135. löggjafarþing — 109. fundur
 27. maí 2008.
veiting ríkisborgararéttar, 1. umræða.
frv. allshn., 641. mál. — Þskj. 1112.

[11:21]
Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Allsherjarnefnd hefur að vanda fjallað um umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar. Allsherjarnefnd bárust að þessu sinni 53 umsóknir um ríkisborgararétt en skv. 1. mgr. 6. gr. laga um ríkisborgararétt, nr. 100/195, veitir Alþingi ríkisborgararétt með lögum.

Nefndin leggur til að 24 einstaklingum verði veittur ríkisborgararéttur að þessu sinni og er lista yfir þá að finna í þskj. 1112. Eins og venja er var fjallað um þetta í sérstakri undirnefnd allsherjarnefndar en allsherjarnefnd fór yfir listann síðasta laugardag og stendur öll að flutningi þessa máls.



[11:22]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að nefndin var einhuga um þessar afgreiðslur. Við reyndum, áður en við fórum að afgreiða einstaka einstaklinga, að setja okkur einhverjar fyrir fram mótaðar reglur um samkvæmni, að við værum sjálfum okkur samkvæm í afgreiðslunni þannig að það sama gilti fyrir alla.

Ég verð þó að vekja athygli á einum þætti þessa máls, sem við vorum alveg sammála um í nefndinni, og það er það að þegar einstaklingar hafa hlotið veigalitlar sektir, til að mynda fyrir hraðakstur, minni háttar sektir, stendur það í vegi fyrir því að dómsmálaráðuneytið veiti ríkisborgararétt. Þannig vill til að töluverður fjöldi af þessum umsóknum sem komu til Alþingis vegna undanþágu stafar af því þannig að það kallar á lagabreytingu.

Hitt er líka að dómsmálaráðuneytið hefur lögum samkvæmt synjað um ríkisborgararétt ef einstaklingur hefur tímabundið þurft að fara á atvinnuleysisbætur eða haft félagslega styrki frá sveitarfélögum og það finnst mér aldeilis óviðunandi afstaða. Ég beini því til hv. formanns nefndarinnar að koma því áleiðis til dómsmálaráðuneytisins að lögunum verði breytt í þessa veru þannig að félagslegar atvinnuleysisbætur og minni háttar sektir séu ekki tálmi í götu ríkisborgararéttar.



Frumvarpið gengur til 2. umr.