135. löggjafarþing — 100. fundur
 7. maí 2008.
orkusparnaður.
fsp. ÁÞS, 479. mál. — Þskj. 767.

[14:12]
Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að orkunotkun á hvern íbúa á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum. Við státum okkur raunar oft af því að hér sé hlutfall innlendrar endurnýjanlegrar orku sérlega hátt eða um 70%. En það segir þó alls ekki alla söguna því að hin mikla raforkunotkun hérlendis skýrist fyrst og fremst af því að Íslendingar eiga heimsmet í álframleiðslu á hvern íbúa og á sama tíma er losun koltvísýrings á sama mælikvarða með hvað mesta móti hér á landi og við nálgumst nú óðfluga Bandaríkin í því efni.

Hvað heimilin í landinu varðar, og þá hag alls almennings, eru orkuútgjöld umtalsverð. Gert er ráð fyrir því að meðalheimili eyði árlega í kringum 200–300 þús. kr. í orkukaup og sú fjárhæð er væntanlega á nokkurri uppleið jafnvel hraðri uppleið. Á sama tíma og hallar undan fæti í efnahagsmálum þjóðarinnar, verðbólgan er á fleygiferð og vextir gríðarháir, skipta öll útgjöld heimilanna að sjálfsögðu afar miklu máli og brýnt að reyna eftir megni að ná fram sparnaði í orkunotkun.

Það á auðvitað við um eldsneyti en það á líka við um húshitun og raforkunotkun. Enda þótt þar sé um að ræða umhverfisvæna orku ef svo má segja, að minnsta kosti að verulegu leyti, er engin ástæða til annars en að huga einnig að sparnaði í notkun hennar.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi samgöngumálin en notkun jarðefnaeldsneytis er mikil í samgöngum og losun gróðurhúsalofttegunda þar með. Líklega eru samgöngumálin eitt af okkar stærstu málum í umhverfismálunum, ekki síst má kannski segja í þéttbýlinu. Rétt að nefna hér bæði hinn almenna bílaflota landsmanna en einnig fiskiskipa- og farskipaflotann.

Þessi málefni, frú forseti, eru orðin þýðingarmikil í allri almennri stjórnmálaumræðu víða um heim og við þurfum að sjálfsögðu að horfa langt fram á veg á allt sviðið en ekki bara einblína á það sem er næst okkur í tíma og rúmi. Það má t.d. velta því fyrir sér hversu mikið hefur verið gert hér á landi í hönnun og byggingarlist til að draga úr orkunotkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, það skiptir auðvitað miklu máli hvernig hús eru hönnuð með tilliti til þess.

En ég hef sem sagt leyft mér, virðulegi forseti, í þessu samhengi að leggja fram fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um orkusparnað svohljóðandi:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir átaki til orkusparnaðar og betri orkunýtingar? Ef svo er, með hvaða hætti verður það gert?



[14:15]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ég er alveg sammála áherslunum sem koma fram í máli hans. Hv. þingmaður spyr um orkusparnað og orkunýtingu til skamms tíma en vekur líka eftirtekt á því að í þessu máli er nauðsynlegt að horfa langt fram í tímann.

Í fyrsta lagi vil ég segja það að hið almenn svar er já. Ég ætla að skýra fyrir honum stefnu ráðuneytisins í þessu máli. Í fyrsta lagi nefnir hann hönnun húsa. Ég vil þá upplýsa að nýr orkumálastjóri er sérfræðingur í orkusparnaði húsa og hefur verið falið að útfæra sérstaka stefnu um það. Það er komið af stað.

Í öðru lagi veltir hann fyrir sér möguleikum á að draga úr kostnaði vegna húshitunar með rafmagni hjá þeim sem borga allt of mikið og meira en allir aðrir. Þá nefni ég einkum þrennt: Í fyrsta lagi hefur þessi ríkisstjórn ákveðið að verja 200 millj. kr. til jarðhitaleitar á næstu þremur árum.

Í öðru lagi hefur Orkustofnun verið falið að gera sérstakt átak til þess að kanna möguleika á notkun varmadælna þar sem ekki er hægt að finna hefðbundinn jarðhita en tækninni hefur fleygt fram á því sviði.

Í þriðja lagi nefni ég nú svo, af því það er lítið og krúttlegt verkefni, að á vegum ráðuneytisins er verið að kanna möguleika á svokölluðum spónaveitum sem byggjast á því að hita vatn með framleiðslu úr íslenskum orkuskógum, sem ég leyfi mér að kalla svo.

En svo ég snúi mér að því sem mér finnst mestu máli skipta og varðar framtíðina þá er það alveg rétt sem hv. þingmaður segir. Við erum blessuð, íslenska þjóðin, með því að hafa hér gríðarlega hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku og mætum ekki 70%, eins og hv. þingmaður sagði, heldur 80% af orkuþörf okkar með henni. Vandamálin eru þessi 20% sem eftir eru. Það er skylda okkar bæði sem stjórnvalds og líka út á við gagnvart umheiminum að taka þátt í að þróa nýja orkugjafa og finna nýjar leiðir.

Mig langar svo, ef ég hef tíma, frú forseti, til þess að drepa hér örstutt á tíu atriðum sem eru í gangi og hafa verið í gangi af hálfu ráðuneytisins. Í fyrsta lagi hafa sérfræðingar þess nýlega birt grófa úttekt á möguleikum Íslendinga til þess að nýta innlenda orku í stað innflutts eldsneytis og ég bendi hv. þingmanni á heimasíðu ráðuneytisins um það.

Í öðru lagi er á þessu ári varið 220 millj. kr. í áframhaldandi þróun á vetnistækni og í framhaldi af tilraunum með vetnisknúna almenningsvagna eru nú á götum borgarinnar 13 vetnisbílar sem eru í tilraunaverkefni.

Í þriðja lagi hefur ráðuneytið ákveðið að beita sér fyrir þátttöku í þróun smárra og ódýrra vetnisstöðva fyrir bifreiðar sem búa til sitt eigið vetni. Ég vona að fyrirtækið sem þar er í fararbroddi eigi eftir að verða stórt útflutningsfyrirtæki á borð við Marel eða nafna minn Össur í útflutningi. Fyrsta stöðin af þessu er ráðgerð hér í vesturbæ Reykjavíkur.

Í fjórða lagi er það stefna ráðuneytisins að beita sér fyrir því að raf- og vetnisvæðing að minnsta kosti hluta bílaflotans verði undirbúin með því að slíkar litlar vetnisstöðvar verði nægilega margar hringinn í kringum landið til þess að hægt verði að aka hringinn á vetni. Fjöldaframleiðsla á vetnisbílum er talin leiða til þess að þeir verði samkeppnishæfir á næsta áratug.

Í fimmta lagi, af því að hv. þingmaður spyr um skip þá er ráðuneytið aðili að verkefni þar sem fyrsta vetnisknúna ljósavélin hefur verið sett í skip hér á landi.

Í sjötta lagi er ráðuneytið aðili að verkefni sem miðar að því að framleiða umtalsvert magn af lífeldsneyti úr heyi með nýjum aðferðum sem byggjast m.a. á íslenskri örverutækni, á fyrningum hvers árs en líka með því að rækta gras til framleiðslunnar. Þeir sem þarna eru í fararbroddi ætla sér stóra hluti í þessu. Við sjáum hvað úr því verður.

Í sjöunda lagi hafa stofnanir ráðuneytisins m.a. átt þátt í rannsóknum til þess að nýta þekkta ferla til að breyta koltvísýringi í metanól sem hægt er að nýta beint á bíla. Búið er að stofna um það íslenskt fyrirtæki. Hægt er að leiða þessa tækni lengra áfram yfir í að búa til dísil. Þetta er eitt af verkefnunum sem Nýsköpunarmiðstöðin starfar að.

Í áttunda lagi hefur ráðuneytið nýlega átt í viðræðum við fleiri en eitt fyrirtæki um að þróa ræktun þörunga úr heitu vatni sem fellur til við raforkuframleiðslu úr jarðhita. Eins og þingmenn vita þá er léleg nýting á slíkri orkuöflun, 10–12% í besta falli, með því er hægt að auka hana. Þar að auki er það skoðun mín að þörungaræktun með þessum hætti sé aðferð framtíðarinnar til þess að búa til lífeldsneyti og þar hafa Íslendingar einstaka möguleika til að margefla nýtingu á orku úr jarðhita, ekki síst affallsins sem ég nefndi.

Í níunda lagi er síðan hafin sérstök úttekt á möguleikum Íslendinga til að nota rafmagn beint á bíla og hvers konar skipulag, t.d. með hleðslu af opinberri hálfu að setja upp til að auðvelda landsmönnum notkun á því. Það er enginn annar en fyrrverandi formaður VG í Reykjavík sem hefur umsjón með því verkefni af hálfu ráðuneytisins.

Í tíunda lagi hefur ráðuneytið lýst sig reiðubúið til að taka þátt í verkefnum þar sem verið er að þróa tækni til þess að knýja skip með rafmagni. Vonir standa til þess að síðar á þessu ári leggi (Forseti hringir.) fyrsta skipið sem með þeim hætti er knúið, úr höfn á Íslandi.



[14:20]
Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessi mjög svo greinargóðu og jákvæðu svör og ég óska honum til hamingju með hvað mikið er að gerast á þessum vettvangi. (Gripið fram í.)

Nú kann vel að vera að byrjað hafi verið á því í tíð Framsóknarflokksins. Úr því að það má kenna Framsóknarflokknum um það sem illa fer þá má kannski líka þakka honum fyrir það sem vel var gert því að það kann að vera að eitthvað sé um slíkt að ræða. En látum það eiga sig.

Ég tel að hér séu afskaplega mörg og merkileg verkefni á ferðinni, þau sem hæstv. ráðherra nefndi og horfa til framtíðar og verða að sjálfsögðu langtímaverkefni og ekki er við því að búast að menn sjái beinlínis útbreidda notkun þess háttar orkugjafa alveg á næstunni. Engu að síður eiga sér þar stað mjög merkilegar tilraunir og rannsóknir.

Nú má ekki gleyma því að rafmagnið t.d. er líka auðlind sem er takmörkuð í sjálfu sér. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að við eigum nægilegan stofn eða birgðir, ef svo má segja, til þess að nýta það í þau fjölmörgu verkefni sem hér eru á ferðinni og það tengist að sjálfsögðu stóriðjustefnunni beint.

Varðandi þau verkefni sem hann nefndi sem eru meira til skemmri tíma litið þá er þar mjög margt merkilegt og spennandi á ferðinni. Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að heyra að verið er að vinna í málum eins og hönnun húsa og öðru slíku.

Ég vil einfaldlega hvetja hæstv. ráðherra til þess að vinna áfram að þessum málum. Mér kemur til hugar að hugsanlega mætti setja einhverja sérstaka átaksvinnu eða samráðsvinnu aðila sem koma að þessum málum því að það eru sannarlega margir sem gera það. Það eru ríkið og orkufyrirtækin, orkustofnanir, sveitarfélögin, neytendur, aðilar vinnumarkaðarins og rannsóknarstofnanir. Þá horfi ég kannski meira á það sem þarf að gera núna til skamms tíma, þ.e. að hvetja til almenns orkusparnaðar. Það er alveg ljóst að (Forseti hringir.) full ástæða er til þess og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að vinna að átaksverkefni í því sambandi.



[14:23]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Af því minnst var hér á frumkvæði Framsóknarflokksins þá hef ég aldrei dregið dul á að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir beitti sér fyrir margvíslegum jákvæðum nýjungum í ráðuneytinu. Ég hef oft sagt að ég hafi tekið við alveg prýðilegu búi þar.

Til dæmis vil ég nefna það sérstaklega að hún beitti sér fyrir orkusparnaðarsetrinu á Akureyri þar sem eru snillingar sem m.a. gefa mönnum kost á því að reikna út hagkvæmustu bifreiðarnar og með hvaða hætti einstaklingar geta best lagt sitt litla lóð á vogarskálarnar.

Það sem skiptir máli í þessu er að Íslendingar noti sína sérstöðu. Hún felst í því að við eigum hér gnótt af rafmagni sem er ódýrt og sem fer lækkandi að raunvirði á meðan þróunin er alveg öfug erlendis. Það gerir það að verkum að við getum leyft okkur þann munað t.d. að horfa fram til þess að geta knúið bílaflota okkar í framtíðinni með vetni og rafmagni, ekki öðru hvoru heldur hvoru tveggja.

Ég held það skipti ákaflega miklu máli fyrir okkur að finna leiðir til þess að geta nýtt rafmagn til þess að knýja farartæki hér á landi, bæði bifreiðar og skip ef það er mögulegt.

Þá hlýtur að þurfa að koma til samspils lítils lands annars vegar og hins vegar stórra bílaframleiðenda. Þess vegna skiptir miklu máli að það takist að fjöldaframleiða bifreiðir sem ganga fyrir þessum orkuberum og orkugjöfum.

Ég tek sem dæmi skipin. Gríðarlega stór partur af okkar losun á CO 2 kemur frá þeim. Við þurfum að reyna að kanna leiðir til þess að knýja þau með öðrum hætti. Það er dálítið umhendis. Það þarf að hanna skipin alveg frá grunni með tilliti til þess ef menn ætla að nota vetni og rafmagn eða hvort tveggja.

Ég hef t.d. lýst því yfir í samstarfi sem er að hefjast milli Íslands, Bandaríkjanna, Nýja-Sjálands og nokkurra fleiri ríkja sem mætti flest flokka undir eyríki, að eitt af stóru verkefnunum sem þessi ríki eiga að vinna að saman er einmitt að beita sér fyrir hönnun skipa (Forseti hringir.) sem eru knúin vetni. Framtíðin liggur í þessum orkugjöfum. Ég er sammála hv. þingmanni um það. Við þurfum að horfa langt í þessum efnum.