135. löggjafarþing — 118. fundur
 4. september 2008.
Viðlagatrygging Íslands, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 651. mál (staðfesting bráðabirgðalaga). — Þskj. 1312.

[13:31]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við höldum hér áfram að ræða um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands sem við ræddum fyrir hádegið og snýst umræðan um að ríkisstjórnin tók sér það vald að setja bráðabirgðalög í kjölfar jarðskjálfta, frægs Suðurlandsskjálfta, sem var þann 29. maí sl. Þann dag var síðasti fundardagur Alþingis og ég sat hér í sæti mínu ásamt fleiri þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni, hv. þm. Kjartani Ólafssyni og Kristni H. Gunnarssyni, og það fór ekki fram hjá neinum sem hér var inni að eitthvað mikið átti sér stað því hér hristust ljósakrónur. Síðar kom í ljós að skjálftinn átti upptök sín suður á landi og eitthvað mikið hafði þar gerst. Þá voru átta ár liðin frá stóra skjálftanum árið 2000 og miklar náttúruhamfarir hafa því leikið Sunnlendinga grátt á þessu tímabili.

Það var strax ljóst að gríðarlegt tjón hlaust af skjálftunum og eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert okkur grein fyrir hafa hátt í fjögur þúsund tjón verið tilkynnt. Það er því ljóst að það tjón sem skjálftinn árið 2008 hefur valdið snertir þúsundir einstaklinga sem margir hverjir eru jafnvel vart búnir að jafna sig á hamförunum árið 2000. Hér var því í einhverjum tilvikum um ítrekuð tjón að ræða hjá sömu einstaklingunum sem, eins og ég sagði áðan, voru enn með skjálftann árið 2000 í fersku minni.

Við höfum rætt það mikið í dag hvort ástæða hafi verið fyrir ríkisstjórnina í þessu tilviki að grípa til þess að setja bráðabirgðalög og ég tel að í ljósi þeirra aðstæðna sem þarna voru uppi og þess gríðarlega tjóns sem mörg þúsund manns urðu fyrir að það hafi verið réttlætanlegt í þessu tilfelli að setja bráðabirgðalög þó að, eins og fram hefur komið í umræðu hér, eigi að beita þeirri heimild mjög varlega. Nú þegar er búið að greiða út hátt í 1,7 milljarða vegna þess tjóns sem þarna varð og trúlega eiga meiri fjármunir eftir að renna út og ég styð þá ákvörðun sem ríkisstjórnin tók á sínum tíma, þ.e. að grípa til bráðabirgðalaga í ljósi þess og þeirrar reynslu sem við urðum fyrir árið 2000.

Stjórnvöld á þeim tíma voru gagnrýnd mikið fyrir að bregðast of seint við, bæði hvað varðar áfallahjálp handa þeim sem lentu í þeim hamförum sem þá gengu yfir, sem og að bæta tjón þeirra sem lentu í tjóni sökum skjálftans. Það var því eðlilegt að mínu viti — náttúrlega með því fororði að menn eiga að fara mjög varlega þegar þeir grípa til bráðabirgðalaga — að setja bráðabirgðalög til þess að aðstoða þær þúsundir einstaklinga og þær mörg hundruð fjölskyldur sem lentu í tjóni nú í vor, að bæta tjón þeirra eins fljótt og verða má og veita þeim hjálp, m.a. áfallahjálp þeim sem á þurfa að halda. Ég vil halda því til haga nú umræðunni að ég tel að Almannavarnir og yfirvöld almennt hafi staðið eins vel að þessu og hægt er. Það var gríðarlegt áfall sem reið yfir Sunnlendinga í kjölfar þessara skjálfta, margir minnugir skjálftanna árið 2000, og það er fagnaðarefni að stjórnvöld virðast hafa lært af reynslunni. Ég tel að yfirvöld hafi að mörgu leyti staðið ágætlega að því að leysa mál í kjölfar skjálftans þó að náttúrlega sé aldrei hægt að uppfylla þarfir allra og um gríðarlega umfangsmikið tjón var að ræða.

Ég vil, hæstv. forseti, taka undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað varðandi 1. gr. frumvarpsins þar sem ráðherra er heimilt með reglugerð að ákvarða hækkun á ofangreindum lágmarksfjárhæðum. Hér er í raun og veru verið að ganga mun lengra en nauðsyn er til að mínu mati, að ráðherra skuli setja sjálfum sér reglugerðarheimild í þessu. Það var vissulega ástæða til þess að hreyfa eitthvað við eigin áhættu þeirra sem lentu í tjóninu en ég tel að það hafi verið gengið mun lengra en þurfti varðandi það að setja þetta ákvæði um reglugerðina. Við í viðskiptanefnd munum örugglega fara nánar yfir það og ég er sammála því sem hv. þingmenn Kristinn H. Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon hafa sagt hér í dag að það er ekki sama hvernig ríkisstjórn hagar verkum sínum í málum sem þessu. Hér er um algjört neyðarúrræði að ræða og mér finnst ekkert sjálfgefið að menn beiti því í hvaða tilvikum sem er.

Í ljósi þess að þetta mál, Suðurlandsskjálftinn árið 2008, snertir svo gríðarlega marga einstaklinga, eins og ég nefndi hér urðu hátt í 4.000 tjón á svæðinu, og í ljósi reynslunnar árið 2000 stend ég að því og mun styðja það að þessi bráðabirgðalög verði afgreidd og að við staðfestum þau því hér er vissulega um einstakt tilvik að ræða eins og nefnt hefur verið, stórir Suðurlandsskjálftar koma hér á 100 ára fresti og það er brýnt að bregðast við í þeim efnum.

Um leið og ég nefni það hversu ívilnandi þetta lagafrumvarp er þá get ég ekki látið hjá líða, eins og þegar hefur verið nefnt í umræðunni, að nefna það að margir í samfélaginu lenda í óhöppum sem eru hamfarir út af fyrir sig sem menn geta raunverulega ekki gert að og ég tel að við þurfum að skoða. Við heyrum mörg dæmi þess að hús eru jafnvel að eyðileggjast af ástæðum sem eru nýtilkomnar, vegna myglusvepps. Ég þekki hjón sem lentu í því að þurfa að láta rífa húsið sitt vegna myglusvepps og fá það ekki bætt og þurftu að byggja sér nýtt hús. Vissulega er í mörgum tilfellum um að ræða tjón sem fólk getur sannarlega ekki að gert og tryggingar bæta yfir höfuð ekki.

Ég ætlaði ekki að halda langa ræðu hér en umræðan um þetta mikilvæga mál hefur að mörgu leyti verið ágæt. Ég mun standa að því að styðja þessi bráðabirgðalög með því fororði að menn gangi hægt um gleðinnar dyr hvað valdbeitingu varðar í þeim efnum. En í ljósi þess hversu yfirgripsmikið tjónið var og vegna ásetnings um að menn vilji bæta tjón einstaklinga og fjölskyldna á Suðurlandi með skjótum hætti og að reynt sé að bregðast fljótt við að aðstoða það fólk sem lenti í hremmingunum, þá styð ég þau bráðabirgðalög sem hér eru til umræðu þó svo að vissulega beri að skoða einstaka þætti í því, t.d. þá heimild sem ráðherra veitti sjálfum sér með reglugerðinni sem ég nefndi hér að framan. En í það heila styð ég það frumvarp sem hér liggur fyrir en þó með öllum þeim fyrirvörum sem ég hef viðhaft hér að framan.



[13:39]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er kannski ástæða til þess að draga saman helstu atriði í þessu máli og fara stuttlega yfir þau hvert og eitt. Í fyrsta lagi bráðabirgðalögin, að þau skuli hafa verið sett.

Það má segja að nokkuð góður samhljómur sé um það að a.m.k. sé ástæða til að efast um að rétt hafi verið að setja bráðabirgðalög. Ég tel að það hafi ekki verið ástæða til þess, ég leyni þeirri skoðun minni ekki. Það er nákvæmlega sama skoðun og ég hafði á síðasta ári, þ.e. að þetta mál var ekki þannig vaxið að það þyrfti að setja bráðabirgðalög. Það var hægt að leysa úr þeim atriðum sem menn vildu koma á hreint, annaðhvort með lagasetningu síðar eða kalla þing saman ef ástæða var til að fá hana afgreidda fyrr. Bráðabirgðalagaheimild á að nota varlega og það hefur hæstv. viðskiptaráðherra í þessari ríkisstjórn ekki gert.

Í öðru lagi varðandi efnisinnihaldið í lögunum sem sett eru, þau eru umdeilanleg, þá tel ég í fyrsta lagi að það ákvæði að ráðherra veiti sjálfum sér heimild til þess að geta hækkað sjálfsábyrgðina, lágmarksfjárhæð hennar, vera algerlega óþarfa, því að hvaða tilgangi þjónar hún nema væntanlega að ráðherra hafi verið að velta því fyrir sér að það gæti orðið annað tilefni til tjóns frá því að bráðabirgðalög yrðu sett og þar til þing kæmi saman, kannski annar jarðskjálfti? Hann þyrfti þess vegna að hafa heimild til að geta brugðist við með því að breyta lágmarksfjárhæð sjálfsábyrgðar. En ég er ekki viss um að það hafi verið í huga ráðherra vegna þess að heimildin er aðeins til þess að hækka lágmarksfjárhæðina. Þá hefði átt að beita henni þannig, ef þörf er á að hafa hana í bráðabirgðalögum, að í síðara tilviki sem kynni að koma upp væri hærri sjálfsábyrgð og það finnst mér ekki geta staðist. Það er því alveg sama hvernig maður veltir fyrir sér hugsanlegum málsatvikum frá því að bráðabirgðalög eru sett og þar til þing tekur þau til afgreiðslu, að ég sé ekki rökin fyrir því að hafa þessa heimild í lögunum. Ef það hefðu átt að vera einhver rök væri það frekar á þann veg að geta þá lækkað lágmarksfjárhæðina enn frekar miðað við þau rök sem frumvarpið er reist á.

Í öðru lagi er það afturvirknin sem er að finna í 2. gr. laganna og þar segi ég bara hreint út: Ég tel algerlega víst að það stangist á við stjórnarskrá og byggi það m.a. á afgreiðslu heilbrigðis- og trygginganefndar frá 1995 sem tók slíkt ákvæði út úr stjórnarfrumvarpi þá, henti því út og sagði: Menn tryggja ekki eftir á. Við getum ekki sett í lög svona ákvæði eins og þar var og er sambærilegt þessu ákvæði hér. Þá var málið leyst með því að nefndin flutti tillögu um fjárveitingu til að bæta viðkomandi aðila þann skaða sem hafði orðið með beinni fjárveitingu, eingreiðslu. Það hefði verið hægt að gera slíkt hið sama í þessu tilviki.

Þriðja efnisatriðið er um lækkunina á sjálfsábyrgðinni. Ég sagði það í ræðu minni að ég ætlaði ekki að kveða upp úr um það hvort ég legðist gegn því eða styddi það, ég ætlaði að heyra rökin. Þau hafa ekki komið fram. Það sem fullyrt er í frumvarpinu er að byggingarvísitalan hafi hækkað svo mikið frá því að lögin voru sett að þess vegna hafi sjálfsábyrgðin hækkað og það sé óeðlilegt og þess vegna þurfi að bæta það. Ef við lítum á rökin eru þau þannig að byggingarvísitala hefur hækkað örlítið meira en neysluverðsvísitala frá 1992 þannig að sjálfsábyrgðin hefði átt að vera 75 þúsund kr. en ekki 85 þúsund kr. En launavísitalan hefur hækkað miklu meira en byggingarvísitalan á þessum tíma þannig að ef við miðum við launin og getu viðkomandi einstaklings til að bera skaðann hefði sjálfsábyrgðin átt að fara upp í 105 þúsund kr. (Forseti hringir.) Það eru því engin rök í þeirri staðhæfingu sem bráðabirgðalagafrumvarpið byggir á. (Forseti hringir.) Þess vegna segi ég enn og aftur, virðulegi forseti: Það vantar rökin fyrir því að þessari sjálfsábyrgðarfjárhæð sé breytt.



[13:44]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það ætti ekki að þurfa að ræða bráðabirgðalög, það á ekki að þurfa að setja bráðabirgðalög á meðan þing er að störfum. Þó að þing sé að fara í frí einhvern tíma er minnsta mál, og hefði verið í þessu tilfelli, að kalla þingið saman, þess vegna að fresta þinglokum um tvo, þrjá daga eða eitthvað þess háttar. Þetta er klúður og það á ekki að nota bráðabirgðalög með þessum hætti.

Bætur vegna skjálftans 2000 á Suðurlandi voru með þeim hætti að það eru margir óánægðir og sárir út í ríkisstjórnina og stjórnmálamenn fyrir hvernig var staðið að þeim og telja sig ekki hafa fengið réttar bætur fyrir þau óhöpp og það ólán sem fólk lenti í. Það er hætt við því að það verði núna líka vegna þess að það eru ákveðnir hlutir sem falla kannski ekki undir innbú eða venjulegar tryggingar og það er það sem maður hefur áhyggjur af á þessu svæði, að það verði margir sem telji sig ekki fá bætur sem þeim ber. Það er sumt sem er svona á jaðrinum, t.d. hvað varðar nýbyggingar, vatnslagnir, klóaklagnir og ýmislegt í þeim dúr.

Það er auðvitað vont að tryggja eftir á eins og hefur komið fram en ég fagna lækkun á sjálfsábyrgðinni. En fyrst við erum að tala um þessi bráðabirgðalög er rétt í lok þeirrar umræðu að þakka lögreglu og björgunarsveitum hvernig þau stóðu að málum í aðgerðunum í vor. Það hefur tekist þokkalega til og við megum kannski þakka það því að við erum orðin reynslunni ríkari í svona tilfellum, þegar svona ógæfa brestur á, við getum lært af því, en við þurfum að ganga þannig frá þessum málum að fólk fái þær bætur sem því ber og geti sloppið frá þessu að mestu leyti án tjóns.



[13:48]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði grannt á ræðu hv. þingmanns. Það er hugsanlegt að ég hafi ekki heyrt allt sem hann sagði. Ég hef eina spurningu til hv. þingmanns — ég held það sé gagnlegt fyrir kjósendur hans á Suðurlandi að fá fram skýra afstöðu hjá hv. þingmanni til bráðabirgðalaganna: Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að ótímabært hafi verið og rangt að aðstoða fólk á Suðurlandi sem lenti í skjálftunum með því að grípa til bráðabirgðalaga? Mun hv. þingmaður styðja þessi lög, þá hugsanlega með breytingum sem viðskiptanefnd kann að leggja til að gerðar verði á þeim?



[13:48]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg skýrt að ég styð að fólk fái bætur. En ég styð ekki þann gjörning ríkisstjórnarinnar að setja bráðabirgðalög, mér fannst ekki rétt að gera það með þessum hætti. Auðvitað styð ég flesta þætti í frumvarpinu en ég neita því ekki að hugsanlega eru ákveðnir þættir, eins og hæstv. ráðherra minntist sjálfur á, sem gerð verður breyting á. Í megindráttum styð ég það að lækka sjálfsábyrgðina og tryggja að fólk fái bætur.

Ég veit að búið er að borga 1,6 milljarða í bætur en ég óttast að einhverjir lendi utangarðs og fái ekki bætur fyrir það tjón sem þeir hafa orðið fyrir í þessum skjálfta. Í stórum dráttum fagna ég því að ríkisstjórnin skyldi þó gera eitthvað en ég er ekki sammála því að setja bráðabirgðalög. Í þessu tilfelli áttum við annaðhvort að fresta því að slíta þinginu, jarðskjálftinn varð í vor áður en við slitum því, og/eða kalla þing saman aftur til að setja lög en ekki bráðabirgðalög.



[13:50]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls um frumvarp til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem ríkisstjórnin greip til í vor. Ég hef skýrt út fyrir hv. þingmönnum þær forsendur sem lágu til grundvallar þeirri ákvörðun. Ég held að almenn samstaða sé um það hér á þinginu að ríkisstjórn hverju sinni verður að fara mjög spart með heimildir sínar til þess að grípa til úrræða af þessu tagi. Ég er hjartanlega sammála þingmönnum sem hafa brýnt það fyrir ríkisstjórn. Ég tel hins vegar að í þessu tiltekna máli sé um að ræða allt öðruvísi atvik og málsaðstæður en í sumum tilvikum öðrum sem hafa orðið tilefni deilna hér á síðustu árum.

Hv. þingmenn hafa nánast allir, þó ekki allir, lýst yfir stuðningi við innihaldið og markmiðið með lögunum. Sumir hafa hins vegar talið að ekki væri rétt að fara þá leið sem ríkisstjórnin gerði og þá heldur að kalla saman þing eða, eins og sumir þingmenn hafa sagt, að bíða með það fram í september. Það sem mér finnst skipta máli er að í umræðunni hafa komið fram, m.a. úr röðum stjórnarandstöðunnar, ýmis rök sem styðja málstað ríkisstjórnarinnar. Það kom t.d. fram hjá hv. þm. Jóni Magnússyni, sem hefur víðtæka starfsreynslu sem hæstaréttarlögmaður, að hann telur að ríkisstjórnin hafi ekki farið út fyrir þau mörk sem henni eru sett í stjórnarskránni. Hv. þm. Jón Magnússon nefndi jafnframt nokkur atriði sem styrktu þá skoðun hans.

Í fyrsta lagi sagði hann, og vísaði til stjórnlagaspekinga eins og Bjarna Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar, sem báðir gegndu prófessorsstöðu í þeim fræðum, og sátu á þingi og voru forsætisráðherrar báðir tveir, að þeir hefðu túlkað það svo að heimildir ríkisstjórnar til þess að beita úrræðinu væru nokkuð rúmar. Í öðru lagi benti hæstaréttarlögmaðurinn og hv. þm. Jón Magnússon á að það yki líka svigrúm ríkisstjórnarinnar að um var að ræða mjög mikinn fjölda fjölskyldna sem verið var að greiða fyrir. Mér finnst mikilvægt að þetta liggi alveg ljóst fyrir. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á að hugsanlegt væri að fara aðrar leiðir. Hann nefndi t.d. að hægt hefði verið að klára greiðslurnar í september og í seinni ræðu sinni setti hann fram hugmyndir um að kannski hefði verið hægt að greiða inn á reikning — allt saman rétt hjá hv. þingmanni. Það sem vakti fyrir ríkisstjórninni var að byggja á reynslunni árið 2000 og grípa strax til aðgerða, ganga strax frá því að fólkið vissi að það ætti rétt á þessum ívilnunum. Það tel ég að hafi verið ákaflega mikilvægt.

Ég hef síðan í umræðunni hlustað mjög grannt eftir rökum hv. þingmanna gagnvart ákveðnum annmörkum sem þeir telja vera á lögunum. Þar er þá helst að telja þá heimild sem ráðherra er falin til þess að hækka eigin áhættu þeirra sem eiga tryggt innbú og fasteignir hjá Viðlagatryggingu Íslands gagnvart hamförum af þessu tagi.

Ég er í grundvallaratriðum sammála því viðhorfi sem hefur komið fram að ríkisstjórn sem grípur til bráðabirgðalaga verður að fara mjög gætilega í að grípa til úrræða sem ekki varða beinlínis vandamál sem stafa af atburðunum sem verið er að verjast. Ég hef því fullan skilning á því að ýmsir hv. þingmenn andmæli því að reglugerðarheimildinni sé skotið inn með þessum hætti og ég hef lýst því hér yfir að ég tel að það sé mál sem viðskiptanefnd muni skoða. Ég lýsi því yfir fyrir hönd viðskiptaráðherra að hann hefur ekkert á móti því að það verði skoðað, þá hugsanlega með breytingar í huga eða með því að gera það öðruvísi úr garði, t.d. að ráðherrann hafi ekki svona afdráttarlausa og fortakslausa heimild heldur þurfi kannski að vera þar ákvæði um einhvers konar samráð. Þetta eru hlutir sem viðskiptanefnd skoðar og gerir síðan, þegar hún hefur lokið þeirri skoðun sinni, tillögur um til þingsins.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur vísað til þess að ekki sé heimilt samkvæmt stjórnarskrá að beita lagasetningum með afturvirkum hætti eins og hér er gert. Um þetta hafa oft spunnist umræður á hinu háa Alþingi og ýmsir þingmenn — ég man eftir ræðum frá hv. þm. Pétri Blöndal, sem hér er í salnum — hafa viðrað svipaðar skoðanir af allt öðrum tilefnum.

Nú er það einfaldlega þannig að þarna urðu hamfarir sem snertu á fjórða þúsund fjölskyldna á Suðurlandi. Ríkisstjórnin vildi koma til móts við það tjón sem fjölskyldurnar höfðu beðið og þá er töluvert erfitt, en þó hugsanlega ekki útilokað, að gera það með öðrum hætti. Í þessu tilviki bárust mjög sterkar óskir og ábendingar um að eigin áhætta væri úr hófi há og mjög erfitt er að koma beinlínis til móts við óskir fólks varðandi það atriði nema beita með þessum hætti afturvirkum lögum. Ég get ekki skilið að það varði einungis setningu bráðabirgðalaga því að ég skil hv. þingmann þannig að það gildi einu hvort um er að ræða bráðabirgðalög eða aðra hefðbundna lagasetningu, hann er auðvitað að segja að það sé óheimilt þá sem endranær með þeim rökum sem hann vísar til stjórnarskrárinnar. Ég er honum ekki að öllu leyti sammála og tel að það sé réttlætanlegt í þessu tiltekna máli.

Hv. þingmaður vísaði t.d. til dæmisins frá 1994. Ég þekki það, ég var umhverfis- og skipulagsráðherra þegar það brast á, þegar snjóflóð varð í Tungudal (KHG: Skíðalyftan fór.) og skíðalyftan fór. Mig minnir að þurft hafi 90 milljónir til þess að mæta því tjóni. Það er rétt hjá hv. þingmanni að frumvarpið sem þá kom fram — líklega frá mér eða hugsanlega fjármálaráðherra, (KHG: Tryggingaráðherra.) já, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á þeim tíma — gerði ráð fyrir afturvirkni. Nefndin sem fjallaði um það kaus að leysa málið með öðrum hætti, fella það út til þess að ná samstöðu í nefndinni. Ekki voru allir algjörlega sammála því á sínum tíma. Tjóninu var síðan mætt með sérstakri greiðslu sem heimild var sótt um á fjárlögum. Það er aðferð, það var auðvelt að beita henni þar vegna þess að þar var um að ræða eitt tiltekið tilvik. Hér er um að ræða þúsundir tilvika og sum eiga eftir að koma fram og það er þess vegna sem þessi frestur er gefinn fram í tímann. Þá hefði verið miklu óhönduglegra að sækja í hvert einasta skipti um sérstaka fjárveitingu á lögum. Þetta er sjónarmið hjá hv. þingmanni en ég er því bara ekki sammála í þessu dæmi.

Hv. þingmaður vék síðan að því að ekki væri sanngjarnt gagnvart öðrum sem hafa þolað tjón áður, í fortíðinni, að breyta sjálfsáhættunni með þessum hætti. Hann vísaði til Flateyrar, hann vísaði til jarðskjálftans á Suðurlandi árið 2000. Þeim hamförum sem urðu á Suðurlandi er í þessu tilviki ekki hægt að jafna við snjóflóðin sem urðu fyrir vestan, eins og hv. þm. Jón Magnússon rakti er tjónið annars eðlis. Í snjóflóðunum er um það að ræða að þar varð í mörgum tilvikum gríðarlega mikið tjón á eignum fjölskyldna, á Suðurlandi sættu hins vegar mjög margar fjölskyldur töluverðu tjóni en það var miklu lægra þannig að sjálfsábyrgðin eða eigin áhættan beit miklu fastar. Þetta eru ein rök.

Önnur rök eru síðan þau að auðvitað er tekið mið af því hvað tíðkast á markaði. Aðstæðurnar voru öðruvísi á markaðnum 1992 en þær eru 2008 og hugsanlega eilítið öðruvísi — þó að ég hafi ekki skoðað það — en árið 2000. Tilhneigingin í samkeppni á markaðnum hefur með öðrum orðum verið sú að eigin áhætta sem tryggingafélögin nýta hefur verið að lækka. Staðan er einfaldlega þannig núna að á meðan hún er 85 þús. kr. varðandi lausaféð hjá Viðlagatryggingu er hún 10–20 þús. hjá félögunum. Þetta var mismunurinn sem menn voru að benda á. Þessi munur hefur aukist með árunum, það eru önnur rök fyrir því að fara þessa leið.

Í þriðja lagi er það svo að þó að hv. þingmaður bendi á að lítill munur sé á verðlagsvísitölu, hún hafi ekki hækkað mikið minna en byggingarvísitala og ef menn horfa á launavísitöluna sé munurinn á hinn veginn, þá er það samt sem áður svo að samkvæmt þeim tölum sem ég hef þá hefur byggingarkostnaðurinn meira en tvöfaldast á föstu verðlagi frá því að lögin voru sett 1992 til júní sl. Ég dreg það mjög í efa að sama þróun hafi verið á því sem við getum kallað verðlag á innbúi. Það er hugsanlegt að ef við hefðum vísitölu fyrir það mundi hún vera nær verðlagsvísitölu, ég er bara ekki viss um það. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé fyllilega réttlætanlegt að nýta ekki lengur þessa viðmiðun við byggingarvísitölu. Vísitölu byggingarkostnaðar er ætlað að sýna breytingar á kostnaði við byggingu á einni tiltekinni tegund íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Hún er vísitala kostnaðaraðfanga sem byggist á því að verðleggja aðföng, bæði vinnu og efni sem þarf til að byggja fjölbýlishús. Ég veit ekki hvort rétt er að beita þeirri viðmiðun við að meta hver á að vera lágmarksupphæð sjálfsábyrgðar í húsum sem ekki eru fjölbýlishús á Suðurlandi, þannig að mér finnast það líka vera viðbótarrök. Ég tel ekki að þessi tegund vísitölu sé heppileg til þess að bæta samkvæmt lögum um viðlagatryggingu tjón sem verður á lausafé. Þetta eru kannski fjórðu rökin í þessu. Svo getur hv. þingmaður auðvitað ráðið því hvort hann tekur eitthvert mark á því.

Hv. þingmaður vísaði hér til stallsystur minnar fornrar á þingi og hans, Margrétar Frímannsdóttur, sem var framsögumaður fyrir stjórnarskrárbreytingunum 1991. Ég var á þingi þá og hv. þingmaður líka ef ég man rétt, ég held að við höfum þá báðir verið að koma inn sem fullgildir fýrar á þessi mið. Margrét Frímannsdóttir tók það skýrt fram í framsögu sinni þá að þrátt fyrir hinar þrengri heimildir sem sú breyting fól í sér væri þó heimilt í sérstökum neyðartilvikum að grípa til þessa úrræðis. Hv. þingmaður las þetta sjálfur upp. Þó að minni mitt sé ágætt þá mundi ég þetta ekki orðrétt en ég greip þetta úr ræðu hv. þingmanns. Sú ágæta þingkona sem hv. þingmaður vísar til um stuðning við sín rök hélt þessu þó opnu, sérstökum neyðartilvikum, og ég tel að hægt sé að fella þetta undir það. Ég fellst því ekki alveg á þessa tegund raka hjá hv. þingmanni.

Þetta, frú forseti, er meginefni þess sem menn hafa rætt hér í dag. Hv. þm. Jón Bjarnason bað mig líka að fara yfir stöðuna og hvernig til hefði tekist. Nú er hann ekki í salnum þannig að ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það. Almennt vil ég þó segja þetta: Ég held að það sé útbreidd skoðun að ákaflega vel hafi tekist til við að greiða úr þeim vandamálum sem upp komu vegna jarðskjálftanna nú í júní. Ástæðan er sú að menn fóru mjög vandlega yfir viðbrögðin árið 2000. Þá riðu líka yfir skjálftar, ekki jafnstórir, tveir skjálftar, og menn lærðu vel af þeim. Ég verð að segja það eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson og fleiri að ég dáist að skipulagi Almannavarna, hvernig þær tóku á þessu máli, bæði fyrstu dagana eftir að jarðskjálftinn reið yfir en líka þegar leið fram á sumarið.

Eitt af því sem menn tóku upp á grundvelli reynslunnar frá árinu 2000 var að starfrækja tímabundna þjónustumiðstöð og sú ákvörðun byggðist á heimild í lögum um almannavarnir. Eins og menn muna var það einn af kollegum okkar sem var fenginn til þess að veita henni forstöðu, Ólafur Örn Haraldsson, og hann hefur gert það með stökum sóma. Það hefur verið snar þáttur af verkefnum þjónustumiðstöðvarinnar að greiða úr vanda einstaklinga og fjölskyldna og vísa þeim áfram í kerfinu og helst leysa ákveðin mál. Þetta tryggði það, sem var mikilvæg reynsla frá árinu 2000, að íbúar sem lent höfðu í þessum hremmingum þyrftu ekki að sækja á marga staði til þess að fá úrlausn sinna mála. Þetta er eitt af því sem menn lærðu og hafa gert óskaplega vel.

Ég vil að lokum, frú forseti, þakka fyrir þessa umræðu. Ég vona að menn skoði þetta vel og rækilega í nefnd og veiti málinu skjótt brautargengi.



[14:05]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um það atriði sem ég spyr hvað mest um, rökstuðninginn fyrir því að breyta sjálfsábyrgðinni í lágum tjónum, þá eru rökin í frumvarpinu þau að hækkunin á vísitölu byggingarkostnaðar hafi verið óeðlilega há og því þurfi að breyta til að tjónþolar fái sanngjarnar bætur. Nú er staðreyndin sú að ef sjálfsábyrgðin hefði hækkað miðað við vísitölu launa en ekki byggingarkostnað væri sjálfsábyrgðin ekki 85 þúsund heldur 105 þúsund, þá væri hún 20 þús. kr. hærri. Ef sjálfsábyrgðin hefði fylgt neysluverðsvísitölu væri hún 75 þúsund en ekki 85 þúsund. Ef menn breyta viðmiðuninni mundi hún lækka í öðru tilvikinu um 10 þúsund en hækka í hinu tilvikinu um 20 þúsund. Ég get ekki fallist á að það sé rökstuðningur fyrir því sem fullyrt er sem ástæða fyrir málinu í bráðabirgðalögunum og það er enn síður rökstuðningur fyrir því ef það eru rökin að byggingarvísitala hafi hækkað meira en t.d. neysluverðsvísitala. Hvernig stendur á því að sjálfsábyrgðin fer þá ekki niður í 75 þúsund heldur niður í 20 þúsund og er þá orðin innan við einn fjórði af því sem sjálfsábyrgðin var í tjónunum á Suðurlandi árið 2000? Menn þurfa auðvitað að fá svör við því. Voru menn svona miklu betur í stakk búnir til að bera tjónið árið 2000 en árið 2008? Menn verða að gæta að þessu í lagasetningu. Mér finnst það ekki rök fyrir því að lækka sjálfsábyrgðina vegna þess að það reyni á hana þegar tjónin eru lág og hafa tjón tjónþolans óbreytt þegar tjónið er mikið, því að það er áfram 5%. Er ekki frekar ástæða til að ívilna þá tjónþolunum (Forseti hringir.) í miklu tjóni en í litlu tjóni?



[14:08]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar jarðskjálftinn reið yfir árið 2000 komu einmitt upp raddir um að sjálfsábyrgðin væri of há. Það var rætt þá og það var þess vegna sem þær raddir komu samstundis upp, svo að segja bara daginn eftir að jarðskjálftinn reið yfir þann 29. maí. Eins og ég hef sagt í ræðum mínum í dag byggja menn á þeirri reynslu sem varð til þá og þetta var eitt af því sem kom til umræðu þá. Hugsanlega hefðu menn átt að grípa þá þegar til þess ráðs — ég þori varla að segja það — að veita einhvers konar heimild til ráðherra inn í lögin til að breyta því. Það var ekki gert. Menn gerðu það núna með þessum hætti.

Ef hv. þingmaður skrúfar nú aðeins til baka fram í daginn og rifjar upp ræðu mína fyrir framsögunni þá lagði ég enga sérstaka áherslu á þróun byggingarvísitölunnar. Það sem ég lagði áherslu á var að sjálfsábyrgðin væri allt of há í samanburði við þá sjálfsábyrgð sem er í sams konar tjónum hjá þeim félögum sem starfa á tryggingamarkaði. Sú upphæð hefur lækkað með árunum, hugsanlega vegna innbyrðis samkeppni þeirra. Þar er munurinn. Sjáið til, frú forseti, þessi félög hafa sjálfsábyrgð upp á 10–20 þús. kr. Sjálfsábyrgðin, þegar hún er uppreiknuð miðað við 1. apríl, samkvæmt lögunum um Viðlagatryggingu Íslands er 85 þúsund. Munurinn er því frá því að vera fjórfaldur upp í það að vera rösklega áttfaldur. Það er það sem ég átti við í framsögu minni að væri óhóflegur munur eins og ég hef orðað það. Þetta var ekki sísta röksemdin sem gerði það að verkum að ríkisstjórnin small til eindrægni og samstöðu um þetta mál á sínum tíma.

Ég ítreka það að bráðabirgðalög orka alltaf tvímælis, ég tek undir það, en í þessu tilviki er ég algjörlega sannfærður um að þarna voru menn innan valdheimilda.



[14:10]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Reynslan af tjónunum árið 2000 var sú að það hefur ekki verið lögð til breyting á þessu ákvæði af hálfu viðskiptaráðherra. Það er niðurstaðan. Ef talið hefði verið ósanngjarnt hversu há sjálfsábyrgðin var hefðu verið lagðar til breytingar á því. Auðvitað geta menn haft þau sjónarmið og komið með frumvarp um breytingar á því og við skoðum það efnislega. Það sem ég gagnrýni er að menn breyta þessum þætti málsins skyndilega eftir á, menn breyta tryggingaskilmálum eftir á. Viðlagatryggingasjóður er bara sjóður, hann hefur iðgjöld og hann hefur útgjöld. Ef menn breyta útgjöldunum verða menn líka að breyta iðgjöldunum, það er ekki hægt að gera bara annað en ekki hitt. Og þá breyta menn líka þannig að breytingin komi jafnt við alla sem í hlut eiga en senda ekki misvísandi skilaboð á tjónþola eftir því hvort þeir urðu fyrir tjóni árið 2000 eða 2008. Menn verða að hafa eitthvert samræmi í hlutunum.

Mér finnst það ekki rök í málinu að segja að það sé ástæða til að lækka það sem hver ber vegna þess að þeir séu svo margir sem hafi orðið fyrir smáu tjóni, það eru ekki rökin. Það finnst mér ekki hægt að festa hönd á sem rökstuðning fyrir breytingum. Árið 2000 voru yfir tvö þúsund tjónastaðir og greiddir yfir 2,6 milljarðar í tjónabætur. Það vantar enn þá rökstuðninginn fyrir því að breyta þessu og jafnvel þótt almennu tryggingafélögin hafi breytt skilmálum sínum þá bendi ég á það sem kom fram í máli hv. þm. Kjartans Ólafssonar að menn verða líka að gæta að því að taka ekki fyrir allan hvata einstaklinga til að tryggja sig sjálfir og reiða sig bara á opinbera forsjá.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til viðskn.