135. löggjafarþing — 118. fundur
 4. september 2008.
um fundarstjórn.

umræðuefni undir liðnum Störf þingsins.

[11:05]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mér dettur nú bara í hug að nefna það hér vegna þess að mér fannst þetta svo vandræðaleg staða sem kom upp þarna áðan, þ.e. að eftir að búið var að ræða þetta alvarlega mál, verkfall ljósmæðra og ástand á fæðingardeildum, þá var farið að tala um annað mál sem var svo gerólíkt og var eitthvað svo allt annars eðlis. Er ekki hægt að hafa það þannig að umræðunni sé skipt alveg upp og forseti tilkynni af ræðustól að umræðu um þetta mál sé lokið og nú hefjist umræða um annað mál? Svo fóru hv. þingmenn að blanda saman umræðu um matvælalöggjöf og ljósmæður sem líka var vandræðalegt. Þetta er bara ábending um hvort ekki færi betur á því að það séu skil og tilkynnt af hálfu hæstv. forseta þegar um það er að ræða að tekin séu fyrir fleiri en eitt mál í sama umræðutíma í upphafi fundar.



[11:06]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti hefur hlýtt á þessar ábendingar og mun taka þær til athugunar. Hins vegar er nokkur vandi á höndum eins og einmitt hv. þingmaður benti á. Það er ekki hægt að hefta málfrelsi þingmanna og beina þeim á einhverjar sérstakar brautir í þessari umræðu. En þetta þróast allt saman og fer til betri vegar.