135. löggjafarþing — 118. fundur
 4. september 2008.
störf þingsins.

[10:32]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér voru í gær tekin upp málefni ljósmæðra og kjaradeila þeirra sem nú stendur yfir. Hæstv. fjármálaráðherra kom hér upp í gær og sagðist vona að ekki kæmi til verkfalls. Þó var ekki boðað til neinna samningafunda í gærkvöldi og verkfall skall á á miðnætti.

Nú stendur yfir samningafundur sem hófst klukkan 10 og mig langar að beina máli mínu hér til hv. formanns heilbrigðisnefndar, hv. þm. Ástu Möller, því að málið snýst auðvitað ekki einungis um kjör ljósmæðra, sem ég fór hér aðeins yfir í gær, heldur öryggi verðandi mæðra sem stóðu fyrir utan Karphúsið í morgun, snýst um þá þjónustu sem núna er veitt þegar skert þjónusta er á meðgöngudeild, í mæðraeftirliti, á fæðingardeild og enn fremur hvernig heilbrigðisnefnd þingsins sér fyrir sér að hún muni beita sér í málinu. Eins og hér kom fram í gær er þetta auðvitað stórt heilbrigðismál því að störf ljósmæðra spara ríkinu gríðarlegar fjárhæðir með öflugri heimaþjónustu, aðhlynningu við fæðandi konur, styttri sængurlegu, yfirsetu og öðru slíku fyrir utan að hér hefur verið tryggð mæðravernd á heimsmælikvarða.

Annað atriði sem hér var nefnt í gær og ég vildi ræða líka við formann heilbrigðisnefndar er að samkvæmt spám munu 44% stéttarinnar fara á eftirlaun á næstu 10 árum — og hvert sjáum við horfa ef ekki verður bætt úr kjörum ljósmæðra og við sjáum fram á þessi miklu afföll úr stéttinni? Ég tel fulla ástæðu í ljósi alvarleika málsins — að verkfall er skollið á, fleiri verkföll standa fyrir dyrum og ekki er fyrirséð hvert stefnir — að málið verði hér aftur rætt í dag.



[10:34]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Tveggja daga verkfall ljósmæðra hófst á miðnætti og ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum með að til þess hafi þurft að koma. Ég hlýt jafnframt að lýsa þeirri skoðun minni að kröfur ljósmæðra um leiðréttingu launa eru á rökum reistar. Það er ekki viðunandi að hefðbundin kvennastörf hjá hinu opinbera sem krefjast langrar menntunar og mikillar sérþekkingar séu metin til tuga þúsunda lægri launa en aðrar fagstéttir sem eru með sambærilega lengd menntunar að baki svo að ekki sé talað um hefðbundnar karlastéttir sem virðast ætíð tróna á toppnum í launum. Það er ekki viðunandi að einstaklingur sem bætir við sérþekkingu sína og leggur á sig tveggja ára viðbótarnám þurfi að eiga von á lækkun í launum. Það eru slæm skilaboð til kvenna sem vilja læra ljósmóðurfræði og þetta er afleit aðferð til þess að sporna gegn yfirvofandi miklu brottfalli ljósmæðra úr starfi sökum aldurs á næstu árum.

Ljósmæður eins og aðrar kvennastéttir binda miklar vonir við ákvæði stjórnarsáttmálans um að gert verði sérstakt átak til að minnka kynbundinn launamun og taka sérstaklega á hefðbundnum kvennastéttum. Því fagna ég því sem kom fram í umræðum á hinu háa Alþingi í gær að nefndir á vegum fjármála- og félagsmálaráðuneyta munu skila niðurstöðum nú á haustdögum um aðgerðir til að taka á kynbundnum launamun.

Heilbrigðisnefnd Alþingis hélt fund í gær til þess að fá upplýsingar um viðbrögð stofnana ef til verkfalls ljósmæðra kæmi. Það sem stendur upp úr fundinum er í fyrsta lagi að bæði fulltrúar ljósmæðra og stofnana sýna mikla ábyrgð við þessar aðstæður. Í öðru lagi verður þess gætt að fæðandi konur geti gengið að fullkomlega öruggri þjónustu, barnshafandi konur þurfa þar ekkert að óttast. Í þriðja lagi bitnar verkfallið fyrst og fremst á eftirliti á meðgöngu en öllum bráðatilvikum verður sinnt. Í fjórða lagi hefur verkfallið ekki áhrif á heimaþjónustu ljósmæðra.

Að lokum í þessari umræðu vænti ég þess að samningsaðilar leggi sig alla fram um að ná lausn á þessari kjaradeilu. Barnshafandi konur, ófædd börn þeirra, ljósmæður og samfélagið allt eiga það skilið.



[10:36]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í maí sl. tókust kjarasamningar milli ríkis og sveitarfélaga og BSRB. Þá var ekki hægt að leiðrétta kjör kvenna og það var gagnrýnt hér mjög harkalega. Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit og loforð um að leiðrétta kjör kvenna sérstaklega. Hæstv. jafnréttisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur sagt að það muni reyna á stjórnarsáttmálann varðandi það að leiðrétta kjör kvenna, það verði að lyfta konunum upp án þess að karlarnir fylgi á eftir og þetta sé eitt brýnasta jafnréttismál samtímans. Þetta segir hæstv. jafnréttisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir.

En hver er staðan núna? Hv. þm. Ásta Möller kemur hér upp og segir: Þetta er ekki viðunandi, kjör ljósmæðra eru ekki viðunandi. Og það er rétt. En hvað segir hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen? Sá ráðherra segir: Það er ekki hægt að leiðrétta þessi kjör, efnahagsástandið er svo erfitt.

Þetta mál er komið í mjög erfiðan hnút og það er skollið á verkfall. Ég vil nýta tækifærið hér og skora á karlinn, hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesen, að hlusta á konurnar sem krefjast eðlilegra launabóta. Ég vil líka skora á karlinn, Árna Mathiesen, hæstv. fjármálaráðherra, að hlusta á konuna, hv. þm. Ástu Möller, í sama flokki sem segir að þetta sé ekki viðunandi. Ég skora líka á Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. ráðherra jafnréttismála, að fela sig ekki heldur stíga nú fram og taka þátt í þessari umræðu og þrýsta á hæstv. fjármálaráðherra að hjálpa til við að leiðrétta þessi kjör.

Nú er ekki tími til að fela sig, kæru konur, nú á að taka á því. Nú þarf að leiðrétta þessi kjör.



[10:38]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum hér, verkfall ljósmæðra, er gríðarlega alvarlegt mál. Um það deilir enginn, held ég, sem er í þessum sal, hvort sem fólk er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það sem deilt er um hér bæði í dag og í gær er til hvaða aðgerða hægt er að grípa.

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því hér í gær hver hans sýn væri á málin. Mín sýn er sú, og ég tek undir með hv. þm. Ástu Möller, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og öðrum hv. þingmönnum sem hafa rætt þetta mál, að staðan er algjörlega óviðunandi. Og það er auðvitað algjörlega óviðunandi að störf ljósmæðra séu ekki metin að verðleikum, um það deilir enginn. Við deilum hins vegar um það hvað hægt sé að gera í þessari stöðu núna.

Ég tala af reynslu eftir störf mín hjá Reykjavíkurborg þegar ég segi: Þar sem er vilji til þess að leiðrétta þessi mál, þar er vegur. Það liggur fyrir að það er pólitískur vilji núna hjá núverandi ríkisstjórn til að leiðrétta laun kvennastéttanna. Það liggur fyrir (Gripið fram í.) í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) og ég segi það núna sem ég sagði (Gripið fram í.)hér í vor að innbyggt óréttlæti verður ekki leiðrétt í einni svipan. Það er bara ekki þannig og ég tala af mikilli reynslu þegar ég segi það.

Það liggur fyrir stefnuyfirlýsing um það og það liggja fyrir yfirlýsingar um það að á þessum málum verði tekið í haust á jafnréttisþingi þar sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur sagt að kynntar verði tímasettar aðgerðir og dagsetningar varðandi þessi mál.

Hins vegar þarf að sjálfsögðu að leysa þá kjaradeilu sem við stöndum frammi fyrir núna. Ég átti samtöl í morgun við deiluaðila og ég treysti því að málið muni leysast á eins farsælan hátt og mögulegt er miðað við núverandi aðstæður á allra næstu dögum þannig að við þurfum ekki að horfa upp á það að þetta verkfall verði lengra en þeir tveir sólarhringar sem stefnir í núna.



[10:41]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér var beint fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í gær varðandi þá alvarlegu stöðu sem blasti við, að ljósmæður mundu hefja verkfall um miðnætti. Hann gaf þá yfirlýsingu hér eða það mátti skilja af orðum hans að það mætti búast við samningafundi í gærkvöldi en því miður var hann ekki boðaður. Því hefur komið til þessa verkfalls. Þetta er fyrsta aðgerð af nokkrum sem ljósmæður munu grípa til verði ekki samið núna fram að næstu mánaðamótum. Þá munu uppsagnir ljósmæðra dynja á, og það finnst mér vera sú sýn sem við verðum að horfa á, hversu alvarleg þessi staða er og hversu margar ljósmæður hafa lýst þeim vilja sínum að standa við uppsagnir. Þær eru búnar að gefast upp. Launakjörin, starfsaðstæðurnar á vinnustaðnum, álagið, ábyrgðin, sem ekki er svo fylgt eftir með viðurkenningu í launum. Þær eru búnar að gefast upp.

Þegar þetta bætist við og sú staðreynd að um 44% ljósmæðra eru komnar á þann aldur að þær fara að hætta störfum sökum aldurs blasir við staða sem ég tel að hv. formaður heilbrigðisnefndar og ríkisstjórnin öll verði að horfa til, kjör fólks sem vinnur við umönnun, ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga, sem ekki sækja núna í hjúkrunarnám. Hvers vegna? Vegna þess að þær sjá ekki fram á að laun þeirra verði leiðrétt þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar og stjórnarsáttmála um að það eigi að bæta laun kvenna og rétta kynbundinn launamun. Tækifærið var í vor, tækifærið er núna, það þýðir ekkert að bíða eftir jafnréttisþingi og að ljósmæður bíði eftir margra ára áætlun (Forseti hringir.) sem við getum ekki treyst að verði neitt annað en yfirlýsingar og loforð.



[10:43]
Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég held að það sé öllum ljóst að hér á Íslandi hefur ríkt alvarlegur launamunur eftir því hvaða stéttir eiga í hlut og hvort um er að ræða karla eða konur. Þetta er hið alvarlegasta ástand og ég skil þessa umræðu sem hér hefur farið fram bæði í gær og í dag svo að það ríki almennur stuðningur við og skilningur á að þetta ástand lagist. Það tekur tíma og mun vonandi og vissulega úr rætast áður en langt um líður eins og hér hefur komið fram.

Nú erum við að tala um þessa stöðu sem er í kjaradeilu milli ríkis og ljósmæðra. Mér finnst raunar algjörlega útilokað að skilja hvernig ein stétt, kvennastétt sem þarf að ganga í gegnum sex ára nám, getur borið skarðari hlut eftir að hafa bætt við sig tveimur árum eftir hjúkrunarfræðinámið þegar upp er staðið og setið uppi með lakari laun en þeir sem stunda fjögurra ára nám. Almennt talað er um að ræða að þessi stétt ljósmæðra hefur ekki sambærileg kjör miðað við aðrar stéttir sem hafa sambærilega menntun. Úr þessu verður að leysa.

Ég skora á stjórnvöld og bind miklar vonir við að á þessu máli verði tekið á allra næstu vikum og mánuðum. Þessa deilu sem hér er um að ræða verður að leysa, hún leysist ekki í sölum Alþingis en ég tek undir áskoranir til stjórnvalda og til hæstvirtra ráðherra um að ganga nú fram sköruglega og skera á þennan hnút sem er okkur öllum til vansa.



[10:45]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er með algjörum ólíkindum að til þessa verkfalls hafi þurft að koma. Ástandið veldur vissulega kvíða. Þetta snýst ekki bara um ljósmæður. Þetta snýst um fæðandi konur og þetta snýst um þá staðreynd að fæðingar ganga verr þegar fólk er kvíðið. Það er það sem er svo alvarlegt og það getur haft alvarlegar afleiðingar að láta ástand sem þetta koma upp.

Og ég spyr: Hvers konar stjórnsýsla er það? Hvers konar stjórnsýsla er það sem lokar meðgöngudeild á Landspítalanum, meðgöngudeild þar sem konur þurfa að leggjast inn og vera undir stöðugu eftirliti til þess að reyna að tryggja að meðgangan fái eðlilegan framgang og að barnið fái að koma heilbrigt í heiminn? Af hverju er þessari deild lokað? Hvers konar stjórnsýsla er það? Það er vegna þess að undanþágulistar hafa ekki verið uppfærðir í fjármálaráðuneytinu í 13 ár. Frá 1995 hafa sjálfkrafa ár eftir ár verið uppfærðir undanþágulistar. Hvers konar stjórnsýsla er þetta?

Á fundi heilbrigðisnefndar í gær var upplýst að heilbrigðisráðuneytið hefði boðist til að aðstoða fjármálaráðuneytið við þetta en það hefði ekki verið þegið.

Heilbrigðisráðherra sem hér er kominn í dyrnar var dapur í gær í sjónvarpsfréttum yfir því að geta ekkert gert í þessu máli, en treysti á samningsaðila. Ég man ekki eftir því að menn hafi verið mjög daprir, hvorki fjármálaráðherra né heilbrigðisráðherra, þegar nýr forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss fékk 25% launahækkun á dögunum, úr 1,3 millj. kr. á mánuði í 1,6 millj. kr.

Það eru til peningar í þessu kerfi og ljósmæður óska eftir því að fá sjálfsagða viðurkenningu á menntun sinni, reynslu og ábyrgð. Það er ekki nóg að tala um pólitískan vilja, hv. þingmaður (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Spurningin er að koma þeim vilja í framkvæmd og standa við stóru orðin.



[10:47]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér lýsa hv. þingmenn yfir stuðningi, skilningi, viðurkenningu. Fólk er á einu máli um að leiðrétta þurfi kjör ljósmæðra, að þær hafi setið eftir. Fólk virðist vera nokkuð sammála um að ástæðurnar séu þær að þetta er kvennastétt, kvennastétt sem hefur setið eftir af því að þetta er kvennastétt. Hér liggur fyrir stjórnarsáttmáli um að leiðrétta þurfi kynbundinn launamun.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir: Ég hef reynslu af þessum verkum. Hv. formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði fyrir síðustu kosningar: Vilji er allt sem þarf.

Ég hlýt að spyrja eins og ljósmæður hljóta að spyrja: Á þá ekki að ganga til verka? Getum við verið þekkt fyrir að þetta verkfall standi lengur, að þjónustan sé skert, að verðandi mæður þurfi að mæta aftur fyrir utan Karphúsið til að sýna stuðning sinn í verki? Getum við verið þekkt fyrir það að ekki sé gengið í það mál að leiðrétta kjör sem við getum öll verið sammála um að þurfi að leiðrétta?

Stuðningur og skilningur ná bara visst langt. Nú þarf að reisa merki í verki.



[10:49]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að kjarasamningar verða ekki leysir hér inni á borði Alþingis en hins vegar er líka ljóst að umræður sem fara hér fram skipta verulegu máli. Það hefur komið fram í umræðunni að skilningur er alveg þvert á flokka á aðstæðum ljósmæðra og á kröfum þeirra um bætt kjör.

Ákveðin skref voru tekin í samningum hjúkrunarfræðinga síðasta vor sem þeir virtust á því stigi vera sáttir við. Ég reikna með og geng út frá því að ákveðin skref verði tekin í samningum við ljósmæður sem eru fram undan og sem aðilar geta sætt sig við. En ég tek jafnframt undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að Róm verður ekki byggð á einum degi. Það er bara þannig að það þarf að taka þetta í skrefum og ég geri ráð fyrir að það verði hér eftir sem hingað til.

En samningstímabilið er ekki nema átta mánuðir og samningar verða lausir aftur á næsta ári. Og það er alveg ljóst að þar skapast ákveðið svigrúm að byggja á þeirri vinnu sem fer fram núna í haust á vegum fjármálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins þar sem unnið er í þremur nefndum að tillögum í þessa veru.

Við konur, hvar í flokki sem við stöndum, viðurkennum þennan vanda. Við bindum vonir við að þarna verði tekin raunhæf skref til að ráðast gegn þeim kynbundna launamun sem við höfum þurft að búa við árum saman. Áratugum saman. Öldum saman. Þetta er ekki viðunandi. Það er ekki viðunandi að kvennastörf séu metin með þeim hætti sem gert er í dag. Það er það ekki. Og ef eitthvað er eru kvennastörf verr metin, þegar kynbundinn launamunur er skoðaður og horft á stéttir er horft á karla og konur innan sömu stéttar og þar er tiltekinn kynbundinn launamunur. Þegar bornar eru saman kvennastéttir og karlastéttir er þar mun meiri munur og það er ekki hægt að una við það.

Það sem stendur upp úr er að fólk kemur af ábyrgð að þessu máli. Barnshafandi konum, fæðandi konum er ekki hætta búin og við horfum fram á tveggja daga verkfall sem vonandi verður ekki (Forseti hringir.) meira en svo.



[10:51]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að það er dálítið erfitt að fara hér inn í umræðu um allt annað mál vegna þess að þetta er stórt mál sem við vorum að ræða áðan. Þessi þingsköp sem við höfum samþykkt hér eru þó þannig að þetta er það sem ætlast er til og að þetta er leyfilegt.

Ég ætla að fá að ræða hér, hæstv. forseti, örlítið við formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um matvælalöggjöfina sem við frestuðum í vor og hefur ekki komið til umfjöllunar á hv. Alþingi nú í haust. Og ekki er útlit fyrir að það verði eftir því sem ég best skil. Það er ekki fundur í nefndinni á mánudag en hins vegar mun verða fundur á þriðjudaginn.

Ástæða þess að ég spyr um þetta er m.a. sú að því hefur verið haldið fram, a.m.k. í nefndinni, að það sé ákveðin hætta á því ef þetta frestast mjög að það geti bitnað á okkar mikilvægu atvinnugrein sem er sjávarútvegurinn og að Evrópusambandið geti beitt sér gegn innflutningi á sjávarafurðum frá Íslandi ef þetta dregst úr hófi. Þess vegna er mikilvægt fyrir þingið og alla sem láta sig þessi mál varða að fá svör frá hv. formanni um það hvernig hún sér í fyrsta lagi fyrir sér vinnu við þessa löggjöf og svo í öðru lagi hvort einhver hætta sé á að þessi frestun sem nú þegar hefur orðið geti komið sér illa fyrir sjávarútveginn.

Nú veit ég að það er von á umsögn frá Bændasamtökunum um þetta mál. Þau hafa lagt gríðarlega mikla vinnu í það og vonandi verður vel tekið þeim ábendingum sem þaðan koma. En mér finnst ómögulegt annað en að hv. formaður nefndarinnar greini frá því hvernig hún sér fyrir sér áframhaldandi vinnu við þetta mál.



[10:53]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að það er erfitt að fara í svona mál þegar mál eins og verkfall ljósmæðra brennur á okkur. En þetta er mjög mikilvægt líka.

Í fyrsta lagi varðandi vinnubrögðin í nefndinni er alveg ljóst að þegar ákveðið var að fresta málinu í vor lá fyrir að Bændasamtökin óskuðu eftir því að fá lengri frest til að skila áliti sínu. Og ég veit til þess að þau hafa unnið mjög stíft að því í sumar. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, hafði samband við mig í gær og sagði mér að nú væri alveg að bresta á þetta álit sem þau ætla að gefa og hann óskaði eftir því að Bændasamtökin fengju að koma fyrir nefndina í næstu viku. Við munum reyna að koma því á á fimmtudaginn.

Hins vegar ætluðum við að hafa fund í nefndinni á þriðjudaginn til að fara yfir stöðuna og skoða það hvernig málin hefðu þróast í sumar vegna þess að auðvitað hefur verið vinna í gangi við það að fara betur yfir þetta í ráðuneytinu og í utanríkisráðuneytinu. Ég tel það mjög mikilvægt.

Varðandi það hvort sjávarútvegurinn muni á einhvern hátt líða fyrir þessa frestun er auðvitað ákveðin hætta á því að kærur komi á okkur út af þessu og samkeppnisþjóðir okkar í sjávarútvegi muni reyna að stöðva innflutning okkar inn á Evrópska efnahagssvæðið. Það má reikna með (Forseti hringir.) að menn hafi þolinmæði að minnsta kosti fram eftir hausti þannig að ég á ekki von á því að það muni hafa alvarlegar afleiðingar að löggjöfin hafi frestast þetta mikið.



[10:56]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi mínum við baráttu ljósmæðra fyrir viðurkenndum leiðréttingum á kjörum sínum, virðingu fyrir starfi sínu og ábyrgð sem þessi ein elsta stétt landsins býr nú við og gekkst fyrir að bæta. Ljósmæður réðu miklu og störf þeirra hafa skipt sköpum fyrir bætt heilbrigði þjóðarinnar, í þeim mikla árangri sem við höfum náð í að ná niður barnadauða, barnsfararsóttum o.s.frv. Þessi stétt á stuðning minn eins og okkar allra í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Varðandi hitt málið sem er hér til umræðu, landbúnaðarmálin, vil ég ítreka að það var fyrir harðfylgi og samstöðu bænda, íslenskra matvælaframleiðenda, neytenda og sérfræðinga í heilbrigði dýra sem tókst að stöðva þetta illræmda frumvarp ríkisstjórnarinnar um óheftan innflutning á hráu kjöti síðasta vor. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs börðust af alefli gegn því hér á Alþingi og áttu sinn þátt í því að málið var stöðvað.

Ég furða mig á þeim áhuga hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að hún skuli koma hér upp til þess að ýta á eftir þessu frumvarpi sem er ógn við landbúnaðinn, ógn við matvælavinnslu í landinu, ógn við matvælaöryggi í landinu. Svör við fyrirspurnum frá fulltrúum vinstri grænna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um bréfaskipti á milli utanríkisráðuneytisins, landbúnaðarráðuneytisins og samninganefndarinnar við Evrópusambandið um þessar kröfur komu ekki. Þessi bréf komu ekki. Þetta virðist eingöngu ráðast (Forseti hringir.) af hnjáliðamýkt Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins og einhvers hluta forustu Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) fyrir Evrópusambandinu.



[10:58]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara vegna fyrra málsins sem hér var rætt, af því að allmargir hv. þingmenn tóku þannig til orða að „við konur“ hlytu að hafa skilning á þessari stöðu og mikilvægi ljósmóðurstarfsins og þess að rétta kjör ljósmæðra, segja að í mínum huga er sá þáttur málsins ekki kynbundinn og ég held að við karlar hljótum að taka það til okkar alveg jafnt og konur hér á þingi.

Varðandi frumvarpið um óheftan innflutning á hráu kjöti er ég þvert á móti ekki að reka á eftir því hér, heldur fagna því sérstaklega að afgreiðslu málsins var þrátt fyrir allt frestað í vor. Sömuleiðis væri það að mínu mati algert óráð að fara að hrapa að einhverri afgreiðslu hér á þessu stutta haustþingi. Þetta er einfaldlega mál sem þarf að skoða miklu betur.

Menn mega ekki líta svo á — það er kannski gott fyrir menn að læra það af þessu máli, bæði samningamenn okkar og ráðuneytin — að afgreiðsla Alþingis á málum sem samið er um með stjórnskipulegum fyrirvara sé formsatriði. Það er ekki sjálfgefið að Alþingi taki alltaf við hverju sem er. Sá möguleiki er til staðar að Alþingi Íslendinga segi nei, hann er innbyggður í samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, og segi einfaldlega við okkar samningamenn og ráðuneytin: Nei, takk. Þið stóðuð ykkur ekki nógu vel. Farið aftur og reynið að ná betri samningum. Það væri stórkostlega lærdómsríkt ef þetta mál færi í þann farveg.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé hægt að skipta þessu upp og innleiða þetta fyrir sjávarútveginn. Undanþága Íslands, sú sem varin var með kjafti og klóm á sínum tíma, var varðandi innflutning á hráu kjöti og hrámeti og hana hefði aldrei átt að gefa eftir. Að mínu mati hefði það ekki þurft að valda neinum vandræðum þótt Ísland hefði staðið fast á þeirri afstöðu.

Það vantar enn gögn í málinu og það gætir ótrúlegrar tregðu úr ráðuneytunum að afhenda fullnægjandi gögn um feril málsins. Og auðvitað er óþolandi fyrir Alþingi að það skuli kosta (Forseti hringir.) margra mánaða eftirrekstur að fá slík grunngögn. Áður en þau eru komin kemur að sjálfsögðu ekki til greina að afgreiða þetta mál.



[11:00]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég gerði mér nú engar vonir um að fulltrúar Vinstri grænna mundu taka málefnalega afstöðu til þessa máls eða (JBjarn: Málefnalega! .... á móti ...) taka á einhvern hátt ábyrgð á málinu. Þeir hafa ekki tekið ábyrgð á neinum málum nema girðingarlöggjöfinni hérna fyrir nokkrum árum. Það voru þau lög sem voru samþykkt (Gripið fram í.) í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Mér er þetta mjög minnisstætt. En þetta er bara svona. Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að innleiða þessa löggjöf og aflétta stjórnsýslulegum fyrirvara.

Erindi mitt hér upp var náttúrlega fyrst og fremst það að heyra frá formanninum hvernig hún sér fyrir sér vinnu við málið, ekki síst vegna þess að ég hef áhuga á því að sjávarútvegur á Íslandi geti starfað óhindrað áfram. Það er stóra málið í þessu öllu saman. Það þýðir ekkert fyrir hv. formann Vinstri grænna að koma hér fram og skella skollaeyrum við staðreyndum sem blasa við. Það er ekki einu sinni fyndið. Það er klaufalegt að svona reyndur þingmaður skuli ekki reyna að horfa á málið út frá staðreyndum og átta sig á aðalatriðunum. (Gripið fram í.)

Ég hef eins og fleiri hér áhyggjur af stöðu bænda, ekki síst núna á haustdögum og ekki síst sauðfjárbænda þar sem þeir eru náttúrlega í sviðsljósinu á haustdögum af eðlilegum ástæðum vegna hækkunar á áburðarverði og vil spyrja formanninn vegna þess að ég reikna með því að hún eigi eftir að tala hér aftur hvort einhverjar aðgerðir séu fyrirhugaðar af hálfu stjórnvalda til að koma til móts við erfiða stöðu bænda vegna aukins kostnaðar.



[11:02]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Fullkomin ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda. Ég vísa til þess sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði á fundi í Búðardal að hagsmunir þeirra verða skoðaðir í ráðuneytinu og hvernig hægt verður að bregðast við þessari erfiðu stöðu.

Varðandi matvælalöggjöfina þá höfum við nokkra reynslu fyrir því hér að yfirleitt batnar löggjöfin eftir því sem hún er lengur í meðförum á Alþingi þannig að ég held í sjálfu sér að þetta verði ágætislöggjöf þegar við ljúkum við hana hér. Það verður alla vega búið að fara mjög vel yfir hana og mjög margir hagsmunaaðilar hafa komið að því að því að leggja fram álit sitt og það ber auðvitað að þakka þá miklu vinnu sem ýmsir hafa lagt í að koma með álit og ráðgjöf til okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. En eins og hv. þingmaður Valgerður Sverrisdóttir nefndi þá er ástæða til að hafa áhyggjur af hagsmunum sjávarútvegsins og við verðum að hafa í huga þegar við vinnum að þessari löggjöf að drátturinn má ekki verða það mikill á því að ljúka löggjöfinni hvernig sem við gerum það svo á sínum tíma að það komi niður á hagsmunum sjávarútvegsins. Það væri mjög alvarlegt ef við sætum uppi með að útflutningur okkar væri stöðvaður á hafnarbökkum í Evrópu þegar líða fer fram á haustið eða veturinn. Þetta verðum við allt að hafa í huga við vinnslu málsins í Alþingi og (Forseti hringir.) reyna að vinna þetta sem best.