135. löggjafarþing — 95. fundur
 28. apríl 2008.
ferjusiglingar á Breiðafirði.

[15:20]
Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann sé reiðubúinn að hætta við fyrirhugaðan niðurskurð á framlögum Vegagerðarinnar til Sæferða ehf. vegna ferða Baldurs yfir Breiðafjörð þannig að ekki komi til fækkunar á ferðum í sumar.

Ferjan hefur tryggt heilsárssamgöngur við sunnanverða Vestfirði um áratugi og er íbúum, fyrirtækjum og ferðamönnum nauðsynlegur ferðamáti. Ekki þarf að hafa mörg orð um ástand vega á sunnanverðum Vestfjörðum og því miður hafa orðið tafir á úrbótum í þeim efnum. Í núgildandi samningi milli Vegagerðarinnar og Sæferða er gert ráð fyrir stiglækkandi opinberum stuðningi við ferjusiglingar samhliða vegabótum. Fyrirséð er að vegna tafa á vegabótum muni stiglækkandi opinber stuðningur við ferjusiglingar leiða til verri samgangna við sunnanverða Vestfirði.

Á síðasta fundi í samgöngunefnd vakti ég máls á þeirri stöðu sem uppi er og gat ekki greint annað en að samstaða væri í nefndinni um að tryggja áframhaldandi stuðning við ferjusiglingar á Breiðafirði. Það skiptir byggðarlögin fyrir vestan miklu máli en þau treysta í æ ríkari mæli á ferðaþjónustuna yfir sumarmánuðina. Ég skora á ráðherra að gaumgæfa hagsmuni íbúa og fyrirtækja á svæðinu og taka á málinu strax.



[15:22]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður gat um er hér um samning að ræða, svokallaðan niðurtröppunarsamning. Samkvæmt þeim samningi er gert ráð fyrir að ferðum fækki til ársins 2010 og að þær verði þá ekki ríkisstyrktar lengur. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni er þetta tengt framkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Töluverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar þótt sumar séu ekki komnar í gang enn. Því miður hafa kærumál og annað slíkt tafið fyrir, t.d. í Teigsskógi, í Gufufirði og í Djúpafirði, og hefur málið komið til ráðuneytisins bæði frá sveitarfélögum á sunnanverðum Vestfjörðum og eins frá ferðamálasamtökum. Mér er einnig kunnugt um að málið var rætt við þingmenn Norðvesturkjördæmis ekki alls fyrir löngu á fundi á Patreksfirði. Ég hef sagt það áður og skal segja það einu sinni enn að við verðum að skoða þessa hluti á jákvæðan hátt ef vegaframkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum verður ekki lokið og vegir komnir í almennilegt ástand árið 2010 eins og ætlað var þegar samningurinn var gerður.

Ég ítreka það sem hér hefur verið sagt: Þessi niðurtröppunarsamningur var gerður og í honum er gert ráð fyrir fækkun ferða en þó eru ferðir ríkisstyrktar yfir vetrartímann þegar ástandið er hvað verst. Ég vona því að þetta svari spurningu hv. þingmanns en þakka henni jafnframt fyrir að taka málið upp hér á Alþingi. Við verðum að skoða málið í framhaldi af því sem ég sagði hér áðan, þ.e. hverju fram vindur með samgöngubætur á sunnanverðum Vestfjörðum.



[15:23]
Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra svör hans. Ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því að hann skuli ekki getað tekið af skarið hér og nú.

Eins og við vitum hafa byggðirnar á sunnanverðum Vestfjörðum þurft að taka á sig miklar aflaskerðingar á síðustu missirum vegna fyrirmæla stjórnvalda. Ferðaþjónustan vegur því þungt á þessu svæði og því finnst mér í lagi að samgönguyfirvöld taki vel á þessum málum.

Það er þungt högg fyrir byggðarlögin fyrir vestan að fella niður ferðir nú í sumar sem nemur fjórum vikum án þess að til staðar séu viðunandi samgöngur á vegum. Viðbótarkostnaður ríkisins við það að hafa óbreytt ástand er hverfandi miðað við hagsmuni fólksins sem þarf að lifa við þær aðstæður sem þarna eru yfir þann bjargræðistíma sem ferðamannatíminn er. Ég skora enn og aftur á samgönguráðherra að taka þetta til greina.



[15:24]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir árið 2007 áforma Sæferðir 457 ferðir eins og þeir gera samkvæmt samningnum öll þessi ár og mun Vegagerðin greiða 395 ferðir. Eins og segir í samningnum, sem gerður var árið 2005, eru það nokkrar ferðir sem detta niður á þessu ári. Á næsta ári detta fleiri ferðir niður, þeim fækkar um einar 40 ferðir.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Ekki er verið að vinna í neinu hvað varðar sumarið. Samningurinn var gerður milli Vegagerðarinnar og Sæferða á sínum tíma og gerir ráð fyrir að árið 2010 hætti Vegagerðin að greiða með þessum ferðum. Það er háð því að samgöngur hafi verið bættar á sunnanverðum Vestfjörðum en að því er stefnt og hafa verk m.a. verið sett í flýtiframkvæmd. Við skulum vona að það gangi eftir. Ef hins vegar lítur út fyrir að svo verði (Forseti hringir.) ekki verðum við að sjálfsögðu að taka málið upp.