135. löggjafarþing — 93. fundur
 17. apríl 2008.
viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007–2010, fyrri umræða.
stjtill., 519. mál (flýting framkvæmda). — Þskj. 820.

[15:09]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010.

Forsaga málsins er sú að Alþingi samþykkti þann 17. mars 2007 þingsályktun um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010. Í kjölfar ákvörðunar um niðurskurð þorskkvótans síðastliðið sumar ákvað ríkisstjórnin að grípa til mótvægisaðgerða í formi framkvæmda í samgöngumálum til að draga úr áhrifum fyrirsjáanlegs aflasamdráttar og styrkja innviði fjölmargra svæða á landsbyggðinni. Tilkynnti ríkisstjórnin flýtingu framkvæmda að upphæð 6.500 millj. kr. Í ljósi svo mikilla breytinga á samgönguáætlun þótti nauðsynlegt að gera viðauka við hana, sem ég legg nú fram í formi þingsályktunartillögu, og geri þar með grein fyrir breytingum á einstökum liðum áætlunarinnar.

Mun ég hér á eftir gera grein fyrir helstu breytingunum sem lagt er til að gerðar verði á samgönguáætluninni í hverjum málaflokki fyrir sig.

Helstu breytingar á áætlun um flugmál eru þær að lagt er til að lengingu Akureyrarflugvallar um 460 metra auk ýmissa annarra tengdra aðgerða verði flýtt. Viðhaldsframkvæmdum á flugvellinum er einnig flýtt til samræmis. Gert er ráð fyrir að gerð verði flughlöð við nýja samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli og einnig verði gerð ný bráðabirgðaaðstaða fyrir innanlandsflug á vellinum, m.a. vegna áforma um aukna samkeppni og eins til þess að bæta úr brýnni þörf fyrir húsnæði sem fyrir hendi er burt séð frá því hvaða ákvarðanir kunna síðar að verða teknar um framtíðarflugvallarstæði. Framangreindar framkvæmdir eru fjármagnaðar með lántöku hjá ríkissjóði á svipaðan hátt og endurgerð Reykjavíkurflugvallar á sínum tíma. Tekið er fram að sérstök fjáröflun til samgöngumiðstöðvarinnar er felld niður þar sem gert er ráð fyrir að miðstöðin verði fjármögnuð á annan hátt og hún standi sjálf undir kostnaði við fjárfestingu og rekstur.

Víkur þá sögunni að siglingamálum. Liður í ákvörðun ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna samdráttar þorskveiðiheimilda var að fresta skyldi gildistöku ákvæða hafnalaga um breytingu á styrkjum til hafnarframkvæmda um tvö ár eða til 1. janúar árið 2011. Hafnir sem verða fyrir tekjusamdrætti og eru með verkefni inni á gildandi samgönguáætlun eiga því möguleika á að fresta framkvæmdum sem voru á áætlun árin 2007 eða 2008 til áranna 2009 og 2010. Nokkrar hafnir hafa þegar valið þennan kost í ár og ljóst er að fleiri munu bætast í hópinn á næsta ári. Í fjárlögum fyrir árið 2008 var þess vegna tekin ákvörðun um tímabundna frestun 200 millj. kr. framlags til hafnarmannvirkja. Á grundvelli upplýsinga sem fyrir liggja hjá Siglingastofnun Íslands um stöðu verkefna er gerð tillaga um færslu verkefna fyrir 200 millj. kr. frá árinu 2008 yfir á árin 2009 og 2010.

Frá samþykkt samgönguáætlunar 2007–2010 í mars 2007 hafa komið fram óskir um nokkrar minni háttar breytingar á verkefnum sem falla undir siglingamálakafla áætlunarinnar. Hér er gerð tillaga um breytingar á samgönguáætlun til að mæta þessum óskum. Um er að ræða breytingar á fimm liðum í siglingamálaáætluninni, tvær á rekstrarliðum og þrjár á stofnkostnaðarliðum. Lagt er til að liðurinn Hafnir, líkantilraunir og grunnkort verði hækkaður vegna óska sveitarfélaganna um rannsóknir vegna nýrrar atvinnustarfsemi. Eins er gerð tillaga um fjárveitingu til að hefja fyrstu rannsóknir og líkantilraunir vegna nýrrar hafnar við Húsavík. Gerð er tillaga um hækkun á samningi við Neyðarlínuna um rekstur Vaktstöðvar siglinga. Einnig eru gerðar ýmsar tillögur um breytingar og frestun verkefna að ósk sveitarfélaganna.

Þá er komið að vegamálunum. Meginefni breytinga áætlunarinnar í vegagerð tekur á ákvörðun sem ríkisstjórnin tók á síðastliðnu sumri um flýtingu framkvæmda eins og áður hefur komið fram. Helstu breytingar í vegagerð samkvæmt því eru þessar:

Framkvæmdum við Suðurstrandarveg verður flýtt og lýkur árið 2010.

Framkvæmdum við Snæfellsnesveg á Fróðárheiði verður flýtt og lýkur 2010.

Framkvæmdum við Vestfjarðaveg frá Þorskafirði til Vatnsfjarðar verður flýtt. Þær fjárveitingar sem lagt er til að veittar verði til Vestfjarðavegar koma til viðbótar fjárveitingum af söluandvirði Símans. Með þessu fjármagni á að vera unnt að ljúka endurbyggingu vegarins frá Þorskafirði í Kollafjörð. Vegurinn austan Þorskafjarðar verður lagfærður og lagt á hann bundið slitlag. Unnið verður að endurgerð vegarins milli Vattarfjarðar og Vatnsfjarðar.

Framkvæmdum við jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verður flýtt og lýkur þeim 2012.

Framkvæmdum við Strandaveg frá Djúpvegi að Drangsnesvegi verður flýtt og lokið við að leggja bundið slitlag á hann árið 2009.

Framkvæmdum við Dettifossveg verður flýtt og þeim lokið 2010.

Framkvæmdum við Norðausturveg verður flýtt. Með þeim fjárveitingum sem lagt er til að komi til Norðausturvegar verður unnt að leggja nýjan veg á milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar, gera tengingar til Raufarhafnar og Þórshafnar og ljúka tengingu frá Vopnafirði að hringvegi. Með þessum fjárveitingum er áætlað að ljúka framkvæmdum á norðurhluta vegarins árið 2009 en 2010 á suðurhlutanum í Vopnafirði.

Framkvæmdum við jarðgöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar verður flýtt og hefjast þær árið 2009 og mun ljúka 2012.

Hafnar verða framkvæmdir við nýjan veg yfir Öxi árið 2009 og mun þeim ljúka árið 2011.

Nokkrar aðrar tillögur eru gerðar um breytingu á áætluninni. Ein þeirra er um nýjan tengiveg að Bakkafjöruhöfn, sem nú heitir Landeyjahöfn, en samkvæmt áætlunum sem nú eru uppi um hafnargerð þar þarf að leggja veginn á þessu ári.

Ein veigamesta breytingin á samgönguáætlun varðar jarðgöng undir Vaðlaheiði og tvöföldun Suðurlandsvegar. Miðað er við að framkvæmdir við Vaðlaheiði geti hafist á árinu 2009 og ljúki árið 2011 og að framkvæmdir við tvöföldun Suðurlandsvegar frá Litlu kaffistofunni að Hveragerði hefjist árið 2009. Báðar þessar framkvæmdir verða unnar í einkaframkvæmd. Hlutur ríkisins verður greiddur með jöfnum árlegum greiðslum í 25 ár eftir að framkvæmdum lýkur.

Virðulegi forseti. Óhætt er að fullyrða að margir landsmenn hafa beðið með þó nokkurri óþreyju eftir því að hafist verði handa við þessar tvær framkvæmdir, Vaðlaheiðargöng og tvöföldun Suðurlandsvegar. Því er mikið ánægjuefni að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga skuli gera ráð fyrir þessum verkum báðum.

Vaðlaheiðargöng stytta leiðina milli Akureyrar og Húsavíkur, og þar með hringveginn, um 16 kílómetra og gegna lykilhlutverki í því að skapa á Norðausturlandi eitt öflugt atvinnusvæði, þjóðinni allri til góða. Að hafist verði handa við tvöföldun Suðurlandsvegar var fyrir löngu orðið brýnt umferðaröryggismál en umferð um Suðurlandsveg í nágrenni höfuðborgarinnar fer sífellt vaxandi.

Nokkrar aðrar breytingar felast í viðauka við samgönguáætlun sem vert að útlista í lokin. Lagt er til að greitt sé mótframlag vegna endurbóta á ferjuhöfnum á Dalvík og á Brjánslæk. Þá felur viðaukinn einnig í sér tilfærslu á fjárveitingum milli ára þar sem sýnt þykir að ekki verður unnt að vinna að nokkrum verkefnum eins og fyrri áætlun gerði ráð fyrir og undirbúningur hefur tekið lengri tíma en áætlað var. Hér er um að ræða Sundabraut og tilteknar framkvæmdir við Vesturlandsveg og Suðurlandsveg. Eru fjárveitingar til þessara framkvæmda færðar til á milli ára. Hluti af því svigrúmi sem við það myndast er notað til að auka framkvæmdir við tengivegi um 700 millj. kr. Þá má geta þess að stofnkostnaður vegna Grímseyjarferju er tiltekinn sérstaklega en var áður innifalinn í upphæðinni til ferja og flóabáta. Að lokum er lagt til að gerðar verði breytingar á fjárveitingum til almenningssamgangna, m.a. vegna fjölgunar ferða Herjólfs til Vestmannaeyja og til styrktar flugsamgöngum til Vestmannaeyja.

Hæstv. forseti. Tillaga þessi til þingsályktunar um viðauka við samgönguáætlun 2007–2010 sem ég hef hér mælt fyrir felur í sér mikla aukningu framkvæmda í samgöngumálum. Hún er til þess fallin að styrkja innviði byggðanna með flýtingu mikilvægra aðgerða en jafnframt er stigið stórt skref á sviði umferðaröryggismála með upphafi framkvæmda við tvöföldun Suðurlandsvegar. Þessi áætlun og í raun allt það mikla átak sem við verðum nú vitni að í samgöngumálum er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og loforð fyrir kosningar um stórsókn í samgöngumálum. Það er sannfæring mín og ríkisstjórnarinnar að góðar og öruggar samgöngur um land allt, sem og trygg fjarskipti ráði úrslitum um það hvort okkur auðnist að skapa á Íslandi eitt blómlegt atvinnusvæði byggt á traustum grunni, þar sem íbúar njóta jafnræðis til góðra lífskjara og geta allir lagt sitt að mörkum til hagvaxtar og uppgangs þjóðfélaginu öllu til heilla.

Um er að ræða miklar og mikilvægar framkvæmdir. Ég er þess fullviss að þær munu verða þjóðinni allri til heilla á komandi árum. Þetta er upphafið að nýjum tímum í samgöngumálum á Íslandi, vil ég leyfa mér að segja. Hér er ekki bara um að ræða mótvægisaðgerðir vegna tímabundinna erfiðleika. Hér er beinlínis verið að leggja grunninn að þjóðhagslegum vexti framtíðarinnar þar sem góðar samgöngur, styttri og öruggari leiðir milli fólks og staða munu gegna lykilhlutverki. Þetta verk er ærið og ég hef fundið það hvarvetna, ekki síst hér í þingsal, að um mikilvægi þessa máls ríkir mikill samhugur.

Hæstv. forseti. Ég hef nú mælt fyrir þingsályktunartillögu um viðauka við samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. samgöngunefndar.



[15:20]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. samgönguráðherra að mikilvægt sé að við byggjum hér blómlegt atvinnulíf og blómlegt mannlíf um land allt, að hér séu góðar samgöngur, hvort sem það eru hefðbundnar samgöngur eins og vegir, flugvellir, hafnir, eða fjarskipti. Um það held ég að við getum öll verið sammála að sé ákaflega þýðingarmikið. Þess vegna er ég ánægður með þá áherslu sem var t.d. í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2008 hvað samgöngumálin varðar. Þar er lagt fram verulega aukið fjármagn til samgöngumála almennt og ég er sannfærður um að það er skynsamleg ráðstöfun. Hún er kannski ekki síst skynsamleg við þær aðstæður sem blasa nú við í efnahagslífinu þegar fyrirsjáanlegur samdráttur er þar. Það er fyrirsjáanlegt að fyrirtæki muni halda að sér höndum í auknum mæli vegna aðstæðna á mörkuðum, m.a. hvað varðar aðgengi að lánsfé, og við sjáum ef til vill fram á aukið atvinnuleysi á næstu mánuðum og missirum. Þá er skynsamlegt fyrir opinbera aðila eins og ríki og sveitarfélög að blása lífi í glæðurnar, m.a. með fjárfestingu í innviðum í samfélaginu eins og í samgöngum, í menntakerfinu, heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Þess vegna held ég að þær áherslur sem hér eru lagðar séu almennt talað jákvæðar.

Hæstv. ráðherra hefur farið yfir þær helstu breytingar sem hann leggur til í viðauka við þessa áætlun og mun hún að sjálfsögðu fá ítarlegri umræðu efnislega í samgöngunefnd. Það eru nokkur atriði sem ég vil þó nefna strax í upphafi. Í fyrsta lagi ætla ég að fara örfáum orðum um hafnarmálin og siglingamálin, um hafnarsjóðina. Bent hefur verið á að m.a. vegna tekjusamdráttar hafnarsjóðanna vegna aflasamdráttar muni ýmsir hafnarsjóðir óska eftir því að fresta framkvæmdum sínum vegna þess að þeir hafa ekki fjárhagslega burði til þess að standa undir framkvæmdum sem þeir hafa verið með í áætlunum sínum. Sannarlega var gert ráð fyrir því að gildistími hafnarlaganna varðandi hlutdeild ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum væri framlengdur um tvö ár og hér kemur m.a. fram í greinargerð með tillögunni að einhverjir hafnarsjóðir hafi þegar kosið að nýta sér þá frestun til áranna 2009 og 2010 í staðinn fyrir 2007 og 2008.

Enda þótt ákvörðun hafi verið tekin um að bæta við tveimur árum var það gert fyrst og fremst í ljósi aflasamdráttarins sl. sumar og nú þegar komið er fram á árið 2008 kunna aðrar aðstæður að vera uppi í efnahagslífinu. Hinn almenni samdráttur í efnahagskerfinu getur orðið þess valdandi að við þurfum jafnvel enn að endurskoða þessar tímasetningar. Ég veit það ekki nákvæmlega en þetta er nokkuð sem ég mundi vilja taka upp í umræðum um málið í samgöngunefnd.

Ég ætla að spyrja um það sem kemur hér fram að því er varðar norðaustur/suðvesturflugbraut á Keflavíkurflugvelli. Hér er gert ráð fyrir því að fjármagn komi beint úr ríkissjóði. Ég skil það þá þannig að það fjármagn, 250 millj. kr. framlag vegna norðaustur/suðvesturbrautar á Keflavíkurflugvelli, falli niður í samgönguáætluninni en komi beint úr ríkissjóði. Ég spyr hvort ætlunin sé að koma henni í full not. Það hefur alltaf verið forsenda fyrir því að hægt sé að leggja niður sambærilega braut á Reykjavíkurflugvelli og átti að vera búið að gera fyrir mörgum árum. Er það mál sem sagt í höfn með þessu?

Síðan ætlaði ég að fara aðeins yfir vegamálin. Hér segir að nú liggi fyrir hvernig fjármögnun Vaðlaheiðarganga verði háttað, göngin verði fjármögnuð í einkaframkvæmd með veggjöldum sem standa munu undir helmingi kostnaðar. Hér segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að hluti ríkisins í göngunum greiðist með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdum lýkur árið 2011 í 25 ár.“

Það sem ég vil spyrja um hér er: Hvernig á þessi einkaframkvæmd að fara fram? Hér er talað um veggjöld. Hæstv. samgönguráðherra sagði það skýrt fyrir síðustu kosningar að það stæði ekki til — eða að hann vildi a.m.k. að Vaðlaheiðargöngin kæmu og það yrði án veggjalda. Hann skar sig úr þingmannahópi, ef ég man rétt, eða a.m.k. oddvitahópi stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi hvað þetta snertir. Núna virðist annað vera uppi á teningnum og þá finnst mér eðlilegt að ráðherrann geri hreint fyrir sínum dyrum. Hann þarf að skýra frá því af hverju hann skipti um skoðun í þessu máli. Fékk hann ekki sitt fram eða breytti hann sjálfur um afstöðu í málinu? Það er mikilvægt að við — og kjósendur í Norðausturkjördæmi — fáum að vita hvernig á þessu stendur.

Síðan er spurningin varðandi þessar einkaframkvæmdir. Hefur ráðherrann mótað einhverja stefnu varðandi einkaframkvæmd í samgöngumálum almennt séð? Það er talað um sérstaka fjármögnun hér við tiltekin verkefni. Það á t.d. við um Suðurlandsveginn, það er þessi sérstaka fjármögnun sem verið er að tala um. Hefur ráðherrann mótað stefnu um það hvernig og í hvaða tilvikum standa á að framkvæmdum með einkaframkvæmd, hverjir eiga að geta tekið þátt í henni? Hefur farið fram þjóðhagslegt hagkvæmnimat á því hvort þessi leið er hagkvæmari en hefðbundin fjármögnun eða jafnvel sérstök lántaka ríkissjóðs til tiltekinna framkvæmda? Ég hef miklar efasemdir um það sjálfur að þetta sé hagkvæm leið. Ég vil alls ekki útiloka hana en ég hef miklar efasemdir um að hún sé hagkvæm fyrir ríkissjóð þegar upp er staðið, sérstaklega þetta með veggjöldin. Er slíkt hugsanlegt annars staðar?

Svo ætla ég að segja hér dálítið um Suðurlandsveginn sem ég veit að er ekki sérstaklega vinsælt. Ég hef miklar efasemdir um að skynsamlegt sé að fara í þessa tvöföldun eins og núna hefur verið ákveðið. Ég er þeirrar skoðunar að umferðaröryggi hefði verið jafnvel tryggt með almennilegum 2+1-vegi og þá er ég ekki að tala um veg eins og er uppi á Sandskeiði sem er í raun allt of mjór og ekki nægilega vel frá honum gengið. Ég á við almennilegan 2+1-veg eins og við þekkjum erlendis frá. Þá hefði að mínum dómi verið hægt að fara í fleiri framkvæmdir og er ég þá að hugsa um leiðina út frá Reykjavík um Vesturlandsveg.

Hér er t.d. sagt að frestað verði framkvæmdum við Vesturlandsveg á Kjalarnesi. Vesturlandsvegur á Kjalarnesi er mjög brýnt verkefni frá umferðaröryggislegu sjónarmiði, ekkert síður en aðrar meginleiðir út frá höfuðborginni og mér finnst miður að hann skuli líða fyrir þetta. Ég hefði viljað sjá heildstæða stefnumótun um það hvernig menn taka á meginumferðaræðum út úr höfuðborginni, að Vesturlandsvegurinn væri ekki látinn bíða eins og ákveðið hefur verið til þess að geta búið til fullkomnar lausnir annars staðar. Ég hefði viljað sjá stefnumótun um að fara í 2+1-veg alls staðar út úr höfuðborginni með þeim möguleika að fara síðan í tvöföldun á þeim í síðari skrefum. Þá væri hægt að fara jafnvel alla leið austur á Selfoss og upp í Borgarnes eftir góðum 2+1-vegum í fyrsta áfanga og eiga síðan möguleikann á að breikka þá á síðari stigum.

Ég er sem sagt gagnrýninn á þessa forgangsröðun. Ég veit að ég á ekki mjög marga aðdáendur hvað þetta sjónarmið snertir hér á þingi (Gripið fram í.) en ég verð bara að fá að segja þetta. Ég tel að það sé verið að nota atburði sem eiga sér stað til þess að knýja fram framkvæmdir sem ekki er endilega skynsamlegt eða faglegt að fara í núna. Það kann vel að vera að ég verði gagnrýndur mjög fyrir þessi viðhorf en ég spyr: Ef það verður t.d. slys á Vesturlandsvegi á morgun eða hinn, á þá að mynda þrýstihóp til þess að fá tvöföldun á honum strax og mundi samgönguráðherra láta undan því? Ég segi bara eins og er, mér finnst heiðarlegt að það sjónarmið komi fram. (Forseti hringir.) Ég er ekki á móti því að menn fari í umferðaröryggisframkvæmdir á Suðurlandsvegi nema síður sé en ég tel að það sé dálítið tilviljanakennt (Forseti hringir.) hvernig þessar ákvarðanir eru teknar og að þær byggi ekki á langtímastefnumótun.



[15:30]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fyrirgefanlegt þótt menn séu afturhaldssamir í sumum hlutum en í samgöngum er það ófyrirgefanlegt. Ef vel ætti að vera, og rétt væri að verki staðið, væri Vegagerðin nú að skipuleggja 2+2 akreinar, þ.e. fjórar akreinar, á leiðinni Selfoss/Reykjavík, bara ef horft er til næstu 15–20 ára — nákvæmlega sama og menn eru að tala um um Sundabrautina eða Sundagöng sem væntanlega verða að veruleika. Þannig verða menn að hugsa þetta. Aðferðin 2+1 er gjörsamlega úrelt og vonlaus framkvæmd miðað við þann þunga sem er sívaxandi á leiðinni austur fyrir fjall.

Það er út úr kortinu, og kemur manni mjög á óvart, að hv. þingmanni skuli detta í hug að fara þessa leið þó að hægt sé að sýna fram á að ekki þurfi margbreiðar traðir á rollugötunum — þetta er ekki slíkt. Um er að ræða mjög þunga og vaxandi umferð og það er lágmark að ræða um tvöföldun með tilliti til umferðarþungans, með tilliti til aðstæðna — veðurs, hríðardaga, þokudaga — því að heiðin sjálf er ótrúlega erfið þótt ekki sé hún fjarri þéttbýli.

Menn verða að horfast í augu við þetta út frá því sjónarmiði og vinna samkvæmt því. Sem betur fer eru engin áform um að draga úr í þessum efnum og vonandi verður haldið fast og ákveðið við tvöföldun Suðurlandsvegar — væntanlega og vonandi verður fyrsti áfangi þess verks boðinn út í árslok.



[15:32]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður má ekki misskilja mig á þann veg að ég sé andvígur því að farið sé í endurbætur á Suðurlandsvegi. Ég tel að slíkar endurbætur séu brýnar, ég tek alveg undir það, og það þarf að gera það alla leið austur á Selfoss. Ég er alveg sammála þeirri skoðun.

Mér finnst hins vegar vanta heildarstefnumörkun um hvernig farið er í þessar framkvæmdir. Meðan menn fara í fullkomna lausn á þessum leiðum, eins og gjarnan er sagt, þá líður hin mikilvæga leið vestur á land og upp í Borgarnes. Ég hefði talið það skynsamlegri forgangsröðun að byrja á því að taka allar þessar leiðir, með þeirri leið sem ég nefndi hér — sem er 2+1, sem hefur gefist mjög vel annars staðar og gefst enn vel annars staðar í kringum okkur, mjög gott umferðaröryggi. Sérfræðingar hafa bent á það og þingmenn hafa væntanlega fengið upplýsingar um það á ráðstefnu þar sem um þetta hefur verið fjallað.

Þar með er ekki sagt að 2+2 vegur sé ekki góð lausn líka og eigi ekki að verða hin endanlega lausn á þessum leiðum. Ég er ekki að segja það. Ég er bara að segja að ákveðin leið — mikil og þung umferðarflutningsleið út úr höfuðborginni, vestur á land upp í Borgarnes, þar sem mikil umferð bæði fólksbíla og flutningabíla — líður fyrir það. Hér er m.a. gert ráð fyrir því að fresta framkvæmdum við tvöföldun á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi sem er mikil slysagildra, þar sem er mikil umferð, þar sem er íbúðabyggð — þetta er ég að benda á en ekki segja að ekki mega gera einhverja hluti annars staðar. Það á ekki misskilja eða túlka orð mín með þeim hætti.

Ég leyfi mér að láta þetta viðhorf mitt koma fram í þessari umræðu af því mér finnst mikilvægt að það heyrist. En ég geri mér grein fyrir því að margir eru ósammála mér um þetta og ekki síst þingmenn Suðurkjördæmis, m.a. væntanlega úr mínum eigin flokki. En það verður þá bara svo að vera og ég leyfi mér að halda þessu viðhorfi á lofti. Ég hef verið talsmaður þess að um leið og við horfum á Reykjanesbrautina og Suðurlandsveginn á Selfoss ættum við líka að horfa á Vesturlandsveginn alla leið upp í Borgarnes og (Forseti hringir.) Hvalfjarðargöngin. Mér finnst það skorta í þessa mynd.



[15:34]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur sýnt sig á þeim liðlega tveimur árum sem liðin eru frá því að Vegagerðin lamdi í gegn aðferðina 2+1 um Svínahraun að sú leið og sú aðferð er gjörsamlega óbrúkleg. Ósjaldan hafa komið upp þau tilvik að bílar hafa stoppað á einföldu akreininni, bilað og lent í vandræðum, og það hefur stoppað alla umferð um Suðurlandsveg. Ekki einu sinni björgunarsveitir hafa komist að bílunum.

Við búum við þannig landslag og aðstæður að það er í rauninni í heild ekkert dýrara að hafa 2+2 en 2+1 með alls konar hliðarvikum og sveigjum í okkar líflega landslagi. Þó ekki væri nema það þá svarar það strax spurningum um það hvað sé skynsamlegt í þessum efnum. En öryggið felst fyrst og fremst í því að fjölga akreinum á þessu svæði. Gott dæmi er svæðið milli Selfoss og Hveragerðis þar sem óhugnanlega mörg slys eru, banaslys og erfið slys, og 2+2 er lágmarkið sem nútímamenn eru að tala um. Bara lágmarkið.



[15:36]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að þingmaðurinn Árni Johnsen telur sjálfan sig nútímamann en væntanlega að undirritaður sé einhver fornmaður í þessu samhengi.

Ég vil undirstrika það sem ég sagði, og ef þingmaðurinn hefði hlustað þá hefði hann heyrt að ég sagði það í ræðu minni — ég er ekki að tala um þá útfærslu á 2+1 sem er í Svínahrauninu. Ég tel hana óbrúklega og tek undir það með honum. Ég hef sjálfur víða ekið á 2+1 vegum um Evrópu og þeir eru ekki svona klénir eins og vegurinn í Svínahrauni. Þeir eru almennilega útfærðir — góðar vegaxlir, vel útfærð gatnamót, gott aðgengi fyrir bíla eins og sjúkrabíla eða slökkviliðsbíla og annað slíkt sem sinna björgunarstörfum. Ég er ekkert að tala um þessa útfærslu, ég tek undir það að hún er óbrúkleg. En ég er sannfærður um að hægt hefði verið að fara þessa leið í fyrsta áfanga og ná þá fleiri kílómetrum ef svo má segja — það hefði verið hægt að fara upp á Vesturlandið sem ég tel að hafi orðið út undan í þessu að ósekju.

Ég tek eftir því að um leið og ég er að tala um það að ég vilji auka umferðaröryggi alls staðar út frá höfuðborginni — á Reykjanesbrautinni, á Suðurlandsvegi og vestur um land líka á Vesturlandsvegi — hefur þingmaðurinn Árni Johnsen engan áhuga á því að tala um umferðaröryggi þegar við erum að ræða um leiðina hér vestur á land og upp í Borgarnes því að hann kemur hvergi inn á það í sínu máli. (ÁJ: Sjálfsagt að gera það.)



[15:37]Útbýting:

[15:38]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Umræðan um Suðurlandsveg er náttúrlega sorgleg að því leyti að menn telja að nóg hafi verið að vera með hann 2+1, sem er auðvitað úrelt viðhorf. Við tókum þennan veg ekki í notkun fyrr en fyrir þremur árum og hann er eiginlega minnismerki um það hvernig vegagerð á ekki að fara fram. Það er sorglegt að við skulum hafa farið þá leið sem farin var. Hann er hreint til skammar. Það þarf að tvöfalda Suðurlandsveg og ekki er nóg að tala um Suðurlandsveg austur á Selfoss því að verði farið í hafnarframkvæmdir í Landeyjarhöfn eða á Bakka þarf raunverulega að tvöfalda veginn alla leið austur í Bakkafjöru. Það er að mínu mati nauðsynlegt.

Af því að verið er að tala um vegaframkvæmdir og samgöngumál tekur maður eftir því að ekki er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun eða peningum í Reykjanesbrautina, sem er verið að tvöfalda — og væntanlega munu þau útboð sem verið er að gera í hana verða miklu hærri, og í raun allar vegaframkvæmdir og samgöngubætur eftir gengisfellingu sem hefur orðið frá áramótum.

Maður tekur líka eftir því að ekkert fjármagn er í svokallaðan Ósabotnaveg sem unnið hefur verið að síðastliðin þrjú ár og er nú klár til þess að leggja á hann bundið slitlag. En engir peningar eru ætlaðir í það. Það er furðulegt að stoppa framkvæmdir sem unnið hefur verið að af því að einhverja peninga vantar upp á.

Það vantar líka veg í Þorlákshöfn frá vatnsverksmiðjunni sem verið er að byggja þar og niður að höfn. Það má tala um ferju frá Vestmannaeyjum, eftir því sem mér skilst var verið að opna tilboð í nýja ferju sem á að sigla frá Vestmannaeyjum í Bakkafjöru. Það var verið að opna tilboð í dag og ég vænti þess að hæstv. samgönguráðherra, Kristján Möller, segi okkur frá því á eftir. Þar er lægsta tilboð 50% hærra en reiknað var með í kostnaðaráætlun.

Ég ætla ekki að tala aftur um það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talaði um um Suðurlandsveginn. Það er ekki sniðugt að menn skuli fara í hrepparíg í samgöngumálum. Auðvitað styðjum við þingmenn Suðurkjördæmis vegabætur í kringum Reykjavík, það er partur af landi okkar. Allir ferðast meira og minna til og frá Reykjavík og ekkert óeðlilegt að allir vilji hafa sem mestar lagfæringar í samgöngukerfi okkar, hvort sem það snýr að Sundabraut eða Sundagöngum eða öðru þess háttar. En kostnaðarauki er augljós núna bara með tilliti til þess hvað hefur verið að gerast í samfélaginu.

Ég get ekki orða bundist um ágætan félaga, hv. þm. Árna Johnsen, sem fer að tala um að Vegagerðin þvingi einhvern. Það er hálfsorglegt þegar alþingismenn kenna embættismönnum og starfsmönnum, sem eru undir ráðuneytum, um ófarir í svona málum. Mér finnst það ekki við hæfi.



[15:42]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skýtur skökku við þegar hv. þm. Grétar Mar Jónsson er farinn að verja rangar upplýsingar. Það hefur tíðkast í æ ríkari mæli undanfarin ár að Vegagerðin tjaldar röngum upplýsingum. Hægt er að færa rök fyrir því í mörgum tilvikum. Alveg sama hvort verið er að tala um Grímseyjarferju, kostnað við gerð jarðganga eða aðra þætti sem hafa gjörsamlega farið úr böndum hjá Vegagerðinni.

En ég ætla ekki að teygja lopann í þeim efnum núna heldur benda á að full rök eru fyrir því sem ég segi, að Vegagerðin hefur þvingað fram ákveðna hluti með því að skila ekki fullnægjandi upplýsingum. Fúskvinnubrögð.



[15:43]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ekki ætla ég að taka það að mér að verja stofnanir ef þær nota þau vinnubrögð sem hv. þm. Árni Johnsen heldur fram. Það eru slæm tíðindi ef það er tilfellið að Vegagerðin vinni með þeim hætti að gefa upp rangar upplýsingar um rannsóknarþætti.

Hv. þingmaður hefur mikla þingreynslu, 20 ára þingreynslu, og hefur verið mikill áhugamaður um samgöngubætur, það verður aldrei af honum skafið að hann hefur lagt sig fram um þær og fáir þingmenn hafa verið jafnstórhuga í samgöngumálum og hv. þm. Árni Johnsen. Ég er nýliði hér og ætla ekki að fara í frekari umræður við Árna Johnsen um það en kannski hefur hann rétt fyrir sér hvað Vegagerðina varðar.

Ég hef stundum gagnrýnt stofnanir sem ég þykist þekkja til og á ýmsum sviðum og síðast í gær fékk ég bágt fyrir að tala um vísindamenn og þekkingu þeirra á fiskstofnunum í hafinu. Kannski er þetta bara líkt með okkur Árna hv. þingmanni Suðurkjördæmis Johnsen og kannski erum við bara á sama báti í þessu. Hann þekkir vel til í þeim geira sem snýr að samgöngumálum og Vegagerðina og samgönguráðuneytið og hvernig þessar stofnanir starfa.

Sem nýliði verð ég að játa að ég hef ekki þessa reynslu og ég hélt að þetta þekktist ekki en ég fékk eiginlega hálfgerðar vítur frá sjávarútvegsráðherra í gær fyrir að efast um heilindi heillar stofnunar og þekkingu og visku þeirra (Forseti hringir.) á sviði sjávarútvegs.



[15:45]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun 2007–2010. Ég vildi gera þennan viðauka að umtalsefni og óska eftir því að hæstv. samgönguráðherra svari nokkrum spurningum sem ég vil leggja fyrir hann. Þannig er að núgildandi samgönguáætlun sem samþykkt var í mars á síðasta ári gerði ráð fyrir því að hafist yrði handa um tvöföldun vegarins frá Reykjavík og austur fyrir Selfoss með brú yfir Ölfusá norðan Selfoss. Það er sú áætlun sem er í gildi. Ég hef upplýsingar um að í apríl á síðastliðnu ári ritaði þáverandi samgönguráðherra Vegagerð ríkisins bréf þar sem óskað var eftir því að hafist yrði handa um undirbúning að þessu verki, fyrst með því að sveitarfélögin færu í skipulagsvinnu sem nauðsynleg væri fyrir þessa framkvæmd, sem er 2+2 frá Reykjavík austur fyrir Selfoss með brú eins og ég nefndi. Ég minnist þess að hafa sjálfur átt aðild að því að sú framkvæmd, ný brú, væri tekin inn á það tímabil sem þarna var um að ræða.

Nú hef ég að sjálfsögðu fylgst með þessu máli frá því að þessar samþykktir voru gerðar. Mér er vel kunnugt um að Vegagerðin og sveitarfélögin á þessu svæði í Suðurkjördæmi hafa verið að vinna að skipulagsmálum á svæðinu og það verk er mislangt komið eftir því hvar er. Hins vegar hef ég heyrt frá hæstv. samgönguráðherra nokkrum sinnum á blaðamannafundum og í tilkynningum að nú loksins sé búið að taka ákvörðun um að tvöfalda eigi Suðurlandsveg. Ég átta mig ekki á því hvenær sú ákvörðun var tekin. Ég skil það svo að hún hafi verið tekin í fyrravor og þrátt fyrir blaðamannafundi og kynningarfundi um framkvæmdina sé ekkert nýtt í því. Þess vegna langar mig að spyrja: Hvað er verið að gera með þeirri áætlun sem nú er lögð fram með þessum viðauka við samgönguáætlun þar sem segir m.a. um Suðurlandsveg, með leyfi forseta:

„Í gildandi áætlun fyrir árin 2007–2010 var gert ráð fyrir að af sérstakri fjáröflun komi 1.400 millj. kr. til tvöföldunar Suðurlandsvegar í Suðurkjördæmi.

Það stendur alveg skýrt, þetta er til tvöföldunar á þessum vegi. Það er skýrt að búið var að taka þessa ákvörðun í fyrravor. Núna er spurningin: Hvað verður ef þessi áætlun er samþykkt þar sem einungis er gert ráð fyrir því að farið sé frá mörkum Gullbringusýslu að Hveragerði? Hvað með aðra hluta leiðarinnar? Stendur það ekki áfram í þeirri áætlun sem nú er eða er verið að fella það úr gildi? Kannski má nefna það í framhjáhlaupinu sem hv. fyrri ræðumaður, Árni Þór Sigurðsson, nefndi þegar hann talaði um leiðina vestur um land, að í núgildandi áætlun er gert ráð fyrir að hafist verði handa um úrbætur frá Reykjavík og vestur í Borgarnes. Það er inni í núgildandi áætlun eins og ég skil málið. Þess vegna vildi ég fá skýringar á því hvað við erum í rauninni að samþykkja með þessari áætlun umfram það sem samþykkt var síðastliðið vor. Mér finnst afskaplega mikilvægt að við áttum okkur á því. Það má alla vega ekki vera þannig að við göngum aftur á bak í þessu máli.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að í viðauka sem þessum séu teknir ýmsir nýir valkostir, nýjar leiðir, nýjar hugmyndir og nýjar aðferðir í samgöngumálum. Þannig háttar til að á haustþinginu lagði ég ásamt 18 þingmönnum fram þingsályktunartillögu um uppbyggingu hálendisvegar um Kjöl. Mér er kunnugt um að eðli málsins samkvæmt fór sú þingsályktunartillaga til samgöngunefndar sem ég held að hafi harla lítið unnið með tillöguna. Aflað hefur verið umsagna sem ég hef skoðað en meira veit ég ekki til að gert hafi verið við þá tillögu sem gekk út á það að ríkisstjórninni væri falið að kanna undirbúning og kanna þessa vegarlagningu. Það er væntanlega hæstv. samgönguráðherra sem falið hefur verið að kanna málið en mér er spurn: Hvers vegna kemur ekki eitthvað um hugsanlegan Kjalveg í þessum viðauka eða á að láta það mál deyja drottni sínum? Það væri að sjálfsögðu eðlilegt að það kæmi eitthvað um slíkan undirbúning í þessari áætlun ef á annað borð er einhver vilji til þess. En ég nefni það aftur að tæplega 20 þingmenn samþykktu að þetta yrði skoðað. Ég hefði viljað sjá slíka skoðun í þessum viðauka, mér fyndist það eðlilegt og sjálfsagt og við ættum að standa þannig að því og það þyrfti að koma inn í þennan viðauka við samgönguáætlun í meðferð nefndarinnar. Ég mundi vilja leggja það til.

Ég hef þá ekki fleiri orð um þennan viðauka en vildi gjarnan fá að heyra hvert er sjónarmið hæstv. samgönguráðherra í þessu máli.



[15:52]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt mál sem hv. þm. Kjartan Ólafsson kom inn á um Kjalveg. Við viljum fara varlega í mörgu er lýtur að sambúð lands og þjóðar en þegar upp er staðið hljótum við að elska fólkið okkar meira en landið og þess vegna er mikilvægt að þar náist sátt á milli. Grundvöllurinn er að fólkið okkar geti búið í landinu við mannsæmandi skilyrði. Það er engin spurning að samgöngumálin eru eitt mikilvægasta mál nútímans, í sögu þjóðarinnar, að fylgja því eftir og tryggja þar umbætur svo um munar af miklum metnaði.

Kjalvegur er einn af þeim möguleikum sem mun stytta gríðarlega vegalengdina milli Norðurlands og Suðurlands, milli norðursvæðisins og norðausturlands og höfuðborgarsvæðisins. Það skiptir máli að stytta þessa leið ekki síst fyrir fólkið sem býr á landsbyggðinni og það á að hafa forgang í viðmiðuninni. Það mun þýða að akstursleiðin frá Norðurlandi til höfuðborgarsvæðisins verður undir þremur og hálfri klukkustund með nýjum og eðlilegum og aðlöguðum Kjalvegi eftir hagstæðustu leið um það svæði. Það hefur verið vegur um Kjalveg öldum saman og við verðum að fylgja tímanum, draga úr blæstri og hreyfingu þess vegarstæðis sem þar er og gera þar eðlilegan og aðgengilegan veg sem styttir leiðina milli landshluta, jafnar rétt þegnanna í landinu til að búa við eðlilegar aðstæður, til að sækja menningarsamkomur í Reykjavík til að mynda sem eru á kostnað ríkisins í tíma og ótíma.



[15:54]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Johnsen gerir að umtalsefni þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og hugmyndir um uppbyggingu Kjalvegar. Varðandi þann dagskrárlið sem við ræðum nú sem er viðauki við samgönguáætlun er m.a. talað þar um að hefja skuli framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng og það er augljóst að arðsemi þeirrar framkvæmdar mundi aukast til muna ef hálendisvegur kæmi yfir Kjöl. Það er ekki nokkur spurning. Og í þeim arðsemisútreikningum þyrfti að liggja fyrir hvort Kjalvegur verði byggður og hvaða áhrif hann hefði á þá framkvæmd. Mér er það alveg ljóst, ég hef séð útreikninga í þá átt að arðsemin eykst gríðarlega þannig að ég lít svo á að þessar tvær framkvæmdir séu nátengdar. Auk þess er það í forgangi hjá Evrópuþjóðum, m.a. í Skandinavíu, að stytta vegalengdir. Öll uppbygging samgöngukerfis til lengri tíma byggir á því að stytta vegalengdir. Stytting vegalengda sparar útblástur, sparar tíma, minnkar álag á það vegakerfi sem við höfum nú og það eykur umferðaröryggi. Öll rök hníga að því að sú framkvæmd sem er uppbygging Kjalvegar skilar sér inn í samfélagið og gríðarlega mikið til þeirra svæða sem um er að ræða, þ.e. Suðurland og Norðurland.



[15:57]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef varla orðið tölu á því hversu oft hefur verið breytt út af dagskrá þessa fundar eins og hún var lögð fram í morgun. Veit ég vel að forseti hefur vald til að skipa röð mála á dagskrá eins og henta þykir hverju sinni en mér sýnist ljóst að það þyki henta að hafa einn ráðherra inni í einu og þegar hæstv. ráðherrum þóknast að fara eitthvað annað eða sinna öðrum skyldum en þeim að vera hér og mæla fyrir málum samkvæmt boðaðri dagskrá þá er dagskránni einfaldlega breytt. Þannig er að við höfum farið í 1. mál og síðan 4. og þá er stopp af því að ráðherra þurfti að fara. Síðan í 5., 6., 7. og 8. mál og þá er stopp af því að hæstv. ráðherra þurfti að fara. Nú er boðað að við eigum að fara í 11. mál vegna þess að hæstv. félagsmálaráðherra er kominn hingað til fundar. Ég verð að segja, herra forseti, að hennar tími er ekki kominn á þessari dagskrá. (Forseti hringir.) Við eigum eftir nokkra dagskrárliði áður en að því kemur.



[15:58]
Jón Magnússon (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur varðandi það sem hún sagði um fundarstjórn forseta. Í 8. gr. þingskapa segir að forseti stjórni umræðum og sjái um að allt fari fram með góðri reglu. En hér er ekki farið eftir neinni reglu, hér er allt í bullandi óreglu og það er ekki þannig sem þinghald á að fara fram á löggjafarþingi Íslendinga.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að miðað við það að byrjað var á því í morgun að taka ákvörðun um að þinghaldið skyldi standa þangað til dagskráin væri tæmd, þá vil ég spyrja hæstv. forseta hvernig hann sjái fyrir sér að þinghaldið gangi áfram. Það er alveg rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á áðan að flakkað er á milli dagskrárliða aftur á bak og áfram og þingmenn hafa ekkert með það að gera. Hvernig sér forseti fyrir sér að dagskráin gangi áfram og hvernig henni muni ljúka? Hvernig er röð dagskrárliða hér eftir?



[15:59]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá tveimur hv. þingmönnum, Álfheiði Ingadóttur og Jóni Magnússyni, sem hafa fjallað um fundarstjórn forseta. Það er alveg með ólíkindum hvernig fundarstörfin ganga fyrir sig í dag. Í morgun var dreift dagskrá þar sem voru fjölmörg mál frá a.m.k. þremur ráðherrum, mörg stór mál. Byrjað var á því að breyta röðinni á málum hæstv. menntamálaráðherra þannig að hún byrjaði á að ræða um háskólamálið og fór svo í miðjum klíðum, lét ekki einu sinni vita að hún væri að fara sem er náttúrlega þvílíkur dónaskapur að maður þekkir ekki annað eins. Síðan er farið í mál samgönguráðherra og hann var með ein sex mál á dagskrá ofan í samgönguþingið sem er í dag. Nú er hann farinn og þá á að stoppa umræður um hans mál. Í morgun voru greidd atkvæði um að halda fundi fram á kvöld og 26 hv. þingmenn studdu það. Mér sýnist að meira en 20 þeirra séu flognir úr húsi. Ætla þeir ekki að vera viðstaddir umræðuna fram á kvöld? (Forseti hringir.) Þeir sem báðu um það og greiddu atkvæði með því að hér yrði fundur fram á kvöld? Mér finnst, virðulegi forseti, að nú (Forseti hringir.) eigi forseti að gera hlé á þingstörfum og ræða við þingflokksformenn um það hvernig halda eigi störfum áfram fram á kvöldið.



[16:01]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hafði gert ráð fyrir því að umræðu um mál samgönguráðherra yrði lokið á þessum tíma. Þeim hefur nú verið frestað um stund enda hafði ráðherra gert aðrar ráðstafanir en hann mun koma aftur að loknum umræðum um málefni hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra.