135. löggjafarþing — 105. fundur
 21. maí 2008.
öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, 3. umræða.
stjfrv., 541. mál (löggilding á rafverktökum). — Þskj. 1000, brtt. 987.

[18:32]
Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustól í dag er frekar lítið en ég mæli hér fyrir breytingartillögum um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Það kom í ljós að við þurfum að leiðrétta eina villu í textanum þannig að í stað orðsins „háspennuvirkja“ í 4. tölulið 1. mgr. d-liðar 2. gr. komi orðið: lágspennuvirkja. Það er einfaldlega verið að skipta um þessi hugtök svo þetta sé rétt, þ.e. að í stað orðsins háspennuvirkja komi lágspennuvirkja.



[18:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú dálítið bagalegt þegar upp koma atvik af þessu tagi, að það kemur í ljós að menn hafa snúið merkingu hlutanna alveg við en andstæða háspennuvirkja er náttúrlega lágspennuvirki. Þetta er dæmi um það að menn mega ekki flýta sér um of.

Ég vil því spyrja hv. þingmann af þessu tilefni hvort þess sé að vænta eða hvort því megi treysta, skulum við nú orða það með jákvæðum formerkjum, að það leynist engar frekari villur af þessu tagi í málinu hjá hv. þingnefnd eða hv. aðstandendum málsins.



[18:34]
Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það megi treysta því að það séu ekki frekari villur í þessu máli en málið var afgreitt með stuðningi allra flokka innan nefndarinnar. Á hvaða stigi þessi villa kom fram átta ég mig ekki alveg á en ég vona að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það séu ekki fleiri villur í þessu máli. En það var eins gott að við náðum að breyta þessu áður en umfjölluninni lýkur í hér í þingsal og ég tel að þingheimur geti sýnt því skilning.



[18:34]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu mikið happ að svona lagað uppgötvist áður en málið er afgreitt frá þinginu og gert að lögum. En hér munaði hársbreidd, ekki satt? Því þetta mun vera 3. umr. þessa máls. Þetta minnir okkur á mikilvægi þess að menn flýti sér ekki um of og vandi yfirferð á frumvörpum. Það má kannski skjóta því hér inn í að því miður virðist mér af því sem ég sé eða frétti í nefndum að sá gamli góði siður að lesa frumvörp endanna á milli í heyranda hljóði í þingnefnd við upphaf umfjöllunar um þau sé eiginlega alveg aflagður. Mönnum kann að finnast það forneskjulegt en þetta var nú gert og gaf alveg ágæta raun. Því strax við slíka fyrstu yfirferð á málum þá kom iðulega í ljós að orðalag var eitthvað bjagað og jafnvel voru merkingarvillur í málum.

Má ég þá minna á að í þá tíð, herra forseti, fóru lagafrumvörp í gegnum þrennar umræður í tvennum deildum? Öll nema fjárlagafrumvarp. Og það var mjög algengt að bjarga þyrfti fyrir horn með breytingartillögu við lokaumfjöllun málsins vitleysum af því tagi sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson var hér að upplýsa, þær uppgötvuðust í seinni deild og málið var sent aftur til fyrri deildar til endanlegrar afgreiðslu.

Þegar Alþingi var gert að einni málstofu voru miklir svardagar uppi um að það yrði ekki til þess að umfjöllun þingsins grynnkaði eða hættur ykjust á einmitt gáleysismistökum af þessu tagi. Ég er því miður ekki viss um að menn standi nógu vel að því í öllum tilvikum nú þegar mál fá aðeins þrjár umferðir í einni deild og í einni þingnefnd, — því vel að merkja þá voru tvö sett af öllum þingnefndum þegar Alþingi starfaði í tveimur málstofum (Forseti hringir.) — að þetta sé nógu vandað. Ég tek orð hv. þingmanns gild um að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af frekari mistökum en ég kem þessum varnaðarorðum á framfæri.



[18:37]
Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns. Að sjálfsögðu ber löggjafanum að vanda sig og ekki síst þegar málin koma gölluð frá Stjórnarráðinu eða ráðuneytinu. En auðvitað geta orðið mistök eins og hv. þingmaður veit um og hefur eflaust lent í á sínum langa þingferli.

En að sjálfsögðu get ég tekið undir það að þingheimur þarf að vanda sig vel. Þau atriði sem við erum að afgreiða hér á hinu háa Alþingi snerta grundvallaratriði, snerta löggjöf landsins. Og auðvitað skiptir máli að þingheimur allur og sérstaklega þingnefndir fari mjög vel yfir mál og ég held að þingnefndir séu nú nokkurn veginn tilbúnar til að gera það, fara vel yfir mál og sérstaklega þegar þau eru eins flókin og þetta mál.

En mig langar hins vegar samt að fagna því að okkur tókst að koma í veg fyrir þessi mistök og auðvitað get ég ekki annað en beðist velvirðingar á þeim þótt ég sjái ekki á hvaða stigi mistökin áttu sér stað. En það var gott að við náðum saman um að þessi leiðrétting nái fram að ganga.