir sé réttaröryggi, að viðkomandi umsækjendur um leyfi til rannsókna eða nýtingar á auðlindum í jörðu eða á hafsbotni geti vísað úrskurði Orkustofnunar, sem hér er lagt til að fái þetta leyfisveitingavald, til ráðherra.

Og ég spyr: Hverju sætir það, hæstv. ráðherra, að þessi kæra sem hér er um rædd skuli borin fram innan 30 daga frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun en að öðru leyti skuli fara samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga?

Nú er það svo samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að kærufrestur er þar tilgreindur með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að lög mæli á annan veg.

Og ég spyr hverju þetta sætir vegna þess að þetta er allt annað en við höfum séð til að mynda varðandi flutning verkefna til landlæknis frá heilbrigðisráðuneyti og þetta er allt annað heldur en fram hefur komið í tveimur þeim frumvörpum áður um sama efni sem ég hyggst gera hér að umræðuefni í meginmáli mínu hér á eftir. Þar kom í báðum tilfellum fram á árinu 2004 og á árinu 2006 að um slíka kæru til ráðherra skyldu gilda venjuleg ákvæði stjórnsýslulaga. þ.e. 27. gr. um kærufrest.



[18:11]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr um ástæður þess að þessi frestur sem hún telur of skamman, ef ég skil hv. þingmann rétt, (Gripið fram í.) sé einungis 30 dagar. Ástæðurnar fyrir því eru einfaldlega, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, til þess að auka hraða málsmeðferðar sem stundum hefur dregist úr öllu hófi.

Hins vegar er það nú svo að ef hv. þingmenn eru annarrar skoðunar og geta fært sterk rök fyrir því þá er þetta nokkuð sem sjálfsagt er að skoða í nefnd. Þetta er ekkert sem ég tel að við ættum að láta okkur verða að miklum ásteytingarsteini ef hún hefur sterk rök fyrir því að þetta kunni með einhverjum hætti að skerða rétt þeirra sem vilja kæra til ráðherra.



[18:12]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var lóðið, ástæðan er sú að það þarf að flýta ferlinu. Og hvaða ferli skyldi það nú vera sem þarf að flýta? Ef litið er til greinargerðar með frumvarpinu þá segir um þetta, frú forseti:

„Fæst þá ekki eingöngu faglegri umsögn,“ þ.e. með þetta í höndum „heldur kann slíkt verkferli að auka málshraða við umsagnarferli samkvæmt lögum nr. 106/2000 ...“

Hvaða lög skyldu það vera? Það eru lögin um umhverfismat. Það á sem sagt að aðstoða framkvæmdaraðila, sem eru í þessum efnum raforkufyrirtækin og stóriðjan, til þess að hraða sér í gegnum umhverfismatsferli. Og þá veit maður það, frú forseti.

Annað sem ég óska eftir að gera athugasemd við hér í andsvari er umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem kemur fram að verði þetta frumvarp óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að vegna fjölgunar um eitt stöðugildi hjá Orkustofnun þá aukist útgjöld stofnunarinnar um 7–8 millj. kr. en ekki er gert ráð fyrir þeim útgjöldum í fjárveitingum gildandi fjárlaga. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því að þetta frumvarp, öðlist það samþykki, taki þegar gildi. Ég spyr: Hverju sætir það að verið er að stefna hér vísvitandi í 7–8 millj. kr. gat á reikningum Orkustofnunar?



[18:14]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður málar skrattann á vegginn og hún telur að hér sé náttúrlega djúpt samsæri á ferðinni af hálfu iðnaðarráðherra. Samsærið felist í því að það eigi að auðvelda raforku- og stóriðjufyrirtækjum að ganga á skóm sínum, skítugum eða hreinum eftir atvikum, yfir rétt landsmanna. Það er ekki um neitt slíkt að ræða.

Það vakir auðvitað ekki fyrir mér að rýra rétt eins eða neins. Þarna er verið að gefa ákveðinn frest. Ég taldi að hann væri nægur. Við munum ábyggilega sjá það þegar málið fer í gegnum eðlilegt vinnuferli í þinginu þar sem það verður sent til allra þeirra sem hafa einhverja hagsmuni af þessu, þar með talið umhverfis- og náttúruverndarsamtaka, hvaða viðhorf viðkomandi samtök hafa.

Það er ekki vilji minn að aðstoða við að náttúran verði rænd verðmætum sínum, eins og hv. þingmaður lét alla vega liggja að. Við megum ekki gleyma því að það eru lög í landinu um umhverfismat, um framkvæmdir, (Gripið fram í.) um ákaflega marga hluti sem tengjast einmitt vernd náttúrunnar. Það er að finna í einum þrennum, fernum verulega gildum lögum og reyndar fleirum sem eru í fullu gildi.

Ef mönnum tekst að koma sjónarmiðum sínum þannig á framfæri að fallist sé á þau í fyrsta lagi í tilviki þeirra sem sækja um leyfið, þá verður það að sjálfsögðu gert með tilliti til laga. Í öðru lagi ef ekki er fallist á þau, t.d. ef kært er til ráðherra, þá verður það líka gert á faglegum forsendum og eins er jafnan reynt að láta náttúruna njóta vafans.



[18:16]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem aðallega felst í því að iðnaðarráðherra óskar eftir heimildum til að framselja leyfisveitingarvald sitt til Orkustofnunar á ýmsum sviðum, þ.e. samkvæmt lögum um rannsókn og nýtingu auðlinda í jörðu og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Það er ekki langt síðan annar ráðherra Samfylkingarinnar, hæstv. umhverfisráðherra, bar fyrir sig tækja- og lagaleysi, til að geta veitt brautargengi og stutt á allan hátt, eins og hún raunar gerði með aðgerðaleysi sínu, álver suður með sjó. Hún bar fyrir sig að hún hefði engin tæki og engin tól til að grípa inn í og stöðva slíka framkvæmd.

Fljótt á litið má ætla að breytingarnar á þessum lögum, þar sem iðnaðarráðherra hreinlega biður um að fá að fela öðrum þessar leyfisveitingar, tengist þeim málum líka að hluta. Mér barst í hendur í dag, eins og flestum öðrum, skýrsla frá fjármálaráðuneytinu um þjóðarbúskapinn, vorskýrsla 2008 sem er nokkurs konar stefnuyfirlýsing fjármálaráðuneytisins, vísbending um það sem ráðuneytið og ráðherra sjá gerast í þjóðlífinu á næstu mánuðum og árum. Þar er mikil áhersla lögð á uppbyggingu og að reisa fleiri álver. Þar er reyndar álver á Bakka, stækkun álversins í Straumsvík, ásamt Helguvík. Það er engu líkara en að ráðherra biðjist undan því að fá að taka um þetta ákvarðanir og vilji fela einhverjum öðrum það, búa til tæki til að komast undan ákvarðanatöku.



[18:19]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir það leitt ef orðstír minn hefur borist þannig til hv. þingmanns að iðnaðarráðherra sé hræddur við að taka ákvarðanir. Ég held að ég sé það ekki.

Hv. þingmaður misskilur þetta frumvarp hrapallega. Gagnrýni hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur byggist á ákveðnum rökum um frestinn og hv. þingmaður getur gagnrýnt það og lagt það út með þeim hætti að þar sé einhverjum hyglað, en það er ekki svo. En hv. þingmaður getur með engu móti haldið því fram að þarna sé verið að auðvelda framgang máls með þeim hætti sem hann lýsti. Það er ljóst að ef Landvernd eða umhverfisverndarsamtök eru ósátt við niðurstöðu Orkustofnunar þá hafa þau leyfi til að skjóta málinu til ráðherra. (Gripið fram í.) Það er partur af réttarörygginu og almennt viðurkennt af … (ÁI: Það er ekki einu sinni búið að lögleiða Árósasamninginn.) Bíddu við, það er partur af almennu réttaröryggi í landinu og hefur verið fundið að því við okkur. Þess vegna fórum við í viðamiklar breytingar á lagabálkum sem varðar réttarríkið fyrir einum áratug röskum til að gera mönnum kleift að njóta ávallt umsagnar tveggja stjórnsýslustiga. Það einfaldlega stórbætir öryggi manna. Hv. þingmenn geta síðan gert grín að því og reynt að hártoga það. Staðreyndin er þessi.

Fulltrúar þess flokks sem báðir þessir þingmenn tilheyra áttu sæti í nefnd sem lagði þetta til. Ég tek undir með þeim fulltrúum. Það getur vel verið að það sé einhver innri ágreiningur í Vinstri grænum sem veldur því að þessir tveir þingmenn koma hér og eru annarrar skoðunar. Ég tek það að vísu fram til að öllu sé til haga haldið að þar var (Forseti hringir.) ekki þessi 30 daga frestur.



[18:21]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það kemur fram í þessu frumvarpi að markmið þess sé að einfalda stjórnsýsluna, flýta fyrir og auðvelda afgreiðslu mála. Það ætlar ráðherra að gera með því að framselja leyfisveitingarvaldið sem hann hefur núna yfir til Orkustofnunar. Auðvitað eru kærur vegna stjórnvaldsaðgerða Orkustofnunar, eins og kemur fram, sendar til iðnaðarráðherra. Að sjálfsögðu, nema hvað. Ekki var ætlunin að það yrði neinn andmælaréttur við því.

En með þessu er ráðherra að flýta fyrir afgreiðslu mála sem m.a. eru nefnd í títtnefndri skýrslu um þjóðarbúskapinn sem fjármálaráðuneytið gaf út og sendi frá sér í dag þar sem fram kemur, með leyfi forseta, að margvíslegar stóriðjuframkvæmdir eru til skoðunar á Íslandi sem byggja á samstarfi fjölþjóðlegra fyrirtækja og innlendra orkuveitna. Öll þessi verkefni fara í gegnum flókið ferli á mati umhverfisáhrifa og annarra áhrifa áður en endanlegt leyfi til framkvæmda og starfsemi er veitt, segir þar.

Með þessu frumvarpi getur hæstv. ráðherra ekki neitað að skjóta sér undan því með beinum hætti að beita valdi sínu til að taka ákvarðanir í þeim málum en felur það öðrum, flýtir fyrir afgreiðslunni með því að búa til tæki til að komast undan ákvarðanatöku, eins og hæstv. umhverfisráðherra bar fyrir sig sömuleiðis.



[18:23]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Elsku hjartans hv. 8. þm. Norðausturkjördæmis, þær framkvæmdir sem hv. þingmaður er að vísa til, hverjar mundu þær verða? Bakki? Helguvík? Það eru engin leyfi sem Helguvík tengjast sem varða iðnaðarráðuneytið. Engin. Það er ekki um það að ræða að hægt sé að halda því fram að þarna sé verið að reyna að flýta Helguvík. Hv. þingmaður gæti haldið því fram að með þessu væri á ferðinni djúpt samsæri um að hnika til leyfisveitingum varðandi Bakka. Ég veit ekki betur, samkvæmt mínu roskna minni sem þó er alveg prýðilegt, en að sú framkvæmd sé í reynd handan þess tíma sem þjóðhagsáætlunin, sem hv. þingmaður vísaði til áðan, nær til.

Að því er varðar þau köpuryrði sem hv. þingmaður hefur sent til hæstv. umhverfisráðherra er rétt að taka eftirfarandi fram: Það er fráleitt að túlka það þannig að hæstv. umhverfisráðherra hefði með ákvörðun, sem hefði hnigið í andstæða átt við það sem raunin varð, stöðvað Helguvík, jafnvel þótt hugur hennar hafi staðið til þess.

Deilan snerist um það að setja þá framkvæmd í heildarmat á grundvelli tiltekins ákvæðis. Það var andlag kæru Landverndar. Það snerist ekki um það að kippa til baka leyfum sem veitt hafa verið eða koma í veg fyrir að leyfi yrðu veitt á grundvelli faglegra sjónarmiða. Það snerist ekki um það heldur einungis um að taka þessa þrjá þætti, línulagnir, verið sjálft og orkuöflun og setja í heildarmat. Það hefði ekki falið í sér sjálfkrafa höfnun á framkvæmdinni. Það hefði kannski tafið hana. En það hefði ekki falið í sér neina höfnun. En eins og hv. þingmaður talaði (Forseti hringir.) mátti hann skilja hann svo að hann teldi að þá hefði það dæmi verið búið. Svo er ekki.



[18:25]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er Samfylkingunni rétt lýst. Allt frá því 3. apríl sl. hafa fulltrúar hennar keppst við að kvarta og kveina yfir því að flokkurinn og ráðherrar hennar geti ekkert gert til að hefta stóriðjustefnuna og eyðilegginguna sem hún kallar yfir íslenska náttúru með síaukinni ásókn í rannsóknar- og nýtingarleyfi í jarðvarmanum. Þetta sé bara ekki í höndum flokksins, ríkisstjórnar eða ráðherra, þetta sé allt saman komið eitthvert annað, í hendur orkufyrirtækjanna og sveitarfélaganna. Þessu höfum við auðvitað mótmælt harðlega sem kunnugt er. En við þekkjum tóninn.

Núna, tíu dögum eftir að kvartað var undan því að engin lagaleg tæki væru til að stöðva Helguvík, hvað gerist þá? Þá leggur Samfylkingin fram frumvarp. Um hvað? Jú, um að láta allar leyfisveitingar í rannsóknum og nýtingu á jarðvarma og hafsbotni fara frá iðnaðarráðherra til Orkustofnunar. Sem sagt, stöðvunarvaldinu sem felst í því að hafa leyfisveitinguna á hinni pólitísku hendi er hent fyrir borð. Hér er Samfylkingunni svo sannarlega rétt lýst.

Hér er á ferð gamall uppvakningur sem kemur inn á borð þingmanna í þriðja sinn. Frumvarp um þetta efni, allt vald til Orkustofnunar, kom fyrst inn í þingið 2004 á 131. þingi frá hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Valgerði Sverrisdóttur og aftur á 133. þingi, þá í frumvarpsformi frá þáverandi iðnaðarráðherra Jóni Sigurðssyni og byggði, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan réttilega, að hluta til á tillögum auðlindanefndar. Um það snerist reyndar deilan.

Báðir þessir draugar á 131. og 133. þingi voru kveðnir niður, sá síðari á vorþingi 2007, meðal annars fyrir atbeina þáv. hv. þingmanns Össurar Skarphéðinssonar, núverandi hæstv. iðnaðarráðherra. Það er freistandi, frú forseti, að vitna stuttlega í orð hæstv. ráðherra við það tækifæri þegar hann sagði einfaldlega: Hingað og ekki lengra. (Iðnrh.: Af hvaða tilefni?) Af því tilefni að frumvarp sem þáv. hæstv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson lagði fram og sagði að væri þjóðarsátt í deilunni um stóriðjustefnuna. Hæstv. núverandi ráðherra vildi ekki meina að svo væri, það væri langt í frá. Ég vitna aftur til orða hv. þáverandi þingmanns Össurar Skarphéðinssonar:

„Ef hæstv. ráðherra vill reyna að ná einhverri sátt hefði hann á þessari stundu beitt sér fyrir því að gerður yrði stóriðjufrestur í fimm ár.“

Þetta voru orð hæstv. ráðherra Össurar Skarphéðinssonar. Hann rifjaði upp í einni af nokkrum ræðum sínum um þetta mál í febrúar á sl. ári að Samfylkingin hefði á haustþingi lagt fram tillögur um að gert yrði fimm ára hlé á stóriðjuframkvæmdum, m.a. að menn hættu við þau áform sem þá voru uppi um að reisa álver í Helguvík og stækka álver í Straumsvík. (Gripið fram í: Hver sagði það?) Hæstv. núverandi iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson. Hann sagði líka að það þyrfti enga stóriðju til að halda hagvexti í því horfi að til velsældar leiddi í samfélaginu. Hann sagði einnig að við þær aðstæður sem ríktu í íslensku samfélagi ættu menn að stíga á bremsurnar. Þá ætti að skapa þá sátt sem okkur stjórnmálamönnunum er samfélagsleg skylda að reyna að ná og þess vegna erum við, sagði hæstv. núverandi ráðherra, að reyna að slá skjaldborg um ákveðin náttúruverðmæti.

Það mætti tína fleiri gullkorn til úr þessari ræðu en eins og ég segi var það m.a. fyrir atbeina þáverandi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að þessi draugur sem ég vil kalla var kveðinn niður fyrir rúmu ári síðan og kristallast í fjórum orðum: Allt vald til Orkustofnunar.

Í fyrra skiptið sem þetta var lagt fram á 131. þingi sagði í 7. gr.: „Orkustofnun veitir leyfir til rannsókna á jarðrænum auðlindum“ en áður en til þess kæmi skyldi Orkustofnun gert að leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og sjávarútvegsráðuneytisins ef um rannsóknir á hafsbotni væri að ræða. Þetta var á 131. þingi og tók bæði til leyfisveitingar frá Orkustofnun varðandi rannsóknir og nýtingu.

Í síðara skiptið á 133. þingi var greinin þannig: „Orkustofnun veitir leyfi til rannsókna á auðlindum í jörð og vatnsafli. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar umhverfisráðuneytis.“

Því er ég að rekja þetta hér, frú forseti, að hv. þáverandi iðnaðarráðherrar, bæði Valgerður Sverrisdóttir og Jón Sigurðsson — það má segja þeim það til hróss að þau voru ekkert að fela markmið sitt með þessum frumvörpum 2004 og 2005. Þau settu varnagla af ýmsu tagi inn í frumvörpin, m.a. að leitað skyldi umsagnar í fyrra skiptið frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og sjávarútvegsráðuneyti og í seinna sinnið frá umhverfisráðuneyti. Nú er allt annað uppi á teningnum. Það eru engir fyrirvarar settir. Hér á bara að heimila ráðherra að fela Orkustofnun leyfisveitingu og ákvarðanatöku um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu og á hafsbotni. Punktur. Það eru engin skilyrði sett þar. Hér er þetta fram borið, allt vald til Orkustofnunar, undir formerkjunum Einfaldara Ísland . Augnablik, hvað varð um Fagra Ísland þar sem m.a. átti ekki að gefa út fleiri rannsóknarleyfi og flytja leyfisveitingar aftur frá sveitarfélögum og orkufyrirtækjum í hendur pólitísks stjórnvalds?

Eins og fram kom hjá ráðherranum áðan er markmiðið að hraða afgreiðslu í umhverfismati, að einfalda þetta ferli, að flýta umhverfismatinu, að fara að óskum framkvæmdaraðila sem hafa kvartað sérlega undan því hvað það væri þungt í vöfum og tæki langan tíma allt frá því að lög um umhverfismat voru fyrst sett. Hæstv. ráðherra sagði hérna áðan að þetta væri þægilegra og að það væri hagræði að þessu fyrir umsóknaraðila. Ég efast ekki um að svo sé. En ég endurtek að það eru engir varnaglar settir inn eins og var í fyrri frumvörpunum sem þó hlutu ekki náð fyrir augum Alþingis eins og m.a. að samhliða slíku skuli lögfesta meginreglur umhverfisréttar, að leita skuli umsagnar hjá umhverfisráðuneyti áður en leyfi til rannsókna eða nýting er veitt. Það var tillaga sem kom í frumvarpsformi eftir að auðlindanefnd skilaði af sér tillögum sínum.

Samfylkingin hefur sem sagt verið að kvarta undan því að ekki væru til tæki eða lagastoð hjá hinu pólitíska valdi sem hægt væri að beita í þágu náttúrunnar, þess vegna væri ekki hægt að stoppa Helguvík. Menn hafa á þeim bæ lýst yfir hátt og í hljóði að nú skyldi því breytt og valdið skyldi fært aftur til ráðherra og Alþingis. Hér er þetta allt annað. Hér er einföld tillaga um að koma öllum ákvörðunum um rannsóknar- og nýtingarleyfi frá hinu pólitíska valdi til Orkustofnunar. Með því móti getur Samfylkingin áfram verið ábyrgðarlaus og grátið bága stöðu sína sem stjórnmálaflokks og aðila að ríkisstjórn. Hún getur áfram talað eins og hún sé í minni hluta í meðalstórri bæjarstjórn suður með sjó en ekki flokkur í ríkisstjórn sem stýrir ráðuneytum iðnaðar- og umhverfismála.

Frú forseti. Það verður að viðurkennast að umhverfismatsferlið okkar er ekki nógu sterkt og stundum liggur manni við að segja að það sé ónýtt tæki og gagnist ekki nógu vel hér á landi, ekki eins og gerist í nágrannaríkjunum. Ástæðan er sú að framkvæmdaraðilar, raforkufyrirtækin og sveitarstjórnirnar, virðast hafa bundist samtökum um það að efna til stóriðju hvað svo sem það kostar náttúruna. Þau hafa bundist samtökum um að bíða ekki eftir niðurstöðum í umhverfismati og taka ekki mark á því, bíða alls ekki eftir heildstæðu mati, eins og þó er skylt samkvæmt Evrópurétti, né eftir úrskurði frá ráðherra um slíkt. Nei, í stað þess að taka ekki ákvörðun fyrr en allar upplýsingar um öll möguleg umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda liggja fyrir þá bindast menn samtökum um framkvæmdina og leiða umhverfismatið hjá sér og kvarta undan því að það gangi ansi hægt að komast í gegnum það.

Þegar staðan er þessi er mjög mikilvægt að halda leyfisveitingum hjá ráðuneyti og hjá Alþingi þannig að leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum verði veitt í samræmi við pólitíska stefnumörkun. Þá og aðeins þá er hægt að kalla stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka til ábyrgðar á þeirri stefnu. Þá og aðeins þá geta stjórnmálamenn ekki vikið sér undan ábyrgð og vísað á aðra og sagt að valdið liggi úti í bæ eins og Samfylkingin er nú að gera.

Samfylkingin er með þessu frumvarpi að hlaupast undan ábyrgð sem stjórnmálaflokkur, sem aðili að ríkisstjórn, sem stjórnmálaflokkur sem lagði fram stefnu fyrir kjósendur fyrir aðeins 11 mánuðum síðan, stefnu sem bar hið háleita nafn Fagra Ísland og fól m.a. í sér stóriðjuhlé, stóriðjustopp, þar sem búið væri að gera áætlun um vernd og nýtingu náttúrunnar. Var það ekki? Hvar skyldi sú áætlun vera eftir 11 mánuði Samfylkingarinnar í ríkisstjórn? Ég tel að það sé lágmark að láta þetta frumvarp lönd og leið í þriðja sinn, þennan uppvakning sem kemur hér, allt vald til Orkustofnunar, við tökum enga ábyrgð á leyfisveitingum í rannsóknum eða í nýtingu.

Það er nauðsynlegt, frú forseti, að setja á stóriðjustopp og stoppa alla frekari útgáfu rannsóknar- og nýtingarleyfa meðan vinna við rammaáætlun stendur yfir og þar til henni er lokið, þar til ný náttúruverndaráætlun lítur dagsins ljós. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað er Samfylkingin búin að vera að gera í þeim efnum í þessa 11 mánuði? Ég vek athygli á því að aðeins eitt af þeim 14 svæðum sem friða átti samkvæmt núgildandi náttúruverndaráætlun hefur verið friðlýst á þessu tímabili, ekkert hinna 13 hefur verið friðlýst og náttúruverndaráætlunin rennur út á þessu ári. Henni var ætlað að gilda frá 2004 til 2008. Það svæði sem friðað var, Guðlaugstungurnar, var friðlýst í tíð hæstv. þáverandi umhverfisráðherra Sigríðar Önnu Þórðardóttur en hún var líka látin fara.

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mig undrar metnaðarleysið sem hér birtist. Hér hafa tveir hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherrar lagt fram ítarlega lagabálka — reyndar hafa þeir verið gerðir afturreka með þá báða — þar sem reiknað er með að Orkustofnun fái það vald sem hér er lagt til að hún fái en þó með mjög stífum skilyrðum. Það er ekkert slíkt að finna í þessu, ekkert annað en þjónkun við umkvartanir framkvæmdaraðila sem vilja flýta sér í gegnum umhverfismat til að halda áfram að byggja og reisa meiri stóriðju og virkja meira. Mér finnst mjög miður að hæstv. iðnaðarráðherra skuli bera þetta mál inn og það undir þeim formerkjum að þetta sé smámál, tvær greinar eða svo og sé allt í samræmi við Einfaldara Ísland sem er eitthvað sem var ákveðið í ríkisstjórn í október á árinu 2006. Ég spyr: Hvar er Fagra Ísland , hvar er ábyrgð iðnaðarráðuneytisins og pólitísk ábyrgð hæstv. iðnaðarráðherra? Hvar er hún þegar hann er búinn að setja allar ákvarðanir og leyfisveitingar út af sínu borði?



[18:40]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta var vond ræða hjá hv. þingmanni og bar vott um mikið skilningsleysi hennar og þekkingarleysi bæði á því frumvarpi sem hér er um að ræða, á fortíð síns eigin flokks, að því er varðar þetta mál, og stóriðju almennt. Hv. þingmaður virðist ekki gera sér grein fyrir því að fortíðinni var allt öðruvísi háttað hvað varðar leyfi til stóriðju og virkjana en hv. þingmaður taldi hér upp áðan. Það var ekki þannig að valdið lægi hjá ráðherra. Það vald lá hjá Alþingi. Ef hv. þingmaður hefði skoðað ræður mínar betur hefði hún komist að því og ekki þurft að leita víðar fanga til þess að koma hér sæmilega upplýst í umræðuna. Ég hef margsinnis haldið ræður um það að ég tel að æskilegast væri að þau leyfi væru hér hjá hinu háa Alþingi þar sem allir fulltrúar úr hinum ólíku kimum samfélagsins ættu kost á að fjalla um það.

Áður var það með þeim hætti að menn tóku ákvarðanir um virkjanir á Alþingi Íslendinga og þá fylgdu þeim ákvörðunum yfirlýsingar um það, í greinargerðum með viðkomandi frumvörpum, til hvers ætti að nota orkuna. Þannig hafði Alþingi í reynd heimild og vald til þess að veita leyfi til virkjana og sömuleiðis til stóriðju. Það pólitíska vald, sem iðnaðarráðherra eða ríkisstjórn hafði á þeim tíma, fólst í því að iðnaðarráðherra hverju sinni þurfti líka að skrifa upp á orkusölusamninga. Það er víðs fjarri því sem hv. þingmaður lýsti hér áðan að einum tilteknum ráðherra hefði verið falið í vald að taka ákvörðun um hvort það ætti að virkja og byggja stóriðju. Það hefur aldrei verið svoleiðis eins og hv. þingmaður ætti að kynna sér.

Hv. þingmaður lýsti mikilli vantrú og vantrausti á Orkustofnun. Ég frábið mér slíkan áburð án raka á hendur stofnun. Hv. þingmaður sagði hér og hló við fót í ræðustól: Já, er þetta stefnan, allt vald til Orkustofnunar? Orkustofnun er fagleg stofnun sem byggir sín álit og úrskurði á sérfræðingum sem eru ekki festir á pólitískan klafa og þessi ráðherra a.m.k. skipar ekki stofnunum sínum til verka með þeim hætti að verið sé að beygja faglegan metnað eða faglegan sjálfstæðan vilja starfsmanna. Það er svo einfalt mál.

Ef hv. þingmaður teldi að æskilegt væri að hinn pólitíski vilji ráðherra kæmi fram ætti hún einmitt að fallast á þetta frumvarp eins og fulltrúi VG í auðlindanefndinni gerði á sínum tíma, þ.e. hina efnislegu gerð þess. Hér er um það að ræða að Orkustofnun er hinn faglegi aðili sem fer yfir málin, leitar fanga eftir atvikum, leitar álits annarra stofnana líka. Þegar sá úrskurður er fallinn kann hann að falla í misjafnan jarðveg. Ef um er að ræða að einhverjir þeir sem málið heyrir til lögum samkvæmt eru á móti — eins og hv. þingmaður veit er þar um að ræða samtök sem starfa á landsvísu og hafa a.m.k. 30 fulltrúa innan sinna vébanda — þá getur viðkomandi kært til ráðherra. Það er þá á því sviði, á því stigi stjórnsýslunnar, sem hinn pólitíski vilji, ef það er það sem hv. þingmaður vill kalla fram, ætti að geta birst. Það er því algjörlega fráleitt að halda því fram að hér sé verið að skjóta sér undan ábyrgð. Það er ómögulegt að halda því fram þegar þessi leið er opin og greið og endar beint á skrifborði ráðherrans með kæru.

Hv. þingmaður getur gert eins og hún gerði hér í andsvari sínu áðan, reynt að færa einhver rök fyrir því að 30 dagar séu ekki nægilegur frestur. Ég sagði við hv. þingmann: Ég er reiðubúinn til þess að skoða hvað sem er í þessu máli ef hv. þingmaður kemur með rök. Ég beið eftir ræðu hv. þingmanns. En hvar voru rökin? Það komu engin rök. Hún fór hérna með vitleysur, rangar staðreyndir, rangar upplýsingar um fortíðina og vildi ekki horfast í augu við það hvað hennar eigin flokkur hefur gert í þessu máli. Það kom mér reyndar ekki á óvart. Þegar hv. þingmaður kemur hér og reynir að láta sína heldur grönnu svipu og máttlitlu ríða á baki ráðherra, sem lítið finnur undan því, þá ætti hv. þingmaður að skoða fortíð síns eigin flokks.

Hvernig er fortíð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varðandi stóriðju hér á Íslandi? Hv. þingmaður þarf ekki annað en fara í þingtíðindi til þess að sjá það og skoða fjölmiðla. Formaður flokksins, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, studdi Keilisnes á sínum tíma, 1990. Hann lýsti því yfir að álframleiðsla væri umhverfisvernd í sjálfu sér. Hann lýsti því yfir að ál væri umhverfisvænn málmur og hann lýsti því yfir að það væri mjög jákvætt ef Íslendingar gætu tekið svolítið af mengunarklafa heimsins á sínar herðar með því að reisa hér álver á Keilisnesi til þess að draga úr því að menn væru að framleiða ál úti í heimi sem rekið væri á olíu og kolum. Þetta sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Sami þingmaður lýsti því yfir fyrir kosningarnar 2003, á fundi á Húsavík, að hann styddi álver á Bakka. Það er til skjalfest og er alveg sjálfsagt að sýna hv. þingmanni það eða eftir atvikum að lesa hér upp í þinginu frásögn af þeim fundi. Hún hékk uppi á norðlenskum vefmiðli í þrjú ár. Það er því engum blöðum um það að fletta að þarna talar forusta VG tungum tveim.

Það var líka hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem lýsti því yfir tveimur dögum eftir kosningar frammi fyrir alþjóð í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 í hádeginu að, eins og hann orðaði það, Helguvík yrði ekki „últimatum“ ef svo færi að efnt yrði til stjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokki og VG. Það liggur því alveg klárt fyrir að ef þetta eru prinsipp VG var flokkurinn algjörlega reiðubúinn til þess að fleygja þeim fyrir ætternisstapa bara til þess að geta skriðið upp í hjónasængina hjá Sjálfstæðisflokknum. Þetta er staðreyndin.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson greiddi á sínum tíma í stjórn Orkuveitunnar atkvæði gegn því að selja orku frá Orkuveitunni til stækkunar álvers í Straumsvík — en hann greiddi atkvæði með því að selja sömu orku til álversins uppi á Grundartanga sem rekið er af Norðuráli. Með öðrum orðum, það var ekki prinsippið „engin stóriðja“ hjá hv. þingmanni, sem þá var borgarfulltrúi, heldur var það staðsetningin sem skipti máli. Með öðrum orðum, í prinsippinu er þessi þingmaður ekki andstæður stóriðju eins og hv. þingmaður er að reyna að halda fram að þingmenn VG séu.

Á ég að halda áfram, frú forseti? Einn annar þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiddi líka atkvæði hér á sínum tíma þegar ég var í salnum með stækkun álvers í Straumsvík, það er svo einfalt mál. Það liggur því fyrir að meiri hluti þeirra þingmanna sem sitja á þingi sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa á sínum ferli stutt álver. Formaðurinn hefur stutt þrjú og hann hefur glæstastan feril. Hann er búinn að styðja einhver álver allt frá 1990 til ársins 2007. Þetta liggur bara fyrir. Svo getur hv. þingmaður komið hér og talað um að menn séu ekki samkvæmir sjálfum sér.

Það eina sem ég var sammála hv. þingmanni um var undir lok ræðu hennar sem, eins og ég sagði, mér fannst ekki góð og ekki sæmandi þingmanni með metnað eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sýnir yfirleitt. Þar sagði hv. þingmaður að krafan væri sú að engin rannsóknar- og nýtingarleyfi yrðu gefin út fyrr en búið væri að samþykkja hér á Alþingi rammaáætlun um nýtingu og verndun íslenskrar náttúru og sömuleiðis þegar búið væri að samþykkja náttúruverndaráætlun. Herra trúr, þetta er stefna þessarar ríkisstjórnar og sá ráðherra sem hv. þingmaður á nú orðastað við er ráðherrann sem kastaði út af borðinu öllum umsóknum um rannsóknarleyfi sem lágu þar þegar hann steig inn í ráðuneytið. Af hverju? Vegna þess að við höfum samþykkt og sett af stað þessa rammaáætlun með þeirri yfirlýsingu að engin rannsóknar- og nýtingarleyfi verði gefin út á óröskuðum svæðum fyrr en fulltrúar allrar þjóðarinnar, þ.e. þingmenn á löggjafarsamkundunni, hefðu fengið tækifæri til þess að fjalla um og gera breytingartillögur og athugasemdir við þá áætlun sem mun koma fram samkvæmt áætlun undir lok ársins 2009, og væntanlega rædd hér í byrjun árs 2010. Það er því tóm vitleysa sem hv. þingmaður segir að veita eigi einhver rannsóknar- og nýtingarleyfi áður. Ekkert kemur fram um það í frumvarpinu. Ég hef lýst þessu margsinnis yfir og hvernig í ósköpunum dettur hv. þingmanni í hug að ég ætli að fara á bak þeirra orða sem ég hef margsinnis sagt?

Óröskuð svæði verða óröskuð þangað til Alþingi Íslendinga er búið að taka ákvörðun um það hvaða svæði á að taka frá fyrir framtíðina og komandi kynslóðir. Alveg sama hversu billegur málflutningur hv. þingmanna VG er hér í dag, það er ekkert sem breytir því. Hv. þingmaður virðist hvorki skilja það sem búið er að segja margsinnis hér í þingsölum né heldur skilja þetta frumvarp þegar hún heldur því fram að með þessum hætti sé verið að greiða leiðina fyrir stóriðjuna til þess að rányrkja landið. Herra trúr. Staðan í dag samkvæmt núverandi kerfi er þannig að menn sækja til iðnaðarráðuneytisins sem sendir það til Orkustofnunar og þeir sækja líka til Orkustofnunar. Með öðrum orðum, það er verið að taka út úr kerfinu þennan hlykk sem er á leiðinni, (ÁI: Leið hverra?) sem er á leiðinni frá leyfisumsækjanda til iðnaðarráðuneytis og þaðan til Orkustofnunar. Það er verið að einfalda þetta, það er það sem verið er að gera.

Ef síðan kemur í ljós að menn eru ekki sáttir um það, við hinn faglega úrskurð Orkustofnunar, hafa þeir réttinn til þess að setja þetta aftur á borð iðnaðarráðuneytisins. Með öðrum orðum, það er verið að gera ráð fyrir umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum. Þetta er það sem menn kalla réttaröryggi, frú forseti, í dag þó að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gefi ekki neitt fyrir það, gefi ekki neitt fyrir þær skoðanir sem stallsystir hennar hafði nákvæmlega á þessum hlutum þegar þeir voru til umfjöllunar í auðlindanefndinni á sínum tíma.

Það er kannski ýmislegt fleira sem hægt væri að segja líka um ræðu hv. þingmanns. Mergurinn málsins er sá að hv. þingmaður hefur lítil efni á að koma hér og hreykja sér eins og faríseinn gagnvart tollheimtumanninum á sínum tíma vegna þess að það liggur alveg fyrir að VG ekur seglum eftir vindum í þessu dæmi. Þegar VG þarf að selja sína stóriðjustefnu til þess að komast til valda hefur það komið í ljós að flokkurinn er reiðubúinn til þess. Fimm sinnum hafa þingmenn VG á ferli sínum hér og í borgarstjórn Reykjavíkur greitt atkvæði með stóriðju. Það er kannski hentugt fyrir flokkinn að koma núna og berja sér á brjóst, en þegar á reynir hefur annað komið í ljós.



[18:53]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er naumast að ræða mín hefur komið við kaunin á hæstv. iðnaðarráðherra sem telur hana ekki bara vitlausa heldur uppfulla af þekkingarleysi, að sú sem hér stendur skilji ekki neitt, hvorki í frumvarpinu né í þeim tveimur frumvörpum sem áður hefur verið hent hér út úr þinginu og voru þau þó skár úr garði gerð en það sem hæstv. ráðherra ber nú á borð fyrir okkur.

Hæstv. ráðherra talar um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð aki seglum eftir vindi. Ja, margur heldur mig sig. Ég vil skora á hæstv. ráðherra að eiga orðastað við þá sem hann hér geipar um, svo sem eins og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon (Gripið fram í.) sem svaraði honum og jarðaði hann í umræðu hér um nákvæmlega þetta sama um daginn.

Palladómar af þessum toga, hæstv. iðnaðarráðherra, eru ekkert voðaleg skemmtilegir. Það er til lítils og ber ekki vott um mikla stórmennsku að reyna að slökkva ljós annarra til þess að manns eigin týra lýsi svolítið betur. En ég skil að Samfylkingin þarf á því að halda núna, hún þarf svo sannarlega á því að halda núna, þegar hún kemur inn í þingið með eitthvað sem heitir Einfaldara Ísland til þess að greiða götu stóriðjustefnunnar, auðvelda mönnum að komast í gegnum umhverfismat, flýta ferlinu, taka lykkjuna af leiðinni o.s.frv. Samt segir ráðherrann að ekki standi til að veita nein rannsóknarleyfi og þetta snúist ekkert um það.

Þetta snýst um það að verði frumvarpið að lögum verður breytt einum fjórum, fimm greinum í lögum nr. 57/1998 og í það minnsta tveimur greinum í lögum nr. 73/1990, um auðlindir hafsbotnsins, í þá veru að ráðherra tekur ekki pólitíska ábyrgð á leyfisveitingum til rannsókna eða til nýtingar. Það verður gert úti í bæ, það verður gert í Orkustofnun.

Ég tel að ráðherranum væri sæmra að rifja upp eigin orð og gerðir heldur en að ráðast að fjarstöddum einstaklingum hér og endurtaka árásir sem löngu hafa verið hraktar. Hvernig væri að rifja upp Gjástykkismálið? Hvernig væri að rifja það upp að þegar hæstv. ráðherra, Össur Skarphéðinsson, kom að sínu ráðherraborði hafði tveimur dögum áður verið úthlutað rannsóknarleyfi í Gjástykki — í Gjástykki sem er sannarlega perla í íslenskri náttúru, er á skrá hjá Umhverfisstofnun og í náttúruverndaráætlun yfir svæði sem á að vernda að þeirra mati og svæði sem er algjörlega óraskað. Hæstv. iðnaðarráðherra hafði tækifæri til að afturkalla þetta rannsóknarleyfi. Nei, hann gat það ekki, það var búið að veita leyfið. Fyrrverandi hæstv. ráðherra hafði veitt leyfið tveim dögum fyrir kosningar og hæstv. ráðherra, Össur Skarphéðinsson, þorði ekki að breyta því.

Ég tel að hér sé Samfylkingin að hlaupast undan pólitískri ábyrgð. Það skiptir verulega miklu máli í auðlindanýtingu okkar, hvort sem er á hafsbotni eða á landi, hvernig umgengnin við landið er í rannsóknum og nýtingu. Ef menn þora ekki að setja fram pólitíska stefnu um það og standa við hana og bera ábyrgð á útgáfu leyfa í rannsóknum og öðru slíku — öðruvísi mér áður brá ef þessi hæstv. ráðherra þorir það ekki, en þetta frumvarp ber ekki vott um annað. Ráðherrann ætlar ekki að ómaka sig eða taka pólitíska ábyrgð á veitingum. Nei, ég er í ræðu, hæstv. ráðherra, og ræðutími minn er búinn. Ég tel sem sagt (Forseti hringir.) að ráðherrann sé að hlaupast undan merkjum og vísa frá sér ábyrgð sem aftur annar samflokksráðherra er að kveina undan að geta ekki beitt.



[18:58]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Menn geta barið hausnum eins lengi við steininn og þeir vilja. Staðreyndin er þessi: Allir sem ekki una úrskurði eða leyfisveitingum Orkustofnunar hafa lögbundinn rétt, ef frumvarpið verður að lögum, til að vísa úrskurðinum til iðnaðarráðuneytisins. Sá sem situr á þeirri stundu í stóli iðnaðarráðherra ber að sjálfsögðu pólitíska ábyrgð á þeim úrskurði, svo einfalt er það. Það þýðir að í hvert einasta skipti sem einhver er ósáttur við úrskurð, umsögn eða leyfi frá Orkustofnun, getur viðkomandi vísað því með rökum til iðnaðarráðherra og knúið hann til afstöðu, knúið hann til að bera ábyrgð.

Hins vegar eru í mörgum tilvikum gefin út leyfi sem ekki valda neinum ágreiningi, sem leiða ekki til neinna deilna, stór leyfi eða smá leyfi, allt eftir atvikum. Í því tilviki er fullkomlega eðlilegt að greiða för umsókna í gegnum kerfið, sé um að ræða mál sem er óumdeilt, og hefur verið lagt á allar þær mælistikur sem lögin leggja á slík mál. Niðurstaðan er úrskurður sem allir fella sig við. Þá er fyllilega verjanlegt að reyna að draga úr þeim tíma sem tekur að afgreiða slíkt. Þegar upp koma umdeild mál liggur það ljóst fyrir að ráðherra, hver sem hann er, verður að bera pólitíska ábyrgð á þeim úrskurði sem hann fellir gagnvart kærum, alveg eins og hæstv. umhverfisráðherra verður að bera pólitíska ábyrgð á þeim úrskurði sem hún felldi fyrir skömmu og hv. þingmenn sem hér hafa talað í dag, eins og hv. 8. þm. Norðausturkjördæmis, eru ósáttir við. Þar liggur hin pólitíska ábyrgð.

Ég rifjaði upp áðan að ákveðnum stjórntækjum hefði verið varpað fyrir róða. Þetta voru stjórntæki sem fólust í því að Alþingi varð að veita virkjunarleyfið og jafnframt að taka afstöðu til þess með hvaða hætti átti að nota virkjunina. Það var mikið vald sem Alþingi var gefið og leiddi til mikilla deilna. Ég tel að það hafi verið góð aðferð. Ég hef sagt það mörgum sinnum bæði áður en ég varð ráðherra og eftir að ég varð ráðherra. Því fylgdi líka að sá sem var iðnaðarráðherra hafði úrslitavald um orkusölusamninga. Mér er ekki kunnugt um að það hafi nokkurn tíma komið upp deilur í tengslum við það vegna þess að Alþingi var þá búið að ganga frá þeim málum.

Ég hef hins vegar lýst að ég hef sem iðnaðarráðherra reynt að stuðla að því að þessi ríkisstjórn taki sér í hendur stjórntæki sem tryggi að óraskaðri náttúru verði ekki spillt. Hún hefur gert það. (Gripið fram í.) Þessi ríkisstjórn hefur tekið sér í hendur stjórntæki sem leiða til þess að þær ákvarðanir sem hún tekur eða sem aðrir taka um framkvæmdir á meðan hún situr raska ekki svæðum sem eru ómetanleg að dómi Alþingis. Það er svo einfalt mál.

Þetta felst í fyrsta lagi í því að verið er að gera rammaáætlun sem á að liggja fyrir undir lok ársins 2009 og niðurstöðu þeirrar áætlunar verður ekki ráðið til lykta af neinu pólitísku framkvæmdarvaldi heldur Alþingi sjálfu. Hún verður lögð fyrir hið háa Alþingi þar sem allir geta rætt um hana. Það þýðir að þegar búið er að ganga frá þeirri áætlun liggur ljós fyrir vilji Alþingis til að taka frá svæði eða nýta svæði. Ég vek athygli á þeirri áherslubreytingu sem felst t.d. í að rammaáætlunin er ekki um nýtingu heldur um verndun og nýtingu með megináherslu á verndun.

Í öðru lagi, til þess að leggja áherslu á þetta — það er líka stjórntæki eins og ég rifjaði hér upp áðan — var öllum umsóknum um rannsóknarleyfi sem lágu fyrir hafnað. Ég lýsti því yfir sem iðnaðarráðherra að ég hygðist ekki veita nein rannsóknarleyfi á óröskuðum svæðum fyrr en þessi áætlun lægi fyrir. Til viðbótar var ákveðið að taka sérstaklega frá til verndar ýmis nafngreind viðkvæm svæði sem hv. þingmaður hefur m.a. barist fyrir að yrðu friðuð. Jökulsá á Fjöllum var felld undir Vatnajökulsþjóðgarð til þess að tryggja vernd hennar. Sömuleiðis var því lýst yfir að (Forseti hringir.) ekki yrði hreyft við Langasjó í virkjunarskyni.

Þetta eru stjórntæki sem vernda náttúruna.



[19:03]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í gildi eru lög sem hér er lagt til að breyta. Annars vegar er um að ræða lög um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins. Þar segir að enginn megi leita að efnum til hagnýtingar á, í eða undir hafsbotninum utan netalagna nema að fengnu skriflegu leyfi iðnaðarráðherra. Enn fremur segir að óheimilt sé að taka efni og nýta efni af hafsbotni eða úr honum nema að fengnu skriflegu leyfi iðnaðarráðherra. Þetta eru lögin sem nú á að fara að breyta, sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur til að breyta þannig að í stað þess að ráðherra beri pólitíska ábyrgð á veitingu leyfa til þess að vinna úr hafsbotninum, samkvæmt einhverri pólitískri stefnu, send út í bæ til Orkustofnunar.

Á sama hátt eru lagðar til breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þar segir í 4. gr. að iðnaðarráðherra sé heimilt að hafa frumkvæði að og láta rannsaka og leita að auðlindum í jörðu og að nýting auðlinda í jörðu sé háð leyfi iðnaðarráðherra. Ráðherra er heimilt að veita rannsóknarleyfi o.s.frv., segir þar en þessu á öllu að breyta. Þetta eru þau lög sem eru í gildi, hæstv. ráðherra.

Það þýðir voðalega lítið að vísa til þess að nýbúið sé að breyta lögum um virkjunarleyfi. Við erum ekki að tala um virkjunarleyfi. Við erum að tala um leyfi til að stunda rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu og á hafsbotni. Við vitum að á ósnortnum svæðum, þegar farið er inn á viðkvæm svæði eins og jarðhitasvæði okkar, jafngildir rannsóknarleyfið oft eyðileggingu á viðkomandi svæðis. Ríkisstjórn Íslands, iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra eiga að bera ábyrgð á slíku og eiga að passa það. Þeir eiga ekki að vísa þeirri gæslu út í bæ.



[19:06]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er viss um að ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir erum farin að hljóma eins og gamlar bilaðar plötur. Hún kemur og endurtekur vitleysuna og ég reyni af bestu getu að leiðrétta hana. Hv. þingmaður segir að það sé verið að skjóta sér undan pólitískri ábyrgð. En hver er staðan? Hún er svona: Ef leyfi sem veitt er af Orkustofnun er umdeilt, ef einhver einn aðili fellur undir þá skilgreiningu, sem ég hef áður lýst og er ákaflega víð og rúm, ef einn er óánægður með leyfið getur hann kært það til iðnaðarráðherra.

Ég spyr hv. þingmann í fyrsta lagi: Er það ekki pólitísk ábyrgð sem sá ráðherra, hver sem situr, þarf að taka á sig þegar hann veitir úrskurð sinn endanlega, er það ekki pólitísk ábyrgð? Ef hv. þingmaður telur að svo sé ekki þá er ég ekki viss um að ég og hún séum að tala sama tungumálið.

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að sé það eins og hv. þingmaður segir, og það kann að hafa verið þannig í einhverjum tilvikum, að rannsóknarleyfi jafngilti eyðileggingu á landi, eins og hv. þingmaður staðhæfir, þá getur það einungis hafa gerst í þeim tilvikum að ekki sé farið að lögum. Rannsóknarleyfi felur ekki í sér undanþágu frá gildandi lögum um lagningu vega, byggingu húsa, um akstur utan vega o.s.frv. Svo einfalt er það. Um það gilda lög í landinu. Því er með engu móti hægt að halda því fram að rannsóknarleyfi jafngildi eyðileggingu á landi, fari menn að lögum. Ég skal ekki fullyrða um að menn hafi alltaf farið að lögum en þeir gera það núna.



[19:08]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á að ekki er búið að lögfesta allar þrjár stoðir Árósasáttmálans. Það er ekki búið að lögfesta á þessu landi ákvæði um réttláta málsmeðferð og um aðild félagasamtaka og einstaklinga að kæruferli og ákvörðunum um umhverfismál, enda þótt upplýsingahluti samningsins hafi verið settur í lög.

Ef hæstv. ráðherra meinar eitthvað með því að þeir sem telja á sér brotið með útgáfu leyfa til rannsókna eða nýtingar eða virkjunarleyfa eigi að hafa leið innan kerfisins til að kæra og fá aðild að ákvörðunarferlinu þá á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir lögfestingu Árósasáttmálans, fyrr en síðar. Um það hefur flokkur hans nokkrum sinnum talað á þingi. En eins og í öðru fer stefnan eftir því hvaðan vindurinn blæs.

Ef ráðherra tekur pólitíska afstöðu þá tekur hann á sig pólitíska ábyrgð. Ég held því fram að til að hægt sé að fylgja pólitískri stefnu og til að hægt sé að kalla menn til ábyrgðar verði þeir að hafa valdið í sínum höndum.

Ég tel að hæstv. umhverfisráðherra, af því að Helguvíkurmálið hefur borið á góma, hafi ekki tekið þá pólitísku ábyrgð sem ráðherranum bar. Ég er þeirrar skoðunar að þar hafi verið full efni til efnislegs úrskurðar og einnig að það beri, samkvæmt Evrópurétti, (Forseti hringir.) að láta fara fram heildstætt umhverfismat bæði varðandi Helguvík og ekki síður á Bakka.



[19:10]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég er sammála hv. þingmanni um að menn eigi að hafa sem rýmstan rétt til þess að kæra ákvörðun stjórnvalds í öllum tilvikum. Ég hef margsinnis lýst yfir stuðningi við Árósasamninginn og gott ef ég var ekki einn af fyrstu umhverfisráðherrunum sem reifaði þann samning á hinu háa Alþingi. Mig minnir að hann hafi verið þá í burðarliðnum. (Gripið fram í.) Það var um það bil að umræðan um hann hófst og ég held að samningurinn hafi orðið til í þann mund sem ég var að kveðja þann góða stól. En það skiptir ekki máli.

Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvort rétturinn sé nægilega rúmur, ég les það út úr máli hennar. Ég vek þó athygli á því að í þeim úrskurðum sem hv. þingmaður deildi á hæstv. umhverfisráðherra fyrir kom fram lagaleg rökfærsla, af hálfu hagsmunaaðila handan borðs öndvert Landvernd, um að Landvernd væri ekki aðili að málinu. Það voru sterk lögfræðileg rök færð fyrir því sem m.a. komu á mitt borð af því að ég þurfti að veita álit á þessu. Það var alveg ljóst að ekki var með sanngjörnum hætti hægt að túlka lögin svo. Landvernd og hvaða samtök sem eru, sem starfa á landsvísu og hafa 30 manns innan sinna vébanda, eru hagsmunaaðilar samkvæmt lagalegri skilgreiningu. Það kann vel að vera að það sé ekki nægilega rúmt til að alls sé gætt. En í þessu tilviki var þess a.m.k. gætt og réttur þeirra viðurkenndur, kærunni var ekki fleygt út af borðinu. Það liggur alveg ljóst fyrir. (Gripið fram í.) Ekki á þeim grundvelli að þeir hefðu ekki aðild að málinu.

Aðeins að lokum, frú forseti, vildi ég mælast til þess, þótt kannski sé til of mikils mælst, að hv. þingmaður velti fyrir sér hvort það sé ekki rétt þegar ég segi að í hvert skipti sem ráðherra tekur ákvörðun ber hann pólitíska ábyrgð. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega þannig. En þá er líka deilum okkar lokið því að við erum þó sammála um það.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til iðnn.