135. löggjafarþing — 101. fundur
 8. maí 2008.
Urriðafossvirkjun.

[10:44]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Nú hefur það gerst að meiri hluti kosningabærra íbúa Flóahrepps hefur ritað undir áskorun til sveitarstjórnarinnar um að taka Urriðafossvirkjun af aðalskipulagi. Þá hafa níu af tíu eigendum landa við Urriðafossvirkjun austan Þjórsár skrifað undir eindregna andstöðu við þessar virkjanir. Það er því óhjákvæmilegt að eignarnáms er þörf eigi að verða af virkjuninni.

Þessar undirskriftir og yfirlýsingar hafa verið afhentar ráðherra og forstjóra Landsvirkjunar. Í Fréttablaðinu á þriðjudaginn er haft eftir forstjóranum, með leyfi herra forseta:

„Ríkið á 93% af vatnsréttindum vegna Urriðafossvirkjunar og Landsvirkjun hefur umboð ríkisins til að fjalla um þau mál.“

Forstjórinn gefur líka skýrt í ljós að hann muni beita öllum heimildum sem hann hefur í þessu máli og þar með talið eignarnámi. Það er ljóst samkvæmt skýrri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar frá í desember að atbeina Alþingis er þörf ef á að afsala þessum vatnsréttindum þar með talið til að veita umboð.

Herra forseti. Ég spyr því hæstv. umhverfisráðherra: Hefur ríkisstjórnin veitt Landsvirkjun slíkt umboð og liggur það fyrir skjalfest? Ef svo er, í hverju felst efni umboðsins, hvort sem það er skjalfest eða munnlegt?

Í öðru lagi: Liggur fyrir samþykki þingflokka ríkisstjórnarinnar fyrir þessu?

Í þriðja lagi: Af hverju hefur ekki verið leitað atbeina Alþingis um þessa ráðstöfun vatnsréttinda þrátt fyrir skýra niðurstöðu Ríkisendurskoðunar?

Loks spyr ég hæstv. umhverfisráðherra: Er hún samþykk því að Landsvirkjun krefjist eignarnáms þrátt fyrir þessa skýru andstöðu eigenda þessara landa bæði austan og vestan Þjórsár? (Forseti hringir.) Og að ljá máls á því að Landsvirkjun fari fram með eignarnám í málinu, hver er afstaða hæstv. umhverfisráðherra?



[10:46]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir fyrirspurnina. Eins og fram hefur komið hafa íbúar í Flóahreppi skorað á sveitarstjórnina að taka Urriðafossvirkjun — (ÓN: Hluti af þeim.) margir íbúar í Flóahreppi hafa skorað á sveitarstjórnina að taka Urriðafossvirkjun út af aðalskipulagi.

Ég hygg að það sé hlutverk sveitarstjórnarmanna eins og annarra kjörinna fulltrúa í landinu að hlusta á og taka tillit til óska íbúa í sínum sveitarfélögum. Ég veit fullvel að sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið. Það er ægimikið vald í þessu landi og þeim ber að fara mjög vel með það og huga að framtíðinni þegar því er beitt og þegar skipulagt er til framtíðar.

Hvað varðar spurningar hv. þingmanns, ég held ég hafi náð þeim öllum: Nei, það hefur ekki verið samþykkt í ríkisstjórn að Landsvirkjun hafi heimild til eignarnáms eða að því verði beitt þar. Nei, það hefur ekki verið samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna. Nei, sú sem hér stendur er því ekki samþykk að eignarnámi verði beitt, og ég tel reyndar enga þá almannahagsmuni í húfi að hægt sé að færa málefnaleg rök fyrir því.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að búið er að kjósa nýja stjórn í Landsvirkjun og þar á fulltrúi þess flokks sem ég er í, Samfylkingin, tvo fulltrúa.



[10:48]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég verð að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýr svör. En ég verð að segja það að þetta umboð er samningur, hvort sem hann er skjalfestur eða munnlegur, og hann er vanvirðing. Umboðið er vanvirðing við löggjafarvaldið, umboðið er vanvirðing við Alþingi. Og þetta er gjörsamlega óþolandi.

Ég get líka spurt hæstv. umhverfisráðherra: Hyggst hún beita sér eitthvað til þess að afturkalla þetta umboð sem forstjóri Landsvirkjunar virðist bera fyrir sig? Hyggst hún beita sér fyrir því, bæði hún innan ríkisstjórnar og fulltrúar Samfylkingar í Landsvirkjun, að eignarnám fari ekki fram? Íbúar við Þjórsá eiga rétt á skýrum svörum. Þeir eiga ekki að þurfa að una því að sitja í gíslingu virkjunarframkvæmda sem nú hafa staðið yfir í meira en átta ár. Það er gjörsamlega óþolandi. Hér er um að ræða vanvirðingu gagnvart Alþingi og líka gagnvart íbúum, þeim sem þarna eiga heima.



[10:49]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Svo það liggi algjörlega fyrir þá hefur forstjóri Landsvirkjunar ekkert umboð frá ríkisstjórninni til eignarnáms. Ég svaraði því hér áðan og ég get svarað því aftur. Þannig liggur í málinu.

Það má vel vera að forstjóri fyrirtækisins haldi einhverju öðru fram. En það liggur algjörlega fyrir af minni hálfu að forstjóri Landsvirkjunar hefur ekki umboð frá ríkisstjórn Íslands til þess að fara í eignarnám.