135. löggjafarþing — 104. fundur
 21. maí 2008.
tekjur af endursölu hugverka.
fsp. KolH, 612. mál. — Þskj. 953.

[14:32]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Kveikjan að fyrirspurninni er aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna sem haldinn var þann 16. febrúar sl. Þar voru samþykktar nokkrar ályktanir, m.a. ályktun um það mál sem hér ber á góma.

Ég lagði fyrirspurnir fyrir hæstv. menntamálaráðherra fyrir skemmstu í tengslum við þessar ályktanir Bandalags listamanna. Ég bar upp þá spurningu sem nú er borin upp til fjármálaráðherra, þ.e. hvort ráðherra telji koma til greina að tekjur höfunda af endursölu hugverka verði flokkaðar sem fjármagnstekjur, samanber áskorun Bandalags íslenskra listamanna.

Hæstv. menntamálaráðherra svaraði þeirri spurningu á þá lund að hún teldi koma til greina að hugverk gætu fallið undir skilgreiningu á eign í skattalegu tilliti en vísaði að öðru leyti til hæstv. fjármálaráðherra með svör.

Menn hafa verið að reyna eftir fremsta megni, eftir því sem okkur hefur skilist, að einfalda skattkerfið og samræma það svo sem kostur er. Þannig háttar til í því kerfi að eignatekjur bera 10% skatt, t.d. leigutekjur af húseignum og öðrum eignum og hlunnindi hvers konar, t.d. vegna bújarða, ég nefni veiðihlunnindi í því sambandi.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji hugsanlegt að líta svo á að hugverk hvers konar væri í skattalegu tilliti hægt að skilgreina sem eign. Ég velti því þá fyrir mér á þeim nótum að listamenn, sem eru t.d. að semja sögur eða ljóð, eru á launum sem þeir greiða af launatekjuskatt, eðlilega launatekjuskattsprósentu. En þegar listaverkin halda síðan áfram að afla höfundi sínum tekna, þ.e. þegar endursala kemur til síðar á ævinni — leikskáld selur leikverk ungur að árum en á efri árum er leikverkið aftur tekið til sýningar. Þá er spurning hvort þær tekjur sem listamaðurinn fær af þeirri sýningu sé ekki hægt að skilgreina sem eignatekjur.

Ég held að þetta sé afar forvitnilegt og mikið hagsmunamál fyrir listamenn. Fjöldi listamanna starfar í landinu. Þeir flá fæstir feitan gölt ef svo mætti að orði komast. Við höfum í gegnum listamannasjóðinn okkar styrkt listamenn eða greitt þeim laun, sett þá til starfa, og góður árangur hefur verið af þeirri fjármögnun hins opinbera. Ég spyr því hvort ekki megi halda áfram að horfa jákvæðum augum til listamanna og tryggja að endursala listaverka verði skattlögð á sama hátt og eignatekjur.



[14:35]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Í fjármálaráðuneytinu vinnur starfshópur sem samanstendur af starfsmönnum ráðuneytisins og fulltrúum ríkisskattstjóra og fjallar um skattlagningu endurfluttra hugverka eða hugverkaréttinda á þann hátt sem fyrirspyrjandi nefndi í inngangsorðum sínum. Sá hópur væri ekki að störfum nema vegna þess að ég tel koma til greina að hugverk eins og þessi verði skattlögð á sama hátt og fjármagnstekjur.

Ég geri ráð fyrir því að þessi starfshópur skili af sér í næsta mánuði og á grundvelli þeirrar niðurstöðu tek ég ákvörðun um það hvort lengra verður farið með málið.



[14:36]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mér varð að orði hér áðan að kannski væri nóg komið af nefndum og starfshópum og við vildum sjá aðgerðir ríkisstjórnarinnar frekar en að mál séu sett í starfshópa og nefndir.

Nú ætla ég hins vegar að leyfa mér að fagna því að hæstv. ráðherra skuli vera með nákvæmlega þetta mál í starfshópi. Ég treysti því að hópurinn, sem samkvæmt svari hæstv. ráðherra á að skila af sér innan skamms, komist að þeirri niðurstöðu að tekjur af því tagi sem hér um ræðir verði skattlagðar sem eignatekjur, þ.e. með 10% skattprósentu. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum og þakka kærlega fyrir svörin.